Færsluflokkur: Bloggar

Það fyrsta að birtast.

Það er erfitt að fjalla um álit Feneyjarnefndarinnar á þeim grundvelli sem verður að liggja fyrir handa öllum, þ.e. íslenskri þýðingu, sem því miður kemur ekki fyrr en á föstudag.

Þó var minnst á nokkur athyglisverð atriði í fréttum Sjónvarpins í kvöld og verður að notast við þá mola í bili.

Þar kom fram að sérfræðingarnir í nefndinni teldu völd forsetans í nýju stjórnarskránni heldur lítil miðað við það að henn sé þjóðkjörinn.

Hins vegar hefur mikið verið látið með það álit eins reyndasta sérfræðings okkar í þessum efnum, forsetans sjálfs, að völd forsetans verði allt of mikil.

Síðan leggja andstæðingar frumvarpins þetta saman og fá út tvöfaldar mjög "alvarlegar athugasemdir" þessara sérfræðinga, sem sé, allt ómögulegt.

Gallinn er bara sá að annar aðilinn telur völdin lítil en hinn mikil, og þegar álíka stór plús og mínus eru lagðir saman, verður útkoman núll, þ. e. það sem ég og fleiri hafa haldið fram allan tímann, að völd forsetans verði álíka mikil og þau hafa verið.

Fróðlegt er að sjá að Feneyjanefndin telur málskotsrétt forsetans varasaman af því að þá geti myndast togstreita milli forsetans og þingsins þar sem annar aðilinn geti farið illa út úr því. Sem sagt: "alvarleg athugasemd."

En ég spyr: Á það að koma í veg fyrir að þjóðin fái að skera úr um slík mál eins og hún hefur fengið að gera undanfarin ár og meirihluti hennar verið nokkuð sáttur við það upp á síðkastið? Og þarf einhver að fara eitthvað sérstaklega illa út úr því?  Hvor aðilinn á að ráða, þjóðin eða Feneyjanefndin?

Og síðan gleymist hitt atriðið, að málskotsréttur forsetans heldur sér ef núverandi stjórnarskrá heldur áfram að gilda og þó á miklu loðnari hátt í núgildandi stjórnarskrá, vegna atriða sem lagfærð eru í frumvarpi stjórnlagaráðs varðandi tímafresti og það hvaða skilyrði þurfi að vera til að þjóðaratkvæðagreiðslu þurfi ekki, en vegna gats í núverandi ákvæði deildu menn hart um það 2004 hvort það að fella þjóðaratkvæðagreiðsluna niður hefði verið stjórnarskrárbrot. Nýja stjórnarskráin tekur af öll tvímæli um þetta.

Raunar er bagalegt að Feneyjanefndin skyldi ekki líka verið fengin til að leggja mat á núverandi stjórnarskrá. Ég er hræddur um að þá hefðu "alvarlegar athugasemdir" orðið miklu fleiri og stærri og samanburður fengist á milli stjórnarskránna.

Nefndin telur þingið fá mikil völd og að það muni geta valdið þrátefli á milli ríkisstjórna og þingsins.

En vilja menn hafa þetta áfram eins og kvartað hefur verið sáran yfir í áratugi, að ríkisstjórnir hafi oft umgengist þingið eins og valdalausa afgreiðslustofnun? Og í raun ekki ríkt þingræði og að  þetta hafi átt þátt í því hvernig aðdragandi Hrunsins varð?

Og á sama tíma hefur forseti vor kvartað yfir því að þingræðið sé ekki tryggt í nýju stjórnarskránni, sem er furðulegt, því að aukin völd og vegur þingsins og gulltryggt þingræði varðandi stjórnarmyndanir eru rauður þráður í nýju stjórnarskránni en er það ekki samkvæmt núgildandi stjórnarskrá þar sem forsetinn getur myndað utanþingsstjórn upp á eigin spýtur.

Aukið þingræði var það sem flestir vildu í aðdraganda gerðar nýrrar stjórnarskrár.

Ef Feneyjanefndin telur þingið fá of mikil völd en meirihluti þjóðarinnar vill að þingið og þingræðið rétti úr kútnum, eftir vilja hvors eigum við að fara?

Feneyjanefndin telur einstaka ráðherra fá of mikil völd í nýju stjórnarskránni. Nefndarmenn ættu þá að glugga í núverandi stjórnarskrá og sjá hvernig ráðherrar eru í raun einráðir, hver í sínum málaflokki, og aðrir ráðherrar geta fríað sig ábyrgð.

Í nýju stjórnarskránni er komið á "kollektivri" ábyrgð, þ. e. samábyrgð,- að ráðherrar geti ekki fríað sig ábyrgð af verkum hvers annars, nema að gera það formlega, og þannig er ábyrgð þeirra aukin frá því sem nú er.

Áf ofangreindu sýnist mér að sumt sem talið er vera "alvarlegar athugasemdir" sé það ekki, heldur viðri nefndarmenn skoðanir sínar á borð við það að forsetinn eigi að hafa meiri völd og ríkisstjórnir sömuleiðis meiri völd á kostnað þingsins svo að ekki "myndist þrátefli."

Það er að sjálfsögðu matsatriði að hvernig eigi að koma fyrir þeirri valdtemprun, valdajafnvægi og valdmörkum sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis benti á að skorti svo sárlega í stjórnskipun okkar. En viðfangsefnið er jafn brýnt fyrir því, að koma þessu sem haganlegast fyrir og gefast ekki upp við þær umbætur sem þörf er á að ráðast í.


mbl.is Stjórnarskráin rædd á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert jafnast á við leikhúsið.

Ég skil það vel að Ben Affleck læðist aftarlega inn í sýningarsali til þess að upplifa viðbrögð bíógesta við leik hans. Kvikmyndir og sjónvarp hafa að sjálfsögðu yfirburði yfir leikhúsið varðandi fjölda þeirra, sem njóta listarinnar, en þeir yfirburðir eru meira en þurrkaðir út og gott betur með því óviðjafnanlega gagnvirka sambandi sem myndast milli leikara á sviði og leikhúsgesta.

Þetta samband er svo gefandi og skapandi á báða bóga að eftir að hafa reynt hvort tveggja í 60 ár er það ekki spurning í mínum huga að ekkert jafnist á við leikhúsið enda steig ég mín fyrstu skref þar og á 60 ára leikaraafmæli nú í mars.  

Þá er miðað við það að hafa leikið stórt hlutverk gegn borgun í atvinnuleikhúsi.


mbl.is Fylgist með viðbrögðum áhorfenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein algengasta orsökin.

Ein algengasta orsök þess að loftför skella til jarðar er sú, að í krappri beygju í lágri hæð, einkum ef beygt er undan  vindi, verði beygjan of kröpp, en það veldur því að hraði loftsins yfir vængfletina, í þessu tilfelli lyftispaðann á þyrlu, nægir ekki til að mynda lyftikraft sem yfirvinnur mikla aukningu þyngdaraflsins vegna miðflóttaaflsins.

Þetta sýnist vera aðalorsök þyrluslyssins sem sýnt ér á myndbandi Top Gear og ef farið er inn á YouTube og kallað fram slys frá Alaska 24. júní 1994 þar sem B-52 sprengjuþotu var ofgert á flugsýningu, sést vel, hve hrikalegar afleiðingar þetta getur haft.

Um leið og loftfarið fer yfir þolmörkin missir flugmaðurinn stjórn á því og hefur ekkert ráðrúm til að ná stjórninni aftur nema í margfalt meiri hæð frá jörðu.

Spurt er í frétt mbl.is um þetta hvenær við fáum Top Gear til Íslands. Því er til að svara að Top Gear kom til Íslands í kringum 1990 og gerði þátt hér og sömuleiðis komu þeir Top Gear menn til landsins 2010 og létu til sín taka við eldstöðina á Fimmvörðuhálsi.


mbl.is Þyrla hrapar við tökur á Top Gear
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofneysla getur verið á hverju sem er.

Ofneysla getur verið á hverju sem er, og ef sett yrðu aðvörunarmerki á dósir með coladrykkjum, þyrfti til dæmi að setja aðvörunarmerki á kaffipakka og á allar matvörur, sem hægt er að neyta í óhófi og geta valdið offitu og fleiri sjúkdómum.

Í hverjum 100 grömmum af Kók eru 46 hitaeiningar. Það þýðir að í 100 sinnum meira magni eru yfir 4000 hitaeiningar sem er langt yfir þörfum  fullvaxins karlmanns og allt að þrefalt meira en kona þarf.

Koffeinið, ásamt hvítasykrinum, - þetta tvennt gefur áhrif sem valda miklum fráhvarfseinkennum, ef neyslan er óhóflega mikil og henni hætt um lengri eða skemmri tíma.

Einhvers staðar las ég fyrir margt löngu að hægt sé að stunda ofdrykkju á vatni, svo að möguleikarnir á ofneyslu virðast vera býsna margir, ef þetta er rétt.   


mbl.is Drakk tíu lítra af kóki á dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hótanirnar um sífelldar breytingar og óstöðugleika .

Svo er að sjá í fljótu bragði af því sem birtist á mbl.is sem Feneyjanefndin hafi ekki sérlega alvarlegar áhyggjur af stjórnarskrárfrumvarpinu sjálfu heldur miklu frekar af margítrekaðum hótunum forkólfa tveggja stjórnmálaflokka um að verði ný stjórnarskrá samþykkt nú muni næsta ríkisstjórn eftir kosningar samþykkja aðra stjórnarskrá og síðan koll af kolli með tilkomu hverrar nýrrar ríkisstjórnar.

Þetta jafngildir hótun um "pólitískt þrátefli og óstöðugleika", eins og Feneyjarnefndin lýsir því, - þrátefli, þótt yfirgnæfandi meirihluti hafi lýst fylgi við það í þjóðaratkvæðagreiðslu að gera nýja stjórnarskrá á grundvelli frumvarps stjórnlagaráðs.  

Þessari hótun um "pólitískt þrátefli og óstöðugleika, sem gæti valdið vandræðum í stjórn landsins" kastaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrstur manna fram í umræðum á Alþingi í fyrra og líkti ástandinu í íslenskum stjórnmálum við stjórnarfar Rakosis kommúnistaleiðtoga í Ungverjalandi á verstu árum einræðisins þar á árunum eftir stríð ! 

Á þeim tíma sem Sigmundur Davíð hélt þessa ræðu hafði engin efnisleg gagnrýni verið sett fram á frumvarpið en ballið á Alþingi byrjaði á þessu. Þessi hótun fólst í því að staðið væri frammi fyrir tveimur kostum:

1. Framlengingu á því að minnihluti Alþingis hefði ævinlega neitunarvald og gæti þar með komið í veg fyrir heildstæða endurskoðun stjórnarskrárinnar, sem landsfeðurnir sammæltust um 1943-44, en hefur ekki komist í framkvæmd í 70 ár vegna þessa neitunarvalds. 

2. "Pólitískt þrátefli og óstöðugleiki með hættu á vandræðum í stjórn landsins."

Báðir kostirnir þýddu það að komið yrði í veg fyrir, kannski 70 ár í viðbót, að þjóðin fengi þá nýju stjórnarskrá sem hún vill, en til þess eru refirnir skornir.

Þetta er ljótur leikur, sem Feneyjarnefndin hefur áttað sig á að leikinn er í íslenskum stjórmálum, og virðist ekki hafa mikla von um að þessar aðferðir verði lagðar af.

  "


mbl.is Flókin ákvæði í stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hemmi og Helgi Núma gerðu þetta líka 1967.

Upplýst hefur verið hér á mbl.is að Eiður Smári Guðjohnsen hafi kallað til Lior Refaelov, "tökum veggspil!" þegar honum var skipt inn á völlinn, þeir tveir hefðu gert þetta í framhaldinu og Refaelov fengið boltann frá Eiði og skoraði mark.

Þetta er ekki einsdæmi. Íslensk knattspyrnusaga geymir svipað atvik frá 1967.

Þá lögðu þeir Hermann Gunnarsson og Helgi Númason, sem voru fremst í sókninni í landsliði Íslands, á ráðin varðandi það, að ef Hermann byrjaði með boltann á miðju eftir að andstæðingarnir hefðu skorað mark, skyldi Helgi hlaupa í átt að markinu á ská upp til vinstri og Hemmi senda honum boltann, en síðan skyldi Hemmni  bruna sjálfur upp hægra megin við Helga og fá boltann aftur frá honum og koma sér í skotfæri.

Þetta gekk eftir og þegar Hemmi fékk boltann í skotfærinu skoraði hann glæsilegt mark, sem var annað mark Íslendinga í þessum landsleik og eitt af fallegustu mörkum þessa leiks og íslenska landsliðsins á þessum árum, algerlega afurð tveggja góðra sóknarmanna. 

Einn galli var þó á þessu: Íslendingar skoruðu að vísu tvö mörk í þessum leik og það voru fleiri mörk en þeir höfðu nokkurn tíma skorað í fimm landsleikjum við Dani fram að því.

En því miður skoruðu Danir 14 mörk í leiknum, sem þar með komst í sögubækurnar sem endemi í landsleikjasögu Evrópu.


mbl.is Eiður var búinn að skipuleggja markið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að byrja á réttum enda.

Tvö stríð, sem nú eru háð í heiminum eiga það sammerkt að sífellt er herjað á þeim enda þess sem lýtur að framboðinu en ekki á þeim enda, sem lýtur að eftirspurninni.

Þetta eru stríðið við fíkniefnin og stríðið varðandi orkuvandann. Meðan eftirspurnin eftir fíkniefnum vex er tómt mál að tala um að berjast við framboðið. Aukin eftirspurn eykur verðið á vörunni og þar með líkurnar á ábatasamri glæpastarfsemi.

Svipað á við um orkuvandann. Það þýðir lítið að tala um árangur meðan nýting mengandi og óendurnýjanlegra orkugjafa eykst í takt við kröfuna um sífelldan hagvöxt, eftirspurn og neyslu.

Athyglisvert er að í skýrslu IEA um þetta mál er ekki minnst á þann möguleika að Norðmenn virki óvirkjað vatnsafl í landinu, en það er, hvað magn snertir, álíka mikið og óvirkjað vatnsafl hér á landi.

Norska vatnsaflið er þó mun umhverfisvænna en hið íslenska, eingöngu tær vatnsföll, ígildi eilífðarvéla, og afturkræfar virkjanir vegna þess að ekki sest aurset í miðlunarlónin og hægt er að fjarlægja stíflurnar.

Íslensku vatnsföllin eru hins vegar flest jökulár með aurburði sem fyllir miðlunarlónin upp og valda því óafturkræfum umhverfisspjöllum, víða gríðarmiklum.

Þar að auki er norska hálendið, sem fóstrar mest af því vatnsafli, sem óvirkjað er þar í landi, hvergi nærri jafn merkilegt og það íslenska, sem telst í hópi 40 merkustu náttúruverðmæta heims á sama tíma og norska hálendið og sjálfur Yellowstone þjóðgarðurinn í Bandaríkjunum komast ekki á blað.


mbl.is Norðurlöndin verða að gera breytingar á orkunotkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hekla þenst hraðar út." "Krýsuvík í gjörgæslu."

Ég hitti Pál Einarsson, jarðfræðing, á gangi í miðbænum á dögunum og auk almenns spjalls góðkunningja í áratugi fórum við auðvitað að ræða um eldfjöllin eins og venjulega þegar við hittumst.

"Nú er Hekla komin upp fyrir það, sem hún var í fyrir síðasta gos", sagði ég. "Já," svaraði hann, "og hraðinn á útþenslunni eykst".

"En svona var þetta oftast í lok hvers hækkunartímabils við Kröflu", sagði ég.

"Já", svaraði hann, "og þess vegna er svo erfitt að spá nokkru um Heklu" svaraði Páll.

Það eina sem er vitað fyrirfram um gos í Heklu er enn, þrátt fyrir allar mælingarnar við fjallið, að einungis er hægt að spá fyrir um gos í fjallinu með innan við klukkustundar fyrirvara.  

"Krýsuvík hefur verið í gjörgæslu í tvö ár" var setning, sem höfð var eftir Páli fyrir áramótin.

Það er ekki á þau logið, íslensku eldfjöllin, eins og  Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur orðar það á mbl.is: "Eldstöðvarnar eru ólíkindatól."

Ef nú væri búið að gefa grænt ljós á jarðvarmavirkjun við Heklu myndi fáum detta í hug að ráðast þar í framkvæmdir. Raunar myndi fáum detta í hug að að gefa grænt ljós á virkjun þar.

En annað á við um Krýsuvík.

Þar er búið að gefa grænt ljós og sömuleiðis búið að slá því föstu að fara í  virkjanaframkvæmdir þar og víðar á svæðinu, sem er í gjörgæslu, til þess að þjóna hinu óseðjandi álveri í Helguvík, sem þegar er búið að reisa kerskála fyrir, þótt ekkert liggi fyrir um hvernig eigi að finna þau 650 megavött, sem sá siðlausi gerningur krefst. .


mbl.is „Eldstöðvarnar eru ólíkindatól“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"You ain´t seen nothing yet!"

Óhappasyrpa úr rallakstri sem birt er á mbl.is er af tiltölulega vægum óhöppum, miðað við það sem nálgast má á YouTube og víðar.

Ef farið er víðar inn í myndir með stikkorðunum "crash" - "rally" - "WRC" er hægt að segja við þá sem horfðu á óhappasyrpuna á mbl.is: "You ain´t senn nothing yet".

Einn af fremstu rallökumönnum heims er Jari-Matti Latvala, kornungur og djarfur Finni sem þegar hefur sannað það flestum öðrum fremur hvað felst á bak við gamla samheiti yfir finnska ökumenn, "Finnarnir fljúgandi."

Latvala hefur verið í einhverju af efstu sætunum í heimsmeistarakeppninni undanfarin ár, og var í öðru sæti 2010. Það þarf mikið til að veita snillingum eins og Sebastian Loeb keppni.  

En þrátt fyrir ungan aldur, aðeins 28 ára, hefur Latvala þó flestum fremur flogið út af veginum og er óhapp hans í Portúgalska rallinu 2009, sem er hluti af heimsmeistarakeppninni,  sennilega svakalegasta óhapp sem nokkur rallökumaður hefur sloppið ómeiddur frá.

Árið eftir féll hann líka úr keppni í sama ralli, og á að baki óvenju litríkan óhappaferil en einnig glæsilega frammistöðu oft á tíðum, - annars hefði hann ekki verið í  keppnisliði Ford og á þessu ári hjá Volkswagen.

Óhappið 2009 má sjá á ýmsum stöðum á netinu, svo fræg er það að endemum, en fyrirfram er best að athuga fyrst lengd myndskeiðsins, því að 24 sekúnda útgáfan er of stutt.

"Jari-Matti Latvala Spectacular crash..." eru líklega bestu aðgangsorðin til að komast inn á myndina af þessu, og myndskeiðið verður að vera minnst 1:10 mín til að aðdragandinn sjáist. 

Á myndavél inni í bílnum sést að Latvala ekur hrikalega hratt og djarft uns honum mistekst uppi á hæð einni, fer untan í barð vinstra megin og veltur í loftköstum yfir veginn og vegrið hægra megin, en þaðan taka við tugir veltna niður 200 metra háa snarbratta skógivaxna brekku.

Kraftaverk má telja að Latvala og félagi hans skyldu geta gengið ómeiddir út úr bílflakinu.

Sjálfur lenti ég tvívegis í veltu á mínum ferli í gegnum 38 röll, og þau óhöpp sönnuðu fyrir mér gagn bílbelta og öryggisbúnaðar.  

Við bræðurnir, Jón og ég, tókum þátt í einu ralli sem var liður í heimsmeistarakeppninni, Sænska rallinu 1981, og það var óviðjafnanleg lífsreynsla. Það sem skaut manni mestan skelk í bringu var ekki snjóþekjan og hálkan, heldur nálægð hinna fjölmörgu áhorfenda og ekki síður hin stóru tré, sem voru hvarvetna við vegbrúnina.

Ég átti erfitt með að venjast þessu, einkum nálægð áhorfendanna.

En tilhugsunin um Jari-Matti Latvala sem hefur sigrað tvisvar í þessu ralli, segir mér hvílíkar taugar og tilþrif þessi ungi fljúgandi Finni hefur.


mbl.is Óhappasyrpa úr rallkeppnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Okkur Helgu verður ekki haggað.

Það er rétt hjá þeim á Smartlandi að Valentínusardagurinn er innfluttur dagur. En það eitt nægir ekki til að hrinda honum úr þeim sessi sem hann hefur fengið síðustu árin, því að flestir aðrir tyllidagar okkar eru líka innfluttir.

Má þar nefna morgundaginn og þrjá næstu daga á eftir honum, bolludag, sprengidag og öskudag, sem allir eru tengdir kaþólskri trú, en Ísland hafði verið byggt af ásatrúarfólki mestan part í meira en 130 ár samfleytt þegar kristin trú með sínum merkisdögum var innleidd hér.

Sprengidagurinn samsvarar kjötkveðjuhátíð kristinna suðrænna þjóða. Einnig má nefna helgidaga páska, uppstigningardag, 1. maí og hvítasunnudagana.

Jólin mega hins vegar teljast heiðin hátíð í bland, þar sem hækkun sólar á ný var fagnað fyrir komu kristni til landsins.

Og Þorláksmessa, sumardagurinn fyrsti, 17. júní, frídagur verslunarmanna, dagur íslenskrar náttúru og dagur íslenskrar tungu eru íslensk fyrirbrigði.

Úr því að enginn íslenskur dagur elskenda var til og hvorki bóndadagur né konudagur helgaður nema öðru kyninu held ég að héðan af verði Valentínusardeginum ekki haggað.  

Og jafnvel þótt honum yrði vikið til hliðar og annar eða enginn kæmi í hans stað verður 14. febrúar sami tyllidagur hjá mér og Helgu konu minni og hann hefur verið árlega frá því að við hittumst fyrst 14. febrúar 1961.

Við vissum ekki þá og ekki fyrr aldarfjórðungi síðar að þetta væri Valentínusardagur þótt lagið "My funny Valentine" væri eitt af eftirlætislögum okkar.


mbl.is Valentínusardagurinn ekki allra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband