Mynd sem segir sögu.

Nýlega áskotnaðist mér ljósmynd af sjónvarpsstarfsmönnum á fréttastofu RUV fyrir um átta árum, áður en ég fór á eftirlaun.

27 manns eru á myndinni en af þeim er drjúgur meirihluti horfinn úr vinnu á þessum fáu árum, flestir vegna uppsagna við síendurtekinn niðurskurð sem ekkert lát virðist ætla að verða á.

Með þeim, sem hættu, hvarf gríðarleg reynsla frá Ríkisútvarpinu, en reynsla og þekking á hinu liðna er afar mikilvæg fyrir hverja fréttastofu. Nú njóta önnur fyrirtæki og stofnanir hæfileika þessa fólks.  

Hvað eftir annað koma upp fréttir, þar sem verður að meta gildi hennar á svipstundu og átta sig á því hvort viðkomandi frétt eigi sér fordæmi.

Um margt af slíku gefst enginn tími til né eru tök á að gúgla neitt. Uppsagnirnar hafa verið mikil blóðtaka á tímum, þar sem aukin þörf hefur verið á öflugri fjölmiðlun vegna margs konar þjóðfélagsvanda og gerjunar á ýmsum sviðum. 

Svo er að sjá sem ráðamenn geri sér ekki grein fyrir eðli fjárhagsvanda RUV né heldur nauðsynlegu hlutverki ríkisútvarps. Fjárhagsvandinnn á sér rætur í allt of stóru og dýru útvarpshúsi sem eru glöp fyrri tíma, þeim ókosti ohf væðingarinnar að lífeyrisgreiðslur RUV séu bókaðar beint á fyrirtækið, ásamt því að árum saman hafa ráðamenn þjóðarinnar tekið stóran hluta af útvarpsgjaldinu frá RUV og eytt því í eitthvað annað.

Þetta er í raun lymskuleg aðferð til að kippa grundvellinum undan RUV. Þótt útvarpsgjaldið sé síst hærra hér en í nágrannalöndunum er alið á óánægju greiðendanna, sem ekki vita að ríkissjóður rænir stórum hluta gjaldsins ár eftir ár.

Flest fólk heldur að allt féð hafi farið til RUV.

 Ef útvarpsgjaldið hefði fengið að vera í friði væri staðan önnur.

Þótt nú sé því flaggað að komið sé með 400 milljónir í púkkið er hin raunverulega staða sú, að útvarpsgjaldið á að lækka svo mikið nú og á næstu árum að engin leið verði til þess að reksturinn standi undir sér.

Nú er í alvöru íhugað að leggja eitthvað af starfsemi RUV niður. Hæst bylur söngurinn um að selja Rás 2 þótt einmitt hún sé það sem ber sig einna best. Engin furða er þótt þessi söngur sé háværastur því að auðvitað ásælast einkaaðilar helst þann hluta rekstursins sem gefur arð.

Áhrifamenn sækja hart að fréttastofunni og í gangi er samfelldur áralangur óhróðurssöngur um hana.

Þeir myndu fagna því ef hún yrði lögð niður og fréttaflutningur og fréttaskýringar í landinu yrðu í höndum einkaaðila, sem þeim eru þóknanlegir. Eða þá að fréttastofan yrði halaklippt svo að hún gæti ekki sinnt hlutverki sínu og þá væri hægt að benda á hana og segja: Þarna sjáið þið, að hún veldur ekki hlutverki sínu og best að leggja hana bara niður. 

Mergurinn málsins er sá að fréttastofur í höndum einkaaðila þurfa ekki að standa neinum reikningsskil gjörða sinna nema eigendunum sínum í stað þess að ríkisútvarp þarf að sinna skyldum sínum við,eigendur sína sem eru þjóðin.

Þjóðirnar í kringum okkur láta sér ekki til hugar koma að leggja niður ríkisútvarp í sínum löndum og láta peningamönnum það eftir að eiga alla fjölmiðla.

Þvert á móti er ríkisútvarp eflt í þessum löndum vegna nauðsynjar á öflugri fjölmiðlun.

Og í dag er birt niðurstaða skoðanakönnunar sem sýnir að fréttastofa RUV nýtur langmests trausts allra fjölmiðla. 

Ég efast um að margir í þessum löndum geti setið þar fyrir framan ljósmyndir af starfsmönnum á fréttastofum og séð það, sem ljósmyndin á veggnum mínum sýnir.

  

 


mbl.is Selji eignir eða rifi seglin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myrku morgnarnir yrðu næstum helmingi færri.

Þegar verið er að velta vöngum yfir birtunni á morgnana á kvöldin er mikilvægt að miða ekki við sólarupprás heldur hugtak sem í fluginu heitir "birting" og er miðað við þann tíma þegar sólin er 6 gráður undir sjóndeildarhringnum. 

Þessi tímapunktur er viðmið fyrir skilgreiningu á skilyrðum fyrir nætursjónflug og er að meðaltali um eina klukkustund fyrir sólarupprás og eina klukkustund eftir sólarlag. 

Dagsbirtan miðuð við klukkan átta á morgnana sést hér að neðan á töflu, vinstra megin miðað við núverandi klukku og síðan hægra megin miðað við það að seinka henni um klukkustund, eða kannski öllu fremur, að seinka fótaferð yfir háveturinn. 

26. október kl. 8:01 - 18:24 ......færist aftur til   16.nóvember. 

26. febrúar kl. 8:00 - 19:25 ......færist fram til    6. febrúar  

Samkvæmt þessu styttist það tímabil vetrarins, sem birtir klukkan átta að morgni úr fjórum mánuðum, niður í tvo mánuði og 10 daga eða næstum því um helming.

Styttingin nemur alls um 50 dögum.

Að sjálfsögðu tapast jafn mikill birtutími í staðinn síðdegis, en sennilega er gróðinn á morgnana meira virði fyrir líkamlega og andlega vellíðan varðandi að byrja daginn í sem bestu birtuskilyrðum.

En þetta sýnir líka hve miklu munar ef námstími og vinnutími eru einfaldlega færð í stað þess að hringla með klukkuna. Það er mín tillaga. Seinka fótaferð yfir háveturinn en flýta henni og birtutímanum síðdegis þegar sólin er komin hærra á loft.    


mbl.is Svona birtir með breyttri klukku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi ekki annað "Engihjallaveður".

Flestir sem ég hef rætt við um óveðrið 3. febrúar 1991 nefna götunafnið Engihjalla þegar rætt er um það óveður. Jafnvel talað um "Engihjallaveðrið". 

Ástæðan er sú einstæða uppákoma þegar bílar fuku til eins og eldspýtustokkar og skemmdust á bílastæði við íbúðablokk við Engihjalla í Kópavogi. 

Mér er enn í minni talan 93 hnútar eða um 50 metrar á sekúndu í Reykjavík. 64 hnútar eru skilgreindir sem fárviðri.  

Hluti dagsins hjá mér fór í að koma í veg fyrir að tvær flugvélar, sem ég átti, eyðilögðust, en þær stóðu úti. 

Önnur, Cessna 210, stóð inni í svonefndum Básum norðan við Loftleiðahótelið og það þurfti að vakta böndin sem hún var bundin í svo að hnútarnir á þeim röknuðu ekki upp, því að allt lék á reiðiskjálfi inni í básnum hennar og hún hoppaði til og frá í böndunum.

Stórum vöruflutingabíl var lagt sem skjólvegg fyrir hina vélina, Dornier 27, sem stóð við flugskýli suður í Skerjafirði. Hvað eftir annað lyfti vindurinn bílnum upp svo að hann var við það að velta á flugvélina.

En í hvert sinn sem bíllinn vó salt, var kominn það mikill halli á hann, að vindurinn brotnaði aðeins betur af honum svo að hann fór aldrei alveg á hliðina. Það var einstök sjón.

Vonandi kemur ekki jafn slæmt veður nú í kvöld.  


mbl.is Svona var ofsaveðrið 1991
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn skjálfti núna undir Holuhrauni en fleiri undir Bárðarbungu.

Þótt stóru skjálftunu hafi ekki fækkað að undanaförnu undir Bárðarbungu er áberandi síðustu dagana hvað skjálftum hefur fækkað undir Holuhrauni.

Nú er liðið óvenju langt frá síðasta stóra skjálftanum undir bungunni en litlu skjálftunum hefur fjölgað þar, en núna er engan skjálfta að sjá norðan Dyngjujökuls á grafinu á vedur.is.

Fróðlegt væri að vita hvað vísindamenn segja um þetta.  

Sem leikmanni dettur mér í hug að þetta geti verið venga þess að við langvarandi rennsli kvikunnar í gegnum Baug og út úr honum, sé leið fyrir kvikuna orðin svo greið, að landið skjálfi ekkert við þetta og að Baugur sé einfaldlega eins og þægilegt afrennsli fyrir þá kviku, sem þrýstist enn til norðausturs út úr kvikukerfi Bárðarbungu.

Og síðan spurningin um það hvort eðli umbrotanna undir bungunni sé að breytast og þá hvernig. 

Sé svo, kann að vera að spá Haraldar Sigurðssonar eldfjallafræðings um að gosið kunni að lognast út af í mars eða seinna í vor rætist og jafnvel að gosið lognist út ennþá fyrr. Hver veit?


mbl.is Öflugt eldgos í þrjá mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falsvonirnar fyrir hálfri öld.

Upp úr miðri síðustu öld var farið að reisa kjarnorkuver og það er minnisstætt hve bjartsýnin varðandi beislun þessarar orku var mikil. 

Hér á landi var til dæmis höfð uppi hvatning til þess að virkja sem allra mest vatnsafl sem allra fyrst áður en það yrði ekki samkeppnisfært við kjarnorkuna. 

Aldrei var minnst á hættu af "kjarnorkuslysum" eða þá staðreynd að kjarnorkuvinnsla á grundvelli notkunar úraníums getur aldrei leyst allan orkuvanda mannkynsins, því að þá verður úraníum uppurið á nokkrum áratugum. 

Lítið fór fyrir upplýsingum um kjarnorkuúrgang og vandann, sem hann skapar. 

Miðað við það hve langan tíma tók að átta sig á og upplýsa um mikilvægar staðreyndir varðandi beislun kjarnorkunnar, ætti að hafa varann á þegar nú eru gylltir mjög möguleikarnir á svonefndri "fracking" aðferð, eða "bergbrot" til að vinna jarðefnaeldneyti úr jörðu. 

Þótt þessi aðferð hafi skapað Bandaríkjamönnum möguleika á að framleiða meiri olíu og gas sjálfir heldur en olíu, sem þeir flytja inn, og að af þessum sökum hafi olíuverð hríðfallið á heimsmarkaði, eru þegar farin að blikka ýmis aðvörunarljós varðandi ógnarhraðan vöxt þessarar vinnslu, bæði hvað snertir umhverfisáhrif og eitrunaráhrif og ekki síður það, að þetta muni verða afar skammgóður vermir vegna þess að þetta er svo sannarleg óendurnýjanlegur orkugjafi.

En lítil von er til þess að hægt verði á hinu nýja æði. Obama forseti þarf á svona innspýtingu að halda fyrir fylgi sitt þau tvö ár sem hann á eftir í embætti og Vesturlöndum er mjög í mun í togstreitunni við Rússa að nota gamla trikkið hans Reagans gagnvart Rússum, sem fólst í því að standa sem staðfastastir í því að láta aukið framboð verðfella olíuna, en það kemur sér alveg sérstaklega illa fyrir olíuþjóð eins og þá. 

 


mbl.is Draugabær myndaður úr lofti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þakklæti fyrir minningar úr þessu húsi.

Sjallinn skipar stórt hlutverk í hjörtum margra Íslendinga og ég er einn af þeim. Ekki hef ég tölu um þau hundruð skipta sem ég kom fram í þessu mesta skemmtanahúsi landsbyggðarinar, en í þessu húsi kviknaði einhver ólýsanleg stemning sem vekur þakklæti fyrir það að þetta hús skyldi vera til. 

Það skipti ekki máli hvort um var að ræða árshátíðir og aðrar tilfallandi samkomur eða héraðsmót og síðar Sumargleði, alltaf stóðu Sjallinn og samkomugestirnir þar fyrir sínu. 

Þarna var jafnan tilhlökkunarefni að njóta krafta akureyrsku píónósnillinganna Hauks Heiðars Ingólfssonar og Ingimars Eydals, sem þróuðu spilatækni, sem fékk heitið "Skálm", en það vísaði til þess hve listilega þessir píanóleikarinar notuðu vinstri hendina til þess að koma í stað bassa og fleiri hljóðfæra, þegar þau voru ekki tiltæk, og gerðu þar með píanóið að ígildi heillar hljómsveitar. 

Hápunktur minninganna eru þó aldarfjórðungsskemmtanirnar svonefndu, sem ég hélt þarna veturinn 1984-85 til að kvitta fyrir 25 ára feril sem skemmtikraftur. 

Þær urðu alls 17 fyrir fullu húsi, og tóku 3 klukkustundir og 40 mínútur hver! 

Með mér að sunnan komu Hemmi Gunn og Ragnar Bjarnason, Hemmi sem kynnir og Ragnar sem sönggestur, en að öðru leyti sá hljómsveit Ingimars með söngkonunni Ingu Eydal um að aðstoða mig við þetta ljúfa verkefni. 

Þessi skemmtun varð meira en klukkustund lengri en samsvarandi skemmtun í Reykjavík eingöngu vegna framlags samkomugesta sem gerðu þetta mögulegt. 

Ég kveð því Sjallann með söknuði og djúpu þakklæti fyrir allar ógleymanlegu stundirnar sem hann gaf mér og öðrum.  


mbl.is Mætir með Helenustokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef önnur bæjarfélög fara í þetta tryllta far, hvað þá?

Bæjarstjóri Garðabæjar telur eðlilegt og æskilegt að íbúatalan þar í bæ tvöfaldist þar á 15 næstu árum og verði um 30 þúsund árið 2030. Hann felur tryllingslega hugmynd sína inni í fullyrðingu um að þetta sé langur tími.

En þetta er ekki lengri tími en svo, að menn hefðu árið 2000 talið eðlilegt og æskilegt að fólksfjöldi tvöfaldaðist í bæjarfélögum á borð við Garðabæ fram til 2015.

Ef þetta er talið æskilegt og eðlilegt vaknar spurningin um það hvort hið sama hljóti ekki eiga við um Mosfellsbæ, Hafnarfjörð og Kópavog.

Það myndi þýða að vinna þyrfti að því öllum árum að fjölga samanlagt íbúum Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Kópavogs um 76 þúsund þúsund manns á 15 árum, og samt yrði engin fjölgun í Reykjavík ! Hvaðan ætti allt þetta fólk að koma? 

Gunnar reynir að fela eðli málsins í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar með því að segja að bæjarfélög eigi helst ekki að verða stærri en 30-40 þúsund.  

En jafnvel þótt það ætti að gilda myndi það þýða að æskilegt væri að engin fjölgun yrði í Reykjavík, en ef Mosfellsbær og Hafnarfjörður ættu að stækka upp í 30 þúsund manns hvert eins og Garðabær yrði fjölgunin samt meira en 40 þúsund manns samtals í þessum bæjarfélögum á aðeins 15 árum!  

Stórveldishugmyndir Gunnars eru í takt við það sem bæjarstjórnarmeirihlutinn í Garðabæ hefur "afrekað" hingað til, að fá Alþingismenn til að samþykkja einungis lagningu nýs Álftanesvegar á sama tíma og engin vegaframkvæmd í Reykjavík verður leyfð fram til 2020 á hliðstæðum vegarköflum, sem eru bæði með miklu meiri umferð og miklu hærri slysatíðni en Álftanesvegur.

Ef öll hin bæjarfélögin hefðu átt að fá það sama í sinn hlut og Garðabær í vegagerð hefði verið um minnst fimm stórframkvæmdir að ræða sem ætlaðar væru vegna íbúafjölgunar upp á alls 100 þúsund manns! 

Það er út af fyrir sig eðlilegt að Garðabæjarmeirihlutinn haldi áfram að gera jafn fáránlegar kröfur og skína út úr trylltum stórveldishugmyndum hans. Hingað til hefur hann komist upp með hluti sem sýna hve firrtir menn geta orðið eftir margra áratuga völd, sem hafa staðið látlaust síðan Garðabær byrjaði að byggjast upp.

Það er dæmigert fyrir stórveldisfirringu að blása upp útþenslu í fyrirhruns stíl.   

Við siglum nú inn í öld þar sem talað er um nauðsyn þess þétta byggð og gera hana hagkvæmari gagnvart samgöngum. Við okkar aðstæður er að vísu rétt að fara þar með ákveðinni gát og huga að raunverulegum möguleikum til þess á réttum stöðum og svæðum. Í því efni hef ég sett fram ákveðna gagnrýni á sum atriði þeirrar stefnu hjá Reykjavíkurborg, svo sem að leggja flugvöllinn niður.  

Þegar litið er á höfuðborgarsvæðið í heild blasir við að þetta miðjusvæði í landsamgöngum er í kringum stærstu krossgötur landsins á svæðinu Ártúnshöfði - Árbær -Elliðaárvogur - Skemmuhverfið- Mjódd-Smárinn.

En í keisaraveldinu í Garðabæ eru uppi hugmyndir í stíl við óframkvæmdar loftkastalahugmyndir 2007 og frekjuhugmyndirnar sem skína út úr gerð Álftanesvegar og fyrirhugaða tvöföldun fólksfjöldans þar á 15 árum hafa meira að segja sótt magnast.

Menn hafa greinilega ekkert lært af Hruninu og sápukúluþenslunni fram til 2008.

Ef öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu gerðu kröfu um að tvöfalda íbúatölu sína á 15 ára fresti, myndi íbúafjöldinn bara hér á þessu svæði verða orðinn 6,4 milljónir á þessari öld !  

 

 


mbl.is 175 milljarða uppbygging
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laga nám og starf að sólargangi !

Í bloggpistli í gær hér á síðunni í fyrradag var fjallað um að laga starf í skólum og á vinnustöðum að sólarganginum í stað þess að fara inn í gamla hvimleiða hringlið með klukkuna með vetrartíma og sumartíma.

Nú er verið að gera tilraun með það í Ingunnarskóla og Hagaskóla að seinka byrjun skólastarfsins í skammdeginu og hefur það gefist vel. 

Ef þetta verður almennt gert, er hægt að nota svona sveigjanleika bæði hvort sem klukkan verði á sama stað og nú eða henni seinkað allt árið um klukkustund. 

Jafnvel þótt klukkunni verði seinkað verður hádegi sólargangsins ekki fyrr en í kringum klukkan hálfeitt. 

Þegar dagurinn er orðinn lengri seint í febrúar eða byrjun mars, er hægt að flýta starfi og námi, svo sólin nýtist betur utandyra síðdegis, þegar sólskin er að á annað borð. 


mbl.is Líkar vel að mæta seinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skómigustefnan sækir á.

 Það sem ég vil kalla skómigustefnuna hefur nú gripið ráðamenn víða um lönd. Heitið vísar í máltækið að "það er skammgóður vermir að míga í skó sinn."

Þrátt fyrir því að andmælt sé ótvíræðum tölum um það að allar helstu auðlindir mannkynsins muni þverra á þessari öld sést greinilega á mörgu, að viss örvænting er farin að grípa um sig. 

Til dæmis þótti svo mikið við liggja hér á landi í upphafi þessarar aldar að ákveðið var að vaða áfram á mesta ofurhraða virkjanaæðis, sem um getur, bæði á Norðausturlandi og Suðvesturlandi. 

Nú þegar er orka Hellisheiðarvirkjunar farin að dvína af því ákveðið var að pumpa hámarks orku út úr svæðinu hið snarasta strax í upphafi. Enn er eiturefnadreifingin frá virkjuninni óleyst vandamál. 

Bergbrotsæðið hefur gripið engilsaxnesku þjóðirnar og getur frestað um eitthvert tímabil hinu óhjákvæmilega að jarðefnaeldsneytisauðlindin muni þverra hratt og binda enda á olíuöldina. 

Þar er á ferðinni svipuð skómigustefna og ríkir hér og með svipuðum vandamálum varðandi eitrun og umhverfisspjöll. 


mbl.is Bergbrot eins hættulegt og asbest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gefum okkur of oft að útlendingar hugsi eins og við.

Ef hér á landi hefðu risið byggingar úr varanlegu efni, sem væru nú dýrmætar fornminjar og að þar hefðu gerst stórir atburðir í sögu lands og þjóðar, til dæmis kristnitakan,gætu einhverjar þeirra verið ígildi Þingvalla og með álíka mikla umferð ferðamanna og þeir.

Þar sem gjaldtaka er inn á slíka staði erlendis þykir ferðamönnum það ekki vera óeðliegt og heldur ekki þar sem um er að ræða þjóðgarða eða vernduð svæði með miklum náttúruverðmætum. 

Af því má ráða að hér á landi myndi þeim heldur ekki finnast það óeðlilegt að borga aðgengseyri, svo framarlega sem þeir fengju eitthvað áþreifanlegt í hendurna við að borga sig inn,svo sem flotta kynningar- og upplýsingabæklinga.

Einnig er mikilvægt að þeir fengju að sjá árangurinn af gjaldtökunni í formi þjónustu og vandaðra göngustíga eða palla, sem væru gerðir af smekkvísi og natni til þess að valda ekki óafturkræfum umhverfisspjöllum.

Við Íslendingar erum alltof gjarnir á að gefa okkur það hverju útlendinga sækist eftir, svo sem að hér sé miklu hlýrra og bjartara veður og aðal aðdráttaraflið fyrir þá hljóti að vera staðir á borð við Hallormsstaðaskóg en ekki víðáttur og auðnir öræfanna.  

Að útlendingar vilji frekar bruna á malbikaðri hraðbraut og yfir flottar brýr inn um alla Þórsmörk og Goðaland heldur en að upplifa safari-ferð um ósnortnar slóðir eins og nú er. 


mbl.is Fjölgun sem hefur áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband