17.10.2013 | 21:53
Skoðið þið þetta, hér og á fésbókarsíðunni.
Ég sagði á fésbókarsíðu minni í gær að ég ætlaði að birta þar myndir úr Gálgahrauni daglega um sinn.
Atvikin haga því þannig að þetta eru þrjár athyglisverðar loftmyndir í dag, sem ég tel til glöggvunar fyrir þá sem vilja kynna sér málið.
Tel rétt að benda á þær en ef tími vinnst, mun ég kannski gera myndskreyttan bloggpistil um Gálgahraunsmálið. Viti menn, er þegar búinn að því og hér er hann kominn:
Hér kemur sú fyrsta, tekin í vor.
Núverandi Álftanesvegur er vinstra megin á myndinni og liggur á 500 metra kafla með hús á báðar hendur, þó rýmra en til dæmis Skeiðarvogur í Reykjavík, þar sem er tvöfalt meiri umferð, 14 þús. bílar á dag, en 7 þúsund á Álftanesvegi.
Ljós rák ofarlega á myndinni, hægra megin við veginn, er grasi vaxið svæði meðfram hraunjaðri Gálgahrauns sem er ein landslagsheild hægra megin á myndinni á milli hraunjaðra.
Af 44 sambærilegum vegarköflum á höfuðborgarsvæðinu er Álftanesvegur númer 22 í röðinni varðandi slysatíðni. 21 kafli er með hærri slysatíðni.
20 ára gamall stórveldisdraumur bæjaryfirvalda í Garðabæ sést á næstu mynd fyrir neðan. Vegir, hringtorg og jafnvel mislæg gatnamót, sem eiga að búta Gálgahraunsheildina í fjóra parta og anna samtals umferð 50 þúsund bíla á dag, sem er rúmlega helmingurinn af daglegri umferð Miklubrautar!
Vegirnir verða með hærri slysatíðni en núverandi vegur ef eitthvað er!
Á endanum mun allur pakkinn kosta allt að 3000 milljónir króna.
Neðsta myndin sýnir einn af möguleikunum til að bæta núverandi Álftanesveg, ef menn vilja endilega taka hann fram fyrir 21 vegarkafla á höfuðborgarsvæðinu, sem eru með hærri slysatíðni og flestir með meiri umferð.
Þessi lausn er augljóslega margfalt ódýrari en það sem nú er ætlunin að æða út í og hægt er að leggja veginn við hraunjaðarinn efst á myndinni og nota hluta af þeim kafla, sem nú er verið að vinna í, og fá þannig stærra byggingarsvæði á Garðaholti, ef einhverjir vilja uppfyla drauma bæjarstjórnarinnar þar.
Nýju vegirnir um hraunið þvert og endilangt eru engin forsenda fyrir því eins og bæjarstjórinn lét skína í í Kastljósi.
Þau rök, að allt náttúruverndarfólk vilji eða geti stöðvað hvað sem er, standast ekki þegar litið er til allra þeirra nýlegu framkvæmda, sem verið hafa á suðvesturlandi síðustu ár án þess að náttúruverndarfólk hafi brugðið fæti fyrir þær.
Tvö dæmi um það eru Suðurstrandarvegurinn, sem ekki varð fyrir neinum töfum vegna mótmæla og Vallahverfið syðst í Hafnarfirði. Af hverju ekki hraunið undir Vallahverfinu?
Vegna þess að hraunið, sem Vallarhverfið stendur á, er er ekki á náttúruminjaskrá, ekki þakið sögulegum minjum og sérstæðum hraunmyndunum, Kjarval dvaldi þar ekki árum saman á ferli sínum líkt og hann gerði í Gálgahrauni og á Þingvöllum.
Set á eftir, neðst, mynd af korti á leiðbeiningarspjaldi, sem er rétt þar hjá, þar sem draumóravegurinn á að koma upp á hraunið, en vegaframkvæmdirnar, sem loftmyndirnar eru af, munu jafngilda því, að tekinn sé rauður málningarpensill og krossað yfir allan neðri helming myndarinnar.
Þótt örnefnin Gálgahraun og Garðahraun séu bæði inni á þessari mynd, er hraunið, hraunjaðra á milli, ótvíræð landslagsheild og þarf engan landslagsheildasérfræðing til að sjá það.
Þið getið skoðað þetta betur með því að smella á það tvisvar. Rauði bletturinn sýnir, hvar skiltið er, en 100 metrum norðan við skiltið á nýi vegurinn að koma úr vestri (frá vinstri) inn á hraunið og fara eftir því eins og loftmyndin sýnir.
Auðvelt væri að leggja nýjan veg þarna meðfram án þess að fara inn á hraunið og losna þannig við blindhæð á núverandi vegi.
Allar þessar söguslóðir eru þarna vegna þess að vestan við hraunið eru Bessastaðir og fyrir sunnan það hið forna stórbýli Garðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.10.2013 | 21:06
Svipað og í Eldvörpum?
Örvæntingarfullri græðgi okkar Íslendinga eru fá takmörk sett. Búið er að setja Eldvörp á aftökulista náttúruverðmæta til þess að kreista þar út einhver hugsanleg 50 megavött úr sameiginlegu jarðvarmahólfi Eldvarpa og Svartsengis.
Það mun einungis flýta fyrir tæmingu hólfsins úr hugsanlega 50 árum niður fyrir 40 ár, allt á kostnað nánustu afkomenda okkar og allra þar á eftir.
Ef jarðvarmageymirinn undir Hverahlíð er í tengslum við svæðið við Hellisheiðarvirkjun verða afleiðingarnar svipaðar þar. Fróðlegt væri að vita hvað jarðvísindamenn segja um það.
![]() |
Tengingin freistandi en ekki áhættulaus |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.10.2013 | 12:51
Svæði sem kallar á algert endurmat.
Ártúnshöfði er eitthvert verðmætasta svæðið á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að það liggur að stærstu krossgötum landsins aðeins um einn kílómetra frá þungamiðju íbúðabyggðar höfuðborgarsvæðisins.
Það þarf að huga vel að því hvort það geti gengið til lengdar að stór hluti Ártúnshöfðans sé malargryfjur og stórir sandhaugar þar sem augljóslega ættu að vera stór fyrirtæki og stofnanir sem njóta sín og þjóna borgarbúum best.
Hins vegar þarf að finna staði, þar sem hentar vel að hafa þá starfsemi, sem nú er kvartað yfir, og að tryggja, að fyrirtækin, sem hana stunda, geti þrifist vel.
Endurskipulagning þessa mikilvæga svæðis gæti kallað á að breyta samsetningunni á notkun þess og jafnvel rífa niður hús og byggja önnur í staðinn. Til dæmis hefði alveg verið hægt að skoða á sínum tíma hvort aðal sjúkrahús landsins ætti að vera þarna, nú, eða endurbyggt Þjóðleikhús, sem hefði líklegra verið ódýrara að reisa en að lappa upp á núverandi Þjóðleikhús.
![]() |
Kvartað yfir sandfoki og mengun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.10.2013 | 09:56
Helst í gær !
Sú var tíðin að því var haldið fast að landsmönnum, að í tengslum við álverið í Straumsvík myndi rísa með hraði þvílík áliðnaðarmiðstöð, að þar myndi rísa tugþúsunda mann iðnaðarbær þar sem stunduð væri smíði á hvers kyns plötum og varningi úr áli.
Jafnvel voru notuð orð eins og "forystuþjóð" um þessa stórfelldu iðnaðarframleiðslu.
Á þessum tíma þótti Rjukan og verksmiðjurnar þar helsta aðdráttarafl til skoðunar fyrir þá Íslendinga sem ferðuðust til Noregs.
Síðan eru liðin 50 ár og enn bólar ekki á öllum þessum ósköpum, en samt er þessi söngur upp hafinn enn með reglulegu millibili.
Í verksmiðjubænum Rjukan í Noregi hefur síðustu áratugi verið glímt við mikinn flótta ungs fólks úr byggðinni vegna einhæfs atvinnulífs. Það eina, sem fundist hefur síðustu ár er "eitthvað annað" eins og uppbygging ferðaþjónustu allt árið í grennd við fjallið Gausta, en "eitthvað annað en stóriðja" er eitthvað sem Íslendingar mega helst ekki heyra nefnt nema nefna grasatínslu og labb inn í torfkofana sem það eina "eitthvað annað" sem komi til greina.
Nú sýnist nánast vera risin stærri umskipunar- og olíuhöfn í Finnafirði og allar Faxaflóahafnir til samans. Keppinautar hennar í Evrópu, svo sem Rotterdamhöfn, hafa þegar lotið í lægra haldi í samkeppninni.
Finnafjörður er eins langt frá þjónustu og þéttri byggð og hugsast getur á Íslandi og í allri Evrópu. Samt eiga aðrir staðir á Íslandi og í Evrópu ekki möguleika til samkeppni við hana um vinnuafl og umsvif. Nei, þetta er ekki aðeins borðliggjandi helst núna, heldur strax í gær.
Raunar átti Finnafjörður harðan keppinaut fyrir þremur árum, en það var eini eyðifjörðurinn á hálfu landinu, sem því miður var ekki búið að taka í nefið, Loðmundarfjörður.
Þá lá strax fyrir risahöfn þar með jarðgöng í gegnum öll fjöll í nágrenninu og beina hraðbraut um endilangt hálendið til Reykavíkur !
Fyrir nokkrum árum var gefin út sú yfirlýsing að það væri 99,9% pottþétt að risa olíhreinsistöð risi í Hvestudal í Arnarfirði, fegursta dal þess fjarðar með 500 manns í vinnu.
Bóndinn sagðist í sjónvarpi í hitteðfyrra vera búinn að leggja allar aðrar hugmyndir um uppbyggingu í dalnum á hilluna, af því að olíuhreinstöðin væri að koma ! Hann hefur síðan verið í biðstöðu og dettur ekki í hug að hún gæti orðið ævilöng.
Og engin furða, því að engin olíuhreinsistöð hefur verið reist á Vesturlöndum í aldarfjórðung, vegna þess að enginn vill hafa slíkt skrímsli nálægt sér.
![]() |
Viðlegukantur hafnarinnar yrði 5 km |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.10.2013 | 21:15
Þurfti enga rannsókn, - sykur og fita eru fíkniefni.
Guðmundur "jaki" Guðmundsson sagðist á sínum tíma efast um að allar rándýrar rannsóknir háskólamenntaðs fólks þyrfti til þess að komast að niðurstöðum sem lægju í augum uppi.
Oreo-kex er bara dæmi um ávanabindandi fíkn sykraðra, feitra og hitaeiningaríkra efna.
Nefna má fleiri vörur eins og til dæmis Werthers Original, en ég hef marg staðið mig að því að eftir að ég er búinn með fyrsta molann, fylgja hinir allir óviðráðanlega á eftir, hver á eftir öðrum.
Virðist litlu skipta þótt heitstrengingar séu viðhafðar varðandi það að bragða aðeins á tveimur til þremur.
Nú er sennilega liðið vel á annað ár síðan ég hef keypt og étið þetta góðgæti, því að reynsla mín kenndi mér að það eina sem dugði gegn fíkninni var algert bindindi.
![]() |
Oreo-kex jafn ávanabindandi og kókaín |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.10.2013 | 16:58
Bók um hamingjuna, sem var rænt.
Það, að missa barn í fæðingu, getur verið slík ógæfa, að líf viðkomandi konu og hennar nánustu sé eyðilagt fyrir lífstíð.
Þegar ég var í sveit fyrir 60 árum kynntist ég lífshlaupi einnar slíkrar og auk þess örlögum fleiri, sem höfðu orðið undir í lífsbaráttu þess tíma og hlotið allt önnur örlög en það hefði hlotið á okkar tímum.
Ég skrifaði bókina "Manga með svartan vanga" sem var gefin út 1993, seldist upp fyrir Þorláksmessu og hefur verið ófáanleg síðan.
Eftir að ég skrifaði bókina hef ég fengið svo margar nýjar upplýsingar um fólkið, sem þar er fjallað um, að nú er, á 20 ára afmæli hinnar gömlu bókar, að koma út bókin "Manga með svartan vanga - sagan öll" sem varpar alveg nýju ljósi á viðfangsefni fyrri bókarinnar, en eins og hin fyrri skiptast þar á kátína og sorg, gleði og harmur og með dýrri dýpt og vídd.
Um þriðjungur hinnar nýju bókar er nýsmíð.
Undir lok bókarinnar er einn hinna nýju bókarkafla með heitinu "Það er ekki lengra síðan", nokkurs konar samantekt og nýtt uppgjör.
Mér fannst ég skulda öllu því fólki sem kom fram í bókinni auk hinna nýju persóna, sem nú bætast við, að skila af mér þessu nýja verki og klára þetta mál eftir því sem unnt er, miðað við allt það nýja, sem rak á fjörur mínar eftir 1993.
![]() |
Syrgja framtíð sem aldrei varð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.10.2013 | 23:24
Eina skýjaða kvöldið valið?
Það var heiðskírt í gærkvöldi. Það var alskýjað og lágskýjað í kvöld. Annað kvöld er spáð heiðskíru.
Hvert þessara kvölda skyldi nú hafa verið valið til að myrkva götuljósin svo að norðurljósin sæust betur.
Kvöldið í kvöld !
![]() |
Stórfengleg norðurljós - eða þannig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
15.10.2013 | 19:58
Erfitt, en verðskuldað, til hamingju!
Eftir æsispennandi lokamínútur er íslenskt knattspyrnulandslið í fyrsta sinn komið í umspil fyrir HM.
Til hamingju! En enn einu sinni þurftu allir að beygja sig fyrir því að veldi auglýsinganna viki öllu til hliðar þegar þær voru látnar taka yfir þannig að hinu lifandi augnabliki að sjá viðbrögðin var slátrað!
Skil þetta ekki. Gátu þessar auglýsingar komið á eftir hinu einstæða lifandi augnabliki?
?
![]() |
Ísland í HM-umspil í fyrsta sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.10.2013 | 17:47
Margt er verra en súkkulaðiþurrð.
Súkkulaði er lymskuleg neysluvara. Ástæðan er sú að yfirgnæfandi hluti neyslu þess helgast af því að hvítasykur er með í neyslunni, en hann er eitt af varasömustu fíkniefnum heims, vegna þess að hann er ekki skilgreindur sem slíkur.
Sjálfur viðurkenni ég að vera haldinn súkkulaðifíkn og ekki minnkaði ástæðan fyrir henni við það að pabbi og afi voru bakarameistarar þannig að maður komst snemma upp á hvítasykurs- og súkkulaðibragðið.
Ég fann út fyrir nokkrum árum að ég hefði innbyrt 50 þúsund Prins póló súkkulaðikex frá árinu 1957, en það gerir heilt tonn af fitu og litlu minna af hvítasykri.
Súkkulaðivörur eru nefnilega með eitthvert hæsta hlutfall fitu, sem hægt er að finna í neysluvöru og þegar henni er bætt við hvítasykurinn er útkoman ekki gæfuleg hvað snertir offituvanda nútímafólks.
Þótt súkkulaði njóti sívaxandi vinsælda held ég því að það sé ekkert slæmt, ef skortur verður á því.
Þvert á móti mun það hjálpa uppvaxandi kynslóð við að varast það að lenda í viðjum fíknar í það.
Það er mun meiri ástæða til að óttast þurrð á öðrum neysluvörum en súkkulaði.
![]() |
Súkkulaðiskortur yfirvofandi í heiminum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.10.2013 | 11:53
Möguleikarnir eiga að vera meiri nú.
Einhvern tíma var spurt: Hvað er knattspyrna? Og svarið var: 22 leikmenn eltast við einn bolta og reyna að koma honum inn í mark, Brasilíumenn eru bestir en Þjóðverjar vinna.
Þetta síðasta er eitt af því sem var í veginum fyrir framgangi Íslendinga fyrir tíu árum, en er ekki eins nú.
Fleira má nefna varðandi meiri möguleika nú en þá fyrir Íslendinga til að komast á HM, sem ekki skal talið upp.
Markaskorunin hefur verið bæði meiri og öllu jafnari en fyrr hjá Íslendingum og vörnin virðist vera að smella betur saman.
Auðvitað er knattspyrnan þannig íþrótt að ekkert er gefið fyrirfram en það stekkur enginn lengra en hann hugsar og ef íslenska landsliðið hugsar dæmið rétt á það að geta stokkið langt.
![]() |
Ísland í svipaðri stöðu fyrir tíu árum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |