Þótt fyrr hefði verið.

Ég hef áður lýst því hér í blogginu hvernig Ólafshöllin í Þrándheimi, margfalt ódýrara tónlistarhús en okkar hús, nýtist fullkomlega fyrir hvers kyns tónlistarflutning, jafnt óperur sem annað.

Þess vegna getur það ekki verið eðlilegt sem stefnt hefur verið að, að tónlistarhúsið í Reykjavík sé hannað þannig að það nýtist ekki á þennan hátt.

Ef menn finna leið hér í Reykjavík til að nálgast frændur okkar Norðmenn í þessu efni, þá var tími til kominn og þótt fyrr hefði verið.


mbl.is Í athugun að óperan nýti tónlistarhúsið meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalkunnugt fyrirbæri.

Hver þingmaður á Íslandi hefur 1,57% atkvæða á bak við sig. Þó ekki ef framboð fær minna en 5% fylgis. Þá getur fylgi, sem annars gæfi 2-3 þingmenn, orðið ónýtt. Þetta, ásamt fleiri hamlandi atriðum, veldur því að óhemju erfitt er að koma að einhverri endurnýjun í íslenskum stjórnmálum nema í gegnum stærstu flokkana.

L-listinn hefur haft fylgi í skoðaakönnunum sem hefur verið nálægt sem svarar einu þingsæti. En þetta er svo langt frá því sem þarf, að aðstandendur listans hafa tekið þá óhjákvæmilegu ákvörðun að hætta við.

Borgarahreyfingin hefur haft sem svarar tveggja þingmanna fylgi en líka verið fjarri því að komast yfir þröskuldinn.

Íslandshreyfingin mældist með allt að 4% fylgi eða yfir fylginu í kosningunum 2007 en tók þá rökréttu ákvörðun um daginn, þegar það virtist stefna í fjögur lítil framboð, að draga sig til baka. Flest Íslandshreyfingarfólkið gekk í Samfylkinguna um leið og hreyfingin varð að og tókst að hafa umtalsverð áhrif á þá stefnu, sem samþykkt var á landsfundinum.

2007 var því hafnað að Íslandshreyfingin fengi að taka þátt í almennum kosningaumræðum í ljósvakamiðlum nema það byði fram í öllum kjördæmum og það var ærið verk að setja saman og raða fólki á framboðslista með 132 frambjóðendum og safna um tvö þúsund meðmælendum á þeim tveimur vikum sem liðu frá stofnun flokksins til fyrstu umræðna, sem hann fékk að taka þátt í.

Annað gamalkunnugt fyrirbæri dúkkar nú upp, sem sé það að stóru flokkarnir fái stefnumál nýrra framboða lánuð.

Þrír af fjórflokkunum tóku aðalmál Þjóðvarnarflokksins að láni 1956 og drógu þar með úr honum tennurnar, en á móti má segja að hann hafi náð óbeinum árangri.

Veturinn 2006-2007 tók Samfylkingin upp "Fagra Ísland" sem síðan kom þó fyrir lítið að öðru leyti en því að taka fylgi frá þeim tveimur flokkum sem kenndu sig við græna stefnu.

Eftir þær kosningar kom í ljós að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gerði stóriðjustefnuna að úrslitaatriði í gegnum Sjálfstæðisflokkinn og síðar í gegnum Framsóknarflokkinn í núverandi stjórn.


mbl.is Hættir við þingframboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamla sagan: Hver lak ?

Hve oft hefur það ekki gerst að þegar blaðamenn eða menn eins og "litli Landssímamaðurinn" hafa komist á snoðir um óþægilega hluti eða upplýst stórmál, að þá hafi málið strax farið að snúast um það "hver lak?" vitneskjunni og hvernig varð uppvís um málið í stað þess að málið sjálft sé aðalatriðið?

Undanfarnar vikur hefur þjóðin orðið vitni að því hvernig misfarið hefur verið með stjarnfræðilega háar upphæðir fjár án þess að nokkuð saknæmt virðist hafa átt sér stað.

Á sama tíma eru hassræktendur nappaðir hver af öðrum og skinkuþjófur fær refsidóm.

20 milljóna króna sekt sem blaðamönnum er nú hótað eru mikllir peningar fyrir venjulegt fólk en mennirnir, sem blaðamennirnir fjalla um hafa verið að leika sér með þúsund sinnum stærri upphæðir eins og ekkert sé.

Á sama tíma og Eva Joly bendir á hver æpandi skortur sá á fólki til að rannsaka hinar efnahagslegu hamfarir virðist Fjármálaeftirlitið telja sig ekkert þarfara hafa að gera en hundelta blaðamenn sem hafa tekið að sér þjóðþrifaverk.


mbl.is Viðskiptaráðherra vill blaðamenn úr snörunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýndarveruleiki Sjálfstæðisþingmanna.

Í allan vetur hefur kraumað óánægja um alla kima þjóðfélagsins vegna þess ástands sem samfelld stjórnarseta Sjálfstæðisflokksins í átján ár samfleytt átti mestan þátt í að skapa. Krafan um uppgjör á öllum sviðum hefur brotist fram í búsáhaldabyltingunni sem hefur bæði beinst að því að skipta um lið inni á leikvellinum, í flokkunum og stjórnkerfinu, og breyta leikreglunum.

Hið síðastnefnda hefur verið samofið öðru eftir að þingmönnum hefur mistekist í 65 ár að gefa þjóðinni stjórnarskrá sem stæðist kröfur nútímans.

Ráðamenn Sjálfstæðisflokksins virðast hins vegar hafa búið sér til eigin heim, byggðan á sama sýndarveruleikanum og "gróðærið" mikla var byggðt á.

Þeir afgreiddu á "glæsilegum" landsfundi þá niðurstöðu að ekkert væri athugavert við stefnuna, reglurnar eða lögin.

Þeir bjuggust við því að með landsfundinum kæmi fylgisaukning eins og eftir landsfundinn fyrir tveimur árum, en í staðinn dalar fylgið, sem er einstakt. Nú er það 24,5% en var yfir 40% á sama tímapunkti fyrir tveimur árum.

En skilaboðin frá kjósendum sem í þessu felast virðast ekki ná í gegn. Þvert á móti telja Sjálfstæðisþingmennirnir greinilega að engu þurfi að breyta varðandi stjórnarfarið nema einni skitiinni lagagrein. Öllum öðrum hugmyndum um lýðræðisumbætur skuli kastað. Ef það verði ekki gert, megi aðgerðir til bjargar heimilum og fyrirtækjum bara bíða áfram.

Þeir mega ekki til þess hugsa að valdið sé fært nær fólkinu heldur skuli málþóf og þvingaðir notaðar á þinginu til að koma í veg fyrir þingviljann, sem speglar viðhorf minnst 76% þjóðarinnar ef marka má fylgi annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn lifir enn í þeim heimi sem lengi hefur verið íslenskur veruleiki þar sem þessi mikla "fjöldahreyfing", sjálfur Flokkurinn með stórum staf, er ómissandi í lykilaðstöðu sem allir verði að lúta áfram líkt og verið hefur.

Hve langur tími þarf að líða þar til þjóðinni tekst að koma þessum firrta Flokki í skilning um þann veruleika sem hann getur ekki horfst í augu við?


mbl.is 26 sjálfstæðismenn á mælendaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hluti af stærra dæmi.

Eitt af þeim ráðum sem menn vilja grípa til í kreppu er að nota þann tíma til að auka menntun þjóðfélagsþegnanna svo að samfélagið hagnist á því þegar aftur rofar til.

Það getur ekki verið þjóðfélagslega hagkvæmt að þúsundir námsmanna hafi enga vinnu í allt sumar og ekki sanngjarnt að það eigi þar að auki engan rétt á atvinnuleysisbótum.

Fyrst sameiginlegir sjóðir landsmanna hagnast á því að borga engar atvinnuleysisbætur er það ekki ósanngjarnt að eitthvað af því fjármagni fari til að lengja kennslutímann og stuðla þannig að því að heildarnámstíminn styttist og námsmennirnir komi fyrr og betur út í atvinnulífið að námi loknu en annars hefði orðið.


mbl.is Enn óvíst um sumarönn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er svona vanhugsað við persónukjör?

Sjálfstæðismenn tala um vanhugsaðar breytingar á stjórnarskrá og kosningalögum. Persónukjör í kosningum er þó fyrirkomulag sem hefur gefið góða raun í nágrannalöndum okkar. Í tillögum um persónukjör núna kveður á um eins litla breytingu og hugsast getur, - einungis það að framboðum sé heimilt að bjóða fram óraðaða lista ef þeir kjósa svo.

Það er enginn að fara fram á að Sjálfstæðisflokkurinn breyti neinu í sínu framboði heldur aðeins að hann láti af þeirri sovésku forræðishyggju og afskiptasemi sem felst í því það meina öðrum framboðum að nota þrautreynda og einfalda aðferð sem talin hefur verið auka á lýðræði og sjálfstæði einstaklinga erlendis.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur þegar afrekað það að fá því framgengt að sjálfbær þróun sé ekki nefnd í stjórnarskrá og vjll ekki að með því sé varinn réttur óborinna milljóna Íslendinga. Slík ákvæði þykja sjálfsögð í stjórnarskrám erlendis og hafa gefist vel þar en Sjálfstæðisflokkurinn má ekki til svo "vanhugsaðra" lagabóta.

Sjálfstæðismenn tala mikið um nauðsyn samstöðu og sáttar um svona breytingar. Það er ágætt takmark í sjálfu sér en þeir hafa með málflutningi sínum sýnt að í þeirra augum snýst slíkt aðeins um það að þeir hafi úrslitavald um smátt og stórt í því efni og geti verið eins hreinræktað íhald og afturhald og hugsast getur.

Nauðsynlegustu og þörfustu stjórnarskrárbreytingar liðinnar aldar voru 1934, 1942 og 1959, einkum sú síðasta sem lagði grundvöll að bestu ríkisstjórn aldarinnar, Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Sjálfstæðismenn stóðu að öllum þessum breytingum í harðri andstöðu við Framsóknarflokkinn.

Sjálfstæðismenn völdu Framsóknarmönnum öll hin verstu orð í þessum orrahríðum. Fróðlegt væri að rifja þau upp og sjá við hvern þau eiga nú.


mbl.is Skylda að koma í veg fyrir vanhugsaðar breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brekkusöngur á Alþingi.

Mér sýnist ljóst eftir umræður um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Alþingi í kvöld að það þarf ekki að vera leiðinlegt fyrir þingmenn að vera þar alveg fram á kjördag.

Árni Johnsen kom nefnilega stemningu í partíið nú rétt í þessu með því að upphefja hálfgerðan brekkusöng í ræðustóli þegar hann söng af gefnu tilefni og sem rök í málinu hástöfum "Laugardagskvöldið á Gili." Verst var að hann skyldi ekki hafa gítarinn með sér í pontuna en kannski gerir hann það seinna.

Ég veit ekki hvort fyrr hefur verið sungið úr ræðustóli Alþingis og væri gaman ef einhver gæti upplýst mig um það.

Ef Árna tekst að ná þarna upp stemningu með gítarspili og söng gæti svo farið að þingmenn þyrftu að vara sig á því að gleyma ekki kosningunum þegar þar að kemur.

Ég vil taka það skýrt fram að þessi frásögn mín er ekki aprílgabb, enda dagurinn í þann mund að heyra fortíðinni til. Að þessari skemmtilegu uppákomu eru áreiðanlega einhver vitni sem voru með opið fyrir sjónvarp frá þinginu þegar þetta gerðist.


Skemmtileg samtök.

Ég er ekki félagi í mörgum samtökum en er svo heppinn að hafa verið félagi í nokkrum sem hafa verið sérlega skemmtileg. Má þar nefna Hrekkjalómafélagið í Vestmannaeyjum og Sniglana sem dæmi.

Ég var ástríðuhjólreiðamaður á sínum tíma en hljóp yfir vélhjólastigið og fékk mér vélhjól með vængjum, eins manns vélknúið fis með tvígengisvél af gerðinni Challenger, sem fékk nafnið "Skaftið" og varð uppistaðan í bókinni "Fólk og firnindi," með undirtitlinum "Stiklað á Skaftinu".

Margir af Sniglunum, sem ég þekki, hafa skemmtileg uppnefni og má þar nefna þá Hjört líklegan og Steina Tótu.

Þess má geta sem dæmi um skemmtilega nýyrðasmíði Sniglanna að mig minnir að hjól á borð við það, sem sést á myndinni með frétt mbl.is af 25 ára afmælinu, - svona hjól séu kölluð "aparólur."

Einhvern tíma gerði ég lag og texta með heitinu "Með hraða snigilsins" sem fór inn á einn af diskunum sem Sniglarnir gáfu út. Hef nú gleymt bæði lagi og texta. .

Steini Tótu, kallaði fis, sem hann átti, "Taufaxa". Út á tvígengis- og hjólaástríðu mína varð ég félagi í Sniglunum og er Snigill númer 200.

Þegar ég nauðlenti Skaftinu þrívegis á 15 mínútum undir Eyjafjöllum fyrir tæpum áratug, hringdi ég auðvitað í tvígengisgúrúinn Steina Tótu og fékk leiðbeiningar í málinu. Á endanum fór Skaftið inn á Byggðasafnið í Skógum og hangir þar síðan yfir höfðum safngesta.

Ég sendi Sniglunum bestu afmæliskveðjur og er stoltur og ánægður að fá að vera í Bifhjólasamtökum lýðveldisins.


mbl.is Sniglarnir 25 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hetjuleg barátta.

Þótt Íslendingar hafi tapað fyrir Skotum getur landslið okkar borið höfuðið hátt. Á lokakafla leiksins voru forráðamenn skoska liðsins fölir af kvíða þegar hver sóknin af annarri dundi á skoska markinu.

Fyrra mark Skota kom eftir mistök eins varnarmanns okkar sem lærði að vísu af þeim en skaðinn var skeður. Það hefði verið gaman og alls ekki óverðskuldað að við hefðum fengið stig út úr þessum leik en svona er nú fótboltinn.


Lýðræðishalli og rányrkja lifi !

Sjálfstæðismenn gera það ekki endasleppt á þinginu. Hafa þegar komið í burtu grein um sjálfbæra þróun sem svipar til ákvæða um það efni hjá mörgum þjóðum. Andstæða sjálfbærrar þróunar er rányrkja, nokkuð sem Íslendingar hafa stundað meira og minna frá landnámstíð.

Það ætlar að reynast þrautin þyngri að vinna bug á henni.

Nú gera Sjálfstæðismenn allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir lýðræðisumbætur á stjórnarská og kosningalögum. Það er í raun undravert að flokkur, sem hefur svona stefnu skuli fá meira en fjórðung fylgis í skoðanakönnunum.


mbl.is Geta setið fram að kosningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband