Færsluflokkur: Bloggar
21.7.2009 | 19:30
Innbrotsþjófar ganga á lagið.
Kreppa og atvinnuleysi verða yfirleit til að auka á óöld í þjóðfélaginu og kalla á aukna löggæslu. Þessi sama kreppa veldur því síðan að draga mátt úr lögreglunni til að fást við aukin viðfangsefni. Í dag varð ég vitni að því þegar lögregla var kölluð á stað þar sem brotist var inn í rammgerða geymslu.
Lás af öflugasta tagi reyndist hafa verið lítil vörn því að þjófarnir höfðu verið búnir stórvirkum tækjum til að saga sig inn í geymsluna.
Svipaða sögu er að segja víðs vegar úr borginni. Dæmi eru um að innbrotsþjófar hafi komið á stórum vöruflutningabíl, farið inn í íbúð manns, sem hafði brugðið sér í Bónus, og hreinsað allt innbúið út á skömmum tíma og ekið í brott.
Samkvæmt bréfi sem lögreglumaður sendi fjölmiðlum eru innbrot nú skráð sem eignaspjöll.
Það minnir á gömlu gamansöguna af lögreglumanninum sem fann lík í Fishersundi og dró það upp í Garðastræti af því að hann vissi ekki hvernig ætti að skrifa nafnið Fishersund.
![]() |
Bágborin staða lögreglunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.7.2009 | 00:27
Landsala á kostnað lífeyrisþega.
Mikilvægt er að greina hið raunverulega orsakasamhengi hlutanna. Nú stendur yfir sala á landi til útlendinga. Iðnaðarráðherra lýsir yfir að nauðsyn sé að endurnýja viljayfirlýsingu við Alcoa vegna risaálvers á Bakka.
Skilyrði Alcoa vegna fyrri yfirlýsingar og líka þessarar er að orkuöflun sé tryggð fyrirfram. Alcoa krefst þess að stækka álverið úr 250 þúsund tonnum í 340 þúsund tonn þrátt fyrir að þrætt væri fyrir það að slíkt stæði til.
Uppfylling skilyrðis Alcoa um næga orku knýr Landsvirkjunt til að krefjast leyfis til borana í Gjástykki og geirnegla þar með að það að engu einasta háhitasvæði á Norðurlandi verði þyrmt, hversu mikið gildi sem það hefur sem heimsundur og sé mun aðbærara sem ósnortið ferðamannasvæði heldur en iðnaðarsvæði í Hellisheiðarstíl.
Í sjálfri orku- og einokunarparadísinni Íslandi stefnir Landsvirkjun í gjaldþrot. Til þess að hægt sé að tryggja að Alcoa fái alla þá orku, sem hún þarf í álver á Bakka, verður að taka lífeyrinnn okkar og nota hann til að hjálpa Landsvirikjujn til að seðja orkuþörf Alcoa, sama hvað það kostar.
Landsvirkjun segist ætla að eyða fénu í tilraunaboranir í Gjástykki en láta þar við sitja og virkja ekki !
Kanntu annan? Auðvitað er gjaldþrota fyrirtæki ekki að eyða hundruðum milljóna í boranir og láta síðan orkuna eiga sig. Sagt er að orkan verði ekki notuð nema ekki fáist næg orka annars staðar sem auðvitað þýðir það að það verður virkjað.
Raunar virðist Landsvirkjun vera búin að tapa allri glóru. Hún er nýbúin að klúðra milljarðsfjárveitingu til mjög mikilvægrar tilraunar með djúpborun með því að velja sér holu, sem tryggði áframhald sóknar inn að Leirhnjúki í þágu Alcoa sem í raun ræður nú yfir þessum landshluta og orkulindum þess.
Alcoa þarf nefnilega svo mikla orku að engir aðrir, skaplegri og hagkvæmari orkukaupendur komast að.
Yfirþyrmandi stærð og vald Alcoa mun jafnvel kalla á virkjanir Skjálfandafljóts og Jökulánna í Skagafirði.
Hina mikilvægu djúpborunarholu hefði verið eðlilegt að bora á Reykjanesskaga eftir almennum alþjóðlegum varúðarreglum en ásælnin í Leirhnjúk og Gjástykki réði því að spilað var fráleitt áhættuspil með einni alltof stórri holu rétt við nýgosið eldfjall, í stað þess að fikra sig áfram skref fyrir skref í þremur dýpkandi holum á öruggara svæði.
Ég hafði vonað að lítilfjörlegur lífeyrir minn og annarra lífeyrisþega , sem við höfum þó unnið fyrir á starfsævinni fengi að vera í friði fyrir virkjana- og skammgróðafíklunum.
En virkjana- og skammgróðafíklunum er ekkert heilagt, hvorki lífeyrinum né ómetanlegum náttúruverðmætum landsins sem nú er verið að selja Alcoa í raun.
Á næstu misserum verður deilt um hættuna á því hvort land og auðlindir komist í hendur útlendinga á næstu árum.
En sú stefna sem nú er rekin sýnir, að í raun er landsalan hafin og lífeyrir þeirra, sem skópu þetta þjóðfélag með vinnu sinni, fær ekki einu sinni að vera í friði.
![]() |
Lífeyrissjóðir hlaupa undir bagga með Landsvirkjun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
19.7.2009 | 16:39
Staðfesting á yfirgangi.
Sú yfirlýsing Netanyahu forsætisráðherra Ísraels að yfirráð Ísraelsmanna yfir allri Jerúsalem og réttur þeirra til að hrekja Palestínumenn skipulega og markvisst úr borginni sé óvéfengjanlegur staðfestir þann yfirgang sem þeir beita á öllum sviðum við að ná því markmiði að drottna yfir því landi sem þeir telja sjálfan Guð hafa úthlutað þeim.
Jerúsalem er heilög borg fleirum en Gyðingum. Hún er einnig heilög í trú múslima og yfirlýsingar og hegðun Ísraelsmanna gengur þvert á alþjóðalög og samþykktir Sameinuðu þjóðanna.
Margslungin og mögnuð helgi Jerúsalem er þess eðlis að einstakt er í heiminum. Að einn trúflokkur fari þar fram með offorsi og hervaldi gegn öðrum í hinni helgu borg er eitt sorglegasta fyrirbæri okkar tíma.
Yfirlýsingin um hinn óvéfengjanlega rétt Ísraelsmanna hefur enga stoð nema í þeirra eigin hugarheimi sem hervaldið hefur skapað þeim.
![]() |
Hafnar kröfum Bandaríkjamanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (47)
19.7.2009 | 13:20
Stefnubreyting er löngu tímabær.
Þegar Íslendingar hófu sólarlandaferðir var það frægt hve margir drukku sleitulaust í þessum ferðum, allt frá því á leiðinni út og þangað til þeir komu heim.
Hugsunin á bak við þetta var sú, vínið væri svo ódýrt að menn græddu þeim mun meira sem þeir drykkju meira!
Þessir menn gleymdu ekki aðeins því að þeir voru að tapa í raun og sólunda fé, heldur einnig því að það eru takmörk fyrir því hve mikið áfengi er hægt að innbyrða.
Hliðstæð stefna hefur rekin á Íslandi í orkumálum í hálfa öld.
Í þennan tíma hafa virkjanfíklarnir með stanslausum áróðri sínum gert það að trúarbrögðum á íslandi að þeim mun orkufrekari sem starfsemin sé, því betra.
Af þeim sökum sé hægt að selja orkuna ódýrara en erlendir keppinautar vegna þess að hið gríðarlega magn bæti það upp.
Við skulum máta saman þessar tvær setningar Íslendinga:
Þeim mun meira ódýrt vín sem hægt er að drekka á sem skemmstum tíma, því betra.
Þeim mun meiri og ódýrari orku sem hægt er að selja á sem skemmstum tíma, því betra.
Þetta hafa hin erlendu orkubruðlsfyrirtæki notað sér og tekið heilu landshlutana í gíslingu.
Alcoa hefur nú Norðurland í gíslingu viljayfirlýsingar, sem iðnaðrarráðherra vill ólmur endurnýja.
Það þýðir að í raun er bægt frá öðrum erlendum orkukaupendum, sem nota miklu minni orku sem þar að auki gefur af sér miklu fleiri störf miðað við orkueiningu en álvinnslan gerir.
Alveg eins og það voru takmörk fyrir vínneyslunni í sólarlandaferðunum eru takmörk fyrir því hve mikla orku er hægt að nýta.
Sóun, neyslunnar einnar vegna, er skaðleg.
Þeirri stefnu þarf að breyta að öll fáanleg orka Norðurlands fari til eins stórfyrirtækis sem stundar mesta orkubruðl sem hugsanlegt er.
Það er ekki aðeins nauðsynlegt til þess að menn fórni ekki að óþörfu því dýrmæti sem felst í einstæðum náttúruverðmætum.
Það er líka skynsamlegt viðskiptalega að breyta þessari skaðlegu stefnu.
![]() |
Fréttaskýring: Þeistareykir þrá kaupanda að orkunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.7.2009 | 13:14
En aftöku Gjástykkis verður ekki frestað.
Nú berast fréttir berast af því að framkvæmdir við Hverahlíðarvirkjun frestist vegna fjárskorts.
Nýlega gerði Landsvirkjun milljarðs króna misheppnaða tilraun til djúpborunar nálægt Leirhnjúki.

Auk þess liggur nú fyrir að vegna þess að ágóði af því að sleppa virkjun Sauðánna austast í Hraunaveitu er notaður til að reisa viðbótarstíflu norðan við Kárahnjúkavirkjun sé ekki eyrir fyrir hendi til þess að breyta yfirfalli Kelduárstíflu eða skoða þann möguleika að þyrma Folavatni.
Ofan á allt stefnir í veruleg fjárhagsvandræði hjá Landsvirkjun innan fárra ára.
En einu hefur Landsvirkjun efni á: Að sækja áfram inn á Leirhnjúks-Gjástykkissvæðið sem virðist vera algert forgangsatriði hjá fyrirtækinu. Staðarvalið til þess að gera hina misheppnuðu djúpborunartilraun þarna virðist ekki hafa verið tilviljun.

Efsta myndin hér er af þeirri borholu með Leirhnjúk í baksýn, en Landsvirkjun skilgreinir borholusvæðið sem Kröflu.
Myndirnar þar fyrir neðan voru teknar í Gjástykki í fyrrasumar.
Þeir eru nefnilega byrjaðir þar og hafa borað þrjár holur og lagt langa vatnsleiðslu.
Og í frétt í Fréttablaðinu í gær kemur fram að LV stefni að því að bora þrjár bora tilraunaborholur í Gjástykki en ætli samt ekki að virkja þar ef aðrar virkjanir á svæðinu takast eins og vonast er til.

Þetta er einkennilegt. Á sama tíma sem Landsvirkjun á í vaxandi fjárhagsvandræðum hefur hún efni á því að eyða tugum eða hundruðum milljóna í tilraunaboranir sem eiga ekki að hafa virkjanir í för með sér !
Heilkennið er þekkt úr virkjana- og stóriðjusögunni. Í upphafi átti 120 þúsund tonna álver að nægja í Reyðarfirði en síðan þrefaldaðist stærðin. Svipað hefur verið uppi á teningnum í Helguvík og á Bakka.


Aðferðin hefur svínvirkað og mun líklega gera það líka á hinu ómetanlega svæði náttúruverðmæta sem Leirhnjúkur-Gjástykki er.
Með því að eyrnamerkja sér svæðið með borunum í svipuðum stíl og hundar gera þegar þeir merkja sér svæði stefnir Landsvirkjun að því forgangsverkefni sínu að sjá til þess að ekki eitt einasta háhitasvæði norðanlands, sama hve einstætt það er á heimsvísu, fái að vera ósnortið.
Með því er Bandaríkjamönnum gert auðveldara að varðveita sitt mikla orkubúnt Yellowstone þótt það teljist ekki eins einstætt og hið eldivirka Ísland er.
Næstneðsta myndin er af einni af fjölmörgum gjám Gjástykkis, sem myndaðist fyrir 25 árum og myndir eru til af frá þeim tíma.
Ameríka er vinstra megin en Evrópa hægra megin við gjána, sem hefur myndast við það að meginlöndin færast frá hvort öðru.
Gjáin er manngeng og meira en mannhæðar djúp.
Lengra framundan í gjánni má síðan sjá hvernig hraun kom þar upp eins og í kraftmikilli lind og breiddist út, rann jafnvel niður í gjána aftur.
Þetta er besta dæmið sem til er á yfirborði jarðar í heiminum um rek meginlandanna og sköpun nýs lands, í þessu tilfelli Íslands.
Neðsta myndin er sama myndin, - fór óvart inn fyrir "tæknileg mistök."
![]() |
Hverahlíðarvirkjun frestast vegna óvissu í fjármögnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.7.2009 | 23:48
Örlar á þessu hér.
Stórkarlalegar fréttir af skæðri drepsótt sem sé að leggjast yfir eru ekki einskorðaðar við Bretland.
Dæmi um þetta var í síðustu hádegisfréttum Bylgjunnar sem fjallaði um allar þúsundirnar sem gætu dáið á Íslandi í svínaflensunni ef hún yrði jafn skæð og spánska veikin var.
Byggt var á útreikningum sem höfðu verið gerðir við upphaf svínaflensunar til að meta aðstæður og afleiðingar eftir því hve skæð hún yrði.
Þegar fréttin hafði síðan verið sögð öll kom fram að á þessu væru engar líkur vegna bólusetninga og annarra úrræða læknavísindanna og að sennilega myndu ekki ýkja fleiri deyja en í venjulegum flensufaraldri.
Dæmin eru fleiri:
Er yfirvofandi eldgos á næstu árum við Tungnaá sem eyðileggur virkjanirnar? Þetta datt sumum í hug sem sáu og heyrðu fyrirsögn og upphaf fréttar á Stöð tvö fyrir nokkrum árum þar sem sagt að vísindamenn teldu slíkt geta gerst innan fárra ára.
Þegar fréttin síðan rann sitt skeið kom í ljós að allt eins væri líklegt að slíkt eldgos kæmi ekki fyrr en eftir 100 ár ! Fréttin byggðist nefnilega á því að miðað við það að stór eldgos hefðu orðið þarna fyrir þúsund árum og síðan aftur 500 árum síðar væri ekki útilokað að svona gos kæmi þarna á 500-700 ára fresti.
Það gæti komið gos eftir nokkur ár og það gæti líka dregist í meira en öld eða jafnvel ennþá lengur.
Enn er í minni þegar fréttamaður stóð á Skeiðarársandi þegar Gjálpargosið var byrjað og sagði að það væri eins gott að flýja sem hraðast áður en flóðbylgjan kæmi undir jökulinn og æddi fram á sandinn !
Þó var vitað að slíkt gæti ekki gerst fyrr en eftir nokkrar vikur !
Og þannig fór það.
![]() |
Fréttaflutningur af H1N1 gagnrýndur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.7.2009 | 19:43
"Lebensraum" okkar tíma.
Í 42 ár hafa Ísraelsmenn markvisst unnið að því endurheimta landið sem þeir voru hraktir frá fyrir bráðum 2000 árum.
Í þessi 42 ár hafa þeir brotið gegn samþykkt Sameinuðu þjóðanna um hernumdu svæðin og nota allar hugsanlegar aðferðir til þess að komast yfir það land og eignir sem þeir telja að Guð hafi úthlutað þeim í árdaga eins og Biblían greinir frá í Gamla testamentinu.
Fyrir nokkrum árum var til dæmis fjallað um það í athyglisverðum pistli í þættinum "60 mínútur" hvernig þeir ná sífellt undir sig húsum og íbúðum í Jerúsalem, sem losna við andlát eða í tengslum við svipuð eigendaskipti.
Það er rétt að taka það fram að aldrei hefur nokkur þjóð orðið fyrir barðinu á stórfelldari villimennsku en Gyðingar urðu á tímum nasista og útrýmingarherferðar þeirra sem á sér enga hliðstæðu að umfangi.
En nasistar sóttu einnig gegn öðrum þjóðum svo sem slavnesku þjóðunum sem þeir skilgreindu sem óæðri kynþátt sem ætti að víkja fyrir útþenslu ofurmennanna sem þyrftu "lebensraum" eða lífsrými.
Þegar Ísraelsmenn nota orðin "eðlileg stækkun landnemabyggða" er það í raun sama hugtakið og "lífsrýmið" hjá nasistum.
Landnemabyggðirnar eru ólöglegar en Ísraelsmenn láta ekki aðeins það sem vind um eyru þjóta heldur heimta stækkun þeirra.
Þetta er ekki aðeins það sem Ísraelsmenn stefna opinberlega að heldur segja þeir að þessi krafa um lífsrými og eðlilega stækkun" landnemabyggða sé algert skilyrði fyrir friði.
Hitler sagði líka að uppfylling krafnanna um lífsrými fyrir hina æðri aría væri forsenda fyrir friði.
![]() |
Olmert gagnrýnir Bandaríkjastjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.7.2009 | 01:39
Verður Noregur "eitrað peð" fyrir Ísland?
Áhugavert gæti verið að velta því fyrir sér hverju það gæti breytt í aðildarviðræðum Íslendinga við ESB að Íslendingar er ekki eina Norðurlandaþjóðin sem stendur fyrir utan ESB heldur er Noregur utangarðs líka.
Það getur verið spurningin um það hvort samningamenn ESB þori ekki að ganga eins langt í tilslökunum gagnvart sjávarútveginum íslenska og ef Ísland væri eitt eftir.
Þeir gætu óttast að of mikil eftirgjöf gagnvart Íslandi gæti gefið fordæmi fyrir hugsanlegar aðilarviðræður Norðmanna síðar meir þar sem Norðmenn myndu vilja fá það sama fram og Íslendingar fengu.
Hlutfallsleg stærð sjávarútvegsins á Íslandi er að sönnu margfalt meiri en í Noregi en engu að síður gætu miklar tilslakanir ESB varðandi Ísland gefið fordæmi gagnvart norskum aðildarsamningum sem teldist vera erfitt fyrir samningamenn ESB að veita.
Óvissan er líka talsverð varðandi fyrirhugaða endurskoðun á sjávarútvegsstefnu ESB, en slík endurskoðun gæti breytt aðstæðunum ef hún verður í þá átt að veita einstökum ríkjum almennt meira vald í sjávarútvegsmálum.
Áhugi Dana, Svía og Finna á því að Ísland og Noregur komi inn í ESB er mjög skiljanlegur. Þessi lönd sjá fyrir sér að samanlagður styrkur Norðurlandanna innan bandalagsins myndi aukast mjög við það að öll Norðurlöndin væru þar innanborðs og styrkur Íslands þar hlutfallslega mun meiri miðað við fólksfjölda landsins en annarra landa.
Í mín eyru sagði danskur ráðamaður að Norðurlöndin ásamt Eystrasaltsþjóðum gætu náð meira vægi en einstök stórveldi innan sambandsins.
Það er ekki einsdæmi að klofningur ríki varðandi aðildarumsókn að ESB. Verkamannaflokkurinn norski var klofinn í málinu þegar Gro Harlem Brundtland sendi inn 28 orða aðildarumsókn Norðmanna.
Það er heldur ekki einsdæmi í íslenskri sögu að innan raða þeirra sem eiga aðild að viðræðum sé ósætti. Þannig tók Skúli Thoroddsen þátt í samningaviðræðum Íslendinga og Dana um sambandsmál 1908 og lagðist gegn niðurstöðunni.
Ég man ekki lengur glöggt hvernig Skúli bar sig nákvæmlega að í viðræðunum en áreiðanlega hefur hann unnið að heilindum og lagt sig fram um að samninganefndin, sem hann var í, næði fram eins góðri niðurstöðu og unnt.
Í lokin mat hann niðurstöðuna hins vegar þannig að ekki hefði fengist nóg fram og skrifaði ekki undir samningsuppkastið, einn nefndarmanna.
Mér sýnist Jón Bjarnason geta lent í svipaðri stöðu og Skúli.
P. S. Í svari við athugasemd hér að neðan varpaði ég fram spurningu um það af hverju væri ekki hvalveiðisafn í Noregi. En svona getur maður gleymt hlutum. Sjálfur hafði ég með konu minni komið til Sandefjord í einni af níu Noregsferðum okkar og tekið myndir af hinu stórkostlega hvalveiðiminnismerki í Sandefjord. Hér er ein slík.

![]() |
Hefur ótvíræð áhrif í Noregi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 18.7.2009 kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
16.7.2009 | 12:51
"Lambalærið" komið glóðvolgt.
Sess lambalærisins verður vonandi óbreyttur, hvað sem gerist í landbúnaðarmálum. Mér mistókst setja lagið "Lambalæri" inn í tónlistarspilarann í fyrradag en nú er það komið glóðvolgt inn á tónlistarspilarann hér við hliðana í tilefni af grill- og lambalærishefð Íslendinga, sumarstemningunni og 2x50 ára starfsafmæli mínu og Lúdósextetts og Stefáns.
Til hagræðis fylgir með textinn:
Vertu hress vegna þess vinur kæri
að komast bærilega í tæri við tækifæri.
Tökum séns, trylltan skrens, gaurinn glæri !
Njóttu nú þín við þetta grín ! Þó nú væri !
Meðan að blóðheit bjóðast góð lambalæri.
Nú skal kjamsa og gramsa og gæða
sér á góðgæti á glóð og það snæða,
leika milla og grilla og glefsa´í
gómsæta lostætið sem ilmar, nautn nefs í,
kneifa í stólum Kókakóla og Pepsí.
Lambalæri´eru ljúf eins og lömbin.
Þegar lömbin koma á diskinn þá kýlist vömbin.
Mat og víf, nautnalíf mjög ég mæri.
Þess vegna óð er okkar þjóð í lambalæri.
Lambalæri´nú lyst okkar vekur
meðan lendar sínar sprellandi gellan skekur.
Tökum séns, trylltan séns, gaurinn glæri !
Njóttu nú þín við þetta grín ! Þó nú væri !
Ég og þú étum nú, enginn efar
að ef að glás er af krás maður slefar.
Nautnaseggirnir, sleggjurnar hneggja.
Vöðvaða steggina hér leggirnir eggja.
Úti við veggi drekkum dreggjarnar geggjað.
Lambalæri´eru ljúf, í mér hrærir
þessi lífsnautn sem oss ærir og endurnærir.
Eftir sult farðu´á fullt, gaurinn glæri !
Annars flengi ég þig í keng og hengi´í snæri !
Lambalæri´eru ljúf eins og lífið,
lostætt nammi þegar hrífur oss dívu-vífið.
Mat og víf, nautnalíf mjög ég mæri.
Þess vegna óð er okkar þjóð í lambalæri.
Þess vegna óð er okkar þjóð í lambalæri.
.
![]() |
Kjúklingar myndu lækka um 70% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.7.2009 | 11:41
Rússajeppar í formi láns.
1953 leituðu Íslendingar til Rússa um viðskipti með fisk vegna löndunarbanns Breta á íslenskan fisk á mikilvægasta markaði okkar. Rússum leiddist ekki að hjálpa NATO-þjóð og til urðu vöruskipti sem fljótlega mátti sjá í formi rússneskra bíla sem lögðu grundvöll að fyrirtæki sem enn er starfandi, B og L, Bifreiðar og landbúnaðarvörur.

Fyrsti rússneski bíllinn var Pobeda sem hentaði vel, sterkur og hár frá vegi þótt vél og kram væru ekki í hæsta gæðaflokki.
Gísli Jónsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Barðastrandasýslu, flutti þessa bíla innn á þeim tíma.
Í kjölfarið fylgdu Moskwitch og GAZ 69, svonefndur Rússajeppi sem ég tel vera best hannaða jeppa allra tíma, og er þá miðað við þá tíma sem viðkomandi jeppar komu fram á.

Ég hef notað 43ja ára gamlan Rússajeppa við kvikmyndagerð á hálendi Norðurlands og hefur hann verið hreint gull, sá gamli, auk þess sem hann er svo táknrænn fyrir þær stórkarlalegu virkjana- og stóriðjuframkvæmdir í sovétstíl sem þar eru í uppsiglingu.
Vöruskiptin við austantjaldsþjóðirnar entust langt fram eftir síðustu öld.
Við seldum þangað mikið af síld og öðrum fiskafurðum en fengum þaðan ýmsar iðnaðarvörur.

Frá Sovétríkjunum komu Lada og UAZ-jeppar Frá Tékkóslóvakíu kom Skoda og Zetor-dráttavélar.
Dacia kom frá Rúmeníu, pólskur Fiat frá Póllandi og Trabant, Wartburg (einn slíkur sést hér í miðjum hópi af gömlum bílum á Egilsstöðum) P-70 og Garant komu frá Austur-Þýskalandi.
Tveir síðastnefndu bílarnir voru líklega lélegustu bílar sem fluttir hafa verið til Íslands.
Þess má geta að við flytjum enn inn bíla sem framleiddir eru í hinum gömlu austantjaldslöndum, Skoda frá Tékklandi og Suzuki Swift frá Ungverjalandi.
Sumir vændu Rússa um annarlegar hvatir að aðstoð þeirra 1953.
Sama heyrir maður nú.

Ólafur Thors sagðist hafa þá reglu að ætla mönnum aldrei illt nema hann reyndi þá að því.
Íslendingar létu fyrstu aðstoð Rússa aldrei hafa áhrif á utanríkisstefnu sína.
Ég tel að sama eigum við að gera nú.
Vera Rússum þakklátir án þess að ætla þeim annarlegar hvatir eða láta aðstoð þeirra hafa áhrif á óskyld efni.
Ég enda pistilinn með mynd af bílum tveggja naumhyggjumanna, sem eiga uppruna sinn í austanverðri Evrópu.
Það eru rall-Trabant Dalabóndans Arnar Ingólfssonar og pólskur Fiat 126 í eigu gamals keppinautar hans hér forðum tíð.
![]() |
Rússalán í höfn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)