Færsluflokkur: Bloggar

Gæti hækkuð þakið hálfa jörðina.

Höfuðstöðvar OR er eitt af mörgum minnismerkjum, sem ein kynslóð Íslendinga reisti um eigin græðgi og skammsýni á örfáum árum.

Stærst var Kárahnjúkavirkjun, en höfuðstöðvar Orkuveitunnar eru ofarlega á lista.

Það taka kannski ekki margir eftir því, en byggingin er hugsanlega besta tákn veraldar um eðli þess hagvaxtar og sóunar auðlinda með "exponental" eða stigvaxandi hraða, sem er trúaratriði okkar kynslóðar.

Byggingin er nefnilega mjóst neðst en breikkar eftir því sem ofar dregur. Ef byggingin yrði hækkuð og hækkuð með vaxandi hraða myndi hún smám saman þekja, - ekki aðeins allt Ísland og byrgja það undir sér, heldur hálfa jörðina þar sem meirihluti mannkyns myndi horfa lóðrétt beint upp á þetta minnismerki um stórmennskubrjálæði, flottheit, sóun og bruðl.


mbl.is Saga framúrkeyrslu og flottheita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtin örlög að vera í "Game over"-klúbbi.

Það var skrýtið haustið 2008, eftir að hafa árum saman reynt að dreifa upplýsingum sem vörðuðu aðdragandann og hugsunarháttinn, sem skópu Hrunið og varpa ljósi á óheillaþróun græðgi og skammsýni, að lenda síðan í kjölfar Hrunsins í hópi þeirra, sem sátu uppi með "Game over", þ. e. Range Rover og vera félagi í Íslandsrover félaginu. IMG_3185

En svona gerðist þetta. Eina huggunin fyrir mig var og er sú að minn Range Rover kostaði aðeins um 1-2% af verði flestra þeirra"Game Over" jeppa, sem Hruninu tengdust, eða 220 þúsund krónur, þegar ég keypti hann fyrir níu árum. IMG_3192

Og hann er orðinn fertugur, árgerð 1973 og honum er ekki ekið, nema þegar litli gamli Foxinn er of lítill fyrir jökla- eða vegleysuferðina og / eða mannskapur með í ferðinni sem krefst rýmis.

Range Rover er að mínum dómi einn af merkilegustu bíltegundunum á fyrstu bílaöldinni á Íslandi enda tímamótabíll hvað varðaði þægindi, mýkt, rými og torfærueiginleika. Að þessu leyti er hrein nautn að aka þessum gamla og þreytta Range með kraftlítilli og jafngamalli Nissan Laurel dísilvélinni um grófustu og ósléttustu slóðir landsins og þefa þannig aðeins af því sem Range Rover eigendur sækjast eftir.

Og njóta þess að það er ekki ennþá komið "game-over" á gamla Range Roverinn minn.

  

  


mbl.is Bíltúr: Á Land Rover til Bretlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamall draumur minn: "Naumhyggjubílasafn."

Örbílasafnið sem fjallað er um á mbl.is hef ég þekkt nokkuð lengi. Það er Madison í Georgiuríki í Bandaríkjunum og eitt af aðeins þremur örbílasöfnum í heiminum, sem ég hef fundið á netinu. Þá er ekki tekið með í reikninginn að á safni NSU-verksmiðjanna í Neckarsulm í Þýskalandi má sjá nokkra örbíla og í safni Jay Leno má finna örbíla.

Ég hef í 15 ár verið með augað á íslenskum örbílum til að bjarga þeim frá glötun. Árin 2005 til 2007 voru drjúg í þessu því að þá þóttu engir bílar með bílum nema þeir væru meira en þrjú tonn og með minnst 300 hestafla vélar og þeim bílum, sem þóttu hallærislega litlir var hent miskunnarlaust.

Þá fékk ég nokkra af á annan tug smábíla, sem ég hef skotið undan eyðingu, og jafnvel fengið gefins. DSCF6002

Myndin hér er af einum örbílanna minna, minnsta Mini í heimi og minnsta bíl á Íslandi. Þægilegur í þröngri umferð og nýtur sín best þar sem bílastæðaskortur er mestur!

Ég á mér gamlan draum um íslenskt örbílasafn eða öllu heldur "naumhyggjubílasafn".

Skilyrði fyrir sessi bíls á slíku safni er að viðkomandi bíll sé eða hafi á einhverjum tíma verið minnstur eða ódýrastur á Íslandi, annað hvort í heildina eða í sínum flokki.  

Kosturinn við slíkt safn er sá, að eðli málsins samkvæmt þarf til þess minnsta mögulega húsnæðið, sem hægt er að hafa bílasafn í, miðað við fjölda bílanna.

Ég geymi til dæmis fjóra örbíla í litlum bílskúr vestur í bæ, sem annars tæki bara einn bíl. IMGP0280Örbílarnir gefa möguleika til nota og ferða sem eru miklu meiri en sýnast í fljótu bragði. Þannig hefur þessi rauði Fiat 126 skilað mér um allt land, út til ystu stranda í kringum landið og um hálendið, jafnvel leiðir sem fáir leggja í að fara. Á myndinni er hann staddur á svonefndri Álftadalsleið í brekku fyrir ofan Fagradal með Herðubreið í baksýn.   IMG_3014

Örbílarnir hafa þann stóra kost, að þeir eru afar praktiskur svefnstaður vegna þess að svefnrýmið í slíkum bíl með miklum farangri er svo lítið, að bíllinn fer að nálgast ígildi svefnpoka.

Annar rauður örjeppi Suzuki Fox´85, sem er minnsti jöklajeppi landsins, hefur farið í margra daga ferðir um Vatnajökul og sést á myndinni með einum af stærri jöklajeppum landsins.  

Ef einhver veit af auðu húsnæði sem gæti hentað fyrir íslenskt örbílasafn með bílum, sem allir eiga sér merka sögu, þætti mér vænt um að frétta af því.


mbl.is „Pínulítið“ bílasafn til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lengi má lopann teygja.

Í meira en tvö og hálft ár hafa lögspakir menn í raun verið með nýja stjórnarskrá í vinnslu.

Fyrst voru þetta lögspekingar í stjórnlaganefnd, og afurð þeirra var næstum 800 blaðsíðna skýrsla með lögskýringum á öllum sviðum stjórnarskrár og í mörgum tilfellum voru settar fram tvær eða þrjár útfærslur á mögulegum ákvæðum í stjórnarskrá, og í sumum tilfellum vegna þess að lögspekingarnir voru ekki sammála.

Ástæðan er sú að lagasetning er ekki nákvæm vísindi eins og stærðfræðidæmi eða efnafræðiformúla, heldur geta lærðir og leikir verið ósammála um nánast hvað sem er.

Eitt besta dæmið er hundruð dóma Hæstaréttar þar sem dómararnir eru ósammála og meirihluti þeirra ræður.

Þegar stjórnlagaráð vann að frumvarpi um stjórnarskrána kom það upp að önnur af tveimur útfærslum var valin fram yfir hina og stundum sitt á hvað varðandi höfunda þeirra.

Fyrir bragðið urðu þeir auðvitað óánægðir í kross, sitt á hvað, og út á við var það útlagt þannig að þeir væru sammála um að gera "alvarlegar athugasemdir" við frumvarpið. ´Í vinnslu stjórnlagaráðs var allan tíman leitað stanslaust eftir álitum og athugasemdum og í stjórnlagaráði voru bæði lögfræðingar og stjórnmálafræðingar.

Auk þess var allt ferlið það opnasta sem um gat hér á landi og ótal aðilar notfærðu sér það að geta fylgst með og sent inn athugasemdir.

Eftir að þinginu hafði verið afhent frumvarpið 29. júlí 2011, kallaði það til sín sérfróða menn og hagsmunaaðila í löngum bunum mánuðum saman.

Stjórnlagaráðsfulltrúar störfuðu auk þess í fjóra daga í mars 2012 til að vinna úr spurningum og álitamálum.

Í vetur hefur svipuð vinna haldið áfram, haldin málþing, fengnar athugasemdir, sérstökum hópi lögfræðinga fengið það verkefni að fara yfir frumvarpið, ótal umsagnaraðilar fengnir til að gera álit, og einnig Feneyjanefndin svonefnda.

Nú er búið að kalla til enn eina lögfræðinganefndina til að skoða málið. Ofangreint sýnir að hægt yrði að halda áfram svona út í hið óendanlega.  

Gott dæmi um eðli málsins er málþing í Háskóla Íslands í gær þar sem tveir prófessorar voru á öndverðum meiði um mannréttindakaflann og kom fram í máli annars þeirra, að sá þriðjungur álits Feneyjanefndarinnar hefði að miklu leyti byggst á misskilningi af því að nefndin hafði ekki í höndum þýdda greinargerð með kaflanum.

Það að halda áfram á þennan hátt er engin trygging fyrir því að málinu ljúki með stjórnarskrá, sem er nákvæmlega eins og hver vill.

Og þá er komin sú hætta að á endanum fáist engin niðurstaða, af því að alltaf verður fyrir hendi neitunarvald einhvers og málið því áfram á sama stað neitunarvalds og það hefur verið í 70 ár.

Slíkt má ekki gerast. Nú eru hundruð ef ekki þúsundir búnir að fjalla um frumvarpið í meira en tvö og hálft ár og meirihluti þátttakenda í þjóðaratkvæðagreiðslu búinn að láta þann vilja sinn í ljósi að ný stjórnarskrá taki gildi og verði byggð á grundvelli frumvarps stjórnlagaráðs.

Það er aðalatriði málsins sem og það að ekki er hægt að gera nema eina stjórnarskrá fyrir eina þjóð.

  


mbl.is Stórt mál sem þarf að ræða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú þarf það sama í Helguvík.

Kísilver á Bakka er ljósár frá álverinu á Bakka sem hélt allri orku Norðulands í gíslingu árum saman.

Bæði þar og í Helguvík þurfa slík risaálver 650 megavött hvort og mun meiri orku en hægt er að útvega.

Guðni Jóhannesson, orkumálastjóri, lýsti því fyrir nokkrum árum hve galin sú söluaðferð væri, að undirrita viljayfirlýsingu um það að selja meiri orku en til er, og bægja þannig sjálfkrafa í burtu öðrum kaupendum.

Með bæði Helguvík og Bakka, sem voru á dagskrá á sama tíma, var búið að koma orkuseljendum í vonlausa samningsaðstöðu varðandi að geta selt orkuna á því verði sem tryggði arðbæra sölu.

Sem betur fer tókst að koma Alcoa í burtu frá Húsavík, en ekki fyrr en þrákelkni stóriðjufíklanna hafði seinkað fyrir því sem nú hefur gerst.

Nú er bara að koma vitinu fyrir þá sem á siðlausan hátt hleyptu Norðuráli að í Helguvík með því að láta fjóra aðila undirrita samkomulag sem valtaði yfir aðra 12-15 aðila, sem flækst hefðu í orkuöflunina, og ruddu þar með allri samkeppni um orkuna í burtu, enda orkan ekki fyrir hendi, komu orkuseljandum í vonlausa samningsaðstöðu, seinkuðu fyrir annarri uppbyggingu og létu sig engu varða hagsmuni komandi kynslóða varðandi þá rányrkju, sem meginhluti orkuvinnslunnar kostaði auk stórfelldra óafturkræfra umhverfisspjalla.


mbl.is „Þetta er mikill gleðidagur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Götunum þyrlað upp að óþörfu.

Viku eftir viku og senn mánuð eftir mánuð eru götur Reykjavíkur auðar, enda hefur hitinn frá áramótum verið á svipuðu róli og í byrjun apríl í meðalári.

Tugþúsundir negldra hjólbarða rífa göturnar upp dögum og vikum saman, enda er malarefnið í malbikinu hér margfalt lélegra en í öðrum löndum. Í ofanálag sér maður nú saltbíla fara á kvöldin og úða salti á marauðar og þurrar götur til þess eins að þær verði votar af saltinu, sem úðast upp síðan upp á bílana.

Svifryk yfir mörkum þarf því ekki að koma neinum á óvart. Né heldur óþarfa tjón sem nemur hundruðum milljóna á götum og bílum.    


mbl.is Svifryk yfir heilsuverndarmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tölvurnar og netið, alheimsvettvangur allra hliða mannlífsins.

Tölvurnar og netið eru orðin litríkur vettvangur alls þess besta og versta sem mannheimar geyma.

Kostir nýrrar tækni og nýs vettvangs eru augljósir en að sama skapi líka gallarnir eins og sést á málaferlum Chubby Checkers.

Og nú eru það ekki lítil þorp eða lönd, sem eru vettvangurinn, heldur fljúga viðkomandi atburðir eða málefni og málaferli um allan heiminn á sekúndum.   

Ég hef um það heimildir að hliðstæð málaferli séu í uppsiglingu hér heima innan fárra daga varðandi þekktan tónlistarmann.


mbl.is Vegið að æru Chubby Checkers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýnir nauðsyn og gríðarlegt gildi íslenskrar mælingaraðferðar.

Hækkun flugfargjalda vegna hættu á bótakrafna af völdum eldgosa á Íslandi sýnir hver gríðarlega mikils virði einföld og ódýr íslensk uppfinning varðandi mælingar á öskumagni í loft getur verið.

Þar er verið að tala um hundraða milljarða tjón að óþörfu vegna lokunar flugvalla þegar eldgos á borð við eldgosið í Eyjafjallajökli eru í gangi. IMG_0032

Flugvöllum víða um lönd var lokað að óþörfu dögum saman vegna þess að í stað þess að mæla öskumagnið í loftinu á einfaldan hátt, eins og gert var á einshreyfils flugvélinni TF-TAL í Grímsvatnagosinu 2011, og byggja á því öskumagni sem raunverulega var í loftinu, var byggt á tölvuspá, sem gerð var í London. IMG_0031

Í þessari einföldu mælingu 2011 var hægt að koma í veg fyrir lokun flugvalla á Íslandi í heilan dag. IMG_0036

Klukkan fjögur í dag flytur Jónas Elíasson prófessor fyrirlestur í Raunvísindadeild Háskóla Íslands, húsi VR  2, stofu 157,  um þessar mælingar og sams konar mælingar, sem gerðar hafa verið síðan á hans vegum í Japan.


mbl.is „Flugfélög skaðabótaskyld fyrir eldfjöll á Íslandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt af fjórfrelsum Roosevelts.

Í frægri ræðu 6. janúar 1941 setti Roosevelt það fram sem markmið í heimsmálum að berjast fyrir fjórum tegundum af frelsi:

1. Skoðana- og tjáningarfrelsi. 2. Trúfrelsi. 3. Frelsi frá skorti. 4. Frelsi frá ótta.

Þessar fjórar tegundir frelsis tengjast á ýmsa vegu. Númer 1 og 2 og það síðasta, nr. 4, geta orðið lítils virði ef skortur á mat og nauðsynjum er svo mikill að lifað er í daglegum ótta, og skorturinn og óttinn við hann eru svo yfirþyrmandi að skoðana, tjáningar og trúfrelsi eru alger aukaatriði.

Öryggi borgarannar er einn af hornsteinum vestræns lýðræðis. Árásir hryðjuverkamanna miða ekki síst að því að grafa undan þessu öryggi og skapa ótta.

Þá er afar mikilvægt að láta óttann ekki fá yfirráð heldur að gera eins og Birgitta Jónsdóttir segir, að neita að lifa í ótta eftir því sem það er mögulegt.

Því miður hafa viðbrögð á Vesturlöndum varðandi það að koma á lögregluríki til þess að tryggja öryggi oft verið til þess eins fallin að skapa ótta í þjóðfélaginu og þar með í raun að gagnast tilgangi hryðjuverkamannanna.  

Svo er að sjá sem í Bandaríkjunum hafi menn átt erfitt með að feta meðalveg í þessum efnum.

Þegar mjög langt er gengið í lögreglu- og hernaðaraðgerðum skapast andrúmsloft sem getur kallað fram stríðsglæpi á borð við þann sem Wikileaks samtökin afhjúpuðu með myndum af drápi almennra borgara í Bagdad.

Og í framhaldinu var það hneyksli að ekki væri komið lögum yfir hina brotlegu.

En einnig getur sáning ótta og tortryggni gefið öflum lausan tauminn, sem gangast upp í því að traðka á mannréttindum eins og ferðafrelsi, friðhelgi einkalífs, skoðanafrelsi, jafnræði gagnvart lögum og vönduðu réttarfari. 

Við þekkjum hvernig þetta þróaðist í alræðisríkjum eins og kommúnistaríkjum, en það ber líka að hafa áhyggjur af því að hjá þeirri þjóð sem telur sig vera brjóstvörn mannréttinda og vestræns lýðræðis hefur sigið á ógæfuhlið í þessum efnum.   


mbl.is Birgitta neitar að lifa í ótta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ber að "harma" að menn læri af reynslunni ?

Mjög margar stjórnarskrár landa hafa verið settar í kjölfar hruns eða umróts af ýmsu tagi. Þetta á til dæmis við um stjórnarskrá Bandaríkjanna, Frakklands, Þýskalands eftir stríðið, stjórnarskrá Suður-Afríku eftir hrun aðskilnaðarstefnunnar og stjórnarskrár Finnlands og Austur-Evrópuþjóðanna eftir hrun Sovétríkjanna.

Stjórnarskrárnar tóku "öðrum þræði", svo notað sé innan tilvitnunarmerkja orðalag Feneyjanefndarinnar, mið af nýjum aðstæðum og þeim lærdómum, sem draga mætti af fortíðinni og gætu komið að gagni.

Hvað frumvarp stjórnlagaráðs varðar var höfð hliðsjón af atriðum, sem fram komu í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis varðandi þörf á betri lögum um upplýsingar, þörf á auka gagnsæi, valddreifingu og valdtemprun,  að styrkja þingræðið, minnka hættuna á ofríki  framkvæmdavaldins gagnvart löggjafarvaldinu sem áratugum saman var búið að kvarta yfir og láta réttindi og skyldur völd og ábyrgð, vegast á.

Leitað var fyrirmynda í þeim stjórnarskrám sem best hafa reynst varðandi myndun ríkisstjórna og traust stjórnarfar.

Það var reynt að læra af reynslunni bæði hér og í öðrum löndum eftir því sem það ætti við, en nú ber svo við að Feneyjarnefndin "harmar" að það skuli hafa verið gert "öðrum þræði."

Sumir hafa gagnrýnt frumvarpið fyrir að ganga of skammt í beinu lýðræði og gefa of mikinn afslátt gagnvart íhaldssömum sjónarmiðum.

Þannig las Styrmir Gunnarsson mér pistilinn fyrir linku í þessum efnum þegar ég hitti hann síðast.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis, þjóðfundurinn og þjóðaratkvæðagreiðsla sýndu vilja þjóðar og þings til að læra af reynslunni þar sem það gæti komið að gagni. En Feneyjarnefndin "harmar" það.

Eins og gengur og gerist á vettvangi fjölmiðla er því slegið upp sem kalla megi "alvarlegar athugasemdir" Feneyjanefndarinnar en hitt þykir ekki fréttnæmt sem hún finnur jákvætt.

En það er fengur að því að fá fram umræðu um mismunandi sjónarmið varðandi stjórnarskrána og hefði verið enn meiri fengur að aðkomu Feneyjarnefndarinnar ef leitað hefði verið strax til hennar, en vilji fyrir því kom strax fram innan stjórnlagaráðs meðan það sat að störfum.

Þá hefði strax fengist málefnaleg og þörf umræða um það hvort fara eigi að uppástungu Feneyjanefndarinnar og láta þing eða sveitarstjórnir kjósa forseta Íslands frekar en þjóðina sjálfa, lemstra málskotsrétt hans, draga úr völdum þingsins og minnka valddreifingu og valdtemprun.   


mbl.is Frumvarpið of róttækt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband