Færsluflokkur: Bloggar
27.8.2009 | 11:19
Fegrunaraðgerðir.
Þessa dagana leggja menn talsvert á sig til að fegra það sem er að gerast í orkumálum okkar.
Talað er um að óraunhæft sé að við höldum eignarhaldi á orkulind vegna þess að við séum blönk. Hvar ætla menn að draga línuna í þessu efni? Hvaða auðlindir munum við hafa efni á að eiga þegar erlendir fjármálamenn koma og bjóða í þær?
Hvað verður svarið þegar Landsvirkjun kemst í þrot eftir nokkur ár?
Sjávarútvegurinn er blankur, tæknilega gjaldþrota vegna himinhárra skulda.
Er þá ekki óraunhæft að við eigum sjálf þá auðlind?
Þegar nýjar borholan við Hverahlíð er kynnt er ævinlega sagt að hún muni getað gefið 17 þúsund manna byggð rafmagn. Þetta lítur vel út, - auðvitað verðum við að virkja og kreista upp úr jörðinni umfram það sem hún afkastar til þess að 17 þúsund manna byggð verði ekki rafmagnslaus.
Hið rétta er þó að rafmagnið við Hverahlíð er allt eyrnamerkt álverinu í Helguvík og að 20 megavatta holan þar mun skapa um 15 störf í því álveri. Af hverju segja fjölmiðlar ekki frá þessu í réttu samhengi ?
Af því að það hentar ekki stóriðjufíklunum. Látið er í veðri vaka að virkjanirnar sem nú er verið að koma á koppinn séu til þess að skapa þéttbýlinu rafmagn þegar hið rétta er að við framleiðum þegar 4-5 sinnum meira rafmagn en við þurfum sjálf til venjulegra nota. Álverin taka þegar bróðurpartinn.
Nú orðið er ævinlega talað um Hengilssvæðið, - ekki um Hellisheiði eða Þrengsli. Það lítur betur út,- sýnist aðeins vera stækkun á Nesjavallavirkjun.
Meiri orka á sunnanverðu Hellisheiðarsvæðinu virðist ekki hafa hin minnstu áhrif á áform um Bitruvirkjun.
Nei, allt skal virkjað og engu þyrmt og valta skal yfir Hvergerðinga og okkur sem erum talin "öfgafólk" af því að við viljujm skilja eftir pínulítið horn, eina af fimm fyrirhuguðum virkjunum á þessu svæði.
Það, að skilja ekkert eftir og pumpa upp mun meiri orku en svæðið afkastar til frambúðar er skilgreint sem "hófleg nýtingarstefna."
![]() |
Segir óraunhæft að ríkið kaupi hlut í HS Orku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.8.2009 | 22:59
Góðar minningar frá Bárðarbungu.
Skjálftar í Bárðarbungu tengjast oft umbrotum sem verða sunnar eða jafnvel norðar, svo sem þegar gaus í Gjálp 1996.
Bárðarbunga er ekki næsthæsti blettur Íslands fyrir tilviljun, - þetta er öflug eldstöð og þungamiðja stórs umbrotasvæðis, nyrðri endinn á virkasta eldgosasvæði Íslands sem telja má miðju annars af tveimur möttulstrókum heims.
Nafnið Bárðarbunga kveikir góðar minningar frá för þangað upp fyrir réttum aldarfjórðungi, 24. ágúst 1984.
Feðgarnir Sigurður Baldursson og Baldur faðir hans heitinn, vissu að síðsumars á heiðríkum góðviðrisdögum, varð yfirborð jökulsins eins og frauð í sólbráð dagsins en fraus síðan í harða skel í myrkri og útgeislun heiðskírrar næturinnar.
Sigurður og félagar hans í fallhlífarstökkinu á Akureyri ákváðu því að stökkva út úr flugvél í fallhlífum í dögun 24. ágúst og lenda á jöklinum, og þess utan hugðist Víðir Gíslason, flugvinur minn á Akureyri, lenda þar á flugvél sinni, TF-LEO.
Ég lenti með Guðmund Jónasson á Akureyrarflugvelli kvöldið áður eftir för með honum um hálendið og kvaddi hann þegar hann steig upp í Flugfélagsvél og flaug suður.
Síðan gekk ég beint í flasið á Akureyringunum sem sögðu mér frá því sem í vændum var og ég minnist þess en hvað ég varð spældur að hafa sleppt Guðmundi frá mér, því að það hefði verið óborganlegt að taka hann með mér upp á Bárðarbungu og ræða við hann þar um ferðir hans um jökla og hálendi.

Við Víðir flugum flugvélum okkar uppeftir í birtingu og lentum á bungunni farsællega, fyrst Víðir og síðan ég og Helgi Sveinbjörnsson, kvikmyndatökumaður Sjónvarpsins, sem tók myndir þarna fyrir Stikluþátt.
Myndirnar af þessu ævintýri, sem fylgja þessu bloggi, sendi Víðir mér í fyrradag á 25 ára afmælinu.
Já, hvað tíminn flýgur !
Hægt er að stækka myndirnar með því að smella á þær tvisvar í tvígang.

Flugvélin sem bar einkennisstafina TF-FRÚ 1984 var af gerðinni Cessna Skylane, upphaflega í eigu Arnar Johnsons, forstjóra Icelandair.
Hún hefur þvælst og lent víðar en nokkur önnur lítil flugvél íslensk, meðal annars lent í Surtsey, á Esjunni (nauðlending að vísu), fyrir framan Dynheima á Akureyri og um hávetur á Hveravöllum.
Auk þess hefur hún lent á ótal stöðum í Afríku, þar sem hún var trúboðaflugvél Helga Hróbjartssonar í Eþíópíu en var seld til Simbabve og mun vera þar nú.

Gaman væri ef hún kæmi einhtverntíma aftur heim til Íslands.
Fyrir nokkrum árum skemmti ég á samkomu þar sem sátu við borð Þórólfur Magnússon, sem lenti (viljandi) á Esju 1967 og sprengdi dekk en komst á loft og þeir Magnús Guðmundsson og Dagfinnur Stefánsson sem brotlentu á Geysi á Bárðarbungu 1950.
Ég stóðst ekki mátið að grínast í hálfkæringi og sagði:
"Þarna situr Þórólfur Magnússon. Við tveir eigum það sameiginlegt að hafa lent flugvél á Esjunni. Munurinn er hins vegar sá að hann ætlaði sér að gera það en ekki ég.
Og þarna sitja þeir Magnús Guðmundsson og Dagfinnur Stefánsson.
Við þrír eigum það sameiginlegt, ég og þeir, að við höfum allir lent flugvél á Bárðarbungu. Munurinn var hins vegar sá að ég ætlaði að gera það en ekki þeir."
Næst kom ég á Bárðarbungu í ferð Jöklarannsóknafélagins í júní s.l. á minnsta jöklajeppa landsins, Suzuki Fox´86, í eftirminnilegri ferð sem fullkomnaði ferðina 1984, enda útsýnið frábært af þessu næsthæsta fjalli landsins.
(Neðsta myndin er sú sama og sú næstefsta, fór inn lítil vegna mistaka svo að ég henti henni niður fyrir)
P. S. Bendi á fróðlegan pistil Einars Vilhjálmssonar um metanbíla á blogginu hans í dag.

![]() |
Skjálftavirkni á Vatnajökli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.8.2009 | 20:52
Skammtímaminnið er lúmskt.
Sá málflutningur Maradona er hæpinn að vegna þess að fólk hafi valið hann besta knattspyrnumann allra tíma hljóti hann að vera það. Mýmörg dæmi og sum þeirra nýleg eru um það að í vali á bestu mönnum á hverju sviði nái minni flestra þeirra, sem velja, skammt aftur í tímann.
Ég skal nefna tvö dæmi.
Fyrir nokkrum árum var raðað upp í stórri skoðanakönnun bestu íþróttamönnum Íslands á liðinni öld.
Röðin kom ekki á óvart að mörgu leyti. Ekki var hægt að ganga fram hjá Silfurmanninum Vilhjálmi Einarssyni, sem á elsta frjálsíþróttamet Íslands og jafnaði gildandi heimsmet þegar hann setti það.
En annað vakti athygli mína. Jón Arnar Magnússon lenti við toppinn enda hafði hann einu sinni komist í hóp tíu bestu tugþrautarmanna heims á afrekaskránni og orðið tólfti á einum Ólympíuleikum.
Hins vegar var Örn Clausen talinn vera númer fjórtán. Samt var hann þrú ár í röð einn af þremur bestu tugþrautarmönnum heims á afrekaskránni og fékk silfur á EM 1950 en hefði fengið gull ef keppt hefði verið í samræmi við nýja stigatöflu, sem gilti reynar á heimsafrekaskránni þetta ár þótt hún gerði það ekki á EM.
Örn var meiddur á OL 1952 en aðeins 19 ára gamall varð hann tólfti á ÓL í London 1948.
Örn er eini Íslendingurinn sem hefur átt heimsmet í frjálsíþróttagrein, þ. e. 1000 metra boðhlaupi.
Í landskeppni við Dani og Norðmenn 1951 var Örn langstigahæsti keppandinn og réði úrslitum um það að við unnum þessar þjóðir báðar í keppninni.
Menn segja að samkeppnin hafi ekki verið eins hörð 1950 og hún var um 2000 en það nægir ekki til að útskýra hinn mikla mun á útkomunni í samanburðinum milli Arnar og Jóns Arnar.
Iðkun frjálsíþrótta hefur alltaf verið mjög almenn um allan heim og er tugþraut þar ekki undanskilin. Samkeppnin var því vissulega hörð 1950.
Hitt dæmið er enn meira sláandi og sýnir að jafnvel svokallaðir sérfræðingar eða álitsgjafar geta haft gullfiskaminni.
Í janúar 2003 bað Fréttablaðið helstu sérfræðinga okkar á sviði popptónlistar að útnefna bestu dægurlagasöngvara landsins frá upphafi.
Ekki kom á óvart að Ellý Vilhjálms og Vilhjálmur Vilhjálmsson og frændurnir Haukur og Bubbi Morthens ásamt Björk kæmust þar efst á blað.
Hitt var merkilegra að á lista tæplega 30 söngvara sem komust á blað, þeirra á meðal Jón Ólafsson og ég (!) komst söngvari að nafni Ragnar Bjarnason ekki einu sinni á blað !
Ég man að mér sárnaði þetta mjög en ég vann á þessum tíma nótt og dag við að fullgera myndina "Á meðan land byggist" og hafði því ekki tíma til að skrifa um þetta í blaðið.
Ég sagði við Ragnar þá: Láttu þetta ekki hafa áhrif á þig. Það sem einu sinni var sannanlega gott og meðal þess besta verður það aftur.
Ef ég hefði skrifað þessa grein hefði ég spurt álitsgjafana góðu:
Var það misskilningur hjá þjóðinni að á blómatíma Hauks Morthens keppti hann um hylli hennar sem vinsælasti karlsöngvarinn við Ragnar Bjarnason og hafði Ragnar betur flest árin? Var þetta bara vitleysa?
Treystið þið ykkur til að nefna söngvara sem sungið hefði betur jafnólík lög og Vorkvöld í Reykjavík, Ég er kokkur á kútter frá sandi, Ship-ohoj, Litla lipurtá, Nótt í Moskvu og Rokk og cha-cha-cha ?
Í dag kann það að virðast ótrúlegt að fyrir aðeins sex árum skyldu helstu poppsérfræðingar þjóðarinnar ekki setja þennan stórsöngvara síðustu 55 ára á blað. En nú hefur það gerst að það sem einu sinni var gott og meðal þess besta er orðið það aftur hjá Ragnari Bjarnasyni.
En aftur að sperringnum í Maradona. Hann segir að í Evrópu hafi alltaf verið settir á hann yfirfrakkar sem hömuðust í honum. Eins og það hafi ekki líka verið settir yfirfrakkar á Pele ?
Ég ætla að vísu ekki dæma um það hvor þeirra hafi verið betri, - á erfitt með að gera upp á milli þeirra, - en get þó nefnt það að Pele var fjölhæfari knattspyrnumaður vegna þess hve góður skallamaður hann var og þurfti ekki að nota "hönd Guðs".
![]() |
Maradona setur ofan í við Pelé |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.8.2009 | 13:13
Birtingarmynd óstjórnar og ranglætis.
Maður, sem var fyrrum sparisjóðsstjóri í einum af sparisjóðunum á Vestfjörðum sagði mér á dögunum sanna sögu af bónda í sveitinni sem lagði allt féð, sem hann hafði önglað saman með ærinni fyrirhöfn, inn á sparisjóðsbók.
Þetta var ein milljón króna sem var mikið fé í þá daga. Þetta var á verðbólgutímum, þegar sífelld vandræði voru með krónuna og verið að fella hana æ ofan í æ, og á næsta áratug varð þessi ævisparnaður mannsins að nær því engu.
Einhver reiknaði það út að á þessum árum hefðu skuldarar fengið að sama skapi lán sín að mestu gefins, ef þau voru til nógu langs tíma, og að húsbyggjendur hefðu að meðaltali fengið 30-40% húsa sinna gefins.Þeir, sem gáfu, voru meðal annars líknarsjóðir og eldri borgarar.
Á núvirði voru líkast til nokkur hundruð milljarðar króna færðir til á siðlausan hátt á þessum árum frá sparifjáreigendum til skuldara.
Þetta var óréttlæti sem Vilmundur Gylfason barðist gegn eins og mörgu öðru sem aflaga fór í okkar þjóðfélagi og hann kenndi réttilega stjórnmálamönnum um þetta.
En þegar þetta var loks leiðrétt með svonefndum Ólafslögum á útmánuðum 1979 tók við annað ranglæti, sem einnig var sprottið af óstjórn í landinu, og bitnaði fyrst á svonefndum Sigtúnshópi, en það var fólk sem var nýbyrjað að byggja, skuldaði því mikið, og hafði tekið sín lán á allt öðrum forsendum en upp voru komnar og það hafði ekki getað séð fyrir.
Nú hefur þetta nýja ranglæti, sem skuldarar landsins blæða fyrir, náð nýjum hæðum og enn er það stjórnleysið sem birtist í hrikalegri gengisfellingu krónunnar, sem á sök á þessu.
Íslendingar hafa allt frá því að íslenska krónan var losuð úr tengslum við dönsku krónuna viðhaldið ranglæti, sem byggist á rangri skráningu hennar, sem er birtingarmynd af landlægri óstjórn.
Stjórnvöld hafa notað sér krónuna til þess að skekkja fjárhagsgrundvöll landsins og koma sér undan nauðsynlegum aðgerðum til þess að viðhalda stöðugleika.
Undanskilja má aðeins lítinn hluta þessa tímabils, þar sem jafnvægi ríkti nokkurn veginn, eða síðari hluta tíunda áratugsins og byrjun þessarar aldar.
Árin 2002 og 2003 var síðan byrjað að kynda það bál þenslu og tilheyrandi rangrar skráningar krónunnar sem endaði með því að þjóðfélagið varð alelda og sprakk upp í hruninu 2008.
Nú stendur yfir sársaukafull rústabjörgun þar sem margir eiga um sárt að binda og enn er gengi krónunnar birtingarmyndin, sem við okkur blasir.
![]() |
Krónan of lágt skráð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.8.2009 | 23:37
Hvað sagði ekki austurþýska íþróttakonan ?
Fréttin um sigurvegarann í 800 m hlaupi kvenna á HM er ein af þessum fréttum sem býður upp á hálfkæring fyrir svefninn.
Minnir mig á það sem haft var eftir austurþýsku afrekskonunni forðum daga þegar hún sagði: "Skylt er skeggið hökunni."
![]() |
Semenya fagnað í S-Afríku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.8.2009 | 21:55
Vitum við hverjir ÞEIR verða?
Þegar vel var tekið í það á alþingi að afhenda Noregskonungi Grímsey benti Einar Þveræingur á það að enda þótt menn teldu sig þekkja konunginn að góðu, vissu þeir ekki hvaða menn þeir hefðu að geyma sem ættu eftir að taka við af honum.
Vel kann að vera að forstjóri og aðaleigandi Magma Energy sé hinn mætasti maður sem og fyrirtækið, en vitum við hve lengi hann verður við stjórnvölinn og hverjir eiga eftir að koma á eftir honum eða eignast fyrirtækið næstu 130 árin?
Það er verið að ræða um allt að 47% hlut Magma sem er talsvert meira en talið er að sé ráðandi eignarhlutur.
Óraði menn fyrir því fyrir 15 árum að í stað Alusuisse ætti Ríó Tintó, sem á breska þinginu var kallað sóðalegasta fyrirtæki heims, eftir ná yfirráðum yfir álverinu í Straumsvík ?
Horfðum við ekki upp á það í "gróðærinu" hvernig fyrirtæki skiptu um eigendur áður en hægt var að depla auga ?
Við vitum nokkurn veginn hver við erum, þjóðin sem enn ræður nokkurnveginn yfir auðlindum sínum.
En við vitum ekki hverjir ÞEIR verða sem gætu haft þessar auðlindir í höndum sér fyrr en varir, ef við látum þær frá okkur.
![]() |
Upplýsandi fundur með Magma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.8.2009 | 18:43
Persónuleg tengsl sígild.
Við lifum á tímum nets, farsíma og hvers kyns samskipta með atbeina tækninnar. Eftir sem áður falla hin gömlu lögmál um kunningsskap og persónuleg samskipti aldrei úr gildi.
Fjölmörg dæmi eru um það að þá fyrst þegar persónuleg samskipti tókust með áhrifafólki náðist árangur í ákveðnum málum. Bein mannleg samskipti eru einfaldlega þess eðlis að ekkert getur komið alveg í stað þeirra.
Þannig náðu þeir Reagan og Gorbasjof býsna vel saman á fundum sínum, þótt þeir væru gerólíkar persónur.
Af þessum sökum er það mikilvægt að við Íslendingar eigum fulltrúa sem hafa góð sambönd og áhrif sem víðast.
Þar að auki opnast þjóðhöfðingjum og æðstu mönnum oft dyr sem annars eru lokaðar. Framundan er tími þar sem við verðum að nota okkur þetta til hins ítrasta á tímum, þar sem endurheimta þarf glatað traust.
![]() |
Dorrit fékk Kate Winslet |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2009 | 17:38
Ekki rétt ljósmynd.
LJósmyndin sem birt er með þessari frétt er ekki tekin á réttum stað, heldur á stað sem nú er kominn á kaf í aur Hálslóns.
Vísa til bloggsíðu minnar um þetta efni og athugasemda við bloggfærsluna þar.
Fyrr í sumar birti ég mynd af vellinum eins og hann kemur undan vetri og bað menn um að giska á hvorum megin við merkinguna völlurinn væri, því að engan merkjanlegan mun er hægt að sjá á því fyrr en búið er að valta.
Þessi staður er einn af þeim fyrstu sem Agnar Koefoed-Hansen fann í leit sinni að flugvallarstæðum 1939. Flugvöllurinn var þá merktur eins og enn má sjá ummerki um.
Ég hef aðeins endurvakið flugvöllinn vegna þess að vegna stærðar sinnar getur hann nýst sem öryggisflugvöllur fyrir vélar á borð við Fokker 50 og Hercules.
Lendingarstöðum á hálendinu hefur fækkað mikið á undanförnum árum og nú er aðeins einn slíkur á hálendinu norðan Vatnajökuls, við Herðubreiðarlindir.
Hann er ónothæfur þegar sterkur vindur stendur af fjallinu, aðeins ein braut og miklu styttri en löngu brautirnar á Sauðárflugvelli.
Hann er auk þess svo nálægt umbrotasvæðinu, sem þarna er, að vafasamt er að hann geti nýst ef þar kemur upp jarðeldur og þarf að grípa til flutninga í lofti.
Í slíku tilfelli myndi Sauðárflugvöllur hins vegar nýtast vel.
Ég er ekki einn um það að endurvekja gamalt flugvallarstæði. Í sumar hafa áhugamenn endurvakið gömlu flugbrautina sem notuð var fram eftir síðustu öld við Hornafjarðarós í flugi til Hornafjarðar.
Hún er nákvæmlega sama eðlis og Sauðárflugvöllur. Þeir völtu melinn, merktu og settu upp vindpoka.
Eini flugvöllurinn á hálendinu sem notuð hafa verið stórvirkar vélar við er á Auðkúluheiði, en Landsvirkjun byggði hann upp og malbikaði.
Ein flugbraut hafði verið á Kárahnjúkasvæðinu um langa hríð áður en framkvæmdir hófust. Hún var við afleggjarann suður í Snæfell en Landsvirkjun umturnaði honum í malargryfjugerð og hefur skilið svæðið öldótt og annars útlits en það var áður en þessar framkvæmdir hófust.
![]() |
Ómar bætir hálendisflugvöll |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.8.2009 | 13:07
Þarf vandaða úttekt á nýtingu ræktaðs lands.
Við útttektir á því hvaða orkunýting geti leyst olíuna af hólmi hafa menn staldrað við hugmyndir um að rækta mikla akra til að framleiða fyrir lífrænt eldsneyti.
Megin niðurstaðan hefur verið sú almennt, að eins og núverandi tækni er háttað, geti enginn einn orkugjafi leyst orkuvanda heimsins.
Tæknilega er það að vísu hægt með kjarnorku, en birgðir af efnum sem til þess þarf eru takmarkaðar í heiminum.
Stóri ókosturinn við að rækta akra til framleiðslu á efnum fyrir lífrænt eldsneyti er sá, að gríðarlegt landflæmi þarf að nota til þess arna, miðað við afraksturinn, á sama tíma og mannkynið þarf á matvælum að halda.
Ég hef ævinlega dáðst að þeirri framtakssemi, myndarskap og hugmyndaauðgi sem ræður ríkjum á Þorvaldseyri og gerði um það nokkrar fréttir á sínum tíma.
Þar búa Gunnarar á Hlíðarenda okkar tíma, - "bleikir akrar og slegin tún."
Framleiðsla olíu sem eldsneytis verður ekki í það miklum mæli þarna að neinum sköpum skipti fyrir mannkynið hvað snertir fæðuframboð og því kannski óþarfi að vera að pæla í þessu á því plani.
Ég held að það væri samt ennþá betra ef þarna yrði framleidd matarolía. Ef framleiðsla hennar er hins vegar ekki samkeppnishæf en eldsneytið hins vegar samkeppnishæft lítur málið öðruvísi út.
Þörf er á vandaðri útttekt á því hvernig ræktun lands á Íslandi gagnast okkur og heiminum best.
Hafi þakkarvert framtak hinna merku búfrömuða á Þorvaldseyri kallað á slíka úttekt, er það vel.
![]() |
Þreskja repju á Þorvaldseyri og ætla að vinna olíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.8.2009 | 19:31
Hvað þarf að aðvara mikið og oft?
Veðurstofan hefur gefið út stanslausar aðvaranir vegna hvassviðris í dag og gerir enn.
Ökumenn hafa getað séð á skiltum beggja vegna misvindasamra kafla undir Hafnarfjalli, Esju og Ingólfsfjalli hve hvasst er og hvað stærstu hviðurnar eru sterkar.
Ekki vantar heldur aðvaranir varðandi vegi undir fjöllum á Snæfellsnesi og annars staðar þar sem vindur stendur af fjöllum.
Samt fjúka aftanívagnar, kerrur og hjólhýsi útaf veginum og í frásögnum er ævinlega talað um "óhöpp." Þetta eru engin óhöpp. Þetta eru hrein sjálfskaparvíti á ábyrgð ökumanna.
Hvað þarf að aðvara mikið til þess að þetta fari að breytast eitthvað ?
![]() |
Hestakerra valt við Kjalarnes |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)