25.1.2014 | 14:09
Þriggja til fjögurra kynslóða yfirsýn.
Geir Hallsteinsson kynntist ungur þjálfunaraðferðum Hallsteins Hinrikssonar, föður síns og Karls Benediktssonar sem var þjálfari hjá Fram og landsliðinu. Geir var brautryðjandi varðandi það að gerast atvinnumaður í Þýskalandi og fylgdist síðar með Loga, syni sínum og öðrum lærisveinum sínum í landsliðinu.
Nú er fjórða kynslóðin að vaxa upp þannig að Geir hefur óvenju mikla yfirsýn og mark er takandi á örðum hans þegar hann hælir Arnoni Kristjánssyni, sem kemur úr liði "erkifjendanna" Hauka en Geir metur að sjálfsögðu án tillits til neins slíks.
Miðað við þann mannskap, sem mönnum sýndist Aron fara með til á EM er ljóst að hann og strákarnir hafa unnið afrek með hinum óvænta árangri sínum.
Eðli handboltans er slíkt að hlutur þjálfarans er mjög mikill. Íslenskir handboltaþjálfarar hafa unnið sér ekki síðri orðstír erlendis en keppendurnir sjálfir og því er EM núna mikill sigur fyrir Aron Kristjánsson.
![]() |
Ber mikið lof á Aron Kristjánsson |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.1.2014 | 03:29
Þungamiðja höfuðborgarsvæðsisins er innst í Fossvogi.
Þungamiðja íbúðabyggðar á höfuðborgarsvæðinu er austast í Fossvogsdal og þungamiðja atvinnstarfsemi þess vestar í dalnum. Því nær sem þessari miðju byggðin er, því betra, enda eru stærstu krossgötur Íslands rétt austan við þetta svæði.
Því ætti áherslan á að þétta miðjuna að beinast fyrst að svæðum nálægt þessari þungamiðju eins og Geirsnefi og Ártúnshöfða, en stór hluti Ártúnshöfðans er ennþá miklar malargryfjur.
Ef eða þegar stóra orkukreppan í heiminum brestur á eftir því sem líður á þessa öld telja margir sérfræðingar um þau mál að úthverfi í borgum heimsins fari verst út úr því, ekki endilega dreifbýlið.
Við Íslendingar höfum sérstöðu meðal þjóða heims hvað það varðar að bæði almenningssamgöngur og samgöngur á einkabílum má knýja algerlega með rafmagni eða orkugjöfum, sem eru framleiddir innanlands.
Við þurfum að vera undir það búin að taka frá orku til þeirra hluta í stað þess að selja hana til stóriðju á brunaútsöluverði.
![]() |
Úthverfin ekki lengur draumurinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
24.1.2014 | 21:56
Hraðinn drepur !
Ofangreind orð eru notuð sem varnaðarorð í umferðinni en þau geta gilt óbeint í íþróttum á þann jákvæða veg að hraðinn kaffæri mótherjana.
Það eru ýmis atriði í íþróttum sem hrífa og skapa árangur, svo sem afl, snerpa, stærð, þungi, þol, baráttugleði, hugrekki og útsjónarsemi svo að einhver séu nefnd.
Eitt það skemmtilegasta er hraðinn, og hann er það sem gerir danska landsliðið í handbolta svo stórkostlega skemmtilegt.
Hraði í flokkaíþrótt er hins vegar ekkert gefinn, jafnvel þótt leikmennirnir sjálfir séu fljótir og hraðir.
Engin leið er að keyra upp hraða í hópíþrótt nema sem afrakstur af mikilli vinnu, einbeitni, æfingu, skipulagi og samvinnu.
Og alla þessa eiginleika hefur danska handboltalandsliðið í svo ríkum mæli, að jafnvel þótt mótherjarnir séu með risa upp á 2,10 metra þá skilar hraðinn í spilinu meiri árangri þegar upp er staðið.
Í íþrótt eins og hnefaleikum eru fyrrnefnd atriði mikilvæg og stundum er um það að ræða að meistari í þungavigt er stór, sterkur, tæknilega góður og hefur nægt úthald til þess að yfirbuga mótherjann með þessum eiginleikum.
Þá er svo skemmtilegt þegar mótherji sem býr yfir yfirburða hraða samfara tækni og útsjónarsemi gerir afl og stærð að engu með því að drepa hvort tveggja með hraðanum.
Þegar þeir Ali, Manny Paquiao og Roy Jones voru upp á sitt besta gilti þetta svo sannarlega og þess vegna glöddu þeir áhorfendur mest, að minnsta kosti mig.Og þess vegna gleður danska landsliðið mig þessa dagana nema bara þegar þeir þurfa endilega að beita snilld sinni gegn landsliðinu okkar.
Hinu má svo ekki gleyma, að markvörður handboltaliðs getur verið ígildi hálfs liðsins og það er danski markvörðurinn svo sannarlega.
![]() |
Danir mæta Frökkum í úrslitum á EM |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.1.2014 | 18:15
Landslið sem aðrar þjóðir öfunda okkur af.
Íslenska landsliðið í handbolta þurfti svosem ekkert endilega að fórna sér til þess að vera í fimmta sætinu á EM frekar en því sjötta.
En strákarnir gerðu það samt með því að gefast aldrei upp í þessum síðasta leik sínum á mótin og senda með því þau skilaboð til þjóðar sinnar og umheimsins að þetta er einstakt lið hvað það snertir að leggja allt í sölurnar, spila með hjartanu og verða landi sínu til sóma.
Leikmenn og þjálfarar annarra liða hafa undrast þessa fórnarlund, þennan baráttuanda og þetta stolt fyrir hönd þjóðar sinnar, ekki hvað síst vegna þess að undir ekkert landslið á mótinu er mulið minna en okkar landslið.
Það bjóst enginn við neinu hjá þessu vængbrotna liði, sem mönnum fannst það var vegna fjarveru manna, sem hafa verið máttarstólpar þess undanfarinn áratug góðs gengis þess þegar yfir heildina er litið.
Til hamingju, Ísland, að eiga svona hóp sem fulltrúa á erlendri grund.
![]() |
Ísland í 5. sæti eftir sigur á Póllandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2014 | 13:58
Bylting farsíma og eftirlitsmyndavéla.
Á síðustu árum hefur orðið bylting hvað varðar fréttir af ýmsum atburðum með tilkomu myndavéla í farsímum og eftirlitsmyndavéla bæði utan húss og innan. Nýjasta dæmið má sjá hér á mbl.is í dag.
Sömuleiðis hafa opnast miklir og nýir möguleikar á beinum útsendingum í gegnum Skype.
Þessi bylting hefur bæði kosti og galla. Kostirnir felast í stórbættum möguleikum á rannsóknum á atburðum og aðstæðum og á beinum útsendingum í sjónvarpi.
Gallarnir eru ýmsir og varða persónuvernd og friðhelgi einkalífs en einnig hefur skapast nýr vandi fyrir fjölmiðlafólk hvað varðar frásagnir og útsendingar fjölmiðla frá atburðum.
Fyrir þá getur verið erfiðast að meta fyrirfram hvernig líta beri á viðkomandi viðburð áður en hann er genginn yfir. Þar gæti til dæmis verið um að ræða tvísýnt ástand sem ekki er fyrirfram hægt að sjá hvort endar farsællega eða ekki.
Skype-tæknin mun auka á þennan vanda þegar hún verður orðin það algeng að hvort eð er er sýnt beint frá atburðum með mismunandi miklu áhorfi.
Besta dæmið í nútímanum um dramatískan og harmrænan heimsatburð er árásin á Tvíburaturnana í New York 11. september 2001.
Atvikin höguðu því til dæmis svo til að hefði sonur minn ekki fært til pöntun sína á flugi frá Boston þennan dag, hefði ég, þar sem ég var staddur í Kaupmannahöfn, hugsanlega horft þar á hann farast í beinni útsendingu á sama tíma og aðrir aðstandendur heima á Íslandi.
Það getur verið erfitt fyrir stjórnanda útsendingar í tímaþröng að ákveða, hvort tæknilegur möguleiki til beinnar útsendingar frá dramatískum og alvarlegum atburði skuli notaður.
Tökum sem dæmi tvísýna lendingu flugvélar eftir bilun eða óhapp. Í slíku tilfelli kynni lausnin að felast í því að taka atvikið upp beint, en seinka útsendingu á því nægilega til þess að geta ákveðið hvort og þá hvenær hún eigi erindi til sjónvarpsáhorfenda.
Síðan þá hefur orðið bylting í fjarskiptum og fjölmiðlun, og möguleikarnir á vanda, sem af henni stafar, hafa margfaldast.
![]() |
Varð undir bíl en slapp án meiðsla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2014 | 08:19
Fleiri svona upplýsingamiðstöðvar.
Í ferðalögum um þjóðgarða erlendis, sem telja má hliðstæða íslenskum eldfjallasvæðum, er víða að finna stórar ferðamannamiðstöðvar sem eru í raun söfn með upplýsingum og fræðslu um landið, sem ferðamennirnir eru að skoða.
Nú eru Gatnamót ehf að áforma byggingu ferðamannamiðstöðvar við gatnamót Suðurlandsvegar og Biskupstungnabrautar, nokkuð, sem ég hef verið að suða um í 15 ár að gert sé hér á landi en jafnan fengið viðbrögðin "uss, eitthvað annað en stóriðja er bull."
Svona miðstöðvar mætti reisa til dæmis nálægt gatnamótum Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar þar sem með nýjustu tækni yrði útskýrð jarðfræði og náttúruverðmæti Reykjanesskagans og nálægt Kröflu þar sem vettvangur Kröfluelda, Mývatnselda og eldgosa norðan Vatnajökuls yrðu útskýrðar í safninu "Sköpun jarðarinnar og ferðir til annarra hnatta."
Vísir að hliðstæðu safni er á Kirkjubæjarklaustri en illu heilli var ákveðið í síðustu fjárlögum að fella burtu framlög til slíks starfs og uppbyggingar fyrir ferðamenn þar, enda verið að hrinda af stað svipuðu ferli og hófst 1995 með áherslu á virkjanir fyrir stóriðju og stöðvun og jafnvel afnám eða minnkunar friðlýsinga.
Það eru ekki margir sem átta sig til dæmis á því að Skeiðin og Flóinn standa á risavöxnu hrauni, sem rann fyrir þúsundum ára alla leið ofan frá Tungnaársvæðinu og út í sjó og þessar flötu og grösugu sveitir eru því mekilegur hluti af hinum eldvirka hluta Íslands, sem er eitt af helstu undrum veraldar.
Í safni Gatnamóta ætti því að vera völ á að skoða líkön af landsköpun og landmótun á Suðurlandi og afréttum og víðernum eldmótaðs lands allt vestur á Hellisheiði og norður að jöklunum, sem mynda hinn víða jöklahring í kringum sunnanvert landið.
Læt hér fylgja með mynd af snoturri ferðamannamiðstöð í svonefndu Svartfótarhrauni (Blackfoot) í Idaho. Þetta er lítið hraun nokkur hundruð kílómetra fyrir vestan Yellowstone sem óðum er að hyljast skógi en þykir merkilegt.
Ekki þarf að tíunda hve mikið er gert í Yellowstone til þess að upplýsa ferðamenn um náttúru Yellowstone og heilla þá með flottum ferðamannamiðstöðvum. Þrjár milljónir manna koma árlega í þennan elsta þjóðgarð heims, þar af helmingurinn frá öðrum löndum en Bandaríkjunum.
Þar er að finna langmestu samanlagða jarðvarmaorku og vatnsorku í Ameríku en ekki svo mikið sem megavatt virkjað, af því að í augum Bandaríkjamanna er Yellowstone "heilög jörð" þótt standi að baki hinum eldvirka hlluta Íslands sem undur og náttúrugersemi.
![]() |
Vilja ferðamiðstöð með eldfjalli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.1.2014 | 23:32
Oft vandlifað í heiminum.
Það er oft vandlifað í heimi stórra og valdamikilla ríkja, sem togast á um auðlindir jarðar, auð og áhrif.
Stjórnarfarið í Sovétríkjum Stalíns var ógnarstjórn á hæsta stigi og það skorti ekki stóru orðin um það svartnætti og hættuna af heimskommúnismanum hjá talsmönnum "lýðræðisflokkanna" sem svo kölluðu sig, Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Alþýðuflokki.
En 1952 lentu Íslendingar í harðri deilu við Breta út af útfærslu íslensku landhelginnar, og eins og bæði fyrr og síðar, til dæmis haustið 2008, beitti Bretar ítrasta valdi til að koma Íslendingum á knén.
Í Bretlandi var langstærsti markaðurinn fyrir íslenskan fisk og Bretar settu löndunarbann á hann.
Þegar þannig er komið málum, þýðir ekki annað en að leita hverra þeirra ráða sem kunna að duga, og það gerði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þá, kannski minnug þeirra orða Winstons Churchills 1941, þegar hann gekk í bandalag við Stalín gegn Hitler,- að enda þótt hann þyrfi að gera bandalag við kölska sjálfan gegn Hitler, myndi hann áreiðanlega finna einhver vinsamleg orð um kölska til að segja í Neðri málstofunni.
Íslendingar leituðu sem sé til Rússa og leppríkja þeirra í Austur-Evrópu um markað fyrir fiskinn og gerðu við þá vöruskiptasamninga.
Rússar fengu fiskafurðir og Íslendingar bíla, tæki og ýmiskonar vörur aðrar í vöruskiptum, því að hvorug þjóðin hafði gjaldmiðil sem nokkur maður tók mark á í heimsviðskiptunum.
Stundum velti ég því fyrir mér hvað við myndum gera ef svipað ástand kæmi upp nú. Þá er ljóst að Kínverjar eru ekki bara í svipaðri aðstöðu og Sovétið þá, heldur mun sterkari til að gera viðskipti við þjóð, sem er þrátt fyrir smæð sína er á svæði, sem vex að mikilvægi með hverju árinu sem líður.
Það voru Íslendingar lika hernaðarlega í Kalda stríðinu.
Því var gaukað að mér að segja eitthvað frá bílunum, sem við fengum að austan þegar gjaldeyri skorti til að kaupa vestantjaldsbíla.
Sá fyrsti hét Pobeda, GAZ M 20, bíll af svipaðri stærð og Toyota Avensis er núna nema um 15 sentimetrum hærri, og það var þingmaður Sjálfstæðismanna í Barðastrandasýslu, Gísli Jónsson, sem flutti þessa bíla inn.
Pobedan var vélarvana og náði aðeins 105 kílómetra hraða, en það var fullnóg á mjóum malarvegum landsins á þeirri tíð.
Gírarnir voru bara þrír og hámarkshraðinn i 2. gír aðeins 60, en 60 var reyndar leyfilegur hámarksrhraði á þjóðvegum þá.
Hann var rúmgóður og þægilegur ferðabíll, það var bekkur frammí í og stýrisskipting, þannig að sex gátu setið í honum.
Og hann var með svo mikila veghæð og líka sterkbyggður fyrir moldarvegina í Rússlandi og Síberíu, að hann var eins og sniðinn fyrir vondu vegina okkar.
Þá lá leiðin til Patreksfjarðar um óbrúaðar ár á Þingmannaheiði og Pobedan fékk lof hjá sjálfstæðisþingmanni sýslurnnar.
Bilanatíðnin var nokkur, hann eyddi miklu miðað við vélarstærð og afl og hann var nokkuð ryðsækinn, en það voru þó flestir bílar reyndar á þessum tíma.
Og þessir bílar voru enn í umferð áratug síðar. Til dæmis var Pobeda fyrst bíll Jóns bróður míns.
Rússarnir smíðuðu nokkur þúsund fjórhjóladrifna Pobeda, sem báru heitið GAZ M-72, eins og þennan bláa hér fyrir ofan, en ég held ekki að neinn þeirra hafi ratað hingað.
Sá aldrifsbíll var stórmerkilegur því að hann var fyrsti "crossover" bíllinn í heiminum, þ. e. bíll án grindar en með heilsoðna sjálfberandi byggingu og fullkomið fjórhjóladrif með háu og lágu drifi.
Það væri gaman að eiga einn slíkan.
Að vísu á blaðfjöðrum en rússnesku blaðfjaðrirnar á þessum tíma voru þær langmýkstu og bestu í heimi.
Pólverjar smíðuðu nokkur hundruð þúsund einsdrifsbílameð leyfi undir nafninu Warshava, gerðu hann síðar að stallbak og settu í hann toppventlavél. Hann var framleiddur fram til 1973, þegar Pólski Fiat tók við.
Fyrir 1952 forðuðust Íslendingar viðskipti við Sovétmenn en neyddust til þeirra vegna landhelgisdeilunnar. Þrátt fyrir þessi viðskipti gættu þáverandi ráðamenn okkar þess að verða aldrei háðir austantjaldsríkjunum og halda fast í sjálfstæði landsins eftir því sem það var unnt.
Nú sækja Kínverjar viðskipti um allan heim, eru stærstu lánardrottnar Bandaríkjanna og með næst stærsta hagkerfi heims.
Þeir stunda að sjálfsögðu stórveldapólitík og nýta sér öll færi til þess að hafa áhrif sem víðast. Það er vandlifað fyrir litlar þjóðir í heimi stórveldatogstreitu og það skulum við að hafa í huga og fara að með gát.
![]() |
Ræddu um fríverslun við Kína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 24.1.2014 kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.1.2014 | 21:52
Hvað um Peking ´08, Moskvu '80, Berlín '36, Los Angeles '32 o. s. frv..?
Þegar rætt er um sniðgöngu á Ólympíuleikunum í Sochy er rétt að skoða fortíðina í þessum málum til að átta sig á því, hvort og þá hvernig eigi að blanda saman íþróttum og stjórnmálum.
Ógöngurnar, sem slíkt getur leitt af sér, sjást til dæmis á því þegar ýmsar vestrænar þjóðir sniðgengu Ólympíuleikana í Moskvu 1980 og eyðilögðu þá í raun, vegna þess að Rússar höfðu árið áður ráðist inn í Afganistan til að fást við Mujaheddin múslima þar, sálufélaga Talibana.
Í því stríði studdu Bandaríkjamenn Talíbana með hernaðaraðstoð til þess að flæma Rússa í burtu, en aðeins 12 árum síðar réðust Bandaríkjamenn inn í Afganistan til þess að berjast við þessa fyrrum skjólstæðinga sína.
Rússar og taglhnýtingar þeirra hefndu sín með því að eyðileggja Ólympíleikana í Los Angeles 1984.
Íslendingar sendu fólk á báða þessa leika, sem betur fór.
Mannréttindabrot eru líkast til öllu meiri í einræðisríkinu Kína en í Rússlandi en samt eru Íslendingar hreyknir af handboltalandsliðinu, sem fór til Peking 2008 og nældi sér í silfurverðlaun að viðstöddum forseta vorum. Þangað fóru nefnilega íslenskir ráðamenn og bandarískir líka.
Á þessu ári eru 25 ár frá því að valdhafarnir þar slátruðu stúdentum á Torgi hins himeska í þeirri sömu borg og hafa ekki slakað á alræðiskló kommúnistaflokksins síðan.
1936 voru Ólympíuleikarnir haldnir í Berlín í landi þar sem einræðisherrann Hitler hélt þá þegar uppi kúgun og ofsóknum.
1932 voru leikarnir haldnir í Los Angeles í ríki þar sem mannréttindi blökkumanna voru enn víða fótum troðin.
Leikarnir voru haldnir í París, London og Amsterdam á þeim tíma sem þetta voru höfuðborgir nýlenduvelda sem beittu fjarlægar þjóðir harðræði.
![]() |
Gagnrýndu Rússlandsför ráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.1.2014 | 21:11
Lélegustu vítaspyrnur sögunnar ? Sama hornið!
Það stoðar lítið hvað leikmennirnir heita þegar þeir klúðra 3 vítaspyrnum af 10 í einni vítaspyrnkeppni eins og í leik Manchester United og Sunderland.
Markvörður Sunderland valdi hornið hægra megin við sig til að kasta sér í og verja þar komandi bolta.
Þetta, að "gefa horn" eða "velja horn" er yndislega sálfræðilegt atriði í knattspyrnu og handbolta.
Þannig kastaði Hjalti heitinn Einarsson sér sjö sinnum í röð í sama hornið í síðari hálfleik landsleiks Íslands við heimsmeistara Rúmena 1971 og hann hélt íslenska markinu hreinu í alls 14 mínútur í síðari hálfleik, en það tryggði Íslendingum jafntefli við snillingana rúmensku.
Þorsteinn Björnsson, hinn kattliðugi og litríki markvörður Framara, stóð við hliðina á mér og hrópaði upp: "Þetta á ekki að vera hægt! Af hverju prófa þeir ekki að skjóta í hitt hornið?!"
Hann hafði varla sleppt orðinu þegar næsta skytta Rúmena lyfti sér upp og hafði greinilega hugsað það sama og Steini, því að þrumufleygur hans stefndi eins og byssukúla niður í hitt hornið.
En Hjalti hafði greinlega hugsað það sama, því að hann skipti einmitt um horn í þessu skoti og varði skotið!!
![]() |
Mata mætir á þyrlu til Manchester |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2014 | 20:37
Óútskýrður munur.
Árekstraprófanir hafa lengi tíðkast hjá bílaframleiðendum og öðrum, sem láta sig umferðaröryggi varða.
Þannig er greint frá því í Katalog Automobile Revue 1961, sem ég á enn í fórum mínum, og þessar myndir eru teknar úr, hvernig Benz-verksmiðjurnar voru þá þegar farnar að útbúa sína bíla með fram- og afturendum, sem voru með "beyglusvæðum" (crump-zones) en styrkja miðsvæðið og gera farþegarýmið að nokkurs konar öryggisbúri.
Fremri bíllinn er heill en öryggissvæðin hafa lagst saman á aftari bílnum við árekstur.
Það var raunar byrjað á þessu mun fyrr, til dæmis hjá Fiat og fleirum upp úr 1950 og þegar Chrysler Airflow var kynntur 1934 og síðar bílar með sjálfberandi byggingu, var þeim steypt fram af brekkubrúnum og látnir falla hátt fall til að sýna hve vel þeir kæmu út úr því.
Tucker 1948 var með niðurgreyptum stjórntökkum og sérstökum "flóttaklefa" (escape cell) fyrir framan framsætisfarþega.
En ekkert öryggistæki hefur gert eins mikið gagn og bílbeltið og raunar er forsenda fyrir gagni af líknarbelgjum og öðrum öryggisatriðum nútíma bíla að allir séu alltaf með beltin spennt.
Það vekur athygli hve sumar niðurstöður IIHS-prófunarinnar sem sagt er frá á tengdri frétt á mbl.is eru ólíkar niðurstöðum evrópsku NCAP-prófunarinnar, sem er svo mikilvæg fyrir bílaframleiðendur á þeim markaði, að þeir keppa eftir því að fá minnst fjórar til fimm stjörnur.
Einkum er himinhrópandi munur varðandi Fiat 500 sem fær fimm stjörnur hjá NCAP en er meðal þeirra verstu hjá IIHS.
Forðum voru prófin fólgin í því að bílunum var ekið beint á vegg, en síðustu árin var því breytt í Evrópu til samræmis við verstu árekstrana, sem voru þannig, að höggið kom aðeins framan á vinstri helming bílsins beint fyrir framan bílstjórann.
![]() |
Chevrolet Spark skástur í IIHS-prófi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)