Eins gott að spila þetta rétt.

Allt frá Kóreustríðinu 1950-53 hefur það verið mikið vandaverk fyrir stórveldin að meta stöðuna rétt á þessum slóðum og haga sér í samræmi við það, - hvorki of né van. 

Sovétmenn pössuðu sig á því í Kóreustríðinu að taka ekki of beinan þátt í því að styðja við Norður-Kóreumenn en láta reyna á það hve langt Vesturveldin vildu ganga í hernaðaraðgerðum. 

Litlu munaði að Norður-Kóreumönnum tækist þá með sovéskum vopnum að ná öllu skaganum en svo illa vildi til fyrir Stalín, að fulltrúi hans í Öryggisráði SÞ tók ekki þátt í atkvæðagreiðslum þar einmitt um þessar mundir og því samþykkti ráðið að Bandaríkin leiddu fjölþjóðaher í nafni Sameinuðu þjóðanna til að verjast innrásinni.

Síðan gerðu Bandamenn þau mistök að leyfa Douglas MacArthur að leiða herferð norður eftir skaganum til að koma kommúnistum frá völdum.

Þetta gátu Kínverjar ekki sætt sig við og sendu her inn í Norður-Kóreu á móti her bandamanna, sem hrakti þá til baka að 38. breiddarbaugnum sem var hin upphaflega landamæralína.

Mac Arthur vildi beita kjarnorkuvopnum og Truman forseti rak hann þá úr embætti og Ridgeway tók við.

Þetta var mannskætt stríð og gangur þessi benti til þess að fyrir báða aðila snerist stríðsreksturinn um það að komast að því hve langt væri hægt að komast í beitingu hervalds.

Stalín hefði aldrei átt að taka það í mál að styðja Norður-Kóreumenn í upphafi og Bandaríkjamenn hefðu átt að láta nægja að hrekja Norður-Kóreumenn norður fyrir 38. breiddarbaug.  

Ástandið er að mörgu leyti svipað nú og stiginn mikill jafnvægisdans í yfirlýsingum og aðgerðum.  

 


mbl.is Kína uggandi yfir yfirlýsingu Bandaríkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Katla og Grímsvötn kallast á"

Ein af myndunum níu sem ég hef byrjað á, ber ofangreint heiti. Hún á að fjalla um svæðið frá Eyjafjöllum og Mýrdal norður og norðaustur til Vatnajökuls.p1012449.jpg

Þetta kom upp í hugann þegar ég fór með Helgu í dag til að sækja FRÚna, sem hafði bilað uppi í Veiðivötnum á sunnudagsmorguninn. 

Akstursleiðin og síðan flugleið mín þaðan til Hvolsvallar skartaði sínu fegursta í lágri kvöldsólinni og eru myndirnar á síðunni teknar í þessu ferðalagi okkar, - enn einu slíku sem við köllum nafninu "flug og bíll".  p1012465.jpg

Fyrir fimm árum sóttu orkufyrirtæki um að fá að fara inn á svæðið verstan Landmannalauga til tilraunaborana sem auðvitað var aðeins byrjunin á virkjanaframkvæmdum, því að svona fyrirtæki henda ekki milljörðum í slíkt án þess að vera nokkuð viss um framhaldið. 

Augljóst var að þetta var stórmál því að svæðið er efst á lista virkjanasinna sem orkumesta jarðvarmasvæði landsins og líka efst á lista náttúruverndarfólks. Ljósmyndirnar af þessu svæði sem ég smellti út um flugvélargluggann í kvöld gefa örlitla hugmynd um það. p1012452_1011018.jpg

Hluti þessa svæðis ber nafnið "Friðland að fjallabaki" en ljóst var að það myndi litlu máli skipta, því a bæði Valgerður Sverrisdóttir og Siv Friðleifsdóttir sögðu að friðanir þyrftu ekki að vera endanlegar, þeim mætti alltaf aflétta eftir þörfum. 

Þannig var friðun aflétt á sínum tíma af þeim hluta Kringilsárrana sem sökkt var undir Hálslón. p1012471.jpg

Í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár" færi ég rök að því að hálendið norðan Suðurjökla standi hinum fræga þjóðgarði Yellowstone framar sem náttúruverðmæti, en í hinu gríðarlega jarðvarma- og vatnsaflsorkubúnti Yellowstone og á svæði sem er stærra en Ísland í kringum þjóðgarðinn, eru allar boranir bannaðar, - punktur.

Ég rauk til fyrir fimm árum og fór margar ferðir að vetri og sumri bæði akandi og fljúgandi til þess að taka myndir á þessu yfirgripsmikla svæði. Fékk dálítinn styrk hjá Umhverfisráðuneytinu og eyddi honum og talsvert meiru í þetta kapphlaup mitt við orkufyrirtækin. 

Svo fór þó að leyfin voru ekki gefin en ný og ný svæði voru nú sett í aftökuröðina ásamt olíuhreinsistöðvum og á eftir öllu þessu neyddist ég til að hlaupa með myndavélarnar til þess  að reyna að koma af stað upplýstri umræðu í stað þess að enginn þekkti svæðin sem áttu að fara að virkja. 

Í umhverfisnefnd á landsfundi Samfylkingarinnar 2009 tókst mér að fá það samþykkt sem stefnu þess flokks að allt þetta svæði yrði gert að þjóðgarði og þar með friðað fyrir virkjunum. 

Ljóst er þó af nýjum og nýjum virkjanaáformum, sem dúkka sífellt upp, að baráttan er rétt að byrja fyrir því að verjast hinni skefjalausu ásókn í skjótfenginn skammtímagróða á kostnað komandi kynslóða. 

 


Kemur vonandi ekki til Íslands.

Það er eitt aðalatriði stemingar á íþróttavöllum að það heyrist í börkum og höndum áhorfenda. Ærandi lúðrasuð sem yfirgnæfir allt annað drepur þessa stemningu.

Ég minnist þess frá æskuárum hvað það var skemmtilegt að vera á Melavellinum eða jafnvel utan hans og heyra rokurnar í áhorfendum sem skullu eins og öldur á næsta nágrenni hans, ýmist fagnaðaröldur, vonbrigðaöldur eða æsingaröldur. 

Ef stanslaus og ærandi vuvuselahávaði yfirgnæfir allt er verið að eyðileggja steminguna sem er aðalatriði hvers leiks, mismunandi hvatningarsöngva og klapp þar sem stuðningshópar liðanna eru líka að keppa á áhorfandapöllunum.

Ef þörf verður á er það sjálfsagt mál að banna notkun svona tækja hér á landi. 


mbl.is Tottenham bannar vuvuzela
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FRÚin minnir á minnisstætt atvik.

P1012395

Ég fór í myndatökuferð eldsnemma í gærmorgun frá Hvolsvelli og var ætlunin að taka myndir á leiðinni Hvolsvöllur-Eyjafjallajökull-Katla-Eldgjá-Lakagígar-Langisjór-Veiðivötn-Hrafntinnusker-Markarfljót-Hvolsvöllur.

Með í för voru dagskrárgerðarkona og íslenskur leiðsögumaður hennar frá BBC að undirbúa vandaðan þátt um hina einstæðu íslensku eldfjallanáttúru.

Breska dagskrárgerðarkonan kvaðst aldrei hafa getað ímyndað sér aðra eins flugleið og það er tilhlökkunarefni hvernig hún og félagar hennar fjalla þegar þar að kemur um þetta.

Efsta myndin í þessum pistli var tekin í þessari ferð.  

P1012417

En í þessari ferð stal farkosturinn, TF-FRÚ, senunni eftir að við lentum á flugvellinum í Veiðivötnum. 

Hún fór ekki gang, sama þótt ég notaði öll brögðin í bókinni og úr 44 ára reynslu. Mig grunaði hvað væri að og greindi þeim frá því. Í flugvélum eru tvö kveikjukerfi, sem eru jafnan prófuð fyrir flugtak eftir að hreyfillinn er kominn í gang.

Ekkert athugavert hafði fundist fram að þessu. En mig grunaði að hið sama hefði gerst og í janúar 1983 þegar FRÚin fór ekki í gang þar sem hún stóð á ísi á miðjum Skeiðarársandi.

P1012435

Á annarri kveikjunni er svonefnd impuls kúpling og sér um að koma straumnum inn á kveikjukerfið þegar gangsett er.

Við rannsókn eftir atvikið 1983 kom í ljós að þessi búnaður hafði bilað og að ekki gat komist straumur á kerfið fyrr en í fyrsta lagi við 1500 til 1800 snúninga á mínútu.

Enginn startari getur snúið skrúfu svo hratt. Þessi bilun hefur hins vegar ekkert með öryggi flugvélarinnar á flugi að gera, heldur einungis við gangsetningu á jörðu niðri.

1983 voru góð ráð dýr. Myrkur var að skella á og enginn flugvirki, hvað þá önnur kveikja við hendina.

Spáð var að hvessti með rigningu og það þýddi að flugvélin myndi fjúka eftir ísnum og lenda ofan í einhverri af kvíslum Núpsvatna. 

P1012435

Engar fréttamyndir myndu birtast í kvöldfréttatíma Sjónvarpsins.

P1012439

En ekki þýddi að gefast upp. Við vorum þarna vegna skipstrands og einn björgunarbíllinn, sem var þarna á ferð, gat hjálpað vil við að auka rafstrauminn í startinu í þeirri veiku von að hreyfillinn hrykki í gang.

En til þess að koma straumi á milli varð að losa vélarhlíf flugvélarinnar og lyfta henni upp að aftan. Ekki þýddi að losa hlífina alveg því þá var engin leið að festa hana aftur vegna vindstraumsins frá skrúfunni ef hreyfillinn færi í gang.

Ef hann færi í gang yrði ekki hægt að drepa á honum aftur af augljósum ástæðum. 

Það þurfti því að halda hlífinni stöðugri á meðan flugmaður gangsetti vélina. Að mínu mati kom ekki til greina að neinn annar en ég réðist í það vandasama og hættulega verkefni að halda hlífinni, en vegna þess hve þröngt var á milli hennar og skrúfunnar mátti engu muna að höndin yrði fyrir hnjaski.

Prófað var að snúa skrúfunni og kom í ljós að hún straukst við hnúana.

En þá var annað óleyst mál. Ég var eini flugmaðurinn á svæðinu og vandasamt var að gangsetja vélina og ekki mögulegt nema fyrir vanan mann. Ég gat ekki bæði haldið hlífinni og gangsett.

Þá vildi svo til að Helgi Jónsson flugmaður flaug þarna yfir á fjögurra sæta vél sinni af Piper Arrow gerð með öll fjögur sæti vélarinnar setin. Það var með semingin að ég fór þess á leit við Helga að hann lenti hjá mér og hjálpaði mér.

P1012440

Flugvél hans var miklu viðkvæmari en mín og þurfti mun lengri braut í lendingu og flugtak við þessar erfiðu aðstæður langt utan flugvalla á miðjum Skeiðarársandi.

En mér til undrunar brást Helgi vel við og lenti. Þetta er eitthvert mesta vinar- og drengskaparbragð sem mér hefur verið sýnt um ævina.

Helgi settist nú í flugmannssætið, ég hélt hlífinni, björgunarsveitarbíllinn gaf straum og gangsetningin hófst. Þetta virtist vonlaust en það mátti reyna.

Skrúfan straukst eftir hnúunum á mér og þetta varð að heppnast strax. Og hið ótrúlega gerðist, vélin fór í gang!

Það var vandaverk að festa hlífina og skrúfan hafði skafið húðina ofan af hnúum mínum. En að lokum hafðist þetta.

Þegar kveikjurnar voru athugaðar í Reykjavík, lét Guðjón Sigurgeirsson flugvirki í ljós mikla undru yfir því að hreyfillinn skyldi hrökkva í gang því að það hefði ekki átt að vera hægt !

Ég varð að skilja vélina eftir í gær og fara landleið í áföngum ofan af hálendinu og fá lánaða aðra flugvél, TF-TAL, sem ég notaði við kvikmyndatökur í morgun og fram eftir degi.

Síðan mælti ég mér mót við Guðjón Sigurgeirsson á Selfossi og við flugum inn í Veiðivötn til að setja aðra kveikju í vélina.

P1012439

Hún fór eftir það í gang, en við fórum til baka og urðum að skilja FRÚna eftir því ekki gat ég flogið tveimur flugvélum !

Á morgun bíður það verkefni mín og Helgu að aka inn eftir og sækja FRÚna.

Svona getur einn lítill hluti af lítilli kveikju í flugvél skapað mikið bardús og vesen.

En samt er það svo að um þetta eiga við orð Norðmanns, sem var okkur bræðrum, Jóni og mér, hjálplegur þegar við tókum þátt í heimsmeistarakeppni í ralli í Svíþjóð árið 1981: "What is rally without problems? Nothing!"  

Afsakið að vegna tæknlegra mistaka er birtast tvær myndanna tvisvar. 


Staðreyndirnar á borðið.

Á tímabili höfðu margir horn í síðu mjólkurinnar og töldu offituvandamál meðal annars stafa af hennar völdum.

Ég var einn af þeim sem lagði trúnað á þetta án þess að lesa mér til um hve mikil fita væri í mjólkinni. 

Þegar ég síðan vegna ákveðins tímabundins heilsuvandamáls fór að lesa tölurnar á umbúðum þeirrar fæðu sem ég neytti kom það mér á óvart hve miklu minni fita var í mjólkinni en ég hafði haldið og að í brauði og haframjöli var hins vegar mun meiri fita en ég hafði haldið. 

Þegar þess utan er hægt að kaupa léttmjólk, fjörmjólk og undarnrennu sem hafa sáralitla fitu og fáar hitaeiningar er varla hægt að líta lengur á mjólkina sem rót offituvandans.

Í smjöri og smjörva er innihaldið hins vegar allt að 80% fita og allar súkkulaðivörur eru með að minnsta kosti 30% fitu auk hvítasykurs.

Tölurnar tala sínu máli og þær eru staðreyndirnar sem þarf á matarborðið.  


mbl.is Kúamjólk bara fyrir kálfa?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæða blíðunnar á Suðurlandi.

Veðurblíða hefur á sér ýmsar sérstakar hliðar í hverjum landshluta. Suðurlandslundirlendið er stærsta láglendissvæði landsins, en þó er lítill munur á stærð þess undirlendis og þess sérstæða undirlendis sanda sem  er á Suðausturlandi.

Vegna stærðar Suðurlandsundirlendisins  getur veðufar þar oft ráðist af staðbundnum aðstæðum þegar það hitnar upp á sólardlögum eða kólnar við það að sól sest.

Getur skapast þar sérstakt veðurkerfi þegar það hitnar upp og hitalægð yfir því stýrt vindum í hringi á móti ríkjandi vindátt yfir landinu. 

Upphitun Suðurlandsundirlendisins getur líka valdið því að kalt loft frá hafinu norðanlands dragist suður yfir heiðarnar mllli Húnaflóa og Borgarfjarðar svo að það ríkir köld norðaustanátt í Borgarfirði og suður um Hvalfjörð eins og gerðist í gær

Þessi sólfarsvindur getur orðið sterkur þótt í loflögunum yfir landinu ríki suðaustanátt. p1012332.jpg

Með þessum pistli fylgja myndir af  dalalæðunni sem oftl leggst lágt yfir Suðurlandsundirlendið eða hluta þess þegar sólin sest, landið kólnar hratt og raki frá yfirborðinu þéttist í svo þunnri lágþoku að þök sumar bændabýlanna standa upp úr. p1012330.jpg

Á myndunum er hort til norðurs yfir miðjar Landeyjarnar með Rangárþing eystra og vestasta hluta Fljótshlíðar í baksýn og eins og jafnan er hægt að sjá betur smáatriði í myndunum með því að smella tvisvar á þær. 


mbl.is Bongóblíða í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kem af fjöllum, - á varla orð.

Ég var á ferð í gær með Andra Frey Viðarssyni til að taka upp í framlag okkar til dagskrár Rásar tvö á föstudögum og laugardögum.

Fór beint frá Skagaströnd austur á Hvolsvöll til að yrkja kvikmyndagerðarakurinn í nótt og í morgun, - skrapp síðan í bæinn til að efna loforð um þátttöku í Vikulokunum á Rás 1 og er á leið til baka út á starfsvettvanginn í íslenskri náttúru.

Ég virðist hafa vitað minnst allra um einhvert óvæntasta atvik, sem mig hefur hent á lífsleiðinni, og kem af fjöllum í bókstaflegri merkingu. Minnist að vísu símtals um hádegi í gær þar sem við Andri vorum á fullu og ég heyrði lítið í manninum í símanum, heyrði eitthvað um Facebook og hann héti Friðrik. 

Bað hann um að hringja aftur á eftir hádegi á morgun þegar hugsanlega yrði hlé á hamaganginum hjá mér. 

Rekst síðan núna á þessa frétt í mbl.is sem gerir mig orðlausan, hrærðan og þakklátan yfir þessari óvæntu uppákomu.

Get ekkert sagt annað en að nú geta hjólin farið að snúast í verkefnum mínum og ég gríp til orða Churchills sem hann sendi Roosevelt í stríðinu: "Give me the tools and I will finish the job".

Það mun ég reyna að gera með innilegu þakklæti til þeirra sem vilja leggjast með mér á árarnar.  

 

 

 


mbl.is Ómar Ragnarsson fær milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brautryðjandinn á sviði hjólhýsa.

Á ferð um landið eins og ég fór í dag með Andra Frey Viðarssyni var mikil umferð bíla með tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi í eftirdragi.

Okkur finnst þetta sjálfsögð sjón en hún var það ekki þegar Hallbjörn Hjartarson á Skagaströnd hóf að flytja frönsk hjólhýsi inn til landsins fyrir um 40 árum. 

Í viðtali, sem við Andri tókum við hann í dag og flutt verður í "Prinsinum", þætti Andra á morgun, sagðist hann alls hafa flutt inn 45 hjólhýsi. 

Miðað við allar auglýsingarnar sem hann birti til að kynna þessa nýjung er ekki líklegt að hann hafi grætt mikið á þessu. 

En Hallbjörn hefur aldrei farið troðnar slóðir og um hann má segja að "fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá." 

Árum og áratugum saman mætti hann litlum skilningi á þeim möguleikum sem frumlegt framtak hans varðandi Kántríbæ gáfu. 

Í viðtalinu á morgun förum við yfir það mál og kynnum okkur hagi og hug þessa sérstæða manns og brautryðjanda, sem hefur mestallt sitt líf þurft að hafa vindinn í fangið. 


mbl.is Ökumaður jeppans handtekinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleira sem skapar hættu.

Fleira skapar hættu á vegum en of hraður akstur miðað við aðstæður. Eitt slíkt athyglisvert atvik átti sér stað á hringveginum í dag.

Tvær bílaraðir nálguðust hvor aðra. Ég var á næstfremsta bíl í annarri þeirra og bílstjórinn á bílnum fyrir framan mig fór að færa sig til hægri og stefndi inn á allangt útskot sem var á veginum. 

Hélt ég í fyrstu að hann ætlaði að stöðva bílinn þar og hleypa um leið mér og þeim sem á eftir mér voru fram úr sér. 

Á síðustu stundu sá ég að afleggjari lá þvert til vinstri frá veginum á móts við útskotið og það kveikti aðvörunarljós í huga mér sem olli því að í stað þess að halda rakleitt áfram á sömu ferð, hægði ég á mér. 

Þetta reyndist bjarga því að þarna yrði stórárekstur því að nú sveigði bíllinn fyrir framan snöggt til vinstri inn að miðju vegarins, lokaði fyrir möguleika á að halda áfram án þess að lenda framan á bílaröðinni sem koma á móti, og ætlaði augljóslega að aka út á afleggjarann, sem þarna lá til vinstri.

Ekkert stefnuljós hafði verið gefið en vegna þess að ég hafði hægt mikið á, tókst mér að bregðast við þessu tiltæki og fara hið snarasta til hægri og nota útskotið, sem þar var til að komast fram úr þeim megin. 

Stórhættulegt hefði verið að nauðhemla vegna þess að þá var hætta á að bílarnir fyrir aftan mig hefðu lent í keðjuárekstri aftan á mig og einhverjir jafnvel kastast til hliðar í veg fyrir bílaröðina sem kom á móti. 

Ef ég hefði ekki tekið eftir afleggjaranum og slegið af hefði orðið þarna stórárekstur tveggja bílaraða sem mættust þarna. 

Hegðunin sem ég lýsti hér, er algeng í íslenskri umferð. Ekkert stefnuljós er gefið en tekin "hreppstjórabeygja", þ. e. fyrst sveigt til hægri til að rúnna af beygju til vinstri. 

 


mbl.is Mikið um hraðakstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pyntingar - háþróuð fræðigrein.

Pyntingar hafa ætíð verið feimnismál hjá öllum þjóðum, - líka Íslendingum. Ástæðan er sú að fæstir vilja viðurkenna að slíkt viðgangist í þjóðfélagi þeirra. 

Hér á landi eru lýsingar Einars Bollasonar og Magnúsar Leopoldssonar helstu gögn um þær aðferðir sem hér var beitt, en höfuðatriði þeirra var að ekki væri hægt að sjá á föngunum líkamlega að þeir hefðu verið pyntaðir, mest andlega.

Einar og Magnús, báðir saklausir, voru svo langt leiddir að litlu mátti muna að þeir játuðu á sig upplognar sakir. Voru þeir þó ekki í fangelsi nándar nærri eins lengi og þeir, sem verið hafa í fangabúðum í öðrum löndum, eins og til dæmis í Guantanamo.

Ein lúmskasta pyntingaraðferðin er að halda vöku fyrir föngum og hefur lýsing á því hvernig það var og er gert í Guantanamo komið fram.

Það byggist á því að vekja fangann jafnóðum og hann sofnar og koma þannig í veg fyrir að hann falli í nógu djúpan svefn til að viðhalda andlegu þreki.

Sjálfur hef ég orðið fyrir þessu ásamt hópi Íslendinga sem hafa fengið svonefnda stíflugulu af völdum lifrarbrests. Gulan veldur ofsakláða og vegna þess að lifrin er að mestu óstarfhæf, er ekki hægt að taka nein lyf og afleiðingin er stöðugur ofsakláði sem rænir viðkomandi svefni. 

Í mínu tilfelli hélt það mér á floti að ég var þrátt fyrir allt að fást við krefjandi verkefni og var gefin sú von að þessu ástandi myndi létta eftir tvo mánuði.

Þegar ekkert lagaðist eftir tvo mánuði kom stærsta áfallið, - að þetta gætu orðið þrír mánuðir eða jafnvel lengri tími en það. Samt var það vonin um bata sem hélt manni á floti þótt þrekið væri orðið lítið.  

Mun stærri hópur en upplýst hefur verið um hefur lent í þessu hér á landi vegna nauðsynlegrar og gríðarlega öflugrar notkunar sterkustu sýklalyfja til þess að drepa skæðar sýkingar. Er lyfið Augmentin sterkasta lyfið en jafnframt það sem gengur næst lifrinni. 

Þegar um tvennt er að velja, að láta sýkinguna hafa yfirhöndina og ganga frá manni eða að taka áhættu af því að lifrin bresti, er ákvörðunin einföld, að taka áhættuna við að taka lyfið.  

Ég hef í gamni lagt til við þá sem ég hef kynnst og hafa orðið fyrir þessu að við stofnuðum klúbb sem héti Guantanamo-klúbburinn því að við þekktum þessa vinsælustu pyntingaraðferð hernaðar- og lögregluyfirvalda heimsins. 

Ég missti 16 kíló og drjúgan hluta af blóðinu á meðan á þessu stóð í þrjá mánuði, og Eiríkur Haraldsson, sem lenti í þessu fyrir mörgum árum og átti miklu lengur í þessu, hefur sagt mér frá því að í lokin hafi í alvöru komið til greina að flytja hann á geðveikrahæli og að hann hefði sjálfur verið kominn á það stig að sætta sig við það. 

Ég minnist þess dags ætíð með mikilli gleði þegar ég í fyrsta sinn eftir ofsakláðann og svefnleysið ók heill á litla opna Fiatinum mínum í sólskini, - hve óskapleg sú nautn var að geta aftur setið heill í sólinni og notið þess að vera til án þjáningar, - hve dýrmætur hver slíkur dagur er fyrir okkur öll og hve mikið við megum þakka fyrir að fá að njóta slíks og gleðjast yfir því sem okkur finnst venjulega svo lítið en er í raun svo stórt.

Í hverju þjóðfélagi er ævinlega réttlætt að beita verði pyntingum. Á tímum Geirfinns- og Guðmundarmálsins var réttlætingin sú að þjóðarnauðsyn væri að koma lögum yfir harðsvíraða meinta glæpamenn, jafnvel þótt ekkert lík fyndist, ekkert morðvopn og engin ástæða til morðanna.

Í lokin lýsti þáverandi dómsmálaráðherra yfir að þungu fargi væri létt af þjóðinni.

Þegar andrúmsloftið er slíkt þykja pyntingar eða harðræði við að fá fram játningar smámál, - því miður.  


mbl.is Amiri segist hafa verið pyntaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband