3.2.2014 | 14:01
Sígandi lukka er best.
Smám saman birtast jákvæð teikn um það að við Íslendingar getum hægt og bítandi komist upp úr öldudalnum eftir Hrunið. Ekki mun af veita að þeir, sem flutt hafa úr landi í atgerfisflótta sjái sér fært að snúa heim á ný.
Atgerfisflótti er alvarlegt vandamál fyrir hvaða þjóð sem er.
Einhliða straumur til höfuðborgarsvæðisins er áhyggjuefni fyrir landsbyggðina, en líklegt má telja að undantekningin varðandi Suðurland sé vegna stóraukinna umsvifa ferðaþjónustunnar og að ferðaþjónustan dragi úr straumnum frá öðrum landslhlutum.
Það hefur verið sagt að hin raunverulega stóra varnarlína vegna byggðaröskunar sé Leifsstöð frekar en Hvítá í Borgarfirði og Þjórsá. Nú er straumur kominn til baka í gegnum Leifsstöð og þótt hann sé ekki mikill er rétt að hafa í huga að sígandi lukka er best.
![]() |
Fleiri fluttu til landsins en frá því |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
3.2.2014 | 13:23
Áhrif sveitarstjórna á umhverfis- og náttúruverndarmál.
Nú eru forvöl, prófkosningar og þess háttar að komast á fulla ferð í sveitarfélögum landsins.
Þótt sagt sé að 90% af viðfangsefnum bæjarstjórna séu þess eðlis að flokkapólitík eða landsmálapólitík skipti þar ekki máli má ekki vanmeta áhrif einstakra sveitarstjórnarfulltrúa á mál, sem skipta alla landsmenn og jafnvel heimsbyggðina máli.
Þá á ég sérstaklega við umhverfis- og náttúruverndarmál, einkum vegna þess, að skipulagsvald einstakra sveitarstjórna getur haft afdrifarík áhrif á náttúruverndarmál, sem skipta alla landsmenn, komandi kynslóðir og mannkyn allt máli, svo einstæð sem þessi verðmæti eru á heimsvísu.
Síðasta dæmið um þetta er Gálgahraunsmálið.
Ég hef kynnst mörgu góðu umhverfis- og náttúruverndarfólki í öllum stjórnmálaflokkum og hópum þjóðfélagsins og hin síðari ár er mér hugleikið að það láti sem mest til sín taka vegna hugðarefna sinna á þessu sviði.
Það leiðir til dæmis hugann að næsta prófkjöri, hjá Samfylkingunni um næstu helgi, þar sem ég tel mikilvægt að öflugt fólk með grænar áherslur hljóti gott gengi.
Sem dæmi get ég nefnt Hjálmar Sveinsson, fyrrum samstarfsmann minn á RUV, sem ég kynntist þar vel og vakti athygli mína fyrir vönduð og öflug vinnubrögð í rannsóknarblaðamennsku.
Honum virtist það eðlislægt að kafa ofan í málin og það er þörf á slíkum mönnum.
Til dæmis kynnti hann sér áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar á sínum tíma vel með því að fara í tíu daga ferð einn í tjaldi almennilega um það svæði í stað þess að láta villa sér sýn með því að sjá bara stíflustæðið sjálft eins og langt yfir 90% þeirra sem komu þangað, létu sér nægja.
Slík vinnubrögð, að ígrunda og kanna málin vel frá öllum hliðum, líkar mér að sjá í sem flestum málum og það er gott þegar menn yfirfæra þekkingu sína og góð vinnubrögð yfir í stjórnmál eins og Hjálmar hefur gert.
Það er erfitt að ná árangri og samstöðu í umhverfismálum á tímum skiptra skoðana um þau mál og því fagnaðarefni þegar það gerist. Til þess þarf blendu af lipurð og sannfæringarkrafti þess sem vinnur af hugsjón.
Fáir áttu von á algerri samstöðu á Alþingi um Græna hagkerfið svonefnda en henni tókst Skúla Helgasyni að ná og sýndi með því eftirsóknarverða hæfileika til að ná árangri.
Í borgarlandi Reykjavíkur og í sjónmáli frá borginni eru einstæð náttúruundur sem ógnað er vegna ásóknar í formi skammgróðafullrar rányrkju og óafturkræfra spjalla. Það skiptir því miklu máli hverjir veljast í sveitarstjórnir á þessu svæði hvað varðar umhverfis- og náttúruverndarmál þar sem oft er gengið á rétt komandi kynslóða og jafnrétti kynslóðanna fyrir borð borið.
Ég hvet alla, sem á næstunni taka afstöðu til vals á sveitarstjórnarfulltrúum, að kynna sér vel skoðanir og viðhorf allra frambjóðenda til þeirra mála og það sem þeir hafa lagt af mörkum á þeim vettvangi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.2.2014 | 00:28
Neskaupstaður, uppspretta vandræða í stjórnmálaþrasinu.
Allt til ársins 1994 snerust íslensku dagblöðin í kringum pólitikina í Reykjavík þegar bæjarstjórnar- og síðar borgarstjórnarkosningar voru í aðsigi.
Línurnar voru skýrar á þessum árum:
Morgublaðið og Vísir héldu fram kostum þess að hafa samhentan meirihluta eins flokks í stað sundrungar vinstri flokkanna.
Tíminn, Alþýðublaðið og Þjóðviljinn reyndu hins vegar að draga fram spillingaráhrif langvarandi valdasetu eins flokks.
Þetta var ósköp einföld pólitísk mynd sem dregin var upp og hefði verið vandaræðalaust að halda henni algerlega truflunarlaust ef ekki hefði komið til pólitíkin á einum stað úti á landi, - í Neskaupstað.
Þar var á þessum árum traustur meirihluti Sósíalistaflokksins og síðar Alþýðubandalagsins áratugum saman gegn framboðum hinna flokkanna. Raunar var þetta alllengi svona í Kópavogi en samt hvergi nærri eins ógnarlengi og afgerandi eins og í Neskaupstað.
Hin yfirgnæfandi umræða í vinstri blöðunum um spillinguna vegna langvarandi meirihluta eins flokks gerði kommunum í "Rauða bænum" afar erfitt fyrir og bölvuðu þeir flokksmálgagni sínu oft í sand og ösku fyrir þessi óþurftarskrif. Og "kommarnir" í Kópavogi áttu líka bágt. ´
Á sama hátt áttu Þjóðviljamenn í mestu vandræðum með að leggja sínum mönnum lið í "rauðu bæjunum" á áberandi hátt nema að skaða vígstöðuna í Reykjavík.
![]() |
Kommablótið haldið hátíðlegt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.2.2014 | 13:56
Ekki spurning um hvort heldur hvenær manntjón verður.
Hættulegustu eldstöðvar á Íslandi eru líklega Snæfellsjökull, Heimaey, Hekla og Öræfajökull ef miðað er við það hve margir gætu verið í hættu vegna eldsumbrota í þessum eldstöðvum, og það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær verður manntjón af völdum eldgoss á Íslandi.
Sem betur fer líður langt á milli þess sem eldgos gætu orðið mönnum að bana vegna nálægðar hamfaragosa við þétta byggð sem gætu gert usla á borð við þau illskeyttustu erlendis.
Stórhættuleg hamfaragos eru tiltölulega fá á Íslandi miðað við það að hér gýs að meðaltali á fjögurra ára fresti.
Frá 1961 hafa orðið fjögur Heklugos, níu Kröflugos 1975-84, fjögur Grimsvatnagos, tvö gos í Vestmannaeyjum og eitt gos í Öskju. Raunar er spurning hvort Kröflugosin eigi að teljast eitt níu ára langt eldgos með hléum.
Ef hugsanlegt smágos í Kötlu 1955 er ekki talið með, vegna vafans um hraunkvika hafi valdið hlaupi í Múlakvísl það ár, - ( að svipað hafi verið á seyði þar 19559 og 2011, smágos undir jökli, sjá athugasemd) - var óvenjulega kyrrt hér á landi í 14 ár, frá Heklugosi 1947 til Öskjugossins 1961.
Sumir sögðu að Sigurður heitinn Þórarinsson, sá magnaði jarðfræðingur, hafi átt bágt að vera svo "óheppinn" að engin gos urðu á þeim hluta ævi hans, þegar eldgos hefðu gefið honum bestu tækifærin til rannsókna. Á móti kom að Surtseyjargosið og þeir Kröflueldar, sem urðu á hans tíð, gáfu alveg einstaklega mikið af sér í tímamótaniðurstöðum varðandi eðli jarðelda á Íslandi.
Þrír hafa farist í elgosum hér á landi síðan Kötlugosinu 1918, - einn varð fyrir eldingu í því gosi, Steinþór Sigurðsson jarðfræðingur varð fyrir glóandi hraungrjóti í Heklugosinu 1947 og einn maður dó úr gaseitrun á meðan á Heimaeyjargosinu stóð.
Snæfellsjökull og Öræfajökull gætu banað fjölda fólks ef þar kæmu gos á borð við þau sem urðu i Vesúvíusi árið 79 fyrir Krist og í Mount Pelee 1902, en í þeim gosum ruddist sjóðheit og eitruð aska niður fjallshlíðarnar og drap allt sem fyrir varð, alls um 30 þúsund manns í St Pierre Martinique.
Snæfellsjökull hefur hins vegar verið hægt deyjandi eldfjall síðustu hundruð þúsund ár, enda færist eldvirkasti hluti Íslands ofurhægt í austur þótt sú færsla sé talin í milljónum ára og því afar ólíklegt að núlifandi fólk þurfi að hafa áhyggjur af þessu frægðarfjalli Jules Verne. En vaxandi byggð er allt í kringum fjallið og einnig aukin umferð ferðamanna á því og við það.
Ljóst er af minjum að bæir á Litla-Héraði, hinni blómlegu byggð sem var undir Öræfajökli til 1362, grófust í ösku í gosinu það ár og hugsanlega hefur fólk farist í þeim hamförum, sem gerði slíkan usla að veldi Svínfellinga var á enda og gróðulendið og byggðin hafa aldrei náð sér síðan. .
Hekla er ólíkindatól og gæti verið að þróast í þá átt að springa einhvern tíma í loft upp eins og St. Helens í Bandaríkjunum 1980 en mesta hættan hlýtur þó að teljast vera fólgin í stóraukinni umferð fólks um fjallið, því að fyrirvarinn á gosi er ekki nema klukkustund í besta falli og ekki víst að allir séu með slíka farsímavakt að viðvörun berist til þeirra.
Heimaey er hættuleg eldstöð af augljósum ástæðum, byggðin þar stendur á eldfjalli, sem gaus síðast 1973. Heimaey er einfaldlega stærst Vestmannaeyja, vegna þess að undir henni er eldvirkasti hluti eyjanna.
Miðað við aðdraganda gossins 1973 verður þó að telja að stórbættar jarðskjálftamælingar gætu bjargað miklu.
Erfitt er að átta sig á hættunni af mörgum öðrum eldstöðvum sem fer þó vaxandi með auknum ferðamannastraumi.
![]() |
Ellefu létust í eldgosi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
2.2.2014 | 08:54
Góðir ráðgjafar eru mikilvægir.
Það þarf fleira til en að hafa starfað beint við útvarps- og sjónvarpsrekstur til þess að stjórna vel stærstu menningarstofnun landsins. Í starfi sínu sem leikhússtjóri bæði norðan og sunnan fjalla hefur Magnús Geir Þórðarson hlotið mikið lof fyrir farsæla listræna og hagræna stjórnun leikhúsanna tveggja.
Góð mannauðsstjórnun er forsenda fyrir velgengni fyrirtækis eða stofnunar og þar virðist Magnús Geir njóta sín einna best.
Eitt atriði góðrar nýtingar mannauðs er að velja sér góða ráðgjöf, þá bestu sem völ er á og samhæfa krafta þeirra.
Gott dæmi um það er þegar Guðlaugur Rósenkranz var ráðinn fyrsti Þjóðleikhússtjórinn, en það var afar umdeild ákvörðun, því að hann hafði aðeins reynslu af rekstri Samvinnuskólans.
Í viðræðum mínum við menn sem þekkja vel til leikhúsreksturs er niðurstaðan sú að Guðlaugi hafi farist þetta furðu vel úr hendi, eiginlega ótrúlega vel.
Ástæðan var sú að hann kunni ekki aðeins að velja sér bestu fáanlegu ráðgjafa og samhæfa störf þeirra, heldur einnig að vinna úr ráðgjöf þeirra.
Þótt sjónvarp byggist á mikilli rafeindatækni eru samsvörunin á milli þess og leikhússins afar mikil, bæði listrænt séð og rekstrarlega séð. Þess vegna ætti Magnúsi Geir að geta farnast vel á erfiðum tíma ríkisútvarpsins og ástæða til að bjóða hann hjartanlega velkominn til starfs.
![]() |
Oftast innanbúðarmaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.2.2014 | 00:48
Fólk neytir mests matar milli klukkan 12 og 1 og 18 til 20.
Viðamikil íslensk neyslukönnun hér um árið leiddi ofangreinda stórmerkilega niðurstöðu í ljós, en svo var að skilja að án þessarar könnunar hefði þetta ekki verið á almanna vitorði.
Guðmundir Jaki sagði þá að hann efaðist um að þörf væri á að mennta fólk dýrum dómum til þess að stunda svona rannsóknir, sem leiddu til niðurstaðna sem allir hefðu vitð fyrirfram.
Nú eru birtar niðustöður annarrar könnunar, dýrrar og viðamikillar, sem sýnist ekki síður merkileg
Það hefur að vísu verið á almanna vitorði að fólk er flest búið að vinna á föstudagssíðdegi og sólarhring síðar fer hvíldin að skila sér og fólk að verða upplagt til að vera í stuði.
Einnig er vitað að margir skemmta sér langt fram á aðfararnótt sunnudags, eru timbraðir og þreyttir langt fram á sunnudag og vilja slaka á á sunnudagskvöld og fara nógu snemma að sofa til að geta byrjað vinnuvikuna sæmilega á mánudagsmorgni.
En svo er að sjá að mikla könnun þyrfti til að geta sér til um afleiðingarnar af þessu og greint er frá í tengdri frétt á mbl.is og virðist eiga ansi mikið sameiginlegt með fréttinni fyrir 25 árum um neyslu matar hjá fólki.
![]() |
Laugardagskvöld eru kynlífskvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.2.2014 | 20:42
Af hverju að afþakka boðið?
Það er sagt í fréttum að íslenska íþróttahreyfingin hafi boðið forsetahjónunum að vera viðstödd upphaf Vetrarólympíuleikanna í Sochi og ýmsir krefjast þess að þau afþakki þetta boð vegna mannréttindabrota sem viðgangist í Rússlandi.
Þessi krafa hefur oft heyrst varðandi Ólympíuleika en ekki er víst að alltaf hafi verið gætt að því hvað hefði gerst ef af slíku hefði orðið.
Minnst átta sinnum í sögu Ólympíuleikanna hafa þeir verið haldnir í landi, þar sem viðgekkst kúgun og mannréttindabrot á þeim tíma sem leikarnir voru haldnir þar.
Skoðum listann yfir Ólympíuleika sem vestrænar lýðræðisþjóðir hefðu átt að sniðganga:
Peking 2008 í einræðisríki með miklum mannréttindabrotum. Forsetahjónin voru þar og "strákarnir okkar" í handboltanum komu heim með silfur.
Moskva 1980 í einræðisríki með miklum mannréttindabrotum. Við vorum þar með okkar fólk.
London 1948 í heimsveldisríki nýlendukúgunar. Við vorum þar með okkar fólk og aðrar lýðræðisþjóðir líka.
Berlín 1936 í einhverju alversta ríki kúgunar og mannréttindabrota í sögunni. Við vorum þar og aðrar lýðræðisþjóðir líka.
Los Angeles 1932 í Bandaríkjunum, þar sem mannréttindi voru brotin á blökkufólki í Suðurríkjunum.
Amsterdam 1928 í landi, sem stundaði nýlendukúgun.
París 1924 í landi, sem stundaði nýlendukúgun.
Antwerpen 1920 í landi, sem stundaði nýlendukúgun.
Af þess má sjá að ef sniðganga vestrænna lýðræðisþjóða hefði verið samkvæm sjálfri sér frá upphafi Ólympíuleikanna hefðu þeir líklega lognast fljótlega útaf.
![]() |
Forsetahjónin fara til Sochi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.2.2014 | 13:37
"Hvalaiðra beiskan bjór..."
Ég frétti af því á skotspónum að maður einn hefði gengið fullhart fram í neyslu nýja hvalbjórsins og orðið að taka afleiðingunum af því að innbyrða þarma og "þarmainnihald" sem bjórinn er gerður úr.
Lýsingin á því minnti mig á nýyrði í vísu, sem varð til hjá mér eftir ristilspeglun og átt vel við í frásögn af eftirkostum hvalbjórsdrykkjunnar.
KVALINN EFTIR HVALINN.
Hvalaiðra beiskan bjór
í bland með skötu kæstri
ákaft bergði og svo fór
með útkomunni glæstri
á klósett eftir þetta þjór
með þarmalúðrablæstri.
Vínþolið, það var að bila, -
veifað gulu spjaldi, -
orðið nærri að aldurtila
og gegn dýru gjaldi,
þarmabjór hann þurfti að skila
í þarmainnihaldi.
![]() |
Þarmainnihald í hvalbjórnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.2.2014 | 04:47
Sjalla-Framsóknarminnhluti á ný. Hversvegna tap hjá Vg?
Í kosningunum 2007, eftir 12 ára samfellt stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, minnkaði fylgi þeirra niður í það minnsta sem þessir tveir flokkar samanlagt höfðu haft í meira en 80 ár.
Þeir fengu að vísu afar tæpan meirihluta en treystu sér ekki til að halda áfram ríkisstjórnarsamstarfi og Sjálfstæðisflokkurinn reri á önnur mið og fór í samstarf með Samfylkingunni. Aðeins rúmt ár leið þar til Hrunið dundi yfir og í kosningunum 2009 lentu Sjallar og Framsókn í minnihluta en Samfó og Vg meirihluta.
Nú sýnist vera ljóst að það sé að fjara undir þeim meirihluta atkvæða sem Sjallar og Framsókn fengu í fyrra og það gerist furðu fljót. Útspilið um daginn varðandi skuldleiðréttingu heimilanna virðist hafa verið það veikt að það gagnar Framsókn ekkert, enda hefur ekki enn sést til þeirra hundraða milljarða sem Framsókn lofaði að ná af "hrægömmum og vogunarsjóðum".
Sjálfstæðismenn gættu þess í kosningunum að reyna ekki að elta Framsókn í stórfelldum kosningaloforðum og líklega er það svo að Bjarni Benediktsson sé nú að uppskera það að virka sem límið og kjölfesan í ríkisstjórninni, maðurinn sem vinnur hörðum höndum úr erfiðri stöðu, er að berja í brestina og gera sem best úr öllu. Og passaði sig að lofa ekki of miklu fyrirfram.
Öðruvísi er erfitt að túlka vaxandi fylgi flokksins.
2009 urðu þrír flokkar í meirihluta á Alþingi, Sf, Vg og Borgaraflokkurinn/Hreyfingin.
Í fyrstu þurftu Samfó og Vg ekki á fleirum að halda í ríkisstjórn, en svo fór að myndast klofningur í Vg og síðasta ár stjórnarinnar einnig í Sf, og þá varð hún í raun minnihlutastjórn sem reiddi sig á það að óháðir þingmenn og þingmenn Hreyfingarinnar kæmu í veg fyrir að stjórnin fengi vantraust.
Samfó, Vg, Björt framtíð og Píratar hafa nú vel yfir 50% prósenta fylgi í skoðanakönnun, þannig að línurnar frá 2009 eru farnar að birtast aftur hvað varðar minnilhluta Sjalla og Framsóknar meðal kjósenda.
Það þýðir að fari svona í kosningum eru tímamótin, sem í raun urðu í kosningunum 2007, endanleg, og ný staða komin í íslenskum stjórnmálum.
Það er athyglisvert hvernig klofningur varð í Vg vegna ESB-málsins, vegna þess að á árunum 1956 til 1991, á 35 ára tímabili, var hefð fyrir því að fyrirrennari Vg, Alþýðubandalagið, flokkur yst til vinstri eins og Vg, kippti sér ekkert upp við það þótt fimm ríkisstjórnir, sem Allaballar voru í, ýmist svikju loforð um að reka varnarliðið úr landi eða tækju ekki í mál annað en að vera í NATO og hafa herinn.
Í fyrstu tveimur vinstri stjórnunum, 1956-58 og 1971-74, voru loforð um brottför hersins svikin, en báðar ríkisstjórnirnar féllu út af allt öðrum málum og það virtist ekki hagga fylgi Allaballa eða valda klofningi í flokknum þótt valtað væri yfir hann í þessum ríkisstjórnum í utanríkismálum.
Í stjórnunum 1978-79, 1980-83 og 1988-1991 sátu Allaballar sallarólegir án þess að klofna og héldu fylgi sínu, þótt allar þessar stjórnir hefðu þá stefnu í raun að vera í NATO og hafa herinn.
Það væri áhugavert stjórnmálafræðilegt viðfangsefni að finna út, af hverju þetta var öðruvísi í stjórninni 2009-2013 og hvers vegna fylgi Vg hefur minnkað svona mikið. Kannski er skýringarinnar að leita í því að það að gefa eftir varðandi stefnuna í ríkisstjórnunum fimm 1956-1991 fólst í því andmæla ekki aðgerðarleysi og óbreyttri stöðu landsins í utanríkismálum, en 2009 var um að ræða að gefa eftir varðandi það að fara út í heilmikla aðgerð til að breyta stöðu landsins út á við, að ekki sé nú minnst á samningana um Icesave.
![]() |
Sjálfstæðisflokkurinn með 30,5% fylgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.1.2014 | 19:36
Það var hlegið að spádómi um þetta 1950.
Toyota efst, VW nr 2. Það eru fréttir dagsins en svo ótrúlegt sem það virðist, var þessu spáð fyrir 64 árum. Preston Tucker hét þessi spámaður, en um hann gilti það að enginn er spámaður í sínu föðurlandi.
Þegar Tucker kynnti byltingarkenndan bíl undir sínu nafni árið 1948 tóku stóru bandarisku bílaframleiðendurnir hressilega við sér og nýttu sér yfirburði í tengslum og völdum, sem lágu inn á Bandaríkjaþing til einstakra þingmanna.
Tucker var að vísu helst til bjartsýnn, færðist mikið í fang og aðeins 51 bíll var smíðaður áður en framleiðslan fór í þrot, enda sóttu óvildarmenn hans að honum úr mörgum áttum til að koma honum á kné og hreinlega ganga frá honum.
Hann sætti alvarlegum ákærum fyrir fjársvik og fleira og réttarhöldin stóðu fram í janúar 1950, en þá var hann sýknaður af þeim öllum.
Í lok réttarhaldanna sagði Tucker að ef Bandaríkjamenn ætluðu að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefði verið í bílaframleiðslu þeirra myndi sá dagur koma sem andstæðingar þeirra í Heimsstyrjöldinni síðari myndu taka forystuna í bílaframleiðslu heimsins.
Þessi ummæli vöktu skellihlátur allra viðstaddra, svo fráleit þóttu þau, Þýskaland búið að vera í rústum frá stríðslokum og Japan illa leikið líka, - bílaframleiðsla í þessum löndum innan við 1% af framleiðslunni í Bandaríkjunum.
General Motors framleiddi næstum helming bíla í Bandaríkjunum og Bandaríkjamenn framleiddu 75% allra bíla í heiminum. Það þýddi að GM framleiddi um þriðjung allra bíla heimsins og hafði verið í yfirburðastöðu í 20 ár.
Sagt var að það sem væri gott fyrir GM væri gott fyrir Bandaríkin, enda töldu valdhafarnir þar sig tilneydda að bjarga fyrirtækinu frá gjaldþroti 2008-2009.
Nú er svo komið að efst á blaði bílaframleiðenda heimsins eru japanskt fyrirtæki og þýskt.
Sá hlær best sem síðar hlær, segir máltækið, og það á svo sannarlega við um ummæli Prestons Tuckers 1950. Hann gæti sagt eins og sagt var í einni af þjóðsögunum: "Ný skyldi ég hlæja, væri ég ekki dauður. "
![]() |
VW segist komið fram úr General Motors |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)