Eitt af grundvallaratriðum froðubólunnar.

Allt of hátt gengi íslensku krónunnar og háir vextir ásamt tilbúnum fjármunum í viðskiptavild og gervigróða gerðu það að verkum að fjármagn sogaðist til landsins.

Af þessu súpum við seyðið á margan hátt. 

Sjávarútvegurinn og útflutningsgreinarnar töldu sig verða að taka lán til þess að standast hina skökku gengisskráningu og fyrir bragðið situr sjávarútvegurinn uppi með 500 milljarða skuldir. 

Mikið af þessum skuldum fór í að fjármagna fjárstreymi út úr greininni til brasks og bílífis út um allar koppagrundir. 

Makalaust er að lesa eftir á það hástemmda lof sem ausið var á þessa geggjun sem spannst upp í það að Íslendingar væru ríkasta þjóð í heimi með bestu lífskjörin og efnahagskerfi, sem stæði öllum framar, væri "íslenska efnahagsundrið".  Ofan á allt átti að vera hér ein minnsta spilling í heimi! 

Í raun var alger andstæða á ferðinni, mesta blekkingarbull, sem um getur á byggðu bóli. 


mbl.is Ofmetnasti gjaldmiðillinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru 24 þúsund kílómetrar ekki nóg?

Hvergi í nokkru vestrænu landi eru að finna jafn langa og marga vegaslóða og á íslandi, miðað við stærð landsins. Ekki er vitað nákæmlega hve þeir eru langir samtals en lægsta ágiskunartala, sem ég hef heyrt, er um 24 þúsund kílómetrar.

Til samanburðar má nefna að í grennd við Moab, Mekku torfæruaksturs í Bandaríkjunum, er stór þjóðgarður, Canyonland eða Giljaland, sem hefur sérhæft sig í að þjóna eigendum aldrifsbíla. 

Þeir stæra sig af því að 1600 kílómetrar af merktum vegaslóðum séu í þjóðgarðinum. 

Algert bann liggur við því að fara ekki út fyrir þessa slóða og liggja háar sektir við, enda þykja 1600 kílómetrar kappnóg. 

Hér á landi virðast hins vegar 24 þúsund kílómetrar ekki nægja og í sumar hef ég séð ljót dæmi um utanvegaakstur sem virðist ævinlega algerlega tilefnislaus og heimskulegur. 

Einnig hef ég séð ljót för, sem komu þegar menn fóru greinilega inn á leiðir á meðan þær voru enn lokaðar vegna aurbleytu. 

Ég hef komið á fundi um þessi mál þar sem einstakir menn hafa haldið því fram að allar göngugötur og kindagötur landsins eigi að vera til afnota fyrir vélhjól. 

Svo er að sjá að þeim nægi ekki 24 þúsund kílómetrar, heldur líkast til tvöfalt meira. 


mbl.is Utanvegaakstur með ólíkindum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ræður ekki við hið ómögulega.

Þær miklu vonir, sem voru bundnar við Barack Obama, bæði í kosningabaráttunni 2008 og einnig á fyrri hluta kjörtímabils hans, hafa nú dofnað verulega.

Obama kom sem ferskur blær inn í bandarísk stjórnmál eftir ömurlega forsetatíð George W. Bush. 

Hann hefur feykilega persónutöfra, kemur vel og skipulega fyrir sig orði og setti fram háleit markmið og hugsjónir í kosningabaráttu sinni og fyrst eftir að hann tók við stjórnartaumum og fór að takast á við afleiðingar fjármálakreppunnar. 

Honum tókst að koma í gegnum þingið heilbrigðismálafrumvarpi, sem verður að teljast merkasta verk hans. 

En Obama stendur nú andspænis verkefnum, sem eru ekki á hans færi að leysa. 

Má að ýmsu leyti líkja stöðu hans við stöðu Lyndons B. Johnsons, sem réði ekki við það ástand sem Vietnamstríðið skapaði í Bandaríkjunum. 

Johnson hafði, eins og og Obama, komið í gegn tímamótalöggjöf,  mestu réttarbótum í mannréttindamálum í sögu Bandaríkjanna.

En hann missti stjórn á atburðarásinni varðandi Vietnam og ástandinu í þjóðfélaginu, sem markaðist af hippabyltingunni og nýjum viðhorfum og skoðunum, sem ruddu sér rúms. 

Obama stendur frammi fyrir enn erfiðari verkefnum en Johnson, þeim erfiðustu, sem Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir hafa staðið fyrir, en það er að sigla þjóðum heims í gegnum þá kreppu og erfiðleika sem dvínandi orkulindir og fjármálaóstjórn skuldafíknar hafa skapað og munu halda áfram að skapa. 

Obama á tvo slæma kosti í stöðunni: Að reyna að láta reka á reiðanum fram yfir næstu kosningar og taka þá til hendi, - eða að taka á sig rögg, rísa upp og stíga fram af svipuðum myndugleik og Roosevelt forseti gerði í aðdraganda og upphafi þátttökku Bandaríkjamanna í seinni heimsstyrjöldinni. 

Verkefni Obama er hins vegar miklu erfiðara en Roosevelts, því að það er auðveldara að þjappa þjóð saman þegar á hana er ráðist eins og gert var með árás Japana á Perluhöfn, heldur en að þjappa þjóð saman um að fara í þá þrautargöngu, sem óhjákvæmilega þarf að fara vegna hnignunar stórveldis, sem byggst hefur á bruðli og sóun takmarkaðra orkulinda. 

Í ofanálag verður Obama að semja við andstæðinga sína á þingi, eins og gerðist varðandi skuldaþak ríkissjóðs Bandaríkjanna á dögunum og afleiðingarnar geta ekki orðið aðrar en þær að honum verði gersamlega ófært að ná þeim árangri í stjórn landsins, sem er forsenda fyrir því að halda fylgi. 

Þrátt fyrir hæfileika sína og persónutöfra er Obama aðeins maður, - ekki ofurmenni eða guð og ræður ekki við hið ómögulega, því miður. 


mbl.is Fylgishrun hjá Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldrei eins mikil þörf og nú.

Það er gott og þarft að huga að grunngildum þjóðfélags okkar eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur gert í ræðu sinni á Hólahátíð í dag.

Þeirrar tilhneigingar hefur nefnilega gætt að gefa sér það, að í kjölfar Hrunsins myndu þessi gildi öðast sjálfkrafa meira vægi og allt hér færast til betri vegar.

En svo gæti farið að það fari á annan veg, þann sem Sigmundur Davíð lýsir með orðunum að dramb sé falli næst.

Það felst einkum í því að í ljósi þeirrar nauðsynjar og neyðar, sem menn telja að verði að hafa hliðsjón af, sé það réttlætanlegt að víkja frá helstu siðfræðigildum þjóðfélags okkar þegar mönnum sýnist svo.

Mér finnst áberandi hve hljótt varð fljótlega um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Hrunið og ég óttast að sú umræða sem hún kallaði fram í fyrstu, sé að baki og að nú verði flest leyfilegt á ný og jafnvel frekar en áður, af því að nú verði hægt að afsaka fleira en áður með því að kreppan geri þetta eða hitt nauðsynlegt.

Í nokkrum nýjustu stjórnarskrám heimsins, svo sem þeirri færeysku og suður-afrísku, eru aðfararorð í upphafi þeirra, án þess að þau sé hægt að flokka sem sérstaka grein.

Þetta er gert til þess að gefa tóninn um þau markmið og grunngildi, sem felist í stjórnarskránni sem sáttmála þjóðarinnar um grunn samfélagsgerðar landsins.

Óm af þessu má raunar finna í upphafsorðum formóður stjórnarskráa heimsins, þeirri bandarísku: "We, the people of America..." þar sem stjórnarskráin er færð í búning yfirlýsingar þjóðarinnar til sjálfrar sín um mannréttindi og önnur grunngildi samfélagsgerðarinnar.

Á sama hátt og umræða um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og lærdómana af henni má ekki fjara út, verður nú að efna til vandaðrar umræðu um stjórnarskrá Íslands og stoðir hennar.

 


mbl.is Vegið að leikreglum réttarríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auka þarf vald þingsins.

Í frumvarpi Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá eru ákvæði um það að skylt sé að hafa jafnan samráð við fjárlaganefnd varðandi aukaútgjöld ríkissjóðs áður en þau eru ákveðin.

Mótrök gegn þessu hafa verið þau, að stundum þurfi að bregðast skjótt við óvæntum vanda og að þá sé ekki tryggt að hægt sé að ná í fulltrúa í frjárlaganefnd.

Þessi rök eru að mestu orðin úrelt á tímum stórbatnaðra fjarskipta auk þess sem verk fjárlaganefndar dreifast nú orðið á allt árið.

Ef menn vilja tryggja að fyrir hendi sé möguleiki á að bregðast við óvæntum atvikum nánast á stundinni má hugsa sér sérstakan neyðarsjóð í því efni.

Aðalatriðið er það að í þessum efnum eins og mörgum fleirum hefur framkvæmdavaldið seilst of langt og gert þingið að afgreiðslustofnun eftir á.


mbl.is Vill draga úr valdheimildum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sumargleðin í Aratungu í kvöld. Sætaferðir frá..."

Svona hljóðaði upphafið á mörgum auglýsingum á árunum 1972-86 þegar Sumargleðin hélt tveggja tíma skemmtun og dansleik á eftir í samkomuhúsum landsins. IMG_0508

Ef segja má að sumargleði hafi ríkt í dag á 50 ára afmælishátíð Aratungu eins og getið er í frétt mbl.is er mér ánægja að bæta því við að Sumargleðin með stórum staf mun ríkja þar á skemmtun í kvöld, sem hefst á ellefta tímanum.

Síðan 1986 hefur SumargleðIMG_0504in aðeins einu sinni komið fram í gamla sveitaballastílnum og það var í Aratungu fyrir um 15 árum.

Sumarið 1976 var tekinn upp stuttur heimildarþáttur í svart-hvítu í Aratungu með nafninu "Sveitaball."

Það er líklega nokkurn veginn allt sem til er um þessar minnisverðu samkomur á þessum tímum, sem áttu blómaskeið sitt í rúm 30 ár á árunum upp úr 1950 og fram á miðjan níunda áratuginn.

Líkur eru á húsfylli í kvöld og hörku sveitaballi á eftir.

P. S.  Það ótrúleg sjón (og heyrn) sem blasti við í Aratungu í gærkvöldi. Húsið var smekkfullt af fólki, sem söng, trallaði, veifaði höndum, klappaði og stóð uppi á borðum rétt eins og fyrir 30 árum. Það var rétt eins og aðeins hefði liðið ein vika frá síðustu skemmtun Sumargleðinnar en ekki áratugir.

Ætla, ef tími vinnst til, að skreyta pistilinn með myndum af ósköpunum.

 


mbl.is Gleðin við völd í Aratungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir Stuðmenn á menningarnótt!

Tökum undir með Jakobi Frímanni Magnússyni og gerum næstu Menningarnótt að þeirri bestu sem haldin hefur verið. Verum öll sannir "Stuðmenn" þennan dag og þessa nótt!
mbl.is Jakob Frímann Magnússon ræktar garðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Átaka- og skotgrafaást fyrrverandi þingmanns.

Jón Magnússon skrifar athyglisverðan pistil um störf Stjórnlagaráðs, sem hann skammar fyrir það sem hann kallar "einræði meirhlutans", sem skilja má að pistlinum að hafi falist í því að grimmur meirihluti ráðsins hafi kúgað minnihlutan og varnað honum að koma fram skoðunum sínum.

Pistillinn ber þess ljóst vitni, að Jón hefur ekkert fylgst með því, að í beinni útsendingu sem stóð alls tugum klukkustundum saman var rökrætt fram og til baka um hverja einustu grein í frumvarpinu að stjórnarskránni og að ég og aðrir í ráðinu settum þar fram mismunandi skoðanir og röksemdir.

Með starfsreglum og vinnubrögðum, sem voru mjög merkileg var á málefnalegan hátt fjallað um mismunandi sjónarmið 25 fulltrúa sem voru með eins fjölbreyttar og ólíkar skoðanir og hugsast getur, og að lokum var fundin lausn sem fólst oft í málamiðlun, sem sæst var á. 

Flestir fulltrúanna geta áreiðanlega vitnað um það að þeir hafi í þessum rökræðum skipt um skoðun eða séð ýmis atriðið í nýju ljósi og lagað sig að því í stað þess að hafa í heiðri hugsjón Jóns Magnússonar að standa eins og hundur á roði á hverjum sem var. 

Því fór fjarri að einhver einn ákveöinn  meirihluta  sömu fulltrúa væri í nefndinni og kúgaði afmarkaöan minnihluta eins og Jón þekkir svo vel á Alþingi. Þarf ekki annað en að skoða rökræðurnar og greinargerðirnar með einstökum greinum og köflum frumvarpsins til að sjá að straumar skoðana lágu sitt á hvað eftir einstökum málefnum.

Ég var í minnihluta varðandi sumar greinar og meirihluta varðandi aðrar og spyr því Jón: Hvaða minnihluta á hann við þegar hann skiptir Stjórnlagaráði í afmarkaða meirihluta og minnihluta.

Stundum skiptu fulltrúar um skoðun í ljós heildaráhrifa einstakra greina á frumvarpið í heild. Hvernig rímar það við einræðið og kúgunina, sem Jón segir að hafi verið beitt?

Í greinargerðunum og umræðunum má sjá rök einstakra fulltrúa fyrir mismunandi skoðunum á fundum ráðsins sem aldeilis fráleitt er að segja um að  ráðsfulltrúum hafi verið meinað að halda fast fram skoðunum sínum og tjá þær.

Jón virðist ekki geta skilið, að Stjórnlagaráði var falið að skila einu frumvarpi að stjórnarskrá en ekki stjórnarskrá minnihluta og meirihluta.

Jón virðist algerlega fastur í þeirri hugsun átaka- og skotgrafastjórnmála sem tíðkast hafa á Alþingi með þeim árangri að traust fólks á þeirri stofnun er í sögulegu lágmarki.

Ef Jón liti til þeirra nágrannaþjóða okkar, sem skyldastar eru okkur, gæti hann séð algerlega önnur vinnubrögð hjá þeim, til dæmis varðandi gerð fjárlaga, þar sem stjón og stjórnarandstaða sýna sameiginlegan vilja til að komast að einni niðurstöðu en ekki mörgum niðurstöðum.  

Jón virðist álíta, að bestu vinnubrögðin hefðu verið þau að búin hefðu verið til tvö frumvörp til stjórnarskrár, annars vegar stjórnarskrár meirihlutans og hins vegar stjórnarskrá minnihlutans.

Gallinn á slíku verklagi er ekki aðeins sá að skila af sér óleystu verki í raun, heldur lögöust línur þannig í rökræðum ráðsins, að meirihlutarnir og minnihlutarnir hefðu orðið margir og sömuleiðis stjórnarsrkrárnar, sem lagðar hefðu verið fram.

Stjórnarskráin er vel á annað hundrað greinar. Hvernig heldur Jón að mögulegt sé að mögulegt sé að setja fram stjórnarskrá með svo mörgum álitum og valmöguleikum að úr verði heilstætt plagg ef krafa hans um skotgrafastjórnmálin ættu að ráða?

Engin leið er æltlast til að nokkurt okkar yrði nokkurn tíma að fullu ánægður með allar 113 greinar stjórnarskrár og geti því aðeins sætt sig við stjórnarskrána og einstakar greinar hennar að allar hans ítrustu kröfur fengju fram að ganga í hverri grein.

Jón getur greinilega ekki skilið þann samstarfsvilja, lagni og drengskap sem ríkti í Stjórnlagaráði, heldur kallar hann á það að sem mest úlfúð, illindi og þvermóðska hefði ráðið þar ríkjum.

Ýmsir fulltrúar sátu hjá við afgreiðslu nokkurra greina en aldrei voru færri en 19 af 25 sem samþykktu nokkra grein. Einstaka sinnum mátti sjá greidd atkvæði gegn grein og gersamlega fráleitt að halda að ráðsfólk hafi verið kúgað til að bæla niður skoðanir sínar.

Í lokin greiddu 25 atkvæði með frumvarpinu og enginn á móti, af því að við vorum sammála um það að á heildina litið hefðum við ekki getað lagt fram betra plagg.

Ég greiddi atkvæði með hverri einustu grein, líka þeirri, sem ég hefði helst viljað hafa öðruvísi, en það var prósentulágmarkið 10% vegna málskots til þjóðaratkvæðagreiðslu.  Hefði viljað hafa það 15% og hélt þeirri skoðun minni ævinlega fram opinberlega. 

Ég leit ekki á það sem "alræði meirihlutans" og kúgun hans þótt ég og mín skoðanasystkin yrðum undir í atkvæðagreiðslu um greinina og vísa þeirri skoðun Jóns á bug að ég hafi verið barinn til hlýðni.

Ákvað að taka ábyrgð á atkvæði mínu og lifa með því á mínum forsendum., sem voru fjórar: 

1. Líta varð á heildarmyndina. Ekki fékkst brautargengi fyrir því að þriðjungur þingmanna gæti fengið málskotsrétt og þar með tekið fyrir þann farveg málskota.  

 2. Reynsla annarra þjóða bendir ekki til þess að mikil hætt sé á of mörgum þjóðaratkvæðagreiðslum vegna lágs þröskulds, einkum vegna þess að gerðar yrðu hér, eins og þar, mjög strangar kröfur til alls málatilbúnaðs og undirskrifta. Í Sviss líða að meðaltali nokkur ár frá því að fyrst kemur fram hugmynd um að mál sé afgreitt í þjóðaratkvæðagreiðslu þar til að hún fer fram.  

3. Ef þjóðinni sjálfri fyndist að þjóðaratkvæðagreiðslurnar yrðu allt of margar gæti hún eða Alþingi beitt sér fyrir því að hækka þröskuldinn með einfaldri breytingu á einni tölu í stjórnarskránni.  

4. Sett eru ákvæði um takmörk fyrir því hvaða mál séu tæk til þjóðaratkvæðagreiðslu en í staðinn er lagt til að málskotsréttur forseta Íslands sé hinn sami og verið hefur.

 Svona væri hægt að halda áfram varðandi allar hinar greinarnar, en þetta er nefnt sem dæmi.

Þessa dagana er ég á ferðalagi í rútu með tuttugu manns um suðurhálendið og þurfum við að rökræða og taka margar ákvarðanir jafnóðum varðandi tilhögun ferðarinnar.

Við fórum af stað og munum ljúka þessari ferð með þeim ásetningi að hún verði í einu og öllu eitthvað það ánægjulegasta sem við höfum gert. Við erum í einni rútu en ekki tveimur og það er ekki um það að ræða að "minnihluti" eða jafnvel fleiri minnihlutar geti gert þetta að ferð í fleiri rútum.

Þetta virðist Jón Magnússson ekki skilja heldur er engu líkara að hann sjái svona ferðalag sem átaka- og skotgrafaferðalag meirihluta og minnihluta í okkar hópi. Mikið er ég feginn, bæði okkar vegna og hans,   að hann skuli ekki vera með okkur í rútunni.

 


Sjö kynslóðir indíánahugsunarinnar.

Alla síðustu öld var kennt í skólum, hvernig stórkostlegar vísindauppgötvanir færðu mannkyninu batnandi lífskjör, velferð og hamingju.

Þessi vestrænu vísindi ryddu burtu hjátrú og hindurvitnum "frumstæðra" þjóða eins og indíána.

Ég man þá tíð þegar menn sáu fyrir sér að hafin væri "atómöld" þar sem fengist gnægð orku í kjarnorkuverum og að vatnsorkan yrði ekki samkeppnishæf.

Var þetta meðal annars ein helsta röksemdin fyrir því að hér á landi yrði að fara í kapphlaup við að virkja sem mest af vatnsorku áður en hún missti samkeppnishæfni sína.

Merkilegt er hvað gengið var langt í að mæra kjarnorkuna þegar þess er gætt að hún er í raun ekki endurnýjanleg orka en framhjá því og erfiðleikunum við að losna við úrgang frá kjarnorkuverunum var alveg skautað í þessu trúboði.

Þessi þöggun og skammsýni var alveg á skjön við djúpa vísindalega hugsun og upplýsingu, sem átti að vera aðall vestrænnar hugsunar.

Meðal hinna "frumstæðu" indíána var sú hugsun sett fram að engin starfsemi eða nýting væri réttlætanleg nema hún dygði fyrir minnst sjö kynslóðir framtíðarinnar.

Nú liggur ljóst fyrir að langt er í frá að jarðefnaeldsneyti jarðar muni duga svo lengi.

Einnig liggur fyrir að verði kjarnorkan notuð í staðinn muni hráefnin, sem hún byggist á, ekki heldur endast svo lengi.

Í stað þess að gera lítið úr umhverfishugsun indíánanna ætti vestræn vísindahugsun að ganga lengra og gera kröfur til orku og nýtingar auðlinda sem ná mun lengra fram í tímann en sjö kynslóðir, eða eins lengi og séð verði fram í tímann.


mbl.is Heimurinn færi sig frá kjarnorku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gera Norðmenn við Breivik?

Jafnvel þótt notuð verði lög um glæpi gegn mannkyni, sem gefa færi á 30 ára fangelsisvist Anders Behring Breivik, mega Norðmenn áreiðanlega ekki til þess hugsa að um síðir geti hann sloppið út eftir að hafa hegðað sér vel og jafnvel fengið refsitímann styttan út á það.

Þá fer að vera spurning hvort skárra sé að hann sé dæmdur ósakhæfur og verði vistaður örugglega á hæli til æviloka.

Norðmenn hafa einu sinni áður staðið frammi fyrir erfiðri ákvörðun varðandi sakamann.

Það var í réttarhöldunum yfir Vidkun Quisling í stríðslok, þar sem spurningin stóðu um lífstíðar fangelsi eða aftöku.

Niðurstaðan var aftaka. Sú leið er ekki fær nú, því að líflátsdómar eru löngu aflagðir á Norðurlöndum og líflát Quislings algert einsdæmi á sinni tíð.


mbl.is Var undir áhrifum fíkniefna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband