Færsluflokkur: Bloggar

"Jesús minn, hvað hann er flottur!" "Negldi þetta!"

Eyþór Ingi fór ekki aðeins afburða vel með lagið sem við sendum í Evrovision að þessu sinni, bæði með söng, framkomu, túlkun og útliti. Hann höfðaði til gamalla tilfinninga í undirmeðvitundinni varðandi það hvernig Jesús Kristur leit út og heillaði alla með útgeislun og töfrum fyrir næstum 2000 árum.

Þegar Eyþór Ingi rétti út hendurnar var hann þar að auki kominn i krossfestingarstellinguna og manni datt í hug hvernig Kristur hefði litið út á krossinum í svona flottum nútíma samkvæmisklæðnaði, ekki hvað síst þegar hann kreppti hnefann í lokin í svipaða stellingu handarinnar og er á öllum myndum af Kristi á krossinum. 

Og þegar maður talar og skrifar svona er maður kominn á hálar og varasamar slóðir þar sem má misskilja það sem sagt er og skrifað. 

Ég er staddur í árlegu Evróvision-teiti fjölskyldunnar í húsakynnum elsta barnsins okkar og manns hennar og þegar kallað er upp "Jesús minn, hvað hann er flottur!" er það svolítið glannalegt.

Og enn glannalegra getur það virst þegar sagt er í fyrirsögn mbl.is "Eyþór Ingi negldi þetta!" og maður les þetta á sama tíma og á skjáinn kemur mynd af Eyþóri Inga í krossfestingarstellingunni.

Nú er talningin nýhafin og eins gott að láta staðar numið með því að segja að þátttaka okkar að þessu sinni var með miklum sóma, hver sem stigatalan verður að lokum.  


mbl.is Eyþór Ingi negldi þetta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinir "frumstæðu" og "vanþróuðu" þjóðflokkar.

Þegar Evrópubúar komu til Ameríku uppgötvuðu þeir það, sem við köllum "frumstæða" og "vanþróaða" indíánaþjóðflokka.

Þessir vesalingar leituðust við að horfa sjö kynslóðir fram í tímann þegar þeir ákváðu hverju sinni hvernig nýta skyldi gæði jarðarinnar. 

Þeir töldu sig ekki hafa burði til að sjá lengra fram en um það bil 200 ár,  en á móti kom, að við hver kynslóðaskipti, féll elsta kynslóðin frá og við það færðist viðmiðið einni kynslóð lengra fram í tímann.

Þessir "vanþróuðu" og "frumstæðu" þjóðflokkar lifðu þar með í samræmi við kröfur Ríósáttmálans 1992 um sjálbæra þróun, það er, nýtingu jarðarinnar gæða án rányrkju. Kröfur, sem við undirrituðum að hlíta en höfum nær ekkert farið eftir.   

Berum þetta nú  saman við kröfur hins "háþróaða" samfélags okkar. Nú er eina ferðina enn verið að setja saman stjórnarsáttmála, sem horfir fjögur ár fram í tímann. Mikil framsýni þar.  

Höfð er hliðsjón af sjónarmiðum "aðila vinnumarkaðarins". Þau sjónarmið miðast við næstu kjarasamninga, þ. e. eitt til tvö ár. Framsýnin er í tímalengd aðeins 1% af framsýni "vanþróuðu" indíánanna. 

Valdamennirnir gera þá einu aðalkröfu að hagvöxtur aukist upp í 3,5% hið snarasta. Þessi krafa er algild og víkur öllu öðru til hliðar. Annars verða allir svo óhamingjusamir.

Eða er það? Hagvöxtur síðustu 60 ár hefur víst verið slíkur að samsvarar því að hagkerfið okkar hafi tífaldast að minnsta kosti. Sjást þess einhver merki að vellíðan og hamingja okkar hafi tífaldast líka?

Ef gerð verður krafa um að hagkerfið tífaldist á hverjum 60 árum, verður það orðið þúsund sinnum stærra eftir sjö kynslóðir en það er nú. Er líklegt að afkomendur okkar eftir 200 ár verði þúsund sinnum hamingjusamari en við? 

Hinir "vanþróuðu" og "frumstæðu" indíánar hefðu auðvitað aldrei látið sér detta neitt slíkt í hug, vegna þess að þeir hefðu haft nógar upplýsingar til að sjá að auðlindirnar sem þeir lifðu á, væru víðsfjarri því að geta staðið undir slíkum kröfum.

Nú sjá ráðandi öfl í þjóðfélagi okkar engin ráð til að uppfylla kröfuna um tafarlausa hagvaxtarþenslu nema að ráðast í öflun 625 megavatta orku á annan tugs virkjana allt frá Reykjanestá austur í Skaftafellssýslu og upp á hálendið til þess að gefa 0,3 % íslensks vinnuafls atvinnu til frambúðar í einu stykki risaálveri.

Að vísu eiga 2% vinnuafls landsmanna að fást við virkjanaframkvæmdir fyrir álverið en það gleymist að þegar þeim lýkur eftir nokkur ár, verða þessi 2% vinnuaflsins atvinnulaus og margt af þessu fólki hefur þá vanrækt að mennta sig á dýrmætum æviárum.

Raunar sýnir reynslan af Kárahnjúkavirkjun, að mestallt vinnuaflið var innflutt og flutti síðan aftur úr landi. En það skiptir ekki máli í huga hinna "háþróðuðu" valdamanna, sem hugsa aðeins 1-4 ár fram í tímann og verða að uppfylla kosningaloforðin strax.

Og það skiptir heldur ekki máli þótt helmingur orkunnar, sem afla á, muni verða uppurin eftir nokkra áratugi og eftir standa ónýt og orkulaus svæði þar sem miklum náttúruverðmætum hefur verið fórnað.

Það eru bara "vanþróaðir" og "frumstæðir" þjóðflokkar sem pæla í slíku.   

 


mbl.is Vestrænt stjórnkerfi úrelt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leggur og skel ?

"...Drottinn leiði drösulinn minn,

drjúgur verður síðasti áfanginn..."

 

     Nei, afsakið. Bráðum, á ekki einn einasti Íslendingur eftir að skilja þessar ljóðlínur og eins gott að fara að breyta þeim. 

     Áfangi er nefnilega ekki nógu fíint orð, heldur verður að nota enska orðið "leg" til að færa málið í nothæft horf, það er, sem líkast ensku, helst alveg enskt. 

 

     "Goddi lídi gæðinginn minn,

      greit verður lastasti leggurinn... 

 

    Þetta er allt annað. Haldið þið að það sé munur! 

 

 

 

 

 

      


mbl.is Guðni Páll orðinn sár í lófum eftir róður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Fólk er fífl" 2: Þarf að skoða vel hið keypta.

Þessi bloggpistill er eiginlega framhald af pistli frá í gær með heitinu "fólk er fífl"  um það hvernig maður getur verið "fífl" árum og áratugum saman. 

Dæmi frá því í fyrradag.  

Ég kynnti mér lauslega laglegan átta ára gamlan japanskan 4x4 bíl af smærri millstærð , sem var auglýstur til sölu og myndi kannski henta konu minni. Í stórri handbók um alla bíla heims var gefið upp að hægt væri að fá bíla af þessari gerð og þessari árgerð bæði sjálfskipta og beinskipta, og að þessi var sjálfskiptur.

Gefið er upp í öllum bestu handbókunum um þetta módel að sjálfskiptingin sé svonefnd CVT-skipting, sem er stiglaus án gíra og velur sjálf óendanlega mörg þrep. Gefin upp sem sparneytnari skipting en þessar venjulegu. 

En þegar litið var á bílinn kom hins vegar í ljós að svo var ekki, heldur var þetta venjuleg sjálfskipting og ekki aðeins það, heldur af afar einfaldri, ódýrri og leiðinlegri gerð sjálfskiptinga með aðeins tveimur þrepum, efri stig og neðra stig, sem Japanir hafa lengi vel framleitt fyrir allra ódýrustu og einföldustu bíla sína.

Einhvern veginn hefur skolað þarna til landsins bíl með öðruvísi sjálfskiptingu en gefin er upp fyrir Evrópumarkað.  

Í handbókum er gefið upp að þetta sé svonefndur "jepplingur" með 17 sm veghæð.

Þegar bílstjórinn er sestur upp í bílinn lækkar hann niður í 15-16 sm og þegar hann er fullhlaðinn er veghæðin orðin 12 sm og bíllinn auðvitað þá ekki jeppi frekar en hvaða fólksbíll, sem er. Auk þess er hann ekki með háu og lágu drifi eins og sannir jeppar verða að hafa. 

Í gangi er nefnilega alheims blekkingaleikur varðandi veghæðir bíla sem byggist á því að ljúga engu en segja aðeins hálfan sannleikann, sem getur verið verri en lygi.

Í þessum leik taka allir þátt, framleiðendur, bílablöð og bílablaðamenn, að mér sjálfum meðtöldum, því að enginn þorir að taka sig út úr og fara að leggja fram önnur gögn en orðin eru að staðli til samanburðar. Það var fyrst í gær sem ég gaf mér tíma til að framkvæma mælingar sjálfur á veghæð "jepplings" til að sannreyna það sem ég hef vitað í hálfa öld. 

Hér áður fyrr var oftast gefin upp veghæðin þegar bíllinn er fullhlaðinn. Gamla Bjallan var gefin upp með 15 sm veghæð, en var óhlaðin með veghæð, sem nú yrði talin vera veghæð "jeppa". 

Fyrir 15 árum var eitt bandarískt neytendatímarit sem mældi þetta sjálft en hætti því síðan af ókunnum orsökum, enda voru veghæðartöliurnar hjá flestum "jeppunum" og "jepplingunum" aðeins 11-14 sm og öll hin blöðin héldu sig við veghæð á bílnum, sem enginn maður ók og hældu jafnvel torfærueiginleikum þeirra í umsögnum !   

En aftur að "jepplingnum" sjálfskipta. Ekki gafst tími til að athuga hvort skipt hefði verið um tímareim við 100 þúsund kílómetra á þessum bíl, en bíllinn var ekinn 130 þúsund kílómetra.

Bíllinn seldist nefnilega á augabragði. Nýr eigandi trúir því væntanlega að hann aki um á jeppa eða jepplingi með fullkomnustu og nýtískulegustu sjálfskiptingu sem völ er á og hefur sennilega engar áhyggjur af því þótt tímareimin geti farið hvernær sem er með minnst 100 þúsund króna kostnaði en hugsanlega margfalt meiri kostnaði.

Í skilmálum vegna sölu á bílum segir að kaupanda sé skylt að kynna sér hvað hann kaupir og ef hann gleymir að athuga hvort skipt hafi verið um tímareim á réttum tíma, ber hann ábyrgð á því.

Veghæðina og að bíllinn sé sjálfskiptur "jepp"lingur getur seljandinn auglýst með góðri samvisku.

Eitt umboðið auglýsir nú að nýr 4x4 bíll, sem það selur, sé "jeppi" með 21 sentimetra veghæð.

Þegar fjórir hafa sest upp í "jeppann" með sinn farangur er veghæðin sennilega 14 sentimetrar og nef bílsins skagar flatt langt fram úr honum og er líkara tönn  á veghefli en framenda á "jeppa".

Ekkert lágt drif er á þessum "jeppa" frekar en öðrum svipuðum. Hátt og lágt drif er reyndar til frekar lítils á "fullkomnum jeppa" sem er aðeins með 12-13 sm veghæð, þegar hann er fullhlaðinn.

Hvernig stendur á því að við tökum öll þátt í þessum leik? Svarið er einfalt: Kannanir sýna að meira en 95% þeirra, sem kaupa þessa svonefndu "jeppa", "jepplinga" eða "sportjeppa" aka bílnum aldrei um slóðir, sem krefjast jeppaeiginleika. Bílarnir eru í raun tískufyrirbrigði og stöðutákn hjá flestum og rokseljsast sem slíkir.

Og slíku verður að viðhalda vegna þess að þar með erum við komin að einum helsta drifkrafti guðs okkar tíma, "hins veldisvaxandi hagvaxtar" og "aukningar neyslu og framleiðslu" sem verður að þenja áfram af vaxandi hraða, hvað sem það kostar, jafnvel þótt það kosti "hrun" þegar auðlindir jarðar þverra.

Þjóð sem ekki þenur hagvöxt, er ekki samkeppnisfær.   

Ég hef orðið vitni að og heyrt margar sögur af atvikum, þar sem ferðafólk lenti í vandræðum á óbyggðaslóðum á Íslandi vegna þess að það trúði því að það væri að ferðast um á "jeppa".

En slíkar sögur liggja yfirleitt í þagnargildi því að enginn vill viðurkenna að um svona lagað gildi setningin "fólk er fífl".  

  


mbl.is Vandræði fylgja rafbílum frá Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Fólk er fífl" ?

Ofangreind setning er höfð eftir manni, sem var á fundi, sem ku hafa snúist um það hvernig hægt væri að lokka neytendur og kemur í hug þegar alls konar afslættir eru sagðir veittir tímabundið á vörum eða þjónustu .

Þetta blasir við okkur á hverjum degi. Dæmi: Maður kaupir sér rafknúið tæki eins og ódýran farsíma en týnir hleðslutækinu. Þegar á að kaupa þann hlut, sem augljóslega er margfalt einfaldari og ódýrari en síminn bregður svo við að verð þess slagar hátt upp í verð símans eða tækisins, að hleðslutækinu meðtöldu.

Hafi maður verið svo óheppinn að týna rafhlöðunni líka, er verðið á henni og hleðslutækinu komið upp fyrir verð símans með rafhlöðu og hleðslutæki.

Dæmi um hliðstæður þessa eru endalaus. Allt er gert, sem hugsanlegt er til að fá fólk til að kaupa hin og þessi tæki og búnað, fá það til að bíta á krókinn, með því að selja þau á kostnaðarverði eða jafnvel undir kostnaðarverði, en ná síðan inn miklu meiri peningum ef kaupa þarf hluta þeirra eða víðbótarhluti.  "Fólk er fífl", - eða öllu heldur, "fólk er fíflað."

Síðan er undravert að sjá hve litla endingu sum nýjustu tækin eins og til dæmis tæki, sem flestir tölvu- og nettengdir verða að kaupa og mér skilst að heiti "vafrari" á íslensku.

Sá fyrsti, sem ég keypti, entist í aðeins tvö ár, svo að ég fór með hann til viðgerðar og til þess að fá útskýringar á þessu.

Sölumaðurinn var ekkert hissa á því að hlutur gerður á 21. öld entist svona illa, - sagði að þessi tæki entust jafnvel enn skemur. Já, maður heldur að tækninni hafi ekki aðeins fleygt fram sem slíkri, heldur einnig gæðum tækjanna. Nei, það "fólk er fífl" sem trúir slíku skilyrðislaust, að minnsta kosti er ég alltaf að uppgötva hvílíkt fífl og einfeldningur ég geti verið í þessu tilfelli og mörgum öðrum hliðstæðum.


mbl.is „Hafður að fífli“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er þetta í "landi frelsisins og kapítalismans"?

Aðeins sá hluti hins eldvirka hluta Íslands, sem er á vatnasviði Jökulsár á Fjöllum er fjölbreyttasta og magnaðasta eldfjallasvæði heims. Við erum að tala um eitt af 40 merkustu náttúrufyrirbærjum veraldar, og sjálfur Yellowstone þjóðgarðurinn í Bandaríkjunum kemst ekki í þann flokk.

Það varð mikið fjaðrafok í kringum Grímsstaði á Fjöllum í fyrra. Sú jörð er þó örreytiskot miðað við Reykjahlíð við Mývatn, sem að mörgu leyti hefur algera sérstöðu sem landareign, löngum talin langstærsta jörð landsins og ná allt upp í Vatnajökul með innifaldar Herðubreiðarlindir, Öskju og jafnvel Kverkfjöll.

Ekki einasta eru innan jarðarmarkanna fleiri náttúruundur en í nokkurri annarri landareign, svo sem Hverarönd, Leirhnjúkur, Gjástykki, Dettifoss o.s.frv., heldur er landið sem Reykjahlíðarþorpið stendur á, einnig í einkaeigu, líkast til eina þéttbýlið á Íslandi, sem þannig háttar um.  

Hvernig er þá staðið að umgengni við þau svæði í Bandaríkjunum, sem líkja má við náttúruundur Íslands?

Hvað gera menn í þessu "landi frelsisins", "höfuðvígi kapítalismans og hins frjálsa framtaks"?  

Jú, svona svæði hafa verið gerð að þjóðgörðum eigu bandaríska alríkisins, felld undir Þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna. Á hinum stóru hliðum við inngangana í Yellowstone og fleiri svipaða þjóðgarða standa einkunnarorðin: "For the joy and benefit of the people !" "Til yndis hagsbóta fyrir þjóðina/fólkið!"

Gestir þjóðgarðanna borga hóflegan aðgangseyri en geta líka keypt sér aðgangskort sem gildir í mörg skipti eða langan tíma og þá fyrir miklu minni upphæð fyrir hvert skipti um sig.

Auk þess fá þeir þá þjónustu og aðstoð sem nauðsynleg kann að reynast, og þrifnaður og umgengni eru í gæðaflokki, sem er óþekktur hjá okkur. 

Gestir fá í hendur vandaðan bækling með kortum og hagnýtum upplýsingum um þjóðgarðinn og þær reglur sem þar gilda til þess að vernda verðmæti hans en fá þó sem mesta ánægju út úr ferðinni um hann.

Í landi kapítalismans eru þjóðgarðarnir ekki ríkisreknir með hagnað þeirra sjálfra sértaklega fyrir augum heldur er tilgangurinn sá einn að hámarka ánægju fólks af dvölinni í þeim og varðveita náttúrufyrirbærin fyrir komandi kynslóðir.

Talið er að aukinn ferðamannastraumur og ferðamannaþjónusta í kringum þjóðgarðana geri miklu meira en að vega upp tapið á rekstri þeirra og að unaðs- og hrifningarstundir þjóðgarðagestanna verði ekki metnar til fjár. Þjóðfélagið nýtur góðs af í heild.

Fyrir 14 árum sýndi ég í sjónvarpi hvernig þessu er háttað vestra og hvernig umgengni öll og aðstaða í þjóðgörðunum þar tryggir að ekki verði náttúruspjöll eða vandræði, jafnvel þótt milljónir manna komi árlega á suma staðina.

Meðferðin og umgengnin um náttúruperlur Íslands er að verða vaxandi þjóðarskömm. Hér ræður ríkjum sérstök blanda af nísku, græðgi, rányrkju, ringulreið og ómenningu sem ekki þekkist á hliðstæðum svæðum í helsta landi kapítalismans og frelsisins.  


mbl.is Stjórnvöld sjái um gjaldtöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn einn snjólétti veturinn á hálendinu.

Það er ekki aðeins minni snjór á Langjökli, Hofsjökli og vestanverðum Vatnajökli en í meðalári heldur er alveg einstaklega lítill snjór á sunnanverðu hálendinu, svo snjólétt, að enda þótt undanfarnir vetur hafi verið snjóléttir, er þetta það minnsta sem menn hafa séð. 

Þetta segir mér Þór Ægisson, kvikmyndatökumaður Sjónvarpsin, sem er einn af stofnfélögum 4x4 klúbbsins og fer í hálendisferðir á hverjum vetri.  

Það skiptir talsverðu máli hvenær snjóar. Ef mikil snjóalög koma snemma vetrar, þjappast snjórinn saman og bráðnar seinna af þeim völdum.

Fyrstu mánuðir ársins voru einstaklega hlýir og snjólitlir, og því stærri hluti snævarins, sem komið hefur undanfarnar kaldar vorvikur.

Það má því búast við að hann hafi ekki náð að verða þéttur og að fjölförnustu hálendisleiðirnar geti orðið færar í fyrra lagi, jafnvel þótt svona kalt hafi verið og sé enn.

Nú um hvítasunnuna er spáð hlýindum og má búast við miklum leysingum norðan Vatnajökuls.  


mbl.is Minni snjór á Langjökli og Hofsjökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sama "túrbínutrixið" og fyrir norðan.

Nú er leikinn sami leikur í Helguvík og leikinn var á Bakka við Húsavík í fimm ár.

Áltrúarmenn hengja sig á álverið, sem startað var á ósvífinn hátt 2007 með því að fjórir aðilar af minnst tólf ákváðu að binda hendur allra við það að reisa 360 þúsund tonna risaálver í Helguvík, sem þurfa mun alla fáanlega orku á svæðinu frá Reykjanestá austur í Skaftafellssýslu og upp á hálendið. 

"Túrbínutrixið" er nafngift, sem ég dreg af því hvernig forráðamenn Laxárvirkjunar ætluðu á árunum 1969 og 1970 að þvinga í gegn hinni hrikalegu Gljúfurversvirkjun með því að drekkja Laxárdal,  veita hinu auruga Skjálfandafljóti í Mývatn og Laxá og búa til miðlunarlón fyrir sunnan Mývatn, sem hefði orðið stærra en Mývatn sjálft.

Keyptar voru svo stórar túrbínur að ekki yrði aftur snúið með þessar miklu ólöglegu virkjanaframkvæmdir, enda landeigendum og öðrum andófsmönnum stillt upp við vegg og þeir gerðir ábyrgir fyrir að valda miklu tjóni, ef túrbínurnar nýttust ekki .

Niðurstaðan fyrir norðan varð sú, að Laxárvirkjanamenn voru sjálfir látnir taka ábyrgð á því að hafa keypt þessar allt of stóru túrbínur.

Það sama ætti að gera í Helguvík, því að álver þar útilokar orkuöflun fyrir kísilverksmiðju þar, rétt eins og álver á Bakka útilokaði kísilverksmiðju þar á meðan það "túrbínutrix" var þar í gangi. 

Bæði á Bakka og í Helguvík er það arfavitlaus aðferð til orkusölu að binda hana strax í upphafi við einn risastóran aðila, sem gleypi allt. Með því er öll samningsaðstaða orkusalans gereyðilögð en orkukaupandanum stóra gefin óska samningaðstaða, að halda allri orkuöflun á hálfu landinu í gíslingu og þrúkka orkuverðinu niður. 

 


mbl.is Ekki liggur fyrir hvaðan orkan fyrir kísilverið kemur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afganistan aftur ?

1979 komu Sovétmenn á kommúniskri leppstjórn í Afganistan og studdu hana að sjálfsögðu eins og þeir hafa stutt stjórn Assads í Sýrlandi.

Vesturveldin studdu múslimska uppreisnarmenn í Afganistan, sem andæfðu kommúnistastjórninni og sovéska innrásarliðinu og Vesturveldin stóðu sömuleiðis fyrir refsiaðgerðum á hendur Sovétmönnum, sem eyðilögðu tvenna Ólympíuleika í röð.

Þegar kommúniska leppstjórnin hraktist frá völdum í kjölfar þess að Sovétmenn fóru með her sinn úr landinu, tóku uppreisnarmenn, talíbanar, við völdunum með þeim afleiðingum að 2001 varð það hlutverk Bandaríkjamanna að fara með svipaðan hernað og Sovétmenn 1979  inn í Afganistan á hendur svipuðum öflum.

Þarna lentu Kanarnir í því  að gera það sama og þeir höfðu fordæmt Sovétmenn fyrir 1979.

Nú er ekki víst að hægt sé að öllu leyti að líkja því sem er að gerast í Sýrlandi við hörmungarnar, sem Afganar hafa gengið í gegnum í meira en þrjátíu ár.

En sumt af því, sem nú fréttist um, vekur ugg um það að ekki verði auðveldara fyrir Vesturveldin að reyna að hafa stjórn á atburðarásinni og ástandinu í Sýrlandi heldur raun varð á í Afganistan.

Síðustu fréttir herma nú, að utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands séu sameiginlega að leita að leiðum í gegnum sérstaka ráðstefnu til þess að finna lausn á vandamálum vegna borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi.

Það bendir til þess að þeir átti sig á því að staðan sé miklu flóknari og óljósari en fyrr var haldið.  


mbl.is Sýrlandsher þrengir að uppreisnarmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur til 1979 ?

Árið 1942 skall á óðaverðbólga, hin mesta í sögu þjóðarinnar til þess tíma, vegna þenslunnar af stríðsgróðanum. Þott verðbólgan væri oftast minni eftir það var hún það mikil Í næstu fjóra áratugi á eftir, að í gangi eitt mesta þjóðfélagsóréttlæti sögunnar, sem fólst í því að þeir sem gátu komist í það að skulda sem allra mest, græddu því meir á því sem skuldirnar voru meiri. 

Á þeim tíma sem ég og mín kynslóð var að eignast þak yfir höfuðið fengum þau okkar, sem mest tókst að skulda, allt að 40% af þessari fjárfestingu gefins.

Að sama skapi töpuðu sparifjáreigendur, oft líknarsjóðir og eigendur lífeyrissparnaðar. l

Sams konar ástand nú myndi þýða að skuldarar græddu mörg hundruð milljarða, jafnvel þúsundir milljarða á kostnað sparifjáreigenda.

Það hlálega við þessi ár var það, að í gildi voru svonefnd okurlög, sem bönnuðu hærri vexti en bankarnir greiddu, og voru svonefndur "okurlánarar" illa þokkaðir og hundeltir.

Að vísu voru vextir þeirra oft réttnefndir okurvextir, en það komu líka tímabil þegar þeir voru í raun fullkomlega eðliegir og sanngjarnir.

Margir virðast búnir að gleyma að það var í þessu ástandi 1979, sem verðtrygging lána var tekin upp, og að það var ekki fyrr en eftir Þjóðarsáttarsamningana 1990 sem verðbólgan fór fyrst að hjaðna og eðlilegra ástand að skapast.

Verðtryggingin var og hefur því miður alltaf verið afleiðing af því, að við ráðum ekki við verðbólguna.

Enginn talar hins vegar um "forsendubrest" þegar sparifjáreigendur eru ekki aðeins rændir eðlilegri rentu af fjármunum sínum, heldur beinlínis féflettir hvað höfuðstólinn varðar.

Þessi mál verða aldrei í lagi fyrr en verðbólgan minnkar og ástin á skuldum og skuldurum, sem bitnar á sparifjáreigendum, víkur fyrir svipuðu ástandi og er hjá flestum öðrum þjóðum.  

 

 


mbl.is Gengur mjög á sparifé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband