30.4.2010 | 22:43
Hvað næst? Kirkjurnar?
Atburðirnir í dómssalnum í dag eru hryggilegir og lítt skiljanlegir. Sagt er að menn hafi neitað að sitja að skipun lögreglu.
Dómssalir og kirkjur hafa hingað til verið friðhelgir staðir. Það kemur oft fyrir að margt fólk er við messu og í þessu tilfelli voru eitthvað fleiri í dómssal en gátu setið. Allt fór fram með friði og spekt að því er vitni bera. Þá ryðst lögregla inn og skipar tveimur mönnum, sem standa, að sitja.
Sjáið þið fyrir ykkur að rétt áður en fjölmenn messa hefjist ryðjist lögregla inn og skipi öllum að sitja, ellegar skuli þeir fjarlægðir með valdi?
Ég verð bara að segja að maður er kjaftstopp við að heyra þetta.
Lögreglan hafði áunnið sér ákveðna virðingu fyrir það hvernig hún stóðst álagið þegar búsáhaldabyltingin stóð sem hæst en nú er manni brugðið við að heyra þessi tíðindi.
Þetta kallar á rannsókn, því að þetta má ekki gerast.
Ég hef áður andmælt því að mótmælendur virði ekki friðhelgi heimila þeirra sem þeir telja sig eiga sitthvað vantalað við.
Friðhelgi kirkna, dómsala og heimila á að virða. Annað er ekki sæmandi.
![]() |
Þinghald undir lögreglustjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
30.4.2010 | 20:18
Dofin þjóð.
Það mun víst vera svo að aldrei hafi jafn lítill hluti kjósenda viljað taka afstöðu til framboða í byggðakosningum og nú. Kosningabaráttan fyrir kosningarnar hefur verið óvenju dauf, ekki aðeins vegna þess að úr miklu minni peningum sé að spila nú en áður, heldur vegna þess í ljósi hinna tryllingslegu upphæða og stærða, sem við blasa í hruninu og eftirleik þess, verður fólk einfaldlega dofið.
Þetta er raunar þekkt í fréttum. Enginn frétt er stærri en hinar fréttirnar leyfa. Frétt sem hefði verið fyrsta frétt í hitteðfyrra kemst ekki á blað núna.
Í upphafi mótmælafundanna haustið 2008 spáði Andri Snær Magnason því í ræðu að eftir gríðarlega reiðibylgju og dæmalausan óróa í samfélaginu myndi fólk sennilega verða dofið, - doðinn myndi leggjast yfir það.
Í fréttum af málefnum einstaklinga er dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð að ræða tugi þúsunda milljóna króna og jafnvel margfalt meira en það og þessi ósköp eru svo stór í sniðum að flestir verða hreinlega dofnir og ónæmir fyrir málefnum, sem áður vöktu bæði áhuga, bæði á því að kynna sér þau eða taka afstöðu til þeirra.
Þegar við bætist að ótrúlega háar upphæðir hafa verið í umferð í styrkjum til einstakra stjórnmálamanna og það í kjölfar þess áfellisdóms yfir stjórnvöldum, sem skýrslan mikla hefur opinberað, þarf engan að undra þótt það lýsi sér á þann hátt sem nú birtist í minni áhuga en nokkru sinni fyrr.
Í ljósi þess er eðlilegt að framboð, sem engir fyrrverandi stjórnmálamenn standa fyrir, fái hljómgrunn hjá þeim fáu sem á annað borð eru tilbúnir að taka afstöðu til þess hverjir eigi að sitja í borgarstjórn Reykjavík.
Ekki má gleyma þeim ósköpum sem dundu yfir í borgarstjórnarmálum frá haustinu 2007 og færði Reykvíkingum fjóra borgarstjóra á mettíma.
Þótt oft sé talað um gullfiskaminni kjósenda má ekki gleyma því, að borgarstjórnaróróanum hafði varla slotað þegar enn stærri órói á pólitíska sviðinu dundi yfir, sá stærsti í áratugi.
Segja má að frá haustdögum 2007 hafi stjórnmál og stjórnmálamenn á Íslandi lent í meiri vandræðum og orðið fyrir meiri áföllum sem hafa bitnað á trausti kjósenda til þerra en dæmi eru um.
Meira að segja nýja framboðið, sem fékk talsverðan hljómgrunn í síðustu kosningum, klofnaði fljótar og lenti í innbyrðis deilum margfalt fjótar en dæmi eru um fyrr hjá nýju afli á þingi.
Jón Gnarr hefur lýst því yfir að framboð hans sé fram komið til að hygla frambjóðendum þess og það kæmi mér ekki á óvart að jafnvel þótt hann myndi líka lýsa því yfir að þetta nýja framboð muni vinna að því að alefli að sundra sér eftir kosningar og hver að skara eld að eigin köku, myndu hinir dofnu kjósendur segja það í skoðanankönnun að það sé bara alveg eins gott að kjósa svona framboð því að það breyti svo sem engu.
Þetta ástand er sannarlega umhugsunarefni fyrir þá sem vilja að stjórnmálin rétti úr kútnum.
![]() |
Besti flokkurinn fengi fjóra kjörna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
30.4.2010 | 09:35
Einstætt og verðmætt gos.
Ég veit ekki hvort við Íslendingar gerum okkur grein fyrir því í öllu svartagallsrausinu yfir gosinu í Eyjafjallajökli hve merkilegt þetta gos er og hve mikils virði það getur orðið fyrir landið í framtíðinni.
Ekkert íslenskt eldgos hefur orðið jafn mikið fréttaefni eða haft meiri áhrif erlendis, allt síðan í Móðuharðindunum 1783.
Eldgosið verður undir jökli, en slíkt samspil elds og íss á sér enga hliðstæðu í heiminum.
Frá gosinu kemur jökulhlaup sem leiðir hugann að hundrað sinnum stærri hamfarahlaupum, sem verða á Íslandi í stærstu eldgosunum undir jöklum.
Hraunið rennur nú í íshellid undir Gígjökli og komist það alla leið út undir bert loft undir jökulsporðinn hefur slíkt ekki gerst áður í veröldinni.
Á undan þessu gos varð "túristagos" í utanverðri eldstöðinni sem skóp mestu hraunfossa, sem vitað er um að hafi runnið og tekist hefur að ná myndum af.
Að öllu samanlögðu á þetta eldgos og eldgosalandið Ísland engan keppinaut í heiminum sem ferðamannaland er bjóði upp á sköpun og eyðingu almættisins sem hvergi annars staðar er hægt að upplifa, "The Greatest Show on Earth".
Gosið þetta, þótt lítið sé, hefur komið Íslandi og eðli landsins á betur á kortið erlendis en nokkur annar viðburður, sem hér hefur gerst.
Hvernig væri nú að hætta að gráta yfir tímabundnum erfiðleikum og snúa sér að því að nýta sér þá nýju og einstæðu möguleika sem þetta gos hefur fært okkur upp í hendurnar?
![]() |
50 tonn af hrauni á sekúndu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
29.4.2010 | 23:58
Yndisleg frétt.
Fyrir 40 árum þegar ég var íþróttafréttamaður Sjónvarpsins kynntist ég þeim brautryðjendum í körfuknattleik í Stykkishólmi sem hafa þurft að bíða í öll þessi ár eftir því að stóri draumurinn rættist og sumir hafa ekki lifað þennan þráða dag.
Mikið óskaplega gleður það mig því að þessi draumur hafi nú verið uppfylltur jafn glæsilega og raun ber vitni.
Þess utan er þetta þeim mun gleðilegra að körfuknattleikurinn skuli hafa náð jafn góðri fótfestu á landsbyggðinni og raun ber vitni.
Það er erfitt að finna skýringu á því en einhvern veginn virðist þessi íþrótt eiga vel við í dreifbýlinu og betur en flestar aðrar.
Sigur Snæfells nú minnir á það þegar Skagamenn komu, sáu og sigruðu í vinsælustu boltaíþróttinni, knattspyrnunni fyrir sextíu árum með gullaldarliði sínu sem hrifu jafnvel Framarann mig svo mjög að úr varð textinn "Skagamenn skoruðu mörkin".
Til hamingju, Hólmarar!
![]() |
Titillinn í Stykkishólm |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 30.4.2010 kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.4.2010 | 23:34
Jafnrétti og traust.
Gagnkynhneigðu fólki er treyst til þess að ákveða sjálft, hvort það vill láta viðurkenna það opinberlega að lögum að það ætli lifa í sambúð sem lífsförunautar og uppalendur og öðlist við það ákveðna stöðu gagnvart hvort öðru og nánasta venslafólki og börnum.
Nú er það svo að samkynhneigt fólk getur líka borið þær tilfinningar hvert til annars að það sækist eftir sams konar viðurkenningu.
Rétt eins og gagnkynhneigðum er treyst til þess að takast á hendur það samband sem nefnist hjúskapur ætti hið sama að gilda um samkynhneigða.
Hjúskapur snýst um traust, traust til þess fóllks sem vill lifa í hjúskap með þeim skyldum og réttindum sem því fylgir.
Sumir rísa ekki undir því trausti og aðrir endast ekki í sambandinu og það slitnar eins og gengur.
Það er hins vegar hluti af jafnrétti þegnanna að þeim sé jafnt treyst til að fást við þessi mál sjálfir.
Margir telja hjónaskilnaði allt of marga en ekki verður samkynhneigðum kennt um það og ætti það að vera eitt helsta verkefni trúfélaga og þeirra, sem láta sig siðbót varða, að vinna að því að betur takist til í þessu efni.
Miðað við stærð og umfang þessa vandamáls er dálítið skondið að hjúskapur samkynhneigðra skuli valda jafn miklu fjaðrafoki og raun ber vitni.
![]() |
Tóku ekki afstöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.4.2010 | 15:10
Að éta kökuna en eiga hana samt áfram.
Ofangreint máltæki virðist eiga einkar vel við okkur Íslendinga oft á tíðum.
Það nýjasta er að jafnframt því sem við höldum áfram að auglýsa Ísland sem eitt virkasta eldfjallaland heims þar sem landið er í sífelldri og stórfelldri sköpun eldvirkninnar svo að annað eins er ekki að finna á jarðríki, eigum við líka að koma í veg fyrir að það spyrjist út að hér gjósi eldfjöll.
Á sínum tíma þótti þorra Íslendinga það hin mesta óhæfa að nokkur skyldi efast um að hið glæsilega fjármálakerfi okkar væri neitt annað en pottþétt og maður getur svona rétt ímyndað sér hvað hefði gerst ef forsetinn hefði vogað sér að taka undir með þeim mönnum innlendum og erlendum, sem talir voru úrtölumenn og öfundarmenn sem þyrftu að fara í endurmenntun.
Ég skil þá gagnrýni á framsetningu hans, sem hann hafði í fyrsta viðtalinu, en ekki gagnrýnina á það sem hann sagði í viðtalinu á bandarísku sjónvarpsstöðinni, þar sem hann eydd mestöllu viðtalinu í að benda á að eldgosið hefði haft meiri áhrif á ferðir erlendis en á Íslandi og að enginn vissi nú, fremur en endranær, hvenær hvert eldfjall um sig, Katla eða önnur, gysu.
Ég sé á blogginu gagnrýni á það að vísindamenn skuli telja líklegt að næstu 60 árin verði allt að 20 eldgos á Íslandi og gagnrýni á það að sagt sé að Katla geti gosið eftir 5 ár, 15 ár, 25 ár eða enn lengri tíma.
Sagt er að spáin um fleiri eldgos á 21. öldinni en þeirri 20. sé aðeins spá og að enginn viti fyrir víst hvort nokkurt hinna spáðu eldgosa komi.
Þetta gengur ekki upp. Meginlandsflekar Ameríku og Evrópu hætta ekkert að færast frá hvor öðrum nú frekar en í milljónir ára og á meðan þetta landrek er í gangi munu verða 20-25 eldgos á hverri öld rétt eins og hefur verið svo langt sem menn geta rakið aftur í tímann.
Í áratugi hefur sá viðbúnaður við Kötlugosi sem hafður hefur verið í gangi ekki verið út í bláinn.
Menn segja að stundum hætti eldfjöll að gjósa og þess vegna gæti Katla tekið upp á að hætta alveg að gjósa.
Þá gleyma menn að hin eldfjöllin hætta því ekki og að ef Hekla eða eitthvert annað eldfjall gysi svipuðu gosi og Heklugosið var 1947, yrði stórfell röskun á flugi í Evrópu.
1947 voru hins vegar í notkun bulluhreyflar í flugvélum sem voru þar að auki hægfleygar og fáar.
Stórkostlegasta aðdráttarafl Íslands felst í hinni einstæðu náttúru og samspili elds og íss, sem á sér engan keppinaut í heiminum og gefur því frábæra möguleika á að laða hingað gríðarstóran og vaxandi markhóp ferðamanna, sem vilja upplifa þessa miklu sköpunarkrafta.
Það er ekki bæði haft að hafa þá og auglýsa í öðru orðinu og afneita þeim í hinu orðinu. Með réttum og tæmandi upplýsingum er hægt að sýna fram á að það er nákvæmlega ekkert varasamara að ferðast til Íslands núna en alltaf hefur verið og jafnvel öruggara að komast leiðar sinnar hér en í sunnanverðri Evrópu eins og nýjasta dæmi hefur sannað.
Mjög margir telja að hægt sé að virkja allar orkulindir Íslands og um leið að viðhalda helsta aðdráttarafli landsins sem er ósnortin og sívirk náttúra. Bæði éta kökuna og eiga hana áfram.
Þeir halda því fram að virkjanir fari vel inni á friðuðum svæðum og hægt sé að auglýsa Dettifoss sem aflmesta foss Evrópu eftir að hann hefur verið virkjaður svo að afl hans verði aðeins hluti þess sem það var.
Áráttan til afneitunar og þöggunar virðist síst hafa minnkað við hrunið heldur hafa færst inn á ný svið.
![]() |
Forsetinn sniðgekk tilmæli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.4.2010 | 23:21
Réði Eyjafjallajökull úrslitum?
Ofangreind spurning er að vísu sett fram án þess að hægt sé að svara henni. Þó er ljóst að herslumuninn vantaði fyrir Barcelona að komast áfram því að ef úrslitin á ítalíu hefðu verið 2:1 en ekki 3:1 hefði Barcelona komist áfram á markinu, sem skorað var á útivelli.
Þegar íþróttamenn eru komnir í hæsta gæðaflokk skipta hundruðustu hlutar úr sekúndu og ótal smáatriði skipta miklu máli þegar munur hinna bestu er lítill.
Það er talsverður munur á því að hólkast 1000 kílómetra í rútu eða fljúga í einn og hálfan tíma.
Eyjafjallajökull sá fyrir því að þetta gerðist þegar leikmenn Börsunga fóru til Ítalíu. Oft veltur lítil þúfa þungu hlassi, segir máltækið. Eyjafjallajökull er að vísu 1666 metra hár en engu að síður í á þriðja þúsund kílómetra fjarlægð frá flugleiðinni milli Spánar og Ítalíu.
![]() |
Inter sló Evrópumeistarana úr leik |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.4.2010 | 12:33
Dýrt en brýnt að mæla öskuna hér.
Nú er sagt frá því í hádegisfréttum útvarpsins að fá eigi sérbúna flugvél frá Evrópu til landsins til þess að gera sjálfstæðar mælingar á öskumagni sem berst um Ísland frá gosinu í Eyjafjallajökli.
Þetta er að vísu afar dýrt og mun kostnaður hugsanlega verða talinn í tugum milljóna króna.
En miðað við þær fjárhæðir sem í húfi eru, bæði nú og í gosum síðar, er þetta nauðsynlegt og getur hugsanlega sparað hundruð milljóna ef ekki marga milljarða króna.
Ég bloggaði um þetta fyrir nokkrum dögum og fagna því að þetta verði gert og þótt fyrr hefði verið.
![]() |
Vona að Reykjavík opnist |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.4.2010 | 22:12
Einkennilegt óþol.
Ég er meðmæltur því að á bestu umferðaræðum landsins eins og tvöfaldri Reykjanesbraut með vegriði á milli gagnstæðra akbrauta verði umferðarhraði hækkaður í 100 km/klst eða jafnvel 110 km/klst.
Slíkur hámarkshraði við góðar aðstæður er leyfður á hliðstæðum vegum í nágrannalöndunum og ef ökuleiðirnar eru langar munar um tímasparnaðinn og þessar umferðaræðar afkasta meiri umferð.
Ég sá á bloggi um það að meirihluti ökumanna aki of hratt um 30km götur og allt uppí meira en tvöfaldan hraða að bloggurnum fannst það í góðu lagi að fara vel yfir hámarkshraðann, sem sé alltof lágur.
Einnig er bloggað um það að sumar af þessum götum hafi áður fyrr verið aðalbrautir með miklum hraða og að þess vegna sé eðlilegt að ökumenn fari þar geyst.
Einn bloggar um það að þessar götur anni ekki umferðinni um þær, nema ekið sé hraðar.
Sjálfur bý ég við Háaleitisbraut sem var ein af helstu og hröðustu umferðargötum borgarinnar og ekið var um hana á meira en 50 km hraða, oftast mun hraðar en það.
Eftir áralanga slysaröð á þessari götu, allt upp í dauðaslys, var henni breytt. Nú er hún þröng og krókótt 30km gata og slysin hafa horfið.
Ég sakna ekki gamla streituhraðans á Háaleitisbraut, sem ég þarf þó að aka daglega og gæti grætt einhverjar sekúndur á að aka hraðar.
Ég hef ekki séð að umferðartafir eða teppur séu á götunni og hef heldur ekki orðið var við að um slíkt sé að ræða á svipuðum götum.
Vegalengdin, sem mönnum er skylt að aka á 30km hraða, er það stutt, að erfitt er að sjá hverju einhverjar sekúndur skipti fyrir ökumenn.
Það er alveg nóg af óþoli og streitu í þjóðfélaginu og nóg líkamstjón sem af hlýst.
![]() |
Meirihluti ók of hratt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.4.2010 | 10:03
Dýrkeyptar staðreyndir.
Ég var að hlusta á 9 mínútna viðtal við forseta Íslands á CNBC sjónvarpsstöðinni amerísku. Nær allt viðtalið notar hann til að draga það fram sem best má verða varðandi íslensku þjóðina og sambúð hennar við náttúruöflin.
Forsetinn segir frá því að hingað til hafi eldgosið haft minni áhrif á flug Íslendinga en Evrópuþjóða og að eldgosið og einstætt sjónarspil sköpunar jarðarinnar, sem sagt sé frá í Biblíunni, geti orðið aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn.
Hann greinir frá hagstæðu gengi sem sé ferðamönnum og útflutningsatvinnuvegum í hag og því tilvalið að koma til Íslands til einstakrar upplifunar.
Forsetinn greinir frá því að þetta sé fyrsta íslenska eldgosið í 60 ár sem trufli flugsamgöngur. Hann lýsir þeirri óvissu sem er um það hvenær stórt gos geti orðið hér sem geti falist í því að það verði fljótlega, eða eftir 5, 10, 15 eða jafnvell fleiri ár.
Þetta telja menn nú vera dýrkeypt að hann skuli segja.
Forsetinn rekur þetta í kjölfar þeirrar spurningar í upphafi viðtalsins, hvort annað gos og stærra geti dunið á í kjölfar þessa. Hann segir frá því að Íslendingar hafi búið sig undir Kötlugos áratugum saman og að erlendis þurfi menn að grípa til ráða til að bregðast við.
Svo er að sjá á viðbrögðum hér heima við þessu að þetta hafi hann alls ekki mátt segja, heldur steinhalda kjafti yfir því. Fyrirsögnin er: "Dýrkeypt yfirlýsing forsetans."
Það er hægt að fallast á það að í upplýsingagjöf vegna þessa máls ætti að bæta við þeim staðreyndum að þetta sé hið eina af 23 gosum frá 1960 sem hafi valdið truflunum á flugumferð og að askan úr Eyjafjallajökli sé miklu léttari og fari hærra og víðar en oftast er í íslenskum eldgosum. Sum Kötlugos séu minni en önnur.
Á hinn bóginn sé ég ekki betur en að hér sé uppi staðfastur vilji hjá mörgum til þess að fela staðreyndir rétt eins og gert var í aðdraganda hrunsins.
Jarðvísindamenn spá allt að 20 eldgosum á Íslandi næstu 60 árin. Meðal þeirra geta orðið gos sem verða margfalt stærri en gosið nú. Það eru dýrkeyptar staðreyndir sem við verðum að horfast í augu við.
Nema að við viljum að sá tími komi að við verðum jafn gersamlega óviðbúin því og við vorum óviðbúin hruninu af því að við vildum ekki horfast í augu við "dýrkeyptar" staðreyndir.
![]() |
Dýrkeypt yfirlýsing forsetans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (41)