Færsluflokkur: Bloggar
31.8.2009 | 12:12
Enginn lærir af öðrum.
Helstu stórveldi heims hafa reynt að vinna stríð í Afganistan, Bretar, Sovétmenn og nú Bandaríkjamenn. Öllum hefur mistekist af sömu ástæðu. Þetta er stórt land með einstaklega fjöllóttu og erfiðu landslagi og hentar því afar illa fyrir þann hernað sem stórveldunum gagnast best að heyja.
Hernaðarsigurinn á Írökum byggðist á elstu hernaðaraðferð í heimi. Óvinurinn hafði safnað saman herliði sínu á opnu sléttlendi þar sem yfirburðir í formi vígvéla og tækni gerðu kleift að vinna sigur á einfaldasta hátt hernaðarsögunnar, að drepa eins marga óvini og hægt var í stórorrustum.
Í Afganistan eru aðstæðar gerólíkar. Um 30 milljónir íbúa í 648 þúsund ferkílómetra landi njóta þess hagræðis að vera vanir hinu erfiða fjallalandslagi og vera á heimavelli þegar erlent stórveldi sendir þangað hermenn sem koma úr gjörólíku umhverfi og hafa hvorki vilja né getu til að aðlaga sig framandi umhverfi.
Í Afganistan getur erlenda herliðið hvergi knúið fram sigur með því að láta sverfa til stáls á afmörkuðum vígvöllum í stórorrustum. Þarna er háður skæruhernaður þar sem talíbanar eru dreifðir, liggja í launsátri, gera skyndiárásir og eru horfnir aftur á augabragði.
Afganistan hefur reynst vettvangur fyrir meting milli stórveldanna. Nú ætla Bandaríkjamenn að gera það sem reyndist Sovétmönnum um megn en nota samt um margt svipaðar aðferðir og þeir gerðu á níunda áratugnum, sem sé að ná algerum völdum í krafti yfirburða, sem felist í vígvélum og herbúnaði.
Þótt vígvélar og herbúnaður Bandaríkjamanna taki fram þeim hertólum, sem Sovétmenn höfðu, skiptir það ekki máli þegar í ljós kemur enn og aftur, að þessi herbúnaður hentar ekki til stríðs af því tagi sem háð er í þessu stríðshrjáða landi.
Yfirburðir í vígtólum dugðu ekki í Víetnam því að Vietkong hafði valið sér vígvöll sem hentaði ekki innrásarhernum.
Sama virðist vera að gerast í Afganistan.
![]() |
Breyta verður um stefnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
30.8.2009 | 22:19
"Sjáumst á ný..."
Sum lög syngja sumir söngvarar þannig að fólki finnst að enginn annar geti leikið það eftir. Vera Lynn söng lagið "We´ll meet again" þannig að manni fannst að engin önnur söngkona ætti að reyna að syngja það. Gott til þess að vita að hún þessi 92ja ára söngsnillingur komist efst á vinsældalista.
Lagið er mér kært fyrir ýmsar sakir. Mér er í frumbernskuminni hvað foreldrar mínir héldu upp á það í lok stríðsins.
Fyrir þremur árum varð lagið aftur á vegi mínum. Þorgeir Ástvaldsson hafði verið á Spáni, heyrt hóp breskra ferðamanna syngja það og öfundaði þá af því að eiga svo hugljúfan fjöldasöng.
Hann og Ragnar Bjarnason spurðu hvort ég treysti mér til að gera íslenskan texta. Ég svaraði því til að þrír enskir textar, "We´ll meet again", - "Smoke gets in your eyes" - og "My way" væru óviðráðanlegir fyrir mig til þýðingar yfir á íslensku og að ég teldi ekki einu sinni rétt að reyna það.
Orsökin væru aðallega hin stuttu ensku orð sem tækju minna rými en samsvarandi íslensk orð, auk þess sem We´ll meet again væri með innrími í viðbót við endarímið og þegar við bættist að ég gerði þá kröfu til íslensks texta af minni hendi að hin íslenska hrynjandi hljóðstafa væri í honum væri viðfangsefnið augljóslega óleysanlegt.
Síðan gerðist það að svilkona mín, Guðrún Gunnarsdóttir, alltaf kölluð Rúna, lést, en hún var einhver yndislegasta manneskja sem ég hef kynnst.
Þegar ég var skömmu siðar á leið frá Ströndum til Reykjavíkur, frétti ég að kær vinkona mín úr Gaggó og M.R, Jóhanna Þráinsdóttir þýðandi, lægi banaleguna og fór ég þá að hugsa aftur um elskuna hana Rúnu og lagið We´ll meet again".
Þá sá ég skyndilega að það var opin glufa í enska textanum til þess að vinna upp það tap á rými sem hin stuttu ensku orð gefa oftast þegar þýða þarf á íslensku yfir á lengri orð. Orðin í fyrstu laglínunni, "We´ll meet again..."eru nefnilega endurtekin í næstu llínu: "...but I know we´ll meet again some sunny day."
Það að sleppa því að endurtaka þessi orð og færa setningar til, gæfi tækifæri.
Þar með fór boltinn að rúlla og á leiðinni suður varð megnið af textanum til. Hann er þýðing fyrst og fremst, - það sem orðað er í enska textanum er orðað nokkurn veginn líka í þeim íslenska.
Þó er ein undantekning: Þegar Rúna heitin kvaddi fólk var orðtak hennar jafnan: "kysstu alla frá mér."
Ég ákvað því að í minningu hennar skyldi ég hafa þessa setningu í íslenska textanum þótt hann væri ekki í þeim enska.
Ég heimsótti síðan Jóhönnu Þráinsdóttur á banasængina í þeim erindagerðum að kveðja hana og biðja hana jafnframt að fara yfir þýðingu mína og gera við hana athugasemdir ef hún treysti sér til þess.
Henni þótti vænt um þessa bón, fór yfir textann og það varð hennar síðasta verk sem þýðanda í þessari jarðvist.
Í söngleiknum Ást var íslenski textinn "Sjáumst á ný" sunginn í leikslok og síðan hef ég sungið hann með áheyrendum mínum í kveðjuskyni á skemmtunum og mun halda þeim sið sem ofast það sem eftir er.
Lýk þessari færslu með því að birta textann í fullri lengd, bæði A - og B-kafla, en oftast er aðeins B-kaflinn einn sunginn þar sem fólk kemur saman.
SJÁUMST Á NÝ.
Klökknandi kætumst og gleðjumst. /
Þegar við kveðjumst blika tár. /
Gott er um góðvini´að dreyma. /
Aldrei gleymast hin hugljúfu ár. /
Sjáumst á ný björtu sólskini í /
þótt um stað og stund við vitum ekki nú. /
Bros gegnum tár munu´um ókomin ár /
bægja öllum skýjum burt, það er mín trú. /
Ó, kysstu alla frá mér, vini´og vandamenn hér, - /
biðin verður ei löng. /
Og tjáðu þeim mína ást - /
er þú síðast mig sást, /
að ég söng þennan söng: /
Sjáumst á ný björtu sólskini í. /
Glöð og sæl við hittumst aftur, ég og þú. /
Birtir upp öll él um síðir. /
Þú engu kvíðir um þinn hag. /
Ást okkar ekki við byrgjum. /
Ekkert syrgjum við heldur í dag. /
Sjáumst á ný björtu sólskini í /
þótt um stað og stund við vitum ekki nú. /
Bros gegnum tár munu´um ókomin ár /
bægja öllum skýjum burt, það er mín trú.
Ó, kysstu alla frá mér, - vini´og vandamenn hér,
biðin verður ei löng /
og tjáðu þeim mína ást, - er þú síðast mig sást /
að ég söng þennan söng:
Sjáumst á ný björtu sólskini í. /
Glöð og sæl við hittumst aftur, ég og þú. /
![]() |
92 ára á popplistann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.8.2009 | 21:31
Geta borið höfuðið hátt.
Stúlkurnar í íslenska kvennalandsliðinu geta borið höfuðið hátt. Þær urðu fyrsta íslenska knattspyrnulandsliðið til þess að komast í úrslitakeppni stórmóts í knattspyrnu.
Aðeins eins marks tap þeirra gegn ríkjandi heimsmeisturum er sami markamunur og sá þegar íslenska karlalandsliðið tapaði með eins marks mun gegn ríkjandi heimsmeisturum Frakka í riðlakeppni fyrir áratug.
Þrátt fyrir mótbyr í fyrstu leikjunjum var hægt að horfa stoltur á stelpurnar berjast og verða landi sínu til sóma.
![]() |
EM: Spiluðum frábæran varnarleik |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.8.2009 | 08:20
Bravó! Ekki "bílvelta varð" !
Það er ekki langt síðan enn ein fréttin birtist um að bíll hefði oltið þar sem notuð voru orðin "bílvelta varð".
Ég hef fjallað um þessa áráttu oftar en einu sinni sem og það þegar fólk verður fyrir margskyns hlutum, verður fyrir bílveltum og verður fyrir beinbrotum, hvernig í ósköpunum sem það er nú hægt, því að erfitt er að hugsa sér hvernig beinbrotum eða brotum úr beinum getur rignt svo af himnum ofan að menn verði fyrir þeim og meiðist.
Kannski bjargaði miklu í fyrstu orðum tilvitnaðrar fréttar, "lítill fólksbíll valt" sem ég vil hérmeð þakka fyrir, að það hefði orðið áberandi klaufalegt að segja "bílvelta lítils fólksbíls varð."
Í gærkvöldi var ég viðstaddur góða fjölskylduhátíð í Mosfellsbæ og þar kynnti röggsamur kynnir atriðin og fórst það mjög vel úr hendi. Þó ekki slysalaust.
Oftar en einu sinni sagði hann: "Ég vill..." í stað "ég vil."
Ég var feginn að hann var ekki söngvari sem söng "ég vill stilla mína strengi..." eða söngkona sem söng "ég vill fara upp í sveit..." En það er kannski næsti áfangi í útbreiðslu þessarar málvillu að breyta þessu sem víðast og segja síðan ef maður kemur með aðfinnslur: "Ég skill ekki hvað þér gengur til..."
![]() |
Bílvelta á Þykkvabæjarvegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.8.2009 | 20:12
Afrek innan veggja þinghúsa.
Um áratugaskeið hafa áhrif Alþingis verið skammarlega lítil vegna ofríkis framkvæmdavaldsins. Þetta er bagalegt vegna þess að þegar völdin hafa færst í svona miklum mæli til ríkisstjórnanna hafa þau færst frá kjósendum, þannig að milliliðirnir milli þeirra og valdhafanna eru tveir en ekki einn.
Hægt er að nefna tvo bandaríska stjórnmálamenn sem höfðu fyrst og fremst áhrif vegna frammistöðu sinnar innan veggja þinghússins, þá Lyndon B. Johnson og Edward Kennedy.
Þótt John F. Kennedy væri glæsilegur stjórnmálamaður og legði sig allan fram sem forseti um að koma réttindamálum blökkumanna í Bandaríkjunum á rekspöl auk fleiri endurbóta var það þó eftirmaður hans, Lyndon B. Johnson, sem náði miklu meiri árangri.
Það var svo mikill árangur að enn í dag er bið á því að hliðstætt gerist. Barátta Obama fyrir endurbótum á heilbrigðiskerfinu í Bandaríkjunum virðist til dæmis ætla að verða harla harðsótt þrátt fyrir færni og hæfileika forsetans.
Ástæða velgengni Johnsons byggðist ekki á flekklausum ferli, glæsileika né bumbuslætti. Johnson var um margt grófgerður og stundum ófyrirleitinn, ekki vandur að meðulum og hafði ýmsa ágalla.
Sumir ásökuðu hann um tækifærismennsku, rustamennsku og lýðskrum.
En um snilld hans í þingstörfum efast enginn. Hann hafði einstakt lag á að ná sambandi við menn úr báðum þingflokkunum og naut þess að ýmsu leyti að vera með næsta venjulegt og alþýðlegt fas.
Það var andstæða hins yfirstéttarlega glæsileika sem einkenndi Kennedy og hans fylgisveina, sem komu margir úr röðum háskólafólks, leikara, listamanna og þeirra sem betur máttu sín, en vildu samt leggja sitt af mörkum fyrir þá sem minna máttu sín.
Johnson var meistari leikflétta og stjórnmálabragða á bak við tjöldin, - hann var realpólitíkus eins og þeir gerast eindregnastir.
Hann var maður sem spurði að leikslokum, ekki vopnaviðskiptum.
Vietnamstríðið varð Johnson að falli og hefði sennilega fellt hvaða forseta sem var, líka John F. Kennedy hefði hann lifað, þótt aldrei verði það sannað, af eða á, hvort hann hefði breytt um stefnu.
Nú hefur annar þingsnillingur, Edward Kennedy, safnast til feðra sinna. Ferill Kennedys sýnir að hann var svo sem "enginn engill heldur" frekar en Johnson, eins og segir í Þórsmerkurljóði, og varð hann þess vegna að takast á við erfiðleika, oft sjálfskaparvíti, sem voru stærri en svo að meðalmenn hefðu ráðið fram úr því.
En í lok ferils hans situr aðeins virðingin eftir, - virðing fyrir þingsnillingi sem með mannkostum sínum tókst að yfirstíga sjálfan sig og ná árangri á mörgum sviðum sem tekur fram því sem ýmsir forsetar hafa afrekað. Hann hrasaði hvað eftir annað en stóð alltaf upp aftur og hélt áfram.
Þingsnilldin fólst í mannlegum samskiptum og því að missa aldrei sjónar á háleitum stefnumiðum.
Allir menn eru ófullkomnir en Edward Kennedy tókst á við erfiðleikana á sinn hátt svo að eftir verður munað.
Í sumar hefur þess orðið vart að von er til þess að Alþingi takist að láta meira til sín taka en fyrr. Það væri gott, því að það er einungis tilhlökkunarefni ef við Íslendingar getum eignast þingsnillinga eins og þeir gerast bestir hjá öðrum þjóðum.
Því verður að hamra áfram járnið um bráðnauðsynlegar og tímabærar stjórnlagabreytingar sem verður að koma á koppinn.
![]() |
Obama kvaddi vin og læriföður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.8.2009 | 00:15
Lyfjafíkn, hættuspil við dauðans dyr.
Fíkniefni bjóða upp á hættuspil við dauðans dyr þegar þau hafa smám saman gert fíkilinn ófæran um að forðast þau.
Tvenns konar tilfelli eru miklu fleiri en fólk gerir sér grein fyrir hvað snertir fíkniefnanotkun:
1. Lygilega margt fólk hefur sloppið naumlega við að fara yfirum.
2. Dánarorsökin hefur ótrúlega oft verið beinlínis vegna lyfjamisnotkunar.
Þetta er feimnismál fyrir alla aðila. Ég hef alla tíð verið afar smeykur við notkun lyfja og fíkniefna og ek á bíl með einkanúmerinu "EDRÚ" til þess að senda öðrum skilaboð um þetta.
Allir lenda þó í þeim aðstæðum að ekki verður komist hjá notkun lyfja eða efna, sem geta orðið vanabindandi.
Ég játa að ég er fíkill á tvö af lúmskustu fíkniefnum nútímans: Hvítasykur og koffein. Hvort tveggja fæ ég með því að drekka Cola-drykki og þarf að vera á tánum á hverjum degi vegna þessarar neyslu.
Súkkulaði er lúmskt fíkniefni, inniheldur bæði mikla fitu og sykur, og á gríðarlega mikinn þátt í offitu fólks sem er eitthvert dýrasta heilbrigðisvandamál heimsins.
Ég hef á síðustu fjórum mánuðum létt mig um 5-6 kíló með því að taka í lurginn á súkkulaðineyslunni en játa að ég þarf að standa mig betur ef ég vil ná enn betri árangri.
Í fyrra varð að nota sterkasta sýklalyfið, Augmentin, til þess að stöðva hættulega sýkingu í baki mínu, og kostaði það spítalavist og tók alls sex vikur.
Í framhaldinu fékk ég lifrarbilun vegna áhrifa sýklalyfsins, sem varð til þess að í þrjá mánuði glímdi ég við svonefnda stíflugulu og ofsakláða sem rændi mig svefni.
Ein áhrifamesta pyndingaaðferð í nútíma fangabúðum er að ræna fangana svefni og eftir reynsluna í fyrra af svefnleysinu í þrjá mánuði skil ég vel angist Michaels Jacksons, sem varð háður svefnlyfjum þegar hann brenndist illa í upptöku á auglýsingamyndbandi.
Hann var andvaka nóttina áður en hann dó þrátt fyrir lyfjagjöf og ljóst er að hann stefndi rakleiðis í átt til þess að líkaminn einfaldlega gæfist upp, orðin nánast aðeins skinn og bein.
Svefnleysið veldur þyngdartapi (ég léttist um 16 kíló á þremur mánuðum), blóðmissi og þrekleysi og standi þetta ástand nógu lengi missir viðkomandi smám saman vitglóruna.
Þegar menn eins og Jackson og Presley eru komnir á efsta stig hinnar botnlausu og óviðráðanlegu fíknar neyta þeir allra bragða til að útvega sér lyf og ég veit af dæmum hér heima að læknar eiga oft mjög erfitt með að varast slægð þessara sjúklinga þar sem allt snýst orðið um að taka lyf, stundum ótrúlega mörg, til þess að beita þeim gegn aukaverkunum hvers annars.
Ef í ofanálag er drukkið áfengi ofan í þetta er voðinn vís.
Sjúklingarnir eru oft búnir að koma sér í sambönd við marga lækna, nýta sér það til hins ítrasta og spila á þá.
Svefnleysi er lúmskur kvilli sem getur stigmagnast. Ég vil deila reynslu minni með ykkur, sem þetta lesið, til þess að upplýsa og vekja umræðu.
Það getur stundum verið erfitt að glíma við andvökur, en með skipulagningu á svefni sínum og störfum á hverjum sólarhring má ná árangri.
Meðan engin lyf eru tekin er þetta kannski það eina sem ég get sagt um þetta vandamál:
Eina leiðin án lyfja við svefnleysi er að vaka. Fara jafnvel kannski framúr rúminu og vinna eitthvað góða stund til að verða þreyttur og sofna.
Láta sig hafa það daginn eftir að hafa átt erfiða nótt í þeirri vissu, að að því kemur að þreytan sér um það að venjulegur svefn náist.
![]() |
Lát Jacksons úrskurðað sem manndráp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.8.2009 | 18:10
Mini, bíll aldarinnar !
Um þessar mundir halda Bretar upp á það að hálf öld er liðin síðan Mini kom á markaðinn.
Menn greinir á um það hvaða bíl skuli velja sem "bíl 20. aldarinnar." Margir staðnæmast við Ford T og er það skiljanlegt, miðað við þá byltingu sem sá bíll olli. Hann varð fyrsti alþýðubíll heims og kom Ameríku á hjólin. Fékk viðurnefnið "Tin-Lizzy" (Blikk Lísa)
Það voru þó ekki tæknileg atriði sem gerðu Ford T svona merkilegan heldur aðallega tvennt:
1. Bíllinn var eins einfaldur, léttur en þó grófgerður og eins sterkur og unnt var. Hann hentaði því vel á slæmum vegum þessa tíma. Í honum var til dæmis engin vatnspumpa og engin bensínpumpa. Hann var lengi aðeins framleiddur í einum lit. "Það sem ekki er í bílnum bilar aldrei," sagði Ford. Aðeins tvö hraðastig voru, hátt og lágt.
2. Færibandaframleiðsla, hin fyrsta í heiminum, var lykillinn að því hve vinsæll bíllinn varð. Ford fann ekki upp færibandaaðferðina, það gerði annar maður, en Ford var fyrsti stórframleiðandinn sem sá hvaða möguleika hún gat gefið og gat lækkað verðið á bílnum niður úr öllu valdi.
Fimm árum áður en hætt var að framleiða Ford T var hann orðinn úreltur en hékk áfram vegna þess hve sáraódýr hann var. 1928 varð hann að forngrip, sem skorti flest það sem bílar þurftu að hafa.

Ég tel að Mini hafi verið merkilegri bíll vegna þess að hann sameinaði fimm atriði, sem er mjög sjaldgæft:
1. Hann var fyrsti bíllinn í heiminum með eftirfarandi: Fjögurra strokka vatnskældri vél þversum frammi í, kraftmikill, með framhjóladrif, snöggt, nákvæmt og létt tannstangarstýri, met-rýmisnýtingu, hjólin úti í hornunum, lágbyggður og hraðskreiður með frábæra aksturseiginleika.
2. Líkast til eru yfir 80% bíla í heiminum afkomendur Mini, þ. e. með ofangreind atriði í byggingu sinni. Enginn annar bíll getur státað af slíku. Áður en Mini kom fram var enginn bíll svona.
3. Hann "dó" ekki allt í einu eins og Ford T heldur áttu verksmiðjurnar erfitt með að hætta framleiðslu hans áratugum saman.
4. Hann rokseldist, - í meira en 5 milljón eintökum í harðri samkeppni við ótal aðra bíla, var ódýr og tákn Bítlatímans í Bretlandi.

5. Aksturseiginleikarnir leiddu hann til einhverrar mestu sigurgöngu í rallakstri sem sagan greinir svo sem í Monte-Carlo rallinu. 1964, 65, 66 og 67 var hann óviðránlegur og í efstu þremur sætum 1966 en var á mjög óréttlátan hátt dæmdur úr leik þá fyrir smáatriði í ljósabúnaði.
Förum stutt í gegnum atriðin í lið 1. Svo merkilega vill til að aðrir bílar höfðu boðið upp á þessa eiginleika á undan Mini, en enginn bauð upp á þá alla á einu bretti.
1. Vélin var þrersum frammi í. Mini var ekki fyrsti bíllinn með vélina þversum frammi í. DKW var með vélina þversum upp úr 1930 og meira að segja fyrirrennarar Trabants og Trabantinn sjálfur voru með vélina þversum. Munurinn var hins vegar sá að þessir bílar voru með grófar og mengandi 2ja strokka tvígengisvélar. NSU-Prinz kom fram ári á undan Mini með fjórgengisvél þversum og meira að segja með yfirliggjandi kambás, sem var mjög sjaldgæft á þeim tíma.
En vélin var tveggja strokka og loftkæld að aftan, ekki að framan. Mini var með fjögurra strokka vatnskælda fjórgengisvél að framan. Það gerði gæfumuninn.
2. Mini var langt í frá fyrsti bíllinn með framhjóladrif. Citroen Traction Avant og margir fleiri komu á undan Mini.
3. Hann var ekki fyrsti bíllinn með tannstangarstýri, - ekki heldur fyrsti litli bíllinn með tannstangarstýri. Ári áður kom NSU-Prinz fram með léttara og sneggra tannstangarstýri.
4. Hann var ekki fyrsti bíllinn með hjólin úti í hornunum, lágbyggður og með frábæra aksturseiginleika af þeim sökum. Allt þetta hafði NSU-Prinz á undan honum. En Mini bauð upp á betra rými en keppinautarnir og það gerði gæfumuninn.
Fram yfir miðjan sjötta áratuginn voru minnstu bílarnir mjóir, háir, þröngir að innan, kraftlitlir og leiðinlegir í akstri. NSU-Prinz og Mini breyttu þessu 1958 og 1959, en Mini hafði vinninginn hvað snerti vélina, framhjóladrifið og rými í aftursæti.
Sagt er að fyrsta teikning hönnuðarins, Alec Issigonis, hafi verið á servíettu á fundi með forstóra Dunlop, þegar Issigonis var að útskýra fyrir honum að hann þyrfti að fá framleidd dekk á 10 tommu felgur til að auka rýmis bílsins.
Austin-verksmiðjurnar þorðu ekki annað en að láta minnka vélina úr 998 cc niður í 848 cc, annars hefði bíllinn náð 135 kílómetra hraða sem mönnum óaði við á þeim tíma hjá svo litlum bíl, enda 30 km meiri hraði en hjá flestum smábílum þess tíma. (NSU-Prinz náði þó 125 km hraða).
Síðar var algengasta vélin í Mini 998cc vélin og hún passar best við bílinn að mínum dómi. Auðvitað gefur 1275 cc vélin í Mini Cooper þann kraft sem skóp velgengni Mini í röllum en þá er pústkerfið orðið fyrirferðarmikið undir bílnum og hann orðinn nær alger malbiksbíll.
Eitt af meiri akstursafrekum sem ég man eftir hér á landi var þegar Ragnar Halldórsson forstjóri Álversins í Straumsvík fór á Mini í haustrall í október 1977 þar sem ekið var um Fjallabaksleið nyrðri um snjóskafla og um meira en hnédjúpt vatn í vatnsmestu ánum.
Hvernig Ragnar fór að því að komast þetta finnst mér með hreinum ólíkindum.
Ég hef átt marga smábíla í rétt 50 ár og mig hefur alltaf langað til að eiga Mini en aldrei eignast slíkan.

Mini kom fram í ótal útgáfum undir ýmsum merkjum, meira að segja sem hálfgerður herbíll (Mini-Moke)
Meðan allt lék í lyndi hér á landi fyrir rúmu ári leit út fyrir að í samvinnu við einn góðan bíladellukarl yrði minnsti Mini í heimi kominn á götuna hér í fyrrahaust sem einn af kandidötunum í hugsanlegt "örbílasafn Íslands".
Síðan kom hrunið og málið komst ekki lengra en í gám á hafnarbakka. Ég gleð mig við Fiat-lúsirnar í staðinn og það að kannski hringi einhver bíladellukarl í mig sem vilji fræðast betur um þetta og gera eitthvað í málinu.
Ég gæti fjasað lengi og ítarlega um Mini en læt þetta nægja.
Og þó, smá fróðleikskorn.
Upp úr 1950 gældu Fiat-verksmiðjurnar við hugmyndina um fjögurra strokka vatnskælda fjórgengisvél þversum frammi í og framhjóladrif.
Niðurstaðan varð sú að ódýrara væri að framleiða Fiat 600 með vélinni langsum afturí og afturhjóladfrifi. Ákvörðunin var rétt fjárhagslega séð, því að þrátt fyrir 5,5 milljóna eintaka framleiðslu á Mini töpuðu framleiðendur hans á honum alla tíð og urðu að vinna,það tap upp annars staðar eða þá óbeint vegna þess áróðursgildis sem velgengni Mini færði þeim.
Það var ekki fyrr en 1964 sem Fiat-verksmiðjurnar komu fram með Autobianchi Primula og endurbættu Mini hugmyndina með því að láta gírkassann ekki vera undir vélinni og sambyggða henni, heldur í beinu framhaldi af vélinni og leysa dæmið með mislöngum drifsköftum út í hjólin.
Þessi bíll var fyrirrennari metsölubílanna Fiat 127 og 128. Það er gaman að velta fyrir sér hvernig mál hefðu æxlast ef Fiat hefði þorað að framkvæma þessa hugmynd meira en tíu árum fyrr.
Annað smákorn. Ég byrjaði að teikna bíla um tíu ára aldur og sýndi föður mínum, sem var bakari og vörubílstjóri, eitt sinn hugmynd mína að bíl, sem væri með vélina þversum frammi í til að spara rými. Þetta var í kringum 1950.
Hann leit á teikninguna og sagði: "Þetta er ágæt hugmynd, vinur minn, en þetta er bara ekki tæknilega hægt." Auðvitað tók ég, tíu ára guttinn, mark á atvinnubílstjóranum. Tíu árum síðar kom Mini á markað.

Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.8.2009 | 14:19
Blóð, sviti og tár.
Ofangreind orð notaði Winston Churchill þegar hann bjó þjóð sína undir erfið ár, sem framundan væru, en lokatakmarkið væri þó eitt og aðeins eitt, sigur, hvað sem það kostaði.
En hann kvaðst ekkert hafa fram að bjóða nema blóð, svita og tár.
Þá stóð þjóð hans frammi fyrir því að utanríkisstefna hennar hafði beðið algert skipbrot og að engin leið væri út úr vandanum annar en sá að takast á við afleiðingarnar, sem voru hrikalegar svo að það ógnaði tilveru og sjálfstæði þjóðarinnar.
Nú stöndum við Íslendingar frammi fyrir afleiðingunum af því að efnahagsstefna okkar beið algert og einstakt skipbrot í bankahruninu síðastliðið haust.
Churchill mælti hin fleygu orð sín álíka löngu eftir að stríðið skall á og nú hefur liðið frá hruninu hér á landi. Framundan var að beygja sig fyrir og takast á við hið óumflýjanlega en standa þó ætíð á réttinum, hvað sem á dyndi með ófrávíkjanlegt lokatakmarkið ávallt í huga.
Hjá okkur Íslendingum er framundan er tímabil þar sem allar ákvarðanir verða erfiðar, umdeilanlegar og sársaukafullar.
Það krefst rausæisins sem felst í orðum eins og blóði, svita og tárum en það krefst líka baráttuandans sem er skilyrði þess að okkur takist að komast í gegnum þá brimskafla sem framundan eru á siglingu okkar. Minni á lagið "Styðjum hvert annað" á tónlistarspilarnum vinstra megin við bloggpistilinn.
![]() |
Ögmundur er ekki vonsvikinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.8.2009 | 20:44
"Íslenska efnahagsundrið" tætt í sundur í Kastljósi.
Bankabólan hrikalega var kölluð "íslenska efnahagsundrið" þegar hún þandist hvað mest út. Í fróðlegu viðtali við stjórnanda aðgerða gagnvart norskri bankakreppu seint á níunda áratugnum í Kastljósi í kvöld tætti Norðmaðurinn "íslenska efnahagsundrið" í sundur.
Nokkur atriði, sem komu fram:
1.
Í Noregi var bannað að nokkur einn aðili eða hópur gæti átt meira en 10% í bankanum.
2.
Krosseignatengsl voru bönnuð. Bankarnir máttu ekki eiga hver í öðrum.
3.
Í endurreisninni var öllum yfirstjórnendum bankanna og endurskoðendum skipt út og nýtt fólk sett í staðinn.
4.
Mjðg ströng skilyrði voru sett um aðhald og sparnað í bönkunum, ný hugsun innleidd.
5.
Með því að lýsa því yfir að allar innistæður væru tryggðar, eins og gert var hér strax, var fólki mismunað eftir þjóðernum, til dæmis ef hið sama gilti ekki í Kópavogsútibúinu og í útibúi Bretlandi. Aldrei hefði átt að leyfa þessari erlendu starfsemi að þróast á þann veg sem hún gerði.
6.
Íslendingar munu ekki öðlast traust að nýju ef hér verður ekki rækilega farið ofan í saumana á því sem gerðist og þeir dregnir til ábyrgðar sem hana bera.
Í atriðum 1-4 stingur í augun mismunurinn á því sem gerðist í Noregi og því sem hefur gerst hér. Að vísu er líklega erfitt að skipta jafn mikið út fólki í okkar litla landi og í Noregi, en nýlegar fréttir um það hvernig menn eru enn á ofurlauna- og bónusaflippi hér eru sláandi.
Í atriðum 4, 5 og 6 stendur upp á okkur að taka ærlega til hjá okkur ef við ætlum okkur að komast upp úr skítnum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
27.8.2009 | 20:25
Brennuvargarnir óánægðir með slökkvistarfið.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson var einn af aðal hugmyndasmiðum hinnar íslensku útfærslu á Thatcher-Reagan-stefnunni, sem tímabilið þegar þessi hagfræði drottnaði, hefur þegar dregið nafn af.
Grunnurinn að því að blása upp sápukúlu "gróðæris" einkavinavæðingar, spillingar og sjálftöku- og oftökustjórnmála var byggður í sameiningu af fóstbræðrunum einráðu, Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni.
Það er því hlálegt þegar Davíð og Hannes Hólmsteinn, sem áður ræddu jafnan í fyrirlitningartóni um "skríl" og "skrílslæti" þegar mótmælaðagerðir voru annars vegar, koma á Austurvöll þegar mótmæli standa þar yfir og Hannes segir það hreint út í viðtali að hann sé þar til að mótmæla þeim aðgerðum sem beitt er í rústabjörguninni eftir stórbrunann, sem brenndi íslenskt fjármálakerfi til grunna og skekur allt þjóðfélagið.
Full ástæða er að vísu að veita aðhald og skapa upplýsta og vandaða umræðu um það erfiða úrlausnarefni sem nú er verið að fjalla um á Alþingi og fullkomlega eðlilegt að um það séu skiptar skoðanir, sem fólk lætur í ljósi á þeim vettvangi þar sem það telur sig hafa mest áhrif.
Ég tel að æskilegt að ekki hefði verið gerður jafn mikill aðsúgur að Hannesi Hólmsteini og gert var.
Hins ber þó að að gæta að miklar tilfinningar og reiði hefur ríkt í þjóðfélaginu vegna hrunsins og skal engan undra.
![]() |
Aðsúgur að Hannesi Hólmsteini |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)