15.7.2010 | 22:19
"...birkið ilmaði, allt var hljótt..."
Við hjónin ókum inn í Þórsmörk síðastliðinn sunnudag til að sjá með eigin augum áhrif öskufalls á þetta vinsæla útivistarsvæði.
Myndirnar með þessum pistli eru teknar í ferðinni á síðustu kílómetrunum inn að Básum og beftirtektar vert hvað litiirnir eru víða með blágráum blæ sem felur í sér nýja fegurð.
Skemmst er frá því að segja að með ólíkindum var hvað svæðið leit betur út nú en það leit út úr lofti eftir að mestu öskugusurnar dundu yfir það meðan á gosinu stóð.
Að okkar dómi er það aldeilis fráleitt að Íslendingar forðist að koma þarna inneftir á þeim forsendum að þar sé aska til trafala á jörðu niðri og fjúkandi í loftinu.
Þvert á móti fannst okkur það stórkostleg upplifun að sjá hvernig lífríki Goðalands og Þórsmerkur bregst við öskunni, teygir sig upp úr henni og nýtir sér efni í henni sem örvar vöxt og viðgang.
Þar að auki er miklu betra bílfæri inn eftir en var í fyrra eftir rigningaflóð sem þá komu og gerðu veginn og vöðin illfær og varasöm.
Vegna gossins fór Vegagerðin inneftir á dögunum og lagfærði veginn stórlega svo að nú er ekkert mál að fara inn eftir á jeppum af öllum stærðum.
"Ofarlega mér er í sinni
að það var fagurt í Þórsmörkinni, -
birkið ilmaði, allt var hljótt,
yfir oss hvelfdist stjörnunótt..."
orti Sigurður Þórarinsson á sínum tíma og það á svo sannarlega við í dag.
Fegurð Þórsmarkar nú er fólgin í því að litirnir eru víða öðruvísi en áður, mismunandi mótaðir af öskufallinu en á hraðri leið til að verða hinir sömu og var.
Ef notað er leitarorð í sérstökum dálki á bloggsíðunni má finna pistil um ástand Þórsmerkur frá því snemmsumars, sem er orðinn úreltur að mestu, sem betur fer.
Auðvitað er mikilsvert að hreinsa öskuna þar sem hún getur orðið hvimleið og ber að fagna framlagi Pokasjóðs til þess verkefnis, sem tilkynnt var í dag.
En það er líka ástæða til að hjálpa til við þetta með því að fara inneftir og njóta þjónustu þeirra aðila sem annast hana á þessu svæði svo að þeir missi ekki tekjur, sem mikil þörf er á að minnki ekki.
![]() |
Iðjagrænt í Þórsmörk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.7.2010 | 19:49
"Blönduóslöggan æði oft..."
Ef bíla snögga ber við loft
brátt má glögga sjá,
því Blönduóslöggan æði oft
er að "bögga" þá.
![]() |
Fylgst með umferð í Húnavatnssýslum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.7.2010 | 14:31
"Á flandri!"
Sumarið er svo stutt á Íslandi að það er mikils virði fyrir alla að njóta eins mikillar útiveru og kostur er.
Ferðamöguleikarnir eru óteljandi, jafnvel þótt tími og fjárráð séu að skornum skammti, allt frá gönguferðum í næsta nágrenni til hjólaferða, hestaferða, vélhjólaferða, bílferða, bátsferða eða flugferða.
Í svona ferðum á lífsgleðin að fá að blómstra með þökk fyrir hvern einasta dag sem við fáum að lifa á þessari jörð.
Og kynslóðirnar geta tengst og átt góðar stundir saman.
Í þessum anda skruppum við Andri Freyr Viðarsson í hjóðver í gær og sungum lagið "Á flandri", íslenskan texta við lag sem Ian Durie flutti á sínum tíma og hét þá "Hit me with your rythmstick."
Á milli okkar Andra eru tvær kynslóðir svo að það er líkt og afinn og strákurinn hafi náð saman í stuðinu.
Það er búið að setja lagið efst á tónlistarspilarann til vinstri á bloggsíðunni minni og hægt að spila það með því að smella á örina.
Þess má geta að spjall okkar og spuni á milli erinda var gersamlega óundirbúið og fyrsta taka látin standa.
Þess vegna verður fólk bara að reyna að ráða í það hvað við erum að muldra ef það er forvitið, - það er hvergi til skrifað.
Ég er búinn að vera í svonefndum "sessionum" eða upptökum í hálfa öld en hef aldrei hitt fyrir eins gersamlega eldkláran spunakarl og Andra Frey í upptökunni í gær.
Vilhjálmur Guðjónsson sá um tónlistarflutninginn og upptökuna og hljóðfæraleikurinn nýtur sín best ef menn geta hækkað hljóðið duglega við spilun.
Á morgun verðum við Andri líklega á flandri fyrir norðan í sveitinni þar sem ég var fimm sumur í sveit, enda Húnavakan á fullu.
![]() |
Útlit fyrir gott helgarveður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.7.2010 | 19:18
Rússnesk rúlletta í umferðinni.
Maður sem ekur alla sína tíð á vegum sem hafa eina akrein í hvora átt veit aldrei hvenær að því geti komið að bíll, sem kemur á móti, komi skyndilega yfir á hans akrein.
Oftast gerist þetta vegna þess að menn dotta undir stýri en það getur líka gerst ef bílstjóri fær hjartaáfall eða heilablóðfall sem hann gat með engu móti séð fyrir.
Vinur minn og skólafélagi, Almar Grímsson, varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu skammt frá Hvalfjarðargöngunum í vor að bíll, sem kom á móti honum, beygði skyndilega í veg fyrir hann.
Almar bjargaði sér frá árekstri með því að aka út af og við það valt bíll hans. Hann slapp að mestu við meiðsli en þetta var sálrænt áfall.
90 kílómetra hámarkshraði á svona þjóðvegum er miðaður við þá hættu sem þeir bjóða upp á, en væri hraðinn meiri yrði skemmri tími til að bregðast við svona uppákomum og árekstrarnir yrðu líka miklu harðari.
Ég hef það fyrir reglu að skoða að jafnaði næsta umhverfi veganna sem ég ek á til að geta brugðist við ef einhver ekur skyndilega í veg fyrir mig. Þetta lærði ég í rallilnu á sínum tíma og það hjálpar við að finna skástu undankomuleiðina og komast hjá því að velta bílnum, sem er aðalatriði í svona tilfelli.
Atvikið 18. desember síðastliðið sýnir að það er enginn óhultur, sama hve vel hann ekur, þegar bílar sem koma á móti eiga greiða leið yfir á rangan vegarhelming. Skiptir þá engu þótt akreinar séu á móti tveimur og aðskildar með auðu svæði.
Ekki nóg með það, heldur varð slysið 18. desember við þær aðstæður að lægðin á auða svæðinu á milli akbrautanna virkaði eins og stökkpallur fyrir bíl mannsins sem fékk hjartaáfallið, svo að hann tókst á loft þegar hann kom upp á gagnstæða akbraut og fór inn um framrúðu bílsins sem kom á móti.
Í þessu tilfelli hefði verið skárra ef auða svæðið hefði verið alveg slétt. Lægðin er höfð til þess að bílar komist síður yfir á gagnstæða akrein og líklega hamlar hún því í flestum tilfellum.
En þó ekki öllum eins og dæmin sýna. Eina vörnin sem dugar er að hafa vegrið mitt á milli akbrautanna. Upplýst hefur verið það muni kosta um 500 milljónir króna að reisa þau á þeim stöðum þar sem háttar til eins og við Hafnarfjarðarveg.
Á sínum tíma var reiknað kalt út að hvert mannslíf sem glatast í banaslysi kosti þjóðfélagið um 200 milljónir krónar hið minnsta á núvirði. Er þá ekki metin til fjár þjáningar og óbeint tjón.
Þetta sýnir að aðeins eitt banaslys á Hafnarfjarðarvegi 18. desember síðastliðinn kostaði í köldum beinum peningum meira en að reisa þessi vegrið.
Í umferðinni tökum við þátt í rússneskri rúllettu sem á stórum vegarköflum er spiluð gersamlega að óþörfu og veldur ómældu og óbætanlegu tjóni.
![]() |
Ökumaður fékk hjartaáfall |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.7.2010 | 11:53
Minnir á Grímsvötn og Kverkfjöll.
Magnús Tumi Guðmundsson hefur rannsakað Grímsvötn og Kverkfjöll um árabil og verið leiðangursstjóri Jöklarannsóknarfélags Íslands í árlegum rannsóknarferðum.
Hann og aðrir íslenskir kunnáttumenn þekkja því vel hvað gerist á eldvirkum svæðum þar sem gos verða undir jökli.
Bæði í Grímsvötnum og í Kverkfjöllum hafa verið lón sem hafa verið sjóðheit en samt umkringd ísveggjum og með fljótandi íshröngli.
Annað af tveimur lónum í Kverkfjöllum tók upp á því að hverfa fyrir nokkrum árum en kom síðan aftur.
Það ætti því ekki að koma á óvart að lónið á tindi Eyjafjallajökuls hverfi og komi jafnvel aftur, þótt það verði að teljast ólíklegt.
Á myndinni af gígnum sést öskuþröskuldurinn vel handan lónsins innan í gufustrókum og í gegnum gufumökkinn grillir í svarthvíta ísturna við upphaf ísgjárinnar, sem liggur handan jökulsins niður um miðjan Gígjökul, en í botni þessarar ísgjár liggur hraun, sem rann í gosinu, og er þessi sjón aldeildis einstök á heimsvísu.
Þetta nýrunna hraun hefur þá sérstöðu að þetta er í fyrsta sinn á sögulegum tíma sem menn hafa orðið vitni að því að hraun bræði skriðjökul ofan af sér.
Það er vegna hagstæðra aðstæðna. Jökullinn er mun þynnri en Vatnajökull og brattinn hefur auðveldað hrauninu að renna og bræða ofan af sér hægt og bítandi.
Vonandi verður kyrrðarástand Eyjafjallajökuls varanlegt þannig að goslokahátíðin glæsilega í fyrrakvöld standi undir nafni.
En í ljósi reynslu í fyrri gosum verður þó að hafa varann á þangað til fullreynt er að svipað gerist ekki aftur á næstu árum.
Greinilegt er að til þess að goslokin breytist í goshlé þarf eitthvað mikið að gerast og engan veginn víst að það verði í Eyjafjallajökli heldur í Kötlu, sem ævinlega verður að hafa gát á, að ekki sé minnst á Heklu, sem er "komin á tíma."
![]() |
Eitt öflugasta hverasvæðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.7.2010 | 23:06
Minnir á olíuhreinsistöðina.
Frábær rannsóknarblaðamennska fréttaskýringaþáttarins Kompáss á sínum tíma fletti ofan af því hvernig Íslendingar ætluðu að fórna einum fegursta stað Vestfjarða fyrir olíuhreinsistöð í eigu rússneskra fjárglæframanna.
Í Vesturbyggð var byrinn yfirgnæfandi með þessu og sveitarsjórinn sagði glaðhlakkalegur að það væri ekki spurning um hvort heldur hvenær stöðin yrði reist, - líkurnar væru 99,9%.
Aðeins nokkur ár þangað til búið væri að reisa stöðina sem myndi "bjarga" Vestfirðingum.
Á ferð þarna vestra þorði maður varla að nefna þetta mál af ótta við að vera úthrópaður óvinur fæðingarbyggðar konunnar minnar númer eitt, alls staðar sáu menn gull og græna skóga gróðans við að taka að sér verksmiðjuskrímsli sem er svo óvinsælt á Vesturlöndum að engin ný svona stöð hefur verið reist þar í tuttugu ár, - það vilja engir hafa þetta hjá sér frekar en svæði fyrir kjarnorkuúrgang.
Kompás rakti hvernig væntanlegir eigendur stöðvarinnar fóru að því að stunda ósvífið peningaþvætti þar sem risaupphæðir ferðuðustu um fjármálakerfi margra landa uns þær hurfu austur í hið stóra Rússland.
Kompásfólkið fann líka skúffufyrirtækið í Skotlandi, sem skrifað var fyrir væntanlegri olíuhreinsistöð og hafði hvorki síma né skrifstofu ! Í opinberum reikningum þess voru útgjöld og tekjur nokkur hundruð sterlingspund !
Skúffufyrirtæki eru ekki hátt skrifuð frekar en önnur tæki sem eru notuð til þess að fara á svig við lög og vinna gegn tilgangi þeirra eins og skúffufyrirtæki Magma Energy í Svíþjóð.
En dæmið um Magma og olíuhreinsistöðina miklu fyrir vestan sýnir að það virðist ekki þurfa annað en veifa seðlum framan í Íslendinga til þess að þeir hlaupi upp til handa og fóta hrópandi: "Take the money and run !"
Aðdragandi hrunsins byggðist á þessu allt frá upphafi þenslunnar með Kárahnjúkavirkjun til myntkörfulánanna og aðdraganda Magma-málsins, sem hófst vorið 2007 í höndum Finns Ingólfssonar og annarra sem koma aftur og aftur við sögu þegar svona mál fara í gang.
![]() |
Íslensk lög einungis útskýrð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
11.7.2010 | 17:34
Öðruvísi hátíðir.
Mýrarboltamótið, sem haldið verður á Ísafirði, mætti kalla öðruvísi hátíð. Það var Goslokahátíðin á Skógum líka í gærkvöldi og raunar mun einstæðari viðburður en flest það sem gerist nú um stundir hér á landi, því aðeins einu sinni áður hefur slík hátíð verið haldin, eftir Heimaeyjargosið 1973.
Um 4-500 hundruð manns komu á hátíðina sem var hreint einstök, ekki hvað síst þegar hinn 89 ára gamli Þórður í Skógum söng og spilaði á langspil á aldeilis einstakan og óborganlegan hátt.
Gleðin og samheldnin sem skein út úr hverju andliti var ógleymanleg. Hátíðin var dæmi um það hvernig fólk getur við erfiðar aðstæður séð það jákvæða í öllu og fundið eitthvað til að gleðjast yfir.
Þær raddir hafa heyrst að ekki sé víst að Eyjafjallajökull sé hættur, - hann hafi áður sýnt að hann geti farið af stað að nýju eins og í gosinu fyrir tæpum 180 árum og þess vegna eigi ekki að halda neina hátið fyrr en öruggt sé að slík gerist ekki.
Á móti kemur að auðvitað er það ánægjuefni að gosinu, sem hófst í vor, hafi lokið, að minnsta kosti í bili. Jafnvel þótt það taki sig upp í haust eða á næsta ári sé full ástæða til að fagna svo eindregnu goshléi.
Meðal þess sem var mitt erindi við hið glaðbeitta fólk, var eftirfarandi texti við nýtt lag:
Við ysta haf ver eyjan okkar köld
og engin höfðum við í heimi völd.
Og okkur þótti auðvitað mjög leitt
að enginn vildi vita´um okkur neitt.
En Eyjafjallajökull til sig tók
og topp sinn hristi´og landið ákaft skók.
Hann frægð okkar um víða veröld bar.
Nú vita allir hver við erum og hvar.
Hann stoppaði Angelu og Obama
og alla frægustu fótboltahópana.
Um Ermasund þá engin flugvél flaug.
Með flugbanni hann vakti´upp gamla draug:
bægði öllum flugvélum frá Evrópu,
sem ekki Hitler tóks í stríðinu.
Hann frægð okkar um víða veröld bar.
Nú vita allir hver við erum og hvar.
Af frægð hans núna finnst mér komið nóg.
Og flestir segja´hann megi hvíla í ró.
Eyjafjallajökull, ekki meir !
Ekki meiri aska eða leir !
En ef hann síðar aftur gjósa fer
einhvern mun þá kannski hugga hér
að hann frægð okkar um víða veröld ber.
Þá vita allir hvar þessi andskoti er !
Nú höldum við goslokahátíð, -
hátíð sem telst afar fátíð.
Við gosið við skiljum
og gjarnan við viljum
að það verði áfram í þátíð.
![]() |
Keppt í drullulangstökki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.7.2010 | 17:03
Farið í kringum lögin og tilgang þeirra.
Það er túlkunaratriði og raunar orðaleikur hvort það teljist ráðleggingar þegar iðnaðarráðuneytið fer með Magma Energy yfir alla lagalega möguleika á því hvernig erlent fyrirtæki geti eignast íslenskt orkufyritæki.
Minna má á það að í lögfræðilegum álitaefnum er oft grafist fyrir um tilgang viðkomandi laga og tilgangur laganna er skýr um að aðilar utan Evrópska efnahagssvæðisins megi ekki eignast orkufyrirtæki hér á landi.
Það er augljóslega farið á svig við þennan tilgang með því að dótturfyrirtæki Magma í Svíþjóð sé látið eiga HS orku á pappírnum. Vilmundur heitinn Gylfason notaði um gjörðir af þessu tagi orðin: "Löglegt en siðlaust".
Línurnar eru raunar skýrari en lítur út fyrir í fljótu bragði ef maður raðar saman ýmsum ummælum ráðamanna á þeim tíma sem málið hefur verið í meðferð.
Ég man ekki betur en að Steingrímur J. Sigfússon hafi sagt eitthvað í þá veru þegar hann var spurður hvort ekki væri einsýnt að íslenska ríkið myndi taka yfir HS orku að þeir milljarðar, sem til þess þyrfti, yrðu ekki teknir upp af götunni.
Eftir það var nokkuð ljóst hvert stefndi þrátt fyrir gelt og gelt af og til um að svona mætti ekki fara.
Vinstri grænir geta ekki fylgt gelti sínu eftir vegna þess að stjórnmál snúast um það að reyna að hafa eins mikil áhrif og völ er á. Ef þeir sprengja ríkisstjórnina standa þeir frammi fyrir tveimur kostum:
Annars vegar að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum sem mun að sjálfsögðu verða enn verri viðskiptis varðandi stóriðju- og orkumál en nokkur annar nema kannski Framsóknarflokkurinn.
Með því myndi VG þar að auki taka þann flokk í sátt sem mestu olli um Hrunið og veita honum syndakvittun, flokknum þar sem þingmenn ofurstyrkja og tengsla við Hrunvaldana sitja sem fastast og formaðurinn er ekki alveg frír heldur.
VG gæti ekki réttlætt stjórn með Sjálfstæðisflokknum með því að þannig fengju þeir örugglega fram stefnu sína í ESB-málinu því að staðan er þannig nú, hvað skoðanakannanir varðar, að eins og er virðist þjóðin hvort eð er ekki fara inn í ESB.
Hins vegar er sá möguleiki VG að fara í stjórnarandstöðu og verða gersamlega áhrifalaus að öllu leyti og horfa upp á enn verri stjórnarstefnu að eigin mati en þá, sem núna er fylgt.
Nokkuð ljóst er að í landinu situr í raun minnihlutastjórn í stórum málum og að hér er sérkennileg stjórnarkreppa.
Erfitt er að sjá hvernig þetta geti breyst fram til næstu kosninga eða að hægt verði að koma í veg fyrir það að útlendingar eignist orkuauðlindir Íslands meðan ástandið er þannig að peningar til að þjóðin eigi sjálf orkulindirnar landsins verða ekki teknir upp af götunni eins og það er orðað.
![]() |
Ræddu hvernig lögin virkuðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.7.2010 | 01:10
Neitaði að skemma ekki bíl minn.
Ég var að aka síðasta spottann á leið minni frá Neskaupstað að Hvolsvelli nú upp úr miðnætti þegar ég varð að nauðhemla tvisvar með innan við mínútu millibili.
Í fyrra skiptið var það vegna þess að kindahópur hljóp skyndilega upp á veginn og þvert yfir hann. Það var skuggsýnt og engin leið að sjá kindurnar fyrr en þær hlupu inn á veginn. Aðeins munaði hársbreidd (lagðbreidd) að ég lenti á einni þeirra.
Ég hélt áfram ferðinni en kom strax að kafla rétt sunnan Hvolsvallar þar sem lögð hefur verið möl ofan á veginn og því sett upp skilti um 50 kílómetra hámarkshraða. Í baksýnisspeglinum sá ég stóran pallbíl koma æðandi og fyrr en varði var hann kominn að mér á minnsta kosti tvöföldum leyfilegum hraða.
Ég reyndi að gefa stefnuljós til vinstri og blikka ljósum til að koma bílsjóranum í skilning um að hann stofnaði mér og bíl mínum í hættu með því að æða svona fram hjá mér og ausa yfir mig grjóti.
Fyrir nokkrum dögum varð ég fyrir því að stór jeppi fór fram úr mér á vegi með leifum af möl og steinn braut framrúðuna hjá mér og mig langaði ekki aftur í að upplifa slíkt svona strax á eftir.
En þessi eigandi stóra ameríska jeppatröllsins neitaði að hlífa mér og jós yfir mig grjótinu, en ég nauðhemlaði í annað sinn til að forðast nýtt framrúðubrot um leið og hann óð fram hjá mér með allt í botni.
Mér tókst að komast hjá framrúðubroti en hann braut annað stöðuljósið að framan og ekki slapp lakkið heldur.
Ég sá hann hverfa á öskrandi hraða í gegnum þorpið á Hvolsvelli aðeins nokkur hundruð metra frá lögreglustöðinni.
Atvik þetta er ekkert einsdæmi. Fyrir nokkrum árum reyndi ökumaður að leika þennan leik á malarkafla í Norðurárdal þar sem var 30 kílómetra hámarkshraði á aðeins eins til tveggja kílómetra kafla.
Ég reyndi að hindra hann í þeirri ætlan að grýta bíl minn en hann þrengdi sér samt fram hjá mér, jós grjótinu yfir mig og farþegi við hlið hans kastaði ölflösku út um gluggann í átt að mér þegar hann fór fram úr og munaði minnstu að hann hitti.
Við Hvalfjarðargöngin fórum við nær samhliða í gegn og mér gafst færi á að tala við hann við lúguna.
Hann hélt því fram fullum fetum að það væri hans einkamál sem kæmi mér ekki við ef hann bryti hraðatakmarkanir þegar honum dytti það í hug en taldi akstur minn hins vegar hafa verið vítaverðan.
Ég taldi mig hins vegar aðeins hafa verið að verjast því að vera grýttur.
Við ókum með 50 metra millibili inn í Reykjavík og ég velti því enn fyrir mér hvað svona ökumönnum gangi til í akstri sínum.
Einnig velti ég því fyrir mér hvílík býsn af sauðfé var á ferli á hringveginum á leið minni austur og til baka og hver hefði borið ábyrgð á því blóðbaði, sem orðið hefði ef stóri pallbíllinn við Hvolsvöll hefði verið ca 10 sekúndum fyrr á ferðinni og lent á ofsahraða á kindahópnum, sem ég rét slapp hjá að lemstra.
Hefði það orðið eigandi sauðfjárins, ökumaðurinn eða báðir sem báru ábyrgð á því? Ég smellti einni mynd af fé við vegarbrún fyrr á leiðinni en þar sem ég er núna á ég ekki tæknilega möguleika á að setja hana inn.
![]() |
Neitaði að færa sig yfir götu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
9.7.2010 | 14:15
Sjálfsagt mál.
Það er að sumu leyti til marks um viðhorf margra Íslendinga að nýráðinn bæjarstjóri Akureyringa þurfi að taka það fram að hann sé bæjarstjóri allra bæjarbúa.
Í lýðræðisþjóðfélagi býður fólk sig fram til trúnaðarstarfa og tekist er á um það hver eigi að fá starfið.
Sá, sem fær starfið, hefur oftast fengið það vegna þess hann sjálfur, viðhorf hans og stefnumál hafa fengið meira brautargengi en aðrir frambjóðendur fengu. Þar af leiðandi vita allir hver þessi stefnumál og viðhorf voru og eftir að búið er að velja ákveðinn mann, er hann vinnu hjá öllum kjósendum en ekki bara þeim sem kusu hann.
Af því leiðir að Barack Obama er forseti allra Bandaríkjamanna og telur sig sjálfan vera það og þjóna þeim öllum eftir bestu getu og samvisku en ekki aðeins þeim sem kusu hann.
Og á móti er sjálfsagt mála að allir líti á Obama sem sinn forseta, sinn þjón, en ekki bara þjón demókrata.
Hér á Íslandi eru þeir hins vegar margir sem eiga erfitt með að kyngja því að annar en þeirra óskaframbjóðandi sé ráðinn í trúnaðarstarfið. Þeir sætta sig ekki við hann í starfinu og vilja annað hvort einungis viðurkenna þann sem þeir sjálfir kusu eða einhvern sem engar skoðanir þorir að hafa eða láta þær í ljós.
Dæmi um þetta er starf forseta Íslands. Sumir telja að aðeins eigi að kjósa í það starf manneskju, sem forðist eins og heitann eldinn að gefa upp skoðanir sínar í málum sem kunna að vera umdeild.
Það er að vísu rétt að forsetinn, eins og allir aðrir, sem eru í vinnu hjá þjóðinni, eiga að sýna öllum kjósendum tillitssemi, virðingu og velvilja eftir því sem kostur er, - taka tillit til mismunandi skoðana þeirra, þarfa og aðstæðna.
En það á ekki að þýða það að mínum dómi að forsetinn megi ekki hafa skoðun á málum eða láta þær í ljós. Hann á að geta verið allra þjónn án þess vera skoðanalaus og litlaus.
![]() |
Bæjarstjóri allra Akureyringa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)