Færsluflokkur: Bloggar
27.5.2013 | 13:55
"Vér einir vitum".
Þetta voru orð einvaldskonunganna forðum tíð þegar þeir tóku ákvarðanir. Þeir töldu sig hafa fengið völd sín frá Guði almáttugum og áttu land og þjóð. "Ríkið, það er ég" sagði Frakkakonungur.
Hér á landi hljóma svipuð ummæli hjá landeigendum og þeirra fólki. "Landið, það er ég." "Öll rök hníga að því sem ég segi." Engin mótrök eru til. "Vér einir vitum".
![]() |
Öll rök hníga að virkjun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.5.2013 | 09:59
Af sem áður var.
Í árgangnum, sem útskrifaðist sem stúdentar frá M.R. 1960 voru innan við hundrað manns og stúdentar á öllu landinu innan við 200. Við vorum síðasti kreppuárgangurinn, þ.e. þeir sem komu undir fyrir breska hernámið 10. maí 1940. Á árunum fyrir stríð voru árgangarnir mun minni en síðar varð og sennilega ekki tilviljun að ömmur mínar og afar í báðum ættum áttu aðeins tvö born hvort par.
Stúdentarnir voru lítið hlutfall af 1940 árganginum, vel innan við 10%.
Næsti stúdentaárgangur á eftir var að mig minnir 50% fjölmennari sem og allir árgangar þar á eftir, sem á Íslandi myndu líklega falla undir hugtakið "the baby boom generation", kynslóð sem kom mun seinna í öðrum löndum þegar hagkerfi heimsins rétti úr kútnum tveimur áratugum síðar.
Það hefur oft verið sagt að íslenskt þjóðfélag hafi verið minna stéttskipt en önnur á síðustu öld, en samt er ekki laust við að þessi tiltölulega litli hluti hvers árgangs fram eftir öldinni hafi að sumu leyti verið eins konar forréttindahópur af því að hann var ekki stærri en þetta.
Stúdentsprófið opnaði dyrnar að háskólanámi, sem hlutfallslega miklu færri stunduð þá en nú, þannig að sérstaðan hélst áfram. Nú er þetta, sem betur fer, breytt.
Á þessum tíma var verktæknin það skammt á veg komin að mjög stór hluti þjóðarinnar vann störf sem enga sérstaka framhaldsmenntun þurfti til. Þjóðfélagið komast sem sé af án þess að stór hluti hennar þyrfti að mennta sig neitt sérstaklega.
Verkalýðshreyfingin starfaði í samræmi við þetta og höfuðáherslan hjá henni var að tryggja kjör verkafólks og ófaglærðra.
Nú er þetta gjörbreytt en verkalýðshreyfingin er enn svolítið föst í hinu gamla horfi.
Þannig er það nú básúnað að miklar virkjanaframkvæmdir verði að vera í gangi til að skapa þúsundir starfa hverju sinni, en gleymist að síðast, þegar slíkt komst í hámark, voru 80% vinnuaflsins fengin frá útlöndum, og að slíkar framkvæmdir, sem þarfnast margra ófaglærðra, geta verið dragbítur en ekki akkur.
Því að þegar framkvæmdunum lýkur verða þessar fjögur þúsundir, sem fengu tímabundin störf, atvinnulausir, útlendingarnir fara úr landi, og stór hluti Íslendinganna sem fengu vinnu, hefur kannski hætt við að mennta sig, en það er einmitt slíkt sem verður að forðast eins og hægt er í nútímaþjóðfélagi, sem vill vera samkeppnisfært við aðrar þjóðir.
Fyrr eða síðar munu menn standa frammi fyrir því að ekki verður hægt að virkja meira, og hvað gera menn þá?
"Það verður verkefni þeirrar kynslóðar, sem þá er uppi" var svar Finns Ingólfssonar við þessari spurningu minni fyrir rúmum árarug.
Sem sagt, veltum sem mestu af "skómigu"-hegðun okkar yfir á afkomendur okkar.
![]() |
Aldrei fleiri stúdentar og doktorar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.5.2013 | 20:15
"Fólk er fífl 3". Vonandi hægt að skipta um rafhlöðu.
Í fróðlegum erlendum sjónvarpsþætti var greint frá mörgum dæmum um það hvernig framleiðendur freistast til þess að útbúa vörur sínar þannig að þær endist örugglega ekki of lengi, til dæmis í aðeins eitt og hálft ár.
Meira að segja samkomulag framleiðenda ljósapera í heiminum 1920 um að engar perur entust meira en í 1000-1500 klukkustundir.
Meðal annars var greint frá því að í fyrsta snjallsíma risaframleiðenda hefði rafhlaðan verið höfð þannig, að ekki væri hægt að skipta um hana og að hún entist ekki nema takmarkaðan tíma, þannig að þegar hún yrði ónýt, væri búið að læsa eigandann inni í nokkurs konar búri, þar sem hann þyrfti annað hvort að eyða hátt í verð nýs síma til að láta gera við hann eða kaupa sér annan síma.
Athugull kaupandi fór í mál við fyrirtækið í Bandaríkjunum út af þessu.
Sjálfur á ég nokkurra ára gamlan snjallsíma. Eftir að hafa átt hann í um eitt og hálft ár brá svo við að rafhlöðunni hrakaði hratt og varð síminn ónothæfur. Ég ætlaði þá að kaupa aðra rrafhlöðu en var sagt frá því, að það væri ekki hægt að skipta um rafhlöðu í þessum síma.
Nú var úr vöndu að ráða. Annað hvort að henda símanum, sem ég hafði keypt fyrir sjötíu þúsund krónur eða að taka boði um að láta gera við hann.
Í bandaríska tilfellinu, sem greint var frá í sjónvarpsþættinum, var upplýst að rafhlöðurnar entust aðeins rétt fram fyrir þann tíma, sem síminn væri í ábyrgð, svo að kostnaðurinn lenti allur á kaupandanum.
Í mínu tilfelli kom í ljós að ég var svo ljónheppinn að sleppa rétt innan þess tíma sem ábyrgðin gilti, eða réttara sagt, vegna fjarvista að heiman og oft uppi í óbyggðum, varð ég að gera ráðstafanir strax.
Ég komst svosem af, því að til vara átti ég 5000 króna síma frá sama framleiðanda
Og hvernig fór þetta svo? Jú, ég þurfti að vera án símans í næstum tvo mánuði, því að það þurfti að senda hann til Svíþjóðar til viðgerðar!
Og síðan kom reikningur: 15 þúsund krónur! Ég fór að velta því fyrir mér hvað þetta hefði kostað ef síminn hefði ekki verið í ábyrgð.
Nú er ábyrgðin runnin út og það kemur væntanlega í ljós þegar rafhlaðan deyr næst hvernig ég fer út úr þessu þá. Mig er farið að gruna og er viðbúinn því að það muni gerast og veit, að það að eiga þennan síma áfram muni ekki aðeins kosta mig 15 þúsund aukakrónur á hálfs annars árs fresti, heldur miklu meira.
Þetta voru slæmu fréttirnar.
Góðar fréttir?
Já, með svona kerfi er hægt að skapa fjölda fólks vinnu við viðgerðir og vesen, sem grunnhyggnir neytendur borga, eða að lokka hina svekktu kaupendur til að kaupa nýja síma.
"Þú áttir að kynna þér símann og sjá í smáa letrinu að ekki væri hægt að skipta um rafhlöðu", var sagt við mig.
"Já, en ég var búinn að eiga fjölda farsíma í aldarfjórðung og þetta var sá fyrsti þar sem ekki var hægt að skipta um rafhlöðu," andmælti ég. Hvernig átti ég að vita það að þessu væri allt í einu búið að breyta?"
"Með því að kynna þér upplysingarnar um símann," var svarið.
Já, maður verður víst að sætta sig við það að um mann sjálfan gildi hið "fornkveðna": "Fólk er fífl."
Ég veit að Galaxy síminn, sem er undanfari Galaxy S4 er með sér rafhlöðu. Vonandi er sá nýi einnig þannig.
![]() |
Hafa selt 10 milljónir Galaxy S4 síma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.5.2013 | 11:10
Sjónarhólarnir eru margir.
Styrjaldir leiða fram allt það besta og versta í manninum og seinni heimsstyrjöldin var engin undantekning. Vafalaust er mikið til í því sem nú er leitt upp á yfirborðið í sambandi við þá gyllilngu sem ungir bandarískir hermenn fengu varðandi "franska kossa" og franskt ástalíf þegar þeir voru sendir til herþjónustu í Frakklandi.
Ég er nógu gamall til að muna eftir þeirri mynd sem skemmtanaiðnaðurinn gef af París og frönskum konum og get því skilið að framkoma bandarískra hermanna hafi ekki alltaf verið til fyrirmyndar þegar þeir fóru sigurför um Frakkland 1944.
En ég upplifði líka þveröfuga mynd á milljón manna flugsýningu í Oskosh í Banaríkjunum 1997 þegar haldið var upp á 40 ára afmæli bandaríska flughersins, sem var stofnaður í núverandi mynd 1947.
Við hlið mér stóðu nokkrir gamlir menn sem táruðust og grétu við stærstu minningarathöfnina.
Ég spurði einn þeirra hvar þeir hefðu verið í stríðinu. "Í innrásinni í Normandy" svaraði hann, "og ég tárast meðal annars yfir því hvaða móttökur ég fékk þegar ég kom til Frakklands aldarfjórðungi síðar."
Ég uppskar víða andúð og kalt viðmót og mér sárnaði það afar mikið, eftir að hafa upplifað þá fórn, sem ég og margir vinir mínir í blóma lífsins höfðum fært og sumir okkar látið lífið fyrir. Þeir fórnuðu ungir lífi sínu fyrir það að Bandaríkjamenn björguðu Frakklandi í annað sinn á sama aldarhelmingnum og þetta voru þakkirnar."
Þetta sýnir hvað sjónarhólarnir í stríði geta verið margir og einni það, að að mörgu er að hyggja.
![]() |
Bandaríkjamenn ekki bara frelsarar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
25.5.2013 | 18:38
Veginn og léttvægur fundinn og allir hinir líka.
Ég hef fylgst eftir megni með íslenskum virkjunum og náttúruverðmætum af ástríðu í meira en 60 ár, lengst af sem fjölmiðlamaður, sem hefur gert þetta að meginviðfangsefni sínu og helsta ævistarfi.
Vísindalegar skýrslur um þetta efni sem liggja að baki vinnu minni nema mörgum þúsundum blaðsíðna og margra áratuga vettvangskönnunum.
Síðustu fjögur ár hef ég unnið sérstaklega að heimildamynd í fullri lengd um virkjanaáform og virkjanakosti í Mývatnssveit og með sérstökum myndatökuferðum og ferðum allt frá Öxarfirði í norðri til Reykjanestáar í suðvestri.
Ég fór í eins yfirgripsmikla vinnu og mér var unnt 2011 til þess að skila inn sérstökum umsögnum um Gjástykki, Kröfluvirkjun, Hrafnabjargavirkjun, Eldvarpavirkjun, Trölladyngjuvirkjun og virkjanir í Hólmsá og Skaftá fyrir hönd Framtíðarlandsins.´
Ég leitaði til sérfróðra manna við gerð þessara athugasemda og byggði þær á fjölmörgum skýrslum vísindamanna og sendi inn myndir, sem ég hef tekið á þessum virkjanasvæðum og náttúruverðmætum, - í mörgum tilfellum einu myndunum, sem til eru af þeim, enda látið í veðri vaka um sum þeirra að þau séu ekki til.
En af hverju er ég að tiltaka þetta núna?
Af því að ég neyðist til að grípa til varna fyrir mína hönd og annarra, sem eyddu mikilli vinnu í að senda inn umsagnir vegna rammaáætlunar.
Nú heyri ég nefnilega að forsætisráðherra lætur í veðri vaka að hann hafi farið yfir þær ca 200 umsagnir, sem bárust haustið 2011 til iðnaðarráðuneytsins, en segir samt að þær séu 400 og allar sama athugasemdin og því ekki marktækar.
Tekur þá sennilega með athugasemdir sem bárust þingmönnum og þingnefndum. Eða las hann hinar rúmlega 200 umsagnir sem iðnaðarráðuneytið fékk formlega?
Ef svo er, passar það ekki við það sem ég fékk út úr því að kynna mér þær eftir föngum og gat ég ekki séð af hverju væri hægt að segja þær væru nær allar sama athugasemdin.
En alhæfing hans stendur.
Þá veit maður það. Hæstráðandi til sjós og land hefur kveðið upp úrskurð sinn: Það er ekkert að marka þessar ahugasemdir mínar né aðrar, sem unnar voru af kostgæfni af fjölmörgu hæfu kunnáttufólki haustið 2011.
Nei, allt sama bullið.
Ég ,vinna mín og ævistarf mitt ásamt margra annarra er vegið og léttvægt fundið. Sömuleiðis niðurstöður skoðanakannana um stóriðju og heilan stóran þjóðgarð á miðhálendinu. Fólk er fífl og ég þá sennilega mesta fíflið.
Ég veit ekki til hvers maður hefur verið að þessu.
![]() |
Stefna á breyttan ramma í sumar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
24.5.2013 | 20:53
Virkjanirnar, ekki heimilin í fyrsta forgang?
Athyglisverð frétt var á Stöð 2 í kvöld og tilheyrandi viðtali við Bjarna Benediktsson. Upplýst var að færa ætti 18 virkjanakosti í áttina að því að virkja, ýmist úr verndarflokki í biðflokk eða úr biðflokki í virkjanflokk eftir atvikum.
Á fyrsta vinnudegi ríkisstjórnarinnar virðist þetta vera kristaltært. Það er ekki amalegt að komin sé almennileg ríkisstjórn sem kemur nauðsynlegustu málunum strax í verk á fyrsta degi en lætur önnur minni mál, eins og skuldamál heimilanna, í hendurnar á ótal nefndum og starfshópum.
Samkvæmt fréttinni á að færa Bitru og Grændal, virkjanir með brennisteinsmengun, náttúruspjöllum og rányrkju við bæjardyr Hvergerðinga, úr verndarflokki í biðflokk og þar með er stefnt að því að 18 af 19 virkjanaáætlunum á Reykjanesskaga fari á endanum í framkvæmd og að tryggt verði að ekkert verði friðað nema Brennisteinsfjöll.
Gjástykki, svæði, sem á engan sinn líka í heiminum, er á listanum, og Norðlingaalda með uppþurrkun stórfossa Þjórsár og innrás í Þjórsárver. Og nú dúkkar Bjallavirkjun upp, með stíflu og miðlunarlóni við innganginn í Landmannalaugar. Og aðrar 14 virkjanir.
Á ráðstefnu um orkumál í gær sýndi bandarískur fyrirlesari á korti hvernig Yellowstone býr yfir langmestri orku í Bandaríkjunum í formi jarðvarma og vatnsorku.
Verður þá ekki þessi gríðarlega "hreina og endurnýjanlega orka" virkjuð?
Nei. Þetta svæði er "heilög jörð" í augum Bandaríkjamanna" sagði fyrirlesarinn. Samt kemst Yellowstone ekki í flokk 40 merkilegustu náttúruundra jarðar eins og hinn eldvirki hluti Íslands gerir.
Bjarni Benediktsson fór með síbyljuna um "hreina og endurnýjanlega orku" og "forystu Íslands í umhverfismálum sem heimsbyggðin öll dáir okkur fyrir" og var hallelújasöngur ráðstefnunnar í gær frá upphafi til enda.
Ég spurði forseta Íslands hvort Íslendingar skulduðu ekki sjálfum sér og umheiminum að hætta þeirri rányrkju að klára orku jarðvarmasvæðanna á 50 árum og vitnaði í kröfur "frumstæðra" indíánaþjóðflokka í Ameríku til sjálfra sín um sjálfbæra þróun eða endingu auðlinda í minnst sjö kynslóðir.
Forsetinn svaraði með því að segja söguna af Sitting Bull, sem var eini indíánahöfðinginn, sem neitaði að semja um eitt eða neitt við hvíta menn.
Í kaffihléi töldu viðmælendur mínir að mér hefði ekki verið svarað.
Eftir næstum fimm klukkustunda hallelújasöng til dýrðar okkur spurði einn fundarmanna síðasta ræðumann álits á því að Íslendingar seldu orku fyrir 20 mills, helmingi minna fé en næmi kostnaðarverði, sem væri 40 mills.
Ræðumaðurinn sagðist ekki þurfa að fjalla neitt sérstaklega um þetta. "Þetta er rétt", sagði hann.
Fundi slitið og allir ánægðir. Amen og hallelúja!
Minnti mig á það á dögum vandaræðamála Bill Clintons þegar ungur blaðamaður ætlaði að slá um sig á blaðamannafundi með Mitterand Frakklandsforseta og spurði hann: "Er það rétt að þú hafir átt hjákonu í mörg ár?"
"Já", svaraði forsetinn. "Næsta spurning, gerið svo vel." Málið dautt.
![]() |
Skattar lækki strax í sumar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.5.2013 | 17:51
Fágæt iðrun og yfirbót stórþjóðar.
Þjóðverjar voru hataðir um allan heim í lok heimsstyrjaldarinnar síðari. Þeir höfðu fóstra nasismann, mestu villimennsku síðustu alda.
Sú villimennska skildi þeirra eigið land eftir í rústum og tuga annarra landa í sárum, auk dauða tuga milljóna manna.
Sigurvegararnir gátu farið með Þjóðverja eins og þeim sýndist, enda urðu 14 milljónir þýskumælandi manna að flytjast frá heimkynnnum sínum, sem að stærstum hluta höfðu verið byggð Þjóðverjum og undir þeirra stjórn síðan 1774.
Að vísu höfðu Þjóðverjar komist yfir mest allt af sínum hluta af skiptu Póllandi með hervaldi seint á 18. öld og því var skiljanlegt að Pólland yrði endurreist.
Þjóðverjar ákváðu, í stað þess að mögla til dæmis yfir því að Austur-Prússland félli undir Sovétríkin, sem var að mörgu leyti fáránleg ráðstofun, að rífa sig siðferðilega sem þjóð upp frá grunni, taka sig á svo um munaði, og það hafa þeir lagt svo mjög fram um um að gera síðan, að fágætt er hjá stórþjóð.
Auðvitað gat verið pottur brotinn í einstökum málum, eins og til dæmis varðandi Adolf Eichmann, sem hafði sambönd inn í þýska kerfið og Þjóðverjar hefðu sjálfir getað handtekið á undan Ísraelsmönnum.
En hin opinbera og einbeitta viðleitni til umbóta, til dæmis varðandi fólk af öðrum kynstofnum og tregðu til að taka þátt í beitingu hervalds er mjög áberandi í þýsku þjóðlífi. Reynt er eins og kostur er að gera upp við fortíðina og tryggja að hryllingur nýnasisma og þjóðernishroka nái ekki fótfestu á ný.
Hafa allt á hreinu eins og kostur er.
Fyrir nokkrum árum var í gangi skrýtla, að mig minnir nokkurn veginn svona: Veröldin er greinilega að ganga af göflunun: Besti kylfingur heims er svartur, besti rapparinn hvítur, Frakkar saka Bandaríkjamenn um hroka og stærilæti og Þjóðverjar neita að berjast.
Þjóðverjar eru betur meðvitaðir um umhverfismál en flest önnur stórveldi og mér finnst áberandi hve áhugasamir Þjóðverjar og þýskar sjónvarpsstöðvar hafa verið um þessi mál í samskiptum við mig.
Ég held að að frátöldum Færeyingum séu Þjóðverjir bestu vinir Íslands og Íslendinga. Í þeim efnum er ég sammála Styrmi Gunnarssyni.
Það má ekki rugla saman kynþáttaórum nasista og hrifningu Þjóðverja af germanskri menningu og þar með af ómetanlegum þætti Íslendinga til að standa vörð um sameiginlegan menningararf norrænna þjóða.

Richard Wagner, sem átti 200 ára afmæli í fyrradag, var hugsanlega sá listamaður í fremstu röð í Evrópu sem íslenskastur var.
Ég hef í áratugi gengið með þá hugmynd í maganum að taka tæplega hálftíma úrval úr Niflungahringnum og gera mynd af flugferð um landið um leið og hún er spiluð.
Snjáð blöðin í Íslendingasögunum í Wagnersafninu í Bayeruth bera vitni um það, hvaðan hann sótti sér efnivið.
1993 gerði Kristín Helga Gunnarsdóttir sjónvarpsþátt í tilefni af 20 ára afmæli Eyjagossins og notaði tónverkið Finlandiu til að lyfta myndefninu.
Ég fékk upphringingar fólks daginn eftir sem kvartaði yfir því að erlend tónlist eftir tónskáld þjóðar, sem væri alls óskyld Íslendingum, væri notuð í Eyjagossmyndinni.
Ég andmælti þessu á þeim forsendum að Sibelíus hefði verið af sauðarhúsi tónskálda, sem voru undir mjög miklum áhrifum af Wagner, svo miklum, að ef enginn vissi eftir hvern Finlandia væri, myndu menn getað giskað á Wagner.
Á móti sögðu þeir, sem hringdu, að Wagner væri heldur ekki af norrænu bergi brotinn.
Gegn því tefldi ég þeim rökum, að Wagner hefði sótt efnivið öðru fremur sinn úr norrænum fornbókmenntum og að tónlistin eftir hann gæti þess vegna alveg eins verið eftir íslenskan höfund.
Ég endaði símtalið með því að syngja þýska þjóðsönginn og "Yfir voru ættarlandi" og blanda lögunum saman á víxl þannig að ekki heyrðist hvenær var farið úr öðru laginu yfir í hitt til þess að sýna, að íslensk tónskáld hefðu orðið fyrir jafn miklum áhrifum af þýskum tónskáldum og Magnús Eiríksson, KK og Jón Múli hefður orðið fyrir miklum áhrifum af bandarískum djassi og blús.
Það er í tísku hjá sumum að agnúast sem mest út í Þjóðverja af því að þeir eru valdamesta þjóðin í Evrópu og hefur gengið vel með sín mál.
Það er vegna þess að þeir hafa gert gríðarmiklar kröfur til sín sjálfra og hafa því kannski meira efni á því en margir aðrir að gera kröfur til annarra, en slíkt er lítt fallið til vinsælda.
![]() |
Þýskaland vinsælasta ríki heims |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.5.2013 | 10:40
Sérstaklega áberandi á beygjuljósum.
Það getur svo sem komið fyrir flesta að vera ekki nógu vakandi við umferðarljós og gera einhver mistök. En hins vegar er það greinilegt að íslenskir ökumenn eru áberandi slæmir í þessu efni á sumum gatnamótum þegar þeir aka yfir á beygjuljósi.
Ég hef um áraraðir þurft að fara um gatnamót Háaleitisbrautar og Kringlumýrarbrautar og gatnamót Grensásvegar og Fellsmúla þar sem þetta er sérstaklega áberandi.
Þar hrúgast upp séríslensk vandamál hvað varðar greiða og örugga umferð.
Í fyrsta lagi áberandi seinagangur við að koma sér af stað þegar grænt ljós kemur. Þá má oft sjá allt að 20-30 metra bil á milli bíla sem fara yfir á beygjuljósi og að fyrstu bílarnir drattast ekki af stað, af því að þeir hugsa bara um sjálfa sig en ekki þá næstu á eftir.
Þetta er fyndið, því að á næstu gatnamótum gætu þeir lent í því að vera aftar í röðinni vegna þess að aðrir frekjuhundar fyrir framan þá standi í vegi fyrir því að þeir komist yfir. Og þá bölva þeir náttúrulega hinum ! Þetta er fyndið í aðra röndina, svona nánast samtök um það að gera sem flestum lífið leitt sitt á hvað !
Og stundum komast bara einn eða tveir bílar yfir, vegna þess að bílar sem koma frá hlið og beygja, halda áfram að fara yfir eftir rautt ljós er komið þar og stela þar með tíma frá bílunum á hinu ljósinu.
Sem sagt: Menn drullast ekki af stað fyrr en eftir dúk og disk eða halda áfram að fara yfir eftir að komið er rautt ljós. Og allir bölva öllum en halda þessari vitleysu samt áfram áratug eftir áratug.
Og síðan er áberandi að þegar mjög mikið álag er á gatnamótum halda menn samt áfram að hrúga sér inn á þau, þótt það blasi við að þeir festist þar og loki fyrir alla umferð um þau úr báðum áttum.
Í Bandaríkjunum er þetta algerlega bannað og liggur sekt við. Ég tel líklegt að aldrei hafi verið sektað fyrir svona framkomu hér á landi og að þetta muni halda áfram að gilda hér eins og margir aðrir ósiðir tillitslausra ökumanna, samanber myndina í pistlinum hér á undan.

P. S.
Set hér inn tvær ljósmyndir frá því síðdegis í dag.
Ökumaður, sem er á einum af minnstu og meðfærilegustu bílum sem völ er á, telur sig eiga heimtingu á að taka tvö bílastæði og leggja bílnum þannig að helmingur er í öðru stæðinu og hinn helmingurinn í hinu.
Sést vel á neðri myndinni hvernig mörk bílastæðanna eru undir miðjum bílnum.

Varaði sig ekki á því, ef með þessu var verið að meina öðrum aðgangi, að ég er á eina bílnum í flotanum, sem kemst af með hálft stæði.
![]() |
Ökumenn virði rauða ljósið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.5.2013 | 17:48
Ekki gefið stefnuljós í áratugi.
Niðurstaða skyndikönnunar lögreglu á stefnuljósanotkun kemur ekki á óvart. Svona hefur þetta verið í 60 ár.
Ég á heima við Háaleitisbraut og hef átt heima með hléum við "botnlangann", sem ég bý við, í alls 30 ár. Það gerist minnst daglega og jafnvel oftar á dag að aka þarf úr þessum botnlanga út á Háaleitisbrautina og þá oftast til vinstri, sem þýðir það að það þarf að vera lag til þess á báðum akreinum, bæði til austurs og vesturs.
Síðast, þegar kom niður botnlangann og varð að bíða við Háaleitisbrautina eftir því að færi gæfist á að beygja til vinstri, hefði það gefist fljótt og vel ef bílstjóri, sem kom úr austri, hefði nennt að gefa stefnuljós í tíma.
En hann gerði það ekki fyrr en hann var í þann veginn að taka beygjuna, svona eins og hann væri að gera þetta af frásagnargleði eftir á um þessa frábæru beygju sína.
Fyrir bragðið missti ég tækifærið sem annars hefði gefist til að komast út úr botnlanganum.
Ég fór að grafa niður í huga minn hvenær það hefði síðast gerst að bílstjóri hefði gefið stefnuljós í tíma á þessum stað.
En hvernig sem ég reyndi að grafa þetta upp, gat ég ekki munað eftir einu einasta skipti, sem nokkur bílstjóri hefði gert þetta.
Og það, sem fyndnast er, að þeir sem taka þessa beygju inn í botnlangann, komast ekki aðra leið til baka og verða þá sjálfir fyrir barðinu á öðrum bílstjórum, sem meina þeim að komast út á Háaleitisbrautina.
Þarna bölva því allir öllum en enginn gerir neitt til að breyta þessu.
Set síðan hér með mynd af nokkur hundruð metra langri biðröð bíla sem bíða í Síðumúla eftir því að komast í austur eða vestur eftir Fellsmúla.

Í þessu ætlaði ég að beygja til hægri og áreiðanlega fyrir framan mig í röðinni.
En eins og sést planta bílstjórarnir, sem ætla til vinstri, bílum sínum þannig niður að þeir eru að hluta til á báðum akreinum og loka þannig leiðinni fyrir þeim, sem ætla að beygja til hægri.
Hægri beygjan er að sjálfsögðu miklu auðveldari og margfalt líklegra að komast þá leið en að beygja til vinstri þar sem báðar akreinar Fellsmúlans verða að vera auðar þegar ekið er inn á hann.
Þarna er búið að merkja tvær akreinar til þess að flýta fyrir umferðinni, sem auðvitað verður greiðari ef báðar akreinarnar eru notaðar og þar af leiðandi miklu styttri biðröð sem skiptir sér á tvær akreinar en ef allir hrúga sér yfir á aðra.
En myndin talar sínu máli.
En í þessu tilfelli nægir bílstjórunum á vinstri akreininni ekki sín akrein, heldur telja sig þurfa hálfa hægri akreinina líka !
Í sumum öðrum tilfellum gætu þeir, sem eru á hægri akreininni smeygt sér framhjá, en þá erum við komin að annarri takmörkun hæfileika íslenskra ökumanna, að hafa enga tilfinningu fyrir stærð bíls síns.
Það væri efni í annan pistil.
![]() |
Einungis þriðjungur gaf stefnuljós |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.5.2013 | 12:57
Reynsluleysi þarf ekki að vera slæmt.
Ríkisstjórn þriggja ráðherra, sem settist að völdum 1934 stóð sig vel við afar erfiðar aðstæður kreppunnar miklu. Hermann Jónasson, 37 ára, og Eysteinn Jónsson, 27 ára, komu kraftmiklir og hæfileikaríkir inn í íslensk stjórnmál og voru meðal burðarása í stjórn landsins næstu þrjá til fjóra áratugi.
Stundum getur verið ágætt að láta nýja vendi sópa. Þannig ákvað stjórnlagaráð að ganga að sínu verkefni með nánast autt blað og nýta sér aðferð, sem nefnd hefur verið ítrunarferli og hefur til dæmis verið notuð með góðum árangri í starfsemi nýsköpunar- og sprotafyrirtæki.
Sem dæmi má nefna einstök verkefni hjá CCP þegar setjast þarf niður með autt blað til þess að setja niður hugmynd að tölvuleik, sem fari sigurför um heiminn, og vinna markvisst að útfærslu hugmyndarinnar.
Stjórnlagaráði hefði að mínum dómi aldrei tekist að ljúka verkefni sínu á þann hátt sem það tókst, ef ekki hefði verið unnið eftir ferskum hugmyndum og viðfangsefnið nálgast þannig að alllir legðu sitt af mörkum í pottinn og veldu síðan sameiginlega það besta sem kom fram.
Vonandi farnast nýrri ríkisstjórn vel allt frá fyrsta ríkisstjórnarfundi, þar sem enginn ráðherranna hefur áður setið slíkan fund og allir koma því ferskir að því verkefni að gera ríkisstjórnarfundi sem árangursríkasta og markvissasta.
![]() |
Fólkið í ríkisstjórn Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)