Færsluflokkur: Bloggar

"Túrbínutrixið" og miklu stærri pakki en 1970 43 árum síðar.

Það er eins og það hafi ekkert breyst í 43 ár varðandi yfirgang, græðgi og skammsýni í orkumálum.

Á þessu ári eru 43 ár síðan Laxárdeilan komst í hámark og "túrbínutrixið" var notað en nú á að nota svipað trix en bara miklu stærra .

Lítið þið bara á tengda frétt á mbl.is um fyrirætlanir Landsnets varðandi Suðvesturlínu.

Stjórn Laxárvirkjunar rak málið þannig 1970 að landeigendur, sem málið varðaði, ýmist lásu um það í fjölmiðlum eða urðu vitni að því að framkvæmdir væru hafnar á þeirra eigin landi án þess að búið væri að semja við þá.

Þeir fréttu af því sem gerðum hlut að búið væri að panta svo stórar túrbínur, að þær yrðu ekki nothæfar nema risavirkjun yrði gerð sem sökkti Laxárdal og hefði í framhaldinu í för með sér eyðileggingu Laxár og Mývatns með stórfelldum vatnaflutningum og gerð miðlunarlóns, sem yrði stærra en Mývatn.

Allt þetta átti að gera undir formerkjum "orkuöryggis." Laxárvirkjunarstjórnin komst upp með þetta af því að hún taldi sig hafa valdamenn með sér, sem tryggðu nauðsynlegt eignarnám, spjöll á landi og eyðileggingu þess síðar meir.

Nú eru draugar á ferð og greinilega skákað í því skjólinu að eftir kosningar verði stóriðjuhraðlestin keyrð aftur á fullt með tilheyrandi óafturkræfum spjöllum á gríðarlegum náttúruverðmætum. 

Nákvæmlega það sama er að gerast nú eins og 1970, en bara margfalt stærra, því að nú er um að ræða 650 megavött en ekki nokkra tugi megavatta eins og 1970.

Tekin var skóflustunga í Helguvík fyrir sex árum þar sem tveir orkuseljendur, eitt sveitarfélag og einn orkukaupandi slógu föstu ferli, sem myndi á endanum valta yfir minnst tólf sveitarfélög allt frá Reykjanestá austur í Skaftafellsýslu.

Nú, eins og þá, er sagt að framkvæmdir séu vegna orkuöryggis og að þess vegna þurfi að tryggja, að stærstu hugsanlegu risalínur liggi allt frá Reykjanestá vestur og norður um land til Reyðarfjarðar.

En stærð línanna, rétt eins og stærð túrbínanna 1970, sýnir að það er yfirvarp, því að ef afhendingaröryggi til venjulegra notenda væri markmiðið, þyrfti ekki línur nema fyrir brot af þeim orkuflutningi sem fyrirhugaðar línur er hannaðar fyrir.

Ósvífni Landsnets og blekkingar eru ekki dapurlegastar vegna þess hve óskammfeilnar þær eru, heldur vegna þess að við ætlum að láta þetta gerast.  


mbl.is Fréttu af eignarnámi í fjölmiðlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennan vex.

Vaxandi spenna hefur ríkt undanfarið um örlög stjórnarskrármálsins á þessu þingi. Spennan eykst nú enn frekar með tilkomu vantrauststillögu Þórs Saari og með henni er tekin mikil áhætta vegna þess að erfitt er að sjá hvaða áhrif hún hafi á það hvernig meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ætlar að ljúka málinu.

Verður sagt eftir á að vantrauststillagan hafi sprengt málið í tætlur að óþörfu einmitt þegar verið var að ljúka því?

Eða að hún hafi skapað þann þrýsting sem nægði til að þingið kláraði málið á einn eða annan hátt?

Eða að meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafi látið hrekja sig of langt af leið og þess vegna ekki getað gefið Þór Saari, Þráni Bertelssyni og fleirum þær tryggingar fyrir rekstri málsins, sem þeir töldu sig, með réttu eða röngu, eiga heimtingu á að fá?

Eftir því sem kosningarnar nálgast sést greinilega að kominn er skjálfti í þingmenn í ýmsum flokkum og að margir telji sig þurfa að sanna sig á einn eða annan hátt gagnvart kjósendum sínum og baklandi.


mbl.is Fer eftir fyrirætlunum stjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömul saga og ný.

Það er gömul saga og ný að þegar kastasti í kekki með mönnum innan stjórnmálaflokkanna aukast líkurnar á svonefndum sérframboðum. Og sagan geymir dæmi um þingmenn utan flokka eins og Gunnar á Selalæk, sem hafði vit fyrir mönnum í krafti oddaaðstöðu sinnar 1931 þegar öldur risu hátt út af þingrofi.

Kosningalögin eftir kjördæmabreytinguna 1959 voru þannig, að fylgismenn svipaðrar stefnu áttu möguleika á að bjóða fleiri en einn lista fyrir sama stjórnmálaflokkinn, þ. e. bæði D og DD eða B og BB.

Kosturinn við þetta var sá að þá ónýttust engin atkvæði fyrir móðurflokknum þegar úthlutað var uppbótar- eða jöfnunarþingmönnum. En yfirleitt höfnuðu flokkarnir þessari leið samt.

Sérframboðin eru orðin mörg og í kjördæmi Jóns Bjarnasonar má nefna framboð Sigurlaugar Bjarnadóttur í hópi Sjálfstæðismanna og Framsóknarmannsins Ingólfs Guðmundssonar, sem ekki skiluðu þingsæti.

Stefán Valgeirsson komst hins vegar á þing og gat nýtt sér aðstöðu sína til þess að fá ígildi ráðherrastóls og koma málum sínum betur fram en fyrr á meðan hann hafði líf ríkisstjórnarinnar í hendi sér.

Í norðvesturkjördæmi þarf tvöfalt færri kjósendur en á höfuðborgarsvæðinu til þess að koma manni að.

Sem dæmi um það hvernig misvægi atkvæða getur ráðið miklu má nefna, að ef Reykjavík hefði verið eitt kjördæmi 2007 hefði Íslandshreyfingin komið tveimur mönnum á þing í stað þess að fá engan.

Vel er hugsanlegt að Jón eigi meiri möguleika en þau Sigurlaug og Ingólfur á sinni tíð. Þau buðu fram í kjördæmum með færri þingmönnum og þurftu því hlutfallslega meira atkvæðamagn.

Á móti kemur að þau voru klofningsframboð úr stærri flokkum en Vg er núna, þótt Vg hafi reyndar náð mjög góðum árangri í Norðvesturkjördæmi 2009.

  


mbl.is Líkur á sérframboði Jóns aukast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærsta hestaferð síðustu alda.

Í tilefni af tengingu þessa bloggistils við frétt á mbl.is undir heitinu "stórfellt hrossahvarf" er hér til gamans ímynduð spurning í "Gettu betur" um hesta og hestaferðir. Skemmtilegra er fyrir þá, sem vilja spreyta sig, að horfa ekki strax á smáa letrið sem er með svarinu neðst á síðunni.  

Þetta er vísbendingaspurning og við spyrjum um stærstu hestaferð síðustu alda.

1. Vísbending, sem gefur 5. stig: Forsprakki þessarar hestaferðar var maður, sem gaf henni nafn sem tengja mátti við rauðhærða menn.  

2. Vísbending, sem gefur 3 stig: Hestarnir í ferðinni voru alls 750 þúsund, en komust aldrei alla þá leið sem þeir áttu að fara. Að því leyti minnti þessi ferð á miklu umfangsminni ferð með sama tilgangi, sem farin hafði verið um svipaðar slóðir 129 árum fyrr. 

3. Ekki voru eingöngu hestar í þessari ferð heldur voru þeir aðeins hluti af því sem til þurfti til að tilgangi ferðarinnar yrði náð. Tæpu ári fyrr hafði fyrrnefndur forsprakki staðið fyrir ólíkum leiðangri undir nafninu Sæljón, sem hætta varð við.

Svarið er allmiklu neðar á síðunni og með smáu letri.

  

                           Svar: Ferðin hét Barbarossa eða Rauðskeggur og nafnið var notað um innrás Hitlers inn í Sovétríkin  

                                       1941. 750 þúsund hesta þurfti til flutninga fyrir leiðangurinn, sem misheppnaðist eins

                                        margfallt minni en svipaður leiðangur sem Napóleon fór 1812. Síðsumars 1940 hafði verið gerð

                                        áætlun undir nafninu Sæljón um innrás í Bretland, sem aldrei var hrint í framkvæmd.   


mbl.is Rannsaka stórfellt hrossahvarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...og eldingin mig lýstur..."

Ýmsar lýsingar hafa fengist hjá þeim, sem hafa farið "yfir" landamæri lífs og dauða eða að minnsta kosti allt að því, hvernig það hafi verið að lenda í slíku.

Upplýst hefur verið að fleiri en einn hafi lýst þessu augnablíki sem ólýsanlegri sælu í yfirgengilega miklum bjarma, nánast eins og eldingu. Aðrir hafa ekki haft frá neinu að segja.

Ég hef reynt að binda lýsingu hinna fyrrnefndu í orð í sálminum "Þar ríkir fegurðin" sem er bokkurs konar íslenska útfærsla á grunnhugsun ljóðsins "The last farewell" sem Roger Wittaker gerði lag við og söng óhemju vel og fallega.

3ja erindi sálmsins er byggt upp í kringum þrennt:

Moldunina, í öðru lagi hinn fyrrnefnda ofurskæra bjarma sem sumir hafa lýst, og í þriðja lagi tilvitnun í ljóðlínur Laxness í Heimsljósi um jökulinn og fegurðina:

Svona hljóðar þetta erindi.  

     ....Af moldu landsins kæra kominn er ég.

     Ég hverf til moldar og af henni rís.

     Til jökulsins og himinsins frjáls fer ég.

     Þar fegurð ofar hverri kröfu´er vís.

     Er líf míns hinsta andvarp af mér líður

     og eldingin mig lýstur, er það víst:

     Þar ríkir fegurðin,  -

     já fegurð alvalds ástar,

     fegurðin sem engin orð frá lýst..."

Margir hafa sökkt sér niður í andleg fræði varðandi hugsanlega tilveru handan jarðnesks lífs, og var Jónas Jónasson, útvarpsmaður og vinur minn, áhugamaður um slíkt.

Og af því að fyrrgreindur sálmur snýst fyrst og fremst um hið fagra, hugljúfa og glaðværa, sem hægt er að tengja jarðneskum dauða, læt ég flakka með létta sögu, sem vinur minn, Benedikt Árnason, leikari, sagði mér af því þegar hann fékk hjartastopp og "datt út".

Þegar hann byrjaði að fá meðvitund, liggjandi í sjúkrarúmi, kom hún mjög hægt, þannig að fyrsta skynjunin, sem tók við sér var ilmanin.

Að vitum hans barst guðdómlega sterkur, himneskur og, að honum fannst, yfirþyrmandi ilmur, sem umvafði hann.

Ilmurinn virtist eitthvað í ætt við afbrigði af Chanel Five en jafnframt birtist smám saman fyrir ofan hann óljós en stór dimmur hnöttur, sem ilmurinn kom frá.

Þegar myndin skýrðist frekar sá hann að þessi hnöttur var höfuðið á Jónasi Jónassyni, sem sat á rúmstokknum, beygði sig niður að Benedikt og sagði með dramatískum þunga, þegar hann sjá að Benni var að vakna til meðvitunar: "Sástu nokkuð?"   


mbl.is Segist tvisvar hafa farið „yfir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru draugar á ferð?

Á sínum tíma gáfu ríkisstjórnir Davíðs og Halldórs svo miklar eftirgjafir og fríðindi í sambandi við stóriðju og virkjanaframkvæmdir tengdar henni, að það væri of langur listi til að fara að telja hér upp þennan langa lista af alls kyns niðurfellingum eða eftirgjöfum á gjöldum.

Sem dæmi má nefna að allan virkjanatíma Kárahnjúkavirkjunar fékk Impregilo ókeypis rafmagn hjá Landsvirkjun fyrir risabora sína og starfsemi, sem þurfti svo mikla orku, að Lagarfossvirkjun í heilu lagi þurfti til að anna henni einni.

Ef nú á að fara að leika svipaðan leik á nýjan leik á Húsavík er verið að vekja upp gamlan draug.

En draugarnir eru fleiri.

Þegar Kárahnjúkavirkjun var í meðferð hjá umhverfisráðuneytinu var hún samþykkt með "20 ströngum skilyrðum" sem höfðu í raun enga þýðingu fyrir hin hrikalegu óafturkræfu umhverfisspjöll, sem voru hin mestu mögulegu í nokkurri framkvæmd á Íslandi.

Eitt hinna "ströngu" skilyrða var að hrófla ekki við svonefndum Tröllkonustíg í Vaþjófsstaðafjalli, sem væri í aðeins þriggja metra fjarlægð frá útfallinu út úr fjallinu.

Hið rétta var að Tröllkonustígurinn er í þriggja kílómetra fjarlægð og kom virkjuninni ekkert við!

Prentvilla varð að "ströngu skilyrði"!

Annað skilyrði var að vatn úr tjörnum eða litlum stöðuvötnum, sem lægju fyrir ofan göngin, mætti ekki leka ofan í göngin svo að tjarnirnar þornuðu! Algerlega gagnslaust skilyrði. Hvernig hefði átt að stoppa þann leka ef hann hefði orðið? Með því að kítta botninn á stöðuvötnunum?

Eitt skilyrði var það að stöðva leirfok úr 35 ferkílómetrum af nýjum leir snemmsumars á hverju ári í þurru lónstæði Hálslóns með því að láta flugvélar fljúga yfir svæðið og dreifa rykbindiefnum!

Í grein atvinnuvegaráðherra um leyfi til leitar og vinnslu á olíu á Drekasvæðinu í Fréttablaðinu um daginn var ekki minnst á vinnsluna í fyrirsögninni og þurfti að skoða greinina vel til að sjá orðið vinnslu nefnda.

Í greininni var kunnuglegt orðalag um strangar kröfur um umhverfismál og öryggi sem væru algerlega á forræði Íslendinga að setja og fylgja eftir, frasar sem hvaða mjúkmáll ráðherra Sjalla eða Framsóknar hefði getað notað.

Halda menn að erlend fyrirtæki, sem ætla að eyða tugum milljarða í olíuleit muni taka því bara rétt si svona ef þeir fái ekki að hefja vinnsluna líka?

Að sjálfsögðu munu þeir setja á okkur þrýsting með beinum eða óbeinum hótunum um skaðabætur ef við mökkum ekki rétt.

Engin málefnaleg, djúp, framsýn eða siðræn umræða hefur farið fram um þetta stóra grundvallarmál, heldur standa menn i raun frammi fyrir gerðum hlut í andanum "take the money and run" sem 80% þjóðarinnar lýsa yfir fylgi við í skoðanakönnun þar um.

Og þegar peningarnir koma þar á ofan í "rétt" kjördæmi þarf ekki að spyrja að leikslokum, sem reynt er að fela inn í umbúðum af innihaldslausum loforðum um vönduð vinnubrögð þegar þar að kemur.

Vísindamenn sem ég hitti á Kárahnjúkasvæðinu fyrir virkjun sögðust bara vera að vinna vinnu, sem þeim hefði verið boðin, og að ef þeir hefðu hafnað henni, hefðu hvort eð er aðrir verið fengnir í djobbið.

En síðan fylgdi oftast með þessi setning: "Blessaður vertu ekki að eyða tímanum í að fylgjast með þessu eða hafa áhyggjur. Þetta er svo tryllingsleg og áhættusöm hugmynd að það er engin hætta á að hún verði framkvæmd."

Ég skynja draugagang eftir Hrunið og óttast þetta séu ekki bara draugar, heldur gamalkunnug tröll sem séu enn á lífi.   


mbl.is „Alls óvíst hvar sú vegferð endar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tillaga um friðun hjarta Rauðarárholts.

Um allt land má sjá húsahverfi, sem reist voru á árunum 1935-1960, og geyma byggingarstíl, sem er séríslenskur að því leyti, að notaður var skeljasandur sem húðun á útveggjum.

Í tísku var að hafa glugga á hornum húsa og stóðust þeir illa íslenskt veðurfar.

Norðurmýrin í Reykjavík er gott dæmi um þetta en er of stórt hverfi til þess að hægt væri að beita friðun til að varðveita þá sögu sem það geymir.

Enda er til annað hverfi og minna sem segir þjóðfélagssöguna frá 1935-1960 betur, en það er kjarni byggðarinnar á Rauðarárholti. Hjartað í byggðinni, sem er þríhyrningslöguð, er þríhyrndur leikvöllur sem hefur röð verkamannabústaða í kringum sig við göturnar Háteigsveg, Einholt og Meðalholt.

En skemmtilegasta gatan er norðan Meðalholts, af því að í nyrðri húsaröðinni við hana eru myndarleg hús, byggð af einkaframtakinu, þannig að segja má, að við þá götu sé sósíalurinn öðrum megin og kapitalið hinum megin. En öll húsin þó húðuð utan með skeljasandi.

Í næstu götu norðan við Stórholt eru síðan nýrri verkamannabústaðir, stærri og veglegri en þeir sem eru við Stórholt, en það segir sína sögu um þá byltingu í lífskjörum sem stríðið færði Íslendingum.

Við sunnanverðan Háteigsveg og Flókagötu eru síðan mun glæsilegri hús en annars staðar í hverfinu og sum hver vitni um flottan og merkilegan arkitektúr.

Mér finnst ekki sama hvernig staðið yrði að friðun á borð við þessa, því að hún má ekki verða íþyngjandi fyrir húseigendurna. Ef dýrara er að endurnýja múrhúðun húsanna með skeljasandi en á annan hátt þarf að bæta eigendunum upp þann mismun.

Ég viðurkenni að einhverjir telji mig kannski vanhæfan til að setja þessa hugmynd fram, af því að ég ólst upp í Stórholtinu, en það verður þá bara að hafa það.

En þá er ótalið eitt það skemmtilegasta við hverfið, sem á sínum tíma var eins og þúsund manna þorp með víðavangi á allar hendur, en það var það, hve margt þekkt fólk og merkilegir karakterar, ólust þar upp eða áttu heima þar samtímis í rúman áratug á aðeins um 200 metra löngu svæði efst frá mótum Stórholts og Háteigsvegar niður að neðsta hluta Stórholts. 

Hér er listi með 30 nöfnum, talið neðan frá og upp eftir, en miðjan á þessum 200 metrum er lítil smágata, sem tengir saman Meðalholt og Stórholt:

Oddur sterki af Skaganum - Sólveíg Pétursdóttir, forseti Alþingis, - Pétur Hannesson, framámaður í Sjálfstæðisflokknum, - Helena Eyjólfsdóttir, söngkona, -  Bjarni Böðvarsson, hljómsveitarstjóri, - Ragnar Bjarnason, tónlistarmaður, -  Pétur Pétursson, útvarpsþulur,  - Ragnheiður Ásta Pétursdóttir, útvarpsþulur, -  Kristján Kristjánsson (KK) hljómsveitarstjóri, - Pétur Kristjánsson, tónlistarmaður, - Baldur Scheving, knattspyrnumaður, - Ámundi Ámundason, umboðsmaður, - Örn Arnar, skurðlæknir, - Gunnar V. Andrésson, ljósmyndari, - Hafsteinn Björnsson, miðill, - Ingólfur Guðmundsson (Hólakots), byggingarmeistari, , - Jónína R. Þorfinnsdóttir, kennari, formaður Hvatar og fleiri félaga, -  Jón R. Ragnarsson, rallkappi (bílaíþróttamaður síðustu aldar), - Sigríður Hannesdóttir, - verkalýðsfrömuður, - Magnús Guðmundsson, leigubílstjóri, ("Snæra-Mangi", varð 100 ára), - Jói svarti, - Hilmar Karlsson, kvikmyndagagnrýnandi, - Katrín Héðinsdóttir (Valdimarssonar) , - Eyþór Gunnarsson, læknir, - Gunnar Eyþórsson, fréttamaður, - Eyþór Gunnarsson, tónlistarmaður, - Sigurður Árnason, afabróðir Árna Páls Árnasonar, - Friðrik Þór Friðriksson, kvikmyndagerðarmaður, - Kristín Ólafsdóttir, söngkona og borgarfulltrúi, - Ólafur Georgsson, bankastjóri, - Georg Ólafsson, verðlagsstjóri.  

P. S. Fyrir 15 árum gerði ég brag um hverfið fyrir samkomu Holtaranna (Holtabísaranna) , sem ég hef týnt. Ef einhver gömlu Holtaranna lumar á honum væri vel þegið að fá hann í hendur.  


mbl.is Metfjöldi húsa friðaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í nafni Kristjáns 7 áttu stórfelldar umbætur að verða á Íslandi.

Ég óska Kristjáni Jónssyni til hamingju með það að verða sjöundi á alþjóðlegu júdómóti í sínum flokki. Stenst ekki mátið að blogga um annan Kristján sjöunda, þ. e. konung Danmerkur og Íslands 1766-1808.

Í sögunni hefur hann hlotið heitið "geggjaði konungurinn" vegna geðsjúkdóms síns, sem varð til þess að þeir sem best höfðu í valdabaráttunni í kringum konunginn, réðu í raun því sem ráða þurfti til lykta.

Þegar Kristján fór í ferðalag til Evrópu 1768 kynntist hann lækni í Altona, Struense að nafni, sem varð einkalæknir hans og kom með lækniskunnáttu sér í mjúkinn við kóng og drottningu.

Kristján taldist í hópi nýrrar tegundar einvalda, "menntaðra einvalda," sem töldu sig fyrsti fremst þjóna fólksins og skylt að stuðla að framförum. Hann og Struense skeggræddu rit Voltaire og fleiri slíkra  og Struense  nýtti sér aðstöðu sína til að taka völdin að mestu þegar heim kom og leggja til miklar umbætur, svo miklar að annað eins þekktist ekki í öðru konungsveldi í Evrópu.

Skipuð var svonefnd Landsnefnd fyrir Ísland árið 1770, því að það blasti við að eitthvað alvarlegt olli því að Íslendingum fækkaði á meðan Norðmönnum fjölgaði verulega. Norðmaður var settur til formennsku í nefndinni til að auka líkur á árangri og nefndin gaf Íslendingum sjálfum kost á að senda bréflega tillögur sínar til Landsnefndarinnar. Á annað þúsund bréf bárust.

Meðal verkefnanna sem nefndin átti að ráðast í, voru hafnarbætur, betri skipakostur, þéttbýlismyndun við sjóinn, umbætur í landbúnaði og að finna aftur hina gömlu þjóðleiðir yfir hálendið.

Í einum slíkum leiðangri fannst Fjalla-Eyvindur við Sprengisandsleið.

Því miður voru umbótatillögur Struenses í Danmörku og á Íslandi í óþökk ríkjandi valdastéttar, aðalsins í Danmörku og hins íslenska aðals, embættismanna og stórbænda, en 95% bænda á Íslandi voru leiguliðar og áttu ekki ábúðarjarðir sínar.

Struense var fangelsaður og líflátinn og þar með var úti um umbætur á Íslandi, heldur var þeim illu heilli í raun seinkað um 130 ár.

En viðleitnin mun í mínum huga varpa ljóma á nafn Struenses og einhvern tíma trúi ég að stórt heimildarskáldverk um hann og sameiginleg örlög hans og Íslendinga verði skrifað og kvikmyndað.   

Íslendingar þekkja ekki Kristján 7 og Struense enda ekki minnst á hugsjónir þeirra í kennslubókum.

Þetta þarf að breytast.


mbl.is Kristján sjöundi í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað viðfangsefni og 1950 en erfiðara og tvísýnna.

Ef tvær þjóðir eru í landinu, eins og Þórður Snær Júlíusson orðar það þegar hann lýsir ríkjandi efnahagsástandi, er það ekki í fyrsta sinn.

1949 var ár mikils umróts í íslenskum stjórnmálum. Mestu óeirðir í sögu síðustu alda urðu á Austurvelli 30. mars, eftir kosningar um sumarið féll ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar í árslok vegna ósamkomulags um efnahagsaðgerðir og gengisfellingu, og eftir að Alþingi lýsti vantrausti á minnihlutastjórn Ólafs Thors, var stjórnarkreppa fram í mars 1950.

Gjaldeyris- og innflutningshöft höfðu ríkt síðan 1930 og orðið sérstaklega illvíg eftir 1947. Eins og nú voru höftin og krónan rótarmeinið, sem menn réðu ekki við.

1950 var það tekið til bragðs að taka upp tvenns konar ef ekki margs konar gengisskráningu, annars vegar var krónan skráð með handafli á fastgengi, en hins vegar komið á fót svonefndu "Bátagjaldeyriskerfi" fyrir sjávarútveginn.

Þetta flókna kerfi og höftin ekki einasta viðhéldu þeirri spillingu og óréttlæti sem höftin og röng skráning krónunnar höfðu valdið fram að því, heldur olli enn flóknara og verra kerfi í formi Bátagjaldeyriskerfisins og fleiri hafta enn meiri spillingu sem þáverandi stjórnarflokkar, Sjallar og Framsókn bundu inn með því sem kallað var helmingaskiptakerfi, sem leyfum og fjármunum var skipt eftir á milli gæðinga stjórnarflokkanna.

Segja mátti að þjóðin skiptist þá í tvo hluta, og að tvær þjóðir hafi verið í landinu: Þeir, sem nærðust og græddu á höftunum og margs konar gengi krónunnar og hins vegar allur fjöldinn, sem var bundinn í fjötra.

Það leið áratugur þar til Viðreisnarstjórninni tókst að brjóta versta hluta haftanna og rangrar gengsskráningarinnar á bak aftur, en það var svo sannarlega ekki auðvelt.

Nú er að mörgu leyti hliðstætt ástand. Þjóðin skiptist í tvennt: Annars vegar þá sem njóta þess að vera í náðinni vegna aöstöðu sinnar varðandi útflutning og hins vegar allan almenning, sem verður að sæta kjaraskerðingu hins veika gjaldmiðils.

En í ofanálag bætast við snjóhengjan svonefnda við, skuldavandi heimila og gríðarlegar skuldir ríkisins.

Ég man ekki lengur hliðstæðar skuldatölur ríkisins upp úr 1950, enda óhægt um vik að gera réttan samanburð á stöðunni nú vegna miklu meiri þjóðarframleiðslu. En mig grunar að vandinn núna sé enn verri en fyrir 60 árum og hættan á kollsteypu og misrétti meiri.

Óréttlætið, misskiptingin og spillingin hljóta auk þess að fara vaxandi á meðan á þetta ástand ríkir.

Á árunum milli 1950 og 1967 var mikill uppgangur í efnahagslífi Evrópu og það skilaði sér hingað út á Klakann og auðveldaði það verk að fást við stjórn efnahagsmála. Málin "redduðust" að hluta.

Nú er hins vegar ekki í augsýn neitt slíkt og viðfangsefnið vafalítið erfiðara og tvísýnna en fyrir 60 árum. Hafi það tekið áratug að losa um málin þá, er alls óvíst nema það taki ennþá lengri tíma nú.

Það eina, sem getur liðkað fyrir nú, er að meiri samstaða náist nú en þá, en þá tókst aldrei að mynda nauðsynlega samstöðu og samvinnu, hvorki í stjórn landsins né á vinnumarkaði.   


Tímamót. Hvað um Jón Pál og Hjálm ?

Íslendingar hafa alltaf átt menn, sem hafa verið efni í bardagaíþróttamenn á borð við Gunnar Nelson, sem nú gleður alla, bæði okkur landa hans og aðra með likamlegri og andlegri hæfni sinni. Árangur hans markar tímamót í íslenskum bardagaíþróttum, ef frá er talin frækileg frammistaða Bjarna Friðrikssonar á Ólympíuleikunum í Los Angeles.

Slíkar íþróttir liggja vel, bæði andlega og líkamlega, við íslenskum hreystimennum. Íslenska glíman gaf mönnum á borð við Jóhann Þ. Jósefsson, Hallgrím Benediktsson, Hermann Jónasson, Ármann J. Lárusson, Sigtrygg Sigurðsson og Hjálm Sigurðsson tækifæri til að láta til sín taka hér heima, en vettvangurinn var alltof þröngur hjá þjóð, sem var langt fram eftir síðustu öld innan við 200 þúsund manns.

Jóhann Jósefsson braust út úr þessu og fékk það mikinn frama erlendis í fangbrögðum að hann kom til Íslands sem ríkur maður og reisti Hótel Borg.

En bann við hnefaleikum af öllu tagi, líka tafði fyrir því í hálfa öld að íslenskum mönnum með hæfileika á þessu sviði gæfist jafn fjölbreytt tækifæri hér heima og í öðrum löndum til að fara út á þessa braut.

Oft er það svo, að það eitt að prófa viðkomandi íþróttagrein nægir til að hún verði fyrir valinu en ekki einhver önnur.

Ég er nokkuð viss um það að í þeim Jóni Páli Sigmarssyni, Ármanni J. Lárussyni og Hjálmi Sigurðssyni bjuggu miklir hæfileikar til þess að verða hnefaleikarar á  heimsmælikvarða.

Það sást vel þegar Jón Páll Sigmarsson var upp á sitt besta, að hann bjó yfir einstakri yfirburða blöndu af stærð, afli, hraða, snerpu og þoli, sem ég tel að hefði skilað honum upp í fremstu röð hnefaleikara heims í kringum 1980 þegar Ali og Foreman drógu sig í hlé.

Jón Páll hefði getað orðið annar tveggja Norðurlandabúa, sem hampaði heimsmeistaratitli í þungavigt, og ekki ónýtt að feta í fótspor Ingemars Johannssonar. Hjálmur Sigurðsson hafði svipaða hæfileika í sínum þyngdarflokki og maður hefur séð hjá Floyd Mayweather, einkum í varnaraðferðum í sérflokki.  


mbl.is Glæsilegur sigur Gunnars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband