4.10.2014 | 20:17
Spurningin um að beisla þennan mikla unga kraft.
Rígur milli nemenda M.R. og Verslunarskóla Íslands á sér uppruna frá þeim tíma þegar skammt var á milli skólanna í miðbæ Reykjavíkur á fyrri hluta síðustu aldar.
Landsmenn hafa séð hann blómstra í heilbrigðri keppni í Gettu betur og hann hefur gefið borgarlífinu lit.
Margt af því, sem gert hefur verið í nafni hans í gegnum tíðina, hefur sjálfsagt hneykslað ráðsett eldra fólk, og kannski mun nýtt myndband frá einni af myndbandanefndum Versló gera það.
Það er hins vegar ekkert nýtt að hneysklast sé yfir djörfum skotum, sem hafa gengið á milli skólanna.
Þannig fór djarflegt svar eins af bekkjarfélögum mínum í M.R. við spurningunni um menningarlífið í Versló fyrir brjóstið á mörgum þegar það varð opinbert: "Maður spyr ekki að menningaráhuga í dýragarði."
Sjálfur var ég á stundum glannalegur unglingur sem hristi sem M.R.- ingur og kornungur skemmtikraftur upp í eldra fólki og hneykslaði það, svo sem með óvenju beittri stjórnmálalegri háðsádeilu eða með því að gera grín að vesalings gamla fólkinu. Er einmitt að rifja það upp í hluta af ævisögu sem er efni uppistands með tónlistarívafi í Landnámssetrinu í Borgarnesi um þessar mundir.
Ég hneykslast því ekki yfir myndbandinu sem þessi pistill er tengdur við, því að ég dáist að þeim krafti og hæfileikum, sem þarna eru að fá dálítið glannalega útrás, en gefur bjartsýni til þess að búast miklum afrekum þessa unga fólks í þágu lands og þjóðar og menningar okkar.
Efnistökin og tæknileg útfærsla á myndbandinu gefa fyrirheit um það sem hægt er að búast við af þessu hæfileikamikla, klára og kröftuga fólki í framtíðinni, þegar tekist hefur að beisla þennan mikla kraft og hæfileika sem í því býr, land, þjóð og menninginni til heilla.
Það finnst mér fagnaðarefni.
![]() |
Sprengja MR í loft upp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2014 | 19:50
Það var kominn tími á Stjörnuna.
Það er ástæða til að óska Stjörnunni til hamingju með fyrsta Íslandsmeistaratitil sinn í knattspyrnu karla.
Ég hef látið þá skoðun í ljósi undanfarin ár að í liðinu í Garðabænum blundaði möguleiki á því að þetta gerðist, - spurningin gæti hins vegar verið hvenær það gerðist.
Það var kominn tími á þessi tímamót sem gera umhugsunina um mótið næsta sumar ennþá skemmtilegri.
Í knattspyrnu geta smáatriði og heppnisatriði ráðið úrslitum í viðureign tveggja góðra og ósigraðra liða þar sem það er synd að annað þeirra skuli þurfa að lúta í lægra haldi.
Markstengurnar og dómarinn eru hluti af leikvellinum og þannig reyndist það vera í þessum leik þar sem gæfan og "meistaraheppnin" féllu Stjörnumegin.
![]() |
Stjarnan Íslandsmeistari í fyrsta sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.10.2014 | 15:44
Enginn er betri en mótherjinn leyfir.
Það var ekki skortur á skoruðum mörkum sem felldi Fram niður úr úrvalsdeild í dag. Liðið skoraði álíka mörg mörk og og jafnvel fleiri en liðin í efri hluta deildarinnar.
Það fékk hins vegar á sig á sig langflest mörk allra.
Nú er komið í ljós að tapleikur Fram gegn Fjölni um daginn var úrslitaleikurinn fyrir Fram.
Þann leik vann Fjölnir örugglega, endurtók þetta á móti ÍBV nú og sýndi styrk sinn.
Fram sýndi hins vegar í mótinu að geta náð jöfnu eða unnið hvaða lið sem er á góðum degi. En illu heilli gerðist það ekki gegn Fjölni og enginn er betri en mótherjinn leyfir.
Engin ástæða er til að barma sér við fallið. Þegar talað er um "falldraug" Fram fólst hann fyrst og fremst í því hér um árið að liðið bjargaði sér ár eftir ár á ævintýralegan hátt á lokamínútum keppninnar í úrvalsdeildinni og setti í eitt skiptið heimsmet í heppni.
Það má alls ekki fara að trúa á slíkt, heldur er betra að takast strax á við viðfangsefnið, að sigra í hverjum leik fyrir sig.
Ung og efnileg lið hafa áður fallið og komið tvíelfd til leiks næstu tvö árin á eftir, fyrst árið sem þarf að vinna sig upp og síðan árið, þar sem liðið getur í ljósi góðrar reynslu og úrvinnslu úr góðum efniviði leikmanna látið ljós sitt skína í úrvalsdeildinni.
![]() |
Reimleikar í Safamýri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.10.2014 | 14:39
Nýtt, þetta með alkóhólistana ?
Það er ekkert nýtt varðandi álfatrú Íslendinga og meira að segja David Lettrman finnst ekkert óeðlilegt við það. Hitt er nýtt þegar fullyrt er að Íslendingar séu mestu alkóhólistar í heimi, því að Rússar og Frakkar hafa lengi verið taldir vera þar fremstir í flokki eða öllu heldur aftastir á merinni. tEn það er svo sem ekkert nýtt að drykkjuvenjur Íslendingar rugli útlendinga í ríminu.
Á allra fyrstu árum Sjónvarpsins vann þar danskur maður að nafni Finn. Margt skemmilegt datt út úr honum. Honum undraðist drykkjuvenjur Íslendingar og þótti þær tröllslegar þegar þeir "duttu í það" heldur hressilega um hverja helgi og urðu svo oft blindfullir.
Enn meira hissa var hann á því þegar hann las í blaði einn daginn að væri hér drukkið minna áfengismagn á hvern mann en í öðrum löndum.
Þá varð honum að orði:
"Íslendingar eru skrýtin þjóð. Íslendingar drekka lítið, - en oft, og þá mikið."
![]() |
Íslendingar trúa á álfa og eru alkóhólistar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
4.10.2014 | 01:05
Spólur og snuningsdiskar á undanhaldi?
Spurningin um að spólur og diskar, sem snúast, séu á undanhaldi fyrir "föstum" kortum og minniskubbum, virðist svarað jákvætt um þessar mundir.
Mjög hratt undanhald hefur verið varðandi kvikmundatökuvélar með spólum, jafnvel þótt gæðin eigi að hafa verið góð og HDV stimpill á vörunnni.
Í staðinn eru komnar vélar með hörðum diskum og kortum.
Enginn endir virðist sjáanlegur í framþróuninni og það sem áður þótti best og flottas er orðið úrelt og stenst ekki síauknar gæðakröfur.
Gallinn við diska og spólur sem snúast eins og til dæmis DVD, DV, HDV, DVCAM og DVCPRO felst í ýmsum erfiðleikum við afspilun og yfirfærslur auk þess sem lítið má út af bregða hvað nákvæmni snertir í flóknum búnaði með legjum og hjólum, þar sem millimetrar eða brot úr millimetrum geta ráðið úrslitum.
Tækniþróunin hefur verið og er enn svo hröð að milljarðar fara i súginn vegna þess hve ört verður að henda tækjum og endurnýja þau.
Ævinlega þegar menn halda að komið sé á endastöð kemu eitthvað nýtt til sögunnar.
Eða muna menn kannski eftir DAT hljóðspólunum á sínum tíma sem áttu að verða framtíðin en urðu úreltar á undra skömmum tíma?
![]() |
DVD sömu leið og VHS? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.10.2014 | 17:45
Síðbúin endurbót.
Þegar Smart ForTwo kom á markað 1997 hafði honum verið breytt vegna þess að hann valt í prófun, sem kölluð var Elgsprófið, þ. e. að víkja snögglega til hliðar ef dýr hlypi inn á veginn og beygja afnharðan hratt til baka til að lenda ekki útaf.
Bíllinn var upphaflega 2,50 m langur til þess að hægt væri að leggja honum löglega í stæði þversum, og 1,45 m breiður til þess að smjúga sem best í umferðinni.
Hann var frábær hugmynd um borgarbíl sem minnkaði það pláss, sem óþarflega stórir bílar taka á götum borga.
Vegna veltunnar var neðsti hluti bílsins breikkaður um 10 sentimetra svo að hjólin stæðu utar, en ekkert breiðara var innandyra fyrir þá sem voru í bílnum.
Samt sem áður er hönnunin þannig, að manni finnst maður sitja í miklu stærri bíl og áttar sig ekki á því hve stuttur hann er fyrr en litið er aftur og séð, að það er næstum ekki neitt fyrir aftan framsætin tvö.
Jafnframt breikkun á milli hjóla var fjöðrunin illu heilli gerð styttri og hastari svo að bíllinn ylti síður, en það bitnaði hastarlega á þægindum í akstri.
Nú, 16 árum síðar, er loks búið að leiðrétta almennilega gallann á bílnum svo að hann er 21 sentimetra breiðari en hann var upphaflega.
Það þýðir að þeir, sem sitja í honum, hafa á tilfinningunni að vera í meðalstórum fólksbíl.
Vonandi hefur fjöðrunin verið mýkt og lengd ljósi þessarar miklu breikkunar og nú ætti Smart FourTwo að vera orðinn fínn ferðabíll.
Ég hefði reyndar viljað breikka bílinn minna og viðhalda betri eiginleikum til að smjúga um þrengsli í borgarumferðinni.
Smart FourTwo er 20 sentimetrum styttri en Toyota iQ, en það er fjögurra sæta bíll.
Þar fyrir ofan er Toyota Aygo stysti bíllinn á markaðnum, 66 sentimetrum lengri en Smart FourTwo.
Bæði Smart FourTwo og Toyota iQ hafa komið ótrúlega vel út úr árekstursprófunum.
![]() |
Smart ForTwo og ForFour frumsýndir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.10.2014 | 11:53
Grimmur veruleiki: "Peningana eða lífið!"?
Allir heilbrigðisráðherrar og fjármálaráðherrar, sem hafa verið við völd á Íslandi síðustu árin, sama hvar þeir hafa staðið í flokki, og sama hvaða skoðun þeir hafa haft á launajafnrétti, hafa staðið frammi fyrir grimmum veruleika:
Frjálst flæði vinnuafls í Evrópu og raunar í heiminum hefur rofið einangrun landsins og þjóðarinnar, - við erum ekki lengur eyland heldur hluti af alþjóðlegu launaumhverfi í stað þess að geta mótað það algerlega að eigin vild hér á Fróni.
Það þýðir, að vel menntað og fært fólk getur fengið sér vinnu á bestu fáanlegu kjörum að vild í mörgum löndum og þar með eru það launastefnan og umhverfið í þeim löndum sem ráða að miklu leyti ferð en ekki launastefnan hér.
Gamla hindrunin að það sé of mikil röskun og óhagræði í því að flytja búferlum til útlanda vegna vinnunnar er ekki lengur fyrir hendi.
Ég þekki mörg dæmi um Íslendinga sem búa yfir dýrmætri menntun, reynslu og færni í sínni atvinnu, sem eiga heima áfram hér á landi þótt þeir vinni erlendis, til dæmis á Norðurlöndunum.
Þeir vinna í ákveðinn tíma, til dæmis í tvær vikur erlendis, en fá siðan frítt far fram og til baka til á víxl til þess að koma hingað heim eiga frí í eina viku eða jafnvel lengur og fara aftur utan til vinnu. Eru samt á mun hærri launum erlendis en hér.
Ég þekki meira að segja færan íslenskan lækni, sem er kominn á eftirlaun, en býðst vinna erlendis, þar sem hann getur verið til skiptis þar við vinnu og hér heima í fríi, fær tvöfalt hærri laun þar en hann fengi hér og fríar ferðir á milli.
Mörgum kann eðlilega að líka þetta stórilla og finnst vera í gildi hjá heilbrigðisstéttunum gamla upphrópunin og hótunin "peningana eða lífið!"
En þá væri gagnrýnendum hollt að líta í eigin barm og skoða, hvort þeir sjálfir myndu vilja afsala sér frelsi til þess að sækja vinnu hjá þeim sem býður best.
Þegar okkur blöskrar þetta og vildum breyta því er ekki hægt um vik. Í Hruninu bjargaði það þúsundum Íslendinga frá atvinnuleysi að geta fengið vinnu erlendis og þúsundir þessara Íslendinga vinna enn erlendis.
Það er því holur hljómur í því þegar gumað er af litlu atvinnuleysi hér. Sá vandi hefur bara verið færður til og við höfum misst dýrmæta starfskrafta úr landinu.
Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að höfða til samkenndar og samvisku okkar allra en það verður líka að hafa raunsæjan skilning á eðli málsins og vikja sér ekki undan að horfast í augu við það eins og það er.
![]() |
Alvarlegur læknaskortur blasir við |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
2.10.2014 | 19:04
Fáránleg margföldun skulda oft á tíðum.
Nú munu vera á vel annað þúsund manns við lögfræðinám á Íslandi og það bendir til þess að ungt fólk telji að eftir miklu sé að slægjast á þeim vettvangi.
Kannski er það vegna þess að í Hruninu sköpuðust ótal ný viðfangsefni við að sinna öllum þeim málaflækjum og málaferlum, sem því fylgdu.
Eitthvað verða þeir að hafa uppur krafsinu, sem farið hafa í langskólanám eins og laganám er, og þess vegna er viðbúið að kostnaðurinn við málarekstur verði mikill.
Þegar um er að ræða smávægileg mál eins og tiltölulega litlar skuldir, verður hlutur lögfræðskrifstofa og innheimtufyrirtækja hlutfallslega mikill, oft himinhár í samanburði við það sem verið er að innheimta.
Ég veit um nýlegt dæmi þar sem skuld upp á rúmlega tíu þúsund krónur var komin upp í 85 þúsund krónur nokkrum mánuðum eftir að hún var komið á borð innheimtufyrirtækis.
Það er að sjálfsögðu fáránleg margföldun skuldar, en skuldarinn er varnarlaus ef engu verður þokað gagnvart innheimtufyrirtækinu.
![]() |
Sat eftir með aðeins 72 krónur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.10.2014 | 14:46
Endilega 14 atkvæði í stað 10.
Eitt einkenni svonefnds kannsellístíls í ræðu og riti á dögum konungsveldis Dana hér á landi var meðal annars það, að flækja og lengja textann, helst með hrúgu af nafnorðum.
Þessi árátta gengur nú í endurnýjun lífdaga með miklum orðalengingum og sókn í það að hlaða upp nafnorðum.
Lítið dæmi er tengd frétt á mbl.is um fjölgun nýrra fólksbíla.
Raunar er fyrirbærið ekki orðað með þremur stuttum orðum heldur notuð löng orðaruna:
"aukning í nýskráningum fólksbíla."
10 atkvæði.
í stað þess að segja einfaldlega
"nýjum fólksbílum fjölgar."
7 atkvæði.
Þegar komið er lengra inn í fréttina elnar sóttin, til dæmis í þessari setningu:
"Fjöldi bílaleigubíla af heildar nýskráningu er..."
- 16 atkvæði -
í stað þess að segja einfaldlega
"nýskráðir bílaleigubílar eru".
- 11 atkvæði -
Og áfram elnar sóttin:
"Aukning hefur verið í nýskráningum fólksbíla."
- 14 atkvæði - tyrfinn og stirður texti - .
Í stað þess að segja:
"Nýskráðum fólksbílum hefur fjölgað."
- 10 atkvæði.
![]() |
58% aukning í nýskráningum fólksbíla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2014 | 23:33
Erfiðast: Lítið þjóðfélag og stutt síðan.
Síðbúin ákvörðun ríkissaksóknara um að lýsa yfir vanhæfni til að að veita endurupptökunefnd umsögn um viðhorf sitt til Guðmundar- og Geirfinnsmála lýsir í hnotskurn því sem er einna erfiðast við þetta mál, sem enn er eins og fleinn í samvisku þjóðarinnar: - Þjóðfélag okkar er svo lítið, - það eru svo margir tengdir málinu á einn eða annan hátt og það virðist ekki vera nógu langt um liðið til þess að menn fái sig til þess að afgreiða það á þann eina hátt sem getur orðið lokalausnin.
Það verður að líta á það að stór hluti þjóðarinnar, jafnvel meirihluti hennar, hrópaði á það og heimtaði á sínum tíma að einhverjir yrðu sakfelldir fyrir hvarf tveggja manna, jafnvel þótt engin vissi hvað af þeim hefði orðið og að það vantaði bæði lík, morðvopn, tengngu óskyldra mannshvarfa og ástæður til meintra morða á þeim, sem hurfu.
Þetta voru nornaveiðar, og nornaveiðar eru miskunnarlausar og eira engu, heimta dómsmorð ef svo ber undir.
Málaferlin smugu inn í heiftarlega pólitíska baráttu þessara ára og drógu æðstu ráðamenn þjóðarinnar og sóma- og heiðurmenn inn i þau, sem gerði þau enn verri viðfangs og viðkvæmari enn ella hefði orðið fyrir fáránlega marga.
Það verða 40 ár á næsta ári frá mannshvörfunum, sem þyrluðu moldviðrinu, stærstu sakamálum okkar tíma, upp, og það kann að sýnast langur tími en er virðist þó í raun of stuttur tími til þess að menn megni að gera málin almennilega upp, því miður.
![]() |
Réttast að víkja sæti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)