Færsluflokkur: Bloggar
31.1.2013 | 09:58
"Nú fatta ég hvað var svona óskaplega gaman."
Ofangreind orð mælti Flosi Ólafsson leikari í ræðu kvöldsins sem hann flutti á Þingvöllum í samkvæmi Félags íslenskra leikara, sem á árum áður var haldið nokkrum sinnum í hópferðum félagsinsl sem mig minnir að hafi verið farnar á afmælisárum í sögu þess.
Er ekki viss um þetta, en það er algert aukaatriði. Í sams konar veislu nokkrum árum áður átti Flosi að vera ræðumaður kvöldsins en fékk sér víst aðeins of mikið neðan í því og klúðraði málinu. Ekki man ég eftir því enda var ég ekki með í þeirri ferð.
"Síðan gerðist ég þorstaheftur" sagði Flosi í ræðunni sem hann flutti nokkrum árum síðar á Þingvöllum, og átti þá við að hann hefði síðar farið í áfengismeðferð og þess vegna fenginn á ný til að flytja ræðu kvöldsins að nú væri pottþétt að hann yrði í standi til að flytja hana.
Flosi var einhver allra snjallasti tækifærisræðumaður, sem uppi hefur verið hér á landi, og mér er það enn í fersku minni, af því að ég hef alla tíð verið "þorstaheftur" eins og Árni Johnsen, hve frábær ræða hans var þetta kvöld svo að fólk engdist af hlátri frá upphafi til enda.
Flosi upplýsti að þessi Þingvallaferð hans öll væri þegar orðin að einhverju því allra skemmtilegasta og dásamlegasta sem hann hefði upplifað og lýsti því með því leiftrandi háði sem var aðalsmerki hans.
"Mér hefur að vísu verið sagt frá því," sagði hann, "að ég hafi farið svona ferðir áður og verið allra manna skemmtilegastur lengst af eins og við var að búast. Af því að sagt er að ég hafi verið svona skemmtilegur held ég að rétt sé frá sagt og trúi þessu þótt ég muni ekkert eftir því né neinu öðru í ferðum þessum.
Mér hefur verið sagt að ég hafi lengi vel í hverri ferð verið svo fyndinn og skemmtilegur að það hafi verið stanslaust gaman þar til að því hafi komið að það hafi orðið að leggja mig til af einhverjum ástæðum, sem ég á erfitt með að fjalla um, af því að þessar upplýsingar allar hef ég bara af afspurn og man ekki neitt af þessu sjálfur, ekki einu sinni það af hverju og hvernig ég var svona fyndinn og allir skemmtu sér svona vel.
En þessi Þingvallaferð mín núna er einstæð opinberun fyrir mig sem ég er afar þakklátur fyrir að hafa fengið að upplifa, af því að nú er ég orðinn þorstaheftur og nú fatta ég hvað var svona ískaplega gaman í öllum hinum ferðunum."
![]() |
Ég man þó öll partíin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.1.2013 | 22:53
Öðruvísi var það fyrir átta árum.
Fyrir átta árum vantaði ekki að íslensk stjórnvöld hefðu samvinnu við erlend í að æfa viðbrögð við hryðjuverkum, enda kannski ekki furða eftir 11. september 2001 og þá hryðjuverkavá, sem þá var talin steðja að Vesturlöndum.
Hefði mátt ætla að eitthvað hefði verið gert sem tengdist þeirri vá en það var nú eitthvað annað.
Haldin var mikil samhæfð æfing til að bregðast við þeirri mestu hættu og vá sem steðjað gæti að Íslandi, en hún fólst þá að mati ráðamanna í því að "umhverfishryðjuverkamenn" væru þar framar sjálfum Osama bin Laden og útsendurum hans í að ógna lífi og limum landsmanna.
Voru æfð mikil og víðtæk viðbrögð við því að umhverfishryðjuverkamenn væru að störfum á Íslandi.
Ég hef áður greint frá rökstuddum grun um að símar ótrúlegustu manna hér á landi hefðu verið hleraðir síðsumars 2005 sem hluti af þessum mikla viðbúnaði en af viðbrögðum við þeim upplýsingum mínum að dæma virðist mönnum finnast sama um það og láta sér vel líka tilhugsunin um símhleranir hjá hverjum sem er.
Það er því varla að undra að útsendurum FBI hafi fundist það sjálfsagt mál að taka þráðinn upp, hafi hann þá nokkurn tíma slitnað. Hljóta þeir að hafa orðið steinhissa á því að rekast á tregðu gagnvart þeim að þessu sinni.
![]() |
Stöðvaði samstarf við FBI |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
30.1.2013 | 19:15
Tíminn vann með okkur.
Alex Jurshevski, sérfræðingur í skuldamálum þjóðríkja leggur aðaláherslu á það í hamingjuóskum sínum til okkar í tilefni af sigrinum fyrir EFTA dónstólnum, að tíminn og tafirnar á málinu hafi unnið með okkur og að hann hafi ráðlagt okkur á sínum tíma að hafa það í huga í málarekstrinum.
Þetta rímar við bloggpistil sem ég skrifaði í fyrradag þar sem ég gerði þetta að aðalumfjöllunarefni undir sömu fyrirsögn og nú.
Ýmsir ráku hins vegar hornin i þessi skrif mín eins og gengur og er svo sem ekkert við það að athuga, þótt ég leyfi mér að segja aftur það sama eftir að hafa sér ummæli Jurshevskís.
![]() |
Óskar Íslendingum til hamingju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
30.1.2013 | 12:57
Hálfri öld á eftir öðrum landshlutum.
Fyrir 40 til 50 árum bjuggu margir landshutar við öryggisleysi í orku- og samgöngumálum. Kveikjan að Láxárdeilunni var það öryggisleysi á Akureyri að vetrarlagi að bærinn byggi við mikinn rafmagnsskort svo dögum skipti vegna krapastíflna í Laxá sem stöðvuðu rafmagnsframleiðslu þar.
Fyrir hálfri öld var Mjólkárvírkjun ekki risin og svipað var að segja víða um land.
Ófært gat verið til flugs til helstu flugvalla og vegurinn milli Norðurlands og Austurlands lokaður svo vikum skipti.
Sem betur fer hefur þetta batnað í öllum landshlutum nema á Vestfjörðum eins og nýlegt dæmi sannar, þegar nærri lá að Vestfirðir yrðu algerlega án fjarskipta, samgangna og raforku.
Vestfirðir eru líka eini landshlutinn þar sem er enginn alþjóðaflugvöllur og eini landshlutinn þar sem ekki er hægt að fljúga nema um hádeginn í skammdeginu eða í örfáar klukkustundir ef veður leyfir.
Göng undir Breiðadalsheiði og samtenging flugvallanna á Ísafirði og við Þingeyri eru það lítil framför, að varla tekur því að nefna það.
Þjóðleiðin milli sunnanverðra og norðanverðra Vestfjarða er lokuð vetrarmánuðina og þarf að aka á þriðja hundrauð kílómetra til að komast leið, sem annars væri fjórfalt styttri.
Þar að auki myndi afhendingaröryggi frá Mjólkárvirkjun norður til Ísafjarðar og Bolungarvíkur stórbatna með tilkomu raflínu í gegnum jarðgöng milli Dýrafjarðar og Ísafjarðar.
Árið 1960 er enn í meginatriðum á Vestfjörðum varðandi forsendur fyrir nútíma mannlífi og byggð.
Ádrepa lögreglustjórans á Vestfjörðum varðandi samfellt hálfrar aldar ófremdarástand fyrir vestan er því þörf og löngu tímabær.
![]() |
Bregðast verður við strax |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.1.2013 | 00:26
Hin raunverulega bílaöld á Íslandi og 20 merkustu bílarnir.
Í dag er þess minnst að 127 eru liðin frá "fæðingu bílsins" og árið 2004 var þess minnst hér á landi að öld var síðan fyrsti bíllinn kom til landsins, Thomsens-bíllinn svonefndi. Var þá sagt að bílaöldin hefði hafist hér á landi með komu þess bíls, en því er ég ósammála, því að Thomsensbíllinn entist örstutt og landið var án bifreiða að mestu næstu níu árin.
Hin raunverulega samfellda bílaöld á Íslandi hófst ekki fyrr en 1913, því að síðan þá hefur alltaf verið til einhver gangfær bíll í umferð á Íslandi. Á þessu ári lýkur því fyrstu bílaöldinni á Íslandi.
Bílasérfræðingar erlendis hafa dundað við það að setja upp lista með merkilegustu bílum síðustu aldar, en ég hygg að sá listi yrði töluvert öðruvísi hér á landi en úti í heimi.
Til dæmis myndi vanta á þann lista Mini, sem þó má kalla forföður 90% fólksbíla, sem nú eru framleiddir í heiminum og er í 1-3ja sæti á flestum listunum, en Mini náði aldrei þeim vinsældum eða markaði þau spor hér á landi eins hann gerði til dæmis í Evrópu. Svipað er að segja um Citroen DS sem er ofarlega á flestum listum.
Listi minn (birtur með fyrirvara um endurskoðun) felur í sér þær 20 markverðustu gerðir fólksbíla, sem mér sýnast vera merkastar í 100 ára sögu bíla á Íslandi, og tekur þessi listi mið af notagildi, aksturshæfni og vinsældum við íslenskar aðstæður á þeim tíma sem viðkomandi bílar komu fram, en einnig mið af tæknilegri gerð þeirra. Einnig er miðað við hve mikil hlutfallsleg áhrif þeir höfðu, hver á sínum tíma. Bílarnir skiptast svona eftir þjóðerni:
Bandaríkin 6, Japan 4, Þýskaland 3, Bretland 3, Sovétríkin 2, Frakkland 1 og Ítalía 1.
Það er til marks um sérstæðar íslenskar aðstæður og lélegt vegakerfi lengst af 100 ára bílaöld, að 10 af 20 bílum eru aldrifsbílar og af efstu 10 eru 6 aldrifsbílar. En hér er sem sagt þessi listi minn:
1. FORD T. Frá 1913- 27. Bíllinn sem startaði bílaöldinni á landi okkar, kom Íslendingum á hjólin frá 1913 og tryggði samfellda umferð bíla í landinu upp frá því, ódýrastur allra, fáránlega einfaldur og auðveldur í viðhaldi, léttur og meðfærilegur, hár frá vegi og duglegur á vegleysum og vondum vegum.
2. WILLYS JEPPINN. Frá 1945 - 67. Þessi litli sterkbyggði bíll, einn af fimm mikilvægustu hernaðartækjum Bandamanna í stríðinu, olli byltingu í samgöngum eftir stríðið og opnaði þúsundir kílómetra af leiðum, sem áður voru ekki bílfærar. Kom dreifbýlisfólkinu endanlega á hjólin og opnaði hálendi og óbyggðir Íslands.
3. CHEVROLET SEX STROKKA. Frá 1926-54 Bíllinn sem skaut Chevrolet upp í sess mest seldu bílgerðar í heiminum næstu áratugina. Fyrsti stóri fólksbíllinn sem bauð upp á stærri vél en fjögurra strokka fyrir viðráðanlegt verð, rými og vandaða smíð og sterka, aflmikla og endingargóða vél.
4. VOLKSWAGEN BJALLA. Frá 1955-74. Fyrsti smábíllinn sem hlaut almennar metvinsældir fyrir lágt innkaupsverð, áður óþekkt gæði og endingu, einfalda og endingargóða loftkælda vél og drifbúnað og furðu mikinn dugnað í erfiðri færð á vondum vegum vegna þyngdarinnar, sem rassvélin setti á drifhjólin .
5. LANDROVER. Frá 1948-67. Hlaut miklar vinsældir fyrir mun meira rými og burð en Willysjeppinn, sparneytna og endingargóða dísilvél og góða endingu.
6. GAZ 69 "Rússajeppinn". Frá 1955. Vegna sérstakra viðskiptakjara við austantjaldslöndin hlaut þessi best hannaði jeppi síns tíma miklar og verðskuldaðar vinssældir þrátt fyrir lélega vél, sem oft var skipt út fyrir betri vestrænar vélar. Var breiðari og lengri en Landrover, bauð upp á áður óþekkta mýkt fjaðra, rými, meiri veghæð og getu í torfærum en aðrir jeppar á þeim tíma og mikil þægindi fyrir farþega þegar byggð voru rúmgóð hús yfir þá.
7. FORD BRONCO. Frá 1966. "Bronco-æðið, sem rann á landsmenn 1966 var engin tilviljun, þótt það skipti sköpum að lengd á milli öxla var fyrir tilviljun svipuð og á Rússajeppanum, en það tryggði stórfelldan bænda-jeppa-afslátt af verðinu. Þetta var fyrsti jeppinn með gormafjöðrun að framan, vélbúnað, driflínu og kram af bestu bandarísku gæðum og setti ný viðmið varðandi afl og hraða aldrifsbíla með V-8 vélinni.
8. SUBARU LEONE 4x4. 1976 -84. Fyrsti fjöldaframleiddi "cross-over" bíll í heimi, þ.e. venjulegur lítill fólksbíll með heilsoðna byggingu en aukna veghæð og fjórhjóladrif með háu og lágu drifi, þó ekki jafn lágu og á jeppum, japönsk gæði, léttleika og sparneytni og viðráðanlegt verð. Hugsanlega sterkasti bíll íslenskrar bílaaldar miðað við þá notkun sem honum voru ætluð. Alger nagli sem opnaði erfiðar leiðir og slóðir fyrir lágmarks kostnað en þó stöðugleika og þægindi fólskbíla.
9. LADA NIVA. (LADA SPORT á Íslandi). 1977-89. Tímamótahönnun í smíði aldrifsbíla, fyrsti "crossover" bíllinn sem var í senn, fólksbíll og jeppi með hátt og lágt drif, með fullkomna jeppaeiginleika, mörgum árum á undan samtíð sinni, með sídrif, sjálfstæða gormafjöðrun að framan og líka gormafjöðrun á afturás auk þess að vera ódýrasti jeppinn/jepplingurinn á markaðnum. Er enn í framleiðslu, ódýrastur allra, ódrepandi þótt samsetnigargæðin og ending á ýmsum hlutum mættu vera talsvert meiri.
10. MERCEDES BENS PONTON, 180/190 . 1955 - 63 . Enn í dag hafa ekki verið framleiddir fólksbílar með betri stærðarhlutföllum eða betri blöndu af óaðfinnanlegri rýmisnýtingu, þægindum og einkum mýkt og aksturseiginleikum, sem gáfu stórum amerískum drekum langt nef. Sjálfstæð gormafjöðrun á öllum hjólum færðu áður óþekkt gæði af þessum toga til landsins og Benzarnir áunnu sér strax sess sem hinir dæmigerðu leigubílar, ekki síst fyrir það að vera í fararbroddi varðandi sparneytnar og endingargóðar dísilvélar.
11. TOYOTA COROLLA. Mest seldi japanski fólksbíllinn um áraraðir á Íslandi með helstu vinsældaaeiginleika japanskra bíla, forystu í gæðum, endingu og rekstraröryggi, sniðinn fyrir meðaljóninn.
12. RANGE ROVER. Frá 1970 - 94. Bylting á jeppamarkaði heimsins, sem setti algerlega ný viðmið varðandi þægindi, lúxusbílaeiginleika en jafnframt undraverða torfærueiginleika vegna hinnar löngu og mjúku fjöðrunar.
13. VOKSWAGEN "RÚGBRAUÐ". Frá 1956-80. Algerlega ný hönnun, sem markaði tímamót hvað snerti gríðarlegt rými og sætafjölda (alls 9) miðað við stærð, þyngd, verð, eyðslu og einfaldleika. Hratt af stað byltingu í gerð svipaðara bíla svo sem Renault Estafette (Franskbrauð) og Fiat Multipla.
14. WILLYS STATION. Frá 1947 - 55 . Mörgum sést yfir það að þetta var fyrsti aldrifsbíllinn, sem bauð upp á rými og þægindi rúmgóðs fólksbíls þótt stíf blaðfjöðrun drægi úr þægindum.
15. CITROEN TRACTION AVANT. Frá 1934-55. Fyrsti framhjóladrifsbíllinn á Íslandi og tímamóta- og brautryðjendabíll á því sviði í heiminum. Það komu ekki margir bílar af þessari gerð til landsins vegna gjaldeyrishafta, en þessir bílar með heilsoðna, lága byggingu, hjólin úti í hornum bílsins og sjálfstæða fjöðrun á öllum hjólum voru áratugum á undan öðrum bílum hvað snerti aksturshæfni, mýkt og stöðugleika á vondum vegum.
16. FORD V-8. Frá 1932-54. Fyrsti ódýri bíllinn sem bauð upp á mýkt og kraft V-8 vélar og var einn um hituna að þessu leyti í 22 ár.
17. TOYOTA HILUX / 4RUNNER. Frá 1984. Varla hægt að hugsa sér bíl sem hefur verið eins vel sniðinn fyrir notkun við erfiðar Íslenskar aðstæður, með næstum fullkomna blöndu af styrk og léttleika auk ódrepandi gæða og notagildis. Hefur haldið sessi sínum í bráðum 20 ár.
18. SUZUKI FOX / SAMURAI. 1982- 89. Langminnsti, léttasti og sparneytnasti alvörujeppinn á markaðnum en þó með japönsk hágæði og sæti fyrir fjóra. Ásamt Benz G-wagen með bestu undirvagnshönnun allra jeppa á þeim tíma, hver einasti hlutur þannig staðsettur að sem það hindraði sem minnst torfærueiginleika en héldi þyngdarpunkti bílskins þó sem neðst. Einfaldur, sterkur og endingargóður.
19. FORD CORTINA. Frá 1964-68. Fyrsti hundódýri og einfaldi fólksbíllinn, sem bauð upp á þokkalegt rými og viðunandi endingu.
20. FIAT 127. 1971-1980. Í fyrsta sinn var einn allra léttasti, ódýrasti og minnsti bíllinn á markaðnum með viðunandi rými fyrir fjóra fullorðna og farangur þeirra en auk þess einn hinna fyrstu með þverstæða vél og framhjóladrif, enda valinn bíll ársins í Evrópu þegar hann kom fram.
![]() |
127 ár frá fæðingu bílsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 31.1.2013 kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
29.1.2013 | 11:58
"Sósíalismi andskotans" og "pilsfaldakapítalismi."
Mig minnir að það hafi verið Vilmundur Jónsson landlæknir sem notaði orðin "sósíalismi andskotans" um þann pilsfaldakapítalisma eða ríkiskapítalisma sem felst í því að stórfyrirtæki, sem taka áhættu og fara illa að ráði sínu í fjármálum nýti sér stærð sína og aðstöðu til að hirða gróðann þegar vel gengur en láta ríkið borga tapið þegar illa gengur, stundum hvort tveggja á sama tíma.
Áratugum saman hefur sósíalismi andskotans viðgengist hér á landi og út um allan heim.
Stóru bílaverksmiðjurnar í Bandaríkjunum voru ekki látin rúlla heldur dælt í þeim peningum úr vasa skattborgaranna.
Hér heima hefur sósíalismi andskotans þrifist alla tíð í skjóli hinnar eitruðu blöndu viðskipta og stjórnmála.
Sósíalismi andskotans felst líka í því að stjórnmálamenn telja það hlutverk opinberra fyrirtækja, svo sem Landsvirkjunar og orkufyrirtækja, að selja orkuna á spottprís og jafnvel reka þessi fyrirtæki með tapi eða óviðunandi arði til þess að standa í framkvæmdum sem oft á tíðum gagnast afar fáum, stundum örfáum.
Sósíalismi andskotans er stundaður jafnt af hægri stjórnum sem vinstri stjórnum, jafnvel einkum hinum fyrrnefndu, sem ættu þó helst að forðast slíkt ef þeir meintu eitthvað með tali sínu um frjálst hagkerfi þar sem menn fengju athafnafrelsi til að græða eða tapa þegar þeir tækju áhættu og öxluðu ábyrgðina, gróða eða tap sjálfir.
En sósíalismi andskotans skekkir einmitt markaðsumhverfið og refsar í raun þeim, sem sýna ábyrgð og fyrirhyggju en umbunar "óreiðumönnum."
Rökin fyrir því að séu fyrirtæki nógu stór megi ekki láta þau fara í þrot eru venjulega fengin með útreikningum á afleiðingum þess hvað snertir lánadrottna, þ. e. banka, að þau fari á hausinn.
Afskrifaðir eru milljarðar eða jafnvel milljarðatugir á þeim forsendum, að ef slíkt sé gert, geti eigendurnir sem keyrðu allt í þrot, bætt ráð sitt og fengið "viðunandi rekstrargrundvöll."
Því miður blasa við of mörg dæmi um það að "óreiðumennirnir" halda öllu sínu og vel það, stóreignum og ofurtekjum og græða sem aldrei fyrr.
![]() |
Margir Bretar ánægðir með dóminn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.1.2013 | 11:42
Í vörn fyrir landið.
Ekki þarf við lýsinguna á náttúruverðmætum Teigarhorns við Berufjörð, sem er í tengdri mbl.is frétt.
Jörðin hefur verndarnýtingargildi á við friðuð svæði og þjóðgarða.
Þarna er meðal annars að finna jarðminjar og steina sem hafa verið undir ásókn ferðamanna, sem hafa haft þá á brott með sér.
Nú er það höfuðatriði að þjóðin fari vel með þessa dýrmætu eign sína en láti hana ekki drabbast niður í hirðuleysi.
![]() |
Ríkið festir kaup á Teigarhorni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.1.2013 | 00:25
Hvernig væri að lesa frumvarpið?
Ég tel mig knúinn til að leiðrétta rangfærslur sem nú eru færðar fram varðandi ákvæði frumvarps stjórnlagaráðs um þjóðaratkvæðagreiðslur og slegið upp á áberandi hátt á blogginu.
Fullyrt er í þessum upphrópunum að í nýju stjórnarskránni sé girt fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur um þjóðréttarsamninga og að þess vegna hefði ekki verið hægt að halda þjóðaratkvæðagreiðslurnar um Icesave ef ný stjórnarskrá hefði verið í gildi.
Hnykkt er á þessu með því að segja að hefði nýja stjórnarskráin gilt væri "Ísland með tapaða stöðu í Icesave-málinu". Minna má það nú ekki vera.
Það væri nú munur að hafa haft gömlu stjórnarskrána og getað unnið málið.
Þetta er alrangt. Í 60. grein nýju stjórnarskrárinnar er nákvæmlega sama heimild og nú er fyrir forseta Íslands til að neita að skrifa undir hver þau lög sem hann velur sér og skjóta þeim í dóm þjóðarinnar, og væntanlega hefði nákvæmlega það sama gerst, hvor stjórnarskráin sem hefði verið í gildi. Í ákvæðinu um málskotsrétt forsetans eru engin takmörk sett á það hvaða lögum hann geti skotið í dóm þjóðarinnar.
67. greinin fjallar hins vegar sérstaklega um þjóðaratkvæðagreiðslur af öðrum toga, sem sé þeim sem sprottnar séu af frumkvæði kjósenda og þar eru settar takmarkanir sem eiga eingöngu við um þær þjóðaratkvæðagreiðslur en ekki um þær þjóðaratkvæðagreiðslur sem forsetinn getur knúið fram.
Þið, sem hafið hæst um það hvað stendur í nýju stjórnarskránni: Hvernig væri að þið læsuð fyrst það sem þið eru að tala um áður en þið ákveðið slá upp rangfærslum á borð við þetta?
P. S. Ég sé nú að á bloggsíðu einni er haldið uppteknum hætti við þessar rangfærslur. Á sem sagt að staglast á þeim svo oft að fólk fari að trúa þeim. Ég skora á þá sem slíkt stunda að nefna einhvern laga- eða stjórnlagafræðiprófessor sem staðfest geti þær firrur sem þessir bloggarar halda fram.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
28.1.2013 | 19:20
Tíminn vann með okkur.
Þegar litið er á efnahagsástandið hjá okkur og í Icesave málinu í upphafi haustið 2008 og nú, sést hvað tíminn hefur unnið vel með okkur í ljósi lykta málsins.
Í upphafi var staða okkar ömurleg. Efnahagur og orðstír og traust Íslands í rúst og ríkisstjórnin Sjálfstæðisflokks og Sf sá sig tilneydda til að ganga til samninga og gefa fyrirheit sem fyrirsjáanlega yrði ómögulegt að standa við. Erfitt var að sjá hvort eignir Landsbankans dygðu að einhverju eða mestöllu leyti fyrir kröfunum, Norðurlöndin gerðu hörð skilyrði fyrir stuðningi við endurreisn Íslands og AGS einnig.
Fyrsta samninganefndin vegna málsins bjó við afleita samningsstöðu, einkum vegna þess að oftar en einu sinni varð að ganga á bak fyrri orða sem féllu vegna þrýstings og hótana.
Þegar niðurstaða Alþingis lá fyrir var spurningin sú hvort lagabókstafir og reglur ættu að gilda eða sanngirnissjónarmið.
Mín niðurstaða var sú, að enda þótt sanngirni ríki sjaldan í lagaþrætum og deilumálum þjóða væri ekki sanngjarnt að skattgreiðendur þeirra þriggja þjóða, sem málið snerti, ættu að skipta ábyrgðinni þannig með sér að hver íslenskur skattgreiðandi greiddi 25 sinnum meira en hver skattgreiðandi í hinum löndunum.
Á þessum tímapunkti var í raun augljóst, að eina vonin til þess að úr rættist, var að hægt yrði að draga málið á langinn.
Þá kom 26. grein stjórnarskrárinnar sér vel og ég var í hópi þeirra sem skrifaði undir áskorun til forseta Íslands um að skjóta málinu til þjóðarinnar.
Það gerði ég ekki til þess að álasa þeim, sem ekki höfðu getað náð meira fram í samningum um málið í afleitri samningsaðstöðu, heldur til þess að koma sanngirnissjónarmiðum á framfæri við viðsemjendur okkar og á alþjóða vettvangi, og tefja þannig málið að tíminn gæti unnið með okkur og að hægt væri að halda áfram að byggja upp eftir Hrunið án þess að AGS hrykki frá.
Í framhaldi af málskoti forsetans beindist athygli erlendra fjölmiðla að honum og málstað okkar, sem hann útskýrði mjög vel á erlendum vettvangi og vann málinu með því mikið gagn.
Þegar seinni Icesave samningarnir voru gerðir voru þeir miklu betri en hinir fyrri og þá var um það að ræða að taka áhættu af því að tapa málinu fyrir dómstólum eða að ljúka því án þess að taka sjensinn.
Aftur náðum við að láta tímann vinna með okkur með því að fara í aðra þjóðaratkvæðagreiðslu, meira hefur fengist fyrir eignir Landsbankans gamla erlendis, og nú er fullur sigur unninn og við getum fagnað því innilega.
Þjóðin ákvað sjálf að taka áhættu og vann. Ef hún hefði tapað hefði ábyrgðin af því verið hjá henni sjálfri og ég tel, að eins oft og hægt eigi þjóðin sjálf að fá að taka ákvarðanir í sínum málum og bera ábyrgð af þeim, taka afleiðingunum af þeim og læra af þeim eins oft og hægt er. Þess vegna eru ákvæðin í nýrri stjórnarskrá um aukið beint lýðræði svo mikilvæg að mínum dómi.
Samt skulum við ekki gleyma því að það geta ekki allir fagnað, að minnsta kosti ekki þeir innistæðueigendur erlendis sem töpuð miklu, jafnvel nær öllu sínu, á Icasave, sem hér heima var talið hafa hafa þann mikla kost að peningarnir kæmu strax hingað heim inn í hagkerfi okkar.
Og ég tel heldur ekki ástæðu til að fagna því að þetta fólk borgaði 40% af Hörpunni og öðru því sem Landsbankinn styrkti þessi ár.
En Guði sé lof fyrir að þetta mál er nú að baki og hægt að fara að snúa sér að öðrum verkefnum, svo sem nýrri stjórnarskrá og uppbyggingu þjóðlífsins eftir Hrunið.
![]() |
Ísland vann Icesave-málið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
28.1.2013 | 09:16
Jón Sigurðsson "sóaði tímanum í gælumál" 1851.
Málflutningur andstæðinga umbóta í stjórnskipunarmálum Íslands hefði notið sín vel þegar Íslendingar hófu baráttu sína fyrir eigin stjórnarskrá eftir "Hrunið" 1849 í Danmörku og Íslandi, þar sem konungurinn hafði afsalað sér einveldinu og samin hafði verið ný sameiginleg stjórnarskrá fyrir Dani og Íslendinga með friðþægingu fyrir kónginn, sem fólst í því að meira en 20 fyrstu greinarnar fóru í það að tilgreina völd hans, en síðar í stjórnarskránni var sagt að hann léti ráðherra framkvæma vald sitt.
Íslendingar voru fátækasta þjóð Evrópu og bjuggu við frumstæðustu og erfiðustu aðstæður allra Evrópuþjóða, fjarri meginlandinu úti í reginhafi "á mörkum hins byggilega heims".
Þjóðin bjó nær öll í torfbæjum í vegalausu landi og fólk tórði víða við hungurmörk þegar hallæri, drepsóttir, eldgos og hafís sóttu að.
Aðeins örfáar byggingar, sem hægt var að kalla því nafni, voru í landinu, þéttbýli var nær ekkert og engar hafnir, sem stóðu undir nafni.
En nokkrir Íslendingar með Baldvin Einarsson fyrstan um 1830 en síðan Jón Sigurðsson og Fjölnismenn áttu sér það "gæluverkefni" að þjóðin semdi sér nýja stjórnarskrá sem kvæði á um samband hennar við sameiginlegan þjóðhöfðingja Dana og Íslendinga eftir að Danakonunugur var búinn að afsalað sér einveldinu.
Danir féllust á að endurreisa Alþingi en í stað þess að fela Alþingi að semja nýja stjórnarskrá, var ákveðið að halda sérstakar stjórnlagaþingkosningar þar sem fulltrúar væru helst ekki alþingismenn.
Ekki er að efa að Ragnheiði Elínu Árnadóttur hefði þótt nær að eyða því fé, sem þessar stjórnlagaþingkosningar kostuðu, í það að reyna að seðja hungur stórs hluta landsmanna og "taka á vanda heimilanna" í torfkofunum."
Stjórnlagaþingið, sem hlaut nafnið Þjóðfundur, kom saman í eina stóra húsinu, sem þá var til á Íslandi með samkomusal, Menntaskólanum í Reykjavík, og byrjaði "að sóa tímanum í gælumál".
Þá, eins og nú, steig fram fulltrúi ríkjandi valdastéttar, Trampe greifi, sagði nóg komið af því að verið væri að "sóa tímanum í gæluverkefni" og sleit Þjóðfundinum.
Jón Sigurðsson reis þá upp og hrópaði með undirtektum allra Þjóðfundarfulltrúa: "Vér mótmælum allir!"
Lifir sú stund sem og Þjóðfundurinn 1851 í ljóma í minningu þjóðarinnar og væri Ragnheiði Elínu Árnadóttur hollt að leiða hugann að því.
Fyrir bragðið liðu 23 ár þangað til Íslendingar fengu stjórnarskrá, sem samin var í danska kansellíinu og var að mestu samhljóða dönsku stjórnarskránni frá 1849.
Í meginatriðum er þessi danska kansellístjórnarskrá með allri sinni friðþægingu við Danakonung 1849, sem nú hefur verið skipt út fyrir forseta, enn í gildi á Íslandi 139 árum síðar.
Víst var vandi íslenskra heimila brýnn árið 1851, svo brýnn, að vandi íslenskra heimila í dag eru smámunir miðað við það, en um það gilti þá og einnig nú það, sem séra Emil Björnsson sagði stundum: "Þetta ber að gera en hitt eigi ógert að láta."
![]() |
Tímanum sóað í gælumál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)