Sjalla-Framsóknarminnhluti á ný. Hversvegna tap hjá Vg?

Í kosningunum 2007, eftir 12 ára samfellt stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, minnkaði fylgi þeirra niður í það minnsta sem þessir tveir flokkar samanlagt höfðu haft í meira en 80 ár.

 Þeir fengu að vísu afar tæpan meirihluta en treystu sér ekki til að halda áfram ríkisstjórnarsamstarfi og Sjálfstæðisflokkurinn reri á önnur mið og fór í samstarf með Samfylkingunni. Aðeins rúmt ár leið þar til Hrunið dundi yfir og í kosningunum 2009 lentu Sjallar og Framsókn í minnihluta en Samfó og Vg meirihluta.

Nú sýnist vera ljóst að það sé að fjara undir þeim meirihluta atkvæða sem Sjallar og Framsókn fengu í fyrra og það gerist furðu fljót. Útspilið um daginn varðandi skuldleiðréttingu heimilanna virðist hafa verið það veikt að það gagnar Framsókn ekkert, enda hefur ekki enn sést til þeirra hundraða milljarða sem Framsókn lofaði að ná af "hrægömmum og vogunarsjóðum".

Sjálfstæðismenn gættu þess í kosningunum að reyna ekki að elta Framsókn í stórfelldum kosningaloforðum og líklega er það svo að Bjarni Benediktsson sé nú að uppskera það að virka sem límið og kjölfesan í ríkisstjórninni, maðurinn sem vinnur hörðum höndum úr erfiðri stöðu, er að berja í brestina og gera sem best úr öllu. Og passaði sig að lofa ekki of miklu fyrirfram.

Öðruvísi er erfitt að túlka vaxandi fylgi flokksins.

2009 urðu þrír flokkar í meirihluta á Alþingi, Sf, Vg og Borgaraflokkurinn/Hreyfingin.

Í fyrstu þurftu Samfó og Vg ekki á fleirum að halda í ríkisstjórn, en svo fór að myndast klofningur í Vg og síðasta ár stjórnarinnar einnig í Sf, og þá varð hún í raun minnihlutastjórn sem reiddi sig á það að óháðir þingmenn og þingmenn Hreyfingarinnar kæmu í veg fyrir að stjórnin fengi vantraust.

Samfó, Vg, Björt framtíð og Píratar hafa nú vel yfir 50% prósenta fylgi í skoðanakönnun, þannig að línurnar frá 2009 eru farnar að birtast aftur hvað varðar minnilhluta Sjalla og Framsóknar meðal kjósenda.

Það þýðir að fari svona í kosningum eru tímamótin, sem í raun urðu í kosningunum 2007, endanleg, og ný staða komin í íslenskum stjórnmálum.

Það er athyglisvert hvernig klofningur varð í Vg vegna ESB-málsins, vegna þess að á árunum 1956 til 1991, á 35 ára tímabili, var hefð fyrir því að fyrirrennari Vg, Alþýðubandalagið, flokkur yst til vinstri eins og Vg, kippti sér ekkert upp við það þótt fimm ríkisstjórnir, sem Allaballar voru í, ýmist svikju loforð um að reka varnarliðið úr landi eða tækju ekki í mál annað en að vera í NATO og hafa herinn.

Í fyrstu tveimur vinstri stjórnunum, 1956-58 og 1971-74, voru loforð um brottför hersins svikin, en báðar ríkisstjórnirnar féllu út af allt öðrum málum og það virtist ekki hagga fylgi Allaballa eða valda klofningi í flokknum þótt valtað væri yfir hann í þessum ríkisstjórnum í utanríkismálum.

Í stjórnunum 1978-79, 1980-83 og 1988-1991 sátu Allaballar sallarólegir án þess að klofna og héldu fylgi sínu, þótt allar þessar stjórnir hefðu þá stefnu í raun að vera í NATO og hafa herinn.

Það væri áhugavert stjórnmálafræðilegt viðfangsefni að finna út, af hverju þetta var öðruvísi í stjórninni 2009-2013 og hvers vegna fylgi Vg hefur minnkað svona mikið. Kannski er skýringarinnar að leita í því að það að gefa eftir varðandi stefnuna í ríkisstjórnunum fimm 1956-1991 fólst í því andmæla ekki aðgerðarleysi og óbreyttri stöðu landsins í utanríkismálum, en 2009 var um að ræða að gefa eftir varðandi það að fara út í heilmikla aðgerð til að breyta stöðu landsins út á við, að ekki sé nú minnst á samningana um Icesave.  


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn með 30,5% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eina sem gerst hefur frá kosningum er útkoma bókarinnar hans Steingríms

lofsöngur hans um afrek sín í útlandinu valda fráhvarfseinkennum

Grímur (IP-tala skráð) 1.2.2014 kl. 11:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband