Græðgin lifir góðu lífi.

Græðgin og taumlaus peningahyggja lifa góðu lífi þrátt fyrir kreppuna. Um það vitnar oftaka HS Orku. Fleira er á ferðinni á orkuöflunarsvæðum á Reykjanesskaga sem vitnar um svipað.

Upp hafa komið spurningar um það hvers vegna lón á svæðunum séu stærri en reiknað hafi verið með. Þrátt fyrir að gumað hafi verið af árangri af niðurdælingu hækkar til dæmis sífellt í lónum HS.

Peningafréttir tröllríða ekki síður umræðum og fréttaflutningi en þær gerðu í gróðærinu. Þá voru fréttatímar orðnir að nær samfelldum söng um viðskipti og peninga þegar allt snerist um að græða sem mest og hraðast.

Nú er viðfangsefnið í raun það sama nema að nú snýst allt um tap og hrun og allt snýst um að tapa sem minnstu. Græðgin birtist í hugmyndum um að ráðast með enn meiri krafti en nokkru sinni fyrr á mestu verðmæti landsins, einstæða náttúru undir yfirskini neyðaraðgerða þjóðar sem þrátt fyrir allt er með ein bestu lífskjör í heimi.


mbl.is Fimmtungi meiri orka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert rafmagn, ekkert starf, samt virkjað.

Nú er sótt úr öllum áttum að íslenskri orku og íslenskri náttúru. "Erlendir aðilar" sækja í eignarhald. Innlendir sækja í að eyðileggja náttúruverðmæti, jafnvel þótt viðkomandi virkjunarframkvæmdir skapi ekkert starf og enga orku.

P1010199

Myndirnar hér á síðunni eru af því fáránlega fyrirbæri, sem felst í því að láta renna vatn til fulls í svonefnt Kelduárlón fyrir austan Snæfell og eyðileggja merkilegt fjallavatn, Folavatn, án þess að nokkur þörf sé fyrir þessa hækkun lónsins og án þess að það að það skapi eitt einasta starf.

Á loftmyndinni sést Folavatn í forgrunni eins og það er nú, en Kelduárlón eins og það er nú, er fjær.

Folavatn er tært en Kelduárlón gruggugt. Í matskýrslu um umhverfisáhrif er fjallað um að lífríki Folavatns sé um margt einstætt.  

Hægt er að stækka myndirnar hér á síðunni með því að smella á þær í tveimur áföngum.  

P1010259

 

 

 

Hér til hliðar er horft yfir hluta Folavatns til suðurs með Eyjabakkajökul í baksýn.

 

 

Sú viðbót sem eftir er að láta renna í Kelduárlón upp í topp mun aðeins gefa innan við 2% af þeim vatnsbirgðum, sem Hálslón gefur, en það mun drekkja Folavatni og grónu landi í kringum það.

P1010284

 

 

Þörfin fyrir vatnið, sem kemur úr svonefndri Hraunaveitu, miðast við mun kaldara árferði en nú er og verða mun fyrirsjáanlega næstu áratugi.

Sú röksemd að fylla verði Kelduárlón til að gripa til á kuldaskeiði á ekki við.  

 

 

Kelduárlón rúmar 60 gígalítra til miðlunar en til samanburðar rúmar Hálslón 2100 gígalítra.

P1010292

Sú röksemd að Kelduárlón geti nýst sem öyggisventill ef rennsli úr Hálslóni klikkar, til dæmis vegna bilunar í 40 kílómetra löngum göngunum frá því, stenst ekki því að vatnsforði Kelduárlóns myndi í mesta lagi endast í inna við viku og sá tími yrði allt of stuttur til að gera við bilun eða leka í göngunum.

'Rennslið í Hálslón er líkast til að minnsta kosti 10-20% meira en reiknað var með.

Af því sést að rennslið úr Hraunaveitu, sem er aðeins brot af þessari aukningu, skiptir engu máli, hvorki í heildina tekið né sem öryggisventill.

Á myndinni hér til hliðar er staðið við afrennsli Folavatns, Folakvísl.

P1010261

Þarna er mikið gróðurlendi, þvert ofan í þær hugmyndir sem ég og aðrir höfðu gert sér um "urðina og grjótið" sem drekkt yrði með Hraunaveitu.

Fuglar verpa við vatnið, m. a. Hávella og Óðinshani.

Einn Óðinshani varð mér samferða á hluta gönguferðarminnar, sést sem depill vinstra megin á víðari myndinni en betur á nærmynd.

Ég er með aðstoð Völundar Jóhannessonar að búast til siglinga á "Örkinni" á þessum nýjstu athafnasvæðum Landsvirkjunar og fylgjast með drekkingu Hávelluhreiðranna í hólmum Folavatns. 

Í morgun hef ég verið að reyna að biðja Folavatni griða og aðeins það er nú í huga mér. Hraunaveita og Kelduárlón eru komin og verða áfram þarna.

P1010254

Ég náði sambandi við einn stjórnarmann Landsvirkjunar í gærkvöldi.

Hann hafði  ekki hugmynd um þetta mál frekar en allir sem ég ræði við um það, enda hafa fjölmiðlar þagað sem kyrfilegast um það, þótt það er búið að grafa sem svarar Héðinsfjarðargöngum í Hraunaveitu og reisa stíflur, þar sem hin stærsta er 1600 metra löng og 27 metra há og ein af allra stærstu stíflum landsins.

Það er líka búið að láta renna í hátt í helming af yfirborði Kelduárlóns og nú skortir aðeins 2ja metra í hækkun til að hið auruga vatn Kelduár farið að flæða inn í Folavatn.

Eins og sést á myndunum eru flöt gróin nes og hólmar sem munu sökkva á skömmum tíma.

P1010249

Ég haltraði hálfan hring um lónið í gær og var þar líka við myndatökur í fyrra og held ég viti eitthvað um það sem þessi pistill fjallar.

Ég held áfram að reyna að ná sambandi við ráðamenn um það hvort það megi ekki bíða með það að drekkja Folavatni og umhverfi þess vegna þess að það gefi hvorki eitt einasta kílóvatt né starf.

Ef ekki tekst að stöðva þá framkvæmd að láta vatn renna inn í Folavatn væri þó kannski von um vatnið og lífríki þess næði sér ef það fengist fram að lækka sem fyrst í Kelduárlóni á ný ofan í þá hæð sem það er nú. 

 

En best væri að hætta núna og tíminn er naumur. Það hafði verið gefið í skyn við mig í fyrra eftir að hætt var við að virkja tvær austustu smáárnar í Hraunaveitu að þar með yrði látið staðar numið.

Mér til mikilla vonbrigða frétti ég fyrir nokkrum dögum að látið hefði verið renna í Kelduárlón í allt vor.  

Mér skilst eftir nýjasta viðtal við stjórnendur framkvæmda að hvort eð er verði af verkfræðilegum ástæðum að stoppa vatnshæðina í 664 metrum, en Folavatn er í 662ja metra hæð.

Munurinn er 2,5 metrar. Aðstæður hafa breyst frá því að Hraunaveita var ákveðin að því leyti til að kalt árferði verður æ ólíklegra. Að hluta til hefur LV viðurkennt þetta með því að hætta við virkjun austustu árinnar í fyrirhugaðri Hraunaveitu.

Ég tel að vegna þessara breyttu forsendna sé það lágmarkskrafa að stjórn Landsvirkjunar fjalli um þetta mál ásamt færustu sérfræðingum og taki um það ákvörðun, helst sem fyrst.

Ef látið verður staðar numið nú fá báðir aðilar sitt fram að hluta til og fórna öðru.

Virkjanamenn fá sitt miðlunarlón með stórum hluta þeirrar miðlunar sem stefnt var að en gefa Folavatn eftir. Náttúruverndarmenn fá sitt Folalón en sætta sig við þann orðna hlut að fagrir grænir árhólmar Kelduár verða að eilífu á kafi í gruggugu lóninu.

Þessi vötn, Kelduárlón og Folavatn standa með þessari lausn hlið við hlið og ég slepp við þann dapurlega endi á siglingu Arkarinnar í samnefndri mynd, að vera úti í drukknandi hólmunum þar sem Hávelluhreiðrin með eggjum sínum og drukknuðum ungum fljóta upp.  

Ef þessi lausn gæfist verr en búist hefði verið við eru tæknilegir möguleikar á að láta Folavatn róa eins og upphaflega var ákveðið. Stíflan stendur þarna. 

Ég enda þennan pistil með því að taka mér það bessaleyfi að líkja Folavatni við Réttarvatn í ljóði Jónasar Hallgrímssonar um Réttarvatn:

P1010268

 

 

 

 

Efst hér austur á Hraunum /

oft hef ég fáki beitt. /

Þar er allt þakið í vötnum /

og þar heitir Folavatn eitt. /

 

Undir norðurásnum /

er ofurlítil tó. /

Lækur liðast þar niður /

um lágan hvannamó. /                     

P1010241

 

Á engum stað ég uni /

eins vel og þessum mér. /

Hinn ískaldi jökull og Snæfell /

vita´allt sem talað er hér.

P1010244
mbl.is Erlendir bjóða í HS Orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins eitthvað um sáralítinn hlut okkar.

Virkjanafíklar hafa jafnan látið eins og hið óvirkjaða vatnsafl Íslands sé slíkt að skipta muni sköpum fyrir heiminn. Fyrir 15 árum var í alvöru rætt um að Íslendingar gætu setið eins og Arabar með vefjarhetti og stjórnað rafmangsverði í Evrópu í gegnum sæstreng.

Ef þetta væri svona gætu Norðmenn það alveg eins og við, því að þar í landi er að magni til jafn mikið óvirkjað vatnsafl og hér. Þar að auki tandurhreint vatn á hálendi, sem ekki hefur hlotið sérstakan gæðastimpil sem eitt af undrum veraldar eins og Ísland hefur hlotið.

Í Noregi eru heldur ekki vandamál vegna þess að miðlunarlón fyllist upp af auri og heilu dölunum með lífríki og einstæðri náttúru sé sökkt eins og hér er ætlunin.

Norðmenn munu ekki virkja meira enda þarf ekki annað en að glugga í tölur til að sjá, að óvirkjað vatnsafl í þessum tveimur löndum er langt innan við eitt prósent af orkuþörf veraldar, aðeins nokkur prómill. Hvorki við né Norðmenn munum verða "Arabar norðursins" eins og lengi hefur verið gumað af.

Ég hef flogið í lítilli flugvél yfir þvera og endilanga Eþíópíu og séð allt það gríðarlega vatnsafl sem óvirkjað er í því landi. Þar eru þjóðartekjur á mann aðeins 0.5% af því sem þær eru hér.

Virkjanir í þessari álfu hafa því meira en hundrað sinnum meira hagrænt gildi fyrir örfátækt fólkið sem þar býr en þær hafa hér á landi.

Samt viljum við bjóða "lægsta orkuverð" og "sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum" og eyðileggja verðmæti sem eru ómetanleg.

Er nú í ferð um virkjanasvæðin norðan Mývatns og í kringum Snæfell og skortir orð til að lýsa því sem hér er að gerast, þótt ég muni reyna að blogga um það næstu daga, ef tími er til.

Það er ekki víst hvað sá tími verður mikill. Það er að hitna í kolunum hér og magnaðir dagar framundan.


mbl.is Gífurlegt afl liggur ónýtt í fallvatninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merk og gleðileg tímamót.

Hóflegar strandveiðar sem hleyptu lífi í dauð sjávarþorp voru eitt af áhersluatriðum Íslandshreyfingarinnar fyrir kosningarnar 2007. Við töldum að af fenginni reynslu af smábátasprengingunni í lok síðustu aldar væri nú hægt að nálgast viðfangsefnið af nægri varfærni og skynsemi til að betur færi í þetta sinn.

Veiðarnar hafa marga kosti:

1. Opnaður gluggi fyrir þá sem vilja stunda svona veiðar og njóta þess samspils við hafið og náttúruna sem þær veita.

2. Hleypt lífi í hafnirnar um allt land.

3. Hæsta stig sjálfbærni og góðrar meðferðar á auðlindinni.

4. Menningar- og gleðiauki fyrir fólkið í sjávarbyggðu0num.

5. Aukin gleði fyrir aðkomufólk og ferðamenn sem vilja koma í slík pláss og kynnast hinum einstæðu tengslum byggðanna við hafið sem hafa verið kyrkt hin síðustu ár.

Þetta getur þýtt óbeinar tekjur vegna ferðaþjónustu. Eða eins og Raggi Bjarna söng í den: "Hafið lokkar og laðar."


mbl.is 22 tonn af þorski á fyrsta degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Veröldin er söm við sig..."

Fréttin af flugi Jacksons upp í hæstu hæðir eftir dauða hans minnir mig á dásamlega vísu, sem Andrés Valberg fór með á hagyrðingamóti á Vopnafirði fyrir meira en áratug.

Sjálfur hafði Andrés sopið marga fjöruna um dagana, var maður lífsreyndur og átti ekki langt ólfifað.

Vísan er gull, og hljóðar svona:

 

Veröldin er söm við sig. /

Svíkur margan auður. /

Allir myndu elska mig /

ef ég væri dauður.


mbl.is Michael Jackson í efsta sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bílvelta varð"...einu sinni enn.

Eru engin takmörk fyrir því hve lengi þetta orðalag, "bílvelta varð" er notað í íslenskum fjölmiðlum?

Í stað tveggja atkvæða: "bíll valt" er enn einu sinni notuð tvöfalt lengra orðalag og eftir því klaufalegt.


mbl.is Bílvelta á Þingvallavegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt af einkennum kreppunnar?

Eftir klukkan fimm á föstudag myndaðist umferðaröngþveiti á leiðinni frá Reykjavík austur fyrir fjall. Jón, bróðir minn og Stefán Karl Stefánsson, sem ætluðu að hitta mig á Selfossflugvelli héldu á tímabili að kæmust ekki austur, - allt stóð fast.

Í kvöld snerist þetta við. Ég set fram tilgátu í nokkrum iiðum um ástæðu þessa:

1. Allir Íslendingar sem máttu sín eihvers voru svo mikið erlendis í gróðærinu. Það var "in". Púkó að húka á klakanum. Nú er öldinn önnur.

2. Allt í einu kom hrunið og þá var á svipstundu orðið "in" að ferðast innanlands.

3. Allir, sem sjá einhvern minnsta möguleika til þess að græða á þessu kreppufyrirbrigði, standa nú fyrir uppákomum og hvers kyns starfsemi út um allar koppagrundir til að græða á þessu. Hljómsveitir, sem höfðu legið í dái árum saman hafa sprottið upp til að fara hamförum um landið til að græða á ný og endurvekja forna dýrð.

4. Afleiðingin er stanslaus röð allra faratækjanna sem voru keypt í gróðærinu, út úr borginni austur og vestur í sumarbústaðina, sem þutu upp eins og gorkúlur á undanförnum árum.

Í óleysanlegri umferðarflækju viðra menn ofurjeppana, stóru húsbílana og bílana með stóru hjólhýsin í eftirdragi. Jónarnir og Gunnurnar sem verða að láta sér nægja minni bíla, eru líka á ferðinni og taka þátt þessum leik, kannski með litla tjaldvagna eða kerrur.

Þeir sem misstu allt og geta ekki tekið þátt í leiknum horfa á þetta í sjónvarpinu og dæsa.

5. Til að gæta allrar sanngirni verður að geta þess að það er ekki um hverja helgi sem slíkt góðviðri ríkir um allt land og í landi með kaldasta sumrinu í Evrópu er skiljanlegt að slíkt tækifæri reyni allir að nota.


mbl.is Mikil umferð til Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsóknarferðin á Vatnajökul, - síðasti dagur.

Hér kemur síðasti ferðadagur minn í rannsóknarferð Jöklarannsóknarfélagsins um Vatnajökul á dögunum.

DSCF5469

Hápunkturinn hjá mér var ferð á Bárðarbungu, en efsta myndin er tekin á henni.

Hægt er að stækka myndirnar með því að smella á þær í tveimur áföngum.  

Þennan dag var reyndar farið líka upp á Öræfajökul.

En fyrir mig lá beint við að fara á Bárðarbungu með tilliti til þess að þaðan var síðan nokkuð bein leið um Skaftárkatla suðvestur um niður af Tungaárjökli.

Á næstefstu mynd má sjá ferðafólkið skála á Bárðarbungu og horfa yfir víðernin í allar áttir. 

DSCF5470

 

 

Við ætluðum að vera í samfloti í ferðinni alla leið niður af jöklinum á tveimur bílum, ég á jöklasúkkunni litlu, og Snæbjörn Pálsson á Toyota Landcruiser jöklajeppa sínum og ferðafélagi hans, Jóns Elíasson, prófessor.

 

 

 Veðrið var frábært, útsýni til Öræfajökuls í suðri og ekki amalegt að stansa á áningarstöðum og njóta útsýnisins.

 

DSCF5464

 

Við rætur Bárðarbungu, norðarlega á jöklinum, voru gerðar mælingar og tekin sýni. 

 

Af þessum mælingum eru þrjár myndir.

 

Þær tvær neðstu sýna þegar borað er niður í jökulinn til að ná ís til að mæla.

 

Hann er síðan lagður í stokk, hlutaður í sundur og hvert stykki mælt. 

DSCF5455
Snjóþekja nýsnævis eftir hvern vetur er um sjö metra þykk. 
 
 
Líklega er hún enn þykkari uppi á bungunni og ekki er hægt annað en fyllast aðdáun á afreki Loftleiðamanna 1951 þegar þeir grófu skíðaflugvél bandaríska hersins upp úr jöklinum og drógu hana niður af jöklinum. 
DSCF5460
 

 

 

 

 

 

 

Síðan var haldið á Bárðarbungu og stansað á norðvesturbrún hennar þar sem útsýnið er að sjálfsögðu óviðjafnanlegt í eins góðu veðri og var þarna, í 2009 metra hæð.

Það er mesta hæð sem íslenskir jöklajeppar komast í.

Aðeins einu sinni hefur jöklajeppi farið hærra, en það var vorið 1991 þegar bíll frá Bílabúð Benna tókst að komast upp á Hvannadalshjúk á eigin vélarafli, að vísu að hluta til með vindu, sem fékk rafafl upprunnið í vél bílsins.

DSCF5468

 

Á myndinni hér við hliðina er horft til vesturs yfir Tungnafellsjökul og Hofsjökul fjær, en þetta sést betur með því að stækka myndina með því að smella á hana í tveimur áföngum. 

 

 

 

Síðan tók við ferðalagið niður af jöklinum með viðkomu hjá mælingamönnum við Skaftárkatla.

DSCF5479

 

 

Það á helst að vera regla að vera ekki einbíla á ferð á miðhálendinu.

Þess vegna höfðum ég samflot með þeim Snæbirni og Jónasi og kom sér vel að vera ekki einn því að þar kom að Snæbjörn kippti í Súkkuna mína á einum stað, en skömmu síðar festi hann sinn bíl, og þá var komið að því að borga til baka og kippa í hann.

Neðsta myndin á síðunni er síðan tekin á leiðinni frá Jökulheimum vestur að Vatnsfelli og hinni eiginlegu jöklaferð lauk síðan við Hrauneyjar þar sem leiðir skildu.

Sól er að setjast og Loðmundur, Hekla og Þóristindur blasa við.

DSCF5480

 

Þetta var frábær ferð, þessi dásamlelga blanda af erfiðleikum og dimmviðri og dýrlegu veðri suma dagana, að ekki sé minnst á hin einstæðu náttúrufyrirbæri sem þrædd höfðu verið eins og upp á festi með gimsteinunum Grímsvötnum, Kverkfjöllum, Bárðarbungu, Vatnajökli og mikilúðlegu landslagi á leiðunum upp og niður.


Tímarnir breytast. Ný svæði uppgötvast.

Þegar ég var ungur þekkti ég ekki nokkurn mann sem hafði gengið á Esju. Slíkt var fáheyrt. Hvað þá að ganga á Hvannadalshnjúk.

'"Laugavegurinn" frá Landmannalaugum í Þórsmörk var óþekktur.

Nú morar allt af fólki, jafnvel manns nánustu, sem hefur gengið á fjöll. Sjálfur er ég eini maðurinn í heiminum sem hefur gengið tvisvar niður af Esjunni en aðeins einu sinni upp.

Hélt fimmtugsafmæli í kyrrþey og gekk á Esju til að taka mynd af kappgöngu upp á fjallið fyrir Stöð tvö. Náði að mynda upphafið og það þegar fólkið kom upp á brún.

IMG_0376IMG_0376

Í dag hef ég verið með hópi á vegum Landverndar í stórkostlegu veðri í Gjástykki að skoða "sköpun jarðar."

Komst lengra gangandi en mig hafði órað fyrir því að skammt er í aðgerð á hné. Kannski með Gunnari Birgissyni.  

Fyrr í dag voru það Þeystareykir ov meðfylgjandi eru tvær myndir frá því svæði sem stefnir í að verða virkjuunarsvæði á við Helligsheiði. 

Á morgun verður það Leirhnjúkur og svæðið þar sem marsfarar framtíðarinnar vilja æfa sig, þó ekki innan um borholur, gufuleiðslur, stöðvarhús og háspennulínur.

IMG_0379

Svæðið norðan Mývatns, Þeystareykir, Stóra- og Litla-Víti, Gjástykki-Leirhnjúkur býður upp á einstaka hringleið sem er nánast ókunnug öllum.

En hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Mun blogga síðar með myndum um ferðina. 


mbl.is Settu Íslandsmet í Esjugöngu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jackson - Björk.

Michael Jackson og Madonna voru kóngur og drottning í ríki poppsins í kringum 1990. Þau nutu þess að ítrasta tækni og og nýting gríðarlegrar líkamlegrar getu gátu magnað upp tónlist þeirra.

Bara það eitt var rosalegt að horfa á hvernig Jackson fór hamförum á sviðinu á þann hátt að aðrir litu út eins og smá spítukallar. Hann leit því vafalaust á endurkomu sína líkt og hnefaleikameistarar sem æfa eins og berserkir til að komast í fyrra form. 

Tískan ræður miklu í poppinu. 1956 gufuðu sykursætu dægurlögin í gamla stílnum nær upp ásamt stórhljómsveitunum og rokkið með Presley í fararbroddi tók öll völd.

Síðan kom diskóbylgan, Bee Gees og Abba, en þegar pönkið kom þar á eftir fyrirlitu sumir helstu pönkararnir Abba ósegjanlega opinberlega.

Í dag viðurkenna þeir stórkostlega tónlist Abba.

Upp úr miðjum sjöunda áratugnum var Presley horfinn, - Bítlabylgjan hafði sópað honum í burtu.

En það sem einu sinni var gott verður það yfirleitt aftur. Presley var og er kóngurinn og Abba hefur náð nýjum hæðum í flutningi annarra.

Ég hef sett fram þá kenningu að Björk hafi verið réttur listamaður á réttum tíma þegar hún sló í gegn eins og sagt er.

 Þegar hún kom fram höfðu Michael Jackson og Madonna verið mögnuð upp í áður óþekktar hæðir með hin ofurtæknilegu, flóknu, fyrirferðarmiklu og hátimbruðu uppsetningu.  En ackson og Madonna var komin á endastöð, rétt eins og að tískufyrirbrigði, hvort sem það eru útvíðar skálmar, pínupils eða himinhá stél á bílum.  

Það var ekki hægt að ná lengra í þessari tegund skemmtunar og veröldin þráði eitthvað gerólíkt. Hún fann það meðal annars í Björk, með sína ótrúlegu og barnslegu rödd og framkomu, einfaldleikann og frumleikanna í fyrirrúmi.

Án Jackson og Madonnu er óvíst að Björk hefði slegið jafn vel í gegn og hún gerði á hárréttu augnabliki. Hún og Íslendingar eiga því óbeint Jackson mikið að þakka.

"Ars longa, vita brevis." Listin er löng en lífið er stutt. Undrabörn gefa heiminum mikið en færa miklar persónulegar fórnir með því að vera rænd æsku sinni eða skorta persónulegan þroska.

Mozart, Presley, Jackson og fleir nöfn koma í hugann, loguðu skært og brunnu upp.

Jackson var risi í poppinu, alla tíð frá hann sem barn söng "Santa Claus is comin to-night" svo að líklega verður aldrei gert betur.  


mbl.is Jackson æfði af kappi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband