Færsluflokkur: Bloggar

Álverið "sökudólgurinn", alveg eins og á Bakka.

Enn hanga menn á álverinu í Helguvík í stað þess að læra af því sem gerðist varðandi álverið á Bakka. 

Reynt er að leita að "sökudólgi" eins og þegar sagt er að Svandís Svavarsdóttir sé hann, af því að virkjanir í Neðri-Þjórsá fóru í bið.

Og "sökin" er sú en að hafa tafið þetta fráleita álver, sem þarf alls 625 megavött þannig að virkjanir í Neðri-Þjórsá útvega ekki nema helming þeirrar orku.  

Reynt er að fela þessa staðreynd með því að tala um mun minna álver, sem Neðri-Þjórsá dugar samt ekki fyrir.

En fyrir liggja yfirlýsingar talsmanna bæði Alcoa og Norðuráls varðandi það að lágmarksstærð verði að vera 360 - 460 þúsund tonn ef þessi álver eigi að gefa nóga aðrsemi.

Og samt var það lokapunktur á meira en fjögurra klukkustunda afmælisráðstefnu ORÍS um daginn að við seldum orkuna langt undir kostnaðarverði.

Bæði orkumálastjóri og forstjóri Landsvirkjunar hafa lýst því yfir undanfarin ár að álverastefnan sé kolröng og um leið og Bakka var sleppt úr gíslingu fóru hjólin að snúast þar.

Af hverju vilja menn ekki læra af því?  


mbl.is Allt gert í sátt við náttúru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig væri að hafa gluggana stærri?

Það er til marks um þær ógöngur sem grimm bílatíska er komin í að bílaframleiðandi þurfi að láta hanna sérstakan aðvörunarbúnað til að vinna upp á móti því að í flestum nútíma bílum hafa gluggarnir verið smækkaðir svo mikið og stólparnir á milli þeirra stækkaðir, að útsýnið er orðið jafnvel enn verra en það var á árunum 1935-1950 þegar svipuð bílatíska tröllreið útliti bíla.

Upp úr 1950 stækkuðu gluggarnir og framleiðendur auglýstu útýni í prósentum, til dæmis 95 prósent . 

Nú hlýtur að vera komið að því að gluggarnir geti ekki orðið minni og sérstaklega er bagalegt hvað það þykir  töff að hafa gluggalínuna háa og lítið útsýni nður til hliðanna á bílnum.

Hvernig væri að hafa gluggana stærri? 


mbl.is Mazda sér við blindpunktinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er ekkert fyndið.

Því miður er það svo að sumum finnst sumt fyndið sem er hvorki frumlegt né fyndið, heldur er þvert á móti dæmi um mikla hugmyndafátækt. 

Dæmi um það er þegar menn fá eitthvað sérstakt út úr því að fæla hesta eins og nú hefur gerst í tvígang.

Ég hef aldrei haft leyninúmer á símunum mínum og í gegnum tíðina hefur það stundum kostað vökunætur, þegar menn, sem finnst það alveg sérstaklega fyndið og frumlegt, hafa hringt í mig að næturlagi aftur og aftur til að tryggja að þetta fyndna og frumlega uppátæki eða hitt þó heldur virki fullkomlega.

Þegar afleiðingarnar eru svipaðaðar þeim og urðu við Kjóavelli í gær er það hins vegar eins langt frá því að vera fyndið og hugsast getur.  


mbl.is Brunuðu með öskrum hjá hestunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérkennilegt aðalatriði fréttar.

Fjórhjól geta verið það þung að fólk, sem veltir þeim og verður undir þeim getur slasast alvarlega. Slys á Skagaströnd er enn eitt dæmi um þetta og ástæða til að óska stúlku, sem varð fyrir því góðs bata eftir það.

Slysið var að því leyti öðruvísi en flest bílslys að stúlkan setti fótinn í jörðina þegar hún ók fjórhjólinu og hann festist í afturhjólinu. 

En það er sérkennilegt að gera eignarhald hjólsins að aðalatriði fréttarinar um þetta, þ. e.  að stúlkan hafi sjálf átt fjórhjólið, því að oftast eiga knapar hjóla þau sjálfir.

Mun sjaldgæfara er að fólk verði undir eða velti hjólum annarra.  

Fyrirsögnin og aðalatriði frásagna af slysum þætti til dæmis sérkennilegt ef sagt væri "féll af eigin hesti", eða "velti eigin bíl."

Ein af algengum afleiðingum þess að nota ekki bílbelti er sú, að ökumenn kastast út úr bílunum og verða undir þeim og stórslasast við það eða hljóta jafnvel bana.

Slíkar fréttir eru hörmulegar og nógu stórar og alvarlegar, að það er ekki aðalatriði þeirra hver á bílinn. Skrýtið fyndist mér að sjá slíka frétt þar sem aðalatriðið væri þetta: "Varð undir sínum eigin bíl."


mbl.is Varð undir sínu eigin fjórhjóli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða tónlist fellur undir hugtakið "þjóðmenning" og hver ekki?

Menn lenda alltaf í vandræðum þegar á að fara að draga menningarstrauma í dilka og segja að sumir þeirra séu "þjóðmenning" og aðrir ekki.

Þegar ný myndlistarstefna fór sigurför um heiminn rétt fyrir stríð datt Jónas frá Hriflu í þann pytt að draga línur á milli listaverka undir áhrifa frá þessum straumum og eldri listaverka í nátúralistiskum stíl.

Notaði meira að segja opinbera fjármuni til þess að berjast gegn þeim.  

Þetta var háll ís. Í Þýskalandi var svipað í gangi en offorsið þó vitaskuld margfalt meira.

Þegar sagt er að tónlist íslenskra tónskálda hafi fallið undir lýsinguna "frumleg, íslensk "þjóðmenning" allt fram undir miðja síðustu öld, er það að mínu mati mikill misskilningur.

Íslensk tónskáld á þessum tíma voru undir miklum áhrifum, sem komu hingað að mestu frá Evrópu og oft frá Þýskalandi í gegnum Danmörku.

Ég tek stundum tóndæmi. Syng fyrstu átta takta þýska þjóðsöngsins en skipti síðan beint yfir í síðustu átta takta verðlaunalagsins "Yfir voru ættarlandi" og í ljós kemur að þetta er næstum því sama lagið, því að margir heyra jafnvel ekki þegar skipt er á milli laga !  

Og Íslendingar sungu lagið til dýrðar baráttu fyrir frelsi og lýðræði þegar lýðveldið var stofnað 1944 á sama tíma og herlið á Íslandi barðist við Þjóðverja!

Enginn neitar því að tónskáld blús-jass-kántrí- og rokkkynslóðarinnar eins og Magnús Eiríksson, Gunnar Þórðarson og fleiri hafi verið undir miklum áhrifum frá bandarískri afró-amerískri tónlist.

Mér dettur samt ekki augnablik í hug að halda öðru fram en að þessi tónlist falli undir íslenska þjóðmenningu þótt aðrir geri það ekki, og að margir hafi hneykslast ógurlega þegar tónlist af þessum toga var fyrst spiluð á Íslandi.  


mbl.is „Líka til kleinur í Póllandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig myndi Sigríður í Brattholti bregðast við nú ?

Í landi, þar sem þegar er búið að reisa um þrjátíu stórar virkjanir og á teikniborðinu eru um 100 virkjanakostir, getur stundum verið erfitt fyrir marga að átta sig á því hvernig rétt sé að bregðast við hverri og einni.

Þá getur verið gott að hugsa til Sigríðar í Brattholti og íhuga, hvernig hún myndi bregðast við í hverju og einu tilfelli, væri hún uppi á okkar tíma, tæpum 100 síðar en hún var.

Virkjun Gullfoss upp úr 1920 hefði orðið hlutfallslega miklu stærra risastökk inn í stóriðnað og iðnvætt þjóðfélag en allar núverandi virkjanir til samans.

1920 bjó ríflega helmingur fólks í sveitum landsins í torfhúsum og helmingur landsmanna var enn án rafmagns.

Landið var í raun vegalaust. Því má því nærri geta hvað Gullfossvirkjun hefði haft mikil áhrif. Sigríður í Brattholti gat ekki bent á "eitthvað annað" í stað Gullfossvirkjunar. Hún gat ekki séð það fyrir að öld síðar skilaði ferðaþjónustan meiru í þjóðarbúið en nokkur annar atvinnuvegur.

Ef Gullfoss og Geysissvæðið væru virkjuð væri það nú kallað "orkunýting" og afraksturinn birtur í milljörðum króna. Bent væri á að Gullfossvirkjun hefði á sínum tíma verið forsenda þess að fá gott aðgengi að þessu svæði.

Um núverandi ástand á Gullfoss-Geysis-svæðinu er notað orðið "vernd" og orðin "orkunýting" og "vernd" eru viljandi gildishlaðin, hvort í sína áttina, af því að aðeins annar kosturinn, orkuvinnsla, er skilgreindur sem nýting sem gefi af sér fjárhagslegan ávinningi, en á móti er látið eins og fjárhagslegt gildi svæðisins ef það er verndað sé núll krónur úr því að það telst ekki "nýting".  

Þannig var útreikningurinn varðandi Kárahnjúkavirkjun og er enn gagnvart virkjanakostum.

Ekki er jafnræði með mismunandi kostum nema gildi orðanna, sem notuð eru, sé hið sama í báðum tilfellum.

Þessi heiti á gagnstæðum kostum ættu því að vera "orkunýting" og "verndarnýting" eða að segja að málið snúist um hvort eigi að virkja eða vernda.


mbl.is Óska eftir tilnefningum til fjölmiðlaverðlauna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Mey skal að morgni lofa."

"Mey skal að morgni lofa" segir máltækið, sem manni dettur kannski fyrst í hug við að frétta um viðbrögð útgerðarmanna við efndum loforða um niðurfellingu veiðigjalds.

Kannski mætti lengja máltækið og hafa það svona: "Mey skal að morgni lofa og ríkisstjórnir eftir kosningar."


mbl.is Útgerðarmenn vonsviknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sá er vel að þessu kominn !

Það gleður mig mjög að fornvinur minn Gunnar Eyjólfsson fái löngu verðskuldaða viðurkenningu fyrir stórkostlegt ævistarf sitt og þá fyrirmynd, sem hann hefur verið öllum þeim, sem vilja reyna að lifa góðu og árangursríku lífi.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Gunnari á ferðum okkar á héraðsmót um allt land fyrir rúmlega hálfri öld og fá að njóta vináttu hans, hjálpsemi, hlýju og mikilla mannkosta.

Síðar ánægjan af að vinna með honum í leikhúsi og verða vitni að því, hvernig þessi mikli listamaður gat lyft sér upp um heilan klassa frá aðalæfingu til frumsýningar þar sem jafnt meðleikarar sem áhorfendur sátu sem þrumu lostnir yfir frammistöðu hans.

Lífsleikni Gunnars, úthald og það, hvernig honum hefur jafnvel vaxið ásmegin á sama tíma sem aðrir leggja hendur í skaut vegna aldurs hefur sett öllum takmark til að keppa að.

Ég sendi Gunnari og hans nánustu innilegar hamingjuóskir með viðurkenninguna, sem honum hefur hlotnast.


mbl.is Gunnar Eyjólfsson heiðraður fyrir ævistarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingi hefur í raun staðið vörð um ofbeit. Hvað nú ?

Í nýlegu viðtali við Svein Runólfsson, landgræðslustjóra, benti hann á aðstöðumuninn á milli Hafrannsóknarstofnunar og Landgræðslunnar.

Lagaumhverfi þessara stofnana væri gerólíkt. Hafrannsóknarstofnum getur ákveðið leyfilegan afla á einstökum, sett ákvæði um veiðarfæri og fylgt hvorutveggaja eftir. Hún getur með aðeins nokkurra klukkustunda fyrirvara sett á skyndilokanir á einstökum veiðisvæðum.

Stundum heyrast slíkar tilkynningar daglega í útvarpi og yfirleitt finnst öllum þær sjálfsagðar.

Það eru ekki margir dagar síðan ég heyrði lesið í útvarpi upp úr klukkan ellefu að skyndilokun veiða við Melrakkaey tæki gildi innan klukkustundar.

Gerólíkt ástand ríkir í málefnum Landgræðslunnar. Í áratugi hefur stofnunin verið máttlaus gagnvart því hlutverki sínu að hamla gegn gróður- og jarðvegseyðingu vegna þess að nógu skýrar lagaheimildir skortir.

Mér hefur í áratugi verið kunnugt um einstakar bújarðir þar sem skelfilegl ofbeit hefur liðist og líðst enn vegna þess að áratuga áminningar og aðfinnslur Landgræðslunnar eru að engu hafðar.

Í tugum frétta og þátta um þetta fjallaði ég um þetta þegar ég var fréttamaður og hafði lítið sem ekkert upp úr því annað en gagnrýni og ádeilur, bara fyrir það eitt að sýna hvað væri að gerast.

Afréttir, sem sérfræðingar Landgræðslunnar, brynjaðir 100 ára reynslu, lýsa yfir að séu ekki beitarhæfir eru beittir áfram eins og ekkert sé.

Dæmin eru um allt land. Enn er rekið fé í Mellöndin á Mývatnsöræfum meira en aldarfjórðungi eftir að fyrsta umfjöllunin en ekki sú síðasta birtist í sjónvarpi.

Enn er stór hestabújörð á Suðurlandi hræðilega útlítandi vegna ofbeitar, Landgræðslunni og nágrönnum til mikils ama en enginn fær rönd við reist.

Hinn raunverulegi orsakavaldur heitir Alþingi Íslendinga, sem hefur alla tíð látið undir höfuð leggjast að setja lög sem koma skikki á þessi mál. 

1978 datt nýjum landbúnaðarráðherra, Steingrími Hermannssyni, í hug að hægt væri skipuleggja málin í heild þannig að í þeim landshlutum þar sem gróður þyldi vel beitarálag, fengju bændur að halda kvótum sínum og jafnvel auka þá eftir aðstæðum, einkum þar sem sauðfjárrækt væri stærsta atvinnugreinin, en í öðrum landshlutum, þar sem afréttir væru óbeitarhæfir, væru bændur styrktir til að hætta rekstri á hin níddu lönd, enda væri þar í mörgum tilfellum um að ræða landshluta þar sem aðrar atvinnugreinar gæfu mikil tækifæri.

Steingrímur segir í ævisögu sinni að landbúnaðarforystan og landsbyggðarþingmenn hafi brugðist ókvæða við og að hann hefði aldrei þorað að minnast á þetta aftur.

20 árum síðar minntist nýkjörinn formaður landbúnaðarnefndar, Hjálmar Jónsson, á það sama og það fór á sömu lund.

Það þýðir ekki að hafa uppi fögur orð eins og Unnur Brá Konráðsdóttir hefur nú um aukna landgræðslu og skógrækt meðan Landgræðslan er máttlaus gagnvart ofbeit og uppblæstri.

Nýjasta dæmið er innrekstur sauðfjár inn á Almenning og Þórsmörk, eftir 20 ára friðun, en það mun þýða það sama og fyrir 20 árum, að féð raðar sér fyrst inn í moldarflögin þegar það er rekið þar inn, til að klippa burtu nýgræðinginn, sem er það sama og konfekt fyrir það.

Þar með eru þau svæði dauðadæmd og klukkan færð aftur um 20 ár.  

Það mun taka marga áratugi, kannski meira en hálfa öld, að ná til baka landgæðum á þessu svæði eftir þá meðferð sem það fékk af völdum sauðfjárbeitar.

"Ég hef ekki áhyggjur" segir Unnur Brá, en í ljósi reynslunnar hefur hún fulla ástæðu til að hafa áhyggjur, ekki aðeins á þessu sviði umhverfismála, heldur enn frekar á öðrum sviðum.     


mbl.is Hefur ekki áhyggjur af umhverfismálunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Risastóra álftahreiðrið í Folavatni.

Með Kelduárstíflu og Kelduárlóni var sökkt fallegu litlu stöðuvatni með nokkrum grónum hólmum og grónu umhverfi austur af Snæfelli. 

P1010260

Útsýnið frá vatninu er frábært í góðu veðri. Á efstu myndinni sést yfir tvo af hólmunum í átt að austasta hluta Vatnajökuls, Eyjabakkajökli.

Í vestri blasir Snæfell við á myndunum hér fyrir neðan.

Fjölbreytileg nes prýddu þetta yndislega vatn og hólmarnir voru ólíkir.  

Drekking vatnsins í aurugt miðlunarlón var hluti af svonefndri Hraunaveitu, sem var hluti af Kárahnjúkavirkjun, en féll í skuggann af stóru stíflunum við Kárahnjúka.

Þó er Kelduárstífla 1600 metra löng og ein af stærstu stíflum landsins.  

Lengi vel stóð ég í þeirri meiningu að í þessari miklu hæð yfir sjó hlyti vatn eins og Folavatn að vera í gróðurvana umhverfi.

Annað kom í ljós þegar ég fór að skoða það. Allt umhverfis vatnið var gróður og þrír grösugir hólmar í því.

P1010431

Ég fékk lánaðan litla eins manns gúmmítuðru, ætlu til nota í sundlaugum, og reri út í hólmana.

Undrun mín varð mikil þegar ég kom í austasta hólmann.

Þar var langstærsta álftahreiður, sem ég hef séð, um 5 metrar í þvermál og mannhæð á hæð.

P1010377

Ég ræddi við fuglafræðing um þetta og taldi hann líklegt að þetta sama hreiðurstæði hefði verið þarna lengi, jafnvel öldum saman, kynslóð fram af kynslóð.

Vísindamenn, sem rannsökuðu Folavatn, töldu lífríki þess um sumt einstakt.

Það var léttvægt fundið og þrátt fyrir mikla baráttu mína fyrir því að Folavatni yrði þyrmt með því að láta Kelduárlón fara örfáum metrum hærra, var þessu ógleymanlega vatni fórnað.

Eftir standa nokkrar ljósmyndir og kvikmyndir, sem ég tók af því í ferðum mínum þangað.

Í síðustu ferðinni kom gat á gúmmítuðruna og mátti ég þakka fyrir að hún sökk ekki áður en ég næði landi.

Hún var orðin fyndin í laginu, tuðran, þegar komið var að bakkanum, - minnti á gervinefið á inspector Clouseau (Peter Sellers) sem var að bráðna, aflagast og leka níður í ógleymanlegri tanndráttarsenu hans og Herberts Lom.  

Aldrei þessu vant hafði ég gleymt að fara í björgunarvesti á leiðinni út í álftahólmann og hefði þess vegna getað drukknað í þessari síðustu ferð.

Ef það hefðu átt að verða örlög mín að farast við töku myndarinnar um Örkina, hefði ég varla geta valið mér flottari stað, - með þetta fallega fjallavatn og álftahólmann í baksýn og Snæfelli á höfði í bláma þess.  

Þess má geta, að í myndunum "Á meðan land byggist" og "In memoriam?"frá árinu 2003 er ekkert sýnt af því gríðarlega umróti sem virkjun Jökulsár í Fljótsdal hafði í för með sér, því að framkvæmdirnar austan Snæfells, svonefnd Hraunaveita, hófust ekki fyrr en eftir að búið var að umturna svæðinu sunnan Kárahnjúka.

Aðeins eru sýndir tveir stórfossar og nokkrir aðrir fossar í Jökulsá í Fljótsdal, sem voru á aftökulistanum ásamt tugum annarra vegna Hraunaveitu.

Ég fór til Akureyrar í dag vegna sýningar á "In memoriam?" í Hofi á fimmtudagskvöld.

Síðan myndin, sem upphaflega var gerð fyrir erlendan markað, var frumsýnd í Reykjavík fyrir rúmum mánuði hefur enn eitt tíu ára afmælið bæst við frá árinu 2003, árinu sem menn vilja endurlífga aftur með plús 600 megavatta virkjunum frá Reykjanestá austur í Skaftafellssýslu og upp á hálendið handa 360 þúsund tonna álveri í Helguvík.

Það eru um tíu ár síðan Hellisheiðarvirkjun var komin á fullan skrið samhliða Kárahnjúkavirkjun og Heillisheiðarvirkjun heldur sjálf upp á afmælið með því að vera daglega í fréttum.


mbl.is Litið í hreiðrið hjá Svandísi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband