Færsluflokkur: Bloggar
3.2.2013 | 23:28
"What am I living for?" og öfugt "Let it be" ?
Það eru aðeins 12 nótur í hverri áttund til umráða fyrir lagahöfunda. Þess vegna er erfitt að komast hjá því að eitthvað sé líkt í tugmilljónum laga, sem samin hafa verið.
Hér um árið varð ítalskt lag nokkurt hlutskarpast í Evróvision sem var svo nauðalík laginu "What am I living for? " frá árinu 1958, að mér fannst það broslegt og kunni aldrei almennilega við ítalska lagið fyrir bragðið. Aðallaglínan virtist vera tekin í tveimur bútum úr gamla smellinum, annars vegar úr upphafi þess og hins vegar úr inngangi þess og búturinn úr innganginum settur inn í lagið.
Lagið "You raise me up" verður til hjá Norðmanni, sem var á Íslandi þegar lagið "Söknuður" var hér vinsælt og mikil þjófnaðarlykt af því fyrrnefnda. En bæði lögin, einkum það norska, eru síðan afar keimlík írska laginu "Londonderry Air".
Fyrstu þrír taktar lags Magnúsar Eiríkssonar, "Ó, þú!" eru hinir sömu og í lagi sem Nat King Cole söng 30 árum fyrr, en lag Magnúsar finnst mér raunar mun betra!
Fyrir meira en tíu árum heyrði ég fyrir algera tilviljun erlendan strokkvartett spila í útvarpinu að morgni dags fyrstu fjóra taktana úr upphafið á laginu "Ísland er land þitt" en síðan fór þetta gamla klassíska lag út á aðrar slóðir en í hinu íslenska lagi.
Bubbi Morthens var með lag fyrir 2-3 árum sem er ákaflega líkt slagara sem gekk um 1960 og þegar franska lagið "Dominó" varð heimsfrægt snemma á sjötta áratugnum voru fyrstu taktarnir nánast sömu nóturnar og á gömlu lagi eftir Skúla Halldórsson, áherslurnar þó ekki á sömu nótunum.
1963 gerði ég lagið "Vögguvísa" og setti á plötu. Söng það afar illa en lagið gæti alveg orðið brúklegt með betri söngvara. Ólafur Gaukur hitti mig á förnum vegi og spurði mig hvernig í ósköpunum ég hefði grafið þetta lag upp.
Ég kom af fjöllum því að ég hélt ég hefði samið það sjálfur. "Ónei," sagði Gaukur, "Ég pikkaði þetta lag upp í Bandaríkjunum og spilaði það aðeins nokkrum sinnum haustið 1948 á Hótel Borg. Það var í eina skiptið sem nokkur maður heyrði það hér á landi."
"En þá var ég bara átta ára" svaraði ég. Hugsaði mig síðan aðeins um og spurði: "Er það rétt munað hjá mér að nokkrum sinnum hafi verið bein útsending frá Borginni á þessum árum?"
Gaukur jánkaði því og þar var eina mögulega skýringin komin. Ég var nefnilega mjög spenntur fyrir því að hlusta ásamt foreldrum mínum á dægurtónlist í útvarpinu sem barn og hafði því líklega heyrt þetta lag spilað einu sinni. Lagið hafði síðan dottið niður í undirmeðvitundina og dúkkað upp aftur 14 árum síðar, nánast alveg eins nema síðasta laglínan.
Svipað gæti hafa gerst hjá höfundum laganna, sem ég nefndi hér á undan. "Ég á líf" virkar á svolítið á mann þannig, að það sé líkt einhverju öðru eða öðrum lögum, en þegar um er að ræða þrjár tóna/nótur hlýtur slíkt að vera líklegt.
Ég er ánægður með lagið og finnst tenging þess við beljulagið mjög langsótt. En textinn við lagið er ekki stolinn, - hann er grípandi og fallegur og þetta lag varð því strax í hópi þeirra þriggja laga, sem ég greiddi atkvæði í fyrstu en síðan eingöngu í lokin.
P. S. Hitt er svolítið "Ingimarslegt" að ef fyrstu þrjár nóturnar, "Ég á líf" eru spilaðar afturábak kemur út byrjun aðalstefsins í laginu "Let it be"!! Og ekki er síður skemmtilegt að spila fyrstu sex nóturnar í báðum lögunum í þessum anda, þótt nótur 4-5-6 séu ekki alveg afturábak í "Let it be", þá fer laglína "Let it be" þar upp á við en laglína "Ég á líf" niður á við.
Prófið þið þetta bara!
Og síðan er gamla laglínan: "I take the high road and you take the low road.." og samanburður hennar við "Ég á líf, ég á líf" til dæmis með því að syngja bæði lögin saman þannig að orðin "líf" og "road" standist á !
![]() |
Örlygur Smári segir mu! |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 4.2.2013 kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.2.2013 | 21:26
Minnir á 1971, 1983, 1987 og 1995.
Sveiflurnar á fylgi flokka í skoðanakönnunum síðustu mánuði og vikur fyrir kosningar geta oft verið lygilegar. 1971 munaði aðeins nokkur hundruð atkvæðum í kosningunum sjálfum að Alþýðuflokkurinn þurrkaðist út af þingi en hann slapp inn með 6 þingmenn ef ég man rétt þar sem nýtt afl í nánd við hann í litrófinu, Samtök frjálslyndra og vinstri manna, var hástökkvarinn sem sprengdi Viðreisnarstjórnina eftir 13 ára slímsetu þess stjórnarmeirihluta í ríkisstjórn.
1983 var Bandalag jafnaðarmanna á feikna siglingu í skoðankönnunum í aðdraganda kosninganna en fékk mun minna fylgi í kosningunum sjálfum en Vilmundur Gylfason og samherjar hans höfðu vonast eftir.
1987 var nýstofnaður Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar með 27% fylgi í skoðanakönnun rúmum mánuði fyrir kosningar en fékk aðeins brot af því fylgi í kosningunum sjálfum.
Útlitið var sannarlega svart fyrir Alþýðuflokkinn í aðdraganda kosninganna 1995 þegar Þjóðvaki Jóhönnu Sigurðardóttur fór með himinskautum, en það, hvernig Jóni Baldvini og kó tókst að stórauka fylgið á allra síðasta sprettinum með 18 rauðum rósum kom mjög á óvart.
![]() |
Vinstri-grænir með 5,7% fylgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.2.2013 | 09:28
"Hver er hvurs og hvurs er hvað?"
Í mínu ungdæmi heyrði ég stundum Brynjólf Jóhannesson syngja lag með ofangreindri spurningu, sem kemur upp í hugann í hinni eilífu umræðu sem verið hefur síðan ég man eftir mér hver sé hvað á Alþingi Íslendinga.
Þá er aðallega um það rætt hvar þingmenn hafi skráð lögheimili sitt, þeir flokkaðir eftir því og í framhaldinu miklar útleggingar. En er það nú einhlítur mælikvarði?
Ég er að heyra það fyrst núna að Ásmundur Friðriksson sé ekki Vestmannaeyingur og kem af fjöllum.
Síðan Landeyjahöfn kom til sögunnar tekur álíka langan tíma meirihluta ársins að fara á milli lands og Eyja og það tekur að aka frá Selfossi austur á Hellu.
Skoðum ýmis dæmi í sögunni. Ég hélt á sínum tíma að Árni Mathiesen væri borinn og barnfæddur og innmúraður og innvígður Hafnfirðingur en síðan var bent á að þegar hann varð þingmaður hafi hann látið skrá lögheimili sitt fyrir austan fjall og varð þá allt í einu ekki aðeins orðinn "landsbyggðarmaður" og innmúraður og innvígður Sunnlendingur heldur gat hirt drjúga upphæð árlega fyrir það óhagræði að vera landsbyggðarmaður og landsbyggðarþingmaður.
Skoðum nokkra af stjórnmálaforingjum sögunnar og öðrum sem hafa tekið þátt í þjóðmálum.
Jón Sigurðsson forseti lifði og starfaði lengst af í Kaupmannahöfn þegar hann var þingmaður fæðingarhéraðs hér heima.
Jónas Hallgrímsson var mestöll fullorðinsár sín í Kaupmannahöfn.
Tryggvi Þórhallsson var biskupssonur í Reykjavík en "landsbyggðarþingmaður", þingmaður Strandamanna.
Hermann Jónasson var fæddur og uppalinn í Skagafirði en var þingmaður Strandamanna alla tíð og í lokin þingmaður Vestfirðinga, en bjó þó allan tímann í Reykjavík og átti sumarbústað í Borgafirði.
Ólafur Jóhannesson lifði og starfaði alla tíð í Reykjavík en var þingmaður Skagfirðinga og síðar Norðurlandskjördæmis vestra.
Steingrímur Hermannsson var fæddur, uppalinn og bjó alla sína tíð í Reykjavík en var samt þingmaður Vestfirðinga, skilgreindur sem "landsbyggðarþingmaður."
Gunnar Thoroddsen var sendur vestur á Mýrar rétt rúmlega tvítugur í því skyni að verða þingmaður Mýramanna og hafði víst aldrei komið áður á þær slóðir sem áttu að verða kjördæmi hans.
Síðan eru nýleg dæmi í hina áttina í stjórnlagaráði þegar mönnum hefur verið núið því um nasir að vera í "101 Reykjavík" gott ef ekki "Lattelepjandi kaffihúsalýður" en meira skammaryrði geta sumir ekki fundið um þá sem þeim er í nöp við.
Eftir þeirri þrætubók mátti skilgreina Lýð Árnason sem Hafnfirðing þótt hann hefði eytt fjórtán bestu æviárum sínum sem starfandi læknir á Flateyri og ég vissi varla þann mann í stjórnlagaráði sem skildi betur landsbyggðarfólkið eða túlkaði betur hagsmuni þess.
Örn Bárður Jónsson er fæddur og uppalinn á Ísafirði og mikill Ísfirðingur í sér og með afar sterkar taugar þangað, en Reykvíkingur skyldi hann þó talinn í húð og hár.
Ég hef eytt megninu af ævistarfi mínu í endalausum ferðalögum um landið og umfjöllun um það og hagi landsbyggðarfólks en brennimerktur skal ég þó vera sem "101 Reykjavík lattelepjandi kaffihúsalýður",- lægra er víst ekki hægt að komast.
Er þó líklegast minnsti kaffihúsamaður landsins en átti lögheimili í 101 Reykjavík til tveggja ár aldurs og mun bera það brennimerki til dauðadags.
Þessi umræða er oft á plani sem mér sýnist erfitt að líta á sem mjög hátt plan. En aðrir eru því ósammála og telja að þessi þrætubókarlist sé öllu æðri þegar lagður er dómur á menn og málefni hér á landi.
![]() |
Enginn Eyjamaður á þingi í vor? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.2.2013 | 21:29
Meira en milljón mönnum fórnað fyrir okkur.
Í nóvemberbyrjum 1942 tilkynnti Hitler sigurreifur að Stalíngrad væri fallin, borgin sem bar nafn höfuðandstæðings hans, mannsins sem hafði undanfarin misseri staðið í vegi fyrir því að draumurinn um Þriðja ríkið sem mesta heimsveldis veraldarsögunnar gæti ræst.
Þetta var því gríðarlega táknrænn og mikilvægur sigur. Von Paulus, einn helstu herforingja hans, baðaður ljóma sigra í Frakklandi, og hinn glæsilegi rúmlega 300 þúsund manna 6. her, voru að vinna enn eitt afrekið í óstöðvandi sigurför hins mikla yfirburðakynstofnss, Aríanna sem malaði mélinu smærra heri nútíma Mongóla Gengis Khans og "untermensh", óæðri kynþátta Austur-Evrópu og Asíu.
Aldrei hafði ríki Hitlers verið eins stórt, var í þann veginn að gleypa í sig dýrmætar olíulindir Sovétmanna við sunnanvert Kaspíahaf og þar að auki að rjúfa flutningaleiðina til norðurs og draga hakakrossfánann að hún í hinni mikilvægu iðnaðarborgar, sem að vísu var að mestu orðin að rústum einum eftir harða bardaga um hvert hús, hverja hæð og hvern kjallara.
En sama dag réðust Vesturveldin inn í Norður-Afríku og rúmri viku áður höfðu þeir unnið orrustuna um El Alamain og byrjaðir að reka her Rommels til baka.
En það skipti engu í augum Hitlers, því að sá her var aðeins 5% af herjum Þjóðverja í Rússlandi þar sem hin raunverulegu úrslit heimssstyrjaldarinnar hlutu að ráðast.
En varla hafði Hitler lýst yfir sigri í Stalingrad, "að undanteknum örfáum innilokuðum hópum,"þegar stór her undir stjórn Zhukovs hershöfðingja hófu mikla sókn úr norðri fyrir vestan Stalingrad, valtaði yfir veikar rúmenskar og ítalskar hersveitir sem þar voru og lokuðu her Von Paulusar inni á undraskömmum tíma.
Von Manstein, sem var snjallasti hershöfðingi Þjóðverja, reyndi að brjótast í gegnum herkvína og forsendan fyrir því að tækist að bjarga 6. hernum var að Von Paulus kæmi með her sinn til baka á móti bjargvættunum.
En að sjálfsögðu voru Von Paulus og Hitler of stoltir til að gera það og nú átti að leika frábæran leik Luftvaffe þegar flugvélar héldu uppi loftbrú við Demyansk fyrir tæpu ári og fæddu og klæddu 100 þúsund manna her í þrjá mánuði þangað til að hann braust út úr sams konar herkví.
En þetta var þrisvar sinnum stærri her í þetta sinn, flugher Rússa mun öflugri nú og loftbrúin brást.
Aðeins 5 þúsund hermenn Þjóðverja komust úr hildarleiknum í Stalingrad og meira en milljón Rússar fórust.
En fórn þeirra réði mestu um það að brjóta á bak aftur sókn Þjóðverja og mestu villimennsku sem sagan kann frá að greina. Fyrir það skulum við vera þakklát í nú, þegar 70 ár eru liðin frá þessum hildarleik.
En það eru oftast fleiri en ein hlið á öllum málum. Hinir óbreyttu þýsku hermenn voru líka látnir færa ósegjanlegar fórnir. Samkvæmt lýsingu gamallrar rússneskrar konu sem ég hitti í Demyansk árið 2006, voru þetta flestir ungir menn, komnir langt inn í ókunnugt land, án þess að átta sig á því til hvers, börðust þarna bara upp á líf og dauða til þess eins að láta brytja sig niður.
Sagt er að þegar De Gaulle forseti Frakklands og fyrrum foringi franskra skriðdrekasveita, var í opinberri heimsókn í Sovétríkjunum, hafi honum verið boðið að koma til Stalíngrad.
Hann stóð þar á bakka Volgu þangað sem þýskir hermönn höfðu komist og Rússarnir lýstu orrustuvellinum fyrir honum.
Þá á De Gaulle að hafa sagt: "Þeir hafa unnið ótrúlegt afreki" og hinn rússneski gestgjafi að hafa sagt á móti: "Já, okkar menn."
"Nei," svaraði De Gaulle. "Þjóðverjarnir, að hafa komist alla leið hingað."
![]() |
Fögnuðu sigrinum við Stalingrad |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 3.2.2013 kl. 01:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
2.2.2013 | 19:10
Ýmislegt kemur á óvart.
Það kemur ekki á óvart þótt bíll, sem ekið er á 192ja kílómetra hraða á vegg fari í köku eins og tengd frétt á mbl.is sýnir.
En á YouTube má sjá margar athyglisverðar árekstratilraunir með bíla, sem eru af mörgum stærðum og gerðum og frá mismunandi tímum og löndum.
Sem dæmi má nefna tilraun, þar sem Smart bíl, sem er stysti og minnsti fjöldaframleiddi bíllinn á markaðnum í dag, er ekið á 110 kílómetra hraða á steinvegg og kemur ekki einasta heillegur út úr þessum hrikalega harða árekstri, heldur er hægt að opna dyrnar og loka þeim eftir áreksturinn og framrúðan er enn á sínum stað!
Efast ég um að miklu stærri bílar leiki þetta eftir.
Á hinn bóginn er hrikalegt að sjá suma árekstrana eins og til dæmis á kínverskum bílum þar sem til dæmis frambyggður Volkswagen pallbíll af gömlu geriðinni leggst algerlega saman og nýr Chevrolet Malibu nánast gereyðir miklu stærri 1959 Chevrolet Bel Air bíldreka.
Fiat Ceicento fer illa út úr árekstri en gamli Fiat 126 örbíllinn ekki eins illa farinn.
Síðan kemur stór amerískur pallbíll alveg ótrúlega illa út úr árekstraprófun.
En sjón er sögu ríkari þegar farið er inn á YouTube til að sjá þessar prófandir og fleiri.
![]() |
Keyrði á vegg á 192 km hraða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2013 | 21:41
Öflun grunnorkunnar óendurnýjanleg. Hvað um Þóríum-kjarnorkuver ?
Fyrst þetta: Það er stórt framfaraskref í meðferð á íslenskri orku að minnka þá tölu, sem stingur í augu varðandi íslensk háhitaorkuver, að 85% orkunnar fari ónýtt út í loftið. Að þessu leyti er framleiðsla hins nýja fyrirtækis CRI á góðu eldsneyti fagnaðarefni.
Hitt stenst ekki að þessi framleiðsla byggist á endurnýjanlegri orku. Ef Eldvarpavirkjun verður að veruleika mun orkan í sameiginlegu orkuhólfi Svartsengis og Eldvarpa aðeins endast í 40 ár.
40 ára ending á orkuhólfi er hvað endurnýjanleika snertir ekki hótinu skárri en 40 ára ending olíulindar.
Þetta er rányrkja, ósjálfbær þróun og óþarfa græðgi sem felur í sér misrétti kynslóðanna, ekki aðeins með því að hrifsa allt frá komandi kynslóðum, heldur valda stórfelldum óafturkræfum spjöllum í leiðinni. .
Það leiðir hugann að öðru sem ég hef verið að velta fyrir mér að undanförnu og er ekki einn um það því um daginn bloggaði frændi minn, Einar Björn Bjarnason, um stórfelldar rannsóknir Kínverja, Indverja og fleiri á þeim möguleika að nýta frumefnið Þóríum í kjarnorkuverum. Nafn frumefnisins rita ég með stórum staf, af því að það er nefnt eftir Þór.
Kostir þess gætu verið margir: Margfalt meira magn er til af því en af úraníum, og því gæti Þóríum enst öldum saman þótt öll orkuöflun heimsins yrði fært yfir á það, en úraníum endist aðeins innan við öld ef öll orkuframleiðsla heimsins yrði færð yfir í það.
Í öðru lagi myndi rekstur Þóríumvera verða miklu hættuminni en á núverandi verum, af því að ekki fylgja þau vandamál varðandi kælingu og hættu á slysum, sem nú plaga kjarnorkuverin.
Í þriðja lagi eru ekki sömu vandamál varðandi úrgang og nú valda mönnum miklum vandræðum.
Það grátlega er, að rannsóknir og þróun á notkun Þóríums til kjarnorkuframleiðslu hafa verið stöðvaðar eða þeim ekki sinnt. Ástæðan virðist eingöngu hernaðarlegs eðlis, því að Þóríumnotkun fæðir ekki af sér efni til að nota í kjarnorkusprengjur, þ. e. plútóníum.
Í gær bloggaði Haraldur Sigurðsson um þetta og bæði hann og Einar Björn gáfu upp tengla í frekari fróðleik.
Ef Þóríum er á næsta leyti sem helsta samkeppnishæfa og umhverfismildasta lausnin á orkuvanda heimsins og loftslagsvandanum getur það haft mikil áhrif á orkumál hér á landi og um allan heim.
Vitað er að olíuvinnsla verður æ dýrari og er auk þess óæskileg vegna áhrifanna á lofthjúp jarðar.
Röð af Þóríumorkuverum frá Skotlandi og suður úr gætu sett strik í það að leggja sæstreng til Íslands og sömuleiðis gert það að óaðlaðandi kosti að koma upp skammlífum og umhverfisspillandi orkuverum á Íslandi, sérstaklega þegar það er haft í huga, að jarðvísindamenn hafa lagt fram hugmyndir um hvernig hægt væri að gera nýtingu háhitaorku sjálfbæra og endurnýjanlega með því að fara margfalt hægar í sakirnar, af gætni og yfirvegun.
Ef sagt er að langur tími kunni að líða þar til fyrsta Þóríumknúna kjarnorkuverið rísi er það hugsanlega ekki sjálfgefið. Aðeins liðu ellefu ár frá spreningu fyrstu kjarnorkusprengjunnar þar til fyrsta kjarnorkuverið, sem framleiddi rafmagn til almenningsnota, Calder Hall verið í Bretlandi, tók til starfa.
Mér finnst merkilegt að enginn fjölmiðill skuli hafa skoðað þetta mál eða fjallað um það, svo stórt sem það gæti orðið í framtíðinni.
![]() |
Íslenskt eldsneyti selt til Hollands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 2.2.2013 kl. 10:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.2.2013 | 20:42
Af hverju ekki með kambása, tvíkamba eða strokka?
Ég er í hópi þeirra sem hafa alla tíð haft gaman af því að leita að góðum og stuttum íslenskum orðum yfir erlend fyrirbæri.
Fyrirmyndirnar eru margar góðar, eða hver vill nota orðið helikopter í staðinn fyrir orðið þyrla?
Fyrir 55 árum leist mér vel á að þýða orðið camshaft sem kambás, og sú þýðing er notuð í ensk-íslenskri orðabók. Sömuleiðis fannst mér íslenska orðið strokkur lýsa enska orðinu cylinder eins vel og hægt var, enda íslenska orðið styttra, - tvö atkvæði í stað þrigggja.
En af einhverjum ástæðum virðist fólk nú vera að hopa á hæli í þessum efnum í fjölmiðlum.
Í stað þess að nota orðið kambás sem liggur alveg beint við, er notað orðið knastás, sem er reyndar danskt, "knastaksel". Það þykir greinilega fínna og gefa til kynna hve forframaður og vel að sér notandi orðsins sé að sér í erlendum málum að fara frekar yfir í dönsku en að nota sitt eigið móðurmál.
Og í staðinn fyrir að nota enska heitið "twin-cam" liggur íslenskt heiti "tvíkambar" beint við. Bíllinn er með tvíkambavél.
Enn verra finnst mér að nú er orðið "sílinder" eða "sílender" að ryðja orðinu "strokkur" í burtu í umfjöllun fjölmiðlamanna um bíla.
Talað er um að vél sé átta sílendra eða átta silindra, og þessir slettarar geta ekki einu sinni komið sér saman hvernig eigi að skrifa slettuna þegar sumir þeirra tala um "sílendra".
Hvað er svona slæmt við að segja átta strokka eða bara átta gata? Af hverju þessi fyrirlitning á móðurmáli okkar?
Og ef menn vilja endilega sýna, hvað íslenskan sé ömurleg og nota fínt enskt orð í staðinn, af hverju er þá verið að sletta orði, sem þeir vita ekki einu sinni hvernig er skrifað á ensku?
![]() |
Hvað er knastás? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
1.2.2013 | 10:33
Drepa netið, facebook og skype fleira en myndbandaleigur ?
Það er hugsanlega fleira en myndbandaleigur sem netið, facebook og skype muni drepa eða lemstra verulega. Þrívegis hef ég farið frá Íslandi síðan 1968 til að skemmta Íslendingum í Los Angeles og svipað á við um ýmis fleiri samfélög Íslendinga erlendis.
Sú var tíðin að maður var fenginn til þess að skemmta á fullveldisdaginn 1. des erlendis, en sá dagur missti flugið og dó smám saman, bæði erlendis og líka hér heima.
17. júní átti öruggan sess en er líka á undanhaldi og þorrablótin hafa verið það eina, sem lengi vel hefur haldið velli.
En á dögunum barst sú fregn að Íslendingafélagið í Los Angeles hefði ákveðið að hætta við árlegt þorrablót sitt, sem verið hefur öruggur viðburður þar vestra í áratugi. Ástæðan var lítil þátttaka.
Nú hef ég að því fregnir að fleiri þorrablót, sem hingað til hafa verið fastur liður í lífi Íslendinga erlendis, séu við það að detta upp fyrir vegna minnkandi þátttöku.
Hvað veldur þessu á sama tíma sem Íslendingum hefur fjölgað á mörgum þessum stöðum vegna flutnings úr landi af völdum vaxandi atvinnuleysis hér heima?
Ég læt mér detta í hug netið, facebook og skype.
Facebook hefur að vísu verið stórkostleg lyftistöng fyrir aukin kynni vina og venslamanna en af því gæti líka leitt að þörfin fyrir að hitta hvert annað eða hafa önnur samskipti minnki.
Skype gæti orðið enn frekari dragbítur á að fólk hittist persónulega.
Við þessu er lítið að gera. Þetta er nútíminn og þegar orkan fer að verða dýrari af völdum minnkandi og dýrari orkuframleiðslu í heiminum verður það kannski fjarskiptatæknin þar sem fólk getur hist í skype-þrívídd með víðómi fyrir framan stóra flatskjái, hver í sínu heimshorni, sem tekur yfir.
Þá verður aðeins eftir eitt viðfangsefni, sem gaman verður að sjá hvort verði leyst í framtíðinni: Lyktarsjónvarp.
![]() |
Þessi bransi er bara dáinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.2.2013 | 00:43
Hvað er skyggnið og hvernig er sjólagið ?
Mikil fjölgun sjálfvirkra veðurstöðva hefur leitt af sér miklar framfarir á undanförnum árum. Það er til dæmis ekki ónýtt fyrir mig að sjá tölurnar frá veðurstöðinni "Brúaröræfi" sem er aðeins um þrjá kílómetra frá Sauðárflugvelli, en þar er hitinn að meðaltali einu stigi lægri en á flugvellinum.
Og 15 kílómetrum frá í hina áttina er enn betri veðurstöð við Kárahnjúka.
Sumt í upplýsingum þessara veðurstöðva tekur fram þvi sem gefið er upp í lesnum veðurfregnum í útvarpi svo sem úrkoman á síðustu klukkustundum og mestu vindhviður.
En nokkur atriði skortir á varðandi upplýsinganar frá sjálfvirku stöðvunum. Ekki eru gefin upp sjónrænar upplýsingar eins og skyggni, sjólag og atriði varðandi úrkomu eða ástand lofts og úrkomu eins og haglél, él, skúrir,þoka, þokuruðningur, lágarenningur, mistur, sandfok o. s. frv.
Ég tala ekki um þegar farið er nánar út í þetta eins og með orðunum "á síðustu klukkustund" eða "í grennd".
Sjálfvirkar myndavélar á nokkrum fjallvegum eru til bóta en það getur sest krap á þær en ekki á mannsaugun.
Ég tel að ekki megi fækka mönnuðum veðurstöðvum meira en orðið er.
Af uppgefnu rakastigi og hita má fá vísbendingar um skyggni en þar geta örfá prósentustig, jafnvel allt niður í eitt prósent, ráðið miklu og mín reynsla er sú að ekki er hægt að treysta þessum upplýsingum nema þegar rakinn er 100%.
![]() |
Tæknin tekur yfir á Stórhöfða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.1.2013 | 15:28
"Hinn blíðasti blær" og...?
Að fá að ráða nafni sínu eru einhver mikilsverðustu mannréttindi hverrar manneskju. Allt ætlaði vitlaust að verða í Bandaríkjunum þegar afkomandi svartra þræla, Cassius Clay, hafnaði því nafni og vildi taka sér nafnið Muhammad Ali.
Fjölmiðlar og sumir þeirra sem börðust við hann í hnefaleikahringnum þverskölluðust við og kölluðu hann áfram opinberlega Cassius Clay í þrjú ár eftir að hann tók sér hið nýja nafn.
Þegar hann barðist um heimsmeistaratitilinn 1967 harðneitaði andstæðingur hans, Earnie Terrel, að kalla hann annað en Cassíus Clay. Þetta reitti Ali mjög til reiði og í bardaganum lét hann hana bitna á Terrel allan bardagann sem varð afar ógeðfelldur fyrir bragðið og hvorugum til sóma.
Ali hóf bardagann strax á að nýta sér yfirburði sína í tækni og hraða til að vanka andstæðinginn og lúberja, og kallaði í sífellu til hans: "What´s my name! What´s my name!".
Í lok bardagans var andlit Terrels stokkbólgið eftir barsmíðina og augun nær sokkin.
Mannréttindi barna eru einnig þau að þurfa ekki að sæta því að vera gefin ónefni og lög um barnavernd og mannanöfn eiga að tryggja það eftir föngum. Foreldrar þurfa líka að vera meðvitaðir um skyldur sínar í þessu efni sem og að hafa í huga viðhald íslenskrar tungu og hina stórmerku og aðdáunarverðu föðurnafna/móðurnafnahefð hennar.
Öll börn okkar Helgu heita aðeins einu nafni, og því ekki hætta á því að tveggjanafnatískan eigi þátt í því að slæva þá hefð að kenna börn beint við foreldri.
En aðstæður geta verið eins margvíslegar og börnin, sem gefið er nafn, og því verður að virða mannréttindi ofar þröngum hagsmunum eins og gert var við uppkvaðningu dómsins í máli Blævar Bjarkardóttur Rúnarsdóttur í dag.
Ef mannanafnastífni hefði verið látin ráða för hefðu menn eins Vladimir Askenazy, Victor Urbancic, Jan Moravek, Jose M. Riba, Carl Billich og Fritz Weishappel ekki fengið að nota hin erlendu nöfn sín.
Þegar ofan á þetta bætist að nafnið Blær er fallegt og að fordæmi er fyrir því að kona hafi verið skírð því nafni var það sanngjarnt að hún fengi að halda því nafni, sem hún hafði fengið upphaflega og verið kölluð eftir það úr því að sú skírn gekk í gegn.
Þegar yngsta barn okkar Helgu fæddist fannst okkur sjálfsagt mál að gamall bernskudraumur hennar um dóttur með því nafni rættist. En þegar í kirkjuna kom neitaði presturinn að skíra barnið á grundvelli þess að nafnið Alma væri erlent nafn.
Voru þó á þeim tíma nokkrar íslenskar konur sem báru það nafn. Prestfrúin og skörungurinn Álfheiður Guðmundsdóttir, sem var viðstödd, skarst þá í leikinn á ógleymanlegan hátt og húðskammaði mig og prestinn fyrir að vera að efast um hvað væri rétt og sanngjarnt í þessu máli.
Ef Blær ætti kærasta, sem fagnaði sigri hennar í dómssalnum, gæti hann ort til hennar:
Mig strýkur hinn blíðasti blær
og brosandi er draumfögur mær
og mig strýkur hin blíðasta Blær
er birt hún loks dómsorðið fær.
![]() |
Fær að heita Blær |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)