2.9.2009 | 21:13
Hvernig?
Söngurinn um þátttöku erlendra fyrirtækja í uppbyggingu þjóðfélagsins eftir hrunið er nær stanslaus dag eftir dag og tekur á sig ýmsar myndir.
Það er góðra gjalda vert að útlendingar leggi fé í uppbygginguna sé það tryggt að auðlindir okkar til sjós og lands séu örugglega í okkar höndum.
Enginn hefur á móti því að stórfyrirtæki eins og álverin borgi hærri gjöld.
En samt hringja bjöllur hjá mér þegar þessi söngur er sunginn og maður spyr sig spurninga.
Er verið að fegra sölu á auðlindunum með því að henda fram hugmyndum um hærri gjöld sem til dæmis þau erlend fyrirtæki borgi sem hafa fengið hvað mestar ívilnanir og litlar líkur eru á að vilji breyta því?
Gamall starfsfélagi minn frá fyrri tíð sagði við mig þegar ég hitti hann í Austurstræti í fyrradag: "Tókstu eftir því hvað Magma-gaurinn sagði oft í stuttu Kastljósviðtali að hann væri heiðarlegur og honum væri hægt að treysta? Þegar menn tönnlast á þessu spyr ég mig oft, hvers vegna þeir telji nauðsynlegt að vera að taka þetta sífellt fram."
Þetta er svosem ekki einsdæmi í sögunni. "I am not a crook" er ein frægasta setningin sem Nixon sagði.
Shakespeare lætur Antoníus segja aftur og aftur í frægri ræðu sinni eftir morðið á Sesari: "They are all honorable men", - nógu oft til þess að orðin fara að fá á sig þveröfuga merkingu.
Magma-gaurinn sagði í lokin að hann myndi aldrei koma nálægt annarri orkuframleiðslu en þeirri sem væri sannanlega endurnýjanleg og hrein. Með því toppaði hann Shakespeare.
Í ljósi þess hvernig þessu er háttað á stórum hluta orkuvinnslusvæða okkar hringdu bjöllurnar hæst hjá mér þegar hann bætti þessu við síbyljuna sína um heiðarleikann og traustið.
Ef Shakespeare hefði skrifað handrit að því sem Magma-gaurinn sagði í Kastljósviðtalinu er ég viss um að hann hefði viljað hafa það svona flott.
![]() |
Erlend fyrirtæki komi að uppbyggingunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.9.2009 | 13:03
Eftirhermuhjarta og húmorinn upp !
Í veikindum sínum hefur Jóhannes Kristjánsson notið styrks af sínum mikla og dásamlega húmor sem aldrei hefur brugðist honum og verið eitt af því sem skapað hefur honum sess sem bestu eftirhermu sem þjóðin hefur átt.
Hann hefur hermt svo vel eftir sumum persónum að hann hefur verið betri en þær sjálfar !
Ég get vel ímyndað mér að það sé í anda Jóhannesar að segja að eftirherman mikla hafi nú fengið hjarta sem hermir svo vel eftir gamla hjartanu að það sé betra en það !
Jóhannes, húmor hans og snilld lengi lifi ! Til hamingju ! Sú ósk Íslendinga kemur beint frá hjartanu !
![]() |
Jóhannes búinn að fá nýtt hjarta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.9.2009 | 12:47
"Shit! - Hvað þetta var illa lesið!"
Svona endaði lestur fréttar á Bylgjunni núna í hádeginu um Hjálparsjóð hjartveikra barna og gamla Landsbankann. Ekki í fyrsta skipti og ekki það síðasta sem orð fara í loftið í ljósvakamiðli sem ekki var ætlunin að færu lengra.
Þetta voru ósköp saklaus mistök og einkar heimilisleg. Fjölmiðlafólk er jú bara mannlegt eins og allir aðrir og það er bara til að létta lundina að heyra svona orð koma óvart frá hjartanu.
Sjálfur lenti ég í mun verra í síðasta fréttatíma Sjónvarpsins fyrir sumarfrí 1980. Ég hafði unnið að því hörðum höndum allan daginn að skrifa fréttina um kjör Vígdísar Finnbogadóttur sem forseta Íslands en áttaði mig á því í þann mund sem ég var að lesa síðustu setninguna að ég hafði gleymt að segja frá hjúskaparstöðu forsetans.
Emil Björnsson fréttastjóri hafði tekið alla fréttamenn í gegn hvað það varðaði að við héldum okkur við forna hefð þess efni að karlar kvæntust en konur giftust.
"Þetta er enginn vandi og einungis spurning um æfingu og vana. Munið það og æfið þið það svo að þetta verði ykkur eðlilegt, að ef talað er um karlkyn er viðkomandi kvæntur eða ókvæntur en ef um kvenkyn er að ræða er viðkomandi giftur eða ógiftur.
Ég hafði æft mig svo lengi í þessu að ég þurfti ekki neinnar umhugsunar við heldur bætti við fréttina þessari aukasetningu í lokin: "Hinn nýi forseti er ókvæntur"! Samanber orð Emils: "Ef talað er um karlkyn er viðkomandi kvæntur eða ókvæntur en ef um kvenkyn er að ræða er viðkomandi giftur eða ógiftur."
Ég datt í þá gryfju að hafa æft mig of vel og sagði eins og vélmenni: Hinn nýi forseti (karlkyns orð) er ókvæntur."
Auðvitað varð allt vitlaust út af þessu og ekkert hægt að gera, enda næsti fréttatími ekki fyrr en eftir mánuð.
Þegar ég kom upp á fréttastofu glóðu allar símalínur og ég hafði ekki við að biðjast afsökunar á þessum arfa slæmu mistökum.
Loks var svo komið að mér fannst ég mér farið að líða eins og kínverskmum kommúnista við að játa og játa og gafst upp á þessu. Ákvað að svara í síðasta sinn og fara síðan af vettvangi og sleikja sárin.
Þá hringi ævareið kona sem hellti sér yfir mig. "Já, en kæra frú, svaraði ég, ég var bara að segja sannleikann. Orð mín um að forsetinn sé ókvæntur eru óhrekjanleg sannindi."
"Að þú skulir ekki skammast því að vera svona óforskammaður" hvæsti konan reiða.
"Nei," svaraði ég. "Ég stend við orð mín nema að þú getir sannað að Vigdís hafi verið við konu kennd og sé kvænt."
Konan skellti bálreið á og ég flúði. Nú, tæpum þrjátíu árum síðar, sé ég að ég var óafvitandi langt á undan minni samtíð þegar ég talaði um þann möguleika að til væri hjúskapur tveggja aðila af sama kyni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.9.2009 | 01:02
Allir aðilar voru orsakavaldar, mismiklir þó.
70 árum eftir að heimsstyrjöldin síðari hófst greinir menn enn á um það hverjir báru ábyrgð á því að hún hófst og hve mikla.
Hjá vesturveldunum kenna margir Nasistum og Sovétmönnum að jöfnu um það að hún hafi hafist 1. september 1939 með innrás Þjóðverja í Pólland, - eða fyrir réttum 70 árum.
Í Sovétríkjunum var alltaf talað um "Föðurlandsstríðið mikla" 1941-45, rétt eins og ekki hefði verið neitt stríð áður.
Förum aðeins yfir helstu ástæðurnar sem hægt er að kenna einhverjum um og sleppum þess vegna einum orsakavaldinum, sem var heimskreppan, en hana má þó kenna Bandaríkjamönnum um, öðrum fremur.
1.
Óréttlátir og óskynsamlegir Versalasamningar sem ólu á óánægju í Þýskalandi.
2.
Friðþægingarstefna vesturveldanna sem náði hámarki í Munchen í september 1938 þegar Bretar og Frakkar, án nokkurs samráðs við Sovétríkin, gáfu Hitler Súdetahéruð Tékkóslóvakíu á silfurfati, en það jafngilti því að Hitler voru færð yfirráð yfir Tékkóslóvakíu að vild hans, því að með þessum gerningi voru náttúruleg og verjanleg landamæri Tékkóslóvakíu að engu gerð.
Þessir samningar, þegar lýðræðisþjóð í Mið-Evrópu var svikin í tryggðum voru ein af þremur afdrifaríkustu ástæðum stríðsins.
Sovétmenn treystu ekki Vesturveldunum eftir að þau höfðu í augum þeirra sigað herjum Hitlers í austurátt eins og kom á daginn þegar hann tók alla Tékkóslóvakíu 15. mars 1939.
Í raun hófst hin óhjákvæmilega heimsstyrjöld þá, enda hafði styrjöld Japana og Kínverja þegar staðið síðan 1937.
3. Rússahræðsla og tortryggni Pólverja. Það er lítið minnst á þessa ástæðu, enda voru Pólverjar verr leiknir í stríðinu en nokkur önnur Evrópuþjóð og menn hafa því mikla samúð með þeim. En Rússahræðsla þeirra gerði að engu möguleikana til þess að Rússar gætu hjálpað þeim.
Rússar voru eina þjóðin sem gat látið til sín taka beint á vígstöðvunum í Póllandi í upphafi stríðs, en það gátu þeir ekki nema senda her sinn inn í Pólland.
4. Sú Machiavelli-pólitík Stalíns að gera bandalag við helsta óvin sinn. Ástæðan var sú að hann óttaðist að í styrjöld í bandalagi við Breta og Frakka myndi allur þungi hernaðarátakanna lenda á Rússum.
Forsenda fyrir hernaðarbandalagi Breta, Frakka og Sovétmanna var að Vesturveldin réðust inn í Þýskaland úr vestri og Sovétmenn færu inn í Pólland úr austri til að berjast við Þjóðverja.
En Vesturveldin höfðu enga sóknaráætlun tilbúna 1939 því að öll hernaðaruppbygging þeirra hafði miðast við að verjast en ekki að sækja. Þetta kom berlega í ljós veturinn 1939-40 þegar svonefnt Sitzkrieg eða Phoney War ríkti á vesturlandamærum Þýskalands og nánast ekkert var þar að gerast þar á meðan Hitler gat sent meginherinn inn í Pólland til að gjörsigra Pólverja og snúa síðan aftur til vesturs.
Stalín vantreysti Bretum og Frökkum og óttaðist að þeir myndu sitja í makindum í slíku stríði á vesturlandamærunum meðan allur þungi stríðsins og mannfall lenti á Rússum.
5. Þetta er auðvitað aðalástæðan: Adolf Hitler. Maðurinn hafði fágæta dávaldsgáfu sem sló öll vopn úr höndum þeirra sem við hann þurftu að hafa samskipti.
Bæði 1938 og 1939 fór yfirmaður þýska herráðssins á fund hans með þau skilaboð frá herráðinu að herinn myndi neita að berjast ef fara ætti í stríð og í bæði skiptin kom yfirmaðurinn öfugur út eftir að Hitler hafði valtað yfir hann.
6.
Eftirgjöf meginþorra þýsku þjóðarinnar sem leiddi hjá sér skelfilega og villimannlega kynþáttahatursstefnu Hitlers. Í raun var þetta hliðstæða friðþægingarstefnu Vesturveldanna 1935-39, - fólst í því að leiða hjá sér það sem var óþægilegt, þora ekki að horfast í augu við við ógnina eða takast á við hana.
70 árum eftir upphaf stríðsins er til lítils að rífast enn um það hvort ástæða númer 2 eða 4 var aðalástæða stríðsins af hálfu þeirra sem urðu bandamenn 22. júní 1941.
Algengt er að segja að ef stríðið hefði hafist 1938 hefði það verið Hitler í hag, svo vanbúnir hefðu Bretar, Frakkar og Sovétmenn þá verið.
En á móti því mælir, að það var auðvitað mikill ávinningur fyrir Hitler að fá Tékkóslóvakíu á silfurfati, ekki hvað síst vegna þess að þar með komust Þjóðverjar fyrirhafnarlaust langt austur eftir álfunni og fengu sem herfang án þess að hleypa af einu einasta skoti skriðdreka- og vopnaframleiðslu Skodaverksmiðjanna. Það kom sér vel í skriðdrekainnrásinni gegnum Ardennafjöll yfir að Ermasundi í maí 1940.
Líkast til munaði það mestu fyrir Rússa að fá frest, vegna þess að Rauði herinn var í tætlum eftir hreinsanir Stalíns og ekki var hafin framleiðsla á öflugustu vopnum þeirra svo sem T-34 skriðdrekunum.
Eftir situr að langmest mannfall og tjón af völdum stríðsins í Evrópu lenti á Rússum, sem áttu meginþáttinn í því að sigra Þjóðverja þegar á hólminn var komið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.9.2009 | 23:28
Ísland var mikilvægt.
Það var bandamönnum í hag þegar leið á seinni heimsstyrjöldina að ÞJóðverjar óttuðust innrás á meginland Evrópu á sem flestum stöðum og frá sem flestum stöðum.
Einn helsti lykillinn að því að innrásin í Normandy heppnast fólst í því að setja upp svo óræk merki um að innrásin yrði gerð við Calais að Þjóðverjar byndu sem stærsta hluta varnarhers síns og skriðdreka þar.
Einn liður í því var að fela Patton stjórn herafla á suðausturhorni Englands og láta hann sjást þar hæfilega oft.
Á sama hátt var mikilvægt að halda Þjóðverjum hræddum varðandi Noreg svo að þeir hefðu sem mestan herafla þar. Þá gat komið sér vel að láta þá halda að innrás þangað eða á meginlandið kæmi frá Íslandi.
Herbragðið með Calais heppnaðist fullkomlega og Þjóðverjar voru svo sannfærðir í fyrstu um að innrásin í Normandy væri gerð til afvegaleiðingar (diversionary invasion) að þeir sendu ekki heraflann frá Calais í vesturátt fyrr en það var orðið um seinan.
Rétt eins og Noregur var Ísland mikilvægt í stríðinu. Það hefði verið mjög dýrmætt fyrir Þjóðverja að ná Íslandi upp úr 20 september 1940 þegar veður gafst til þess að senda skipaflota til landsins í samræmi við áætlunina Ikarus , en einnig flugflota.
Þá urðu Bretar urðu enn að vera viðbúnir innrás yfir Ermasund í sitt land.

Hef áður bloggað um möguleikann á flugbækistöð Þjóðverja norðan Brúarjökuls og er í samvinnu við Trausta Jónsson veðurfræðing að skoða veðrið í september og október 1940.


![]() |
Átök njósnara á Íslandi 1944 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 2.9.2009 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.9.2009 | 18:46
Hafið þið tekið eftir því...?
Hafið þið tekið eftir því að yfirleitt er það síðasti lykillinn sem maður fálmar eftir í lyklakippunni sem gengur að skránni og maður hugsar með sér: Af hverju athugaði ég ekki síðasta lykilinn fyrst?
Hafið þið tekið eftir því að þegar við missum brauðsneið í gólfið snýr smjörið eða áleggið alltaf niður?
Hafið þið tekið eftir því að þegar maður skilur eftir snúrur í poka eða tösku, þá eru þær oftast búnar að flækja sér í óleysanlega flækju, jafnvel binda á sig hnúta, þegar maður opnar töskuna?
Í gærkvöldi var ég á leið heim til mín og þurfti að fara framhjá sjö umferðarljósum. Hver einastu umferðarljós breyttus úr grænu í rautt þegar ég kom að þeim. Hafið þið tekið eftir því hvernig þetta gerist æ ofan í æ? Maður hangir á hverjum ljósunum á fætur öðru, sem eru að stjórna umferð sem er ekki til, að kvöldi eða um nótt.
Hafið þið tekið eftir því hvað Murphys-lögmálið gildir oft, - að ef eitthvað geti farið úrskeiðis, muni það gerast og það fyrr en okkur grunar?
Hafið tekið eftir því hvað hlutir geta fest eða flækst hverjir í öðrum ótrúlega oft og á ótrúlegan hátt?
Hvernig fötin manns geta fest á furðulegan hátt og rifnað?
Hafið þið tekið eftir því hvað maður getur verið öruggur um að við höfum öll tekið eftir þessu?
En hafið þið tekið eftir einu, - svona í lokin? Hafið þið tekið eftir því hvað við tökum sjaldan eftir því þegar allt gengur vel, öfugt við upptalninguna hér að ofan?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)