Færsluflokkur: Bloggar

Tilfinningaríkur íslenskur skapsmunaakstur.

Ég dró stóran tjaldvagn fyrir dóttur mína og fjölskyldu hennar austur í sveit í dag á árlegt ættarmót og útilegu afkomenda Jóhanns Jónssonar og Láru Sigfúsdóttur austur. Þetta er átta manna fjölskylda og þau fengu tjaldvagninn lánaðan en áttu ekki bíl til að draga hann. Veðrið var yndislengt, logn og hlýtt. 

Þátttakan mjög góð strax á fyrsta kvöldi og kvöldstundin ljúf, sjá mynd.  

P1010447

Notaði til þess 36 ára gamlan, þreyttan og sjúskaðan Range Rover með Nissan Laurel dísilvél, sem í fimm ár hefur þó skilað sínu með sóma.  

Umferðin var að mestu til fyrirmyndar með einstöku undantekningum þó.

Á leið í bæinn lenti ég ásamt fleirum í lest á eftir bíl sem ekið var á rúmlega 70 kílómetra hraða. Þegar vegurinn breikkaði og ég og aðrir hugðust fara fram úr var eins og bílstjórinn á þessum bíl sleppti sér alveg.

Hann jók hraðann og var fyrr en varði kominn á urrandi ferð að öllum líkindum vel á öðru hundraðinu því að það dró hratt á milli.

Um tíu kílómetrum síðar hægði hann aftur ferðina en þegar við komum aftur í námunda við hann, var eins og hann þyldi ekki þá tilhugsun að ekið yrði fram úr honum, heldur jók ferðina á ný greinilega vel yfir leyfilegan hraða.

Sumir bílstjórar virðast alls ekki geta fengist við það verkefni að aka á jöfnum hraða í eðlilegri umferð og fylgja þeirri reglu umferðarlaga að haga akstrinum þannig að hann verði sem öruggastur og greiðastur fyrir alla aðila, heldur gera þeir í því að vera með stæla eins og þessi fyrrnefndi bílstjóri.

Ég kalla þetta tilfinningaríkan íslenskan skapsmunaakstur vegna þess að maður sér þetta hvergi erlendis.


mbl.is Umferðin hefur gengið mjög vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...nema fólki sem hefur enga hugmynd hvað það er að fara út í..."

Ég geymi í minnisbók minni nokkrar gullsetningar, sem sagðar voru í aðdraganda hrunsins þegar "tær viðskiptasnilld" safnaði 63 milljörðum króna inn á Icesave í Bretlandi á rúmum mánuði rétt fyrir hrun.

Ég ætla að rifja þá setningu upp sem mér finnst lýsa því best hvað menn voru að bralla. Hana segir Hannes Smárason við blaðakonu Krónikunnar skammlífu (tær viðskiptasnilld sem entist í þrjú tölublöð ) í febrúar 2007. 

Eftir að Hannes hefur lýst snilldinni sem felst í því að kaupa skuldug fyrirtæki og selja með gríðarlegum gróða með því að fá nógu mikið lánsfé, - snilldinni sem felst í að endurfjárfesta hlutabréf stanslaust á milli fyrirtækja svo að aldrei þurfi að borga skatt o. s. frv., biður ringluð blaðakonan hann um að lýsa snilld hans og hinna snillinganna í einni setningu.

Og þá kemur þessi dásamlega lýsing hjá honum:

"...Það hefði engum dottið í hug að gera það sem við erum að gera nema fólki sem hefur enga hugmynd um hvað það er að fara út í..."

Þetta segir einn af höfuðpaurunum einu og hálfu ári fyrir hrun svo að betur verður þessu varla lýst.


mbl.is Dýrustu milljarðar Íslandssögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland, gósenland jarðvísindanna.

Einn af stórum möguleikum landsins okkar felst í að við getum átt vísindamenn í fremstu röð í jarðvísindum og lokkað hingað vísindamenn annarra land vegna þess hve einstæð náttúra landsins er.

Tunglfararnir komu hingað af þessum sökum og marsfarar framtíðarinnar gætu komið líka og æft sig í Gjáststykki ef bægt verður frá skefjalausri ásókn virkjanafíkla í að eyðileggja svæðið sem alþjóðasamtök um ferðir til mars völdu sér.

Orðstír lands og þjóðar er virði þúsunda milljarða króna þótt margir vilji líta fram hjá því. Það er ekki sama hvernig við förum þann dýrgrip sem landið okkar er og við höfum að láni frá afkomendum okkar.


mbl.is Verðlaunuð af Bandaríska jarðeðlisfræðisambandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefnist fyrir oflætið.

Þegar ég sé fréttina um lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar kemur upp í hugann þegar Hörður Árnason varpaði því fram á fundi Viðskiptaráðs, sem ég sat 2007, að á ákveðnu árabili á milli tveggja dagsetninga þegar staða dollars var hin sama, var Landsvirkjun rekin með tapi.

Hörður dró þá ályktun af þessu að eitthvað væri verulega bogið við rekstur fyrirtækis, sem hefði næstum því einokunarstöðu í landinu og ætti að vera gullgæs undir öllum venjulegum kringumstæðum.

Á þessum tíma sökkti Landsvirkjun sér í stórskuldir vegna Kárahnjúkavirkjunar í stað þess að sigla lygnan og öruggan sjó eins og vel rekin fyrirtæki með ábyrga stjórnendur gera.

Það er veruleg ástæða til að óttast að Landsvirkjun lendi beint eða óbeint í eigu útlendinga þegar harðna fer á dalnum. Staða fyrirtækisins er óhugnanlega keimlík stöðu bankanna fyrir hrunið, þegar stjórnendur þeirra treystu á að fá lánsfé til að "endurfjármagna" sligandi skuldir.

Það fékkst ekki og bankarnir hrundu, þrátt fyrir að þeim tækist að blekkja fólk með því að sýna reikninga sem sýndu sterka stöðu.

Það skyldi þó ekki vera að stefni í fjárhagslegt hrun Landsvirkjunar þegar ekkert lánsfé fæst lengur vegna þess að fyrirtækið er komið í ruslflokk?


mbl.is Lánshæfiseinkunn lækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Græðgin lifir góðu lífi.

Græðgin og taumlaus peningahyggja lifa góðu lífi þrátt fyrir kreppuna. Um það vitnar oftaka HS Orku. Fleira er á ferðinni á orkuöflunarsvæðum á Reykjanesskaga sem vitnar um svipað.

Upp hafa komið spurningar um það hvers vegna lón á svæðunum séu stærri en reiknað hafi verið með. Þrátt fyrir að gumað hafi verið af árangri af niðurdælingu hækkar til dæmis sífellt í lónum HS.

Peningafréttir tröllríða ekki síður umræðum og fréttaflutningi en þær gerðu í gróðærinu. Þá voru fréttatímar orðnir að nær samfelldum söng um viðskipti og peninga þegar allt snerist um að græða sem mest og hraðast.

Nú er viðfangsefnið í raun það sama nema að nú snýst allt um tap og hrun og allt snýst um að tapa sem minnstu. Græðgin birtist í hugmyndum um að ráðast með enn meiri krafti en nokkru sinni fyrr á mestu verðmæti landsins, einstæða náttúru undir yfirskini neyðaraðgerða þjóðar sem þrátt fyrir allt er með ein bestu lífskjör í heimi.


mbl.is Fimmtungi meiri orka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert rafmagn, ekkert starf, samt virkjað.

Nú er sótt úr öllum áttum að íslenskri orku og íslenskri náttúru. "Erlendir aðilar" sækja í eignarhald. Innlendir sækja í að eyðileggja náttúruverðmæti, jafnvel þótt viðkomandi virkjunarframkvæmdir skapi ekkert starf og enga orku.

P1010199

Myndirnar hér á síðunni eru af því fáránlega fyrirbæri, sem felst í því að láta renna vatn til fulls í svonefnt Kelduárlón fyrir austan Snæfell og eyðileggja merkilegt fjallavatn, Folavatn, án þess að nokkur þörf sé fyrir þessa hækkun lónsins og án þess að það að það skapi eitt einasta starf.

Á loftmyndinni sést Folavatn í forgrunni eins og það er nú, en Kelduárlón eins og það er nú, er fjær.

Folavatn er tært en Kelduárlón gruggugt. Í matskýrslu um umhverfisáhrif er fjallað um að lífríki Folavatns sé um margt einstætt.  

Hægt er að stækka myndirnar hér á síðunni með því að smella á þær í tveimur áföngum.  

P1010259

 

 

 

Hér til hliðar er horft yfir hluta Folavatns til suðurs með Eyjabakkajökul í baksýn.

 

 

Sú viðbót sem eftir er að láta renna í Kelduárlón upp í topp mun aðeins gefa innan við 2% af þeim vatnsbirgðum, sem Hálslón gefur, en það mun drekkja Folavatni og grónu landi í kringum það.

P1010284

 

 

Þörfin fyrir vatnið, sem kemur úr svonefndri Hraunaveitu, miðast við mun kaldara árferði en nú er og verða mun fyrirsjáanlega næstu áratugi.

Sú röksemd að fylla verði Kelduárlón til að gripa til á kuldaskeiði á ekki við.  

 

 

Kelduárlón rúmar 60 gígalítra til miðlunar en til samanburðar rúmar Hálslón 2100 gígalítra.

P1010292

Sú röksemd að Kelduárlón geti nýst sem öyggisventill ef rennsli úr Hálslóni klikkar, til dæmis vegna bilunar í 40 kílómetra löngum göngunum frá því, stenst ekki því að vatnsforði Kelduárlóns myndi í mesta lagi endast í inna við viku og sá tími yrði allt of stuttur til að gera við bilun eða leka í göngunum.

'Rennslið í Hálslón er líkast til að minnsta kosti 10-20% meira en reiknað var með.

Af því sést að rennslið úr Hraunaveitu, sem er aðeins brot af þessari aukningu, skiptir engu máli, hvorki í heildina tekið né sem öryggisventill.

Á myndinni hér til hliðar er staðið við afrennsli Folavatns, Folakvísl.

P1010261

Þarna er mikið gróðurlendi, þvert ofan í þær hugmyndir sem ég og aðrir höfðu gert sér um "urðina og grjótið" sem drekkt yrði með Hraunaveitu.

Fuglar verpa við vatnið, m. a. Hávella og Óðinshani.

Einn Óðinshani varð mér samferða á hluta gönguferðarminnar, sést sem depill vinstra megin á víðari myndinni en betur á nærmynd.

Ég er með aðstoð Völundar Jóhannessonar að búast til siglinga á "Örkinni" á þessum nýjstu athafnasvæðum Landsvirkjunar og fylgjast með drekkingu Hávelluhreiðranna í hólmum Folavatns. 

Í morgun hef ég verið að reyna að biðja Folavatni griða og aðeins það er nú í huga mér. Hraunaveita og Kelduárlón eru komin og verða áfram þarna.

P1010254

Ég náði sambandi við einn stjórnarmann Landsvirkjunar í gærkvöldi.

Hann hafði  ekki hugmynd um þetta mál frekar en allir sem ég ræði við um það, enda hafa fjölmiðlar þagað sem kyrfilegast um það, þótt það er búið að grafa sem svarar Héðinsfjarðargöngum í Hraunaveitu og reisa stíflur, þar sem hin stærsta er 1600 metra löng og 27 metra há og ein af allra stærstu stíflum landsins.

Það er líka búið að láta renna í hátt í helming af yfirborði Kelduárlóns og nú skortir aðeins 2ja metra í hækkun til að hið auruga vatn Kelduár farið að flæða inn í Folavatn.

Eins og sést á myndunum eru flöt gróin nes og hólmar sem munu sökkva á skömmum tíma.

P1010249

Ég haltraði hálfan hring um lónið í gær og var þar líka við myndatökur í fyrra og held ég viti eitthvað um það sem þessi pistill fjallar.

Ég held áfram að reyna að ná sambandi við ráðamenn um það hvort það megi ekki bíða með það að drekkja Folavatni og umhverfi þess vegna þess að það gefi hvorki eitt einasta kílóvatt né starf.

Ef ekki tekst að stöðva þá framkvæmd að láta vatn renna inn í Folavatn væri þó kannski von um vatnið og lífríki þess næði sér ef það fengist fram að lækka sem fyrst í Kelduárlóni á ný ofan í þá hæð sem það er nú. 

 

En best væri að hætta núna og tíminn er naumur. Það hafði verið gefið í skyn við mig í fyrra eftir að hætt var við að virkja tvær austustu smáárnar í Hraunaveitu að þar með yrði látið staðar numið.

Mér til mikilla vonbrigða frétti ég fyrir nokkrum dögum að látið hefði verið renna í Kelduárlón í allt vor.  

Mér skilst eftir nýjasta viðtal við stjórnendur framkvæmda að hvort eð er verði af verkfræðilegum ástæðum að stoppa vatnshæðina í 664 metrum, en Folavatn er í 662ja metra hæð.

Munurinn er 2,5 metrar. Aðstæður hafa breyst frá því að Hraunaveita var ákveðin að því leyti til að kalt árferði verður æ ólíklegra. Að hluta til hefur LV viðurkennt þetta með því að hætta við virkjun austustu árinnar í fyrirhugaðri Hraunaveitu.

Ég tel að vegna þessara breyttu forsendna sé það lágmarkskrafa að stjórn Landsvirkjunar fjalli um þetta mál ásamt færustu sérfræðingum og taki um það ákvörðun, helst sem fyrst.

Ef látið verður staðar numið nú fá báðir aðilar sitt fram að hluta til og fórna öðru.

Virkjanamenn fá sitt miðlunarlón með stórum hluta þeirrar miðlunar sem stefnt var að en gefa Folavatn eftir. Náttúruverndarmenn fá sitt Folalón en sætta sig við þann orðna hlut að fagrir grænir árhólmar Kelduár verða að eilífu á kafi í gruggugu lóninu.

Þessi vötn, Kelduárlón og Folavatn standa með þessari lausn hlið við hlið og ég slepp við þann dapurlega endi á siglingu Arkarinnar í samnefndri mynd, að vera úti í drukknandi hólmunum þar sem Hávelluhreiðrin með eggjum sínum og drukknuðum ungum fljóta upp.  

Ef þessi lausn gæfist verr en búist hefði verið við eru tæknilegir möguleikar á að láta Folavatn róa eins og upphaflega var ákveðið. Stíflan stendur þarna. 

Ég enda þennan pistil með því að taka mér það bessaleyfi að líkja Folavatni við Réttarvatn í ljóði Jónasar Hallgrímssonar um Réttarvatn:

P1010268

 

 

 

 

Efst hér austur á Hraunum /

oft hef ég fáki beitt. /

Þar er allt þakið í vötnum /

og þar heitir Folavatn eitt. /

 

Undir norðurásnum /

er ofurlítil tó. /

Lækur liðast þar niður /

um lágan hvannamó. /                     

P1010241

 

Á engum stað ég uni /

eins vel og þessum mér. /

Hinn ískaldi jökull og Snæfell /

vita´allt sem talað er hér.

P1010244
mbl.is Erlendir bjóða í HS Orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins eitthvað um sáralítinn hlut okkar.

Virkjanafíklar hafa jafnan látið eins og hið óvirkjaða vatnsafl Íslands sé slíkt að skipta muni sköpum fyrir heiminn. Fyrir 15 árum var í alvöru rætt um að Íslendingar gætu setið eins og Arabar með vefjarhetti og stjórnað rafmangsverði í Evrópu í gegnum sæstreng.

Ef þetta væri svona gætu Norðmenn það alveg eins og við, því að þar í landi er að magni til jafn mikið óvirkjað vatnsafl og hér. Þar að auki tandurhreint vatn á hálendi, sem ekki hefur hlotið sérstakan gæðastimpil sem eitt af undrum veraldar eins og Ísland hefur hlotið.

Í Noregi eru heldur ekki vandamál vegna þess að miðlunarlón fyllist upp af auri og heilu dölunum með lífríki og einstæðri náttúru sé sökkt eins og hér er ætlunin.

Norðmenn munu ekki virkja meira enda þarf ekki annað en að glugga í tölur til að sjá, að óvirkjað vatnsafl í þessum tveimur löndum er langt innan við eitt prósent af orkuþörf veraldar, aðeins nokkur prómill. Hvorki við né Norðmenn munum verða "Arabar norðursins" eins og lengi hefur verið gumað af.

Ég hef flogið í lítilli flugvél yfir þvera og endilanga Eþíópíu og séð allt það gríðarlega vatnsafl sem óvirkjað er í því landi. Þar eru þjóðartekjur á mann aðeins 0.5% af því sem þær eru hér.

Virkjanir í þessari álfu hafa því meira en hundrað sinnum meira hagrænt gildi fyrir örfátækt fólkið sem þar býr en þær hafa hér á landi.

Samt viljum við bjóða "lægsta orkuverð" og "sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum" og eyðileggja verðmæti sem eru ómetanleg.

Er nú í ferð um virkjanasvæðin norðan Mývatns og í kringum Snæfell og skortir orð til að lýsa því sem hér er að gerast, þótt ég muni reyna að blogga um það næstu daga, ef tími er til.

Það er ekki víst hvað sá tími verður mikill. Það er að hitna í kolunum hér og magnaðir dagar framundan.


mbl.is Gífurlegt afl liggur ónýtt í fallvatninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merk og gleðileg tímamót.

Hóflegar strandveiðar sem hleyptu lífi í dauð sjávarþorp voru eitt af áhersluatriðum Íslandshreyfingarinnar fyrir kosningarnar 2007. Við töldum að af fenginni reynslu af smábátasprengingunni í lok síðustu aldar væri nú hægt að nálgast viðfangsefnið af nægri varfærni og skynsemi til að betur færi í þetta sinn.

Veiðarnar hafa marga kosti:

1. Opnaður gluggi fyrir þá sem vilja stunda svona veiðar og njóta þess samspils við hafið og náttúruna sem þær veita.

2. Hleypt lífi í hafnirnar um allt land.

3. Hæsta stig sjálfbærni og góðrar meðferðar á auðlindinni.

4. Menningar- og gleðiauki fyrir fólkið í sjávarbyggðu0num.

5. Aukin gleði fyrir aðkomufólk og ferðamenn sem vilja koma í slík pláss og kynnast hinum einstæðu tengslum byggðanna við hafið sem hafa verið kyrkt hin síðustu ár.

Þetta getur þýtt óbeinar tekjur vegna ferðaþjónustu. Eða eins og Raggi Bjarna söng í den: "Hafið lokkar og laðar."


mbl.is 22 tonn af þorski á fyrsta degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Veröldin er söm við sig..."

Fréttin af flugi Jacksons upp í hæstu hæðir eftir dauða hans minnir mig á dásamlega vísu, sem Andrés Valberg fór með á hagyrðingamóti á Vopnafirði fyrir meira en áratug.

Sjálfur hafði Andrés sopið marga fjöruna um dagana, var maður lífsreyndur og átti ekki langt ólfifað.

Vísan er gull, og hljóðar svona:

 

Veröldin er söm við sig. /

Svíkur margan auður. /

Allir myndu elska mig /

ef ég væri dauður.


mbl.is Michael Jackson í efsta sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bílvelta varð"...einu sinni enn.

Eru engin takmörk fyrir því hve lengi þetta orðalag, "bílvelta varð" er notað í íslenskum fjölmiðlum?

Í stað tveggja atkvæða: "bíll valt" er enn einu sinni notuð tvöfalt lengra orðalag og eftir því klaufalegt.


mbl.is Bílvelta á Þingvallavegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband