Hverjir komu af stað tveimur heimsstyrjöldum?

Ein staðreynd verður ekki umflúin, hvað sem mönnum sýnist um ummæli Páls Óskars Hjálmtýssonar.

Hverjir komu af stað tveimur heimsstyrjöldum?  Svar: "Streight hvítir karlmenn með Biblíuna í annari hendi og byssu í hinni."


mbl.is Mikil umræða um orð Páls Óskars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófær "haltu mér - slepptu mér" stefna.

Nasistar gengu hreint til verks á árunum 1933-1945. Þýskaland gat ekki brauðfætt sig og sú tilhugsun að hinn "æðri kynþáttur" Aríar, sem byggja skyldu landið, gætu ekki framfleytt sér kallaði á "lausn". (Raunar hefur verið sýnt fram á það að kenningin um hina "hreinu Aría" fær ekki staðist)

"Lausnin" var einföld. Herraþjóðin (Herrenvolk) skyldi leggja undir sig alla Evrópu austur að Uralfjöllum og slavnesku þjóðirnar, sem væru "óæðri kynþáttur" skyldu beygja sig undir vald herraþjóðarinnar í einu og öllu og starfa sem ódýr vinnukraftur við að fæða herraþjóðina og klæða hana.

Á síðustu árum hefur komið í ljós að hinar ríku þjóðir Vestur-Evrópu hafa vegna velmegunarinnar hætt að fjölga sér og því hefur orðið að flytja inn ódýrt vinnuafl frá austanverðri og sunnanverðri álfunni til þess að vinna þau grundvallarstörf láglaunastéttanna, sem eru í raun undirstaða framleiðslunnar og velmegunarinnar.

Hér á landi hefur svipað gerst. Vestfirðir væru að líkindum að fara endanlega í eyði ef ekki hefði komið til stórfelldur innflutningur á útlendingum, aðallega Pólverjum, til þess að vinna í fiskvinnslufyrirtækjum og öðrum framleiðslu- og þjónustugreinum, þar sem laun eru lág og ekki lengur samboðin Íslendingum, "hreinræktuðum" Íslendingum.

Raunar eru hugmyndir Íslendinga um sjálfa sig sem "hreina norræna þjóð" að stórum hluta bull, því að minnst þriðjungur landnámsmanna kom frá Bretlandseyjum og jafnvel víðar að.

Það er ekki Pólverjum og öðrum útlendingum að kenna að hér á landi skuli nú vera talað um "innflytjendavandamál", "gettó í Breiðholti" og "útlendan glæpalýð."

Við sjálfir berum ábyrgð á launakerfi sem býr til slíka skiptingu og þar er líka um að ræða mismunun á milli karla og kvenna, sem John Lennon lýsti þannig: "Konan er negri heimsins."

Þegar ég var ungur var mér og jafnöldrum mínum innrætt að öll vinna göfgaði manninn og enginn væri svo merkilegur eða yfir aðra hafinn að hann gæti ekki verið stoltur af því að vinna með höndunum í sveita síns andlitis.

Nú snýst allt um að mennta fólk sem best og það er nauðsynleg stefna, sem þarf að halda á lofti. En það þýðir ekki að sú erfiðis- og þjónustuvinna, sem inna þarf af hendi eigi að vera lítils metin og illa launuð.

Pólverjar eru langfjölmennastir innflytjenda á Íslandi og eru í raun orðnir að þjóðarbroti á svipaðan hátt og sænskumælandi Finnar.

Ég fæ ekki séð annað en að Pólverjar hafi samlagast íslensku þjóðfélagi vel og hef ekki séð neinar tölur um það að hegðun þeirra, framlegð og löghlýðni standi neitt að baki því sem hefur verið hjá okkur, hinum "hreinu Íslendingum" nema síður sé.

Þeir hæst geipa um "innflytjendavandamál" og níða niður "fjölmenningarsamfélag" ættu að koma til Vestfjarða og vera þar á árlegri hátíð sem kölluð er "Þjóðahátíð".  Þar geta þeir  séð hvernig fólk frá mörgum löndum hefur auðgað og gætt nýju lífi menningu og listir fyrir vestan.

Við lifum í tæknivæddum heimi alþjóðasamfélags. Enginn er lengur eyland þótt hér á landi sé útbreiddur sá hugsunarháttur að við getum alveg verið hér einir og lokað okkur af frá öðrum þjóðum.

 Við getum ekki haldið uppi þeirri haltu mér - slepptu mér stefnu, sem felst í því að flytja inn ódýran vinnukraft af því að við viljum ekki sjálf vinna láglaunastörf, en bölva jafnframt því fólki sem vinnur þessi störf fyrir okkur.

Nú gerast þeir háværir bæði á Norðurlöndum og hér á landi sem vilja "hreinsa til" og "leysa innflytjendavandamálið" til þess að hugsjón þeirra um "hreina Íslendinga" eða "hreinan norrænan kynþátt" sem byggi landið, verði að veruleika.

Þessir menn verða að segja okkur hvernig við ætlum okkur að framkvæma þetta í raun. Hvaða "hreinir Íslendingar" eða "hreinir norrænir menn" eiga að vinna störf Pólverjanna og annarra innflytjenda?

Í frumskógum Afríku þróaðist í öndverðu samfélag ættflokka sem áttu í innbyrðis ófriði þar sem tilvera hvers ættflokks skiptist í andstæðurnar "við" og "þeir".  Ættflokkastríð hafa verið böl álfunnar frá öndverðu og Vesturlandabúar hafa litið niður á hinar "frumstæðu þjóðir".

Samt hafa kristnar vestrænar þjóðir staðið fyrir mestu manndrápum síðustu aldar í tveimur heimsstyrjöldum og sú síðari var háð undir formerkjunum "við - þeir", "herraþjóðin - hinir óæðri og undirgefnu".

Auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé meðal innflytjenda rétt eins og hjá okkur sjálfum.

En það vill gleymast að meðal þeirra er líka margt afburða fólk. Um miðja síðustu öld auðguðu innfluttir tónlistarmenn íslenska tónlistarmenningu svo mjög að segja má að þeir hafi verið burðarásar í íslensku tónlistarlífi og tónlistarsköpun hér.  Víða um landsbyggðina má sjá hvernig slíkt fólk auðgar menningu og mannlíf.

Á þessu ári hef ég átt því láni að fagna að kynnast Pavel Bartozsek sem er fæddur í Póllandi og telst vera "innflytjandi". Hann er stærðfræðingur að mennt og afar fær á sínu sviði. Honum var falin formennska í einni af þremur nefndum Stjórnlagaráðs og er skemmst frá því að segja að honum fórst það afburða vel á alla lund. Ég get gefið honum mín bestu meðmæli hvenær sem er.

Pavel er aðeins eitt dæmi af þúsundum um góða og gegna "innflytjendur" sem hafa auðgað þjóðfélag okkar.

Vandamálin, sem sumir tala um, eru mest af völdum okkar sjálfra en ekki þeirra sem flust hafa til landsins.

Það erum við sem höfum fengið þessu fólki láglaunastörf að vinna sem við erum orðin of fín til að vinna sjálf.

Við skulum því líta í eigin barm þegar við leitum að betra samfélagi.

 

 


mbl.is Gagnrýna innflytjendastefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fröken Reykjavík eldist eins og aðrar konur.

Borgarstjórinn okkar sagðist ætla að klæða sig eins fröken Reykjavík og því kann einhverjum að þykja það skjóta skökku við þegar CNN segir að hann hafi verið klæddur "eins og gömul kona".

En kannski er bara fólgið í þessu ákveðið raunsæi því að nú eru liðin næstum fjörtíu ár síðan Jónas Árnason gerði ljóðið um hina kornungu fröken, sem gekk "eftir Austurstræti á ótrúlega rauðum skóm".

Fröken Reykjavík ætti samkvæmt þessu að vera komin fast að sextugu og Jón Gnarr því alveg á réttu róli ef alls raunsæis er gætt. Fröken Reykjavík eldist eins og aðrir.

Ef Gleðiganga hefði verið haldin um 1960 hefði ég hugsanlega ekið í henni á minnsta bíl landsins, NSU-Prinz, sem í daglegu tali var kallaður "Litli gulur."

Í dag ók ég sem sjötugur karlfauskur á "Litla gul" því að ég eldist eins og aðrir þótt ökulagið hafi ekki breyst vitund.


mbl.is Segir að Jón hafi verið klæddur eins og gömul kona
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurfjármögunun = að lengja í hengingarólinni.

Það er fínt orð, "endurfjármögnun", sem nú er notað yfir það þegar lánastofnanir draga lappirnar við að framlengja skuldir og veita ný lán til að borga hin eldri.

Gaman væri ef einhver hefði tíma til að orðtaka íslenska fjölmiðla á árunum 2007 og sjá, hvernig þetta orð "endurfjármögnun" var í vaxandi mæli nefnt þegar lýst var stöðu og störfum fyrirtækja á Íslandi.

Í raun var ástandið þannig, að hrun var óhjákvæmilegt bæði þessi ár og "endurfjármögnun" var aðeins fínt orði yfir það að lengja í hengingarólinni og fresta hruninu, en jafnframt að gera það stærra og verra en ella.

"Eigi hirði ég um hvort þú verð þig lengur eða skemur" sagði Hallgerður langbrók við Gunnar á Hlíðarenda þegar hann bað hana um að ljá sér hárlokk til að gera við slitinn bogastreng.

Hugsanlega voru þessi orð Hallgerðar ein þau viturlegustu sem sögð voru í Njáls sögu, og var þó af nógu að taka. Hallgerður vissi að óhjákvæmilega stefndi í það að maður hennar yrði drepinn og að það var illskárra að það yrði sem fyrst í stað þess að það drægist á langinn og kostaði mörg mannslíf að óþörfu.

Nú virðist vera svipað uppi hjá almenningi á Spáni og víðar og var hjá okkur veturinn 2008-2009.

Fróðlegt verður að sjá hver framvindan verður.


mbl.is Þúsundir mótmæla í Madríd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margfalt áfall.

Ef Talibanar hafa skotið niður Chinook-þyrluna, sem fórst nálægt átakastað í Afganistan getur verið um margfalt áfall að ræða fyrir Bandaríkjamenn.

1. Þetta er mannskæðasta áfall bandaríska hersins í landinu.

2. Ef lunginn af sérsveitinni, sem drap Bin Laden hefur farist með þyrlunni, er það mikið áfall og verður óspart notað af Talibönum til áróðurs.

3. Árásarþyrlur hafa síðustu ár þótt einhver skæðustu vopn nýtískulegustu herja heims. Þótt þær séu ekki nándar nærri eins hraðfleygar og orrustu- og sprengjuþotur vegur fjölhæfni þeirra og lipurð það upp og stærstu þyrlurnar hafa einnig mikinn árásarmátt. Það er áfall ef satt er, að Talibanar hafi grandað svona stóru hernaðarloftfari. Hernaðaryfirvöld munu þurfa að skoða vandlega hvað fór úrskeiðis og hugsanlega að breyta aðferðum sínum.

4. Þegar rándýr hernaðartæki bregðast, sem eiga stóran þátt í því að hernaðarútgjöld Bandaríkjanna ríða efnahag þeirra á slig, er það áfall sem skilar sér inn í kviku þess vanda, sem Bandaríkin standa frammi fyrir .


mbl.is Hefnd vegnar bin Ladens?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byrjun, sem hefði átt að hefjast fyrr.

Lækkun Standard & Poor.s á lánshæfismati Bandaríkjanna hefði átt að koma miklu fyrr, því að síhækkandi skuldir Bandaríkjamanna hafa verið kunnar um langt skeið og einnig það að ekkert væri að gert til að stöðva þessa þróun.

Raunar hafði kínverskt matsfyrirtæki lækkað lánshæfismat BNA fyrst allra og en reynt var að gera lítið úr því á Vesturlöndum.

Þetta virðist hins vegar bara vera byrjunin því að lækkun matsins byggir á því að langt er í frá að Bandaríkjamenn hafi gert þær ráðstafanir, sem til þarf til að stöðva þann samdrátt, sem virðist óstöðvandi.

 


mbl.is S&P lækkar Bandaríkin í AA+
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besta leiðin, flesta fólkið ?

Ég er ekki í neinum vafa um það eftir Gleðigönguna í dag að fleira fólk var saman komið til að vera viðstatt einn atburð en ég man eftir fyrr.

Ekki þarf að fara í grafgötur með það að það var til bóta að fara hina nýju leið.

Í fyrsta lagi var mun rýmra um gönguna og vagnana en fyrr og því bæði hægt að bæta í herlegheitin og auka öryggi áhorfenda.

Mestu sýndist mér þó muna um mun meira rými fyrir áhorfendur. Frábært var að sjá allan mannfjöldann á gatnamótunu við Njarðargötu þar sem fólk var uppi á göngubrúnni og út um allt.

Enn frekara rými og raunar lang mesta áhorfendarýmið bættist þó við með Menntaskólatúninu, sem var þakið fólki.

Ofan á allt var síðan líkast til besta veður, sem Gleðigangan hefur fengið.

Aldeilis dásamleg hátíð þetta. 


mbl.is Þúsundir í gleðigöngunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Örbíla-naumhyggjusafn" er draumurinn.

Við siglum inn í öld samdráttar og nýtni, sem mun óhjákvæmilega vaxa af hreinni nauðsyn í kjölfar bruðls mannkynsins með auðlindir jarðar.

Aðeins tvö örbílasöfn er að finna á netinu, annað í Austurríki og hitt í Georgíu í Bandaríkjunum.

Síðustu þrettán ár hafa safnast fyrir hjá mér allmargir örbílar og bílar, sem standast þær kröfur sem ég mun geta til naumhyggjusafns, þ. e. bílar sem hafa verið eða eru ódýrastir.

img_0318.jpg

 bóluárunum gaf fólk mér þessa bíla marga hverja, því að það var ekki "in" að láta sjá sig á öðru en nýjum og fínum bílum.

Á morgun er í ráði að fara á einum þeirra, minnsta Mini í heimi, í Gleðigönguna. Ef hægt yrði að koma upp örbíla-naumhyggjusafni má telja líklegt að ferðamenn muni vilja skoða það.

Það eina sem vantar er hentugt húsnæði, sem enn hefur ekki fundist.  


mbl.is Smámunasafn kúnstugs safnara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jarðvegur hatursins.

Það er þekkt fyrirbæri að efnahagssamdráttur og kreppa eykur á úlfúð, deilur, hatur og illvirki og magnar upp stríðshættu.

Þetta gerðist á Sturlungaöld og þess vegna var þá meiri ófriður á Íslandi og fleiri níðingsverk unnin en á nokkrum öðrum tíma í sögu landsins.

Ef efnahagur Vesturlanda hefði haldið áfram að blómgast eftir Locarnosamningana við Þýskaland á þriðja áratugnum hefði Hitler varla fengið þá fótfestu sem hann fékk.

Nasistarnir nærðust á hatursáróðri og fordómum.

Þótt færa megi að því rök að flesir verstu illvirkjar mannkyns myndu fremja voðaverk sín, hvernig sem umhverfisaðstæður eru, verður því ekki neitað að jarðvegurinn fyrir þá marga eru fordómar, hatur og heift.

Þann jarðveg hefur verið að finna í röðum margra stuðningsmanna nýrra hreyfinga í Evrópu sem vilja skera upp herör gegn því þjóðfélagi jöfnuðar, mannréttinda, samkenndar og umburðarlyndis sem ríkt hefur á Norðurlöndum.

Jussi Halla-Aho jafnar saman hatursáróðri sínum og boðskap Kóransins og kemur þannig upp um fáfræði sína og fordóma, því að þessari fullyðingu hans má hvergi finna stað í Kóraninum.

Hann hefur líkt innflytjendum við verstu glæpamenn okkar samtíma og gengið í því efni lengra en Hitler, sem líkti Gyðingum við rottur og sníkjudýr en gekk aldrei svo langt að segja að þeir væru versta tegund glæpamanna, sem til væru.

Kristur sagði ekki að ástæðulausu: "Sælir eru friðflytjendur, því þeir munu Guð sjá", heldur var boðskapur hans sá að ekki mætti eitra jarðveg þjóðfélagsins með hatri og mannfyrirlitningu, heldur rækta hann í þágu friðar og kærleika sem sprytti upp á því góða sem til væri sáð, eins og hann lýsti í sögunni um sáðmanninn sem fór út að sá.  

Boðskapur margra af fylgjendum öfgahreyfinganna í Evrópu er litaður af hatri friðarspilla.

Jussi Halla-Aho, sem segist verða fyrir einelti, hefur ekki haft sóma af þeim skoðunum, sem hann hefur breitt út.  Hann og aðrir sem hvetja til illinda bera vissa ábyrgð. Á hinn bóginn ber að varast að gjalda líku líkt og efna til ófriðar með honum og skoðanabræðrum hans eða kenna þeim um mesta ódæði, sem framið hefur verið á Norðurlöndum í 66 ár.

Ekki má líða að hatrið breiðist út, því að það er vatn á myllu þeirra sem vilja þjóðfélagsgerð Norðurlanda feiga.

Og í kristnu samfélagi mega ekki gleymast orð Krists sem sagði okkur að elska óvini okkar og biðja fyrir þeim.


mbl.is Segist verða fyrir einelti vegna Breiviks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt útlit stærri ketilsins.

Ég sá í gærkvöldi ljósmynd af stærri Skaftárkatlinum sem mér varð starsýnt á. Hún var tekin fyrir nokkrum dögum. Á myndinni sést að ketillinn er hálffullur af vatni og ég hef aldrei séð svo mikið vatn í honum.

Svo virðist sem útlit og hegðun náttúruaflanna á þessu svæði bjóði að einhverju leyti upp á nýjungar, sem gera vísindamönnm erfitt um vik við að spá um hlaup undan jöklinum.

Jökullinn er kolsvartur þarna af ösku og ef öskulagið er þunnt kann að vera meiri sólbráð þar en hefur verið undanfarin ár. 


mbl.is „Viljum ekki afskrifa hlaupið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband