Tólf þúsund, varla orð, 13 þúsund, stanslausar fréttir.

Nú er ég staddur á Akureyri í hita og logni og hér eru 12 þúsund gestir og fjölbreytt dagskrá. Í Eyjum eru 13 þúsund gestir og fjölbreytt dagskrá. 

Varla hefur verið minnst á Eina með öllu í fréttum fyrr en aðeins allra síðustu dagana og þá vart nema stutt í fréttatímum.

Hins vegar hefur verið nær stanslaus fréttasíbylja af Eyjahátíðinni vikum saman og ekki líður sú klukkustund þessa helgi að hún sé í umfjöllun í þáttum og fréttum.

Hvernig stendur á þessu?

Jú, á Eyjahátíðinni koma helstu poppstjörnur Íslands fram og það gerir gæfumuninn. Þar að auki hefur rysjótt veður nú bæst ofan á fréttnæm atriði til að moða þar úr.

Fréttamatið miðast við þetta og þannig hefur það verið lengi.

Þetta minnir mig á það þegar umbi nokkur bað mig og Guðrúnu Símonar að skemmta á sveitaballi á Hvoli.

Ég spurði umbann hvort hann héldi að besta óperusöngkona Íslands fengi nokkurt hljóð á samkomu öskrandi og ölvaðra ballgesta.

"Það skiptir engu máli" svaraði umbinn. "Aðalatriðið er að auglýsa nógu fræga skemmtikrafta. Þá hugsar lýðurinn með sér: Úr því að þau skemmta þarna þá verða allir þar. Og við ætlum að fara þangað sem allir eru."

Við létum til leiðast og sjaldan hef ég lent í eins erfiðu verkefni, tókst þó að sleppa með að hafa fengið athygli einhverja stund.

Ekki heyrðist mannsins mál fyrir hávaða á meðan Guðrún söng og var hún öskureið þegar hún fór og hellti sér yfir umbann, sagðist aldrei hafa verið niðurlægð svona fyrr. 

Hann skildi hana ekki. "Þú færð borgað vel fyrir þetta og hefur ekki yfir neinu að kvarta." 


Táknræn frétt: "Einn gisti fangageymslur..."

Eftir ótal ekkifréttir helgarinnar kom loksins ein, sem stenst kröfur erlendra tungumála um "news" eða "nyheder", eitthvað alveg nýtt. 

Aðeins einn gisti fangageymslur á Akureyri, það er raunverulega nýtt.  Hitt hefði verið ekkifrétt að fangageymslurnar væru fullar.  


mbl.is Einn gisti fangageymslur á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bara nokkrir dropar..."

Það hefur verið spaugilegt að heyra í mótshöldurum víða um land nú um helgina. "Bara nokkrir dropar..." sagði sá sem talaði frá Eyjum og á öðrum mótshöldurum mátti skilja að nú væri í gangi blíðviðriskeppni á öllu landinu. 

Það vill svo til að hægt er að fylgjast með raunverulegu veðri t. d. hér á mbl.is og einnig veðurspá og þá kemur allt annað í ljós. Enginn þessara mótstaða hefur sloppið við rigningu og í öllum þeim landshlutum, sem ég hef komið í um helgina hefur rignt, meira að segja líka uppi á norðurhálendinu.

Veðurfræðingar eru undir pressu að tala varlega, því að eitt orð á ská gæti kostað einhvern mótshaldarann eða jafnvel þá flesta milljónir króna.

Nú stefnir í að með  veðrinu í helgarlok muni rigning og rok ná einhvers konar endasprettshámarki, og er hætt við að ekki dugi alls staðar að segja: "Bara nokkrir dropar, annars logn og blíða".

Ekki eru fjölmiðlar undir minni pressu, heldur steðjar að þeim einhver mesti "plöggtími" ársins svo notað sé orðalag þeirra sem hafa úti allar klær vikum saman á undan þessari miklu ferða- og skemmtanahelgi, þar sem peningaveltan er númer eitt, tvö og þrjú.

En, eins og Jón Ársæll segir, "þetta er Ísland í dag". 


mbl.is Rigning og rok á Þjóðhátíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf ekki lyf til.

Marga skrautlega ökumenn hef ég séð á rúmlega þúsund kílómetra akstri í gær og í dag.  Þegar "lestarstjóri" á annars prýðilegum bíl heldur langri röð á eftir sér á 65-70 kílómetra hraða er ég oft að pæla í því hvernig á svona ökulagi standi. 

Á einum stað í dag stór kyrrstæður bíll á ská á plani við vegbrún hjá T-gatnamótum þegar ég kom niður að þeim.

Aflíðandi beygja var inn á veginn en enda þótt svo virtist sem ekkert fararsnið væri á ökumanni bílsins sem stóð kyrr í stefnu inn á veginn var ég við öllu búinn.

Þegar ég var alveg að koma að honum rykkti hann bílnum skyndilega inn á veginn þvert í veg fyrir mig og beygði um leið í sömu átt og ég ætlaði.

Engin viðvörun, ekkert stefnuljós.

Ég svipti mínum bíl til og tókst með naumindum að komast fram hjá honum aftan við hann.

Stundum virðist sem sumir ökumenn séu að deyja úr ótta eða hræðslu. 

Þeir þora ekki inn á gatnamót eða í hringtorg þótt enginn sé í vegi þeirra á þeirra akrein, hægja ferðina niður í 45 kílómetra hraða niður neðstu beygjuna í Kömbunum í logni, og þurru, heiðskíru veðri. 

 Erfitt er oft að giska á hvað veldur, lyfjaneysla, ölvun, ellihrumleiki, sofandaháttur eða vanmetakennd vegna getuleysis við stjórn bílsins.

Það þarf ekki nema nokkra ökumenn til þess að valda miklum vandræðum.  


mbl.is Undir áhrifum fjölda lyfja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óbyggðirnar kalla.

Ég man eftir þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fyrir tæpri hálfri öld þegar hún og Sjómannadagurinn voru fyrst og fremst hátíð Vestmannaeyinga.

Nú er hún orðin að einhvers konar Hróarskelduhátíð og fyrir flesta gesti drukknar menning Eyjamanna og fréttir af hátíðinni í því sem er svo áberandi, fyllerí og fréttnæmar árásir og jafnvel nauðganir.

Broslegt var að heyra í gær þegar mótshaldarar þar og á nokkrum öðrum stöðum töluðu um "nokkra dropa" þegar raunveruleikinn var mikil rigning.

Við hjónin fórum seint í gær eftir að búið var að afhenda nýja stjórnarskrá og ókum rakleiðis að Aðalbóli í Hrafnkelsdal, sem er, ásamt Möðrudal, næsti bær við óbyggðirnar á norðausturhálendinu.

Síðan förum við inn á Brúaröræfi allt inn undir Brúarjökul og dyttum að Sauðárflugvelli, en ég skilgreini mig sem eins konar flugvallarbónda þar inn frá með næsta nágranna í Grágæsadal, Völund  Jóhannesson.

"Óbyggðirnar kalla og ég verð að hlýða þeim". Ljóðlínur og lag Magnúsar Eiríksonar svífa hér yfir vötnum.


mbl.is Bálið brennur í Herjólfsdal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamfarir geta skapað tekjur.

Fyrstu viðbrögð okkar allra þegar náttúruhamfarir dynja yfir og valda miklu tjón og erfiðleikum fyrir fjölda fólks er að hugur okkar er hjá þeim, sem eiga um sárt að binda og að skylda okkar sé að veita þeim alla þá hjálp og samúð sem okkur er unnt.

En síðan er bráðnauðsynlegt að reyna að sjá sólarglætuna á bak við hin dimmu ský og átta okkur á þeim möguleikum, sem hamfarirnar færa okkur þrátt fyrir allt.

Fyrir rúmu ári kom það fram á bloggpistlunum mínum að þegar upp yrði staðið mynd hamfarirnar skila þjóðinni tekjuauka og það hefur komið á daginn.

Fyrir austan Skeiðarárbrú er afar mögnuð uppsetning á brúarbitum og öðrum leifum brúnna, sem flóðið mikla 1996 eyðilagði. Þetta dregur að ferðamenn.

Nú hefur gamla brúin yfir Múlakvísl bæst við. Þetta sýnir að vinna má úr áföllum þannig að allt fari vel að lokum.


mbl.is Gamla brúin áningarstaður ferðamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðist að lýðræðinu úr tveimur áttum.

Lýðræðið er stórgallað stjórnarform en samt það skásta sem ennn hefur fundist. Hryðuverkafólk sækir að því úr tveimur áttum og sú sókn mun síst minnkað þegar þrengjast fer um á jörðinni um mannkynið og auðlindir hennar þverra vegna rányrkju.

Frelsi, jafnrétti og bræðralag eiga undir högg að sækja og það eru ekki allar þjóðir, sem eiga kost á því að eignast stjórnarskrá á borð við þá, sem forseti Alþingis tók á móti í dag í nafni þjóðarinnar.


mbl.is „Árás á lýðræðið"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beint í flug aftur.

Það er þekkt sálrænt fyrirbæri hjá flugmönnum, að lendi þeir í verulegu áfalli skiptir miklu að þeir fari sem allra fyrst, helst strax í flug aftur. Það virðist hjálpa þeim til að komast yfir áfallið.

Svipað fyrirbæri er á ferðinni hjá Adrian Pracon, sem slapp lifandi úr skotárásinni á Útey. Hann þarf að fara sem fyrst út í eyna til að "sættast við" hana og martröna sem hann varð fyrir.


mbl.is Glaður að vera á lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefðu betur haldið dampinum 1990.

Í kjölfar olíukreppunnar, sem dundi á í tveimur þrepum, 1973 og 1979, gripu Bandaríkjamenn til aðgerða til að minnka orkunotkun landsmanna með því að EPA (Environmental Protection Agency) setti fram strangar kröfur um eyðslu bifreiða.

Því miður náðu reglurnar ekki til þess tákn Ameríku sem ameríski pallbíllinn er.

Bílaframleiðendur sáu strax hvaða möguleika þeir hefðu til að fara fram hjá þessum ákvæðum með því standast kröfurnar varðandi venjulega fólksbíla en fóru síðan á fullu í því að framleiða sem fjölbreyttast úrval jeppa og pallbíla sem urðu fljótlega með svipaða eiginleika og þægindi eins og venjulegir fólksbílar.

Því miður urðu afleiðingarnar að búin var til tískubylgju sem olli því, þegar upp var staðið, að bílaflotinn varð samansettur af stærri bílum og eyðslufrekari en áður.

Það er ekki seinna vænna en að taka nú rækilega til hendi á ný og þótt fyrr hefði verið.

 


mbl.is Bílar verði sparneytnari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umskipti, sem verður að snúa við.

Utanríkisráðuneyti Nýja-Sjálands hefur gefið út viðvörun til þegna landsins þess efnis, að ferðast ekki til Noregs.

Þetta eru alger umskipti frá því að Norðurlöndin hafa verið talin friðsælustu ríki heims.

Svona fréttir hljóta að gleðja Anders Behring Breivik á sama hátt og ótti og harkalegar aðgerðir vegna árásarinnar á Tvíburaturnana hafa vafalaust glatt Osama bin Laden.

Mannkynið siglir nú inn í öld kreppu vegna vaxandi orkuskorts, offjölgunar og rányrkju á auðlindum jarðar.

Kreppa, likt og á Sturlungaöld og fjórða áratug síðustu aldar, leiða af sér átök og ófrið.

Yfirleitt er valdasöfnun á fárra hendur talin orsök ófriðarins á Sturlungaöld. Ég hygg hins vegar að þyngra hafi vegið áhrif kreppu af völdum rányrkju og versnandi veðurfars sem til dæmis birtist í því að Íslendingar urðu að leita á náðir Noregskonungs til að tryggja skipaferðir til og frá landinu.

Nú verður það helsta verkefni Norðurlandabúa að efla æðruleysi, samhug og friðsæld, sem snúi við þeirri óheillaþróun, sem tilkynning utanríkisráðuneytis Nýja-Sjálands ber vitni um.  


mbl.is Ein af yngstu fórnarlömbunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband