Færsluflokkur: Bloggar
21.11.2017 | 01:03
Verður hægt að snúa "hinu svokallaða hruni" endanlega á hvolf?
Fyrst eftir hrun voru menn að jafna sig á áfallinu sem fylgdi því að standa frammi fyrir þúsunda milljarða króna tapi og auk þess hundraða milljarða króna halla á á ári á rekstri ríkissjóðs.
Ríkisstjórn Geirs H. Haarde stóð í ströngu á mörgum vígstöðvum, fékk meðal annars neyðarlög samþykkt, veitti tugum milljarða króna í að reyna að bjarga bönkunum og gerði byrjunarsamkomulag vegna Icesave.
Stjórnin féll og minnihlutastjórn Jöhönnu Sigurðardóttur tók við sem varð að meirihlutastjórn eftir kosningar um vorið.
Þá líktu flestir viðfangsefnum hennar við rústabjörgun.
En þegar frá leið fóru þeir að reyna að ná vopnum sínum að nýju og snúa vörn í sókn, sem höfðu fóðrað eldsmat hrunsins með einkavinavæðingu bankanna, óðaframkvæmdum í stóriðju- og virkjanamálum, uppspenntu hágengi krónunnar með tilheyrandi neysluæði og lánasprengingu auk þess að laða erlenda fjárfesta til þess með háum vöxtum að búa til svonefnda "snjóhengju" erlendra innistæðna á Íslandi.
Eftir því sem lengra hefur liðið frá hruninu hefur þessi endurskrifaða saga komist æ lengra í því að snúa hruninu á hvolf.
Liður í því hefur meðal annars verið það að gera sem minnst úr því sem nú var kallað "hið svokallaða hrun."
Smám saman eru nýjustu fullyrðingarnar orðnar þannig, að það hafi ekki orðið neitt hrun og ef það var eitthvað, var það vinstri stjórnin 2009-2013 sem var aðal skaðvaldur síðari áratuga í íslenskum efnahagsmálum.
Í vændum er skýrsla um "erlenda áhrifaþætti bankahrunsins" sem mun líklega gera erlenda banka að hinum seku.
Afgangurinn af sektinni verði síðan skrifaður á vinstri stjórnina, því að nú sést því líka haldið fram að ríkissjóður Íslands hafi verið nær skuldlaus haustið 2008, að það hafi verið ríkisstjórn Jóhönnu sem sé sökudólgurinn og þó sérstaklega Steingrímur J. Sigfússon sem stóð blóðugur upp fyrir axlir daga og nætur við sín björgunarstörf.
En nú er flestu sem hann gerði snúið á þann veg að hann hafi brotið svo stórlega af sér við að gera sem mest illt af sér og verða með því aðalvaldurinn að hruninu, sem kom ekki 2008, heldur frá og með 2009, að sækja eigi hann til saka og setja í fangelsi.
Það nýjasta sem ég hef séð er, að lán Seðlabankans í októberbyrjun 2008, hefði aldrei þurft að kosta okkur 35 milljarða króna, enda þótt Seðlabankastjórinn segði í frægu símtali við forsætisráðherra að þessir peningar væru að öllum líkindum tapaðir, heldur hefði Steingrímur af einstæðum illvilja í garð Davíðs beinlínis gendið fram í því að að láta 35 milljarðana tapast!
Endurskrift sögunnar er á góðri leið með að snúa öllu á hvolf: Hrunið var ekkert hrun. Rústabjörgunarstjórn Jóhönnu var brennuvargastjórn en stjórnir Sjalla og Framsóknar í 12 ár frá 1995 til 2007 voru allar með gæðastimpilinn "traust efnahagsstjórn" eins og flaggað var á kosningaskiltum Sjallanna 2007.
![]() |
Tvær hrunskýrslur í janúar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
20.11.2017 | 20:10
Alþjóðaflugleið skammt frá. FRÚin úr sögunni síðustu árin.
Það er ekki tilviljun að flugstjóri í millilandaflugi tók fyrstu myndina þar sem nýi sigketillinn uppi á Öræfajökli sást.
Í langflestum tilfellum þegar flogið er á flugleiðum milli Kaflavíkurflugvallar og flugvalla í norðar er flogið yfir flugleiðsöguvita á Ingólfshöfða.
Þess ber að geta að Öræfajökull er ekki eina eldfjallið á Íslandi, sem gusthlaup gæti komið úr.
Hættan á slíku er til dæmis líka fyrir hendi við Snæfellsjökul og Heklu, en hins vegar er afar ólíklegt að fyrrnefnda fjallið gjósi.
Þess má geta, að í gær flaug ég ekki á TF-FRÚ yfir Öræfajökul eins og sagt er á texta undir myndinni á tengdri frétt á mbl.is, heldur á TF-JEG, sem er af sömu gerð og FRÚin, en ekki í minni eigu.
Haustið 2014 gafst ég upp á að reka TF-FRÚ vegna mikils og hraðvaxandi rekstrarkostnaðar síðustu árin, sex milljónir króna á aðeins fjórum árum bara í ársskoðanir, burtséð frá því hvort hún flygi.
Og samt var flugvélin óflughæf í lengri tíma á milli ársskoðana á þessum árum en hún var með gilt lofthæfisskírteini.
Þætti það sæmilegur kostnaður vegna bílaskoðana ef árlegar skoðanir kostuðu slíkt burtséð frá því hvort bílunum væri ekið eða ekki.
En síðustu fjögur ár FRÚarinnar voru góð, þegar hún var mestallan tímann á túni í Vestari-Garðsauka við Hvolsvöll, og ég þar langdvölum í minnstu bílum landsins, til taks fyrir myndatökur vegna eldgosanna þriggja á þeim tíma og vegna annarra myndatökuverkefna minna.
![]() |
Gjóskuflóð færu hratt niður hlíðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.11.2017 | 13:44
Minnir um sumt á stjórnarmyndunina 1950.
Þriggja flokka ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar sprakk snemma árs 1949. Ástæðan lá í efnahagsmálum og skattamálum, meðal annars í því hvort ætti að fella gengi íslensku krónunnar.
Ólafur Thors myndaði minnihlutastjórn, sem vildi fella gengið, en þá var samþykkt vantraust á stjórnina og haldnar kosningar í október.
Í kosningunum setti Framsóknarflokkurinn fram býsna róttæk stefnumið, og í Reykjavík gerðust þau undur og stórmerki að flokkurinn fékk í fyrsta skipti í sögu sinni þingmann þar, en þá voru Reykjavíkurþingmenn sex.
Rannveig Þorsteinsdóttir náði kosningu undir kjörorðinu "að segja fjárplógsstarfseminni stríð á hendur," hvorki meira né minna.
Nú tók við einhver lengsta, ef ekki lengsta stjórnarkreppa sögunnar.
Sveinn Björnsson sá í hendi sér að vegna djúpstæðs ágreinings um utanríkismál, sem sprengdi Nýsköpunarsjórn Ólafs Thors 1946, yrði ómögulegt að mynda meirihlutastjórn nema að stóru turnarir, Sjallar og Framsókn, slíðruðu sverðin og mynduðu stjórn.
Í það fóru margar vikur, meðal annars vegna ágreinings um gengismálin og skattamálin.
Þar að auki voru formenn flokkanna svo persónulega ósáttir frá 1942 vegna svonefnds "eiðrofsmáls", að hvorugur gat myndað stjórn undir forsæti hins.
Loksins, á síðustu stundu undir hótun forseta að mynda annars utanþingsstjórn tókst að mynda stjórn, sem margir hafa síðar kallað "helmingaskiptastjórnina".
Sjálfstæðismennn beygðu sig fyrir kröfu Framsóknarmanna um stóreignaskatt en á móti gáfu Framsóknarmenn eftir í gengismálunum með því að setja á laggirnar fyrirkomulag með margföldu gengi, svonefnt Bátagjaldeyrisfyrirkomulag til að "bjarga sjávarútveginum."
Á síðasta valdaári stjórnarinnar var búið til sérstakt gengi til þess að liðka fyrir óhjákvæmilegri endurnýjun bílaflotans, en bílainnflutningur hafði þá í að mestu stöðvast í átta ár, og má geta þess, að svipað fyrirkomulag var þá í Danmörku; dollarinn á miklu hærra verði en ella í frjálsum bílakaupum.
Vandamálið með flokksformennina var leyst með því að Steingrími Steinþórssyni alþingismanni úr Framsóknarflokknum, var falið að ljúka stjórnarmynduninni og gegna embætti forsætisráðherra.
Hann var úr minni stjórnarflokknum, sem var meira til vinstri en hinn, og samsvaraði að því leyti til Katrínu Jakobsdóttur, að forsætisráðherrann kæmi vinstra megin frá frá smærri flokknum, en ekki úr Sjálfstæðisflokknum.
Þrátt fyrir að vandamálin 1950 væru miklu meira aðkallandi og brýnni en nú, tók þetta svona langan tíma.
Og þá, eins og nú, voru skattamálin og efnahagsumhverfið einna snúnust viðfangs.
Til að finna lausn í þeim þurfti drjúgan tíma til að búa til kerfi, sem báðir aðilar gætu sætt sig við.
Það ætti því ekki að koma á óvart að það muni taka tíma að finna samkomulagsgrundvöll núna.
![]() |
Ætluðum að vera komin lengra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2017 | 00:44
Hvor Framsóknarflokkurinn er betri í að "vinsa það besta úr"?
Framsóknarflokkarnir á Íslandi eru minnsta kosti tveir en þó líklega fleiri flokkar sem hafa innanborðs menn sem eru "Guðjón inn við beinið."
Bæði Sigurður Ingi Jóhannsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafa sagt það, að það sé aðall Framsóknarmanna, að skoða sem best allar mögulega kosti og fá hægri, vinstri og miðjumenn til samstarfs.
Hann segir að Framsóknarmenn séu allra stjórnmálamanna vanastir að vinna sitt á hvað til hægri og vinstri.
Í gamla daga var talað um að "Framsókn væri opin í báða enda."
Sigmundur Davíð hefur lýst því sem einum helsta kosti Miðflokksins að hann geti sem miðjuflokkur laðað til sín flokk úr öllum áttum til að sameinast um stór verkefni.
Spurningin er því hvor Framsóknarflokkurinn sé líklegri til að ná árangri í því að vera límið í ríkisstjórn eftir að hafa "vinsað það besta úr til hægri og vinstri."
Meðan ekkert liggur enn fyrir um það hvers konar stjórnarsáttmála Sjallar, Framsókn og Vg sjóða saman, er erfitt að segja nokkuð um málið.
Og jafnvel þótt það myndi liggja fyrir hvernig sáttmálinn væri eða á hverju strandaði ef það verður niðurstaðan, er ekki síður erfitt að giska á hvort og þá hvernig Miðflokkurinn hefði náð betri árangri við myndun ríkisstjórnar.
![]() |
Mynda samsæri gegn kjósendum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.11.2017 | 18:16
Reynslan í vestursýslunni plús mikið meira.
Eyjafjallajökull var "fjallið mitt" þegar ég var fimm ára í sveit á vesturbakka Þjórsár og sýndist þetta tignarlega eldfjall standa á bakkanum handan við ána.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér á leið austur að Öræfajökli í dag.
Hvílík tign og fegurð, sú sem hæst nær á Íslandi!
En nú er komið upp svipað ástand og var þegar Eyjafjallajökull byrjaði að rumska við sér 1999 og farið var í það að gera viðbragðsáætlanir.
Menn bjuggu að vísu að gerð viðbragðsáætlana vegna Kötlugoss, sem fyrst var byrjað að föndra við tveimur áratugum fyrr, en það sem gerast kann við gos í Kötlu er margfalt stærra og flóknara.
Nú hefur Öræfajökull byrjað að rumska við sér og enn þarf að drífa í gerð viðbragðsáætlunar og nú nægir ekki að kópíera áætlanirnar í vestursýslunni, heldur að bæta við í samræmi við stærð fjallsins og þess hættulega eðlis, sem það lumar á, og olli mannskaða og eyðingu blómlegs héraðs 1362.
Á efstu myndinni er horft yfir til þessa mikla eldfjallsl yfir Skeiðarársand, en Lómagnúpur er vinstra megin á myndinni.
Á næstu mynd fyrir neðan er horft yfir öskjuna efst á fjallinu í átt til Hvannadalshnjúks, og sést móta vel nær okkur fyrir hringnum utan um nýja sigketilinn, að hluta til bogadregnar sprungur.
Á neðstu myndinni er horft til suðurs og ef "súmmað er inn á hægri hluta sigketilsins sést að þar er flugél sem Ragnar Axelsson flýgur með Tómas Guðbjartsson sem farþega.
Í fréttatíma Sjónvarpsins klukkan 19:00 stendur til að sýna nýjar myndir af Öræfajökli, sem teknar voru í dag.
![]() |
Gerð rýmingaráætlana í Öræfum flýtt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.11.2017 | 22:56
Verður stysta fréttin 26. nóv 2004 sú stærsta á þessari öld?
Hinn 26. nóvember 2004 var stysta fréttin í sjónvarpsfréttum kvöldins innan við mínúta eða réttara sagt aðeins 46 sekúndur, og lét ekki mikið yfir sér. Titill hennar var "Tíðari gos."
Tilefni hennar var upphaflega það, að nokkrum árum fyrr hafði ég heyrt Guðmund heitinn Sigvaldason greina frá því að þegar ísaldarjökullinn bráðnaði fyrir 11 þúsund árum hefði landið sem var undir honum lyfst svo mikið við að ísaldarfargið fór af því, að eldgosum á svæðinu, sem nú er norðan Vatnajökuls, fjölgaði margfaldlega, og tíðnin orðið allt að þrítugföld þegar mest var.
Þess vegna væri þarna stærsta hraunbreiða landsins, Ódáðahraun, og fjölbreyttasta og magnaðasta eldfjallasvæði heims.
Þegar haldin var ráðstefna um Grímsvatnagos í Öskju þennan nóvemberdag 2004 frétti ég af því að Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur myndi fjalla um það hvaða áhrif bráðnun íslensku jöklanna, einkum Vatnajökuls, myndi hafa á eldgosatíðni á Íslandi.
Vatnajökull er nefnilega það sem eftir er af ísaldarjöklinum stóra.
Ég fór vestur eftir og varð ekki fyrir vonbrigðum, en fyrirlestur Freysteins fjallaði einmitt um það hvað hvarf langstærsta jökulsins, sem þar að auki væri með miðju eldvirkninnar undir sér, hefði að segja fyrir eldvirknina.
Fréttatíminn var mjög ásetinn á þessum árum af fréttum af miklum hræringum í íslensku viðskipta- og efnahagslífi, svo að í fyrstu reyndist ekki rými fyrir þessa frétt í fyrstu.
En loks var fallist á það að hún gæti flotið með, ef hún yrði rúmlega hálf mínúta á lengd.
Nú þegar má sjá merki um að þessi spá sé að byrja að rætast. Frá 1996 til 2017 hafa orðið gos árin 1995 (við Hamarinn) 1996, 1998, 2000, 2004, 2010, 2011 og 2014, alls átta gos á 21 ári, eða fjögur gos á áratug. Þetta er næstum tvöfalt tíðara en hefur verið að meðaltali á öld á sögulegum tíma.
Þessa dagana minna Hekla, Katla og Grímsvötn á sig, en í hópinn hafa bæst tvö stærstu eldfjöll landsins, Bárðarbunga og Öræfajökull, bæði á áhrifasvæði Vatnajökuls.
(Hekla minnir stanslaust á sig með því að hafa þanist meira út en hún hafði gert fyrir gosið 2000)
Auðvitað gæti þetta verið tilviljun, en ef ekki, og eldgos á 21. öldinni verða miklu fleiri en áður hefur þekkst, og fréttagildi og áhrif hvers goss innan lands og utan yrðu lögð saman, gæti eldgosatíðnin orðið ein stærsta frétt aldarinnar.
Stefni að því að setja fréttina inn á facebook síðu mína.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
18.11.2017 | 17:30
Katla minnir líka á sig.
Sum Kötlugos og hamfarahlaup úr Kötlu hafa verið þannig á forsögulegum tíma að valda myndi stórfelldum vandræðum og tjóni á okkar dögum.
Þar er ekki aðeins um að ræða hættuna á hrikalegu hamfaraflóði niður Markarfljót og alla leið út í Hólsá um Landeyjar, heldur hefur eldfjallið fyrrum sent frá sér gríðarlegt öskufall.
Katla, Bárðarbunga, Grímsvatnasvæðið og Öræfajökull búa yfir sérstakri hættu vegna íshellunnar sem liggur ofan á eldstöðvunum. r
Það er hrollvekjandi að horfa ofan í sigkatla þessara eldfjalla, og mun ég setja inn myndir af slíkum fyrirbærum við Kötlu og Bárðarbungu.
Ef gosið brýst upp í gegnum íshelluna verður úr því gríðarlegt öskugos, sem getur ógnað flugsamgöngum um allan heim auk annarra búsifja og tjóns.
![]() |
Rafleiðni í Múlakvísl eykst áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.11.2017 | 10:43
Fátt í boði til bjargar.
Þegar að rykið hafði að mestu sest eftir bankahrunið 2008 kom í ljós við rannsókn nokkrum árum síðar að það hafði verið hrein hundaheppni að íslenska bankakerfið hryndi ekki þegar síðla árs 2006, tveimur árum fyrr.
En eftir á að hyggja var þessi "hundaheppni" kannski ekki það besta sem þá gat komið fyrir, því að á þessum tveimur árum sem liðu milli 2006 og 2008 hafði bankakerfið blásið svo út og sömuleiðis "snjóhengjan", innistæður útlendinga á Íslandi, að hið endanlega og óhjákvæmilega hrun 2008 varð miklu, miklu stærra, þrátt fyrir kosningaslagorðin 2007 um "trausta efnahagsstjórn."
Og það tók hátt í átta ár að losna við "snjóhengjuna".
Í stöðunni sem var uppi, þegar símtalið fræga var hljóðritað án þess að forsætisráðherrann vissi það, var í meginatriðum um tvennt að ræða: Að gera eitthvað, þótt svigrúmið væri þröngt, eða láta bankakerfið bara gossa.
Eftir á að hyggja reyndist munurinn aðeins vera tveir dagar og tapið vegna neyðarhjálparinnar varð 35 milljarðar.
En það verður að líta á það sem gert var í ljósi þeirrar stöðu og þeirrar óvissu sem þá blasti við.
Því að frammi fyrir óförum með of litlar upplýsingar, verða örvæntingarfull ráð oft fyrir valinu, ef á annað borð eitthvað er í boði.
Því að úr því að menn sluppu með skrekkinn 2006 var kannski ekki útilokað að einhverju væri hægt að bjarga 2008.
Það var enn í boði að gera eitthvað.
Ef ekkert yrði gert og í ljós kæmi eftir á, að einhverjar aðgerðir hefðu orðið betri en engar, var ekki óhugsandi að hægt yrði að saka menn um að hafa vanrækt að grípa til einhverra ráða.
Í ljós kom eftirá að staðan hafði því miður ekki verið þannig að neitt annað hefði verið hægt að gera en þó það að setja neyðarlögin, en sú aðgerð átti eftir að reynast sérlega vel úr garði gerð og hún lagði grunninn að því hvernig hægt var að vinna sig út úr hruninu.
Á einum stað í símtalinu er talað um aðgerðaleysi érlendra stofnana, þær "gerðu ekki neitt" segir Seðlabankastjóri.
Það rímar ekki alveg við það að Seðlabanki Bretlands hafði fyrr á árinu boðið Seðlabanka Íslands aðstoð sem ekki var þegin.
Hvort sú aðstoð hefði breytt einhverju er hins vegar óvíst, svo alvarleg var staðan þegar orðin þá og hafði í raun verið það alveg í feigðarsiglingunni frá 2006.
Íslenska bankakerfið og þar með fjármálakerfið hafði siglt sofandi að feigðarósi og hin "tæra snilld" Icesave gerði málið á endanum miklu stærra og verra viðfangs.
![]() |
Ræddu örlög bankakerfisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
18.11.2017 | 00:00
Tvö hæstu eldfjöll Íslands í umbrotaham í einu?
Í septemberbyrjun var hægt að sjá í fyrsta sinn lóðrétt í gegnum íshettu Bárðarbungu niður í jarðhitasvæði undir jöklinum. Set ljósmyndir af því sæði hér fyrir neðan myndina af Öræfajökli, sem birt er í tengdri frétt á mbl.is.
Nú hefur sést nýr sigketill uppi á Öræfajökldi og er þvermál hans um einn kílómetri, eða þrefalt meira en stærri ketilsins á Bárðarbungu.
Ekki sést þó niður í gegnum ísinn á Öræfajökli eins og á Bárðarbungu.
Bárðarbunga og Öræfajökull eru tvö hæstu fjöll / eldfjöll landsins og stærð þeirra og hæð gefur til kynna mikilleik þeirra á alla lund.
Það yrði saga til næsta bæjar ef tvö stærstu eldfjöll landsins gysu á svipuðum tíma.
Eins og bent hefur verið á á þessari síðu áður, er Öræfajökull líklega hættulegasta eldfjall landsins vegna stærðar þeirra eldgosa, sem geta orðið í þessari höll elds og ísa, en þó enn frekar vegna nálægðar þess við vaxandi byggð við rætur þess.
Ef svo ólíklega vildi til að Snæfellsjökull rumskaði við sér gæti hann líka orðið afar hættulegur vegna nálægðar við byggð.
Sívaxandi umferð ferðafólks er í nágrenni Heklu og færðar hafa verið líkur að því að hún gæti skipt um fasa og tæst í sundur í miklu sprengigosi.
Bárðarbunga er að þessu leyti á einhverjum heppilegasta stað sem hugsast getur, en af þeim sökum er lítið vitað um afl hennar.
Um það eru engin dæmi frá sögulegum tíma, að stærstu eldfjallarisarnir, Öræfajökull og Bárðarbunga, gysu á svipuðum tíma, en frá hvorugu fjallinu eru til neinar mælingar frá fyrri gosum, nema frá gosinu í Holuhrauni í fyrra sem var í raun Bárðarbungugos.
Á neðstu myndinni á síðunni er horft út lofti úr vestri yfir Lómagnúp og Skeiðarársands í átt til Öræfajökuls.
![]() |
Nýr ketill hefur myndast í Öræfajökli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.11.2017 | 16:05
Hver verður fyrst, Hekla, Grímsvötn, Bárðarbunga, Öræfajökull eða Katla?
Minnsta kosti fimm eldstöðvum á Íslandi sem taldar eru upp hér að ofan er "að verða mál" og gæti til dæmis Hekla gosið hvenær sem er með aðeins klukkustundar fyrirvara að dómi vísindamanna.
Grímsvötn eru virkasta eldfjall Íslands, gusu 1998, 2004 og 2011 og klukkan tifar.
Bárðarbunga virðist vera í undirbúningsfasa undir næsta gos á eftir Holuhraunsgosinu og vaxandi jarðhiti er farinn að brjóta bráðnunarvatni farveg í gusum undir Dyngjujökul.
1999 til 2010 bættist Eyjafjallajökull í hóp eldfjalla í ham, en yfirleitt hefur verið langt á milli eldgosa í því fjalli svo að honum er "ekki mál" að því er virðist.
Og nú minnir aukin leiðni í Múlakvísl á einhvern lengsta óvissu- og meðgöngutíma eldfjalls hér á landi, þar sem er Katla.
Hugsanlega varð smágos í henni 1955 sem setti mikið hlaup í Múakvísl og hefur kannski lengt biðtímann eftir henni eitthvað.
En á næsta ári verður öld frá Kötlugosinu 1918 og sú gamla gæti alveg tekið upp á því að stela "sjóinu" frá öllum hinum eldfjölunum og aldarafmæli fullveldisins og frostavetrarins mikla 1918 með því að gjósa hressilega og hrella miklu fleiri en 1918 þegar engin flugvél hafði enn flogið á Íslandi.
![]() |
Lyktin finnst enn við Öræfajökul |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)