20.9.2010 | 10:21
"Láttu drauminn rætast !"
Ofangreinda setningu sagði gamla förukonan og niðursetningurinn Margrét Sigurðardóttir, Hvammi í Langadal, við mig fyrir meira en hálfri öld þegar ég var þar í sveit sem drengur, en frænka mín í Hvammi hafði tekið hana að sér af góðsemi sinni.
Margrét var þá komin vel á áttræðisaldur og var alltaf kölluð Manga, stundum Manga með svartan vanga eða bláa Manga, jafnvel gelda Manga af því að hún missti andvana fætt eina barnið, sem hún gekk með um sína daga.
Já, hún varð fórnarlamb þeirrar grimmdar sem fólk af hennar stigum var oft beitt og var orðin lúin og þreytt þegar ég kynntist henni, þrotinni að kröftum. En hún hélt því þreki, sem eftir var, við með því að ganga um sveitina eins og förukonur gerðu í gamla daga.
Ég skrifaði 1993 bók um hana og fleira fólk, sem ég kynntist í Langadalnum, en var síðar sagt sitthvað um hana sem gerir það að verkum, að mig dreymir um að skrifa bókina um hana aftur og gera út.
Manga kunni ljóð stórskáldanna utanbókar og á bak við útlit umrenningsins, sem var það hlutverk sem hún hafði skapað sér í ellinni, þegar hún gekk á milli bæja, var gáfuð kona sem hafði lent utangarðs á erfiðri ævi.
Ég skipa Möngu á bekk með þeim persónum sem hafa haft mest áhrif á mig um ævina. Nafn hennar kemur upp í hugann í sömu andrá og nöfn Gísla á Uppsölum, Reynis Péturs, Pálínu á Skarðsá og bræðranna á Guðmundarstöðum.
Manga var undanfari þeirra og beindi sjónum mínum að ljóðum Einars Ben og Steingríms Thorsteinssonar fegurð landsins og möguleikunum sem það gæfi þegar hún sagði:
"Þú átt lífið framundan, drengur minn, og mundu að það stekkur enginn lengra en hann hugsar! Láttu drauminn rætast!"
![]() |
Susan Boyle í heimsmetabókina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.9.2010 | 21:15
Andlega hliðin skilar mestu.
Í knattspyrnuliði eru ellefu menn inni á vellinum í einu. Þótt þjálfun, leikskipulag og einstaklingsgeta hvers leikmanns skipti miklu er mikilvægast að réttur andi ríki meðal leikmanna.
Ef Breiðablik verður Íslandsmeistari í fyrsta sinn verður það fyrst og fremst vegna þess sem stundum er kallað "karakter" liðsins sem heildar. Þann eiginleika hefur liðið sýnt hingað til og nú vantar aðeins herslumuninn til þess að uppskera.
![]() |
Blikar í toppsætinu fyrir lokaumferðina - Selfoss fallið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.9.2010 | 14:51
Eitthvert dýrmætasta sportið.
Oft er talað um bilið eða gjána á milli fólks í þéttbýli og dreifbýli og það hve slæmt það geti verið fyrir þjóðina, samheldni hennar, árangur og velferð.
Mikið óskaplega eigum við Íslendingar hestinum okkar að þakka, því að erfitt er að finna eitt fyrirbæri sem leiðir fólk úr þéttbýli og dreifbýli saman á þann stórkostlega hátt og hesturinn gerir.
Möguleikarnir til þess að sameina þjóðina eru margir og þar að auki er stór hluti þeirra þess eðlis að við getum laðað erlent fólk til landsins og átt með þeim ljúfar stundir sem gefa bæði þeim og okkur gleði og skilning á landi og þjóð.
![]() |
Aldrei séð jafn marga á baki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.9.2010 | 11:51
Við verðum að fara að læra.
Við Íslendingar erum undarlegir kleyfhugar hvað snertir nýjungar og breytt viðhorf og ástand.
Á sumum sviðum erum við svo fljótir að stökkva á nýjungar af ástríðufullum ákafa að við eigum að baki nokkur heimsmeti í því, svo sem í því að nýta okkur farsíma og internetið.
Þetta getur verið dásamlegur kostur en oft förum við langt fram úr okkur og högum okkur eins og barn sem á ríka foreldra og hefur komist inn í risastóra leikfangabúð þar sem það má leika sér að vild.
Andri Snær Magnason hefur lýst þvi vel í frægri blaðagrein hvernig okkur hefur hætt til að stökkva á risastórar hugmyndir án þess að huga hið minnsta að afleiðingunum , til dæmis því að afleiðingunum af því að tvöfalda, fjórfalda og tífalda gersamlega stjórnlausa og áhættusama orkuöflun í þágu mesta mögulega orkubruðls veraldar.
Á hinn bóginn er síðan sá eiginleiki okkar að ríghalda í gamlar og úreltar hugmyndir og skella skollaeyrum við aðvörunarorðum um afleiðingar þess að aðhafast ekkert í ljósi breyttra aðstæðna.
Fréttin um þá áhættu sem við tökum með því að ríghalda í notkun fjölfosfats til að gera saltfisk hvítan er gott dæmi um þetta.
Við höldum líka að við komumst upp með til frambúðar með ofnýtingu og rányrkju á jarðvarmasvæðum og hugum ekkert að því hve stórhættulegt það verður fyrir orðspor okkar (öðru nafni viðskiptavild) þegar upp kemst hvers kyns er.
Ég þarf sífellt að vera samskiptum við útlendinga og þekki af eigin reynslu það sem Andri Snær segir um það hve steinhissa þeir verða er þeir komast að hinu sanna um margt það sem við aðhöfumst.
Þar er af svo mörgu að taka að átakanlegt er. Maður stendur eins og fífl og reynir að réttlæta margt það sem veldur viðbrögðum á borð við það að þeir hrópa upp: "Þú ert að grínast!"
Eru menn virkilega að eyða peningum í að skoða það hvernig hægt sé að virkja helminginn af vatnsafli Dettifoss og halda samt áfram að sýna hann sem aflmesta foss Evrópu? Þú ert að grínast, er það ekki?
Skoðuðu menn virkilega og eyddu fé í að gera áætlun um að veita hinu auruga Skjálfandafljóti í Kráká, gera fyrir sunnan Mývatn stærra miðlunarlón en Mývatn, steypa jökulfljótinu í Laxá og drekkja Laxárdal?
Þú ert að grínast, er það ekki?
Þá dugir ekki að svara á Gnarrisku: "Nei, djók!"
Við verðum að fara að læra. Við verðum að hætta að horfa bara á tærnar á okkur eða stinga höfðinu í sandinn og horfast ekki í augu við veruleikann.
![]() |
Hættulegt fyrir orðspor okkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.9.2010 | 07:17
Nei, djók !
Æst var hin blakka forsetafrú.
Sú franska um það greindi nú.
Að lífið í hvíta húsinu væri
helvíti á jðrð uns hún úr því færi.
Ofangreind ferskeytla lýsir fréttinni af ummælum Michelle Obama, sem hún á að hafa látið falla í spjalli við frönsku, forsetafrúna og er þetta tilefni frétta af þessu.
En í frétttinni kemur fram að eitthvað svipað hafi hér skolast til og henti í viðtali Jóns Gnarr úti í Frakklandi, og að hið rétta megi setja fram með því að breyta ofangreindri ferskeytlu í sex-skeytlu, þar sem bætt er við nýrri þriðju hendingu aftan við aðra hendinguna og síðan nýrri hendingu í lok ljóðsins.
Þá verður hin afleidda sexskeytla svona:
Æst var hin blakka forsetafrú.
Sú franska um það greindi nú.
Og við jók.
Að líið í Hvíta húsinu væri
helvíti´á jörð uns hún úr því færi.
Nei, djók !
![]() |
Lífið í Hvíta húsinu hreint helvíti" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.9.2010 | 02:23
Tregðan gegn breytingum.
Fjölbreyttar nýjungar má nú finna í viðleitni manna til þess að fara betur með takmarkaðar orkulindir og nota nýjar til þess að knýja samgöngutæki.
Þetta má glöggt sjá á sýningu á vistvænum tækjum í Vetrargarði Smáralindar. Raunar ætti að kalla mörg þessara tækja "vistvænni" farartæki, því að í mörgum þeirra er minnkaður útblástur og minni eyðsla, sem fæst fram.
Ég hvet fólk til þess að líta inn á þessa sýningu og prófa til dæmis bílhermi, þar sem hægt er að læra aksturslag sem getur sparað mikla peninga.
Aðalvandamálið hygg ég að sé ekki það að farartækin séu ekki fyrir hendi, heldur fáfræði um þau og þó helst sú innbyggða tregða sem kemur í veg fyrir að fólk breyti um stíl.
Eins og sést af smáauglýsingum í blöðum er hægt að kaupa bíla fyrir allt niður í nokkur hundruð þúsund á markaði notaðra bíla, en ekkert slíkt fyrirfinnst varðandi rafbíla, metanbíla, vetnisbíla, tvinnbíla eða aðra slíka.
Ég hefði til dæmis fyrir löngu verið búinn að fá mér slíkan bíl til innanbæjaraksturs ef ég haft efni á því og hygg ég að svo sé um fleiri.
En draumurinn um að öll samgöngutæki á Íslandi til lands og sjávar verði knúin innlendri vistvænni orku getur vel ræst ef unnið er markvisst að því að koma því máli áfram.
![]() |
Vistvæn farartæki sýnd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2010 | 00:37
Dagur móðurinnar.
Ég hef þá sýn á afmællsdag hverrar manneskju að hann eigi fyrst og fremst að vera hátíðisdagur móður afmælisbarnsins.
Afmælisbarnið man sjálft ekki eftir þessum degi en öðru máli gegnir um móðurina sem nýtur upplifunar sem líkast til er ólýsanleg, - upplifun sem aðeins konum er gefið að öðlast.
Hver maður ætti að óska móðurinni til hamingju með afmælisdag barns hennar, þegar hann rennur upp.
Þannig finnst mér afmælisdagar barna minna, þótt þeir séu mikils virði fyrir þau, fyrst og fremst afmælisdagar móður þeirra, Helgu Jóhannsdóttur.
Ég fæddist á afmælisdegi móður minnar, Jónínu Þorfinnsdóttur kennara, og hún er mér ævinlega efst í huga á afmælisdegi mínum.
Að lokum hlýt ég á þessum vettvangi að þakka af hjarta öllum þeim sem gerðu mér gærdaginn ógleymanlegan. Lifið heil.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.9.2010 | 19:19
Dæmi um það hvað reynsla og þrautseigja vega þungt.
Sú var tíð að íslenskir stjórnmálamenn héldu að á tiltölulega fáum árum væri hægt að fjölga loðdýrabúum á Íslandi tuttugufalt upp í 600.
Skellt var skollaeyrum við aðvörunarorðum frá að minnsta kosti einum Íslending sem hafði kynnst slíkum landbúnaði í Danmörku og sagði að áratuga reynsla og yfirveguð markviss þróun væri forsenda fyrir velgengni.
Við sjáum að Danir búa enn að reynslu sinni en líka að í áranna rás hafa þeir Íslendingar sem þraukuðu og þróuðu með sér reynslu og þekkingu náð árangri.
![]() |
Minkaskinn frá Íslandi aldrei dýrari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
15.9.2010 | 19:14
Bara að Fjalakötturinn hefði verið til.
Sagt var á sínum tíma að Fjalakötturinn væri elsta kvikmyndahús í Norðurálfu. Það var hins vegar rifið á þeim tíma sem slík hús voru kölluð "timburkofar" og "skúradrasl."
Nú er þetta sem betur fer að breytast og það er stórkostlegt eins og sést á Bíó Paradís.
En mikið hefði nú verið gaman ef Fjalakötturinn hefði verið til og hægt að láta hann ganga í endurnýjun lífdaga og draga að sér ferðamenn í miðborginni.
![]() |
Heimili kvikmyndanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.9.2010 | 19:47
Kom sér samt einu sinni vel.
Í fámenninu hér á klakanum hefur það lengi verið lenska að gera lítið með formfestu, aga og reglu. Þvert á móti hafa þessi þrjú orð lengst af haft á sér neikvæðan blæ í hugum okkar.
Nú hefur aðdragandi Hrunsins sýnt okkur hve hin íslenska lausung getur leikið okkur grátt þegar um stór, umfangsmikil og erfið mál er að ræða.
Aðeins einu sinni hefur það þó gerst að það gagnaðist okkur Íslendingum vel hvað við vorumn opnir, jákvæðir, lítt formfastir og jafnvel "frumstæðir" á þessu sviði.
Það var í aðdraganda og undirbúningi leiðtogafundarins fræga í Höfða árið 1986 þegar Íslendingum tókst á aðeins fáum dögum að leysa flókið, viðkvæmt og afar erfitt verkefni sem þeir höfðu litla reynslu í að leysa.
Jafnvel sjálfir Svisslendingar, sem hafa einna lengsta reynslu þjóða af því að halda utan um stóra alþjóðlega viðburði, sögðu að vafasamt væri að þeir hefðu getað leyst þetta af hendi á þeim stutta tíma sem gafst.
Kannski varð þetta og fleira í svipuðum dúr undir formerkjunum "þetta reddast einhvern veginn" til þess að við héldum að þetta væri alltaf æskilegt í stað þess að líta á það sem undantekningu frá reglunni.
Því að lausung, ómarkviss og frumstæð vinnubrögð geta nefnilega tafið fyrir því að mál séu leyst og jafnvel komið í veg fyrir að skásta leiðin sé farin eins og raunin varð á eftir að hafin var sú vegferð árið 2002 sem leiddi af sér Hrunið sex árum seinna.
![]() |
Frumstæð vinnubrögð komu á óvart |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)