Leiðir hugann að svipuðum atburðum.

Rétt eins og efast hefur verið um það alla tíð að Lee Harvey Oswald hafi verið einn að verki þegar hann myrti Kennedy, kemur svipað upp nú.

Á árunum 1963-68 þegar John Kennedy, Lee Harvey Oswald, Malcolm X, Marin Luther King og Robert Kennedy voru myrtir, hugsuð flestir Norðurlandabúar: Þetta gerist bara erlendis eða Bandaríkjunum, ekki hjá okkur.

Morðið á Olov Palme 1986 varð því gríðarlegt og eftirminnilegt áfall fyrir Norðurlandabúa.

Þegar við höfum frétt af fjöldmorðum óðra manna í Bandaríkjunum höfum við líka hugsað sem svo: Svona lagað gerist ekki hjá okkur.

Nú hefur þetta samt gerst í norrænu samfélagi og áfallið kannski enn meira en við morðið á Palme.


mbl.is Voru byssumennirnir tveir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Standa okkur nærri.

Ég hygg að engar tvær þjóðir standi okkur nær en Færeyingar og Norðmenn. Á fjölmörgum ferðum mínum um þveran og endilangan Noreg hef ég skynjað greinilega mikla vinsemd og rækt við frændsemi Norðmanna við okkur.

Því er það vel að við sýnum þeim samúð, vinarhug og nærgætni vegna atburða sem hljóta að snerta okkur djúpt.

Mér finnst næstum því eins og þetta hafi gerst hjá okkur. Því er vel að samúðarkveðjur séu sendar frá okkur yfir hafið og Norðmenn látnir vita af því að þeir eigi hér vini og frændur.

Því miður og mér til mikillar hryggðar hefur ein bloggsíða hér á blog.is verið undirlögð af óhroða í hálfan sólarhring í tilefni af þessum hörmulegum fréttum.

Betur hefði verið að það, sem þar hefur verið látið vaða, hefði aldrei birst og vonandi að því linni.

 

P. S. Nú, á ellefta tímanum, sé ég á fleiri stöðum hér á blogginu skrif af þessu tagi, og að á bloggsíðunni, sem ég átti við, hefur umráðamaður síðunnar stöðvað umræðuna, þó án þess að biðjast afsökunar, heldur kennir hann þeim, sem athugasemdirnar gerðu, um hatursviðbrögð.


mbl.is Samúðarkveðja til norsku þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirmynd frá nágrannalöndum.

Eins og komið hefur fram á fundum stjórnlagaráðs hafa verið skiptar skoðanir um það hvort setja eigi takmarkanir á það um hvað sé heimilt að greiða þjóðaratkvæði.

Sumir hafa talið í lagi að engin takmörk séu enda gætu ýmis mál lent á gráu svæði, en aðrir hafa bent á að reynslan af því að hægt sé að vísa skattamálum og til dæmis fjármálafrumvarpinu í þjóðaratkvæðagreiðslu hafi verið slæm á þeim örfáu stöðum þar sem það hafi verið heimilt.

Sú skoðun hefur haft betur í ráðinu að rétt sé að fara að með þeirri gát, sem margar þjóðir sýna í löggjöf sinni, enda sé það mikil breyting í sjálfu sér að 10% kjósenda fái rétt til að kalla fram bindandi þjóðaratkvæðagfreiðslu og að 2% kjósenda geti lagt fram frumvarp á Alþingi.

Sú skoðun kom fram hjá sumum ráðsmanna að rétt væri að núverandi skipan ótakmarkaðs málskotsréttar forseta Íslands væri óbreyttur og þar með væri haldið opinni leið til að öll lög gætu verið undir á borði hans.

 


mbl.is Þjóðin hefði ekki fengið að kjósa um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í ökkla eða eyra.

Fyrir Hrun voru lítil takmörk fyrir því hverjum bankarnir lánuðu fé. Eini aldurshópurinn sem þeir virtust tregir til að lána var elsta fólkið.

Lánastefnan hér á landi var gerólík því sem til dæmis hefur tíðkast víða erlendis, til dæmis í Þýskalandi.

Þegar eignalaust fólk vildi fá lán var það mikilvægt að það gæti sýnt fram á að það ætti sparifé.

Ef það átti sparifé var það talið merki um að það hefði bolmagn til að borga af lánum.

Nú er svo að sjá af dæmi viðmælanda Morgunblaðsins að ekki dugi fyrir fólk að geta sýnt fram á með óyggjuandi gögnum að það ráði við afborganir af lánum.

Ef þetta er rétt erum við komin aftur fyrir það sem tíðkaðist erlendi, því að það dugir ekki fólki að sýna fram á greiðslugetu sína.

Já, þetta er annað hvort í ökkla eða eyra hjá okkur.


mbl.is Geta hvorki keypt né leigt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til sóma fyrir þjóðina.

Ég var skráður inn í Fram áður en ég fæddist og er því eins gróinn Framari og hugsanlegt er. Í frjálsum íþróttum keppti ég fyrir ÍR.

Af þessu leiddi að KR var óhjákvæmilega helsti mótherjinn, íþróttafélag sem öll hin félögin setja efst á andstæðingalistann, enda hefur KR verið stórveldi í íþróttum svo lengi sem ég man eftir og enn meira stórveldi fyrr á árum en nú.

Að því sögðu sný ég nú við blaðinu og óska KR-ingum til hamingju með glæsilegan árangur, ekki aðeins í Evrópukeppninni, heldur líka í Íslandsmótinu.

Það fer ekki á milli mála að við, sem elskum að vera á móti KR, verðum að viðurkenna að þeir eru með besta knattspryrnulið landsins, sem varpar ljóma á okkur erlendis.  

 


mbl.is KR sló Zilina út úr Evrópudeildinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrafntinnusker eru ekki "við Mýrdalsjökul.

Staðurinn, sem maður var sóttur til nú síðdegis er í frétt mbl.is sagður vera "við Mýrdalsjökul. 

Það er afar lang sótt. Mýrdalsjökull er um 30 kílómetra í burtu frá staðnum og Tindfjallajökull miklu nær.

Ef slysstaður vestur af Hrafntinnuskeri er "við Mýrdalsjökul" eru Geysir og Gullfoss "við Gullfoss" og Leirársveitin "við Reykjavík".

Þessi ábending kann að þykja tittlingaskítur en aðalsmerki góðrar blaðamennsku er að vera rétt og nákvæm og auk þess er það allt of algengt að blaða- og fréttamenn virðist ekki líta á landakortið þegar þeir skrifa fréttir sínar heldur annað hvort fara með rangt mál eða lepja upp rangar upplýsingar.


mbl.is Þyrla send eftir manni við Mýrdalsjökul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju, gamli "sveitungi".

Hjarta mitt tekur alltaf kipp þegar ég heyri eitthvað fréttnæmt úr Langadalnum þar sem ég var í sveit fimm ógleymanleg sumur á aldrinum 9-14 ára. Talan 14 fylgir þarna með, því að ég varð 14 ára gamall í lok síðustu sveitardvalarinnar.

Af því að hinir eldri frá þessum árum frá 1950-54 eru gengnir eru það afkomendur þeirra sem maður reynir að fylgjast með úr fjarlægð eins og ættmennum sínum.

Fyrstu áratugina eftir að ég hætti að vera í sveit í Hvammi hafði ég gaman af að hitta kýrnar, sem voru afkomendur kúnna sem ég annaðist þarna á sumrin og sjá "ættarsvipinn" á þeim.

Yfirleitt giskaði ég rétt á hver væri ættmóðir hverrar.

Nú sé ég að Hilmar Frímannsson frá Fremstagili hefur verið ráðinn slökkviliðsmaður á skemmtilegan hátt og óska honum til hamingju með starfið með ósk um farsæld í því sem og öðru sem hann tekur sér fyrir hendur.  


mbl.is Nýr slökkviliðsstjóri í Austur-Húnavatnssýslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei. En við brugðumst þeim fyrir stríð.

Það er afar langsótt að Íslendingar hati Gyðinga þótt við styðjum ekki allt sem þeir eru að gera. Það er eins og það megi ekki anda á þá án þess að þeir fari af hjörunum og saki okkur um hroka og hatur.

Varla ber það vott um hatur að fulltrúi Íslands bar upp tillöguna um viðurkenningu á Ísraelsríki hjá Sameinuðu þjóðunum árið 1948.

Varla bar það vott um hatur á Gyðingum hvernig við buðum snemma Ben Gurion forsætisráðherra þeirra hingað til lands og veittum honum fyllsta sóma.

Margskonar önnur samskipti má nefna sem dæmi um velvild Íslendinga við Ísraelsmenn.

Afar langsótt er að núa núlifandi Íslendingum það um nasir að skáld orti sálma fyrir 350 árum um krossfestingu Krists og nefndi þá sem að henni stóðu.

Skoðanir Bobby Fishers komu máli hans ekkert við. Við veittum honum landvist á sömu forsendum og hefðu átt að gilda þegar Gyðingar reyndu að komast til Íslands undan oki nasista.

Þá brugðumst við hælisleitendum, sem margir voru hámenntað fólk sem sárlega vantaði í íslenskt þjóðlíf.

Í staðinn fengu norskir skógarhöggmenn forgang!

Þessi framkoma okkar var okkur til skammar en benda má á að við vorum ekki eina þjóðin sem brást Gyðingum þótt það sé svo sem engin afsökun.

 

 

 

 


mbl.is Hata Íslendingar gyðinga?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjöguð skattheimta.

Fyrir það verð sem þarf að borga fyrir venjulegt reiðhjól má kaupa notaða bíla í furðu góðu ástandi.

Verð á reiðhjólum er að mínu mati allt of hátt og gegnir furðu að lang vistvænasti og heilnæmasti ferðamátinn skuli ekki njóta sömu hlunninda og vistvænustu bílarnir.

Hér þarf að gæta samræmis og breyta þessu sem allra fyrst.


mbl.is 72% dýrara að kaupa reiðhjól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er gras ósjálfbært ?

Það er góðra gjalda vert að minnka túnbletti í borginni ef það má verða til þess að fækka frjókornum í lofti.

Hins vegar er staglast á því að í stað grassins komi "sjálfbærar plöntur".

Nú er ég hvorki líffræðingur né grasafræðingur en spyr samt eins og fávís maður, hvers vegna þær jurtategundir sem mynda grasfleti eins og grasið sjált og fíflar og sóleyjar séu ekki sjálfbærar eins og runnar og þær plöntur, sem rætt er um hjá borginni og eru taldar sjálfbærar í fréttatilkynningu. 

Ég hélt að gras sprytti og félli aftur og aftur ár frá ári og þess vegna væri sá búskapur plantnanna, sem mynda tún, sjálfbær, og sú iðja bænda að slá sömu túnin ár frá ári félli undir hugtakið sjálfbæra þróun.

Er ekki hægt að orða muninn á lífi og áhrifum grass og runna og trjáa einhvern veginn öðruvísi en með því að nota enn einu sinni hugtakið "sjálfbær" á þann hátt að það ruglar mann í ríminu?

Til dæmis "langlífari plöntum"?

 


mbl.is Vilja minnka tún í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband