SJÓNARSVIPTIR AÐ MERKUM MANNI.

Einar Oddur Kristjánsson var einn af merkustu stjórnmálamönnum sinnar tíðar og átti það sameiginlegt með Einari Olgeirssyni , sem var uppi hálfri öld fyrr, að verða aldrei ráðherra þrátt fyrir áhrif sín og verk. Um þá báða má segja, þótt pólitík þeirra hafi verið gerólík og mennirnir uppi á ólíkum tímum, verði nöfn þeirra lengi uppi þegar flestir ráðherrar sem voru samtíða þeim verða gleymdir.

Þeir Einararnir áttu það sameiginlegt að hafa gengið til samstarfs við andstæðinga sína með þjóðarheill í huga og náð árangri

Árangur Einars Odds er þó sýnu meiri og varanlegri að mínum dómi.

Tveimur árum áður en Einar Olgeirsson myndaði Nýsköpunarstjórnina með Ólafi Thors hafði skollið á óðaverðbólga á tíma minnihlutastjórnar Ólafs sem Ólafur sagði að hægt yrði að slá niður með "einu pennastriki" ef menn vildu það, -eins og hann orðaði það. Þetta gekk ekki eftir og andstæðingar Ólafsvar stríddi honum árum saman á "pennastrikinu."

Nýsköpunarstjórnin hefur af sumum verið kölluð óráðsíu- og eyðslustjórn en með henni var hoggið á slæman hnút þeirrar ósvinnu að ekki var hægt að mynda þingræðisstjórn.

Stjórnin gekkst fyrir átaki í tryggingar- og velferðarmálum, endurnýjaði skipaflotann og fiskvinnsluna og lagði þannig grunn að atvinnulífi næstu áratuga.

En stjórnin gekk vafalaust of langt í að eyða stríðsgróðanum og í hönd fór tæp hálf öld þar sem ekkert réðist við verðbólguna og óstöðugleiki í efnahagsmálum var einn helsti dragbítur og bölvaldur í þjóðarbúskapnum.

Sumarið 1988 þegar Einar Oddur var þjóðinni algerlega ókunnur, skipaði Þorsteinn Pálsson forsætisráðherra hann formann nefndar sem átti að taka efnahagsmálin föstum tökum.

Vegna þessa hlaut Einar Oddur viðurnefnið "bjargvætturinn frá Flateyri". 

Svo fór þó að stjórnin sprakk í beinni útsendingu og starf Einars Odds og hans manna varð því ekki að þeim grundvelli lausnar efnahagsvandans sem að var stefnt.

En með þessu stimplaði Einar Oddur sig samt inn hjá þjóðinni og þegar hann varð framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins endurtók hann það sem þeir Ólafur Thors og Einar Olgeirsson höfðu gert hálfri öld fyrr að höfuðandstæðingar í atvinnumálum tækju höndum saman til lausnar vanda sem ótal sinnum hafði mistekist að ráða bug á, mest vegna sundurþykkju og einþykkni deiluaðila.

Einar Oddur og Guðmundur J. Guðmundsson voru andstæðir pólar sem tókst að vinna sem einn maður ásamt fleiri góðum mönnum að því afreki að kveða verðbólguna niður og koma á stöðugleika "með einu pennastriki" ef svo má að orði komast.

Það var góð ára í kringum Einar Odd sem hreif mann, eitthvað óútskýranlegt. Hans er sárt saknað og eftir á að hyggja er einkennilegt að hann skyldi aldrei verða ráðherra.

Það varð Guðmundur J. heldur aldrei en ljómi þjóðarsáttarinnar er mestur í kringum þessa tvo menn að öðrum ólöstuðum.

Ég hneigi mig djúpt fyrir minningu Einars Odds Kristjánssonar og sendi vinum hans og vandamönnum samúðarkveðjur.


mbl.is Einar Oddur Kristjánsson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HVÍLÍKUR MUNUR!

Hef verið á ferðalögum frá Reykjavík um Norður- og Norðausturland og hef ekki getað bloggað. Nýi stórglæsilegi vegarkaflinn í Norðurárdal kennir okkur ýmislegt: 1. Beint fjárhagslegt tjón undanfarin ár af slysunum á gamla kaflanum fer langt með að borga þessa framkvæmd. 2. Svipað má segja um ýmsa aðra kafla á þessari leið.  3. Það er hægt að stytta þessa leið um hátt á þriðja tug kílómetra og ná þannig megninu af þeirri styttingu sem Norðurvegur gæti haft í för með sér auk þess sem breikkun vegarins styttir ferðatímann ein og sér.

4. Af framansögðu má sjá að endurbætur á hringveginum eiga að hafa forgang.

5. Með því að malbika þá kafla Kjalvegar, sem þegar er upphækkaður og gera eldri kaflana líka því sem sjá má við Bolabás norðan við Þingvelli er hægt að liðka fyrir ferðamannaumferð og gefa kost á styttri leið milli Suðurlandsundirlendisins og Norðurlands án þess að raska stórlega náttúrunni milli jökla og ræna svæðið því aðdráttarafli dulúðarinnar sem það hefur enn að miklu leyti og hægt er að líta á sem verðmæti í sjálfu sér.  


NÓG ORKA FYRIR ÁLVÆÐINGU OG VETN ISVÆÐINGU?

Í upphafi skyldi endinn skoða. Ef álverksmiðjur rísa í Helguvík, á Keilisnesi, í Þorlákshöfn og á Bakka í viðbót við álverið í Straumsvík er augljóst að ef öll þessi álver eiga að vera arðbær þarf til þess alla efnahagslega virkjanlega orku landsins. Hvar ætla menn þá að fá orku til að: - 1. knýja bíla- og skipaflotann, -   2. selja raforku til netþjónabúanna sem vilja koma hingað og 3:  - senda rafmagn um streng til Skotlands? 4. Knýja allar olíuhreinsistöðvarnar sem mönnum sýnist þurfa að reisa á landsbyggðinni til þess að bæta upp minnkandi fiskveiðikvóta.

Allar þessar hugmyndir eru kynntar í belg og biðu án þess að í upphafi sé athugað hvert svona virkjanafyllerí leiðir okkar. Öll notin sem eru númeruð hér að ofan virðast gefa mun hærra orkuverð með mun minni mengun en fyrirhuguð álver. 

Netþjónabúin menga ekki og gefa meiri ágóða og fleiri og betri störf miðað við orkueyðslu heldur en álverin og olíuhreinsistöðvarnar.    

Hvernig væri nú að setjast niður og forgangsraða t.d. svona:  1. Raforka fyrir vetnisvæðingu bíla- og skipaflotann. 2. Raforka fyrir netþjónabú.

3. Athuga hvort ekki verði komið á endastöð náttúruspjalla á Íslandi með því að framkvæmda nr. 1 og 2 og láta álfurstana og olíufurstaana eiga sig.  


mbl.is Fyrsti vetnisfólksbílinn tekinn í gagnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"ÁHÆTTUSÖM FRAMKVÆMD."

Rafmagnsleysið á Austurlandi í gær rifjaði upp hvernig lögfræðingur Landsvirkjunar lýsti Kárahnjúkavirkjun í greinargerð til þess að sýna landeigendum fram á að hún og þar með vatnsréttindin vegna hennar væri mun minna virði en þeim hafði verið sagt. Svona lýsti Landsvirkjun þessu sjálf: "Virkjunin er erfið og áhættusöm jaðarframkvæmd í landfræðilegu-, tæknilegu-,umhverfislegu-, og markaðslegu tilliti, er í raun eyland í raforkukerfinu..." 

Nú er 40 ker í álverinu á Reyðarfirði keyrð með raforku úr vatnslausum hverfli, sem látinn ganga fyrir tafmagni til þess að búa til rafmagn! Ekkert má út af bregða, - reynt er að komast hjá kostnaði og taka áhættu. 

Tekin var mikil áhætta með því að rannsaka ekki fyrirfram það 3-5 km metra breiða misgengissvæði, sem sást mjög vel úr lofti og varð síðar aðalástæðan fyrir hinni miklu og rándýru töf sem orðin er á framkvæmdum. 

Upplýsingafulltrúi virkjunarinnar sagði án þess að depla auga framan í kvikmyndatökuvélina að ekki hefði þótt ástæða til þess að kanna svæðið, "...við þurftum að fara þarna í gegn hvort eð var." 

Nú er Arnarfell í gjörgæslu eftir að komið er í ljós að tilboð fyrirtækisins var allt of lágt og það verður fróðlegt að sjá lokareikninginn frá Impregilo.

Það skipti þá Halldór og Davíð engu máli þegar farið var út í þessa framkvæmd þótt viðvörunarbjöllur hringdu alls staðar, - þeir vissu að þjóðin myndi borga eftir að þeir sjálfir væru komnir í öruggt skjól embætta og dæmalausra og sérsniðinna eftirlaunalaga.

Það liggur fyrir sem sjá mátti fyrirfram, að virkjunin verður baggi á þjóðinni og rétt að enda þennan pistil á broti úr lýsingu Landsvirkjunar sjálfrar: "...ekki er unnt að útiloka stofnkostnaður fari fram úr áætlunum vegna tæknilegra örðugleika á byggingartíma og rekstrarkostnaður Hálslóns geti orðið umtalverður ef beita þarf ítrustu mótvægisaðgerðum vegna skilyrða um umhverfisþætti."

 

 

"....Ekki er unnt að útiloka að stofnkostnaður fari fram úr áætlunum vegna tæknilegra 


UNDRIÐ HIÐ ELDVIRKA ÍSLAND.

Öll sjö undrin sem kynnt voru í dag eru mannvirki. Í svipaðri könnun ABC sjónvarpsstöðvarinnar í fyrra var þetta blanda og Ísland var eitt af undrunum sjö. Í nýrri bók um 100 undur veraldar eru 27 í Evrópu, þar af sex náttúrufyrirbæri. Þegar bókin er opnuð koma norsku firðirnir fyrst og síðan hinn eldvirki hluti Íslands.

Í bókinni er frægasti þjóðgarður heims Yellowstone ekki á blaði frekar en í könnun ABC. Samt segja Íslendingar að allt sé í lagi að umturna þessu undri vegna þess hve fáir hafi séð virkjunarsvæðin.

En Bandaríkjamenn mun aldrei snerta einn einasta hver í Yellowstone og friðun fyrir djúpborunum utan þjóðgarðsins nær yfir svæðið Greater Yellowstone sem álíka stórt og allt Ísland.


mbl.is Tilkynnt um ný sjö undur heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÁLIÐ EKKI LENGUR MÁLIÐ Í FLUGINU.

Í heilsíðuauglýsingu Alcoa á sínum tíma og í áróðri íslenskra álsinna hefur mjög verið haldið fram mikilvægi áls í flugvélum og bílum og að álframleiðslan fari einkum í þetta tvennt. Ekkert af þessu rétt. Álið fer að mestu í dósir og umbúðir sem Bandaríkjamenn henda í stað þess að endurvinna með broti af orkunni sem þarf í álverksmiðjunum. Ef Kanarnir endurynnu álið sem fer í umbúðirnar samsvarar það endurnýjun alls flugflota þeirra fjórum sinnum á ári.

Í raun viljum við hjálpa Könunum við að bruðla svona áfram og viljum fórna okkar náttúrugersemum til þess að þeir geti varðveitt sams konar gersemar með því að leggja álver niður og byggja í staðinn hér á landi og fá meira að segja íslensk umhverfisverðlaun fyrir.

Forstjóri Boeing-verksmiðjanna hefur sagt að koltrefjaefnin muni ryðja álinu burt. Mest selda einkaflugvél heims er úr koltrefjaefnum.

Bílaverksmiðjur hafa aðeins efni á að hafa ál að einhverju ráði í dýrustu bílunum en þar sækja koltrefjaefnin líka á.


mbl.is 35 nýjar pantanir i Boeing 787 Dreamliner
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

REYKJAVÍK VILDI EKKI VERA EIN AF HEIMSBORGUNUM.

Við Íslendingar látum okkur dreyma um að stórviðburðir gerist hér á landi, Evróvision, leiðtogafundir, heimsmeistarakeppni, - stórtónleikar o.s.frv. Við stöndum á öndinni ef heimsþekkt persóna kemur til landsins þótt það komi hvergi í fréttum erlendis. Útsendingar frá Íslandi koma okkur á kortið og það eflir góða ímynd landsins. Við gumum af því að vera í fararbroddi í umhverfismálum og því er vert að ítreka undrun yfir skilnings- og framtaksleysi íslenskra ráðamanna að vísa frá sér boði um að vera ein af átta heimsborgum sem halda Live Earth tónleikana.

Á þessa tónleika horfa margfalt fleiri útlendingar en á heimsmeistarkeppni í handbolta en á sínum tíma lögðum við mikið á okkur til þess að fá að halda hana.

Ég ítreka undrun mína á því að þessum heimsviðburði var vikið frá okkur.


MUNURINN Á ÍSLENDINGUM OG HOLLENDINGUM.

Myndirnar af tveimur sams konar atvikum, annars vegar í hollensku knattspyrnunni og hins vegar í þeirri íslensku, sem sýndar voru í 14:2 þætti Sjónvarpsins í kvöld, segja meira en allt sem sagt hefur verið og sýnt af atvikinu á Akranesi. Í Hollandi sést samskonar langspyrna og á Akranesi eftir innkast, sem ratar í mark. Í Hollandi gefur markskorarinn eins vel og honum er unnt er það til kynna með látbragði og orðum að hann biðjist innilega afsökunar á atvikinu., - þetta hafi verið óvart. 

Leikmenn halda ró sinni, enginn gengur að öðrum, ekkert rifrildi í gangi.

Menn ræða æsingalaust saman, Yfirveguð niðurstaða og samkomulag siðmentaðra íþróttamanna næst og boltanum er síðan leikið mótspyrnlaust í gagnstætt mark, - málið dautt.

Engin eftirmál eftir leikinn, - engin leiðindi hjá fjölskyldum,venslafólki og velunnurum knattspyrnunnar eins og hér heima.

Við öllum þeim, sem hafa séð á kvikmynd atvikin á Akranesi, blasir við gerólík hegðun leikmanna og þjálfara, bæði í leiknum og eftir hann, sem er íslenskri knattspyrnu til skammar.

Fyrir bragðið hafa ýmis viðbrögð og ummæli eftir leikinn og áfram í viðtölum allt fram á kvöldið í kvöld aukið enn á lágkúru þessa máls og þurfti talsvert til.

Er ekki hægt að læra eitthvað af þessu til þess að maður geti sungið "Skagamenn skoruðu mörkin" án þess að það minni á þessa framkomu leikmanna Keflvíkinga og Skagamanna?

Við þurfum að kafa dýpra í málið og finna það út hvað það er í svonefndum "þjóðarkarakter" og uppeldi sem gerir mismun hegðunar íþróttamanna svo ólík í Hollandi og á Íslandi.


mbl.is Bjarni þurfti lögreglufylgd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

LAXVEIÐIPERLAN MIKLA !

Hugmyndir um að gera Jökulsá á Dal að einhverri bestu laxveiðiá landsins vegna þess að fyrir neðan Kárahnjúkastíflu verði tær bergvatnsá eru í meira lagi hæpnar. Áin verður að vísu tær á vorin og allt fram í ágúst en þá breytist hún í grugguga jökulsá sem getur orðið með þeim stærri á landinu. Ástæðan er sú að aðeins 100 rúmmetrar af vatni fara á sekúndu um göngin austur í Fljótsdal og þegar áin er 5-800 rúmmetrar í hitaleysingum síðsumars fara því 400-700 rúmmetrar af dökkbrúnum flaumi um yfirfallið niður í Jökuldal.

Þótt talið sé að 80-90 prósent af aurnum í Jöklu setjist til í Hálslóni er þetta svo langaurugasta á landsins að afgangurinn gerir ána á yfirfallinu jafngrugguga og aðrar jökulár eru óstíflaðar.

Samanburður við Blöndu, miklu minna vatnsfall og hvergi nærri eins aurugt, er út í hött.

Ég á eftir að sjá að lax geti þolað svo stórkostlega og snögga árlega umbreytingu á vatnsfalli og blasir við að verður síðsumars ár hvert.

Í góðum vatnsárum mun þetta flóð hugsanlega koma í júlí og gaman væri að heyra álit sérfræðinga um laxagengd á þessu.

En auðvitað er langbest að lifa í trúnni á hin miklu búdrýgindi á alla lund sem óspart er haldið á lofti að Kárahnjúkavirkjun veiti þjóðinni.   


STAÐSETNING ÞJÓNUSTU.

Þegar flugvél fer í ársskoðun þarf að sinna nokkrum erindum og þá kemur í ljós hve mikill tími fer í erindi af þessu tagi hjá nútímamanni. Svona var þetta hjá mér að þess sinni: Frá flugvélaverkstæði í Skerjafirði með slökkvitæki til skoðunar í Borgartúni, sæti til lagfæringar í Ármúla, upp á Höfða að ná í málningu, en þá kemur í ljós að hún fæst í Skefunni. Farið í lyfjabúð í Kringlunni til að fá sjúkrakassa skoðaðan og vottaðan, síðan suður á Hvaleyrarholt syðst í Hafnarfirði með björgunarvesti til prófunar. Það tekur auðvitað tíma að reka erindið á hverjum stað.

En þetta er aðeins hálfur gerningurinn því að síðan tekur við annað eins ferðalag nokkrum dögum síðar vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið til þess að ná í hlutina, slökkvitækið, sætin, björgunarvestin og sjúkrakassann og fara með suður í Skerjafjörð, og aftur tekur tíma að reka erindið á hverjum stað.

Þetta ferðalag gefur athyglisverða vísbendingu. Ef dregin er lína frá Hvaleyrarholti um Ártúnshöfðann, Skeifuna, Borgartún og Kringluna sést vel að staðirnir sem þurfti að reka erindin á liggja út frá austurhluta Reykjavíkur. Þegar ég þurfti að reka sams konar erindi fyrir 20-30 árum lágu þessir staðir allir á svæðinu frá vesturhöfninni inn að Suðurlandsbraut.

Á hverju ári rekur maður sig á það að fyrirtæki flytji þjónustu sína í austurátt og til suðurs í Kópavog og Hafnarfjörð. Í fyrradag ætlaði ég að reka erindi í Borgartúni en fyrirtækið var flutt suður í Heiðarsmára. Tilviljun?  

Það held ég ekki. Mannkynssagan sýnir að byggð, verslun og þjónusta þróast í kringum krossgötur og samgönguæðar. Ef dregin er lína frá Reykjanesbæ upp í Mosfellsbæ eða jafnvel áfram til Akureyrar og síðan önnur lína frá Suðurlandi til borgarinnar mætast þessar línur á svæðinu Ártúnshöfði-Mjódd-Smárahverfi.

Þetta svæði er í vexti og ekkert getur stöðvað það nema plássleysi sem mun hrekja sumt af aukinni starfsemi til beggja átta, ekki í áttina að miðborg Reykjavíkur, heldur eftir ásnum Reykjanesbær-Mosfellsbær.

Ef menn hefðu verið framsýnni og haft víðsýni til að bera hefði verið reiknað með mun stærra svæði fyrir þjónustubyggðina í hinni óhjákvæmilegu nýju miðborg heldur en gert var. ´

Ég man þá tíð fyrir 50 árum þegar hlegið var að því að gera ráð fyrir nýjum miðbæ í sunnanverðri Kringlumýri og í allmörg ár virtust hrakspár um þennan miðbæ ætla að rætast. Svæðið stóð lengi autt og það sýndist ljóst að þetta væri tálsýn og svæðið þar að auki of stórt.

Fyrir allnokkru kom í ljós að svæðið var alltof lítið til þess að geta orðið nýr miðbær.

Staðsetning Morgunblaðsins segir kannski sína sögu. Fyrst í Austurstræti og Aðalstræti, síðan við Kringluna og nú við Rauðavatn.

Tökum dæmi um hliðstæður í nágrannalöndunum.  

Þegar ekið er þjóðleiðina norður með austurströnd Svíþjóðar liggur leiðin meðfram eða í gegnum miðborg Stokkhólms. Úr vestri enda þjóðleiðirnar frá Osló og Gautaborg í Stokkhólmi og mæta þar leiðinni norður austurströnd Svíþjóðar.

Þetta eru T-gatnamót alveg eins og eru hér heima þar sem Suðurlandsvegur mætir þjóðleiðinni Vesturlandsvegur-Reykjanesbraut.

Osló liggur líka á T-gatnamótum þjóðleiðarinnar fyrir botn Oslófjarðar og leiðarinnar þaðan norður til Þrándheims og á enda Noregs.

Munurinn á Stokkhólmi og Reykjavík er sá að miðborg Stokkhóms er í meginþjóðleiðiinni meðfram austurstönd landsins, en svokölluð miðborg Reykjavíkur liggur ekki við þjóðleið.

Miðborg Reykjavíkur lá í þjóðleið fyrir 1930. Þá lá þjóðleiðin lá úr austri niður að Reykjavíkurhöfn og þaðan á sjó norður og vestur um Faxaflóa. Þetta er liðin tíð.

Allar tilraunir til þess að gera "miðborg" Reykjavíkur að aðalmiðju frjálsrar verslunar og þjónustu eru dæmdar til að mistakast nema með óhemju róttækum aðgerðum sem myndu felast í því að gera þjóðbraut frá Hafnarfirði um Álftanes, Skerjafjörð, "miðborgina" og norður um Kollafjörð.

Jafnvel þetta allt myndi ekki nægja, - Mjóddin er í miðju T-gatnamótanna eftir sem áður.

Til þess gera "miðborg" Reykjavíkur að slíkri allsherjarmiðborg á ný þarf gríðarlegar samgönguframkvæmdir, ekki síst til þess að leysa þann vanda sem skapast af hinni auknu umferð sem sóst er eftir að beina til "miðborgarinnar".

Ég held að eina leiðin til að efla "miðborgina" sé að hið opinbera setji þar stofnanir sínar og menningarmiðstöðvar og að gera þar hið sama og gert var í borginni Santa Barbara í Kaliforníu, að að hafa þar gjaldfrjáls bílastæði.

Á þann hátt má gefa elsta hluta Reykjavíkur þokka og sjarma sem verður ólíkur streitukenndu yfirbragði verslunar- og þjónustuhverfanna á ásnum Ártúnshöfði-Mjódd-Smárahverfi.

 Ein þjóðleið liggur þó enn við "miðborgina". Það er þjóðleið innanlandsflugsins sem er forsenda fyrir því að Akureyri og Egilsstaðir hafi svipaða aðstöðu og Borgarnes, Akranes, Hveragerði og Árborg, en allir þessir staðir eiga tilveru sína undir því að þaðan er innan við klukkustundar ferð til Reykjavíkur.

Ef innanlandsflugið verður flutt upp á Hólmsheiði bætist enn ein þjóðleiðin við "öfugu" megin við ásinn Reykjanesbraut-Vesturlandsvegur/Sundabraut og sú hálf milljón manna sem kemur árlega flugleiðis til borgarinnar mun þá reka sín erindi í austanverðri borginni fremur en að fara vestur eftir Seltjarnarnesinu.     

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband