20.3.2008 | 15:28
YFIRLÝSING UM TÓNLISTARVANGETU?
Tónlist er listform. Dans er listform. Myndnotkun líkamans og hreyfinga hans getur verið listform. Listin þarf frelsi. Mercedes Club vill að sjálfsögðu komast á toppinn. Ef tónlistin nægir ekki til að koma þeim á toppinn og hreyfingar, myndbeiting og útfærsla tónlistarinnar fara út á eða út fyrir ystu nöf almennra viðhorfa um þau takmörk sem skynsamleg eru, er yfirlýsing um nektarmyndband í raun opinber viðurkenning Mercedes Club á því að tónlistarhæfileikarnir þurfi alvarlegrar hjálpar við til þess að skila þeim áfram.
Ég hvet Mercedes Club til að grípa ekki til örþrifaráða í framaviðleitni sinni heldur að þroska betur tónlistar- og tjáningarhæfileika innan skynsamlegra marka. Ég hef hins vegar ekkert við það að athuga að sveitin nýti sér líkamlega yfirburði yfir annað tónlistarfólk til að styðja góða tónlist sína.
Ég nefni sem dæmi Pál Óskar Hjálmtýsson sem alla tíð hefur staðið svo mjög framar öðrum tónlistarflytjendum í notkun líkamlegra hæfileika til túlkunar að aðrir flytjendur hafa oft verið eins og spýtudúkkur í samanburði við hann.
Páll Óskar er hins vegar svo góður tónlistarmaður og flytjandi að hann þarf ekki að grípa til örþrifaráða til þess að komast á þann stall sem nýleg tónlistarverlaun báru vitni um.
Það er alltaf hægt að sækjast eftir meira frelsi en að því kemur ævinlega í lokin að farið er yfir strikið.
Takið ykkur Pál Óskar til fyrirmyndar og dýpkið og fágið hæfileika ykkar eins og hann hefur gert við sína hæfileika. Þið eigið ekki að þurfa að gefa yfirlýsingar um nekt til þess að koma tónlist ykkar á framfæri því að það getur litið út eins og yfirlýsing ykkar um vangetu á tónlistarsviðinu. Ég hélt einmitt að þið væruð í svo góðu líkamlegu formi að þið þyrftuð síst allra á nekt að halda.
Sú þróun tónlistar að gera hana æ háðari kynferðislegri útfærslu á myndböndum hefur ekki orðið tónlistinni til góðs að mínu mati heldur afhjúpað stöðnun hennar og skort á hugmyndaauðgi, frumleika og sköpunargetu innan hennar sjálfrar.
Besta tónlistarfólkið þarf ekki á slíkum umbúðum að halda utan um list sína, umbúðum, sem svo margir virðast ekki geta verið án utan um innihaldslitlar og andlausar afurðir.
Raunar er sú staðreynd að æ fleiri þurfi á kynferðislegum umbúðum að halda, þessi kvöð er að svipta tónlistina frelsi og binda hana niður í ákveðið form, sem þrengir viðfangsefni hennar. Það er umhugsunarefni.
Þá getur ákallið um meira frelsi snúist upp í andhverfu sína.
![]() |
Vilja vera nakin í myndbandinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.3.2008 | 11:54
ALBERT GERÐI ÞETTA LÍKA !
Ronaldo er ekki eini knattspyrnumaðurinn í heiminum sem hefur notað þá sparktækni sem hefur gagnast honum svo vel í aukaspyrnum. Albert Guðmundsson sýndi í tveimur frábærum mörkum sínum í leik á Melavellinum fyrir rúmri hálfri öld að þessa tækni hafði hann á sínu valdi.
Í þessu leik lék Valur við frábært erlent gestalið og það var leikur kattarins að músinni sem gestirnir unnu og hefðu getað skorað fleiri mörk en þeir gerðu. En Albert Guðmundsson, sem þá var í fríi hér heima, sá fyrir því að gestirnir urðu að hafa fyrir sínu.
Ekki þýddi fyrir Albert að liggja frammi því að þá fékk hann aldrei boltann. Leikurinn fór að mestu fram á vallarhelmingi Valsmanna og þar var Albert við miðju vallarhelmingsins, plataði nokkra mótherja upp úr skónum í þau skipti sem hann fékk boltann og gaf síðan frábærar sendingar á samherja sem fengu alla vallargesti til að klappa af hrifningu. Þegar hann fékk boltann hópuðust mótherjarnir að honum eins og flugur að haug og engin leið var fyrir Albert að prjóna sig alla leið í gegn, oftast nær endilangan völlinn, hvað þá að finna smugu sem hægt væri að skjóta í gegnum.
Í örfá skipti komst hann þó fram fyrir miðju en sá að of margir voru á leið hans nær markinu, hún var lokið bæði fyrir einleik og skot. Albert hafði fram að þessu gefið boltann til baka í þessari stöðu en tekur nú upp á því alveg upp úr þurru að spyrna firnafast af 35-40 metra færi í átt að markinu en þessi þrumufleygur stefndi þó hátt yfir og framhjá markinu hægra megin. Markvörðurinn var rólegur og rölti af stað til að sækja boltann aftur fyrir.
En þá gerðist það sem ég hef aldrei, fyrr né síðar, séð í knattpyrnuleik. Rétt áður en boltinn var kominn að markinu, hægðist hratt á honum og hann skrúfaðist inn að markinu og "datt" efst ofan í markhornið. Það var mark!
Skömmu síðar gerðist svipað, hann lék snilldarlega á nokkra mótherja og af 35-40 metra færi skaut hann þrumfleyg sem var nákvæmlega eins og hinn fyrri, firnafast skot sem stefndi þráðbeint yfir og fram hjá markinu. Í þetta skiptið var markvörðurinn á varðbergi og skutlaði sér sem elding til þess að tryggja að Albert endurtæki ekki leikinn frá fyrra marki sínu.
En aftur gerðist það sama og fyrr. Þegar allir héldu að boltinn væri á fleygiferð yfir og framhjá markinu, hægði hann skyndilega á sér og skrúfaðist inn fyrir stöngina, efst í markhornið, gersamlega óverjandi fyrir markvörðinn þótt hann skutlaði sér sem óður væri í átt þangað. Albert hafði skorað tvö mörk á þann hátt sem aðeins snillingum er gefið.
Talsmenn gestanna sögðu eftir leikinn að Albert væri tvímælalaust í hópi ellefu bestu knattpsyrnumanna Evrópu og áttu ekki orð yfir því hvernig hann fór að því að skora þessi tvö mörk.
Skýringin liggur líklegast í því að vegna þess hvað skotið er firnafast stefnir það lengi vel yfir markið og jafnvel framhjá því um leið. En mikill snúningur sem er á boltanum og má nefna skásnúning, þ. e. boltinn snýst bæði í láréttu og lóðréttu plani - þessi snúingur fer að virka betur þegar loftmótstaðan hægir á skotinu og þá skrúfast boltinn niður á við og "dettur" undir slána og inn fyrir stöngina.
Ég gæti sagt fleiri sögur af snilli Alberts, allt fram um sjötugsaldur þegar hann var kominn vel á annað hundrað kílóa þyngd en læt þetta nægja.
P.S. Nú hef ég séð í fyrsta sinn aukaspyrnu Ronaldos og sé ekki betur en að spyrnur Alberts hafi verið enn flottari, miklu fastari og af miklu lengra færi !
![]() |
Botna ekkert í aukaspyrnum Ronaldos |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.3.2008 | 09:39
DÆMIGERT FYRIR ÍSLENDINGA.
Hugsanlegt afnám UNESCO-gæðastimpilsins af Þingvöllum er dæmigert fyrir vítavert skeytingarleysi Íslendinga um mestu verðmæti landins. Fyrir meira en áratug komst til umræðu að nokkrir staðir á Íslandi gætu komist á heimsminjaskrá UNESCO og héldu Íslendingar að Þingvellir og Mývatn ættu þar góða möguleika. Erlendis vakti hugmyndin um Mývatn aðhlátur vegna tilvistar Kísiliðjunnar og kísilnáms í þessu einstæða vatni.
Nú er að koma í ljós óafturkræf og áframhaldandi eyðilegging á stórum hluta lífríkis vatnsins af völdum verksmiðju sem starfaði aðeins í 40 ár með eins ósjálfbæra og skaðlega starfsemi gagnvart einstæðum verðmætum vatnsins og hugsast gat.
Þáverandi sveitarstjóri hafði engan skilning á gildi þess gæðastimpils og þeim tekjumöguleikum sem UNESCO-viðurkenningin hafði þótt ég sýndi honum hvernig UNESCO-stimpill bryggjuhúsanna í Björgvin var nýttur á norskum ferðamannabæklingi til að laða ferðafólk þangað með því að hafa bryggjuhúsin á forsíðu helsta kynningarbæklings um landið.
Þótt Kísiliðjan sé farin munu Mývetningar fjarlægjast UNESCO-viðurkenninguna enn frekar á næstu árum með þeim hrikalegu umhverfsspjöllum sem í ráði eru með skefjalausum virkjunum fyrir austan og norðaustan vatnið.
Ég hef í blaðagreinum lýst því hvernig er í lófa lagið að stytta hraðleið milli uppsveita Árnessýslu og Reykjavíkur fyrir sunnan Þingvallavatn. Á það er ekki hlustað heldur talað um nauðsynlega hraðleið skólabarna um Lyngdalsheiði. Börnunum hefur farið fækkandi og mun nú hægt að telja þau á fingrum annarrar handar. Með lítilsháttar lagfæringum á núverandi Gjábakkavegi og notkun öflugs jeppa í nokkra daga á vetri er auðvelt að leysa þetta mál.
Líka má spyrja hvort skólaumdæmaskipting landsins sé svo heilög að ekki megi láta þessi börn læra í skóla í Mosfellsbæ í aðeins 20 mínútna aksturfjarlægð.
Fastheldni slendinga í úrelt nýtingarsjónarmið og skaðleg skammtímagræðgi er með ólíkindum. Náttúruverndarnýting er okkur fjarlæg hugsun en aðeins hugsað um "skástu leikina í stöðunni" hverju sinni varðandi stanslausar virkjana- stóriðjuframkvæmdir sem byggjast nú að mestum hluta á jafn ósjálfbærri nýtingu og hjá Kísiliðjunni á sinni tíð.
![]() |
Þingvellir af heimsminjaskrá? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
19.3.2008 | 17:05
ANAÐ ENN LENGRA FRAM ÚR SÉR !
Íslendingar fara æ lengra fram úr sér í glórulausri ásókn eftir að selja orku, þótt við blasi að langt sé frá því að hægt verði að standa við öll loforðin og viljayfirlýsingarnar um orkusölu sem bætast við nær daglega. Með nýjasta útspilinu um 135 megavött til REC í Þorlákshöfn nægir Bitruvirkjun meira að segja ekki til að útvega alla orkuna sem búið er að veifa framan í Helguvík og fleiri aðila.
Stefnt er að því markvisst og ákveðið að ekkert færi verði gefið á að halda þessum litla en umhverfislega mikilvæga hluta svæðisins ósnortnum.
Viðskiptaráðherra hefur lýst því hvað það sé gaman að vera í ráðuneyti þar sem er biðröð af kaupendum eftir orkunni og virðist ekki gera sér grein fyrir þeim vandræðum á alla lund sem það mun hafa í för með sér að ætla að þjóna þeim öllum, hvað þá því að standa við kosningaloforðin um allsherjar úttekt á íslenskum náttúrverðmætum áður en anað verður áfram.
Þau loforð eru í beinni mótsögn við útsöluæðið nú. Það er eins og sumir haldi að íslensk náttúruverðmæti hefjist ekki fyrr en höfuðborgarsvæðið er úr augsýn, en í raun liggur einstætt efni í eldfjallaþjóðgarð við fætur hins erlenda gests þegar hann stígur út úr Leifsstöð. Þar, fyrir norðaustan Mývatn og við Þjórsá er nú aðalátakasvæði jarðýtuhers virkjanasinna.
Innan fárra ára er ætlun þeirra að hinn erlendi gestur standi við Leifsstöð og horfi á annan endann á samfelldri 250 kílómetra röð stóriðjuvera, háspennulína, virkjana, stöðvarhúsa, stíflna og miklunarlóna sem endar ekki fyrr en upp á miðju miðhálendinu.
Ég vísa til fínnar úttektar í bloggi Dofra Hermannssonar um þetta orkuöflunarmál á Reykjanesskaga, sem sýnir vel þetta óðagot en vil bæta því við að ofan á allt þetta á að halda áfram að kreista tvöfalt meiri orku út úr þessum svæðum en þau afkasta til langframa.
"Endurnýjanlega orkan" endist ekki nema í 40 ár og við ætlum að kasta því yfir á herðar afkomendanna að ráða fram úr því. 40 ár er mjög stuttur tími. Það eru ekki nema 40 ár síðan virkjað var fyrst við Búrfell og eitthvað myndi hvína í tálknum okkar nú væri sú orka á fðörum og við þyrftum að finna jafnmikla orku annars staðar.
Sem fyrr er steinþagað yfir þessari staðreynd og væntanlega verður logið í Al Gore eins og alla aðra goðsögninni um endurnýjanlegu orkuna sem algilt og undantekningarlaust lögmál á Íslandi.
![]() |
REC Group til Ölfuss |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.3.2008 | 13:58
FLÓKIÐ OG ÞARF SKOÐUNAR.
Tvennum sögum fer af því hvort mismunur á kostnaði við loftraflínur og jarðlínur fari vaxandi eða minnkandi. Ef til vill skiptir leið jarðlína mestu máli vegna þess að óafturkræf umhverfisáhrif þeirra eru mun meiri en virðist í fljótu bragði.
Við framkvæmdir á ævinlega að gera skýran greinarmun á afturkræfum áhrifum og óafturkræfum og skoða möguleikann á því að hægt sé síðar að breyta öllu til baka í upprunalegt horf.
Það er hægt að orða það svo að sé loftlína lögð yfir úfið, ósnortið hraun, séu sjónræn áhrif mikil á meðan línan er ofanjarðar, en óafturkræf áhrif af loftlínu geta verið mun minni en af jarðlínu á sama stað, vegna þess að til þess að leggja línu í jörðu verður að umbylta hrauninu fyrst áður en mokað er yfir, og hið raskaða yfirborð hraunsins fæst aldrei til baka.
Óafturkræf áhrif af loftlínu felast aðeins undirstöðum mastranna, sem hugsanlega er hægt að flytja burt síðar. Með klaufagangi er að vísu hægt að valda miklu óþarfa raski en það er líka hægt við lagningu jarðlína.
Jarðlína er ekkert galdraorð sem leysir allan vanda.
Ef á annað borð eru lagðar jarðlínur ætti að keppa að því að leggja þær samhliða vegum til þess að skera ekki ósnortin svæði í sundur. Það getur kostað lengri línuleið og enn meiri mismun á kostnaði og þar stendur hnífurinn líklega í kúnni þegar á hólminn er komið.
Ekki virðist enn hafa verið mikil tilhneiging hér á landi gagnvart því að leggja línur framhjá viðkvæmu landi. Þannig var því hafnað fyrir tíu árum að leggja háspennulínu annars staðar en alveg við Ölkelduháls og mér skilst að beiðni um að leggja línu frá Þeystareykjum aðeins 1300 hundruð metrum lengri leið en virkjanaaðilar vildu til að þyrma merkilegu hrauni og gjám hafi verið hafnað af kostnaðarástæðum.
Og vel á minnst, Þeystareykir. Látið var í veðri vaka í upphafi að bortækni yrði þannig beitt á því svæði að ekki yrði borað alveg í miðju jarðhitasvæðisins þar sem það er fallegast. Náttúruverndarmenn dreymdi um skáborun en allir sem koma á svæðið sjá hvar aðalborholusvæðið er.
Þar, eins og við Sogin við suðurenda Trölladyngju, má sjá gróf dæmi um tillitsleysi virkjana- og rannsóknaraðila gagnvart náttúruverðmætum.
![]() |
Stjórnarformaður OR vill línur meira ofan í jörðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.3.2008 | 23:50
FRÁ HJARTANU MEÐ HUGREKKI.
Páll Óskar, Björk og Rúnar Júlíusson eiga það sameiginlegt að hafa aldrei verið að túlka eitthvað annað en þau hafa trúað á og komið hefur frá hjartanu, hvort sem það var "in" eða ekki. Þau hafa alltaf þorað að vera 100% þau sjálf, synda á móti straumnum ef svo bar undir og leggja alla sálu sína að veði.
Stundum gengur það vel, stundum ekki, - stundum lifa listamenn það ekki að vera metnir að verðleikum. "Ars longa, vita brevis", listin er löng en lífið er stutt og listamaður sem hefur það í huga, honum líður ætíð vel þótt móti blási.
Hvað eftir annað hafa þau Páll Óskar sýnt fádæma kjark, bæði í listinni og lífi sínu. Á okkar tímum er það mikilvægasta fólkið sem við eigum. Til hamingju!
![]() |
Páll Óskar og Björk söngvarar ársins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.3.2008 | 20:54
VOPN Í HÖNDUM BARNS, AUKAATRIÐI?
Rennihurðin þunga sem einhverf telpa renndi á kennara í augnabliksæsingi var með brún sem var aðeins 4mm á þykkt, næstum eins og fallöxi eins og hver maður sér, sem mælir þykkt hurða á heimili sínu. Í málinu kom fram að strax hefði verið skipt um hurð en samt hefði hún staðist kröfur! Sökin var öll færð á barnið, vegna þess að talið var það hefði vitað mun á réttu og röngu. Ég spyr: Gat barn í augnabliksæsingi gert sér grein fyrir því hve þunn brúnin var á þessari þungu hurð? Gat það vitað að það væri að handleika stórhættulegt vopn?
Ég fullyrði að í bandarísku dómsmáli hefði þetta verið gert að aðalatriði málsins og sök felld að öllu leyti eða stærstum hluta á þá sem báru ábyrgð á svona umbúnaði. Afleiðingar þess dóms hefðu orðið að kröfum um að svona hurðum hefði verið breytt.
Þetta segi ég eftir að hafa árum saman fylgst með greinum í bandarískum tímaritum um lögsóknir á hendur flugvélaframleiðendum og að hafa sjálfur farið í yfirheyrslu fyrir bandarískum dómstóli út af ökumannshjálmi, sem brotnaði við árekstur.
Að vísu fóru bandarískir dómstólar og lögfræðingar á tímabili offari í svona málum en ennþá mega framleiðendur og hönnuðir búnaðar, svo og þeir sem bera ábyrgð á lögum og reglugerðum um búnað, búast við því að vera dæmdir til skaðabóta, jafnvel þótt búnaðurinn hafi staðist ströngustu kröfur síns tíma.
Afleiðingin verður oft sú að kröfunrnar eru hertar. Í yfirheyrslunni yfir mér varðandi hjálminn sem Hafsteinn heitinn Hauksson bar þegar hann beið bana í árekstri við tré kom fram að hann keypti sér fyrir slysið besta og öruggasta hjálm sem völ var á.
Einnig var mikið lagt upp úr því að sanna, að á þeim hraða sem bíll Hafsteins var, hefði hjálmurinn átt að standast það högg, sem hann varð fyrir, en ekki að brotna eins og raunin varð. Að lokum það að áreksturinn hefði ekki orðið vegna fráleits ofsaaksturs og slysið eingöngu orðið svona alvarlegg vegna þess að hann lenti á eina trénu á löngum kafla. Einnig að tíu sentimetrar til eða frá í árekstrinum hefðu breytt öllu.
Sem sagt: Hjálmurinn var aðalatriðið í þessu máli.
Mikið var lagt upp úr framangreindum atriðum í bandaríska málatilbúnaðinum til að koma í veg fyrir að Hafsteinn yrði sakaður um að hafa ekki keypt og notað hið besta fáanlega. Þessi aðferð sækjandans á hendur hjálmaframleiðandanum beindist greinilega að því að það væri rangt að gefa keppanda falskt öryggi með því að framleiða vöru, þar sem ekki voru gerðar nóg strangar styrkleikakröfur.
Ég veit ekki hvernig þessu máli lyktaði nákvæmlega, hvort það var með sátt eða dómi, en mér skilst að árangur hafi náðst fyrir ekkju Hafsteins. Hitt veit ég af þessu máli og fleirum að dómskerfið vestra telur það réttlætismál að skoða vel hvern þann búnað eða tæki sem á þátt í slysum og að framleiðendur og löggjafinn uppfylli sanngjarnar kröfur um endurbætur.
Gaman væri að vita hvort hættuleg vopn á borð við þungar rennihurðir með örmjórri egg séu enn löglegar hér á landi. Ef svo er, er það tilviljanakennt hvaða eigendur og umráðamenn slíkra hurða hafa þær hættulausari en hurðin var í Mýrarhúsaskóla.
Í bandarísku réttarfari væri slikt ekkert vafaatriði. Dómstóllinn hefði lagt línuna í dómnum í stað þess að einblína á það eitt hvort blessað barnið vissi mun á réttu og röngu, burtséð frá því hvort það gat gert sér grein fyrir raunverulegum aðstæðum.
Bendi síðan á bloggsíðu Ólínu Þorvaðardóttur með umræðum um fleiri hliðar þessa máls.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.3.2008 | 23:11
HINN "HUGLÆGI STYRKUR" KRÓNUNNAR.
Flestir þekkja viðbrögð hundsins sem á von á kjötbita: Hann iðar allur, fyllist óróa, spennist upp og slefar jafnvel í langan tíma áður en kjötbitinn kemst til hans. Í fjölmiðlum í dag var birt álit tveggja sérfræðinga sem lýstu svipaðri hegðun þjóðarinnar allt frá 2002 þegar ráðamenn notuðu 40 ára gamalt bragð til að fá fram hliðstæð viðbrigði hjá landsmönnum með því að veifa framan í þá ígildi kjötbitans, - álveri. Afleiðingin líktist fylleríi og í kjölfarið fylgdi hátt gengi krónunar, sem byggðist eingöngu á huglægu mati á gildi hennar en engann veginn á aukinni verðmætasköpun.
Rannsókn sérfræðings Seðlabankans á sínum tíma á því hvernig þenslan gat staðið frá 2002-2003 án þess að framkvæmdir væru hafnar leiddi í ljós að 80 prósent þenslunnar fólst í auknum yfirdráttarheimildum greiðslukorta landsmanna, - þeir eyddu og spenntu, fluttu inn ameríska pallbíla og steyptu sér í stórskuldir til að kaupa allt frá flatskjám upp í íbúðarhús.
Ráðamenn juku á neyslufylleríið með því að stórhækka lán til húsnæðiskaupa sem aftur leiddi til húsnæðislánasprengju vegna fyrirsjáanlegrar samkeppni bankanna. Fjórum árum siðar var útlánaaukningin meira en brennd upp á báli hækkaðs húsnæðisverð og ofurvaxta undir stjórn Seðlabankans, sem með þeim reyndi að hafa hemil á verðbólgu sem fór samt langt fram úr viðmiðunarmörkum.
Ofurvextirnir löðuðu síðan að sér fjárfesta sem bröskuðu með krónur og krónubréf og nýttu sér vaxtamun Íslands og annarra landa. Afleiðingin varð fáránlega hátt gengi krónunnar sem eins og áður sagði byggðist eingöngu á tilfærslu með gjaldeyri og huglægu mat á krónunni en að engu leyti á aukinni verðmætasköpun.
Eins og oftast gerir fíkillinn sér enga grein fyrir ástandi sínu, - aðalatriðið í hans huga er að viðhalda vitneskjunni um komandi álverskjötbita til þess að geta haldið áfram að slefa og iða.
Þess vegna eru nú keyptar fleiri utanlandsferðir og fluttir inn dýrari og fleiri bílar en nokkru sinni fyrr á sama tíma og bensínverð rýkur upp í áður óheyrðar hæðir !
OECD og aðrir raunsæir aðilar sjá hins vegar ástandið í ofneyslunni og fylleríinu en ráðleggingum þeirra um að hætta drykkjunni er vísað á bug og í staðinn veifað enn nýju álveri til að fá þjóðina til að halda eyðslufylleríinu áfram.
Álver skortir aðeins 20% upp á að vera 100% ígildi þess að pissa í skóinn, - aðeins 20% fjárfestingarinnar verður eftir sem virðisauki. Til samanburðar má geta þess að meira en þrefalt hærri virðisauki fæst við fjárfestingu í sjávarútvegi og ferðaþjónustu.
Störf í álveri eru dýrustu störf sem hægt er að skapa og atvinnuávinningurinn ekki meiri en svo að eftir að eyða allri orku landsins og stúta nær allri náttúru þess fyrir álver er afraksturinn aðeins um 2% af vinnuafli landsmanna.
En víman má ekki víkja, væntingarslefan má ekki slitna og hinir óhjákvæmilegu timburmenn munu því á endanum verða enn hrikalegri en ella.
![]() |
Krónan lækkaði um 6,97% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
17.3.2008 | 21:53
HINN HUGLÆGI STYRKUR KRÓNUNNAR.
(Þessi pistill er að miklu leyti samhljóða pistli sem ég skrifað beint á eftir honum vegna mistaka minna við uppsetningu. Læt hann samt standa en vísa í þann nýrri, enda þegar komin ein athugasemd.)
Öll þekkjum við viðbrögð hundsins sem væntir þess að góður kjörbiti sé á leiðinni til hans: hann fyllist miklum óróa, iðar, slefar og spennist allur upp, jafnvel í langan tíma áður en bitinn berst til hans. Í 40 ár hafa stjórnmálamenn kennt þjóðinni svipaða hegðun með því að nefna eitt orð: Álver.
Góð var greining tveggja sérfræðinga í fjölmiðlum í dag á styrkri stöðu krónunnar undanfarin þensluár. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að hún byggðist eingöngu á huglægu mati á henni en að engu leyti á aukinni verðmætasköpun. Upphaf þenslunnar og slefunnar var gott dæmi: 2002 var veifað framan í þjóðina væntanlegum stóriðjuframkvæmdum og viti menn: Í næstum heilt ár slefaði þjóðin og iðaði í spennu eins og hundur í þenslu, þótt framkvæmdir væru ekki hafnar.
Ágætur sérfræðingur við Seðlabankann rannsakaði málið og fann út að 80 prósent af þenslunni mátti finna í auknum yfirdrætti á greiðslukortum. Stórum amerískum pallbílum var mokað inn í landið, fólk flykktist til að kaupa allt frá sjónvarpstækjum upp í hús og viðskiptahallinn og skuldasöfnun við útlönd ruku upp úr öll valdi.
Stjórnvöld gerðu sitt með því að efna til fyllerís á húsnæðismarkaðnum í kjölfar kosningaloforða sem varð til þess eins að fjórum árum síðar var lánaaukningin meira en brunnin upp í stórhækkuðu fasteignaverði og greiðslubyrði.
Með látlausri skuldasöfnun, eyðslu, stóriðjuframkvæmdum og þenslu sem kallað hefur á ofurvexti, stýrðum af Seðlabankanum, hefur tekist að halda hinni huglægu stöðu krónunnar í fáránlegri hæð, bröskururm með krónubréf til mikillar gleði en útflutningsatvinnuvegum, sem skapa raunveruleg verðmæti, til mikils tjóns.
Þegar nú loks hið óhjákvæmilega blasir við, að fylleríið hljóti að taka enda, virðast þeir sem ferðinni ráða ekki sjá neitt annað eina ferðina enn en að veifa álveri framan hinn íslenska þjóðarhund, sem fer að slefa, iða og hleypur í óróa og spennu eina ferðina enn til að kaupir bíla, utanferðir og hvaðeina sem aldrei fyrr, setur jafnvel innflutningsmet í bílum á sama tíma sem bensínverðið rýkur upp í áður óheyrðar hæðir!
Eins og fyrri daginn sér fíkillinn ekki sjálfur ástand sitt. Það sjá aðeins utanaðkomandi eins og OECD og nokkrir raunsæir menn hér innanlands en ráðleggingar þessara aðila um að stöðva fylleríið eru látnar sem vindur um eyrun þjóta. Vímunni má ekki linna, spennan lifi!
Þegar horft er til baka þýðir lítið að segja að mest öll þenslan hafi komið frá fjármálafyrirtækjum. Upphafið er jafn skýrt og hjá hundinum sem látinn er vita af kjötbitanum sem er í vændum, enda virðist eina ráðið við timburmönnunum vera að veifa álverskjötbitanum framan í hinn íslenska þjóðarhund.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.3.2008 | 21:09
NÝ ÍÞRÓTT, - HRAÐALEIKUR (FARTLEK) ?
Á deildinni á Borgarspítalanum þar sem ég er nú, liggja í næstu rúmum menn, sem hafa fengið brjósklos. Annar þeirra, Vilhjálmur Guðjónsson, tónlistarmaður, var að skemmta með mér sárkvalinn í Florida 8. mars og átti þá kvalafulla og svefnvana viku fyrir höndum. Hemmi Gunn var líka á skemmtuninni en við Villi, Hemmi, Haukur Heiðar og Pétur heitinn Kristjánsson mynduðum kvartettinn Fjörkálfana sem fór um landið 1994.
Hér á spítalanum höfum við Vilhjálmur talað um hálfkæringi að snúa bökum saman í baráttu okkar við ýmsan krankleika í þessum hluta líkama okkar. Sjálfur er ég með svonefnt samfall í neðstu hryggjarliðum, þ. e. brjóskið hefur barist saman í óhollum hlaupum á steinsteypu og malbiki og taugarnar sem liggja út í ganglimina eru því klemmdar.
Var ekki beinlínis heppilegt fyrir mig að fá mikla ígerð í bakið og þurfa að brjóta allar reglur um meðferð hryggjarliðanna með því að þurfa að sitja upp á ská á næturnar.
Raunar eru kvillarnir mínir brandari, því sá þriðji, bakflæði, kemur alveg í veg fyrir að ég geti legið láréttur, hvorki á maganum né bakinu.
Ég spilaði innanhússfótbolta í nokkur ár á steinsteypugólfi og hljóp áratugum saman á malbiki og harðri möl. Flest bök þola þetta en ekki öll. Vili var skorinn í gær og er allur annar maður.
Önnur "hlauparaveiki" er minna þekkt en það er tábergssig og stafar af sömu misnotkun beinanna. Við of mikil hlaup á hörðu undirlagi aflagast beinin frá hæl fram í tá smám saman og síga niður í gegnum ilina og þófana. Þetta gerist kannski ekki nema hjá minnihluta hlauparanna, en hjá miklu fleirum en ef hlaupið væri af meiri tillitssemi við það, fyrir hvað líkami okkar var skapaður.
Fyrstu einkennin eru bólga og eymsli í svipuðum dúr og maður fær eftir að lítil flís eða glerbrot hefur komist óvart inn í ilina. Maður leitar að flísinni eða glerbrotinu eins og vitlaus maður og finnur ekki neitt og tiplar um eins og norn á glóðum. Eftir nokkur ár í mislukkuðum eltingarleik og aðgerðum á borð við þykkari innlegg o. s. frv. kom síðan skýringin loks hjá sérfræðingi og lausnin var einföld: Mæling á fótunum og sérsmíðuð innlegg hjá Össuri.
Niðurstaða: Það er manninum hollast að haga sér og gera það sem hann er skapaður til. Og til hvers var hann skapaður? Jú, eftir úrval kynslóðanna sem komist hafa af í hundruð þúsunda ára erum við nokkurs konar niðurstaða, sem lá ljós fyrir á síðustu öld en taka mundi þúsundir ára að breyta í samræmi við breyttar lífsvenjur.
Hryggurinn í okkur var frábærlega hannaður fyrir ferfætt spendýr og náttúruúrvalinu hefur ekki unnist tími til að breyta því í neinum grundvallaratriðum. Eina leiðin við fæðingu, ef menn vilja nýta sér byggingu hryggjarins rétt, væri að fara niður í á fjóra fætur og vera í þeirri stellingu mest alla ævina. Ég mæli ekki með því.
Það er útséð um að jafnvel útsjónarsamasta tækni geti breytt því að við séum upprétt. En við eigum möguleika á að minnka líkurnar á því að bakið bili á margvíslegan hátt, sem ég hef reynt að nota síðustu árin af brýnni nauðsyn, en því miður allt of seint.
Fætur forfeðra okkar og iljar voru skapaðar til að ganga, skokka og hlaupa á misjöfnu undirlagi. Ekki að hlaupa marga kílómetra eða tugi kílómetra á degi hverjum á malbiki. Sem betur fer sleppa flestir langhlauparar við að vera refsað fyrir að fara svona með bak og fætur en fleiri myndu sleppa við kvillana sem ég hef hér talað um, ef hlaupa- og trimmvenjunum yrði breytt.
Á árunum í kringum 1940 var sænski millivegalengdarhlauparinn Gunder Hagg hinn besti í heimi. Þjálfunaraðferð hans byggðist á hlaupum um fjölbreytt landsins, mishröðum og mislöngum sprettum upp og niður brekkur á misjöfnu undirlagi. Aðferðina kallaði hann "Fartlek", hraðaleik.
Ég mæli með stofnuð verði samtök Hraðaleikshlaupara. Þeir æfðu sig undir eftirliti hver annars á þann hátt að forðast bak- og beinakvillana og héldu síðan mót á brautum sem væru lagðar í samræmi við það. Heimsmetstímar myndu ekki skipta máli, - er hvort eð er búið að skekkja og skæla svo margt í þeim efnum með tæknibrellum og lyfjum.
Þessi "Hraðaleikur" yrði ekki víðavangshlaup á malbiki, enda finnst mér vera mótsögn í því að kalla hlaup á hörðum og sléttum gangstéttum og akbrautum "víðavangs" hlaup.
Að lokum mataræðið. Ef við horfum upp í okkur sjáum við tennur, sem eru gerðar fyrir blöndu af grænmeti og kjöti.
Við vitum að enginn drakk gerilsneydda mjólk fyrir 1940.
Ef við lítum til þess hvar okkur líður best, er það í blönduðu umhverfi og betra að sem mest af því sé úti í náttúrunni.
Mér leið aldrei betur og var aldrei heilsuhraustari en við frumstæðar aðstæður í sveit, mykju, mýrar, drullu og spenvolga nýmjólk. Ég fór í bað tvisvar á sumri og svitnaði, blotnaði og þornaði á víxl.
Auðvitað þvoðum við okkur um hendurnar við rétt tækifæri o. s. frv. en ónæmiskerfið fékk nóg að gera allt sumarið, efldist og styrktist.
Nú stefnir fram í öld þar sem ofverndaðir afkomendur okkar fást við vaxandi sjúkdóma af völdum veiklaðs ónæmiskerfis.
Okkur líður að öðru jöfnu best ef við getum í nútíma umhverfi líkt sem best eftir þeim aðstæðum sem hinir hæfustu voru í meðal kynslóðanna á undan okkur og hegðað okkur sem líkast því.
Ég er ekki að tala um neitt meinlætalíf, það má auðvitað ýmislegt fljóta með sem kynslóðir fortíðarinnar þekktu ekki.
En niðurstaðan er líklega falin í gamla íslenska máltækinu: "Á misjöfnu þrífast börnin best."
Bendi að gamni mínu á skemmtilega umræðu á bloggsíðu Ólínar Þorvarðardóttur. Stundum fáum við Ólína svipaðar hugmyndar á svipuðum tíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)