Færsluflokkur: Bloggar

Ásgeir Ásgeirsson kom stjórn á koppinn, þegjandi og hljóðalaust.

Í desember 1958 var úr vöndu að ráða í íslenskum stjórnmálum. Ríkisstjórn vinstri flokkanna sprakk af því að engin samstaða var um efnahagsráðstafanir. Það leit út fyrir erfiða stjórnarkreppu á versta tíma þegar staðið var í landhelgisdeilu við Breta og óðaverðbólga var að skella á.

Ólafur Thors og Hermann Jónasson voru öndverðir pólar, trúnaðarbresturinn á milli þeirra frá 1942, gerði alla möguleika til samstarfs flokka þeirra illmögulega, og Hermann var grunaður um að hafa með undirmálum spillt fyrir samstjórn flokkanna 1956, sem ekki bætti sambandið á milli þeirra. 

Þótt Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur hefðu stóran meirihluta kjósenda á bak við sig, 61%, kom óréttlátt kosningakerfi í veg fyrir að þeir hefðu nógu trygga stöðu á Alþingi vegna deildarskiptingar þingsins. 

Það var komin upp ákveðin pattstaða. 

Nú kom sér vel að Ásgeir Ásgeirsson forseti hafði verið þingmaður Alþýðuflokksins og þar á undan Framsóknarflokksins og þekkti því völundarhús íslenskra stjórnmála eins og lófana á sér.

Hann sá að það voru sameiginlegir hagsmunir allra flokka nema Framsóknarflokksins að draga ekki lengur þá óhjákvæmilegu og bráðnauðsynlegu aðgerð að breyta kjördæmaskipaninni. Hins vegar yrðu Alþýðubandalagsmenn ófáanlegir til að grípa til aðgerða í kjaramálum til að stöðva verðbólguna, en Sjallar og Kratar gætu átt samleið í því.

Ásgeir notaði sambönd sín til að leiða Sjalla og Krafa saman til að Kratar mynduðu minnihlutastjórn sem fengi frið til að gera bráðabirgðaráðstafanir í efnahagsmálunum með lagaþvingaðri niðurfærslu launa og verðlags.

En til þess að Allaballar stöðvuðu þetta ekki, fengu þeir í staðinn samstöðu þriggja flokka til að breyta kjördæmaskipaninni og kosningalögunum. Það myndi þýða tvennar kosningar næsta ár og þá fengju allir flokkar það fylgi á þingi sem þeir ættu skilið og hægt að byrja upp á nýtt með ný spil á hendi eftir eitt ár.

Þáttur Ásgeirs í myndun minnihlutastjórnarinnar og þar með Viðreisnarsamstarfsins, sem stóð í tólf ár, lá í þagnargildi áratugum saman. Hann möndlaði þetta leynilega, þegjandi og hljóðalaust. Það má deila um það, hvort það réði algerlega úrslitum, en talið er víst að þáttur hans hafi verið afgerandi. 

Viðreisnarstjórnin var einhver besta og farsælasta ríkisstjórnin í sögu landsins og slyngur forseti átti einhvern drýgsta þáttinn í að koma því samstarfi á laggirnar. 

Þá voru forsetarnir ekki á þönum á milli landa og því síður vinsælir viðmælendur í erlendum fjölmiðlum þannig að það kom ekki til þess að Ásgeir upplýsti fyrir heimi öllum um snilld sína í refskák stjórnmálanna og glöggskyggni sína á rökin fyrir þvi, hver væri hæfastur til að mynda ríkisstjórn. 

1959 var það ekki formaður stærsta flokksins, heldur hins minnsta. 

Síðan 1959 hef ég talið að það gæti verið afar mikilvægt fyrir forseta Íslands hverju sinni að hafa kynnst innviðum íslenskra stjórnmála þegar erfið staða kemur upp við stjórn landsins. 

 


mbl.is „Hvað vakir fyrir Ólafi Ragnari?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfitt að halda forystu svona lengi.

Þýskaland var í rúst eftir seinni heimsstyrjöldina og fram til 1953 neyddust Mercedes-Benz verksmiðjurnar til að framleiða sömu bíla og fyrir 1940. En alger umskipti urðu þegar Benz "Ponton kom fram 1953. Mercedes_180_2_v_sst[1]

Enn þann dag í dag er varla hægt að hugsa sér fullkomnari hönnun á alla lund í þessum stærðarflokki, rými miðað við stærð og þægindi fjöðrunar.

Gallinn var hins vegar sá að næstu árin voru vélarnar fyrir þessa bíla þeim ekki samboðnar, einkum minnsta vélin, sem var gömul hliðarventlavél, eyðslufrek og mengandi.

Til að einfalda framleiðsluferlið voru dýrari bílarnir með sex strokka vélunum alveg eins og fjögurra strokka bílarnir, nema hvað vélarhúsið var lengt og framhjólin færð fram sem því svaraði.  

Benz var einna fyrstu framleiðenda til að ráða við framleiðslu á vélum með yfirliggjandi kambásum og síðar beinni innspýtingu og þægindi og gæði bílanna skipuðu þeim í fremstu röð, en þó ekki framar en það, að upp úr 1960 var farið að framleiða ofurBenz, Mercedes Benz 600, með V-8 vél, sem var það óskaplega dýr og þungur, að það var aðeins á færi moldríkra að eiga slíka bíla.

Cadillac hélt því enn ákveðnum sessi sem "standard of the world" hvað snerti lúxusbíl, sem samt var framleiddur í hundruðum þúsunda eintaka ár hvert.

1972 urðu tímamót þegar Benz S-Class kom fram, bíll sem var stærri á alla lund aðrir Benzar en þó ekki neitt lúxusskrímsli eins og Benz 60 hafði verið. Þarna var kominn bíll á viðráðanlegu verði fyrir margfalt fleiri en fram að því gátu keypt bíl sem var hugsanlega besti bíll heims þegar allt var tekið með í reikninginn.

Mercedes-Benz_500SE[2]

1979 kom næsta kynslóð sem var jafnvel enn meira stökk fram á við, svo stórt, að nú var i alvöru talað um og viðurkennt að Cadillac væri ekki lengur traustur í sínum sessi, nýr kóngur hefði tekið við eða væri að taka við. Það var ekki eitt heldur allt, svo sem öryggi í fremstur röð.

Í þau rúmlega 30-40 ár sem Benz S hefur verið lúxusbíllinn, sem aðrir hafa orðið að miða sig við, hafa verið gerðar margar og magnaðar atrennur annarra bílaframleiðenda til að velta honum úr sessi.

Líklega var sú alvarlegasta gerð 1990 með tilkomu Lexus 400, en Benz svaraði með nýrri kynslóð S-bíla árið eftir og mikill bardagi stóð næstu árin, enda 7-línan hjá BMW líka með í slagnum og ógnaði hvað snerti sportlega aksturseiginleika.

Svarið hjá Benz var að koma fram með aðeins minni og léttari bíl í næstu kynslóð.

Það er athyglisvert að lengi vel var aðalkeppinauturinn, BMW, með hönnun þar sem farangursrýmið var framar en á Benz. Það sagði sitt um hönnunina hjá Benz þegar BMW gafst upp á þessu á smærri gerðunum í kringum 1990 og færði rýmið aftar til þess að þyngdarhlutföllin yrðu betri og nær 50/50 en verið hafði.  

Nú er 6.kynslóð Benz S komin fram og ekki er að sjá annað en að forystan í lúxusflokknum sé enn óbreytt. Að minnsta kosti varla um að ræða keppinaut sem er betri, þótt hann standi kannski jafnfætis.

Það er erfitt að halda jafn erfiðri forystu og að vera "Standard of the world" í bílasmíði.

Það þýðir ekki endilega bíla eins og Rolls-Royce, Bentley eða Maybach, heldur bíla sem höfða ekki aðeins til þeirra allra vandfýsnustu, heldur einnig til tuga eða hundraða þúsunda kaupenda.

Packard mátti telja handhafa titilsins í aldarfjórðung, frá ca 1930-1955, en síðan tók Cadillac við frá 1955 og hélt sessinum í 20-25 ár.

En Benz S hefur haldið sínu frá 1979 eða í meira en 30 ár, lengur en nokkur sambærileg bílategund hefur gert.

Ég á nokkra fornbíla, aðallega smábíla eða örbíla. Ef ég mætti velja mér lúxus fornbíl til að eiga sem jafnframt gæfi hámarks nútímalega hönnun og ferðaþægindi, en þó viðunandi bensíneyðslu myndi Benz SEL með V-8 frá árunum 1982-88 verða fyrir valinu. 

Þrátt fyrir mikið rými og þægindi aðeins rúmlega 1600 kílóa bíll með eyðslu niður í 9 lítra á hundraðið á þjóðvegi.

En Mercedes Benz 190 '65 kæmi líka vel til greina.


mbl.is Tæknivæddasti fólksbíllinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hrein og endurnýjanleg orka" áfram orðin tóm?

"Fyrirmynd annarra þjóða í umhverfismálum." "Hrein og endurnýjanleg orka". Stór orð í stjórnarsáttmála.

Vonandi fylgja orðunum efndir, en til þess þarf meira en orðin tóm.  

Það er búið að nota þau aftur og aftur í áratugi á sama tíma en skuldbindingar okkar í Ríósáttmálanum um sjálfbæra þróun og að náttúran njóti vafans hafa verið að engu hafðar.

Á síðasta hálfum öðrum áratug hefur verið virkjað álíka mikið afl í gufuaflsvirkjunum og nemur allri orku virkjananna á Þjórsár- Tungnaársvæðinu.

Því er blákalt haldið fram að orkan sé "hrein og endurnýjanleg" þótt settar séu niður þær forsendur að hún endist í aðeins 50 ár. Það heitir rányrkja á Íslensku.

Með Eldvarpavirkjun á að stytta líftíma svæðisins Svartsengi-Eldvörp niður fyrir 40 ár!  

Barnabörnum okkar er ætlað að standa uppi síðar á þessari öld og ráða fram úr afleiðingum græðgi okkar, ónýtum virkjanasvæðum og eyðileggingu náttúruverðmæta.

Það á að vera hægt að nýta jarðvarmann svo hann endist betur, en þá þarf gerbreytingu á orkunýtingarstefnunni sem nú beinist að því að halda áfram að umturna náttúruverðmætum á fullri stóriðjuhraðlestarferð.  

"Hreina orkan" er þess eðlis að loftgæði á höfuðborgarsvæðinu standast ekki lágmarkið, sem sett er í Kaliforníu svo mánuðum skiptir á hverju ári og fara hvað eftir annað niður fyrir íslensk heilsuverndarmörk.

Ekki er að sjá að faghóparnir, sem gerðu rammaáætlun, hafi áttað sig á því að loforðin um að koma í veg fyrir mengun frá gufuaflsvirkjunum í mati á umhverfisáhrifum þeirra urðu einskis virði.

Nú á samkvæmt stjórnarsáttmálanum hins vegar að hengja sig á álit faghópanna sem eins konar guðsorð til þess að geta haldið áfram hernaðinum á hendur náttúruundra Mývatnssveitar og Reykjanesskagans.  

Þótt reynt væri í fyrri valdatíð Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks að nota umhverfisráðuneytið  sem eins konar þjónustustofnun fyrir iðnaðar- og landbúnaðarráðuneytin var umhverfisráðuneytið þó sjálfstætt að nafninu til og hafði sinn sérstaka ráðherra.

Í ljósi þeirrar reynslu hringir það bjöllum að nú eigi það að vera undirráðuneyti hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.

Komandi ríkisstjórn á að dæma af verkum hennar. Vonandi verða þau góð og því ástæða til að óska henni velfarnaðar. En þá þurfa efndir að fylgja loforðum.  


mbl.is Verðbólguskot verði leiðrétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gálgahraunsgerræðið: 2007 af verstu gerð.

90 þúsund bílar aka um Miklubrautina við Elliðaár, þar sem eru stærstu gatnamót landsins og leiðir liggja til allra átta á svæði, þar sem næstum 200 þúsund manns búa.

Í hvaða heimi lifir meirihluti bæjarstjórnar Álftanes að gera ráð fyrir fjórföldun umferðar út á Álftanes upp í 22 þúsund bíla á dag til byggðar, þar sem 2700 manns búa?

Þessi tala, 22 þúsúnd bílar á dag,  er langt utan við veruleikann eins og samanburður við aðra staði á höfuðborgarsvæðinu sýnir vel.

Á tíma, þegar velta þarf fyrir sér hverri krónu í útgjöldum þjóðfélagsins líta þessir menn á það sem sjálfsagðan hlut að þeim verði gefnir milljarðar af fjármunum landsmanna til að þjóna mikilmennskubrjálæði þeirra. 

Orðið 2007 er oft notað um loftkastala og sápukúlur í framkvæmdum og fjármálum, sem náðu nýjum hæðum það ár. Gálgahraunsgerræðið er 2007 af verstu gerð.  

Sigurður Sigurðarson notar rétta orðalagið í bloggi sínu: Þeir ætla að hrauna yfir allt og alla, nokkuð sem yfirvöldum tókst ekki hér um árið þegar leggja átti hraðbraut eftir endilöngum Fossvogsdalnum með talsvert skárri rökum en nú á að beita í Gálgahrauni.

Í dag dytti engum í hug að leggja hraðbraut eftir Fossvogsdal. Þar eru nú griðasvæði fyrir fólk og fugla í skógarlundum þar sem hægt er að "upplifa kjarrið í kyrrðinni". 

IMG_8178

Í Gálgahrauni er enn hægt að "upplifa Kjarval í kyrrðinni" við frægar hraunmyndanir og söguslóðir með fótatak genginna kynslóða á dýrmætu svæði, sem er á náttúruminjaskrá, en það ætla jarðýtufíklarnir að hrauna yfir í orðsins verstu merkingu.  

Í lögum er gert skylt að skoða lausn, sem liggur nærri núverandi stöðu mála varðandi vegabætur, en því harðneita hinir yfirgangssömu ráðamenn sem hafa vanist völdum og það miklum og langvarandi völdum. Vald spillir og mikið og langvarandi vald gerspillir.

Vel er hægt að bæta Álftanesleið um sömu slóðir og hún liggur nú með breikkun vegar, tveimur hringtorgum og stýrðum umferðarljósum eins og íbúar vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið sætta sig vel við.

IMG_8185

 En jarðýtufíknir valdsherrar geta ekki látið sér neitt venjulegt nægja. Framkvæmdaleyfið er útrunnið og margt annað er bjagað en engu er líkara en að þeir telji það úrslitaatriði að geta verið hálfri mínútu fljótari á fund forsetans ef svo ber undir.   


mbl.is Breyta ekki fyrri áætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri samfelldur snjór en í mörg ár á NA-hálendinu.

Meiri samfelldur snjór er nú á norðausturhálendinu en ég hef séð í mörg ár seinni partinn í maí. 

Hins vegar hefur snjór á suðvestanverðu hálendinu hefur sjaldan verið minni á þessum árstíma.

Myndirnar hér á síðunni voru teknar í flugi á TF-REX í gær, en þá var bjart á norðausturlandi.img_8285.jpg

Það voru viðbrigði að fara héðan að sunnan og enda ferðina eins og í annarri heimsálfu hinum megin á landinu. 

Það þurfti að krækja suður fyrir Mýrdalsjökul og fara síðan þvert norður yfir miðjan Vatnajökul, en veðraskil með þykkum skúra- og éljaskýjum lá frá vestanverðum Skeiðarársandi norður yfir miðjan Vatnajökul.

IMG_8310

Þegar komið var á norðanverðan jökulinn blöstu Kverkfjöll og Herðubrreið við. 

Varla var á dökkan díl að sjá, sem er ólíkt því sem verið hefur undanfarin vor.

Það er auðvelt að fylgjast með veðri þarna heima hjá sér á vefnum vedur.is, en mjög fáa daga hefur hitinn farið yfir frostmark seinni part vetrar og miklu oftar úrkoma á þessu úrkomuminnsta svæði landsins en venja er en hins vegar lítið um stórviðri. 

Sauðárflugvöllur var þakinn jafnföllnum snjó eins til eins og hálfs metra þykkum eins og sjá má.

IMG_8421

Veðurmælingastöð Veðurstofunnar er skammt suðvestan við völlinn.

Í baksýn í 35 kílómetra fjarlægð eru Kverkfjöll.

Það, hve sléttur snjórinn er, staðfestir það að ekki hefur verið stórviðrasamt í vetur, sem og það að báðir vindpokarnir eru heilir, en þeir endast yfirleitt ekki nema 2-3 ár ef stórviðrasamt er. 

Í gær var þarna logn eða andvari eins og sést á vindpokunum.

IMG_8419

Í fyrra opnaðist völlurinn um mánaðamótin maí-júní en spáð er svölu veðri næstu dagana svo að búast má við að völlurinn og slóðar um norðausturhálendið opnist mun síðar en í fyrra.  

Síðustu þrjá daga hefur hitinn komist upp í nokkur stig yfir bládaginn, en það hefur hrokkið skammt. 

 Stafirnir SA á þaki húsbílsins, sem er þarna sem flugstöð og athvarf, eru síðari hlutinn af alþjóðlegum einkennisstöfum flugvallarins, sem eru BISA.

IMG_8420

BI er tákn fyrir Ísland en SA eru tveir fyrstu stafirnir í "Sauðárflugvöllur", þ. e. Sauðarflugvöllur International Airport !  


mbl.is Snjórinn lætur undan eftir langan vetur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Tapararnir" eru oftast alltof margir.

Það er út af fyrir sig gott að setja sér einhver markmið til að keppa að að ná. Hitt er verra ef markmiðin eru þess eðlis að yfirgnæfandi líkur séu fyrir því að þurfa að upplifa tap og hafa lagt svo mikið á sig og vænst svo mikils að afleiðingin verði alvarleg fráhvarfseinkenni, stórfellt andlegt áfall og þunglyndi. 

20. mínútna stuttmyndin "Þú verður að líta vel út" sem frumsýnd var á Reykjavík Short Docs á dögunum dregur upp eftirminnilega mynd af þessu.

Söguhetjan fer í keppni sem krefst ofurmannlegrar áreynslu og gríðarlegs álags á löngu tímabili.

Keppnin er þannig sett upp að aðeins lítill hluti þeirra, sem taka þátt, komast áfram, og í lokin kannski aðeins einn, en yfirgnæfandi meirihluti ber ekkert úr býtum annað en djúpsár vonbrigði eftir ofurmannlegar fórnir, sem virðast ekkert hafa gefið, heldur þvert á móti kostað allt of mikið.

Umgerð svona íþrótta, andinn að baki þeim, og keppnin sjálf þarf að breytast svo að sem flestir, helst allir, sem taka þátt, fái verðskuldaða umbun fyrir að hafa lagt sig svo mikið fram að aðdáun ætti að vekja í stað vissrar "útskúfunar" .

Þegar horft var yfir allan þáttakendahópinn í myndinnni blasti við hrífandi mynd af stórkostlegum árangri og yfirgengilegum fórnum hjá stórum hópi fólks.

Það eitt hefði átt að tryggja það að hver og einn hefði getað unað vel við sinn hlut þegar upp var staðið.

Í staðinn snýst allt um þá fáu eða kannski bara þennan einn sem sigraði og hinir sitja eftir með sárt ennið og "lúsers"-stimpilinn.

Og uppleggið, sem orða mætti í orðum Snæfríðar Íslandssólar, "frekar þann versta en þann næstbesta" er augljóslega allt of algengt og innprentað hjá of mörgum.  


mbl.is Þú verður að „tjilla“ meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Dautt nafn á blaði eða exelskjal" varð að lifandi manneskju.

"Dautt hafn á blaði eða exelskjal frekar en lifandi manneskja" voru orð, sem hrutu af mér í bloggpistli um uppsögn Láru Hönnu Einarsdóttur í gær. 

Ég hef verið í langri og strangri hálendisferð í dag og frétti því fyrst nú að í raun hefði þetta gerst í máli hennar, - framkvæmdastjórinn kveðst ekki hafa vitað um veikindi hennar og stöðu og nafn hennar hefði þar með verið eitt af mörgum á blaði.

Það er gott að vita af því að brugðist hafi verið rétt við og að nú hefur "dautt nafn á blaði eða exelskjal" breyst í lifandi manneskju, sem eftir áratuga farsælt starf og þjónustu fannst það ósanngjörn höfnun hvernig komið var fram við hana beint í kjölfar strangrar veikindameðferðar og hygg ég að fáir lái henni það.

"Aðgát skal höfð í nærveru sálar" kvað skáldið, og lærdómurinn af þessu máli og viðbrögð og vinnubrögð verða vonandi öllum til góðs.  

 

 


mbl.is Uppsögn Láru dregin til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldur er huglægur og afstæður.

Þegar ég var yngri var ég viðbúinn því að elliárin yrðu grá, guggin og leiðinleg. Það yrði dapurleg hugsun að vera á "síðasta snúningi", farinn af kröftum til sálar og likama. 

En þetta er afstætt. Ég hef alltaf haft gaman af að hreyfa mig og tók þátt í íþróttum ungur, þótt ég gæfi mér ekki nema nokkrar vikur árin 1964 og 196 til að æfa frjálsar þrisvar í viku.

Þegar ég var kominn yfir fimmtugt fann ég hins vegar út að ánægjan af því að hreyfa sig væri afstæð.

Þótt tímarnir í 100 og 200 væru ekki hinir sömu og fyrr, voru þeir þó góðu lagi fyrir minn aldursflokk.

Síðast hljóp ég 100 sumarið 2006 á 15 sekúndum og huggaði mig við það að það væru ekki margir 66 ára sem það gerðu.

Það er búið að skera hnén á mér þrisvar en það er líka hægt að finna djók út úr því, sem sé nýyrði yfir það að vera aumur og með verki í hnjánum: "Að vera sárhnjáður." 

Og er ánægður með það að þótt læknirinn bannaði mér að hlaupa, bannaði hann mér ekki að læðast hratt, sem þýðir að hlaupa upp stigana í Útvarpshúsinu frá kjallara upp á 5. hæð á 30 sekúndum. 

Samt nauðsynlegt að vilja gera betur og oftar, ná af sér tíu kílóum og bæta tímann um nokkrar sekdúndur.   

Og ég get, vegna hnjánna, ekki ætlast til að geta rennt mér á skíðum framar og verið að því fram undir tírætt eins og Stefán Þorleifsson.  

Án þess að hafa búist við fæ ég heilmikið grín út úr ellinni. Til dæmis þessi djúpu sannindi, sem ég fattaði ekki fyrr en komið var á áttræðisaldurinn: "Því lengur sem maður lifir, því meiri líkur eru á því að maður drepist."  

Gamla fólkið, sem söng " DAS, DAS,DAS! og aftur DAS!" 70 sinnum í röð á einum degi fyrir sjónvarpsauglýsinguna var að vonum orðið þreytt og þá fórum við að gantast með fleiri útgáfur, t. d. þessa fyrir þá sem væru í dópinu á Hrafnistu: "Gras, gras, gras og aftur gras!", - nú eða fyrir þá sem væru veikir fyrir víni: "Glas, glas, glas og aftur glas!" 

Engu var líkara en að Sjómannadagsráð tæki okkur á orðinu, því ekki var liðið nema hálft ár þangað til það var kominn vínbar á Hrafnistu!

En auðvitað er ekki hægt að plata lífsklukkuna, sem er í genunum okkar og er stillt á ákveðinn árafjölda og hann mismunandi fyrir hvern og einn.

Og ekki heldur hægt að plata arfgenga veikleika fyrir ákveðnum sjúkdómum, öldrun eða kvillum nema kannski með því að haga sér í samræmi við það eða með dramatískum aðgerðum eins og leikkonan fræga greip til.

En ég held að við getum samt bætt líf okkar að einhverju marki eða eða lengt það með hegðun okkar og þó fyrst og fremst með hugsun okkar, sem má halda ferskari með því að þjálfa heilann á hverjum degi. 

Fyrirmyndin okkar, þegar allt er sem erfiðast, ætti að vera hetjan, "sprengjumaðurinn", sem fótalaus og blindur, eigandi eftir aðeins fjóra lífdaga, hékk í rúminu í heimildamyndinni "Hvellur" og var spurður hvernig hann hefði það.

Svarið var í Íslendingasagnastíl: "Ég hef það eins gott og ég get ætlast til."

Flottasta tilsvar sem ég hef lengi heyrt.  

Þetta er stóra hetjan, sem við ættum að hugsa til þegar alvarlega gefur á bátinn.  


mbl.is Skíðar og golfar á 97. aldursári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grimm höfnun; - eitt það versta sem hægt er að gera einni manneskju.

Það veitt mér nýja innsýn inn í mismun á rekstrarformum að vinna fyrst í 19 ár hjá Sjónvarpinu, síðan í sex og hálft ár á Stöð 2 og svo aftur hjá Sjónvarpinu.

1988 réði enn talsvert ríkjum svonefndur "unionismi" hjá RUV; - einn maður var í flestum tilfellum ráðinn til að gegna einu ákveðnu starfi og engu öðru. 

Eitt lítið en lýsandi atvik sýndi þetta vel. Eitt sinn þegar ég kom inn í förðun hjá Heiði Ósk Helgadóttur um sexleytið sagði hún við mig: "Ég er alveg að gefast upp á þessu starfi."

"Af hverju?" spurði ég.

"Ég er búin að vera hérna frá því klukkan níu í morgun," svaraði hún,"og hef aðeins farðað einn haus. Svona aðstæður drepa hverja manneskju niður".

Þessi ósveigjanleiki kerfisins var ein af ástæðum þess að ég ákvað að breyta til og fara upp á Stöö 2 og var svo lánsamur að geta gert það án þess að leiðindi hlytust af. Áttaði mig ekki til fulls fyrr en síðar hve mikið lán þetta var.   

Uppi á Stöð 2 blasti við gerólkt ástand, að vísu mikil baráttugleði, en ekki síður gríðarlegt vinnuálag, streita og ákveðinn ótti við afar ótryggar viinnuaðstæður og hættu á uppsögnum vegna þess að hagur fyrirtækisins var árum saman á ystu nöf, líkt og í öndunarvél, enda fór fyrirtækið í þrot tveimur árum eftir að ég byrjaði þar, en nýir eigendur lífguðu það við. 

Ég sá marga starfsmenn keyra sig út, til dæmis tæknimenn, sem hlupu á milli mismunandi tækja og verkefna myrkranna á milli eins og hrædd dýr, en það var eins alger andstæða við tilfelli sumra hjá Sjónvarpinu og hægt var að hugsa sér.

Nokkur ár liðu og þá gerðist eftirminnilegur atburður, sem risti djúpt.   

Einn af millistjórendum fyrirtækisins hafði kvöld eitt í lok janúar haldið uppörvandi "brainstorm" fund fyrir sína undirmenn í húsnæði úti í bæ, sem var afar uppbyggjandi og skemmtilegur.

Ákveðið var að endurtaka þetta í janúarlok árið eftir. En þegar fólk kom á fundinn dundi áfallið yfir.

Eigendurnir höfðu skipað millistjórnandanum með engum fyrirvara að nota fundinn til að afhenda stórum hluta undirmanna sinna uppsagnarbréf á þessum fundi með stysta mögulega uppsagnarfresti, af því að daginn eftir væri 1. febrúar og það mætti ekki bíða með þetta deginum lengur.

Allir urðu niðurbrotnir við þetta, ekki síst millistjórnandinn, sem átti ekki um neitt annað að velja en að hlýða skipunum ef hann vildi halda starfinu og vissi þar að auki, að ef hann gerði þetta ekki, yrði fólkinu samt sagt upp.  

Fundurinn breyttist í martröð þar sem fólki voru afhent umslög og vissi ekki fyrr en það kom út þessari snubbóttu byrjun og endi fundarins, hvort í umslaginu væri uppsagnarbréf eða ekki.

Ég minnist þess enn hve mér þótti þetta ferlegar og mannskemmandi aðfarir.

Síðar kom í ljós að eigendurnir höfðu farið á taugum og hægt var að ráða megnið af fólkinu aftur, misjafnlega fljótt þó.

Eftir á að hyggja hefðu þessar harkalegu fjöldauppsagnir aldrei þurft að eiga sér stað.  

Uppsagnir, sem svona eru framkvæmdar, fela í sér eitthvert mesta andlegt ofbeldi, sem hægt er að beita fólk og nefnist höfnun.   

Svo er stundum að sjá að til séu þeir, sem ráða fyrirtækjum og líti á fólkið, sem vinnur hjá þeim, eins og nöfn á blaði, dauð exelskjöl, en ekki lifandi fólk sem hafi tilfinningar, búi við misjöfn kjör og heilsu eftir atvikum, og eigi rétt á því sem stendur í 8. grein frumvarps stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár: 

8. grein.

Mannleg reisn.

Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna. 

Ég tel mig hafa verið aðnjótandi mikillar heppni og gæfu að öll samskipti mín við yfirmenn mína á Stöð 2 og hjá Sjónvarpinu voru á þann veg að aldrei bar skugga á, og að ég fékk að flytjast á milli stöðvanna fram og til baka í tvígang án þess að nokkur leiðindi yrðu.

Þegar ég sagði upp á Stöð 2 og fór aftur niður á Sjónvarp gerðist það á þann einstaka hátt, að uppsagnarfresturinn var sex mánuðir, en samt vitnaðist þetta ekki fyrr en eftir að fimm mánuðir voru liðnir af honum, svo orðheldnir voru þeir sem að því stóðu. 

Ég verð ævinlega þakklátur fyrir öll árin sem ég fékk að vinna hjá báðum þessum fyrirtækjum og þess vegna verð ég þeim mun daprari sem ég heyri af tilfelli eins og nú blasir við hjá Láru Hönnu Einarsdóttur.  

 

 


mbl.is Sagt upp eftir 25 ára starf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munurinn á Afríku og Íslandi.

Í því Afríkulandi, sem ég þekki best til, eru þjóðartekjur á mann 300 sinnum minni en á Íslandi. Íslendingur hefur sem sé um það bil jafn miklar tekjur á degi hverjum og meðaljóninn í Eþíópíu hefur allt árið. 

Þegar flogið er yfir landið blasa við óteljandi strákofaþorp og bæir þar sem reykur stígur upp úr strákofunum þegar fólk er að elda mat eða hita á næturna.

Í landinu blasa við gríðarlegir virkjanamöguleikar í bæði vatnsfafli og jarðvarma. 

Ég hef ekki séð í neinum handbókum að í þessu landi sé að finna svæði, sem sé í flokki mestu náttúruundra heims. Hinn eldvirki hluti Íslands er hins vegar í hópi 40 mestru undranna, þar sem sjálfur Yellowstone þjóðgarðurinn kemst ekki á blað.

Inga fossarnir í Kongó eru ekki fossar í þeim skilningi, sem við Íslendingar notum í því orði, heldur ógnarlangar flúðir sem samanlagt gera þær að vatnsmestu flúðum heims. Að því leyti eru þær merkar, þótt ekki falli þær í sama flokk og til dæmis Viktoríufossarnir og aðrir frægustu fossar heims og komist á blað í flokki mestu náttúruundra heims. 

Þótt Íslendingar væru fátækir þegar virkjun Gullfoss og annarra fossa komst á dagskrá fyrir 100 árum, var fátæktin ekki slík sem hún er í Afríku. Við fórnuðum fossum og flúðum þegar við rafvæddum landið til að koma rafmagni inn á hvert heimili, hvern bæ og í hvert fyrirtæki.

Við þurrkuðum upp Ljósafoss, Írafoss, Tröllkonuhlaup, Þjófafoss, Hrauneyjafoss, Mjólkárfossa, Skeiðsfoss, Lagarfoss o. s. frv.

Þar með þurftum við ekki að kvíða rafmagnsleysi, kvíða þeim skorti og skerðingu grundvallar lífsgæða, sem stendur milljörðum jarðarbúa fyrir þrifum. 

Með uppþurrkun fossanna í Þjórsá og Tungnaá var hins vegar gengið lengra og virkjað fyrir erlend stóriðjufyrirtæki. Um það var þó sæmileg sátt í þjóðfélaginu og ég var í hópi þeirra sem taldi það nauðsynlegt til að minnka einhæfni útflutnings okkar. 

Einnig lagði ég trúnað á loforðin um stórfelldan innlendan iðnað við að framleiða vörur úr áli, - loforð, sem, eftir á að hyggja, voru barnaleg. 

IMG_0098

Með Kárahnjúkavirkjun  var hins vegar farið út á alveg nýja braut, þ. e. að framkvæma mestu mögulegu óafturkræfu umhverfisspjöll sem möguleg voru á Íslandi og það á svæði, sem var eitt hinna 40 merkustu á jörðinni.

Með þeirri virkjun einni voru aflífaðir margir tugir fossa, þeirra á meðal þrír af tólf stórfossum landsins, Töfrafoss, Kirkjufoss og Faxi, en þó voru þau spjöll og dráp lífrikis Lagarfljóts smámunir einir miðað við spjöllin af völdum Hálslóns. 

 

P.S. Í athugasemd hér fyrir neðan er því enn einu sinni haldið fram, að ef hleypt yrði úr Hálslóni myndi Hjalladalur og landslag hans verða eins og áður var.

Þó var vitað, áður en farið far út í virkjunina, að ofan í þennan 25 kílómetra langa og 200 metra djúpa dal steypast 10-20 milljónir tonna af jökulauri á hverju sumri og að dalurinn verði orðinn hálffullur af auri, leir og sandi, á þessari öld.  

Spáð var fyrir virkjun, að aur myndi fylla gilið Stuðlagátt, sem þveráin Kringilsá fellur um,  og hylja Töfrafoss efst í því á 100 árum. Myndin hér að ofan sýnir þetta 150 metra djúpa gil aðeins tveimur árum eftir að virkjað var og í stað þessa gils eru nú á hverju vori, þegar lægst er í lóninu, sléttar jökulleirur og stuðlabergsgilið með fossum sínum komið á 100 metra dýpi i aurnum.

Því var líka haldið fram að Töfrafoss myndi standa hálfur upp úr lóninu þegar það er fullt. Í staðinn er það svo að lónið fer meira en kílómetra upp fyrir fossinn þegar það er fullt og að allt svarta landið, sem blasir við, eru dökkar leirur framburðar Kringilsár, sem kaffært hafa land, sem áður var grænt og gróið 2ja- 3ja metra þykkum jarðvegi.  

Af hverju halda menn að fagfólk rammaáætlunar hafi úrskurðað að þessi virkjun fæli í sér mestu "óafturkræfu" umhverfisspjöll Íslands?  Bara út í loftið?  

 

 


mbl.is Heimsins stærsta vatnsaflsvirkjun í Kongó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband