Færsluflokkur: Bloggar
24.11.2017 | 17:29
Klettsháls ófær undanfarna daga og Kleifaheiði tímabundið.
Á vef Vegagerðarinnar um færð á vegum hefur mátt sjá undanfarna ófærðardaga, að ef Baldur siglir ekki, hefur leiðin frá Gufudalssveit til Vesturbyggðar verið ófær á Klettshálsi.
Klettsháls (rauður litur á korti Vegagerðarinnar) hefur verið farartálminn milli Gufudalssveitar og Brjánslækjar og í sl. þriðjudag var Kleifaheiði ófær, og þar með er gagnslaust að komast yfir Breiðafjörð með Baldri til að komast yfir í Vesturbyggð.
Kleifaheiði er hæst fjallveganna sem eru á leiðinni meðfram ströndinni til Vesturbyggðar og ófærð á Klettshálsi, sem er með fullbúnum og malbikuðum nýjum vegi, rímar við það sem ég hef haft tilfinningu fyrir í gegnum tíðina, að þar geti oftar orðið ófært en annars staðar á þessari leið.
Hálsarnir í Gufudalssveit hafa ekki verið merktir sem "ófærir" í dag eða í þessari viku eftir því sem ég best veit og eins og sjá má á myndum, sem ég ætla að setja inn.
Á neðstu myndinni má sjá, að nú síðdegis á föstudag er hvergi lengur ófært á þessari leið.
Ef gerð yrðu jarðgöng undir Hjallaháls með gangamunna í 110 metra hæð, líkt og gert var við Vestfjarðagöng, yrðu þau ekki dýrari en vegur um Teigsskóg, og inni í jarðgöngum er aldrei ófærð, hvorki vegna snjóa né fárviðris.
En með því að setja 40 metra hæð gangamunna sem skilyrði yrðu göngin það miklu lengri en með 110 metra hæð, að þau yrðu miklu dýrari en ella.
Ódrjúgsháls er álíka hár og efstu hverfin við Vatnsendahvarf í Kópavogi, 160 metra yfir sjávarmál, og getur varla talist fjallvegur.
Vegurinn um hann er hins vegar barn síns tíma með tvær brattar og krappar beygjum að austanverðu, sem má afmá með því að leggja veginn á skaplegri og nútímalegri hátt en gert var um miðja síðustu öld og malbika hann.
.
![]() |
Alvarlegt tjón fyrir samfélagið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.11.2017 | 12:29
Mestu breytingar á högum tónlistarmanna í heila öld?
Tónlistarmenn hafa gengið í gegnum ýmsar breytingar á högum í gegnum tíðina, oft vegna nýrrar tækni.
Langt fram eftir síðustu öld var vínyllinn alls ráðandi í útgáfu tónlistar og fór vegur hans sívaxandi.
Ég man þá tíð þegar að mestu voru gefnar út tveggja laga plötur, með einu lagi hvorum megin.
En tvær tegundir breytinga komu síðan til sögunnar á um tíu ára tímabili, annars vegar varðandi breytingar á snúningshraða platnanna sem fóru í gegnum tölurnar 78, 45 og 33 snúninga, en einnig og kannski fyrst og fremst varðandi stækkun platna úr 2ja laga í fjögurra laga og síðan í tilkomu breiðskífunnar á sjöunda áratugnum.
Allar breytingarnar juku á fjölbreytnina og plötusöluna. Þannig er tveggja laga plata Bítlanna með lögunum Penny lane og Strawberry fields forever yfirleitt taldar tilheyra "plötu aldarinnar" Sergent Peppers hjá Bítlunum, en vegna þess að vinna við hana tók hálft ár og tók allan tíma Bítlanna á því tímabili, svo að þeir komu hvergi fram og gáfu ekkert út á meðan, var ákveðið vinna gegn hugsanlegum áhrifum þess með því að taka tvö lög af fyrirhuguðum lagalista og gefa þau út á smáskífu til að láta dampinn ekki detta niður.
Á síðustu tveimur áratugum aldarinnar kom geisladiskurinn til sögunnar og var auðvitað gríðarleg bylting fólgin í honumm, en ef eitthvað var fjölgaði útgefnum plötum gríðarlega og plötusalan þar með.
Fyrir nokkrum árum varð síðan áhrifarík bylting með tilkomu útgáfu tónlistar og ekki síður niðurhals á netinu.
Afleiðingarnar eiga sér varla neina hliðstæðu síðan hljómplatan kom til sögunnar.
Á örfáum misserum hefur salan á markaðnum hrunið gersamleg og þær tekjur, sem íslenskir tónlistarmenn geta haft með því að setja lög sín á Spotify eru yfirleitt í mýflugumynd, sé tónlistin miðuð að mestu fyrir innlendan markað.
Spotify miðar sitt kerfi við heimsmarkaðinn og hundraða milljarða kaupenda, sem eru á honum, og tölurnar á Íslandi eru svona um það bil einn tíuþúsundasti af allri tónlistarveltunni.
Allir hér á landi, sem ekki eru með kaupendur að neinu ráði erlendis, hafa sopið seyðið af þessu.
Það segir sína sögu um stórfelldar breytingar á högum skapandi tónlistarfólks, að Páll Óskar bauð fyrstu kaupendum disks síns að koma í eigin persónu til þeirra með hann, Egill Ólafsson setti sína nýju tónlist á vínyl í takmörkuðu magni og áritar eftir númerum, og Bubbi Morthens gaf út ljóðabók.
Sjálfur fór ég í trúbadorferð báða hringina, hringvegginn og Vestfjarðahringin í rykk á rúmum þremur sólarhringum, með hljómflutningstæki á litlu Honda vespuhjóli til að halda kynningar og tónleika á þeim slóðum sem markhópur slíks ferðalagavæns disk var helst á ferð.
Á myndinni er hjólið, sem ber íslenska heitið "Léttir" með hljómflutningskerfið á bakinu eins og hestur, staddur uppi á Hrafnseyrarheiði með Dýrafjörð í baksýn.
Íslenskir tónlistarmenn hafa nú verið sendir til baka til upphafsins, ef svo má að orði komast, við að leggja aðaláhersluna á að koma fram á tónleikum eða halda tónleika.
Fall hljómdisksins má marka af því að í verslunum, sem áður seldu diskaspilara og annað tengt þeim, eru slík tæki ekki seld lengur, þeir hafa horfið úr nýjum tölvum, og það þarf að panta diskaspilara í nýjum bílum.
![]() |
Tekjur tónlistarfólks rannsakaðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.11.2017 | 00:28
Af hverju ekki framboð til forseta?
Við Íslendingar ættum að bjóða Mike Hughes, "Mad Mike" til Íslands til þess að komast að því á miklu ódýrari hátt en hann ætlar sér, hvort jörðin sé flöt eða hnöttótt.
Hann ætlar að skjóta sjálfum sér í heimasmíðaðri eldflaug til þess að sanna að jörðin sé flöt, en ef við bjóðum honum til Reykjavíkur, tekur þetta aðeins um tíu mínútur fyrir miklu minni peninga.
Hann yrði fyrst settur niður á Eiðisgranda á heiðríkum degi, þar sem hann sæi yfir Faxaflóa efri hluta Snæfellsjökuls við sjóndeildarhringinn, síðan yrði farið með hann í flug beint upp frá Reykjavíkurflugvelli þar sem hann sæi jökulinn líkt og rísa allan úr sæ ásamt lægri fjöllum yst á Snæfellsnesi, sem ekki sjást frá sjávarmáli.
Raunar er synd að Ingólfur Arnarson skyldi aldrei ganga á Esjuna til að sjá svipað og verða með því níu hunduð árum á undan öllum öðrum til að sanna að jörðin væri ekki flöt, úr því að hafið væri það greinilega ekki.
En síðan mætti sleppa þessu og benda Mad Mike á það að láta ekki nægja að bjóða sig fram til embættis ríkisstjóra Kaliforníu heldur fara alla leið og bjóða sig fram þegar tækifæri gefst til embættis forseta Bandaríkjamanna, en hann er að því leyti skoðanabróðir Trumps að Trump telur vísindamenn heims fara með bull og vitleysu varðandi loftslag á jörðinni og að reka þurfi þá alla og ráða "alvöru" vísindamenn í staðinn að loftslag fari ekki hlýnandi heldur kólnandi, jafnvel "hratt kólnandi" eins og sumir skoðanabræður hans sögðu fyrir þremur árum.
Því að bæði Mad Mike og Donald Trump eiga sér fjölmarga skoðanabræður.
![]() |
Hyggst sanna að jörðin sé flöt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.11.2017 | 20:50
Ég varð fyrir líkri árás hér um árið. Greyið var "vímaður."
Það vekur athygli þegar bíll af gerðinni NSU Prinz árgerð 1958, sem ég á, er skoðuð, að það vantar rúðuna í hægri hurð bílsins. Það ætti að sjást á meðfylgjandi mynd.
Ástæðan er sú, að óður maður, kýldi með krepptum hnefa í gegnum rúðuna þegar ég sat hinum megin í bílnum, svo að glerbrot og blóð dreifust frammi í bílnum og öskraði augnabliki áður: "Ég ætla að drepa þig, helvítið þitt!"
Aðdragandinn að þessari fólskulegu árás var sá að ég var á leið með þennan örsmáa bíl frá bílasýningu í Öskju vestur í Útvarpshús, þar sem hann var á þeim tíma geymdur á bak við súlu í kjallaranum.
Þetta var síðla kvölds um vor, og bensíngjöfin hafði bilað á bílnum, svo að ekki var hægt að aka honum nema á um 15 kílómetra hraða í vesturátt upp hallann á Vesturlandsveginum austan við gatnamót Höfðabakka.
Ég ók bílnum alveg úti í hægri kanti og vegna smæðar hans tók hann afar lítið pláss og var að engu leyti til trafala fyrir umferðina sem var mjög lítil.
Framhjá mér til vesturs var ekið nokkurra ára gömlum japönskum bíl, brúnum að lit.
Skyndilega var honum svipt til hægri út í kant, stöðvaður þar og út úr honum snaraðist grannleitur maður og hljóp aftur fyrir bílinn í áttina framan að mínum bíl.
Þegar hann var kominn það nálægt að ég sá framan í hann, brá mér í brún; hann var eldrauður í framan af æsingi og eins og augun í honum stæðu á stilkum, þegar hann hóf snaróður af tryllingi hnefann ógnandi á loft beint fyrir framan bílinn á móts við vinstra framhornið og öskraði svo hátt, að ég heyrði það inn í bílinn, enda var ég með litlu vindskeiðina fremst á glugganum opna: "Ég ætla að drepa þig, helvítið þitt!"
Nú kom sér vel að stýrið á þessum bíl var það sneggsta og léttasta í flotanum, því að mér tókst að snarbeygja til vinstri svo að maðurinn kom að hægra framhorni bílsins í stað þess vinstra þar sem hann virtist ætla að kýla mig í gegnum gluggann.
Í stað þess að kýla mig beint í andlitið í gegnum gluggann bílstjóramegin, þar sem ég sat, sló hann í gegnum hægri rúðuna, svo að hún brotnaði í þúsund mola.
Glerbrotin og blóðslettur dreifðust yfir til mín. Það sýnir hve maðurinn var dýróður og með ákveðinn brotavilja, að hann skyldi gera þetta.
Að mínu viti er ekki hægt að líta á svona árás né svipaða árás á lítið barn sem greint er frá í fréttum í kvöld með léttúðaraugum.
Því miður var atvikið í mínu tilfelli þess eðlis, og olli slíku sjokki, að það eina sem ég man, er atvikið sjálft og hinn hroðalegi svipur á árásarmanninum, en ég tók ekki eftir gerð bílsins, sem hann kom út úr, en var með afar venjulegt útlit eldri bíla.
Ég ók aðeins eins hratt og ég gat miðað við ástand míns bíls vestur í Útvarpshús og kom honum þar fyrir.
Eftir á að hyggja sýnist mér að hvort eð er hefði skipt litlu þótt ég kallaði á lögreglu miðað við þau viðbrögð, sem árásin á barnið veldur.
Ég á dálítið erfitt með að sætta mig við það að afgreiða það eitthvað á þessa lund: "Greyið var vímaður."
![]() |
Þetta voru ákaflega vímaðir menn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.11.2017 | 10:43
Og þetta vilja andstæðingar nýrrar stjórnarskrár í raun halda í.
Enn og aftur, í þetta skipti varðandi Landsdóm, kemur upp mál, þar sem lögfesting nýrrar stjórnarskrár hefði breytt miklu, en stundum kemur slíkt fyrir og þykir fréttnæmt vikulega eða jafnvel enn oftar.
Enda hefur verið reynt að kasta tölu á umbætur af þessu tagi, og má finna slíkt á 105 stöðum.
Eitt af því sem mér og fleirum þáverandi laganemum fyrir rúmri hálfri öld fannst furðulegt og asnalegt í stjórnarskránni, sem Danakonungur lét Dani semja fyrir Íslendinga 1874 og er í meginatriðum óbreytt enn, eru ákvæðin um Landsdóm, sem enn standa óhögguð.
Í raun kveða lögin um Landsdóm á um það að alþingismönnum sé gert skylt, ef fara á eftir lögunum, að taka afstöðu þess hvort þeir eigi að ákæra vinnufélaga sína og oft nána vini, jafnvel sessunauta eða samstarfsmenn í nefndum, um saknæmt athæfi.
Það er einfaldlega ekki hægt að ætlast til þess af þingmönnum að fást við þetta.
Þar er einfaldlega um vanhæfi að ræða.
Við samningu nýrrar stjórnarskrár hjá stjórnlagaráði var ákveðið að fella greinarnar um Landsdóm niður en skerpa í staðinn á nauðsynlegu aðhaldi dómsvaldsins og ákæruvalds þess hvað varðaði skyldur opinberra starfsmanna.
Alltaf þegar upp kemur umræða um bagaleg ákvæði eða skort á ákvæðum í núverandi stjórnarskrá, sem í raun er í meginatriðum orðin 168 ára gömul, er rætt um að það þurfi að lagfæra þessa vankanta.
En ekkert gerist. Og aðgerðarleysi og tregða gagnvart umbótum jafngildir gjörningi.
![]() |
Ríkið sýknað í landsdómsmáli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
22.11.2017 | 23:14
Við "Hjarta landsins" þarf að nýta reynslu erlendis, til dæmis í Noregi.
Hugtakið og heitið þjóðgarður er verðmætur alþjóðlegur gæðastimpill og felur í sér flokkun svæða eftir þvi hvað verndin er mikil.
Í efsta gæðaflokki eru svæði, sem eru gersamlega ósnortin, og jafnvel örfáir koma á.
Í lægsta flokki eru afmörkuð svæði, þar sem eru að vísu mannvirki, en þó afturkræf.
Í erlendum þjóðgörðum sem ég hef komið í, er þessari flokkun hagað á mismunandi hátt í samræmi við misjafnar aðstæður, en þeir þjóðgarðar, sem virðast einna sambærilegastir við íslenska þjóðgarða eru Jóstedalsjökulsþjóðgarður í Noregi og Yellowstone og Canyonlands eða Giljalönd í Bandaríkjunum, Yellowstone vegna jarðvarmans og jarðfræðinnar og Giljalöndin vegna jeppaslóða sinna, sem eru alls um 1600 kílómetra langir.
Til samanburðar er talið að á Íslandi séu meira en 2000 kílómetra langir vegaslóðar.
Þegar Jóstedalsjökulsþjóðgarður var stofnaður voru ýmiskonar fáfræði og fordómar helstu hindranir í að það tækist að ljúka málinu.
Margar af ástæðum óttans voru reistar á ranghugmyndum eða misskilningi, sem þurfti að eyða og leita að lausnum, sem næg samstaða tækist um að lokum. Það tókst, og um það flutti Eric Solheim, formaður stjórnar þjóðgarðsins, fróðlegan fyrirlestur í Reykjavík fyrir um 15 árum.
Stundum er best að setja fram viðhorf í tónum og ljóðlist en á prenti, og í tilefni af efni tengrar fréttar á mbl.is verður lagið "Hjarta landsins", sett að nýju á facebook, en heitið hefur verið kjörorð þeirra, sem vilja stofna miðhálendisþjóðgarð.
![]() |
Forsendur fyrir stofnun hálendisþjóðgarðs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.11.2017 | 13:38
"Það er vitlaust gefið", þess vegna þrefað um umhverfismál.
Nú er farið að nefna umhverfismál og rammaáætlun sem ágreiningsefni Vinstri grænna og hinna stjórnarmyndunarflokkanna tveggja.
Undirliggjandi ástæða heyrist sjaldan nefnd, nefnilega sú, að um rammaáætlun eiga við ljóðlínur Steins Steinarrs: "Það er nefnilega vitlaust gefið."
Í virkjana- og stóriðjuflokkunum er litið svo á að í rammaáætlun verði að vera lágmarksfjöldi virkjanakosta, sem fari í svokallaðan nýtingarflokk, sem er fyrirfram skekkjandi heiti, vegna þess að með því er látið sem svo að nýting geti ekki verið fólgin í verndun.
Virkjanaflokkarnir tveir ættu að heita orkunýtingarflokkur og verndarnýtingarflokkur, eða þá virkjanaflokkur og verndunarflokkur.
En þetta er rangt upplegg, því að virkjanmenn hafa þegar fengið að reisa 30 stórar virkjanir og velja það besta fyrir sig út.
Öll orka landsins ætti að vera í upprunalegum potti, þar með taldar þær virkjanir, sem komnar eru.
Ef jafnræði ætti að vera, ætti næsta skref að vera það að náttúruverndarfólk velji jafn marga stóra virkjanakosti úr pottinum og taki þá frá á móti virkjununum, sem komnar eru, og að síðan yrði afganginum skipt og taldar með í honum allar smávirkjanirnar, sem hrúgast nú inn á sviðið.
Hin svokallað "sátt", sem virkjanamenn tala sífellt um, byggist á röngum forsendum, - það er vitlaust gefið.
Þetta er undirliggjandi ástæða þess að þrefað er um umhverfismál og rammaáætlun.
![]() |
Formennirnir funda áfram í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.11.2017 | 23:41
Helgistaður tvennra trúarbragða.
Helgistaðir fleiri trúarbragða en einna eru þekktir víða um lönd. Jerúsalem er eitt þekktasta dæmið.
En á Íslandi og það meira að segja inni í miðri Reykjavík er slíkt að finna.
Fróðir menn telja líklegt að þegar Ingólfur Arnarson lét heimilisguði sína, öndvegissúlurnar, fljóta upp í fjöru í Reykjavík, hafi þær verið bornar þaðan inn að væntanlegu bæjarstæði og þar farið fram sérstök helgi- og fórnarathöfn þar sem vígður var friður við landvættina.
Þegar Ingólfur frétti af drápi Hjörleifs, fóstbróður síns, túlkaði hann þann atburð þannig að þannig færi fyrir trúlausum.
Með því átti hann við það að Hjörleifur hefði goldið það dýru verði að semja ekki frið við landvættina likt og gert var í Reykjavík.
Vel má hugsa sér að einu sinni á ári, til dæmis sem liður í Menningarnótt, fari fram athöfn í Víkurgarði til að minnast landnámsins og helgiathafnarinnar vegna þess.
Bera eftirlíkingar af öndvegissúlunum frá hafnarbakkanum til Víkurgarðs og hafa þær í miðju athafnarinnar.
Hugsanlega hefur verið heiðinn hörgur þar sem síðar varð kirkjugarður Reykvíkinga fram á 19. öld.
Fyrir um 40 árum urðu tímamót með stofnun Torfusamtakanna, sem tókst að bjarga Bernhöftstorfunni frá eyðileggingu, og Varðmenn Víkurgarðsins eru í svipuðum leiðangri.
Með tilvísan til Torfusamtakanna mætti kalla Varðmenn Víkurgarðsins Grænutorfu samtökin ( samanber orðtakið að vera kominn undir græna torfu) og áhugafólk um björgun garðsins fylltu safnaðarheimili Neskirkju síðdegis í dag til að stilla saman strengi sína til að semja ályktun eða áskorun um að þyrma elsta þekkta helgistað þjóðarinnar, tvennra trúarbragða griðastað.
Farið var yfir óyggjandi gögn um það, hver spjöll á sögu- og menningarminjum ætti að fara vinna með því að reisa enn eitt hótelið á hinum helga reit, sem þar að auki mun raska stórlega ásýnd og yfirbragði þessa svæðis, þrengja að Alþingishúsinu og koma í veg fyrir að Víkurgarður og Austurvöllur geti myndað grænt griðasvæði i hjarta höfuðstaðarins.
Umsögn skipulagsfulltrúa er gott dæmi um það hvernig ákafir fylgjendur hótelbyggingarinnar eru í ´mótsögn svið sjálfa sig, jafnvel í sömu álitsgerðinni, eins og sýnt er hér við hliðina.
![]() |
Framkvæmdir stangist á við lög |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 22.11.2017 kl. 14:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.11.2017 | 19:26
"Allir ganga með ráðaherra í maganum, nema gítaristinn."
Þór Whitehead lýsti skemmtilega í grein í Morgunblaðinu þeirri sérkennilegu en mannlegu stöðu í stjórnarmyndunum, að einn helsti vandinn við að koma láta svonefndan "ráðherrakapal" ganga upp hverju sinni, sé að koma nógu mörgum þingmönnum í ráðherrastóla.
En það geti haft sérkennilegar afleiðingar, svo sem þæe, að með því að Sjálfstæðismenn láti forsætisráðherraembættið eftir, geti opnast möguleikar fyrir allt að tveimur fleiri þingmönnum flokksins í ríkisstjórn en ella.
Þetta hafi til dæmis gerst 1983 og þá hafi þingmönnunum, sem komust í stóla, fundist ágætt að formaðurinn yrði ekki of valdamikill en þeir sjálfir að sama skapi áhrifameiri.
Þess vegna hafi þingflokkurinn tekið þessa ákvörðun.
Í "ráðherrakaplinum eftir kosningar síðar, var haft á orði, að "allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins gengju með ráðherra í maganum nema gítaristinn."
Var þar átt við Árna Johnsen.
Raunar voru þá til embætti sem gátu verið allt að því ígildi ráðherraembættis.
Árni varð síðar formaður fjárveitinganefndar, sem er afar mikilvægt og valdamikið embætti, og Stefán Valgeirsson var gerður að stjórnarformanni í Byggðastofnun sem þá var fyrirferðarmikil stofnun í ríkisapparatinu.
![]() |
Segir sjálfstæðismenn í vandræðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.11.2017 | 10:07
Hvaða starfsemi í Gufunesi? Hvað um Hellisheiðarvirkjun?
Reykjavík fékk umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir nokkrum misserum ef ég man rétt.
Borgin lagði fram margvísleg sannfærandi gögn um þetta sem tekin voru góð og gild, enda vafalaust öll pottþétt.
Eða hvað? Hvað um loftgæði? Hvað um sjálfbæra nýtingu? Voru öll gögn send?
Mágkona mín sem á heima í Bolungarvík hefur minnst á það oftar en einu sinni þegar hún kemur í heimsókn að vestan, að þegar hún komi í heimsókn til ættingja og vina fyrir sunnan furði hún sig á þeirri ólykt sem hún finni leggja yfir borgina.
Við hin, sem búum hér að staðaldri, komum af fjöllum. Loftgæði?
Við erum orðin þessu svo vön að við finnum það ekki. En hún býr á stað, þar sem loftgæði eru það góð, að hún finnur strax "fnyk" þegar hún kemur til Reykjavíkur.
Er Ísland ekki auglýst sem land bestu loftgæða á byggðu bóli?
Þó er ekki lengra síðan en í gær að greint var frá því að svifryk hefði farið yfir heilsuverndarmörk í borginni.
Og í dag er kvartað undan fnyk í Grafarvogshverfi.
Hvaða gögn um loftgæði voru send til dómnefndar Norðurlandaráðs? Öll? Takmörkuð og "sérvalin"? Engin?
Í hvaða vindátt berst "fnykurinn" yfir Grafarvogshverfið? Hvaða fyrirtæki eru í Gufunes?
Það var upplýst í upphafi um mengunarvaldinn í Helguvík, kísilmálmverksmiðjuna.
Uppi á Hellisheiði stendur yfir lofsverð niðurdæling á brennisteinsvetni, sem annars berst með vindi yfir Reykjavík í algengustu vindáttinni, austanáttinni.
En er öllu eitrinu dælt niður? Ef ekki, hve miklum hluta þess?
Hvað sýna mælingar á þessari lofttegund í Reykjavík? Hvað um mælingar í austustu hverfum borgarinnar?
Áður en niðurdælingin hófst gat eitrið´farið yfir heilsuverndarmörk við Lækjarbotna og Gunnarshólma.
Hvað segja mælingar nú?
Reikna má með því að meðal gagna sem réðu úrslitum um veiting norrænu verðlaunanna hafi verið nýting jarðvarma til upphitunar í staðinn fyrir brennslu jarðefnaeldsneytis.
En hvað um sjálfbæra þróun, sjálfbæra nýtingu?
Voru sendar upplýsingar um stórfelldustu rányrkju á einum stað á Íslandi, Nesjavalla-Hellisheiðarsvæðinu?
Opnun Þeistareykjavirkjunar hefur óbeint leitt fram hið sanna í því máli, því að í stað þess að reisa þar 300 megavatta virkjun eins og er á Hellisheiði, sem hefði verið hægt að sögn forstjórans, var látið nægja að hún yrði aðeins 90 megavött til þess að geta fylgst með því næstu áratugina hvort nýtingin sé "ágeng" eða ekki.
Það rímar ágætlega við kenningar Guðmundar Pálmasonar, Ólafs Flóvenz og Guðna Axelssonar um viðleitni til öruggrar og sjálfbærrar nýtingar.
Þegar norrænu umhverfisverðlaunin voru veitt nagaði mig efinn um verðleika borgarinnar.
Sá efi var um forsendurnar fyrir veitingunni en mig skorti gögn um þær og var því ekki með "leiðinda nöldur" á gleðistundu.
Þó var vitað um það sem hefur verið rakið hér að ofan að frátöldu hinu nýja máli í Grafarvogshverfi, sem nú bætist við.
![]() |
Gjörsamlega ólíðandi fnykur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)