Dásamleg fjölskylduíþrótt.

Best er að játa það strax að vera einhver lélegasti skíðamaður og sundmaður landsins. En það breytir því ekki að einhverjar bestu minningar úr lífi fjölskyldunnar voru árin, þegar farið var í fjölskylduferðir á skíði.

Þökk sé Stöö 2, sem ég vann þá hjá, vorum við fjögur, ég, Hemmi Gunn, Linda Péturs og Rósa Ingólfsdóttir skikkuð til þess að læra á skíðum fyrir sérstaka sjónvarpsþætti þar um, að mig minnir árið 1989.

Ég var alger byrjandi og skelfilega klaufskur, hafði reyndar komið mér hjá því allt frá fyrstu ferðinni uppi í Kerlingarfjöll sumarið 1967, að renna mér á skíðum.

Hins vegar hafði ég farið með þrjár yngstu dætur mínar í Kerlingarfjöll um verslunarmannahelgina 1985 og þær orðið forfallnar skíðakonur.

Hvað um það, eftir að maður var orðinn stautfær á skíðum tóku við dásamleg ár þar sem farið var í fjölskylduferðir til hinna ýmsu skíðasvæða.

Skíðaástríðan er svolítið lík golfástríðunni að því leyti, að fljótlega hefst "söfnun" skíðasvæða og skíðasvæðin urðu þessi: Kerlingarskarð, Blönduós, Böggvistaðafjall við Dalvík, Hlíðarfjall, Oddsskarð og öll skíðasvæðin austur af Reykjavík.

Já, meira að segja Blönduós var á listanum, sennilega auðveldasta skíðasvæði landsins en jafnframt það "aumingjalegasta".

Skíðaíþróttin hefur flest það til að bera sem góð íþrótt getur gefið, hreyfingu fyrir unga sem aldna, útiveru, náttúruupplifun, spennu, slökun og síðast en ekki síst, skemmtilega og gefandi samveru í síðaferðalögum, jafnt stuttum sem löngum.

Já, fjölskylduíþrótt af bestu gerð.  


mbl.is Opið í Bláfjöllum og Skálafelli í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

frá Oddsskarði (Oddskarði) sést ein mesta perla Austulands álverið fagra

halló (IP-tala skráð) 1.3.2014 kl. 22:16

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég var þar á skíðum áður en álverið reis og skíðatímabil ævi minnar entist aðeins í örfá ár.

Ómar Ragnarsson, 1.3.2014 kl. 22:44

3 identicon

Hvort er rétt, Oddsskarð eða Oddskarð ?

halló (IP-tala skráð) 1.3.2014 kl. 23:31

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hvorutveggja er rétt, eins og Landsspítalinn og Landspítalinn.

Þorsteinn Briem, 1.3.2014 kl. 23:44

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Á Vísindavef Háskóla Íslands kemur fram að í orðinu Landspítali sé um stofnsamsetningu að ræða en í Landsspítali sé um eignarfallssamsetningu að ræða.

Báðar samsetningarnar eru góðar og gildar."

Þorsteinn Briem, 2.3.2014 kl. 00:10

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Annað dæmi er Ægisíða og Ægissíða, sem hvorutveggja er rétt.

Leikskólinn Ægisborg er á Ægisíðu 104.

Orðstofninn í Ægir er Ægi.

Ægi-r um Ægi, frá Ægi til Ægi-s.

Ægiborg
myndi hins vegar hljóma mjög undarlega.

Þorsteinn Briem, 2.3.2014 kl. 11:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband