Færsluflokkur: Bloggar

Best að fagna varlega. "Sama athugasemdin"?

Ég man hvað ég varð glaður í mars 2000 þegar sú frétt barst út, að vegna þess að 120 þúsund tonna álver í Reyðarfirði væri allt of lítið til að vera arðbært væri hætt við Fljótsdalsvirkjun.

En fögnuðurinn stóð aðeins í nokkra mánuði. Þá kom í ljós að þetta var bara upptakturinn að því að fara út í þrefalt stærra álver með margfalt verri óafturkræfum náttúruspjöllum.

Skipulagsstofnun, Landsvirkjun og fleiri mæltu gegn þeirri framkvæmd en sá fögnuður stóð aðeins í nokkra mánuði þangað til þáverandi umhverfisráðherra sneri úrskurðinum við af dæmafárri ósvífni. 

Af þessu má læra það, að enda þótt fagna megi einstökum sporum, sem tekin eru í rétta átt, má ekki vanmeta einbeittan brotavilja virkjanafíklanna gegn íslenskrum náttúruperlsum, sem finnur jafnvel stórtækari leiðir fyrir framgang sinn en áður hafði þekkst.

dscf0916[1]

Ég lagði talsverða vinnu og tíma í það á sínum  ásamt henni Helgu minni að kynna mér virkjanafyrirætlanir í Skjálfandafljóti, bæði skýrslur og áætlanir um þær og ekki síður að fljúga yfir virkjanasvæðið og ferðast um það á landi til að taka af því myndir og gera síðan eins vandaða umsögn um það fyrir Framtíðarlandið til rammaáætlunar og mér var unnt.

Þá kom bara blaut tuska framan í mig og 225 aðra, sem unnið höfðu að umsögnum um virkjanakostina í rammaáætluninni: "Þetta var allt sama athugasemdin." Fjölfölduð.

p1012569[1]

Ég hef nokkrum sinnum áður sýnt með umfjöllun og myndum hér á bloggsíðunni um hvað er að ræða.

Það á að sökkva 25 kílómetra djúpum dal, Krókdal, grónum að hálfu, undir miðlunarlón og þurrka upp fossa, þeirra á meðal Aldeyjarfoss og Hrafnabjargarfoss.

Sífellt sé tönnlast á að með miðlunarlónum á hálendinu sé bara verið að sökkva gróti, urð og eyðisöndum, þótt með Kárahnjúkavirkjun hafi til dæmis verið sökkt 40 ferkílómetrum og næstum svo miklu gróðurlendi með Blönduvirkjun, svo dæmi séu tekin.

p1012582[1]

  

Krókdalur er lítt þekkt en einstök gróðurvin og veðraskjól sem teygir sig inn langt í norðurhálendið, en nær engir vita um, af því að Sprengisandsleið þræðir hálsa og hálendi vestur af dalnum í stað þess að liggja eftir honum í skjóli hans, gróðri og fegurð, þar sem Bárðarbunga gnæfir í fjarska í suðri á fallegum dögum.

dscf0852[1]

Fagna ber að sjálfsögðu ákvörðunum Þingeyjarsveitar og Orkuveitu Reykjavíkur um að koma ekki nálægt þessum náttúrufórnum, en á hitt ber að líta, að Hrafnabjargavirkjun er enn í biðflokki og að mikil ásókn er í að koma slíkum virkjunarkostum í orkunýtingarflokk.

Því ber okkur í ljósi fyrri reynslu að vera áfram á varðbergi og láta ekki stinga okkur svefnþorni.

Fyrir neðan myndina af Aldeyjarfossi er mynd af skála í miðjum dalnum, þar sem við Helga hittum fólk sem þar var.

Það trúði okkur ekki þegar við sögðumst vera að taka myndir af skálanum og dalnum, vegna þess að til stæði að sökkva bæði dal og skála, auk þess að þurrka upp fossana.

Ég sagði þeim, að venjulegasta leiðin í svona málum væri, að bjóða upp á að skálinn yrði færður það ofarlega upp í austurhlíð dalsins að hann yrði á þurru landi.

p1012590[1]

Og enn síður trúði blessað fólkið þessu.

Íslenska virkjanasóknin felst í því að fara að með leynd, - sjá svo um að sem fæstir og helst engir viti hvað til stendur.

Það eitt, að sýna það eða upplýsa það nægir til að stimpla þann, sem gerir það, sem "óvin landshlutans númer eitt."  

 


mbl.is Fagna niðurstöðu Þingeyjarsveitar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öðruvísi staða en 1970, því miður.

Það vantaði ekki gyllingarnar fyrir Gljúfurversvirkjun 1970. Hún átti að færa Þingeyingum mikla atvinnu við virkjanaframkvæmdirnar rétt eins og álver við Eyjafjörð og Blönduvirkjun áttu að "bjarga" Eyjafirði og Húnvetningum 20 árum síðar. 

Húnvetningar vöknuðu upp við vondan draum þegar virkjanaframkvæmdum lauk og þeir sem unnu við framkvæmdirnar misstu atvinnuna og fólksflótti brast á.

Og Hrunárin 2008-2011 fækkaði fólki á Austurlandi, þar sem risaálver reis, á sama tíma sem fólki fjölgarði á álverslausu Norðausturlandi.

Þeir, sem beittu "túrbínutrixinu" 1970 til þess að svínbeygja alla undir gerðan hlut, ráku sig á órofa andstöðu landeigendanna sem valta átti yfir.

Af þessu lærðu virkjanamenn. Síðan þá er það fyrsta verkefni virkjanafíklanna að lokka landeigendur til fylgis við virkjanirnar á sem fjölbreyttastan hátt.

Það tókst fyrir austan þótt landeigendur þar þykist nú margir hverjir hafa verið illa svikna. 

Landeigendur Reykjahlíðar hafa lykilaðstöðu í Mývatnssveit. Líkast til er landið, sem þorpið í Reykjahlíð stendur á, hið eina slíka á Íslandi, sem er ekki í almannaeigu heldur landeigandans.

Reykjahlið var lengi talin stærsta bújörð á Íslandi, náði allt norður í Gjástykki, norður fyrir Dettifoss og upp í Vatnajökul.

Landeigendur Reykjahlíðar "eiga" Gjástykki-Leirnjúk, Kröflu, Hrafntinnuhrygg, Bjarnarflag, norðausturströnd Mývatns, Námaskarð, Hveraröndina og Dettifoss.

Kannski einnig ennþá Herðubreiðarlindir og Herðubreið, Öskju og jafnvel Kverkfjöll, þótt þau séu austan við Jökulsá á Fjöllum. Að minnsta kosti stóð deila á tímabili yfir milli þessara óseðjandi landeigenda og nágranna þeirra austan ár um eignarhaldið á skálastæðinu í Kverkfjöllum.

Engin ein bújörð á Íslandi hefur fært landeigendum sínum eins mikil náttúruverðmæti á heimsvísu og Reykjahlíð.  

Grímsstaðir á Fjöllum eru hreinir smámunir miðað við það.  

Landeigendurnir Reykjahlíðar fóru hamförum í þremur Morgunblaðsgreinum í hitteðfyrra í því skyni að heimta virkjun í Gjástykki og andmæla því að svo mikið sem fermetri af svæðinu fyrir norðaustan Mývatn slyppi við það að verða iðnaðar- og mannvirkjasvæði. 

Í græðgisþjóðfélaginu, sem hefur verið fóstrað hér, var þessi hegðun landeigendanna afar skiljanleg, þar sem gróðinn er ekki aðeins trúaratriði, heldur líka að hann fáist sem allra fyrst, helst í gær, skítt með afleiðingarnar fyrir landið, náttúru þess og komandi kynslóðir.

Þeir, sem ætla að sjá um áframhald hernaðarins gegn landinu, sem Laxness skrifaði um árið 1970, eiga því mun auðveldara með það núna en fyrir 43 árum, ekki bara í Mývatnssveit, heldur víðast annars staðar að fá sínu framgengt.

Á Íslandi, eins og í vanþróuðum ríkjum Afríku, kostar aðeins brot af gróða hinna erlendu stóriðjufyrirtækja til að fá landeigendur til fylgis við nánast hvað sem er undir kjörorðinu "take the money and run".  Þess vegna er staðan öðruvísi nú á Laxár-Mývatnssvæðinu en hún var 1970.  

Landeigendunum nægir ekki hvernig Mývatn er nú að komast á válista í kjölfar rúmlega 30 ára starfrækslu Kísiliðjunnar. Nei, þeir geta þess sérstaklega hve mjög þeir sakni hennar og vilji nú verða margfalt stórtækari í háskaleiknum með þetta einstæða samspil lífríkis og jarðmyndana sem vatnið er.

Landeigendurnir beina athyglinni frá gróðafíkn sinni með því að segjast vera að berjast fyrir fleiri störfum í byggðarlaginu. Reynsla Húnvetninga er það ólygnust og þegar framkvæmdum lýkur munu mun færri störf til frambúðar skapast við Bjarnarflagsvirkjun en við Kísiliðjuna, þótt virkjunin sé margfalt stærri framkvæmd.

Hvað ylrækt snertir þarf engin 45-90 megavött til hennar.  

Fyrir um 15 árum var það nefnt af hálfu Íslendinga að Þingvellir og Mývatn kæmust á heimsminjaskrá UNESCO.

Þingvellir komust á skrána um síðir, en heimsminjaskrárhugmyndin um Mývatn með Kísiliðjuna rétt hjá og námavinnslu í vatninu sjálfu vakti vorkunn og aðhlátur.

 

 


mbl.is Landeigendur vilja virkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf "Höfuðborgarlistinn" að koma fram?

Margt gott er að segja um nýtt aðalskipulag Reykjavíkur og um allan heim reyna menn það, sem þarna á að reyna, að gera byggðina þéttari. 

Reynslan af þéttingu byggðar á að vera sú að ungt fólk vilji eiga heima sem næst miðju borgarsamfélagsins, miðjum byggðar og atvinnustarfsemi.  

En ekkert verk verður betra en forsendur þess og það eru augljósir vankantar á því að gera aðalskipulag fyrir aðeins rúman helming íbúa á höfuðborgarsvæðinu og taka ekki hinn helminginn með í reikninginn.

Þannig ætti að gera eitt aðalskipulag fyrir allt svæðið að mínum dómi og miða til dæmis við miðju byggðar og miðju atvinnustarfsemi á öllu svæðinu en ekki bara Reykjavíkur einnar.

Þá grunar mig að koma myndi í ljós að vaxandi atvinnustarfsemi í Smárahverfinu í Kópavogi og víðar myndi breyta forsendunum talsvert, en Smárahverfið er nær stærstu krossgötum landsins heldur en Vatnsmýri og gamli miðbær Reykjavíkur, fyrst menn eru að tala um að þétta byggð inn við miðjur íbúðabyggðar og atvinnustarfsemi.

Reynslan af þéttingunni við Skúlagötu er sú að þar er húsnæði svo dýrt að ungt fólk sést þar varla.

Í þau skipti sem ég er þar á ferð sé ég engin börn, ekkert líf.

Hætta er á því að svipað myndi gerast í íbúðabyggð á núverandi flugvallarsvæði og að afleiðingin verði öfug við ætlunina, það er, að unga fólkið telji sig þurfa að fara í úthverfin, eða öllu heldur til nágrannasveitarfélaganna.

Þetta yrði hugsanlega "fínt" hverfi eins og Skúlagatan er, enda eru miðjur byggðar og atvinnustarfsemi á höfuðborgarsvæðinu fyrir löngu komin svo langt frá gamla miðbænum, að hverfi í Elliðavogi og nálægt stærstu krossgötum landsins þar í grennd, eru nær þeim.   

Ég fékk ekki svar við spurningum mínum um það hvar þessar miðjur byggðar og atvinnu væru á höfuðborgarsvæðinu og skil ekki hvernig menn geta komist hjá því að finna þær og skilgreina fyrst, áður en farið er af stað með aðalskipulag.

Alveg ný rök heyrðust frá þremur borgarfulltrúum varðandi innanlandsflug og staðsetningu aðalflugvallarins fyrir það.

Ein voru þau að það myndi menga minna þótt allir ækju á einkabílum sínum milli Akureyrar og Reykjavíkur í stað þess að fljúga. 

Frábært! Förum nú aftur til tíma siglinganna og mengum minna með því að fara með skipum til útlanda heldur en að fljúga !  

Önnur voru þau að það myndi spara mikil opinber útgjöld til flugmála ef innanlandsflugið legðist af.

Betra væri að verja þeim peningum til heilbrigðis- og menntamála.  

Hin þriðju voru þau að nú væri líklega að koma nýjung til sögunnar sem gæti tekið við af innanlandsfluginu, ferðir strætisvagna Reykjavíkur milli Akureyrar og Reykjavíkur!

 Ég ferðaðist með strætó frá Hvolsvelli fyrir nokkrum dögum og sá ekki að neitt hefði breyst frá því að Sterna var með fastar áætlunarferðir á þessari leið annað en það að nú voru þessir örfáu farþegar í miklu stærri og eyðslufrekari rútu !

Og ekki sýndist mér að hraðar væri farið yfir eða á þægilegri hátt þótt eigandinn væri Reykjavíkurborg!

Í útreikningnum um sparnaðinn við það, að allir ækju á milli Akureyrar og Reykjavíkur var ekki minnst á það að hálf milljón farþega í innanlandsflugi myndu samtals missa um 2-3 milljónir vinnustunda í ferðalögin en það gerir um 3-4 milljarða króna.

Sagt var að flugvöllurinn þyrfti ekki að vera eins nálægt spítala og nú er og sagt að staðsetning sjúkraflugsins á Akureyri styddi það að það gæti vel verið þetta fjarri.

Þarna er um kostulegan misskilning að ræða, því að gildi sjúkraflugsins fyrir fólk úti á landi felst í því að sjúkraflugvélarnar séu sem næst sjúklingunum, sem flytja þarf frá landsbyggðinni til Reykjavíkur, ekki öfugt !  

Sagt var að nálægð spitalans við flugvöllinn skipti mun minna máli en það að færir læknar og sjúkralið væru nálægir úti á landi þegar þörfin krefði. Það væri aðalatriðið, ekki tíminn sem tæki að flytja sjúklinginn.

Ég á eftir að sjá að hægt, bæði hvað snertir að fá í það mannskap og að fá í það fjármagn að hægt sé að vinna tímamuninn upp með því að auka svo viðbúnaðinn með læknum og færu sjúkraliði út um allt til að vinna það upp.

Þetta stangast á við það sem læknar sjálfir og sjúklingar hafa sagt.  

Ég verð að játa, að ég undraðist þá hugsun, sem þarna kom fram. Vitað er að flugið í heiminum stendur aðeins fyrir um 10% af loftmengun af völdum samgangna og að það er hinn hversdagslegi akstur hundraða milljóna manns á hverjum degi  sem er megin vandamálið.

Sama á við á Íslandi. Akstur 200 þúsund bíla á hverjum degi er viðfangsefnið og með ólíkindum að telja það lausn á því vandamáli að leggja niður innanlands einn af þremur þáttum nútímasamgangna, sem eru landsamgöngur, samgöngur á sjó og samgöngur í lofti.

Ef svo fer fram sem horfir að þessi sjálfhverfa hugsun og afturför í samgöngumálum þjóðarinnar eigi að ráða ríkjum hjá ráðamönnum fæðingarborgar minnar er mér öllum lokið.

Það eru hins vegar borgarstjórnarkosningar á næsta ári og þá verður kannski grundvöllur fyrir framboð þeirra borgarbúa, sem líta ekki aðeins með stolti á það að vera Reykvíkingar, heldur ekki síður með stolti á það að vera Íslendingar sem búa í höfuðborg, sem stendur undir nafni.

Í mínum huga er hún ekki bara borgin mín heldur borg allra landsmanna.     


mbl.is Engin ný úthverfi á aðalskipulagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf fræðslu um ofursterk ljós.

Ég minnist þess enn þegar ég uppgötvaði sólina í fyrsta sinn. Ég var fjögurra ára og hafði farið með öðrum krökkum og fullorðnu fólki út á túnið, sem var fyrir austan gatnamót Samtúns og Nóatúns. 

Ég lá í sumarhitanum undir heiðum himni í grasinu og fór að horfa beint upp í sólina og minnist þess hvernig ljós hennar virtist koma eins og sjóðheitar bylgjur inn í augu mín.

Mörgum árum síðar var mér sagt frá því, að ef ég hugsanlega hefði ég stórskaðað sjónina ef ég hefði horft einhverjum sekúndum lengur svona inn í hana.

Börn eru forvitin og stundum áköf í að uppgötva fyrirbrigði tilverunnar.

Ég held að þörf sé á að þau séu frædd um hætturnar, sem geta fylgt því að horfa inn í ofurskær ljós, hvort sem það er hið stærsta og skærasta, sólin sjálf, eða sakleysilegir leysibendar.  


mbl.is 13 ára missti sjón eftir leysibendi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ruslflokkurinn þá bara misskilningur?

Í tíufréttum í kvöld var greint frá því að lánshæfi Alcoa sé komið niður í ruslflokk og að ástæðan sé taprekstur fyrirtækisins vegna offramboðs og verðlækkunar.

Í lok ráðstefnu Ísorku kom fram að orkuverðið hjá okkur sé um 20 mills en framleiðslukostnaður okkar 40 mills og því drjúgt tap þar líka. 

Svo er hins vegar að sjá af hamagangi Samáls og annarra, sem nú hafa heldur betur tekið við sér, að allt sé í himnalagi og neikvæðar fréttir af Alcoa séu byggðar á "misskilningi og rangfærslum", þannig að Guðbjört Gylfadóttir og hennar persóna sé orðið aðalatriðið í þessu máli.

Kostulegt að sjá þetta!    


mbl.is „Fara í manninn en ekki málefnið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og Bjarni Fel sagði oft: "Betri en enginn"!

Þegar síbyljan um að ný og ný álver séu það eina sem geti "bjargað þjóðinni" eins og nú er boðað sem forgangsverkefni daglega á fyrstu vinnudögum nýrrar ríkisstjórnar er gott að eiga mann eins og Andra Snæ Magnason, sem hefur sérhæft sig í að afla efnahagslegra upplýsinga og vinna úr þeim.

Allt frá útkomu bókarinnar "Framtíðarlandið" má með sanni segja það sama og Bjarni Fel sagði svo oft þegar hann vildi hæla einhverjum í hástert: "Hann er svo sannarlega betri en enginn!"  

Athugasemdir Andra Snæs um fullyrðingar Samáls ættu að vera skyldulesning þessa dagana og framlag hans til þeirra mála, sem hann hefur látið til sín taka, hefur verið ómetanlegt.

Í kosningabaráttunni 2007 ákvað ég að reyna að einfalda mikilvægasta málefni hennar sem mest með því að nefna aðeins eina tölu og biðja fólk um að muna hana: 2%.

Hún væri lykiltala til skilnings á því að fráleitt væri allt tal um það að álver og aftur álver væri það eina sem gæti "bjargað þjóðinni" og að "eitthvað annað" væri vonlaust og fjallagrasatínsla nefnd í því sambandi.

Ef reist yrðu sex risaálver sem framleiddu 2,5 milljónir tonna árlega og tækju til sín alla fáanlega orku landsins sem rústaði öllum helstu náttúruperlum þess, myndu aðeins 2% vinnuaflsins fá vinnu í þessum álverum.

Eftir stæðu 98% sem féllu undir hugtakið "eitthvað annað."

Augljóst væri að stóriðjustefnan væri ekki aðeins vonlaus sem lausn á atvinnuvandamálum þjóðarinar, heldur líka langsamlega dýrasta og dýrkeyptasta stefnan. 

Og jafnvel þótt menn legðu álframleiðslunni til annað eins í "tengdum störfum" yrði samtala aldrei hærri en 5% og þá stæðu eftir 95% sem yrðu að starfa við "eitthvað annað".

 

P. S.   Í fréttum nú klukkan tíu að kvöldi var sagt frá því að búið væri að fella lánshæfi Alcoa niður í ruslflokk. Ástæðan væri tap fyrirtækisins vegna offramboðs og verðfalls. Á öðrum stað á blogginu er öllum efasemdum um Alcoa hins vegar vísað á bug sem "misskilningi, rangfærslum og staðreyndavillum".  Fréttirnar þessar um ruslflokkinn falla þá sennilega undir það og eru bara bull. Smile  


mbl.is Alvarlegar athugasemdir við Samál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvíþætt misrétti kynslóðanna og þöggun.

Rányrkja felur í sér misrétti kynslóðanna. Ein eða örfáar kynslóðir taka sér það vald að klára auðlindir svo að kynslóðirnar, sem á eftir koma, njóti einskis af þeim og standi jafnvel frammi fyrir stórfelldum óförum og vá vegna græðgi og siðleysi fyrri kynslóða. 

Þetta er að gerast nú og í stað þess að Íslendingar séu til fyrirmyndar í auðlindanýtingu og auglýsi það óspart um allan heim að við séum það,  gerum við í raun þveröfugt í stórum hluta orkunýtingar okkar og ætlum að bæta í með vinnslu olíu á Drekasvæðinu.

Samgöngutæki okkar eru þau mest mengandi í Evrópu. Við erum sóðar í þeim efnum og fleirum.  

Olíuöldin hefur þegar náð hámarki, af því að héðan af verður æ dýrara og erfiðara að finna og vinna olíu, og eru hugmyndir um að vinna olíu á meira en þúsund metra dýpi á Drekasvæðinu gott dæmi um það.

Í ofanálag mun áframhaldandi og jafnvel vaxandi notkun olíu auka enn á misrétti kynslóðanna, vegna þess að komandi kynslóðir munu þá þurfa að fást við stórfelldari loftslagsvá og umhverfisvanda en dunið hefur yfir heimsbyggðina síðustu árþúsundin.

Til þyrfti að vera embætti umboðsmanns komandi kynslóða, sem hefði það hlutverk að tryggja hlut þeirra.

Væri svo, myndi hann beita sér fyrir því að frestað yrði að vinna olíu á Drekasvæðinu, ef hún er á annað borð vinnanleg, eða að minnsta kosti að gera áætlun um að dreifa vinnslu hennar yfir á minnst 200 ár, en það var viðmið "frumstæðra" indíánaþjóðflokka í Ameríku varðandi góðyrkju og sjálfbæra þróun í stað rányrkju.

Athyglisvert er, að á tveimur ráðstefnum í röð hafa ráðamenn kosið að svara ekki fyrirspurnum okkar Ara Trausta Guðmundssonar eða að svara þeim út í hött.

Mín fyrirspurn var varðandi það, hvort við Íslendingar skulduðum ekki sjálfum okkur og umheiminum það að sjá svo um að vera raunverulega í fararbroddi við að nýta "endurnýjanlegar orkulindir"í stað þess að fela hinn óþægilega sannleika, og spurning Ara Trausta á ráðstefnunni í gær var í raun um það sama, en um annað svið orkunýtingar.

Það er umhugsunarefni fyrir fleiri en okkur, að spurningar okkar, sem eru grundvallarspurningar á heimsvísu, teljist ekki svaraverðar.

Í gangi er síbylja rangra fullyrðinga og þöggun varðandi annað en það, sem passar fyrir þessa síbylju. Sömuleiðis þöggun gagnvart þeim  sem spyrja óþægilegra spurninga.  


mbl.is Íslendingar hætti við olíuleit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóriðjulestarhraði á stóryfirlýsingum ráðherra.

Daginn sem ríkisstjórnin tók við völdum bloggaði ég um að það væri oft gott að fá nýtt fólk með ferskrar hugmyndir til að taka að sér verk og að ástæða væri að óska ríkisstjórninni velgengni í störfum.

Hún hefði háð kosningabaráttu út á eitt afmarkað mál, lausn á skuldavanda heimilanna, og nú væri framundan starfið við að efna loforðin.

Kyrfilega hafði af hálfu flokkanna verið komist hjá því að ræða um það mál, sem mér fannst langstærsta málið, stóriðju- og virkjanamálin, sem vörðuðu hagsmuni komandi kynslóða um alla framtíð.  

Ekki óraði mig fyrir því að á fyrsta vinnudegi sínum daginn eftir kæmi í ljós hvert væri hið raunverulega forgangsmál valdsherranna og yrði strax í kjölfarið áréttað og ítrekað af alls fjórum ráðherrum, jafnvel oft á dag á hverjum af fyrstu þremur valdadögum  stjórnarinnar.

IMG_8686

Því síður átti ég von á athöfn líkri þeirri sem fór fram við Stjórnarráðshúsið síðdegis i dag og þarf minnst þrjár ljósmyndir, teknar í þrjár áttir, til að fanga.

Á þeirri neðstu afhendir Guðmundur Hörður Guðmjundsson, formaður Landverndar, aðstoðarmanni forsætisráðherra, 225 fjölbreyttar umsagnir sem bárust til iðnaðarráðuneytisins vegna rammaáætlunar.  

IMG_8684

En nú liggur það ljóst fyrir, án nokkurrar samræðna eða nýrra vinnubragða við ákvarðanir, sem lofað var í stjórnarsáttmála:

Forgangsmál ríkisstjórnarinnar númer eitt, tvö og þrjú er að reisa bæði risaálver og kísilver í Helguvík, sem munu þurfa 800 megavött eða um hundrað megavöttum meira en álverið á Reyðarfirði fékk með Kárahnjúkavirkjun.

Hálft landið njörvað í mannvirki á annnars tugs virkjana, og stór hluti þeirra fólgin í rányrkju og eiturlofti.  

Skuldavandi heimilanna verður hins vegar settur í nefnd.

Það hefur verið stóriðjulestarhraði á stóryrðum ráðherra, meðal annars þeim að ekkert væri að marka umsagnir, sem bárust um virkjanakosti rammaáætlunar af því að þær hefðu nær allar verið ein og sama athugasemdin, fjölfölduð í 400 eintökum.

IMG_8683

Ég minnist þess ekki að nýrri ríkisstjórn hafi á jafn skömmum tíma í upphafi ferils síns löðrungað jafn marga þeirra, sem hún talaði samt um í byrjun að ætti að sameina til verka í uppbyggilegum og málefnalegum farvegi.  

Glæsileg nær 2000 manna athöfn við Stjórnarráðshúsið síðdegis í dag var haldin með aðeins dags fyrirvara, en hraðinn helgaðist af þeim stóriðjulestarhraða sem hefur verið á yfirlýsinga ráðamanna.

IMG_8681

Ekki grunaði neinn, að innan við mánuð frá 5000 manna grænni göngu, þyrfti aftur að grípa til grænu fánanna.  

Tengd frétt á mbl.is greinir nánar frá fundinum, en ávörp tveggja ungmenna í lokin snart þann streng, sem mikilvægastur er í þessu máli, að núverandi kynslóð vaði ekki yfir rétt og hagsmuni komandi kynslóða í græðgisæði.

Skutla inn nokkrum ljósmyndum sem ég tók af fundinum, en ég tók líka upp kvikmyndir til að safna í sjóð minninga um baráttuglatt hugsjónafólk.  


mbl.is Leiðrétta misskilning ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþjóðlegt "skrifæði" á fuglaveiðum.

Í þessari fyrirsögn er nýyrði: "Skrifæði". Hingað til hefur verið látið nægja að nota orðið "skrifræði" en "skrifæði" er hástig þess, þegar það er komið út fyrir öll skynsamleg mörk.

Líkast til hefur þeim litlum flugvélum og svifflugum, sem hafa lofthæfi hverju sinni, fækkað um helming hér á landi á fáum misserum. Það er verið að drepa þetta flug niður eins og kemur fram í tengdri frétt  um svifflugur á mbl.is

Ástæðan er skrifæði sem veldur því að nú felast allt að 70% vinnu við viðhald og skoðanir flugvélanna í pappírsvinnu en 30% í raunverulegri viðhaldsvinnu. 

Þetta er alþjóðlegt vandamál, en það verður enn verra þegar teknar eru upp sérreglur á einstökum svæðum. Þannig eru sumar reglurnar í Evópu þannig, að í þeirri álfu eru gerðar meiri kröfur en í Ameríku þar sem flestar flugvélarnar eru þó smíðaðar. 

Síðan eru sumar reglurnar þannig að þær eiga alls ekki við í okkar dreifbýla landi langt frá öðrum löndum þótt þær kunni að eiga við á svæðum, þar sem hægt er á klukkustund að fljúga yfir fimm lönd með fjölda milljónaborga.  img_4792_1203098.jpg

Nýjasta dæmið: Ég varð að endurnýja hreyfilinn á TF-FRÚ fyrir sjö árum og var ráðlagt að kaupa nýja loftskrúfu með honum þótt sú gamla hefði hentað betur persónulega fyrir mig varðandi nauðsynlegustu eiginleika vélarinnar, að vera sem duglegust að komast á loft á erfiðum lendingarstöðum. 

Ég ákvað að geyma gömlu skrúfuna, svo ég gæti notað hana til vara ef eitthvað kæmi upp á með þá nýju.  Báðar skrúfurnar eru af einföldustu gerð, fastar skrúfur, sem hafa enst bæði hér á landi og í framleiðslulandinu, Bandaríkjum, áratugum saman án vandræða, ef rétt er staðið að meðferð þeirra. 

En nú bregður svo við að í Evrópu eru settar reglur þess efnis, að á sjö ára fresti verði að setja allar svona skrúfur í gagngera yfirhalningu eða endurstillingu, jafnvel þótt þær séu ekkert notaðar! 

Þar með urðu báðar skrúfurnar mínar, sú sem hefur staðið ónotuð í sjö ár, og hin, sem aðeins hefur flogið í nokkur hundruð klukkustundir, ónothæfar, jafnvel þótt framleiðandinn bandaríski telji að allt í lagi sé að nota þær ! 

Í ofanálag má ekki senda skrúfuna til framleiðslulandsins til þess að láta skoða hana þar, heldur verður að senda hana til Evrópu í hendur á viðurkenndu "CAMO" verkstæði í þeirri álfu. 

Jafnvel framleiðandanum sjálfum væri ekki treyst til að framkvæma þetta skrifæði. 

Þetta vesen getur tekið nokkra mánuði, og nær daglega horfi ég svekktur á skrúfuna, sem ég hef geymt ónotaða í sjö ár og sendur upp á endann í horninu á vinnuherbergi mínu í Útvarpshúsinu.

Stundum sé ég í anda möppudýrin, sem fyrir þessu fargani standa, sem fuglaveiðimenn, sem hafi yndi af því að skjóta niður litla vélfugla í stað venjulegra fugla. 

Ég hef af því fregnir að þeir fari jafnvel saman í veiðiferðir til einstakra landa.

 Ég hef því, að því að ég sjálfur tel og líka bandaríski framleiðandinn,verið FRÚarlaus að óþörfu undanfarna mánuði og sé ekki fram úr því hvernig ég á að takast á við þann aukakostnað, sem fylgir því og gera skrúfuna nothæfa í samræmi við skrifæðisreglurnar. img_8285_1203099.jpg

Af þessum sökum fór ég á afar smárri flugvél Jóns Karls Snorrasonar, TF-REX, í myndatökuferð yfir Hálslón um daginn, en sú flugvél hefur bjargað mér í svona tilfellum þótt hún sé svo lítil, að ég komist aðeins einn fyrir í henni og geti ekki notað nema litlar ljósmyndavélar eða minnstu kvikmyndatökuvélar. img_8394.jpg

Set inn eina mynd úr þeirri ferð. Á henni sést Hálslón þakið ísi og snjó vinstra megin eins og mjó læna, en svæðið frá bakkanum upp að vegi yst hægra megin, er á þurru, og lónið kemst ekki upp að honum fyrr en síðsumars. 

Í baksýn eru Kárahnjúkastífla, Fremri-Kárahnjúkur og Desjarárdalsstífla. 

Ég hef einnig notað TF-TAL Sverris Þóroddssonar í styttri myndatökuferðum, sem er þrisvar sinnum kraftmeiri, stærri og öflugri flugvél, en það er auðvitað að sama skapi dýrari. img_8258.jpg

TF-REX fer í ársskoðun um mánaðamótin og TF-TAL síðar í sumar svo að missir TF-FRÚ verður æ bagalegri, einkum vegna þess að ég hef þegar lagt í kostnað, sem verður að greiða, jafnvel þótt flugvélin komist ekki í loftið. 

En við þessu er ekkert að gera. Þann sama dag og við Íslendingar myndum segja okkur frá alþjóðlegu samstarfi í flugmálum myndi þjóðfélag okkar einfaldlega stöðvast. 

Ég veit, að tveir flugmálastjórar, sá franski og sá íslenski, gagnrýndu þetta ástand kröftuglega á fundi EASA í fyrra, en alþjóðlega skrifræðið og skrifæðið, þegar svo ber undir, er einfaldlega þess eðlis, að ekkert virðist geta komið viti inn í  þann risavaxna möppudýragarð.   


mbl.is Dani skoðar svifflugurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Damoklesarsverð betra orð ?

"Snjóhengjan" svonefnda var strax komin til sögunnar síðustu árin fyrir Hrun þótt menn kysu að láta sem hún væri meinlaus og raunar afar jákvætt fyrirbæri að erlendir menn vildu fjárfesta í íslenskum krónum. 

Ég minnist þess að hafa notað orðið "Damoklesarsverð" sem líkingu, ógn, sem hengi yfir okkur og yrði erfitt að fjarlægja, því hættan á mistökum væri sú að það félli í höfuð okkar.

Líkingin á svo vel við, því að Damokles skipti um sæti við Dýonisus af því að hann hélt það fylgdi sæti hans svo mikil gæfa og heppni. 

Hann komst að öðru, því að í einu hrosshári yfir sætinu hékk hárbeitt sverð. 

Líklegra var þetta réttari líking en snjóhengjan hvað snertir það að ekki væri gefið, að sverðið þyrfti að falla, ef rétt væri og nógu snemma brugðist við, en það gerði Damokles með því að fara aftur í sitt fyrra sæti.

Snjóhengjulíkingin er hins vegar réttari hvað varðar það að snjóhengjur stækka oft.

Kannski væri réttast að tala um stækkandi Damoklesarsverð? 

 


mbl.is Snjóhengja ekki rétta orðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband