15.3.2008 | 23:00
SÖNN UMHYGGJUSTÖRF.
Nokkurra daga dvöl mín á Borgarspítalanum í Reykjavík hefur skerpt á vitund minni fyrir íslenska heilbrigðiskerfinu og stolti mínu yfir því fólki sem vinnur þar sönn hugsjónastörf með hugarfarinu "fyrir lífið sjálft" eins og Happdrætti SÍBS orðar það. Hér hefur þetta fólk unnið nákvæm vísindastörf í tvísýnum dansi til að bjarga því sem bjargað varð eftir heiftarlega sýkingu í kýli í baki mínu, sem ég var svo óheppinn að fá fyrir átta dögum á leiðinni út til Bandaríkjanna til að skemmta þar.
Íslenskir sóttvarnarlæknar hafa áorkað því að koma í veg fyrir að nýjustu og skæðustu bakteríurnar erlendis hafi borist til landsins og því búum við í besta landi heims hvað það snerti, sem að mér sneri. Og það er þannig sjálfsagt á fleiri sviðum, - þarf ekki annað en að nefna hreina kranavatnið í Reykjavík sem dæmi.
Þar dróst í tvo sólarhringa að ég fengi sýklalyf í Bandaríkjunum og þau reyndust ekki ráða við sýkinguna, voru einfaldlega ekki réttu lyfin. Ef ég hefði freistast til að leita á náðir læknis í heilbrigðiskerfi voldugustu þjóðar heims, bara til að láta stinga eina nálarstungu, hefði ekki verið hægt að skera mig upp hér heima fyrr en þremur til fjórum dögum eftir að ég kom heim, vegna þess að fyrst hefði orðið ganga tryggilega úr skugga um það að í mér leyndust ekki hinar nýju, skæðu bakteríur.
Sýkingin óx gríðarlega hratt á leiðinni hingað heim á miðvikudagsmorgun og var á mörkum þess að fara út í allt æðakerfið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. En fyrir rétt, nákævm og markviss viðbrögð lækna og hjúkrunarliðfs hér var sýkingin stöðvuð með svæfingu og skurðaðgerð strax á fimmtudagskvöld, daginn eftir að ég kom heim að vestan.
Ótal dæmi eru um það hve lítið þarf út af að bera á fjölmörgum sviðum lækninga. Mér var til dæmis kunnugt um afleiðingar þess fyrir mörgum árum að ekki var farið nógu nákvæmlega að við meðferð nálar við dælingu lyfja í æð.
Fagmennska, alúð og hugsjónir fólksins sem hér vinnur hefur fyllt mig þökk og stolti af því að vera Íslendingur eins og það, - stolti yfir því að búa í besta landi heims.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
14.3.2008 | 21:59
FÁGÆTT DRENGLYNDI, ÖLLUM SPURNINGUM SVARAÐ.
Frá og með síðustu bjölluspurningunni í Gettu betur í kvöld sveif spurning, sem ég óttaðist að ósvarað yrði, yfir vötnunum: Hvað var það sem Sigmar átti við með aðvörun sinni um hljóð í salnum? Sem betur svaraði einn keppandi MA þeirri spurningu af miklu drenglyndi í lok keppninnar og bægði þar með frá skugga sem hugsanlega hefði hvílt yfir þessari keppni og skóla hans, jafnvel þótt atvikið, sem Sigmar ýjaði að, hefði að lokum ekki úrslitaáhrif.
Þar með endaði þessi keppni til sóma fyrir alla aðila og öllum spurningum var svarað, en það er jú sjaldan nauðsynlegra en í svona keppni. Sigmari var vandi á höndum þegar atvikið kom upp því að ómögulegt var að sanna það beinlínis að keppandinn eða keppendur hefðu heyrt ábendinguna úr sal. Í svona tilfelli verða dómari og spyrill að vera fljótir að taka ákvörðun, jafnvel þótt enginn kostur sé góður.
Miðað við þann mikla mun sem þá var enn á keppnilsliðunum og það hve litlar líkur voru á að MA-ingar gætu unnið upp hið mikla forskot með því að vera alltaf á undan að svara og svara alltaf rétt, tel ég þá ákvörðun hafa verið þá skástu í stöðunni að láta keppnina halda áfram og geyma hugsanlega þetta álitamál og taka það ekki upp nema MA ynni.
Með því var spennunni og skemmtuninni viðhaldið og svo fór að lokum að fyrir fágætt drenglyndi fulltrúa MA urðu úrslitin öllum til mikils sóma.
Eftir situr að vakta það enn betur að svona atvik komi ekki upp. Í salnum er margt af óreyndum, kappsfullum unglingum og aðeins einn þeirra getur eyðilagt fyrir öllum hinum og þar með stórskaðað keppnina sjálfa. Keppnislið MA ber hér enga sök, en sá eða þeir sem brjóta af sér í salnum eiga að axla sína ábyrgð í hvert sinn sem svona kemur upp og skólayfirvöld og/eða nemendafélög eiga að hafa á þessu stjórn.
Já, dramatík og fullkomið sjónvarpsefni ! Til hamingju, allir sem að þessu stóðuð !
![]() |
MR vann eftir bráðabana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
14.3.2008 | 13:35
KJÓSENDUR HAFÐIR AÐ FÍFLUM.
Ekki er annað að sjá af fréttum síðustu daga en að þeir kjósendur verði hafðir að fíflum sem trúðu á loforð um stóriðjuhlé. Enn dapurlegra yrði það ef í þriðja sinn yrði það kona sem yrði látin beygja sig í duftið.
Í kosningabaráttunni í fyrravor fyrtist Ingilbjörg Sólrún Gísladóttir við þegar mér "varð það á" að telja ekki alla liðsmenn hennar til hins græna hluta kjósenda. Hún gaf yfirlýsingar um ekki yrði um frekari stóriðjuframkvæmdir að ræða á suðvesturlandi á næstu árum ef hennar flokkur kæmist til áhrifa og flestir aðrir þingmenn og frambjóðendur Samfylkingarinnar gerðu slíkt hið sama.
Við stjórnarmyndunina og eftir hana hamraði Samfylkingarfólkið á því að nú yrði stóriðjuhlé sem entist að minnsta kosti fram yfir þann tíma sem það tæki að gera almennilega og helst endanlega úttekt á gildi íslenskra náttúruverðmæta.
Fréttirnar þessa dagana sýna allt annað. Það slitnar ekki slefan á milli framkvæmdanna fyrir austan og hér syðra því að enn er unnið að stórfelldum framkvæmdum við Hraunaveitu sem lýkur ekki fyrr en næsta haust.
Enn er eftir að úrskurða um mat á heildarumhverfisáhrifum framkvæmdanna í Helguvík, um lagningu háspennulína, um öflun orku (120 þúsund tonna álver er ekki frekar arðbært nú en það var á Reyðarfirði árið 2000), - eftir að ganga frá því hvort menn ætla virkilega að stúta öllum tiltækum jarðhitasvæðum á Reykjanesskaga (t.d. Seltúni,Bitruvirkjun o.fl.), að ekki sé nú minnst á rannsóknina á náttúrverðmætum landsins.
Samt er vaðið áfram með hugarfarinu í trausti þess að enn sem fyrr muni gamla trixið duga að láta fólk standa frammi fyrir gerðum hlut, eða eins og sagt var í villta vestrinu: Að skjóta fyrst og spyrja svo.
Þeir kjósendur sem kusu Samfylkinguna í síðustu kosningum í trausti þess að hún myndi standa fast bæði á kosningaloforðum sínum og ákvæðum í stjórnarsáttmálanum um að fyrst yrði að ljúka rannsóknum rammaáætlunar verða illa sviknir ef í ljós kemur að allt hafi þetta verið gabb.
Mér finnst það afar sorglegt að það skyldu á sínum tíma hafa verið tvær öflugar stjórnmálakonur, Siv Friðleifsdóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem var þröngvað í það hlutverk að öll þjóðin mændi á þær þegar þær kváðu upp úr með ákvörðun sína varðandi Kárahnjúkavirkjun, fyrst Siv með matið á umhverfisáhrifunum og síðan Ingibjörg Sólrún á frægum fundi borgarstjórnar Reykjavíkur.
Þórunn Sveinbjarnardóttir og Rannveig Sigurðardóttir létu ekki beygja sig í atkvæðagreiðslu á Alþingi, og megi þær hafa ævarandi heiður fyrir það.
En nú standa öll spjótin að nýju á einni konu, Þórunni Sveinbjarnardóttur. Össur Skarphéðinsson hefur að vísu fram að þessu stutt sjónarmið hennar og enn er ekki alveg útséð um hvernig máli hennar verður til lykta ráðið.
Hins vegar er morgunljóst að verði það höfuðkosningaloforð svikið að hér verði stóriðjuhlé þar til næsta áfanga rammaáætlunar og rannsókn á íslenskum náttúruauðæfum er lokið, þá hafa þeir kjósendur sem trúðu þessum loforðum verið hafðir að fíflum.
![]() |
Framkvæmdir hafnar í Helguvík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
13.3.2008 | 09:42
SAMA OG Í RALLINU.
Á tímabili fjölgaði banaslysum mjög í heimsmeistarakeppninni í ralli. Þetta var í kringum 1990 þegar ofurbílar voru komnir til sögunnar með yfir 500 hestala vélar og annað eftir því. Samt voru þarna við stýrið færustu ökumenn heims. Við þessu fannst aðeins eitt ráð, - að draga úr aflinu og hraðanum og þá fækkaði slysunum. Fleira var að vísu gert en minnkun aflsins og þar með getu bílsins til að komast upp á óviðráðanlegan hraða reyndist lang áhrifamest.
![]() |
Skíðaslysum fjölgar í Evrópu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.3.2008 | 09:37
VÖLLURINN OG FLUGIÐ EIGA ÞAÐ INNI.
Flug hefur verið stundað samfellt í á sjöunda áratug á Reykjavíkurflugvelli. Síðustu árin hefur enginn samgöngumáti mátt þola það sem flugfarþegar og flugið almennt hefur mátt þola á hér í Reykjavík. Þegar menn horfa í kostnaðinn við að leysa þetta mál ættu þeir að horfa yfir þetta 62ja ára tímabil í heild og líta þannig á það sem gert verður, að völlurinn og flugið eigi það inni eftir 62ja ára aðgerðarleysi.
Ef það fer svo að flugið flyst á endanum og það kostar að breyta eða rífa eitthvað, þá það. Það ástand að aðeins eitt innanlandsflugfélag hafi aðstöðu á vellinum, ef aðstöðu skyldi kalla, er hliðstætt því að aðeins eitt landflutningafyrirtæki geti flutt vörur til og frá borginni.
Eða að aðeins eitt sjóflutningafyrirtæki hafi aðstöðu í Reykjavíkurhöfn.
![]() |
Vandræðaástand í Vatnsmýri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.3.2008 | 21:00
ALVEG ÖFUGT HJÁ MÉR OG ALBERTI.
Hræðsla Madonnu við að deyja á sviði er mér lítt skiljanleg. Ef ég mætti velja mér andlátsstað minn yrði sviðið ofarlega á blaði. Þegar Albert Guðmundsson spilaði með Stjörnuliðinu mínu í knattspyrnu þrýsti kona hans hart á mig að leyfa honum það ekki vegna þess að hann væri hjartveikur og það gæti kostað hann lífið.
Albert leit þveröfugt á málið. "Þetta er nokkuð sem ég vil fá að ráða sjálfur, " sagði hann, "ég heimta að fá að spila hvenær sem það er hægt. Hlustaðu ekki á hana. Ég get ekki hugsað mér yndislegri dauðdaga en að detta dauður niður með boltann á tánum fyrir troðfullu húsi."
Svo fór að Albert fékk kallið á biðstofu spítala og hvorki hann né kona hans fengu neinu ráðið um það.
![]() |
Óttast að deyja á sviðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.3.2008 | 20:45
LÖNGU TÍMABÆRT.
Það var löngu tímabært að reyna að rjúfa kyrrstöðuna í endursýningu leikins efnis í Sjónvarpi. Allt frá upphafi Sjónvarpsins 1966 hafa verið tekin þar upp mjög vel gerð leikverk og þótt þau væru svart-hvít fyrsta áratuginn gat þar að líta í mörgum tilfellum mjög mikla fagmennsku á öllum sviðum. Sem dæmi um það hve slæmt það var að þessi verk rykféllu áratugum saman má nefna að þegar Gísli Marteinn Baldursson var að gera hina skemmtilegu bók sína um topp tíu þetta og topp tíu hitt á Íslandi, bar hann undir lista sína undir ýmsa álitsgjafa.
Hann sýndi mér lista yfir tíu bestu karlleikarana og tíu kvenleikara og ég tók eftir því að enginn hinna eldri jöfra voru þar á blaði. Ég sagði við Gísla Martein að lágmark væri að Brynjólfur Jóhannesson væri á þessum lista. "Hver var hann?" spurði Gísli Marteinn, eðlilega, - hans kynslóð hafði aldrei séð neitt til þessa frábæra leikara og margra annarra sem léku í fyrstu sjónvarpsleikverkunum.
Ég svaraði að Brynjólfur hefði verið einhver fjölhæfasti leikari allra tíma á Íslandi, jafnvígur á dramatísk hlutverk og grínhlutverk. Þótt hann væri höfðuleikarinn hjá Iðnó eftir stofnun Þjóðleikhússins var talið óhjákvæmilegt að láta hann leika Jón Hreggviðsson í sýningu Þjóðleikhússins á Íslandsklukkunni og Jón bónda í Gullna hliðinu.
Enginn hefði síðan getað gert þetta eins vel og hann.
Það eitt að verið sé að reyna að koma hreyfingu á þessa hluti nú er gott. Nógu stórt menningarslys hefur þegar orðið.
![]() |
RÚV semur við félög leikara og tónlistarmanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.3.2008 | 14:15
Í MEÐFERÐ EFTIR NÆSTA FYLLERÍ.
Fjármálaráðgjafi lýsti því vel í Kastljósi í gærkvöldi hvernig hann sér þjóð sína sem áfengissjúkling eða fíkil á fjármálasviðinu. Hann sagðist skilja vel ummæli forsætisráðherrans um áframhaldandi samfelldar stóriðju- og virkjanaframkvæmdir til að komast hjá því að taka á hinu raunverulega vandamáli og lýsti því þannig að með því væri farið í eitt fyllerí enn áður en farið væri í meðferð. Hve margir áfengissjúklingar hafa ekki gengið allan æviveginn til enda með þessu hugarfari án þess auðvitað að fara nokkurn tíma í löngu tímabæra meðferð?
Stuðmenn lýstu þessu mjög vel í textanum: "Nú er ég blindfullur, - ég ætla að hætta að drekka á morgun." Ekki í dag, - seinna. Einn af þáverandi ráðherrum í ríkisstjórn fyrir rúmum tíu árum sagði við mig að það yrði að halda stanslaust áfram í stóriðju- og virkjanaframkvæmdum, annars kæmi kreppa og atvinnuleysi.
Þegar ég spurði hann hvað ætti að gera þegar ekki væri hægt að virkja meir, svaraði hann: "Það verður þá verkefni þeirrar kynslóðar sem þá er uppi."
Já, já, án þess að depla auga lýsti hann því yfir að við ættum hikstalaust að velta okkar vandamálum sem allra mest yfir á afkomendur okkar sem myndu fara í þá meðferð, sem við komumst hjá því að fara í af einskæru hugleysi og ábyrgðarleysi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)
10.3.2008 | 18:40
AFREK VEGNA MISTAKA.
Sá fyrir tilviljun hólgrein sem vinkona mín, Ólína Þorvarðardóttir bloggaði um afrek flugstjórans í Þýskalandi sem bjargaði hundruðum farþega frá stórslysi í hliðarvindslendingu. Hins vegar blöstu mistök flugstjórans við á myndinni af þessu atviki og aðeins hægt að skýra þau á tvennan veg: Henni (þetta var kona) hefur aldrei verið kennt að lenda í hliðarvindi eða þá svo illa að hún "panikerar" í lendingunni.
Á myndinn er horft á eftir vélinni og sést vel að hliðarvindurinn kemur frá hægri. Flugstýran gerir rétt í því að hún "crabbar" vélinni upp í hliðarvindinn eða beinir nefi hennar til hægri til þess að vélin fjúki ekki af brautarstefnunni.
Þegar hún lendir síðan vélinni verður hún að "slippa" vélinni eða halla henni hressilega upp í vindinn með því að halla henni með hægri vænginn niður en hinn vinstri upp. Um leið og hún snertir brautina verður hún að rétta skrokk vélarinnar af með hliðarstýrunum og nota snertingu hjólanna við brautina til að beina henni beint áfram en halda samt áfram að halla henni upp í vindinn.
En hér annað hvort veit hún þetta ekki eða "panikerar" og hallar vinstri vængnum niður í stað þess hægri og það er ástæða þess að vængendinn rekst niður þegar vélin hrekst út á brautarjaðarinn.
Það er loksins hér sem gefa verður flugstýrunni prik fyrir það að bregðast skjótt við og rífa vélina upp aftur. Nema að það hafi verið aðstoðarflugmaðurinn sem það gerði.
Ég fór að ræða þetta við Stefán Gíslason, fyrrum flugstjóra hjá Loftleiðum og Flugleiðum, sem er hinn hressasti á níræðisaldri og hefur í mörgu lent á flugstjóraferlinum, sem byrjaði 1946.
Hann er mér algerlega sammála um ofangreint. Þetta blogg er aðeins skrifað til fróðleiks en ekki til að kasta rýrð á neinn. Sjálfur lærði ég ekki hliðarvindslendingar til hlítar fyrr en allt of seint að mér fannst, eða þegar ég fór sjálfur að kenna flug og fann út vegna brýnnar nauðsynjar hvernig ætti að æfa nemendurna svo vel í hliðarvindslendingum að öll viðbrögðin yrðu ósjálfráð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
10.3.2008 | 02:08
SVIPAÐ OG HEIMA?
Á þriggja daga ferð um "Íslendingabyggðir" í Florida þessa dagana sést svipuð tilhneiging hjá löndum vorum hér og er hjá innflytjendum frá öðrum þjóðum heima. Hér búa margir landarnir nokkrir jafnvel allmargir saman í sömu götunni eða sama hverfinu. Þegar við undrum okkur yfir því að fólk af erlendum uppruna hópist á svipaðan hátt saman heima ætti það ekki að vera svo óskiljanlegt. Þetta virðumst við gera sjálf þegar við flytjum til útlanda.
Hér í Ameríku virðist hins vegar ekki vera hætta á því að Íslendingarnir hópist svo rækilega saman að úr verði íslenskar nýlendur. Bandaríkjamenn hafa langa reynslu af innflytjendum og allt þjóðfélagið byggðist þannig upp og byggist enn þannig upp.
Mjög fróðlegt var að heyra viðtal við Jón Óttar Ragnarsson nýlega þar sem hann ræddi þessi mál og um það hvernig við eigum að læra af þjóðum eins og Bandaríkjamönnum um það hvernig best verði siglt fram hjá kynþáttavandamálum.
Við hjónin erum nú í heimsókn hjá vinafólki í "Íslendinganýlendu" við Virginíustræti í Duneden á vesturströnd Florida og sjáum ekki annað en að landarnir falli vel inn í hverfið og hafi daglegt samneyti við annað fólk hér í götunni á eðlilegan og vinsamlegan hátt. Kannski hjálpar til að þetta fólk er álíka stætt og nágrannarnir en ekki ódýrt erlend vinnuafl sem skapar hættu á gjá milli stétta.
Þorrablótið í gærkvöldi á Melbourne beach var eitt hið besta sem ég hef lengi verið á og byggi ég þann dóm minn á 45 ára gammalli reynslu. Það vera og þeim, sem að því stóðu, til mikils sóma.
Athyglisvert er að sjá hvernig golfunnendur flykkjast hingað en það mun stafa af því að mun ódýrara er að stunda golf hér en í Evrópu.
Ég hef margsagt að fyrir andlega og líkamlega heilsu væri það gott ef við Íslendingar hefðum efni á því að "loka sjoppunni" Íslandi frá þrettándanum fram á góu og byrja þorrablótin heima þá.
Fyrir aðeins nokkrum árum þýddi ekkert fyrir skemmtikrafta að fjalla um pólitíkina og nýjustu atburðina heima á þorrablótum erlendis, - langflest fólkið fylgdist ekkert með því.
Með tilkomu netsins er þetta gjörbreytt. Þegar ég gerði smá könnun á þorrablótinu í gærkvöldi með því að spyrja hvort þorrablótsgestir þekktu nokkur umtöluðustu nöfnin úr nýjustu fréttunum heima réttu nær allir upp höndina. Já, heimurinn verður sífellt minni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)