Færsluflokkur: Bloggar
25.7.2009 | 23:18
Fjötrar vanans. Framtíðin er á morgun.
Þegar margar kynslóðir hafa alist upp við ákveðin viðmið þarf mikið átak til að breyta þeim.

Þetta skynjum við vel sem höfum farið í dag frá Akureyri til Breiðdalsvíkur til að vekja athygli á því að það skeið mannkynssögunnar sem í sögubókum framtíðarinnar verður kallað "olíuöld" samanber steinöld og bronsöld fer nú að komast á seinni hluta sinn eftir að hafa varað í aðeins rúm 100 ár.

Myndirnar hér við hliðina eru frá nokkrum áföngum metanbílsins, sem ekið var í dag meðal annars með viðkomu og stuttu staldri á eftirtöldum stöðum: Akureyri, Húsavík (Mærudagar) , Reykjahlíð, Egilsstaðir, Reyðarfjörður, Fáskrúðsfjörður (Franskir dagar), Stöðvarfjörður og Breiðdalsvík.
Á tveimur stöðum hafa komið til okkar menn í dag sem hafa þurft að glíma við losun úrgangs vegna fiskveiða.
Annar glímir við það vandasama verkefni að finna mögulega staði til að grafa úrganginn í jörðu, en hinn sagðist glíma við það að losa sig við hann í sjó.

Ég vísa á blogg mitt í gær um metanbíla en vil bæta því við hægt væri að knýja 15000 metanbíla á Íslandi með orku úr sorphaugum landsins, en þá er ótalin sú orka sem hægt væri að vinna úr öðrum lífmassa frá sjávarútvegi, landbúnaði og öðrum greinum, auk þess að ræktun gróðurlenda gæti skapað hráefni í metanframleiðslu.

Alls staðar sem við komum undrast fólk hve litlar breytingar þarf að gera á bílum til að þeir gangi fyrir metani og hve litla aukaþyngd það kostar (40 kíló).
Litla stykkið á miðri myndinni hér fyrir neðan myndina frá Reyðarfirði er það sem bætist við í vélarsal bílsins.
Einnig fannst fólki það merkilegt að hægt væri að kaupa bíla sem gengju sitt á hvað fyrir metani og bensíni þannig að þegar metanið þryti og ekki væri tiltæk átöppunarstöð skipti bíllinn sjálfkrafa yfir á flæði úr bensíngeyminum án þess að nokkrir hnökrar væru á.

Fólki fannst líka mikils virði að þurfa ekki að borga erlendum þjóðum fyrir eldsneyti í beinhörðum gjaldeyri.
Og orkuöryggið sem felst í því vakti líka athygli, sem og það, að ef olía fyndist í hafsbotni við ísland yrði það líklegast í formi gass, sem hægt væri að nota beint á metanbíla.
Öll eru þessi mál í þróun en hún gengur hægt og rekur sig á ýmsar hindranir vegna tregðu vanans og kerfisins.

En eitt er ljóst: Olíuöldin hefur náð hámarki og nýir orkugjafar og orkuvinnsla munu koma til sögunnar, hvaða álit sem menn hafa á einstökum aðferðum og leiðum út úr þeim vanda sem orkumál veraldar standa frammi fyrir.
Því fyrr sem við Íslendingar áttum okkur á þessu, því betra.

Að lokum vísa dagsins, tileinkuð akstrinum framhjá Möðrudal og um sandana á Suðurlandi á morgun:
Yfir kaldan eyðisand
við einfalt trixið kunnum
að aka hring um okkar land
á orku´úr ruslatunnum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
25.7.2009 | 22:29
Alparnir eru í Mið-Evrópu.
Á ferðalagi um Norðurland í dag heyrði ég sagt við Mývatn að ætlun þess sem talaði væri að fara í ferðalag til "Norðlensku Alpanna", Tröllaskaga. Hafði aldrei heyrt þetta fyrr.
Áður hafa fjöllin milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar fengið nafnið "Vestfirsku Alparnir."
Ísland þarf að mínu mati ekki á slíkum heitum að halda vegna þess að þau lýsa minnimáttarkennd sem brýst fram í yfirlæti. Þeir sem hafa skoðað firðina á vesturströnd Noregs, fjöllin á Grænlandi handan Grænlandssunds og sjálfa Alpana í Mið-Evrópu átta sig á þvílíkum stærðarmun þeirra og hinna svonefndu "Alpa" hér á Íslandi, að heitin"Vestfirskir Alpar" og "Norððlenskir Alpar eru brosleg.
Aðeins 285 kílómetra frá Hornströndum gnæfa við himin 3700 metra há fjöll upp af Blosserville-ströndinni.
Hæsta fjall hinna svonefndu "Vestfirsku Alpa" er aðeins 998 metra hátt !
Þegar komið er til baka til Hornstranda eftir flug yfir að Grænlandsströnd segir maður við sjálfan sig: "Hornbjarg úr djúpinu rís" - hvað? 534 metrar á hæð !
Og tindar hinna sönnu Alpa í Mið-Evrópu ná upp í meira en 4800 metra hæð.
Á hinn bóginn á Ísland gnægð náttúrufyrirbæra sem eru einstæð á heimsvísu.
Hinn eldvirki hluti Íslands er talinn í hópi 40 mestu náttúruundra heims.
Grímsvötn eru talin í hópi sex merkilegustu sýnilegra eldfjalla heims.
Við eigum að halda á lofti því sem raunverulega er meðal mestu náttúrugersema heims en ekki að rembast við að nefna fjöll nafni sem vísar á ofurstærð sem þau standa ekki undir heldur virkja hjákátleg fyrir bragðið.
Skátarnir á skátamótinu hrifust af eldfjöllum Suðvesturlands sem mögnuðum náttúrufyrirbærum þar sem stærðin skipti ekki máli heldur eðli þeirra, lögun og fegurð án tillits til stærðar.
"Hornbjarg úr djúpinu rís" er dýrleg setning í ljóði Kristjáns frá Djúpalæk sem lýsir djúpum tilfinningum þess sem kanna að meta það án þess að því sé líkt við Alpana.
Hornbjarg, Hælavíkurbjarg og Látrabjarg eru þrjú stærstu fuglabjörg Evrópu og eiga enga keppinauta í þeirri álfu hvað það snertir. Ketildalir við Arnarfjörð og Drangaskörð eru fágæt náttúrufyrirbæri sem ég veit ekki að eigi samsvörum í Evrópu.
Öll þessi fyrirbæri eru á Vestfjörðum þau þurfa engin stækkunarheiti því að Vestfirðir standa alveg undir sér án þess.
Setjum sem svo að milli tveggja fjarða á Austfjörðum væri fjallaskagi sem væri um 300 metra hár og menn færu að kalla þau "Austfirska Tröllaskagann". Myndi Norðlendingum ekki finnast það hjákátlegt?
![]() |
Íslensku fjöllin lítil og sæt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.7.2009 | 23:41
Kreppan getur orðið til góðs.
"What goes up must come down", eða "það sem fer upp hlýtur að koma aftur niður". Þetta blasir við eftir að sápukúlan íslenska gróðærið sprakk eftir að þeir sem héldu að hún gæti þanist út endalaust sprengdu hana að lokum.
Kannski var kreppan það besta sem gat hent úr því sem komið var, þótt hún hefði kannski mátt vera minni. Hún knýr okkur til endurmats og nýsköpunar.
Í dag hef ég þreifað á einu dæmi um þetta, notkun íslenskra orkugjafa fyrir samgöngutæki á landi og sjó. Þegar skortur er á gjaldeyri hlýtur það að vera kostur að orkugjafinn komi beint úr sorphaugum landsins eða frá innlendum orkuverum.
Þessir orkugjafar geta sem sé verið fleiri en einn en metanið hefur ýmsa kosti sem ekki liggja í augum uppi. Þótt ég hefði talið mig fylgjast ekkert verr með þessum málum en gengur og gerist áttaði ég mig á því í dag að ég hafði verið haldinn ákveðnum fordómum og vantrú, sem byggðist á því að vita ekki nógu mikið um notkun metans á bíla.
Ástæðan er ökuferð sem ég er í ásamt Einari Vilhjálmssyni sem hann hefur sem markaðsstjóri fyritækisins Metans í samvinnu við Sorpu og N1.
Ætlunin er að í fyrsta sinn verði bíl ekið heilan hring á hringveginum á íslenskum orkugjafa eingöngu, sem þar að auki er mjög umhverfisvænn, með aðeins örlítið brot af útblæstri á co2 miðað við bensín.
Við förum hringinn aðeins víðari, komum við hjá Sorpu í Álfsnesi, á N1 stöðvunum í Borgarnesi, Staðarskála, og á Blönduós, Sauðárkróki og í Varmahlíð en heilsuðum einnig upp á Hallbjörn Hjartarson í Kántríbæ á Skagaströnd og rallkappa sem voru leggja í hann í Skagafjarðarralli.

Ferðin gengur vel, við erum nú á Akureyri og þar voru þessar myndir teknar í kvöld.
Nokkrar viðbárur gegn notkun metans sem við höfum heyrt á ferð okkar:
1. Þetta kostar svo miklar breytingar og viðbætur við búnað bíla.
Rangt.
Í Borgarnesi hittum við Úlfar Ágústsson frá Ísafirði sem var á bíl af sömu gerð og okkar og þegar vélarhúsin voru opnuð á báðum bílunum kom í ljós að Úlfar þurfti nánast að leita að því sem væri breytt á okkar bíl.

Það er um 25 sentimetra langt og þunnt stykki ofan á vélinni sem leiðir metanið inn í brunahólfin í stað bensíns.
Síðustu ár hafa bílar verið framleiddir sem notandinn getur ráðið hvort gangi fyrir bensíni eða metani.
2. Viðbótarbúnaðurinn er svo þungur, svo sem metangeymirinn og metanið.
Rangt. Viðbótarþyngdin er að aðeins 40 kíló.
3. Það er svo dýrt að kaupa búnað til að bíllinn geti gengið á metani.
Rangt ef dæmið er reiknað út frá notkunartíma bílsins.
Viðbótarbúnaðurinn kostar á bilinu 400 til 700 þúsund krónur, en metanið er meira en tvöfalt ódýrara en samsvarandi magn af bensíni. Í
ferð frá Reykjavík til Akureyrar og til baka aftur sparar bíleigandinn um 9000 krónur. Ríkið sparar 4000 krónur í gjaldeyri. Útblástur óæskilegra efna hverfur að mestu.
Segjum að eigendur bíls séu með yfirdrætti og ætli á fimm árum að vinna bug á honum. Þá myndu þeir græða 1,4 milljónir króna á þessum fimm árum til þess að nota til þess að eyða yfirdráttarlánunum.
4. Þessir metanbílar komast svo stutt á hverri hleðslu.
Rangt.
Gott dæmi um það er þessi ferð okkar.
Við erum búnir að aka á fimmta hundrað kílómetra í dag eftir áfyllingu í Reykjavík og það er enn drjúgt eftir á geyminum.
Bíllinn er þungur því erum þrjú í honum með mikinn farangur og vegna þess að engin áfyllingarstöð er enn á landinu nema í Reykjavík og við ætlum allan hringinn, drögum við aukaeldsneyti í kerru.
Auk þess er hægt að hafa metanbílana þannig búna að þeir geti gengið bæði á metani og bensíni.
Í því tilfelli væri hægt að aka á metaninu þar til það klárast og fara restina á bensíni.
Um næstu helgi verður sett upp metan-áfyllingarstöð á Akureyri og það verður vonandi fyrsta skrefið í því að metanvæða eldsneytissölurnar á Íslandi líkt og þegar hefur verið gert erlendis svo sem á Ítalíu.
5. Það er svo mikið og dýrt verkefni að setja á fót framleiðslustöðvar fyrir metan að það mun aldrei borga sig.
Rangt.
Fyrir hreina tilviljun hittum við Úlfar Ágústsson frá Ísafirði í Borgarnesi eins og áður sagði, en hann er vel kunnugur sorpeyðingarmálum vestra.
Hann lyfti brúnum þegar Einar fræddi hann um metanið því að hann sagði að sorpeyðingin vestra væri svo rándýr, að menn væru að sligast undir henni og það yrði að draga þann kostnað frá þegar dæmið væri reiknað í heild. Þegar dæmið er reiknað út til lengri tíma litið frá hagsmunum Íslands sem heildar verður það hagstætt.
6. Það eru yfirleitt stórir og þungir bílar sem ganga fyrir metani. Betra væri að kaupa minni bíla í staðinn.
Rangt.
Það er hægt að metavæða jafnt litla bíla sem stóra.
Ótalinn er sá kostur innlendra orkugjafa að auka orkuöryggi landsins. Eins og er mun liklega engin ein breyting á orkunotkun leysa orkuvanda þjóðanna. En metannotkunin getur átt stóran þátt í því eins og fleira að leiða Íslendinga inn í þann tíma sem við verðum algerlega óháðir innflutningi á eldsneyti.
Þess vegna er ég bjartsýnn um framtíð Íslands ef við kunnum að fara með þessi mál af framsýni.
![]() |
Ísland skipi sér á ný í fremstu röð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
23.7.2009 | 22:19
Frekar "já, ef.." en "nei".
Sagt er að í Noregi sé allt bannað nema það sé leyft en á Íslandi allt leyft nema það sé bannað. Þetta er að sjálfsögðu einföldun en kannski hefur þetta verið svona frá því að menn hrökkluðust frá Noregi vegna þess sem nefnt var ofríki Haraldar hárfagra.
Mér hugnast betur að í staðinn fyrir þá auðveldu niðurstöðu að segja "nei" sé oftast skynsamlega og farsælla að segja "já, ef..." og tilgreina síðan hver skilyrðin eru fyrir jákvæðri niðurstöðu.
Þetta kemur mér í huga þegar rætt er um að færa ökuleyfisaldur úr 17 árum upp í 18 ár.
Ég held að árangursríkara sé að veita ökuleyfi stig með því að leyfa aksturinn fyrst á bílum, sem takmarkaðir eru að stærð og getu og farþegafjölda og fikra sig síðan upp stig af stigi.
Ég var að fá athyglisverðan póst frá Birgi Þór Bragasyni um þetta mál og ætla að kynna mér betur tillögur hans og leggjast á árar með honum til að ná fram umræðum um þetta mál.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
23.7.2009 | 21:31
Afleit skilaboð.
Það eru afleit skilaboð til brotamanna í þjóðfélagi vaxandi rótleysis og afbrota, sem fylgir krepputímum, að þjófar og lögbrjótar komist upp með það að lögreglan anni því ekki að koma þeim til hjálpar og aðstoðar sem verða fyrir barðinu á þessari óöld.
Í hugann koma nokkrir gamlir vestrar þar sem vel var lýst þeim kvíða, kúgun og vanlíðan sem fylgir slíku ástandi sem og þeim ágöllum sem á því eru að almennir borgarar telji sig knúna til að taka lögin í eigin hendur.
Slíkt ástand á Íslandi er ekki tilhlökkunarefni.
![]() |
Lögregla komst ekki í útköll |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.7.2009 | 12:46
Gamli Kaninn hafði gríðarleg áhrif.
Gamla Kanaútvarpið hafði gríðarleg áhrif á tónlistarmenningu íslensku þjóðarinnar, einkum yngsta hluta hennar.
Ég minnist þess enn að mér fannst hin mikla sveitatónlist og rythm and blues tónlist næsta framandi þegar ég heyrði hana fyrst í Kananum og kunni satt að segja ekki að meta hana fyrst í stað.
Í Kananum var spilað mikið af tónlist sem aldrei heyrðist í Ríkisútvarpinu og nýjstu bandarísku smellirnir heyrðust oft fyrst þar.
Segja má að lagið "Oh, lonsome me" hafi verið tímamótalag hvað varðar tónlistarsmekk Íslendinga. Áður höfðu örfá kántrílög orðið kunn hér á landi svo sem "Don´t fence me in" en "Oh, lonesom me" var lagið sem braut alla múra, lag sem sýndi og sannaði að góð og vel spiluð kántrítónlist er jafnoki hvaða tónlistarstefnu sem vera skal.
Hin mikla spilun á Rythm and blues tólnlist skóp jarðveginn fyrir því að rokkið sló í gegn á undraskömmum tíma.
Í gamla Kananum var stundum leikin tónlist manna, sem ferðuðust á milli herstöðva. Einn þeirra flutti lag, sem eingöngu var spilað í hermannaútvarpi og ég gerði síðar textann "Kappakstur" við.
35 árum síðar var gaurinn sem spilaði lagið í heimsókn hér að spila á herstöðvarballi á Spáni þar sem Kristinn R. Ólafsson var meðal gesta. Þegar hann hóf að spila lagið, stökk Kristinn upp á sviðið og fór að syngja það á Íslensku.
Sá bandaríski var furðu lostinn og skildi ekkert í því hvernig þessu væri varið.
Kaninn gamli rauf ákveðna einangrun sem ríkt hafði þegar aðeins var hægt að hlusta að gagni á eina útvarpsrás á íslandi. Nýi Kaninn kemur fram í gerbreyttu umhverfi þar sem samkeppnin er hörð og róðurinn verður að því leyti til erfiðari. Honum fylgja bestu óskir.
![]() |
Kaninn aftur í loftið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.7.2009 | 08:08
Hin mikilvæga upplýsingagjöf.
Þorskastríðin hefðu aldrei unnist á sínum tíma ef ekki hefði tekist að koma upplýsingum um málstað Íslendinga á framfæri hjá öðrum þjóðum.
Þess vegna er svo mikilvægt að halda vel á íslenskum málstað núna hvar sem því verður við komið til þess að aðrar þjóðir skilji, að íslenskur almenningur fékk ekki að vita hvernig í málum lá varðandi Icesave fyrr en það var um seinan og það er ósanngjarnt að gengið sé með offorsi að hinum almenna íslenska borgara vegna afleiðinga galla á regluverki Evrópusambandsins.
Íslendingar færast ekki undan því að taka á sig þá ábyrgð sem þeim ber siðferðilega og að sanngjörnum lögum. En það verður að gera á þann hátt að ekki sé hallað á þann sem er minnimáttar í samskiptum við stórar og voldugar þjóðir.
Það þarf líka að láta vita af því að þjóðin sé reiðubúin til að að greiða eins mikið og hún getur með sæmilegu móti en að það sé engum til góðs að gengið sé svo hart að henni að hún verði blóðmjólkuð og kippt fótunum undan því að hún geti lifað eðlilegu lífi í landinu eða staðið við skuldbindingar sínar.
Rétt upplýsingagjöf er líka mikilvæg og það er ekki rétt að Íslendingar hafi misst hlutfallslega fleiri menn í heimsstyrjöldinni en Bretar.
Bretar misstu 350 þúsund manns sem var að minnsta kosti fimmfalt fleiri miðað við fólksfjölda heldur en Íslendingar misstu.
![]() |
Fjallað um reiði Íslendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.7.2009 | 20:29
James Bond, barnamyndir fyrir fullorðna.
Um alllangt skeið höfum við hjónin gert það að fastri venju að horfa saman á myndirnar um James Bond, sem sýndar eru á Stöð tvö á fimmtudagskvöldum. Ekki vegna þess að þessar myndir í lengstu kvikmyndaseríu allra tíma séu svo góðar.
Sumar þeirra er beinlínis lélegar, brelluatriðin illa gerð og börn síns tíma og leikurinn ekki alltaf til að hrópa húrra fyrir.
Sumt beinlínis fer í taugarnar á manni eins og þegar í síðustu mynd var sett reykspólshljóð á malbiki þegar bílar spóluðu í snjó og hálku. Og Lasenby sem lék Bond í þetta eina sinn, lék hann einu sinni of oft. Alveg glataður í þessu hlutverki og það var synd, því að mörg tilsvörin voru gráglettin og góð.
Snjóflóðsatriðið í þeirri mynd af tæknilega glatað alveg eins og þegar Bond bjargaði sér frá drukknun í annarri mynd með því að sjúga í sig loft úr hjólbörðum bíls í kafi með því að stinga hjólbarðaventlunum upp í sig.
Plott klikkuðu krimmanna sem vilja ná heimsyfirráðum eru oft vægast sagt hæpin. Ég get haldið áfram að tína til langsótt, misheppnuð og hallærisleg atriði en læt staðar numið.
Og þá vaknar spurningin: Hvers vegna í ósköpunum er maður þá að horfa á þessar myndir? Jú, líklega af sömu ástæðu og börn vilja heyra sögurnar um Rauðhettu og Hans og Grétu aftur og aftur þótt þær séu aldeilis makalaus della.
Þegar horft er á myndirnar um Bond vakna minningar frá þeim tímum sem þær eru teknar, allt frá Doktor No í Tónabíó 1962 til dagsins í dag. Tíska hvers tíma, bílar hvers tíma, andrúmsloft hvers tíma spretta fram í hugann.
Stundum spyr maður sjálfan sig: Fannst manni þetta virkilega svona vel gerð og góð mynd á sínum tíma?
En það skiptir ekki máli. Maður bíður eftir hinu fasta atriði að heyra setninguna "Nafn mitt er Bond. James Bond" og ekki síður eftir tilskildum bólferðum Bonds, hversu heimskulegar sem þær eru. Og svo framvegis.
Rétt eins og maður varð að fá sinn skammt af því í þáttunum um Colombo þegar hann kvaddi hinn seka eftir heimsókn til hans og fór út frá honum, en sneri síðan við og barði að dyrum hjá honum til að gera honum lífið leitt.
Nú er Roger Moore búinn að skrifa ævisögu sína, 82ja ára gamall. Í síðustu Bond-myndum hans var skiljanlega orðinn ansi ellilegur að sjá og ósannfærandi að því leyti.
Sean Connery finnst mér bera höfuð og herðar yfir alla Bondana þótt sá nýjasti sé ans sleipur.
Það sést að í síðustu myndunum er reynt að auka á hraðann og æsinginn í myndunum og mér finnst kominn tími til að fara að hægja og fá í bland undirliggjandi og þrúgandi spennu í einstöikum köflum í staðinn fyrir hasar þar sem brellumeistarar virðast vera í kapphlaupi við setja ný met í látum og hamagangi.
Mörg lögin í Bond-myndunum, eins og Live and let die, eru klassík, enda gaf sú mynd mestu tekjur allra Bond-myndanna.
Niðurstaða: Alla ævi blundar barnið í manni, sú löngun að heyra sama stefið og sömu söguna aftur og aftur.
Myndirnar um James Bond eru því barnamyndir fyrir fullorðna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.7.2009 | 11:22
"...varð fyrir beinbrotum..."
Ný rökleysa og málvilla færist nú í aukana í frásögnum af óhöppum. Það hlýtur að vera rökleysa að fólk geti "orðið fyrir bílveltum og orðið fyrir beinbrotum".
Í frétt á mbl. í morgun segir: "Maðurinn varð fyrir beinbrotum."
Ég spyr: Rigndi beinunum yfir manninn?
Þetta er nýjasta afurð nafnorðasýkinnar sem hefur getið af sér hina síendurteknu frétt "bílvelta varð" þegar rökrétt og styttra er að segja "bíll valt."
Það hefur verið málvenja fram að þessu að segja: "Maðurinn beinbrotnaði."
En nafnorðasýkin, skilgretið afkvæmi Kansellístílsins, virðist nú vera að breyta þessu.
Sögnin að beinbrotna er ekki nógu fín. Það verður að vera nafnorðið beinbrot, jafnvel þótt það kosti tvöfalt lengri setiningu þar sem þarf að bæta inn í orðunum að verða fyrir.
Við sprengingu getur fólk orðið fyrir sprengjubrotum en ég bara skil ekki hvernig beinbrotum getur rignt yfir fólk.
Næsta skref í þessari vitleysu er sú að fólk verði fyrir krabbameini eða verði fyrir sykursýki.
Íslensk rökrétt málvenja hefur verið þessi: Fólk beinbrotnar, lendir í bílveltu, deyr úr krabbameini eða sykursýki.
Hingað til hefur verið sagt: Banamein hans var krabbamein, - eða - hann lést úr krabbameini.
Er það ekki nógu skýrt? Að hvaða leyti væri það skýrara og betra að segja: Hann varð fyrir krabbameini?
Er ekki nógu skýrt að segja: Maðurinn beinbrotnaði? Maðurinn handleggsbrotnaði?
Eða er það svo að einhver hendi broti úr handlegg í annan mann svo að hann verði fyrir handleggsbroti?
Í umræddri frétt valt bíllinn sem maðurinn var í. Í frétt um daginn var sagt að fólk hefði orðið fyrir bílveltu.
Með nýju orðanotkuninni gæti orðið til svohljóðandi frétt:
Maður varð fyrir bílveltu í gær. Hann varð fyrir útkasti úr bílnum og varð síðan fyrir harkalegri lendingu í urð þar sem hann varð fyrir beinbrotum. Þar varð hann fyrir meðvitundarleysi.
Af hverju er ekki lengur hægt að orða þessa frétt svona?
Maður velti bíl í gær og kastaðist út úr bílnum. Hann lenti harkalega í urð, beinbrotnaði og missti meðvitund.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.7.2009 | 20:13
Ef það er flug, margfalda með minnst þremur.
Hér forðum tíð hengdum við fréttamenn hjá Sjónvarpinu, upp lista í hálfkæringi til hagræðis í flýti fréttanna að meta fréttagildi óhappa og slysa eftir því hverjir ættu í hlut eða hvar óhappið gerðist.
Margföldunartaflan var í nokkrum liðum.
1. Fjöldi fólks sem á í hlut:
Einn Íslendingur = 2 Færeyingar = 2,5 Danir, Norðmenn eða Svíar = 3 Finnar, Bretar eða Írar = 4 í Norður-Evrópu = 6 í Suður-Evrópu = 8 í Bandaríkjunum = 15 í Afríku = 50 í Asíu.
2. Eftir gerð farartækis:
Óhapp á flugvél er minnst þrefalt merkilegra en samskonar atvik á annars konar farartæki.
Gott dæmi um þetta er fréttin af Cessnu-flugvélinni sem hjólbarði sprakk á í dag.
Litlar kennsluflugvélar af Cessna-gerð snerta flugbraut í lendingu á 50 - 80 kílómetra hraða. Segjum að sprungið hefði á bíl á þessum hraða. Þá hefði það ekki þótt nein frétt, hvað þá að taka þetta fram um þá sem voru í bílnum: "...og sakaði þá ekki."
![]() |
Sprakk á Cessnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)