Ísland viðundur meðal þjóða Evrópu.

Meira en 15 ár eru síðan þjóðir Evrópu, allt vestan frá Spáni og Portúgal austur til Lettlands lögleiddu svonefndan Árósasáttmála sem kveður á um lögvarða hagsmuni almennings og samtaka hans vegna framkvæmda sem snerta umhverfismál og náttúruverndarmál.

Ísland hefur þumbast gegn því að lögleiða sáttmálann, og loks var það þó gert í fyrra en þó ekki fyrr en að þáverandi stjórnarandstaða hafði þvælt málið sem allra mest og náð með lagaklækjum að útvatna svo sáttmálann, að hann virðist ekki vera pappírsins virði.

Af þeim samtökum þúsunda náttúruverndarfólks, sem fóru fram á lögbann á vegaframkvæmdir í Gálgahrauni, voru tvenn samtök, Hraunavinir og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands með hunduð félagsfólks sem hefur yndi af útiveru og gönguferðum í Gálgahrauni og á öðrum svipuðum slóðum á Suðvesturlandi.

Lögbann er þess eðlis, að það virkar sem nokkurs konar frysting eða frestun óafturkræfra framkvæmda þar til leyst hefur verið úr deilu- og álitamálum fyrir dómstólum.

Venjulega þarf Hæstirétttur aðeins stutta greinargerð fyrir úrskurðum sínum vegna svona mála, en í máli náttúruverndarsamtakanna vegna lögvarðra hagsmuna þeirra varðandi lagningu nýs Álftanesvegar dugði ekki minna en 10 blaðsíðna greinargerð Hæstaréttar til þess að sveigja úrskurðinn í þá átt og réttlæta þá niðurstöðu, sem felur í raun í sér að Ísland virðist vera eina landið vestan fyrrum Sovétríkja þar sem Árósasáttmálinn um lögvarða hagsmuni almennings eða samtaka hans er marklaus.

Meira að segja lönd sem áður tilheyrðu Sovétblokkinni og voru með allt niðrum sig í umhverfismálum, eins og Pólland og Lettland hafa tekið sig á og verið með gildandi lög í samræmi við Árósasáttmálann í meira en 15 ár.

Á sama tíma sem ráðamenn okkar úða út úr sér gorti og yfirlæti yfir heimsbyggðina um það að við séum í fararbroddi í heiminum á sviði umhverfis- og náttúruverndarmála og land okkar sé með fágæta náttúru erum við skammarlegt viðundur á því sviði í raun, höfum staðið við loforðið frá 1995 til álfursta heims um "sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum" ef fórna skal náttúruverðmætum fyrir stóriðju og erum nú með Hæstarétt sem stimplar lögleiðingu Árósasáttmálans hér á landi sem marklaust og gagnslaust plagg.

Nú hlakkar í yfirgangsmönnum yfir því að hafa á siðlausan hátt hraunað yfir náttúruverndarfólk með blekkingum og beitingu lögregluvalds til að eyðileggja náttúruverðmæti áður en lögbannsmálið hafði verið útkljáð fyrir dómstólum.  

Maður skammast sín niður í tær fyrir það bananalýðveldi og afskræmingu á réttarríki sem blasir við okkur.   


mbl.is Lögbannsmál fellt niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hvað á þetta að verða langt?"

Allt frá stofnun Sjónvarpsins 1966 til ársins 1978 var það eitthvert erfiðasta verkefni fréttamanna að taka viðtöl við stjórnmálamenn. Ástæðan var sú að þegar þeir voru spurðir, voru þeir oft svo langorðir og komu sér þar að auki oft hjá því að svara spurningum, að það þurfti að fylgja málinu eftir og spyrja þá aftur, - já og oftast aftur og aftur.

Þegar síðan var komið upp á fréttastofu byrjaði það erfiða starf að koma viðtali, sem hafði kannski orðið 15 mínútna langt í upptökunni, niður í 2 eða 3 mínútur með styttingum og endursögnum í miklu tímahraki.

Eftir á var maður sjálfur oft sáróánægður með útkomauna og viðmælandinn jafnvel enn óánægðari með að hafa ekki fengið að fimbulfamba að vild og fengið það sent út óklippt.

Aldrei gerðist það þó að viðkomandi stjórnmálamaður eða ráðherra heimtaði að allt viðtalið yrði sýnt óstytt, hvað þá að þeir fengju það í hendur til að geta stjórnað styttingu þess því að menn gerðu sér þrátt fyrir allt grein fyrir því að fréttatíminn þoldi ekki skjaldbökutempó og málalengingar og að úr því að þeir höfðu ekki getað klára málið á skaplegum tíma yrðu þeir að taka því að viðtölin yrðu stytt eftir þörfum.

En 1978 gerðist það að ég þurfti einn dag að taka viðtöl við talsmenn þeirra þriggja flokka, sem þá voru í ríkisstjórn þar sem hver höndin var oft upp á móti annarri enda sprakk hún eftir aðeins 13 mánaða líf.

Ég tók fyrst viðtöl við tvo ráðherra, annan frá Alþýðubandalaginu og hinn frá Alþýðuflokknum og sat uppi með um það bil 10 mínútna efni samanlagt sem þurfti að klippa niður í 3 mínútur.

Bjóst við að sitja uppi með minnst 15 mínútur alls eftir viðtal við talsmann Framsóknarflokksins, Steingrím Hermannsson.

Þegar við vorum búnir að stilla okkur upp og allt var orðið klárt fyrir myndatökuna spurði hann allt í einu: "Hvað á þetta að verða langt?"

Enginn hafði áður spurt slíkrar spurningar og ég varð svolítið hissa en svaraði: "Ein og hálf mínúta á hvern ykkar eða fjórar og hálf mínúta alls í fimm mínútna langri frétt.

Síðan byrjaði viðtalið. Steingrímur svaraði fyrstu spurningu minni, sem sneri að kjarna málsins á 45 sekúndum. Ég fylgdi eftir með annarri spurningu og hann svaraði henni á 15 sekúndum. Enn kom spurning hjá mér og hann notaði 10 sekúndur til að svara og hafði svarað svo vel, hnitmiðað og samþjappað, að fleiri spurninga var ekki þörf og viðtalið var vel innan tímamarkanna.

"Þetta hefur aldrei gerst áður," sagði ég steinhissa við hann "og mér vitanlega hefur enginn gert þetta eins og þú." Venjulega tekur það þrisvar til fjórum sinnum lengri tíma að taka viðtalið en rúm er fyrir í fréttatímanum að sýna."

"Ég veit það," svaraði hann, "og þess vegna spurði ég hvað viðtalið ætti að verða langt. Það var til þess að ég gæti komið svari mínu til skila innan tímamarkanna svo að það þyrfti ekki að klippa það neitt. Og ég er ánægður með það að hafa skilað mínu eins vel og ég get. Ert þú ekki feginn, því líka?"

"Jú, auðvitað" svaraði ég. "Ég dauðkveið fyrir því að þurfa að fara að hjakka í klippingu og endursögn viðtalsins í tímarhraki fyrir kvöldið. En hvað kemur til að þú ert sá fyrsti sem gerir þetta svona?"

"Það er af því,"  svaraði hann, "að ég var í nokkur ár við nám í Bandaríkjunum og komst að því hvernig þeir gera þetta þar."  

"Ertu sáttur við það, að hinir fái fyrir bragðið eitthvað aðeins tíma en þú í fréttatímanum?" spurði ég. 

"Já," svaraði hann. "Það er ekki lengd svarsins sem skiptir máli heldur það hvort það er gott eða slæmt".  

Ég vona að þessi frásögn af viðtalinu við Steingrím Hermannsson forðum daga skýri eitthvað eðli þess máls, sem þessi bloggpistill er tengdur við.

Ég minnist þess ekki í 47 ára sögu Ríkissjónvarpsins að svipuð skilyrði hafi verið sett fyrir viðtali og nú.  

 


mbl.is „Ef þið klippið ekki allt til“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Twitter-hrunið segir allt sem segja þarf.

Það segir allt sem segja þarf um fyrirbærið "selfie" eða sjálfsmynd tekna með farsíma af eigandanum sjálfum af sjálfum sér í hópi frægs fólks eða á flottum stað að samskiptasíðan Twitter hafi hrunið um tíma vegna einnar sjálfsmyndar.

Þykir fyrirbærið heldur ómerkilegt og mikil hneykslun í gangi hjá mörgum.

Og í annað skipti á skömmum tíma verður allt vitlaust út af svona myndatöku, - fyrra skiptið var þegar forsætisráðherra Dana tók sjálfsmynd af sér með Obama og Cameron.

Þeir, sem "leggja Twitter-samskiptavefinn á hliðina" segja þó allt sem segja þarf um það, að kastað er úr glerhúsi þegar býsnast er yfir sjálfsmyndatökum sem hámark hégómleikans.

Nógu margir virðast forvitnir um fyrirbærið til þess að taka þátt í því sjálfir á óbeinan hátt.

Hver vill ekki eiga mynd af sér með foreldrum sínum, fjölskyldu, vinum eða þekktu fólki, - á hátíðarstundum eða merkisstöðum?

Slíkar myndir eru hluti af því að fólk rækti góðar minningar.

Ég fæ ekki séð að það skipti öllu máli hver tekur slíka mynd þegar almenn tækni gerir það mögulegt, þótt mörgum sýnist það greinilega vera aðalatriðið hver er myndatökumaðurinn.  

 


mbl.is Myndin sem gerði allt vitlaust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helmingi dæmisins sleppt og síðan bullað út í eitt.

Ég sé langar umræður um það á netinu að jafnvel þótt manneskjum hefði "verið raðað upp á rönd eins og sardínum" á Austurvelli, eins og það er orðað, hefðu ekki komst fleiri þar fyrir en um 2700 manns.

Er þetta nefnt sem dæmi um það hvernig RUV / Samfylkingin / ESB-sinnar skáldi upp töluna 8000. Talan 8000 kom reyndar frá lögreglunni en RUV er kennt um það.

En það er alvarleg ásökun að lögreglan margfaldi mannfjóldatölur, því að sé þessi ásökun rétt, kollvarpar hún öllum fréttum sem fyrr eða síðar hafa verið fluttar af útisamkomum í Reykjavík og felur í sér ásökun um vísvitandi lygar hjá laganna vörðum í áratugi.

Þetta fá menn út með því að reikna út flatarmál vallarins, ná því niður í 5000 fermetra og segja sem svo að 6000 manns komist þar ekki fyrir, jafnvel þótt þeim "sé staflað upp á rönd eins og sardínum" í dós.  

En þeir gleyma að reikna út það flatarmál, sem ein standandi manneskja þarf. Til einskis er að finna út flatarmál auðs vallarins ef ekki er vitað um hve mikið flatarmál hverstandandi manneskja tekur.

Hvernig hefði nú verið að hafa þær tölur á hreinu?  Þær eru svo sannarlega til og alþjóðlega viðurkenndar, auk þess sem hver maður getur mælt þetta á sjálfum sér.  

Meðalmaður er 45 sentimetra breiður og þykkt hans er innan við 30 sentimetrar. Það þýðir að hver standandi maður þekur 0,135 fermetra og að sex menn komast fyrir á fermetra ef staðið er þétt saman og auðveldlega fjórir á fermetra án þess að nokkur snerting sé á milli manna.

Maður, sem er telur sig þurfa heilan fermetra á fundarstað, þekur sem sé 0,135 af þessum heila fermetra, en 0,865 af fermetranum eru auður.

Enn hlálegri verður þessi umræða ef við reiknum út hve mikið rými fólk sitjandi í sætum þyrfti á Austurvelli, því að þar höfum við tiltækar enn nákvæmari tölur, alveg óhrekjanlegar.

Í reglugerð um bifreiðar er talið nægilegt að hver sitjandi maður í aftursæti hafi 43 sentimetra af breidd þess til umráða.

Í flugvélum er þessi breidd yfirleitt um 45 sentimetrar og þar er talað um "pitch" á milli sætaraða, og þykir 31 tommu "pitch" ágætt rými, en það eru 78 sentimetrar.

Þetta þýðir að í því rými flugvélar þar sem sætaraðirnar eru, nægir að hver maður hafi 0,35 fermetra til umráða, sem þýðir að á einum fermetra geti 2,8 menn setið og haft það nógu gott til að ferðast í einum áfanga í allt að sex klukkustundir.

Þessar nefndu staðreyndir um sitjandi fók má allar finna í gögnum um flugvélar og bíla og er aldeilis kostulegt þegar menn fara út í mikla útreikninga á dæmi, sem byggist á einhverjum algerlega fráleitum ágiskunum um aðra hlið staðreyndanna sem þarf í útreikninginn, en með slíku fimbulfambi er hægt að fá út fáránlegar niðurstöður og alvarlegar ásakanir.

Ef raðað væri í sæti á Austurvelli fyrir fólk á sama hátt og í flugvélum, þrír menn í hverri sætaröð og gangur á milli, er dæmið auðvelt.

Innanmál skrokksins á Boeingþotum Icelandair er 3,53 metrar en það nægir fyrir 2x3 sæti með gangi á milli, og fólkið í þessari sætaröð þarf brúttó flatarmál, (auði gangurinn meðtalinn) sem er 3,53 x 0,78 = cirka 2,7 fermetrar eða 0,45 fermetrar á mann.

Á 5000 fermetra svæði eins og Austurvelli gætu því hæglega setið með sömu þægindum og aðgengi og í farþegaþotum 11 þúsund manns, fjórum sinnum fleiri í sætum en bloggað er um að sé hámark hjá standandi fólki.   

Af því sést að auðvitað gætu enn fleiri staðið þar, eða allt að 20 þúsund manns ef þétt væri staðið, en þó án þess að nokkur maður snerti annan.


Kom af þörf og færir okkur meira gott en slæmt.

Fyrir daga sjónvarpsins og almenna atvinnuþátttöku kvenna voru samskipti fólks mun nánari og almennari en síðar varð. Konur voru þungamiðja þessa af því að þær héldu uppi samskiptum innan ættar, fjölskyldu og vina með gagnkvæmum heimsóknum og ræktarsemi sem börnin ólust upp við.

Eftir að fyrrnefndar þjóðfélagsbreytingar urðu bættu fleiri við, svo sem almenn tölvueign og tengsl við netið þar sem ný fíkn í internet og tölvuleiki setti fólk niður í kyrrstöðu við skjái sjónvarps, farsíma og tölva.

Facebook var kærkomin nýjung sem heppnaðist áreiðanlega mest vegna þarfarinnar fyrir mannleg samskipti sem hún þjónaði.

Þessi samskiptamáti hefur valdið því að nú hefur fólk á öllum aldri tækifæri til að fylgjast með og kynnast hvert öðru á jákvæðan hátt og þess var fyrir löngu orðin mikil þörf.

Skuggahliðarnar eru að vísu fyrir hendi, en með jákvæðum vilja og samtakamætti má draga úr skaðsemi þeirra.  


mbl.is Facebook hefur ekki slæm áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðburður í tónlistarsögu okkar.

Óperan Ragnheiður eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson er viðburður í tónlistarsögu okkar, ekki aðeins vegna þess hvílíkt meistaraverk hún er heldur ekki síður vegna þess að hún getur verið lokahnykkurinn í þróun og mótun íslenskrar tónlistar sem hefur staðið yfir hálfa öld, eða síðan Gunnar Þórðarson og rokkkynslóð hans brutust til áhrifa í íslenskri alþýðutónlist / popptónist.

Gunnar og Friðrik hnýta saman órofa tengsl nýrrar tónlistaraldar okkar aftur til fyrri alda í þjóðarsögunni og sögu óperuformsins og varpa út í hafsauga þeim fordómum gagnvart nýrri tónistaröld sem alltaf hafa verið til staðar frá því að áhrif rokksins, kántrítónlistarinnar, nútíma trúbadora og ballaða, pönks, diskó, og rapps urðu afgerandi í íslenskri alþýðutónlist.

Megas og verk hans eru gott dæmi um það hvernig snillingar geta ræktað þessi tengslu og gert að íslenskum stórvirkjum.

Þessi miklu áhrif fyrir hálfri öld voru litin hornauga af mörgum sem voru fastir í eldri tegundum tónlistar og töldu til dæmis réttilega að bestu verk íslenskra tónskálda væru gegnheil íslensk menning.

Enn á hinn bógínn skjátlaðist þeim en að tónlist íslenskra dægurlagahöfunda rokk- og bítlaaldar væru varasöm innrás erlendra áhrifa sem gæti skaðað íslenskt tónlistarlíf og þjóðlíf.

Þessir gagnrýnendur gleymdu því að verk íslenskra tónskálda á fyrri hluta 20. aldar voru sjálf afrakstur innrásar áhrifa af erlendri tónlist í íslenskt tónlistarlíf, sem kom til landsins frá meginlandi Evrópu, að mestu leyti frá Þýskalandi í gegnum Danmörk.

Ég tek oft tóndæmi til að varpa ljósi á þessi áhrif.

Á lýðveldishátíðinni 1944 fengu þrjú sérsamin lög sérstök verðlaun. 1944 var Ísland mikilvæg miðstöð baráttunnar gegn Öxulveldunum á Norður-Atlantshafinu og þess vegna er dálítið skondið að raula fyrir munni sér upphaf þýska þjóðsöngsins og fara beint yfir í lokalínur lagsins "Yfir voru ættarlandi",  nokkurn veginn svona:

"Deutschland, Deutscland uber alles,

uber alles in der Welt...."

"...ljós þitt glæð í lýðsins hjörtum,

ljós er aldrei slokkna skal."

 

Fyrir þá sem kunna bæði lögin er það sláandi að með því að skeyta þessum tveimur lögum saman og syngja í samfellu, verður til svo heillegt nýtt lag, að undravert er.

Og þó ekki undravert. Um leið og tónlist okkar er ævinlega þjóðleg og sönn, þegar hún sprettur fram hjá góðum listamönnum í gerð laga og ljóða, er hún ævinlega lituð af erlendum áhrifum frá einhverjum tíma.

Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson eru einfaldlega listamenn sem hafa í sér neistann sem getur orðið að stóru báli, sem er engu líkt, þótt kveiktur sé undir áhrifum þess besta í heimsmenningunni.

Rétt eins og Gunnar fóstraði af snilld neista áhrifa alþýðutónlistar sinnar æsku, endurtekur hann þetta þegar hann fóstrar neista óperuforms fyrri tíma og notar sígilda snna íslenska harmsögu sem er í stíl við Viktoríu Knuts Hamsuns og Rómeó og Júlíu.   

 


mbl.is Gunnar Bragi mætti ásamt frúnni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öruggasta þota heims breyttist í þá hættulegustu á nokkrum sekúndum.

Þeir Sjónvarpsmenn, sem áttu þess kost að stilla sér upp á besta stað á Keflavíkurflugvelli til þess að ná sem bestum myndum af flugtaki Concorde-þotu þegar hún kom hingað til lands, gleyma því aldrei.

Hvílík fegurð, hvílkt afl, hvílíkt tækniundur!

Aðeins einu sinni síðan hefur svipaður atburður hrifið mig. Það var þegar tækifæri gafst til að vera á besta stað á Canaveralhöfða 1999 á svölum íbúðar forstjóra NASA, til að verða vitni að flugtaki geimferjunnar sem bar Bjarna Tryggvaon út í geiminn.

Engar myndir geta lýst þeirri upplifun vegna þess að hávaðinn, drunurnar, titringurinn og höggbylgjurnar skila sér ekki í gegnum myndatökuvélarnar.

Þær voru að vísu eitthvað magnaðri en frá Concorde, en fegurð Concorde var meiri.

Orsök hins hörmulega slyss árið 2000 var afar einföld og ætti að vera hægt að fyrirbyggja slíkt. Vélin hafði verið öruggasta farþegaþota heims í 31 ár og ætti að eiga möguleika á að verða það aftur.  

Ég hef því aldrei efast um að endurbættur jafnoki hennar muni hefja sig til flugs svo framarlega sem fyrirsjáanleg orkukreppa hefur ekki dunið yfir þannig að enginn hafi efni á slíku.

Það var lengi draumur minn að fljúga einu sinni á ævinni með Concorde frá París til kjötkveðjuhátíðar í Ríó de Janero. Engin goðgá fyrir almúgamann með flugáhuga að veita sér slíkt einu sinni á ævinni að því gefnu að vera búinn að vinna sér inn fyrir því með fábreytni og sparneytni í daglegu lífi.

Hæpið er héðan af að sá draumur rætist, en vonandi rætist hann hjá einhverjum öðrum.  


mbl.is 45 ár frá fyrsta flugi Concorde
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bölvaldur evrópskrar sögu.

Þegar Seinni heimsstyrjöldinn lauk var ærlega tekið til hendinni í Evrópu til þess að losna við þann bölvald álfunnar sem endalausar deilur og styrjaldir um landamæri og yfirráð yfir löndum hafði ðöldum saman leitt yfir álfuna.

Þetta var gert með hreinni valdbeitingu Bandamanna, sem gekk upp vegna þess að Þjóðverjar voru fyrirlitnir vegna ógnarverka nasismans að þeir fengu engu um neitt ráðið.

14 milljónir mann urðu að flytjast nauðugar af þýsku landi, einkum frá Póllandi og Súdetahéruðum Tékkóslóvakíu.   

Reynt hafði verið að leysa þetta í Versalasamningunum eftir Fyrri heimsstyrjöldina, en Frakkar og Bretar gátu ekki samþykkt til fulls hugmynd Wilsons Bandaríkjaforseta um að þjóðir álfunnar tækju um þetta ákvarðanir sjálfar á lýðræðislegan hátt í hvaða ríki þær vildu vera.

Með því var safnað í eldsneyti fyrir áframhaldandi deilur sem leiddu til annarrar heimsstyrjaldar, sem í raun var framhald þeirrar fyrri.

Í Slésvík-Holstein fékk fólk að ráða því sjálft eftir Fyrri heimsstyrjöldina hvort það vildi vera innan vébanda Þýskalands eða Danmerkur og íbúar Saar-héraðs fengu að sameinast Þýskalandi eftir atkvæðagreiðslu 1935.

En Austurríki-Ungverjaland var limað í sundur og meðal ríkjanna, sem urðu til, voru Tékkóslóvakía og Júgóslavía með ólíkar þjóðir og þjóðarbrot innan vébanda sinna.

Þar að auki var Þýskaland hoggið í tvennt og Pólland fékk sjálfstæði að nýju með aðgangi að sjó í gegnum hið fyrra Þýskaland.

1938 munaði minnstu að styrjöld skyli á vegna þýskumælandi þegna Tékkóslóvakíu sem bjuggu við landamærin að Þýskalandi og vildu sameinast því.

Með Munchenarsamningnum var þeim leyft að gera það en það kippti fótunum undan möguleikum Tékka til að verja land sitt með heppilegum landamærum frá náttúrunnar hendi og í framhaldinu hernámu Þjóðverjar Tékkóslóvakíu alla aðeins fimm og hálfum mánuði seinna án þess að hleypt væri af skoti.

Þetta kemur upp í hugann þegar svipaðir atburðir eru að gerast á Krímskaga þar sem rússnekumælandi íbúar hans eru í svipuðu hlutverki og Súdetaþjóðverjar voru 1938.

Helsti munurinn er sá að Rússar gáfu Krímskagann viljandi frá sér 1964 yfir til Úkraínu en hins vegar fengu Þjóðverjar og Austurríkismenn engu ráðið um örlög Súdetahéraðanna í Versalasamningnum.

Tító tókst að halda Júgóslavíu saman eftir 1945, en eftir lok Kalda stríðsins sundraðist ríkið í mesta ófriði í Evrópu eftir 1945.

Af því sést hve erfitt er að fullyrða um það að óbreytt ástand geti haldist til langframa í álfunni þrátt fyrir alla viðleitnina til að halda friðinn.

Ýmsar þjóðir Vestur-Evrópu, svo sem Spánverjar, eiga svolítið erfitt með að dæma um málin á Krímskaga vegna þess að svipuð vandamál eru víðar í álfunni.

Á Spáni hafa Baskar lengi barist fyrir sjálfstæði sínu og meðal Katalóníumanna er líka öflug hreyfing sem berst fyrir sjálfstæði hennar.    

Á tímum yfirráða Rússa yfir Krímskaga og á meðan Sovétríkin voru við lýði, leit landsfólkið þar á Krím svipuðum augum og Bandaríkjamenn líta á Flórída.

Til dæmis fengu allir íbúar Rússlands, sem bjuggu norðan við heimskautsbaug eina fría ferð til Krím í gjöf frá ríkissjóði Sovétríkjanna meðan þau voru og hétu.

 

   


mbl.is Gjöfin gæti reynst afdrifarík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dásamleg fjölskylduíþrótt.

Best er að játa það strax að vera einhver lélegasti skíðamaður og sundmaður landsins. En það breytir því ekki að einhverjar bestu minningar úr lífi fjölskyldunnar voru árin, þegar farið var í fjölskylduferðir á skíði.

Þökk sé Stöö 2, sem ég vann þá hjá, vorum við fjögur, ég, Hemmi Gunn, Linda Péturs og Rósa Ingólfsdóttir skikkuð til þess að læra á skíðum fyrir sérstaka sjónvarpsþætti þar um, að mig minnir árið 1989.

Ég var alger byrjandi og skelfilega klaufskur, hafði reyndar komið mér hjá því allt frá fyrstu ferðinni uppi í Kerlingarfjöll sumarið 1967, að renna mér á skíðum.

Hins vegar hafði ég farið með þrjár yngstu dætur mínar í Kerlingarfjöll um verslunarmannahelgina 1985 og þær orðið forfallnar skíðakonur.

Hvað um það, eftir að maður var orðinn stautfær á skíðum tóku við dásamleg ár þar sem farið var í fjölskylduferðir til hinna ýmsu skíðasvæða.

Skíðaástríðan er svolítið lík golfástríðunni að því leyti, að fljótlega hefst "söfnun" skíðasvæða og skíðasvæðin urðu þessi: Kerlingarskarð, Blönduós, Böggvistaðafjall við Dalvík, Hlíðarfjall, Oddsskarð og öll skíðasvæðin austur af Reykjavík.

Já, meira að segja Blönduós var á listanum, sennilega auðveldasta skíðasvæði landsins en jafnframt það "aumingjalegasta".

Skíðaíþróttin hefur flest það til að bera sem góð íþrótt getur gefið, hreyfingu fyrir unga sem aldna, útiveru, náttúruupplifun, spennu, slökun og síðast en ekki síst, skemmtilega og gefandi samveru í síðaferðalögum, jafnt stuttum sem löngum.

Já, fjölskylduíþrótt af bestu gerð.  


mbl.is Opið í Bláfjöllum og Skálafelli í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hjóla í manninn en ekki málið.

"Getur nokkkuð gott komið frá Nazaret?", setning úr Biblíunni, er ágætt dæmi um það þegar maður er dæmdur eftir heimkynnum sínum.

"Latte-lepjandi kaffihúsalýður úr 101 Reykjavík" er dæmi sem allir kannast við úr samtímanum, þar sem allir, sem hafa tiltekna skoðun eru felldir udnir ákveðið hverfi í Reykjavík sem með nógu langvarandi síbylju er búið að klína slæmum stimpli á sem heimkynni ónytjunga, sem eru afætur á þjóðinni.

Gildir þá einu hvort viðkomandi eigi heima þar eða sæki kaffihús, hvað þá að hann viti hvað Latte sé.  

Á Íslandi hefur það verið einn helsti bölvaldur skoðanaskipta og rökræðu sem lýsa má með setningunni "að hjóla í manninn en ekki málið."

"Farðu og finndu eitthvað á hann" er dæmi um hvatningu til að gera slíkt, ákveðnum málstað eða tilgangi til framdráttar, en aðferð af þessu tagi hefur fengið heitið "smjörklípuaðferðin".  

Dæmin um þessa tegund rökræðu á Íslandi eru svo mörg og flestum svo kunn að það þarf ekki að tína þau til.

Eitt af því allra síðasta sem er í minni og mætti nefna frá allra síðustu dögum  er það, þegar upplýst var á netinu að maður, sem startaði undirskriftasöfnun á facebooksíðu sinni um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-samninga á undan þeirri undirskriftasöfnun, sem síðan tók yfir, - að þessi maður væri svo vafasamur karakter að söfnun undirstkrifta á hans vegum væri hið versta mál og til skammar fyrir alla sem kæmu nálægt facebooksíðu hans.

Rökin, sem færð voru fyrir þessu, voru þau að hugsanlega væri hægt að rekja tengla frá síðu hans yfir á vafasamar erlendar vefsíður.

Fljótlega spunnust miklar deilur um það hvort aðferðin við að bendla manninn við þessar vafasömu síður væri marktæk, enda væri með "góðum vilja" hægt að gera svipað við fjölmargar aðrar facebooksíður og rekja tengla út og suður.

Þar með var deiluefnið komið víðsfjarrri frá málinu, sem allt snerist um, hvort halda ætti þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki.  

Smjörklípuaðferðin, að hjóla í manninn en ekki málið, svínvirkaði, jafnvel þótt færð væru rök að því að hún byggðist á rangri aðferð.  

Þessi aðferð, að hjóla í manninn en ekki málið, er svo algeng og almenn hér á landi, að það er erfitt að nefna fylgismenn neins málstaðar, sem ekki hafa freistast til að nota hana.

Kannski er það fámennið hér sem ýtir undir það að ómálefnaleg umræða af þessu tagi er svona almenn og svona þrúgandi.

Það er komið mál til að við förum öll að líta í eigin barm og sameinast um að aflétta þessum ófögnuði, sem fer svo illa með nauðsynlega og hlutlæga rökræðu og eitrar samfélagið.

 


mbl.is Orðræðan einkennist af persónuníði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband