Helst í gær !

Sú var tíðin að því var haldið fast að landsmönnum, að í tengslum við álverið í Straumsvík myndi rísa með hraði þvílík áliðnaðarmiðstöð, að þar myndi rísa tugþúsunda mann iðnaðarbær þar sem stunduð væri smíði á hvers kyns plötum og varningi úr áli.

Jafnvel voru notuð orð eins og "forystuþjóð" um þessa stórfelldu iðnaðarframleiðslu.

Á þessum tíma þótti Rjukan og verksmiðjurnar þar helsta aðdráttarafl til skoðunar fyrir þá Íslendinga sem ferðuðust til Noregs.  

Síðan eru liðin 50 ár og enn bólar ekki á öllum þessum ósköpum, en samt er þessi söngur upp hafinn enn með reglulegu millibili.

Í verksmiðjubænum Rjukan í Noregi hefur síðustu áratugi verið glímt við mikinn flótta ungs fólks úr byggðinni vegna einhæfs atvinnulífs. Það eina, sem fundist hefur síðustu ár er "eitthvað annað" eins og uppbygging ferðaþjónustu allt árið í grennd við fjallið Gausta, en "eitthvað annað en stóriðja" er eitthvað sem Íslendingar mega helst ekki heyra nefnt nema nefna grasatínslu og labb inn í torfkofana sem það eina "eitthvað annað" sem komi til greina.

Nú sýnist nánast vera risin stærri umskipunar- og olíuhöfn í Finnafirði og allar Faxaflóahafnir til samans. Keppinautar hennar í Evrópu, svo sem Rotterdamhöfn, hafa þegar lotið í lægra haldi í samkeppninni.

Finnafjörður er eins langt frá þjónustu og þéttri byggð og hugsast getur á Íslandi og í allri Evrópu. Samt eiga aðrir staðir á Íslandi og í Evrópu ekki möguleika til samkeppni við hana um vinnuafl og umsvif. Nei, þetta er ekki aðeins borðliggjandi helst núna, heldur strax í gær.

Raunar átti Finnafjörður harðan keppinaut fyrir þremur árum, en það var eini eyðifjörðurinn á hálfu landinu, sem því miður var ekki búið að taka í nefið, Loðmundarfjörður.

Þá lá strax fyrir risahöfn þar með jarðgöng í gegnum öll fjöll í nágrenninu og beina hraðbraut um endilangt hálendið til Reykavíkur !

Fyrir nokkrum árum var gefin út sú yfirlýsing að það væri 99,9% pottþétt að risa olíhreinsistöð risi í Hvestudal í Arnarfirði, fegursta dal þess fjarðar með 500 manns í vinnu.

Bóndinn sagðist í sjónvarpi í hitteðfyrra vera búinn að leggja allar aðrar hugmyndir um uppbyggingu í dalnum á hilluna, af því að olíuhreinstöðin væri að koma ! Hann hefur síðan verið í biðstöðu og dettur ekki í hug að hún gæti orðið ævilöng.

Og engin furða, því að engin olíuhreinsistöð hefur verið reist á Vesturlöndum í aldarfjórðung, vegna þess að enginn vill hafa slíkt skrímsli nálægt sér.   

 


mbl.is Viðlegukantur hafnarinnar yrði 5 km
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Það grátlegasta við hugmyndir um umskipunarhöfn er að hún myndi ekki einusinni skapa nein störf að ráði. Uppbygging yrði mestöll í höndum erlendra aðila, höfnin sjálf meira og minna sjálfvirk. Skatttekjur yrðu líka litlar, en sveitarfélög á svæðinu myndu drukna í peningum hlutfallslega vegna aðstöðugjalda.

Hafnarsvæðið allt verður hins vegar gríðarstórt - það er fyrst og fremst flatlendið upp af höfninni sem menn horfa á, það er nefnilega miklu fljótlegra að raða gámum hlið við hlið en að stafla þeim. Víðáttumiklir gámavellir, bílastæði og olíugeymslur. Öryggisgæsla yrði mikil kringum svæðið og almenningi auðvitað bannaður aðgangur.

En gæsla vegna siglinga og hugsanlegra mengunarslysa leggst sem hreinn kostnaður á íslensku ríkisstjórnina.

Brynjólfur Þorvarðsson, 17.10.2013 kl. 11:47

2 identicon

En hvernig er það, er nokkuð búið að ná samningum við ábúendur í Finnafirði? Það að einhverjir bændur búi á téðu landi virðist engu máli skipta. Svo hneykslast fólk á að yfirvöld í Kína, Japan, Aserbaídsjan og fleirri stöðum ryðji fólki í burtu til að byggja tónleika og íþróttamannvirki og annað slíkt. En ef það er bóndi hér uppi á skerinu sem að þarf að víkja eða missa hluta af landinu, þá er allt bara í góðu  Raforku og stórfyrirtæki geta vaðið yfir landeigendur á skítugum skónum hér á landi með samþykki fjöldans, þetta er hræsni.

Keli (IP-tala skráð) 17.10.2013 kl. 12:04

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ábúandinn vill þetta ekki, en það kemur málinu auðvitað ekkert við.

Ómar Ragnarsson, 17.10.2013 kl. 13:07

4 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Bremen er fjárhagslega ekki vel statt sveitarfélag og er ekki heimilt sem önnur þýsk sveitarfélög heimilt að stunda áhættusækna starfsemi.

Hafnarstarfsemin þar var einkavædd sem veitir Bremenport meiri og umfangsmeiri heimildir. En hvernig er því stjórnað? Best gæti eg trúað að ráðamenn þar mættu taka stjórn Faxaflóahafna sér til fyrirmyndar.

Áætlanir um höfn í Finnafirði eru ansi brattar. Þá höfn mætti kenna við Finn falska sem sveik allt sem svíkja mátti.

Guðjón Sigþór Jensson, 17.10.2013 kl. 22:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband