Færsluflokkur: Bloggar
24.8.2009 | 12:41
Furðuleg hugmynd.
Þegar Egyptar og Sýrlendingar voru hvað ákveðnastir í að knésetja Ísrael héldu þeir að það væri árangursríkast að mynda ríkjabandalag þessara tveggja Arabalanda. Þessi tilraun mistókst algerlega.'
Winston Churchill bauð Frökkum þegar þeir voru að bugast fyrir Þjóðverjum í júní 1940 að Bretland og Frakkland gengju í ríkjabandalag með gagnkvæmum ríkisborgararétt. Þessu höfnuðu Frakkar þótt þeir væru á heljarþröm á barmi mesta ósigurs í sögu landsins og hernáms sinna verstu fjenda.
Í ofannefndum tilfellum var nokkurt jafnræði á milli ríkjanna í ríkjabandalaginu. Norðmenn eru hins vegar 15 sinnum fleiri en Íslendingar.
Mér finnst það varla taka því að blogga um þessa hugmynd, svo fráleit finnst mér hún og lítið útfærð.
Neyð okkar nú er hvergi nærri hin sama og var 1262 þegar við gátum ekki lengur annast grunnsamgöngur við önnur lönd og hér ríkti styrjaldarástand og algert stjórnleysi með tilheyrandi mannfalli og hörmungum.
Að vísu liggur ekki fyrir hve langt menn vilja ganga í þessu hugsanlega ríkjabandalagi við Noreg.
Sé það svipað samband og var milli Danmerkur og Íslands 1918-44 finnst mér vandséð hvaða akkur er í því samanborið við þá hneisu að ómerkja lýðveldisstofnunina 1944.
Áður en Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd 1262 hafði komið fram beiðni frá forvera hans um að Íslendingar gæfu honum Grímsey. Því höfnuðu Íslendingar. Eigum við kannski að athuga núna hvað við fáum í staðinn fyrir það að gefa Norðmönnum Grímsey?
Eða er kannski nærtækara að athuga það hvort við eigum ekki að fara beina leið til baka til að byrja með og ganga í ríkjabandalag með Dönum, svo að Margrét Þórhildur geti talað um Danmörku og Ísland sem "löndin sín tvö" líkt og langafi hennar, Friðrik áttundi gerði í ræðu við Kolviðarhól 1907 ?
Síðan gætum við fikrað okkur til baka aftur til fjórtándu aldar þegar Noregskonungur ríkti hér og Björgvin var höfuðstaður Íslands.
![]() |
Þverrandi áhugi á ríkjabandalagi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.8.2009 | 00:14
Sauðárflugvöllur endurbættur.
Í sumar hef ég dundað við það að endurbæta Sauðárflugvöll, sem er milli Kárahnjúka og Brúarjökuls svo að hann sé nothæfur fyrir stórar flugvélar á borð við Fokker 50 og Hercules.

Hvers vegna? Jú flugvöllurinn er nálægt flugleiðinni Reykjavík-Egilsstaðir og getur því komið sér vel sem öryggisflugvöllur.
Hægt er að skoða myndirnar hér á síðunni betur með því að smella á þær í tveimur áföngum.
Skemmst er að minnast þess fyrir tveimur árum þegar vélarbilun varð í Fokker 50 vél á þessum slóðum á leið til Egilsstaða og flugstjórarnir voru í fyrstu reiðubúnir fyrir nauðlendingu með báða hreyfla dauða og tilkynntu það.
Skömmu síðar kom í ljós að bilunin var aðeins í öðrum hreyflinum og því gátu þeir flogið til Egilsstaða á öðrum hreyflinum.

Í nágrenni flugvallarins eru ferðamannaslóðir og svæði þar sem kvikuuppstreymi hefur mælst á jarðskjálftamælum.
Sauðárhraukar, afurð Brúarjökuls, fyrirbæri, sem aðeins finnst á Íslandi, eru aðeins nokkra kílómetra fyrir innan völlinn.
Nú hefur náðst sá áfangi að breikka næstlengstu brautina upp í 30 metra breidd þanngi að nú eru tvær af fjórum brautum vallarins 30 metra breiðar, önnur þeirra 1300 metra löng og hin 1000 metra löng.
Fyrir skömmu var bætt við 700x20 metra braut sem stefnir beint upp í algengustu vindáttina þarna, en fyrir var önnur 700x20 metra braut.
Brautir vallarins eru því fjórar, alls 3,7 kílómetrar að lengd.

Fyrir bragðið á að vera óhugsandi að lenda þarna í erfiðum hliðarvindi.
Fyrir viku náðist líka sá áfangi að koma valtara á völlinn, en undanfarin sumur hef ég valtað völlinn með jeppa, en það kostar alls 2-300 kílómetra akstur fram og til baka. Með tilkomu valtarans verður þessi akstur sex sinnum styttri.
Það var Stefán Scheving á Egilsstöðum sem stóð fyrir því að koma valtaranum upp eftir og er ég honum afar þakklátur fyrir það.
Agnar Koefoed Hansen og Bergur Gíslason fundu þetta flugvallarstæði í september 1939 og það hefði getað gulltryggt Þjóðverjum að viðhalda yfirráðum yfir Íslandi eftir innrás ári síðar, sem áætlun var til um.
En hvorki Agnar, Bergur né þýska vísindakonan Emmy Todtmann létu Þjóðverja vita um vallarstæðið, sem hafði algera sérstöðu varðandi stærð og notkunarmöguleika.

Þegar Jökuldælingar komu að hlöðnum vörðum þarna eftir að stríðið hófst reyndu þeir að fjarlægja þær í öryggisskyni ef þær væru hlaðnar fyrir Þjóðverja.
Síðan gekk þessi staður undir heitinu "flugvöllurinn" en okkur Völundi Jóhannessyni, sem hefur sumarbækistöð í Grágæsadal þarna í nágrenninu, þykir rétt að nafn hans sé Sauðárflugvöllur, því að hann er verk Sauðár.
Ég hef fundið þarna á melnum leifar af fjórum vörðum og fylgja hér myndir af hluta af tveggja þeirra.
Af vörðunum má ráða að þeir sem þær hlóðu hafi reiknað með tveimur flugbrautum, braut nálægt 1000 metra brautinni nú, og síðan 1100 metra braut sem hefði orðið talsvart austar en 1300 metra brautin er nú.
Tvær vörðurnar hafa nú lent inni á 1000x30 metra brautinni og er fróðlegt að sjá hvernig mosi hefur komið sér fyrir við steinana.

Agnar Koefoed Hansen var einhver frábærasta persóna sem ég hef kynnst og það er gaman af því að fara á slóðir hans þarna uppi á hálendinu.
Gert hefur verið aðflug á lengstu brautina bæði á Fokker 50 og Boeing 757 og svona í lokin er hér hnit vallarins: 64 gráður 50 mínútur norður og 16 gráður 02 mínútur vestur.
Sauðá rennur hálfhring um völlinn og rétt norðan við hann er örnefnið "Kvíslar" en skammt sunnan við hann "Sauðárhraukar".
Um flugvöllinn liggur gamla Brúardalaleiðin sem hefur nú verið merkt með stikum að nýju.
Hún liggur að Hálslóni skammt frá Töfrafossi en Landsvirkjun hefur lagt slóða þangað úr norðri svo að úr verður hringleið. Aðeins fimm kílómetrar eru frá flugvellinum að Hálslóni þar sem skammt er yfir í Kringilsárrana.

Mér telst til að á hálendi Íslands séu rúmlega 25 staðir sem merktir hafa verið sem flugbrautir.
Sumir hafa verið teknir af skrá en á skrá hjá Flugmálastjórn munu nú vera þessir vellir: Hrauneyjafoss, Veiðivötn, Kerlingarfjöll, Hreysiskvísl við Sprengisandsleið, Nýidalur, Auðkúluheiði og Herðubreiðarlindir.
Völlur hjá Grímsstöðum á Fjöllum kom í góðar þarfir fyrir sjúkraflug þegar rúta valt ofan í Hólsselskvísl og þyrlur komust ekki norður.
Allir þessir hálendisvellir eru eins og Sauðárflugvöllur, náttúrugerðir, það er, þeir eru aðeins valtaðir og merktir með merkjum sem hægt er að fjarlægja, en engum jarðverkfærum hefur verið beitt eða yfirborði landsins raskað.

Þess vegna væri auðvelt að leggja þá niður án þess að nein ummerki sæust.
Undantekning er völlurinn á Auðkúluheiði sem Landsvirkjun lét gera með jarðýtum og malbika svo að Landgræðslan gæti notað hann við uppgræðslu á heiðinni í samræmi við fyrirkomulag Blönduvirkjunar.
Neðstu myndirnar á síðunni eru nýjar, á þeirri efri er horft yfir Sauðárflugvöll til suðvesturs til Kverkfjalla, en á myndinni fyrir neðan hana horft í norðaustur í áttina að Kárahnjúkum.
Í aðeins fimm kílómetra fjarlægð frá vellinum er Prestahæð, en þar er eitthvert stórkostlegasta útsýnið yfir austurhálendið.
Sauðárflugvöllur er langstærstur hálendisflugvallanna og er af svipaðri stærð og Reykjavíkurflugvöllur.
Hann hefur þann stóra kost að helstu og stærstu fjöll norðurhálendisins eru álíka langt frá honum þannig að þar er aldrei misvindi eins og til dæmis er algengt við Herðubreiðarlindir í suðvestlægum vindáttum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
23.8.2009 | 12:54
"...sem veit engan veginn hvað það er að fara út í."
Í sambandi við myndbandinu frá hvatafundi Kaupþings kemur enn upp í hugann lýsing Hannesar Smárasonar á grundvallaratriðí íslenska fjármálaundursins og hljóðaði svo í tímaritsviðtali:
"Það hefði engum dottið í hug að gera þessa hluti, sem við erum að gera, nema fólki sem veit engan veginn hvað það er að fara út í."
![]() |
Gamalt Kaupþingsmyndskeið vekur athygli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.8.2009 | 12:49
Er þetta rétta leiðin ?
Hjá mörgum hafa mikil sárindi og reiði hafa fylgt hruninu mikla. Ég trúi þó ekki öðru en að við viljum búa í réttarríki. Þar verður að hafa í huga nokkur höfuðatriði:
1. Allir séu jafnir fyrir lögunum.
2. Öll mál rannsökuð sem nauðsynlegt er að skoða til að allt komi fram.
3. Ekkert dregið undan þessum rannsóknum og þær hafðar nógu öflugar.
4. Allir skuli teljast sýknir saka, nema sekt þeirra sé sönnuð.
5. Sanngjarnir og réttlátir dómsúrskurðir kveðnir upp þar sem það á við.
Skemmdarverkaherferðin sem nú stendur stenst ekki þessar kröfur.
1. Hvernig geta þeir, sem fyrir henni standa, sagt að allir séu jafnir gagnvart aðgerðunum, Hvar draga þeir línuna milli þeirra sem þeir beita sér gegn og hinna sem þeir láta í friði?
2. Augljóst er að skemmdarverkafólkið hefur enga aðstöðu til að rannsaka þau öll mál að neinu marki sem það telur ástæðu til þess að beitt sé hefndar- eða refsiaðgerðum. Hvernig er þá hægt að velja þá úr sem eiga það skilið að verða fyrir skemmdarverkum ?
3. Ekki liggur tæmandi listi yfir þá sem hugsanlega eigi það skilið að fá yfir sig skemmdarverk.
4. Þetta atriði, að allir skuli teljast sýknir saka, nema sekt þeirra sé sönnuð fyrir dómi, er þverbrotið í aðgerðunum, sem nú standa yfir.
5. Eru það sanngjarnar og réttlátar aðgerðir sem beinast að heimilum manna og bitna á börnum og aðstandendum hjá sumum en síður hjá öðrum ?
Þegar farið er gegnum ofangreind atriði verður niðurstaðan sú, að rétt sé að huga að aðgerðum af öðrum toga til þess að láta í ljós sárindi og reiði.
Frægasta skemmdarverk í íslenskri mótmælasögu er það þegar hópur manna sprengdi upp litla stíflu Landsvirkjunar í Miðkvísl við Mývatn.
Fyrir lá að Landsvirkjun vildi sökkva Laxárdal undir miðlunarlón með óheyrilegum umhverfisskemmdum.
Andófsmenn gegn þessu höfðu beitt hefðbundnum mótmælaaðgerðum án nokkurs árangurs.
Þeir ákváðu að í stað þess að vinna skemmdir á eigum þeirra sem stóðu að fyrirætlununum um að drekkja Laxárdal, yrði hin litla stífla, sem var í almanna eigu og fjarri heimilum, fjölskyldum og eigum hinna ábyrgu, fyrir valinu.
Þessi aðgerð var og verður umdeild en munurinn á eðli hennar og núverandi skemmdarverkum er ljós.
![]() |
Málningu úðað yfir bíl Björgólfs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
22.8.2009 | 23:59
Magnaðri en Bolt ?
Maídag einn 1935 setti Jesse Owens þrjú heimsmet og jafnaði hið fjórða á 45 mínútum.
Margir sérfræðingar um íþróttir telja þetta mesta afrek frjálsíþróttasögunnar ef ekki íþróttasögunnar almennt.
Eitt af heimsmetum Owens, 8,13 metrar í langstökki, stóð óhaggað í meira en aldarfjórðung ef ég man rétt.
Á Ólympíuleikunum í Berlín vann Owens gull í fjórum greinum, 100, 200 og 4x100 metra hlaupum og í langstökki.
Raunar er erfitt að leggja mælikvarða á svona afrek. Spurningin er hvort miða eigi við aðstæður hvers tíma eða bera hreinlega saman tímana og lengdirnar.
Á Ólympíuleikunum í Mexíkó 1968 stökk Bob Beamon "inn í næstu öld" þegar hann bætti langstökksmetið um meira en hálfan metra upp í 8,90 metra og var þá talað um að það afrek yrði aldrei bætt.
Beamon stökk í þunna loftinu í Mexíkó og Tommy Smith naut þess líka þegar hann hljóp 200 metrana.
Tveir langstökkvarar bættu þó met Beamons áður en öldin var öll.
Á síðustu áratugum liðinnar aldar urðu gríðarlegar framfarir í þjálfunaraðferðum, mataræði og notkun lyfja eftir því sem það rúmaðist innan settra marka.
En ekki voru breytingar og framfarirnar minni í tækjakosti, hlaupabrautum, skóm og öðrum aðbúnaði.
Allt fram undir miðjan sjötta áratuginn grófu menn til dæmis holur í malarbrautirnar til að starta úr.
Af þessu leiðir að sekúndur og sentimetrar segja hvergi nærri alla söguna þegar afrek Owens eru borin við nýjustu afrekin.
Þótt Bolt hafi bætt heimsmetið í 100 metra hlaupi um heila 11/100 og það þyki gríðarlega mikið jafngildir það 1/10 úr sekúndu, en Owens bætti einmitt heimsmetið á sinni tíð um 1/10 úr sekúndu, - nákvæmnin var ekki meira en þessi á tímum hans.
Ekki ætla ég mér að fegra Hitler né draga úr glæpaverkum hans, en frásagnir af því að fjölskylda Jesse Owens hafi fengið að vera í stúku Hitlers á Ólympíuleikunum 1936 sýnir að Hitler var laginn við að láta allt líta sem sléttast og felldast út á leikunum.
Sögur um að Hitler hafi neitað að koma nálægt Owens þegar hann sigraði hafa reynst ýktar og á misskilningi birtar. Enginn þarf þó að fara í grafgötur um það hve það voru honum mikil vonbrigði að blökkumaður skyldi vera stjarna Ólympíuleikanna í sjálfri Berlín.
Owens greindi síðar frá því hvernig kynþáttaaðskilnaður viðgekkst hjá Bandaríkjamönnum og bitnaði á honum og öðrum blökkumönnum, jafnt í íþróttunum sem í heimahögum.
Bandaríkjamenn léku að þessu leyti tveimur skjöldum þegar þeir héldu á lofti afrekum Owens og Joe Louis gegn hinni miskunnarlausu kynþáttastefnu nasista sem byggðist á fáránlegum hugmyndum þeirra um yfirburði hins "aríska kynstofns" sem þar að auki var ekki til.
Viðureign Joe Louis og Max Schmeling 1938 snerist upp í einvígi milli lýðræðisins og nasismans í hugum heimsbyggðarinnar. Joe Louis þjónaði landi sínu dyggilega í heimsstyrjöldinni og lagði fram ómetanlegan skerf í að byggja upp baráttuanda hers og þjóðar en naut þess í litlum mæli þegar skattayfirvöld hundeltu hann og léku illa.
Enginn íþróttaviðburður síðustu aldar hafði jafn mikla pólitíska þýðingu og bardagi Louis og Schmelings og þess vegna bauð Roosevelt forseti Louis í Hvíta húsið fyrir bardagann, þreifaði á upphandleggsvöðvum hans og sagði: "Við þurfum á þessum vöðvum að halda fyrir lýðræðið."
Til eru þeir sem halda því fram að Muhammad Ali sé íþróttamaður 20. aldarinnar - aðrir nefna Michael Jordan, en við mat á slíku er ekki hægt að styðjast við tölur sem sýna sekúndur eða sentimetra.
![]() |
Sátu í heiðursstúku Hitlers |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
22.8.2009 | 14:43
Gott mál að fegra grafreitinn.
Þegar myndin "Örkin" verður sýnd mun fólk fyrst sjá fyrir alvöru hvað hvilir undir þeim grafreit náttúrdjásna og verðmæta sem sökkt hefur verið í hið auruga Hálslón.
Ég hef að undanförnu fylgst með gerð útilistaverksins Hringiðu og litist vel á.
Ekki veitir af að reyna að ganga eins vel frá og unnt er eftir það umhverfislega ódæðisverk sem framið var þegar Hjalladal var sökkt.
Þetta minnir mig á mögnuð ummæli hins ógleymanlega tannlæknis, Hauks Clausens heitins, þegar gamall maður hikaði við að borga honum mikla peninga fyrir það að láta gera almennilega við tennur sínar.
Haukur sagði: "Þetta er tilboð sem þú getur ekki hafnað, að ég taki kjaftinn á þér þannig í gegn að þú getir smælað framan í heiminn það sem eftir er í stað þess að bæði kveljast og vera þér til háborinnar skammar hvern einasta dag ."
"Ég á kannski skammt eftir ólifað", stundi sá gamli, "og hvers vegna ætti ég þá að fara að eyða síðustu fjármunum mínum í þetta?
"Jú," svaraði Haukur, "þú getur allavega huggað þig við það að verða fallegt lík."
Gamli maðurinn hafði ekkert um það að segja hvað hann yrði gamall og um var að ræða óhjákvæmileg ævilok hans.
Íslendingar höfðu hins vegar allt um það að segja hvort hvort Hjalladalur fengi að lifa eða yrði drekkt. Þess vegna er svo erfitt að hugga sig við það að þetta svæði "fallegt lík" því að lifandi hefði svæðið innan við Kárahnjúka boðið upp á margfalt meiri náttúrufegurð og útivistarmöguleika í einstæðum listaverkasal Jöklu, sem hefur verið drekkt í drullu.
![]() |
Hringiða við Hálslón |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
21.8.2009 | 13:18
Svefnþornið virkar aftur og aftur.
Ég hitti þýskt sjónvarpsfólk á dögunum sem var að taka efni í þátt í þýska sjónvarpinu um íslensk virkjanamál.
Það stóð í þeirri trú að fallið hefði verið frá því að virkja Þjórsá við Norðlingaöldu og þurfti ég að hafa talsvert fyrir því að greina þeim frá því að þeim áformum hefði aðeins verið frestað en ekki hætt við þau.
Að lokum fór svo að þau tóku myndir af fossunum Dynk og Gljúfurleitarfossi sem munu hverfa ef áin verður virkjuð fyrir ofan þá, en annars hefðu þau engar myndir tekið af þessum fossum og Þjóðverjum verið greint frá því í sjónvarpsþætti í haust að virkjanaáform þarna væru úr sögunni.
Nú sér maður í fréttum að Landsvirkjun er aftur komin á fulla ferð við þá fyrirætlan sína að drepa endanlega flottasta stórfoss Íslands, Dynk og taka tvo aðra stóra fossa fyrir ofan og neðan hann með í leiðinni.
Dæmið um þýska sjónvarpsfólkið sýnir vel hvernig svefnþorns-aðferð Landsvirkjunar svínvirkar aftur og aftur.
Menn verða líka stungnir þessu svefnþorni varðandi virkjun í Gjástykki, sem sagt er að sé ekki á dagskrá á sama tíma og eyða á dýrmætu fé til að bora þar tilraunaboranir með tilheyrandi umhverfisspjöllum.
Eftir á verður síðan sagt að hvort eð er sé búið að raska svo miklu og eyða svo miklu fé í boranirnar að það sé eins gott að virkja bara úr því sem komið sé.
Svefnþorns-aðferðin byggist á því að þegar virkjun svæðanna dynur síðan yfir með stuttum fyrirvara er of seint fyrir þá að bregðast við, sem vilja andæfa hernaðinum gegn landinu.
![]() |
Friðland í Þjórsárverum stækkað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
21.8.2009 | 13:05
Ábyrgð að lögum.
Ef miða má við málarekstur erlendis vegna mála sem eru sambærileg við Icesave-málið er sjálfsagt að gildandi lögum um svona mál verði beitt gagnvart þeim, sem hugsanlega beri ábyrgð bæði lagaleg og siðferðilega á því sem gerðist í aðdraganda hrunsins, hvort sem það var vegna ásetnings eða gáleysis.
Það er öllum fyrir bestu að þetta sé gert, ekki síst þeim sem mál verður hugsanlega höfðað gegn, og hafa þarf í huga grundvallar réttaregluna um að hver maður skoðist sýkna saka nema sekt hans sé sönnuð á lögformlegan hátt.
![]() |
Ríkið í mál vegna Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.8.2009 | 00:29
Hið daglega Reykjavíkurljóð fjölbreytilegs mannlífs.
Reykjavík átti afmæli á þriðjudaginn var og Menningarnótt er jafnan fyrsta laugardag eftir það.
Eins og komið hefur fram hjá mér á Facebook hefur drjúgur tími farið í það hjá mér, Gunnari Þórðarsyni, Friðþjófi Helgasyni og inga R. Ingasyni að undanförnu að fullgera stuttmyndina "Reykjavíkurljóð", en meginhluti þessarar 7 mínútna löngu myndar er samnefnt lag eftir Gunnar Þórðarson.
Að tilhlutan þáverandi borgarstjóra, Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, fékk borgin Gunnari það hlutverk snemmsumars 2007 að gera lag, sem túlkað gæti Reykjavík og íbúa hennar í tónlistarmyndbandi sem borgin gæti notað til kynningar og gjafa handa gestum.
Gunnar bað mig að gera texta við lagið og eftir að hvort tveggja hafði verið frumkynnt fyrir fulltrúum borgarinnar síðsumars hófumst við handa við spilun og upptökur á laginu og fyrstu myndatökur fyrir það.
Um haustið urðu hins vegar óvænt borgarstjóraskipti, aftur borgarstjóraskipti 100 dögum síðar og fjórði borgarstjórinn tók við 200 dögum eftir það. Ofan í það kom síðan hrunið fræga.
Staðan var þannig að okkur Gunnari sýndist verk okkar ætla að hafna ofan í skúffum eða í ruslatunnunni, sem er jú besti vinur listamannsins.
En úr því sem komið var tókum við þó þann kost að reyna að klára þetta verk úr því að við höfðum verið beðnir um að vinna það og búnir að eyða þetta miklum tíma og fé í það, skrifa handrit að stuttmyndinni, taka upp tónlist og kvikmyndir og setja þetta saman.
Friðþjófur Helgason vann öðrum fremur að myndatökum og samsetningu en á endasprettinum hefur Ingi R. Ingason unnið að lokafrágangi.
Gunnar myndaði stórsveit og borgarlistamaðurinn frá 2006, Ragnar Bjarnason, hefur sungið lagið inn ásamt söngkvartetti, sem við nefnum Borgarbörn.
Stefnt er að því að við afhendum borgarstjóra fyrsta eintakið af tónlistarstuttmyndinni við setningarathöfn Menningarnætur á morgun.
Þar mun Ragnar syngja lagið og virðist ekki vera deginum eldri en þegar hann söng Vorkvöld í Reykjavík fyrir 48 árum !
Stuttmyndin verður síðan frumsýnd í Tjarnarbæ og endursýnd ásamt öðrum kvikmyndum Menningarnætur fram á kvöld.
Fyrstu 2,5 mínútur stuttmyndarinnar, sem eru lesinn formáli að laginu. Lesari með mér er Guðrún Gunnarsdóttir.
Undir formálanum leikur Gunnar Þórðarson lagið á píanó í ragtime-stíl heima hjá sér á Ægisgötu, þar sem hann hefur útsýni yfir höfnina, Kollafjörð og Esjuna, - heimavanur í borg, þar sem hann hefur átt heima í 42 ár.
Í texta lagsins er talað um sagnaslóð og saga og þróun Reykjavíkur er rakin í þessum formála þannig að myndbandið sé upplýsandi um borgina fyrir framandi gest ef svo ber undir.
Lagið sjálft, sá hluti tónlistarmyndbandsins, tekur 4:09 mínútur í flutningi og í því er reynt að lýsa Reykjavík, sögu hennar og helstu sögustöðum, umhverfinu og mannlífinu dag sem nótt, jafnt í miðborginni sem úthverfunum, - reynt að túlka þá persónulegu sagnaslóð hvers og eins sem á minningar úr þessari höfuðborg Íslands.
Lagið er lofgjörðarljóð um ástina, - túlkar þakkaróð þess, sem þar fæðist, lifir og deyr, til heimaborgar sinnar, - túlkar hið daglega Reykjavíkurljóð lífsgleði og fjölbreytilegs mannlífs í fortíð, nútíð og framtíð.
Lagið má nálgast á tonlist.is eða á tónlistarspilaranum hér vinstra megin á bloggsíðu minni.
En textinn lagsins er svona:
REYKJAVÍKURLJÓÐ.
Ljúf stund, - safírblá sund /
þegar sindraði´ á jöklinum glóð. /
Tvö ein, - aldan við hlein /
söng um ástina lofgjörðarljóð. /
Þau leiddust inn í Laugarnes, - /
lögðust þar, -
ástfangin og rjóð hið fyrsta Reykjavíkurpar, - /
þau Ingólfur og Hallveig. /
Enn er unaður hér, - l
eiðast elskendur á nýrri öld /
um torg í vorri borg, - /
njóta yndis um sumarkvöld. /
Við Austurvöll og Ánanaust /
er elskað alveg fölskvalaust. /
Hér er hamingjan rík /
og hvergi betra´að kyssa´og elska en í Reykjavík. /
Nú syngja allir saman: /
Borgin mín, - /
blikandi haf, sem skín. /
Alþingi´og dómkirkjan svo fín. /
Jón hnakkakerturá stallinum sperrtur /
starir á næturlíf, faðmlög og gleði og grín. /
Í ból sígandi sól /
litar sæinn eins rauðan og blóð. /
Við fjörð Esjan enn vörð /
stendur áfram um sagnaslóð. /
Göngum rúntinn ! /
Gefum bra-bra ! /
Næturgleðin engu lík ! /
Og óviðjafnanlegt að skemmta sér í Reykjavík.
Ljúf stund, -safírblá sund /
þegar sindrar á jöklinum glóð. /
Tvö ein, - aldan við hlein /
syngur ástinni lofgjörðarljóð.
Í úthverfunum una sér /
ungu fjölskyldurnar hér: /
Sport ! Stress ! Bras ! Börn og org ! /
Það kostar sitt að keppa´um lífsgæðin í svona borg. /
Nú syngja allir saman:
Borgin mín ! Blikandi haf sem skín ! /
Börnin við Tjörnina, svo fín ! /
Pabbi og mamma púla og djamma, - /
paufast í umferðarteppu á leið heim til sín.
Ljúf stund ! Safírblá sund /
þegar síðast ég kveð mína þjóð. /
Á ný um þennan bý /
geng í anda um sagnaslóð: /
Kem í Iðnó ! Keyri rúntinn ! /
Leiði elsku um Lækjartorg !
Og þakka´að fá að fæðast lifa´og deyja´í svona borg ! /
Ó, er það ekki yndislegt að eiga svona borg !
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2009 | 19:29
Hörður, Haukur og Mc Kenley.
Usain Bolt er óvenju hár spretthlaupari, 1,96 metrar á hæð. Af ókunnum ástæðum er hann samt jafn fljótur af stað fyrstu 30 metrana og smærri hlauparar, sem yfirleitt eru taldir hafa forskot í viðbragði og fyrsta hluta spretthlaups.
Hið frábæra afrek Bolts minnir okkur á það að einu sinni áttum við Íslendingar óvenju hávaxinn spretthlaupara, Hörð Haraldsson. Hann var 1,92 metrar, sem á þeim tíma, þegar meðalhæð manna var minni en nú.
Þrátt fyrir hæð sína var Hörður magnaður 100 metra hlaupari og barðist hart í þeirri grein við Clausenbræður, Finnbjörn Þorvaldsson og Ásmund Bjarnason.
Þetta þótti mikil hæð og samsvaraði hæð Bolts á okkar dögum. Engu að síður var Hörður í fremstu röð gullaldar spretthlaupara okkar og stefndi í áttina að því að berjast um gull á EM í Brussel sumarið 1950 í 200 metra hlaupi þegar hann tognaði illa mánuði fyrir mótið.
Mörgum árum síðar fann hann út að tognanir, sem ávallt dundu á honum þegar hann var að nálgast toppform, stöfuðu af röngu mataræði hans, skorti á B-vítamíni sem er nauðsynlegt fyrir vöðva og taugar.
Hörður vann Hauk Clausen naumlega í frægu 200 metra hlaupi 17. júní 1950 en síðsumars fór Haukur til Svíþjóðar eftir að hafa á mjög ósanngjarnan hátt verið meinað að keppa um gull í betri grein sinni, 200 metra hlaupi, á EM í Brussel.
Á Em hafði hann einungis fengið að keppa í lakari grein sinni, 100 metra hlaupi, og var samt einum metra frá verðlaunasæti í úrslitahlaupinu í þeirri grein.
Hann þyrsti því í uppreisn og varð að ósk sinni í Eskilstuna með því að setja þar Íslandsmet í 200 metra hlaupi sem stóð í 27 ár og Norðurlandamet sem stóð í sjö ár ! Þessi árangur Hauks var besti árangurinn í 200 metra hlaupi í Evrópu á því ári.
Herbert Mc Kenley hljóp 200 metrana ásamt Hauki í Eskilstuna og var aðeins þremur sekúndubrotum frá heimsmeti afburðahlauparans Jesse Owens.
Mc Kenley var óvenju hávaxinn hlaupari og það háði honum fyrstu 50 metrana, - nokkuð sem virðist ekki há Usain Bolt.
Þess má geta að Mc Kenley var Jamaíkumaður eins og Bolt og að þessi hefð afburðahlaupara frá því landi er orðin 60 ára gömul.
Þess má líka geta að Örn Clausen, tvíburabróðir Hauks Clausens, átti um margra ára skeið heimsmetið í 1000 metra boðhlaupi ásamt Herbert McKenley.
Að lokum smá fróðleiksmoli varðandi hæð spretthlaupara. Upp úr 1950 kom loks að því að heimsmet Jesse Owens frá miðjum fjórða áratugnum yrði bætt.
Það gerði Ira Murchison, sem var aðeins 1,58 metrar á hæð og var þá fljótasti hlaupari í heimi, 38 sentimetrum lægri en Usain Bolt.
![]() |
Bolt stórbætti heimsmet |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)