Höfum við efni á að hætta að virkja?

Ofangreindri spurningu hafa Björn Ingi Hrafnsson og fleiri varpað fram og komist að þeirri niðurstöðu að við höfum ekki efni á því. Með þessu viðhorfi er boðuð hræðsla við virkjanalok svipuð dómsdagshræðslu sem ýmsir kirkjufeður fyrri alda ólu á.

Íslenskur ráðherra sagði við mig fyrir tíu árum að við yrðum að virkja stanslaust, annars kæmi kreppa og atvinnuleysi. Enn og aftur er þetta sagt.

Ég spurði ráðherrann á móti hvað myndi þá gerast þegar allt yrði virkjað og ekkert eftir. "Það verður verkefni þeirrar kynslóðar sem þá verður uppi," var svar hans. Stórmannlegt svar eða hitt þó heldur.

Sú lausn virkjanafíklanna að virkja áfram endalaust gengur ekki upp því rökrétt afleiðing þessarar stefnu er að í lokin verði allt virkjað, - líka Gullfoss og Geysir, Dettifoss, Askja, Kverkfjöll og Torfajökulssvæðið.

Þjóð sem þegar hefur virkjað fimmfalt meiri orku en hún hefur þörf á til heimabrúks á ekki að þurfa að æða áfram í takmarkalausri græðgi skammtímalausna á kostnað afkomenda sinna með því að skilja engin náttúruverðmæti eftir handa framtíðinni og valda óbætanlegum skaða á mestu verðmætum og stolti lands og þjóðar. 

Áfengis- og fíkniefnasjúklingar sjá oft engin önnur úrræði til að leysa skammtímavandamál sín en að fórna dýrgripum og munum með miklu persónulegu tilfinningagildi til að seðja fíkn sína. Í huga þeirra gildir að í hvert skipti sem þeir eru í vanda hafa þeir ekki efni á að hætta.

Svipuð hugsun ríkir hjá virkjanafíklunum sem meika það ekki að hér verði virkjanahlé.


Svipuð rök og fyrir almenningssamgöngum.

Á fundum Íslandshreyfingarinnar fyrir síðustu kosningar vörpuðum við frambjóðendurniar fram hugmyndum um að rannsaka þjóðhagslegt gildi einfaldra strandsiglinga með því að bera saman þann kostnað sem þjóðfélagið ber vegna gríðarlegs og kostnaðarsams slits, sem stórir flutningabíla valda á vegakerfiunu og bera þennan kostnað og annan kostnað vegna landflutninganna saman við kostnaðinn af strandsiglingunum.

Erfitt er að reikna dæmið, vegna þess að þeirra yfirburða sem landflutningarnir hafa yfir strandsiglingarnar hvað varðar hraðann og þann möguleika að flytja varninginn beint í hlað hjá kaupanda. Sjóflutningar geta aldrei orðið nema hluti af landflutningunum en geta létt álagið af landflutningunum á vegakerfið og dregið úr slysahættu.

Ég hef aðeins einu sinni þurft að flytja varning innanlands. Það var þegar fluttur var inn ódýrasti bíll landsins frá Póllandi til Neskaupstaðar og þaðan til Reykjavíkur, fyrst með flutningabíl til Egilsstaða og síðan suður. Mér var nákvæmlega sama hve fljótt þetta gengi fyrir sig og veit að svo getur verið um marga fleiri hluti.

Að sjálfsögðu á að athuga svona mál í ljósi hækkaðs eldsneytisverðs og annarra sviptinga í efnahagsmálum.


mbl.is Strandsiglingar skoðaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðurfræðingur sem olli hættu á óspektum.

Kostulegt er að sjá að á lista þeirra sem hleraðir voru á kaldastríðsárunum var Páll Bergþórsson, veðurfræðingur. Ástæðan fyrir  hleruninni var að hann gæti valdið hættu á óspektum. Raunar tel ég mun meiri ástæðu til að rannsaka og upplýsa hverjir eru hleraðir núna en fyrir hálfri öld. Hygg ég að þá geti komið í ljós að ótrúlegasta fólk á Íslandi sé talið geta valdið hættu á hryðjuverkum í viðbót við óspektirnar.

En svo virðist sem enginn geti hengt ljósið á köttinn. Nú vantar sárlega atbeina "litla landsímamannsins. "


Mynd, sem skrifar sjálf handrit sitt.

Var að koma ofan af Kárahnjúkasvæðinu. Friðþjófur Helgason, kvikmyndatökumaður, ók á gamla Toyota pallbílnum sem ég nota til að draga Örkina, og var í fylgd með Þórhalli Þorsteinssyni á jöklajeppa sínum en sjálfur notaði ég FRÚna til að komast uppeftir og lenda þar. Síðan var dagurinn nýttur til hins ítrasta til myndatöku á landi og úr lofti.

Óvenjuleg snjóalög hafa verið efra í vetur og því erfitt hægt að komast um. Til dæmis komumst við ekki að Töfrafossi sem hefur birst í bili áður en hann sekkur að nýju þegar hækkar í lóninu. Þeim mun betri myndum náðum við af honum úr lofti. Umhverfi hans kom gersamlega á óvart. Inni í botni gljúfursins, þar sem fossinn er, hafa hlaðist upp háir hjallar af auri.

Barátta gæsanna fyrir hreiðurstæðum kom okkur líka á óvart. Á rönd meðfram vegi, sem á að varna sandfoki á austurbakka Hálslóns hafa þær verpt í vegkantinn í þéttasta gæsavarp á Íslandi. Þær berjast þarna á áhrifamikinn hátt hinni vonlausu baráttu sinni fyrir að þurfa ekki að flýja varpsvæðið.

Margt fleira væri hægt að tína til sem komið hefur á óvart þarna á þann hátt að engin leið var að skrifa um það kvikmyndarhandrit fyrirfram. Myndin um Örkina gerir það svo sannarlega sjálf.


Gott framtak fyrir flugið.

Flugvikan sem nú er að enda í Reykjavík á vegum Flugmálafélags Íslands hefur verið nauðsynleg og þakkarverð. Ég er á leið með 19 ára gamlan tveggja manna Toyota-pallbíl (minnsta Toyota jöklajeppa á Íslandi) austur á austurhálendið þar sem hann verður notaður til að draga Örkina eins og í fyrra og hitteðfyrra, - nú um ný lón við Eyjabakka.

Þar sem ég sit hér og blogga þetta á Akureyrarflugvelli verður mér hugsað til þess hve gott það væri ef flugið nyti sömu almennu velvildar í Reykjavík og hér nyrðra.

Akureyringar finna það á sjálfum sér hve mikils virði greiðar, skjótar og öruggar flugsamgöngur eru í járnbrautalausu landi. Flugið er "þráðurinn að ofan" líkt og í söguna um köngulóna, sem kom niður þráðinn að ofan en gleymdi að lokum á hverju vefurinn fíni byggðist og klippti á þráðinn með kunnum afleiðingum.

Því miður virðast margir Reykvíkingar vera búnir að gleyma því að borg byggist upp í kringum samgöngur, einkum við krossgötur, og eru tilbúnir til að klippa á þráðinn af ofan.

Þess vegna er glæsilegt framtak Flugmálafélagsins undir ötulli forystu Arngríms Jóhannssonar svo mikiðvægt.


Grennandi umbúðalestur.

Undanfarnar vikur hef ég að læknisráði neytt matar sem þarf að innihalda sem minnst af fitu. Er skemmst frá því að segja lestur á umbúðir um matvæli hefur létt mig um 13 kíló á einum mánuði.

Það er engin furða því að áður en ég byrjaði á þessu mataræði var ég með ýmsar ranghugmyndir um fitumagn í matvælum. Til dæmis er allt að tvöfalt meira fitumagn í höfrum heldur en í mjólk og fitumagn í kornfleksi er aðeins brot af því sem Cheerios inniheldur.

Tíu sinnum meiri fita er í rjóma en í mjólk og einhver fituminnsti drykkurinn er fjörmjólkin.

Í Coladrykkjum er engin fita en furðu mikil fita í brauði, einna minnst í normalbrauði. Vegna þess að merkingarnar utan á matvælunum eru svona mikilvægar undrast ég að stór hluti matvæla skuli ekki vera með neinar upplýsingar á umbúðunum um innihaldið.

Þangað til fyrir nokkrum árum hélt ég þyngd minni í skefjum með gríðarmiklum og erfiðum hlaupum og æfingum og reyndi að hafa einhverja stjórn á matarneyslunni. Það reyndi um of á taugar í bakinu vegna samfalls í þremur hryggjarliðum og ég varð að minnkað álagið og draga úr hreyfingunni. Þá fór ég að þyngjast og var orðinn tólf kílóum þyngri nú á útmánuðum en ég var 2002.

Í veikindum síðan í marsbyrjun hef ég lítið getað hreyft mig en fitubannið vinnur það upp. Þó eru 13 kílóin ekki alveg rétt tala því að hreyfingarleysi léttir vöðvana.

Raunar á það að vera allt í lagi að vera ca 4-5 kílóum yfir svonnefndri kjörþyngd ef marka má nýjar rannsóknir á langlífi. Auðvitað er gott að geta gripið til einhvers aukaforða af fitu ef þörf krefur og rétt er að geta þess að við getum ekki verið án þess að neyta einhvers af fitu.

En þá er bara að velja réttu fituna og taka til dæmis inn lýsi.  


Óaðfinnanleg !

Ég er stoltur af Regínu Ósk og nafna mínum, Friðriki Ómari í upphafslagli söngvakeppninnar í kvöld. Ég bloggaði um það fyrr í vor, að í gegnum árin hefði ég sjaldan hitt hæfileikaríkara og betra fagfólk og þau fóru jafnvel fram úr miklum væntingum mínum. Hvernig sem fer geta þau borið höfuði hátt og frammistaða þeirra voru þjóðinni til sómar.

Var nokkuð sáttur við lögin sem komust áfram í fyrrakvöld því ég hafði óttast að söngvakeppnin væri að snúast upp í einhæft lagaval og keppni um skrautsýningum og fáránleika. Lögin sem komust áfram voru ágæt blanda, fannst mér.

 

mbl.is Örlögin í höndum Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki af baki dottnir við að ná sínu fram.

Nú er komið það hljóð í strokkinn að Bitruvirkjun verði aðeins frestað fram yfir kosningar svipað og Landsvirkjun "setti Norðlingaölduveitu á ís". Morgunblaðið er ringlað í dag og talað er um fyrirsjáanlegan orkuskort hjá þjóð sem framleiðir þegar fimmfalt meiri raforku en hún þarf til innanlandsþarfa.

En staðan sem nú er komin upp ætti að sýna hve mikil skammsýni hefur verið fólgin í því að keyra álverið í Helguvík áfram í stað þess að slá það af og ná sér í kaupendur, sem þurftu ekki eins mikla orku, menguðu nánast ekkert og hægt var að semja við án þess að fórna öllu til.

Það er enginn vandi að búa til orkuskort með því að keyra framkvæmdir og eftirspurn fyrir mesta hugsanlega orkubruðl veraldar, álver, áfram á ofurhraða.

 

 


Blettur á samtíð okkar.

Það kæmi mér ekki á óvart að þegar sagnfræðingar framtíðarinnar rekast á gögn um málflutning Sigurjóns Þórðarsonar og Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um flóttafólkið á Akranesi muni þeir telja skoðanir þeirra blett á samtíð okkar svona svipað eins og þegar menn rákust á það um síðir hvernig við mismunuðum innflytjendum frá Evrópu rétt fyrir seinni heimsstyrjöldina.

Þá voru norskir skógarhöggsmenn teknir fram yfir fjölmenntaða Gyðinga, sem sumir hverjir urðu líklega nasistum að bráð fyrir vikið.

Þetta var þeim mun átakanlegra að árin á undan höfðu komið hingað menn frá meginlandi Evrópu sem urðu að burðarásum í íslensku menningarlífi. Nægir að nefna örfá nöfn eins Victor Urbancic, Carl Billich, Franz Mixa, Róbert Abraham Ottóson, Joseph Felzmann og Jose M. Riba.

Það er hins vegar vitað mál að með þessum málfflutningi höfða þeir félagar Sigurjón og Magnús Þór til ákveðins markhóps Íslendinga sem getur veitt þeim fylgi til að komast aftur á þing.

Mig tekur sérstaklega sárt að taka svona til orða um þessar skoðanir vinar míns, Magnúsar Þórs, sem ég hef ævinlega átt hin bestu samskipti við og á gott eitt að þakka. Ég hef persónulega ekki reynt að hann að öðru en hinu besta. Mér finnst þetta mál leiðinlegt fyrir hann. og tel reyndar þá félaga eiga að íhuga skaplegri ráð til að ná áfram á pólitískri framabraut. Þeir eiga að hafa alla burði til þess.


Næstu átakasvæði nyrðra og syðra.

Ákvörðun um að slá Bitruvirkjun af gerir baráttuna framundan einfaldari. Hliðstæða Bitruvirkjunar fyrir norðaustan Mývatn er svæðið Leirhnjúkur-Gjástykki og það er í mínum huga lang mikilvægasti vettvangur baráttunnar framundan vegna þess að það svæði tekur virkjunarsvæði Bitruvirkjunar langt fram og jafnvel sjálfri Öskju. 

Óafturkræf spor vinnuvélanna við Trölladyngju hræða og taka þarf slaginn um Leirhnjúk-Gjástykki strax og koma í veg fyrir að einstæðu svæði á heimsvísu verði slátrað fyrir rannsóknir á virkjunarsvæði sem gæfi nokkra tugi starfa í álveri.

Kjörorðið verður: Ekkert rask við Leirhnjúk og í Gjástykki.

Síðan þarf að sjá svo um að nóg verði skilið eftir ósnortið við Krýsuvík og Sog. Nóg verður samt af virkjunum á Reykjanesi.


mbl.is Hætt við Bitruvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband