Færsluflokkur: Bloggar
17.11.2017 | 08:55
Táknræn ljósmynd?
Náttúrufræðingar hljóta að vera mikilvægur þjóðfélagshópur í landi, þar sem ósnortin og einstæð náttúra er helsta aðdráttaraflið fyrir 80% af þeim rúmum tveimur milljónum ferðamanna, sem koma árlega til landsins og eru orðnir helstu burðarásar efnahagsuppsveiflunnar hér.
Myndin, sem fylgir fréttinni er táknræn fyrir ástand mála varðandi þetta mesta verðmæti Íslands, náttúruna, og búið er að setja fram alls á annað hundrað fyrirætlanir um virkjanir um allt land, hálendið meðtalið.
Landslaginu, sem sést á myndinni hefur nefnilega verið tortímt og er nú að sökkva hratt en örugglega í aur og drullu í hinu 57 ferkílómetra Hálslóni sem myndað var til að þjóna Kárahnjúkavirkjun og gefa erlendum eigendum álvers á Reyðarfirði tekjuskattlausan milljarða arð á hverju ári.
Stefni að því að setja hér inn þrjár aðrar myndir teknar frá sama sjónarhorni og mynd RAX var tekin, en aðeins innar í dalnum.
Önnur er loftmynd eftir að landinu var tortímt, þar sem horft er yfir aðeins víðara sjónsvið við aðstæður, sem þarna ríkja á mestu góðviðrisdögunum fyrri part sumars er hlýr sunan hnjúkaþeyr stendur af Vatnajökli í bjartviðrinu.
Hinar mynirnar eru annars vegar mynd af bátnum Örkinni niðri við gljúfrið, áður en dalnum var sökkt, sem nú er sokkið í aurinn, en báturinn hafði verið fluttur þangað á snjó í apríl.
Hin er tekin á svipuðum slóðum um vorið áður en dalnum var sökkt.
Því miður hefur drjúgur hluti starfa náttúrufræðinga farið í að skoða náttúruna vegna mats á umhverfisáhrifum virkjana, þar sem náttúrperlum er fórnað fyrir stóriðjuna.
Þeir hafa oft verið undir mikilli pressu frá fjársterkum virkjanaaðilum og valdaöflum, sem krefjast "réttra" niðurstaða.
Ef ekki má eiga von á brottrekstri, samanber það þegar Ragnhildur Sigurðardóttir var rekin í úr starfi sínu við rannsóknir á Þjórsárverasvæðinu hér um árið fyrir það að hafa ekki skilað að öllu leyti niðurstöðum, sem voru ráðamönnum Landsvirkjunar þóknanlegar.
Sá brottrekstur hafði fælingaráhrif varðandi það hvað biði íslenskra náttúrufræðinga ef þeir mökkuðu ekki rétt.
Neðsta myndin er tekin aðeins innar í dalnum sumarið 2006, við Stapana og Rauðagljúfur fyrir drekkingu dalsins
![]() |
Viðræðurnar að mjakast af stað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2017 | 00:33
Svipað stjórnarskrármál og hjá Framsókn 1931 til 1959.
Á tímabilinu 1931 til 1959 sátu alls 13 ríkisstjórnir í landinu. Allan þennan tíma hafði Framsóknarflokkurinn sérstöðu varðandi það að hafa miklu meiri þingstyrk en nam atkvæðamagni flokksins. Á tímabili var flokkurinn með meirihluta þingmanna út á aðeins tæplega 30 prósent atkvæða.
Kjördæmaskipanin var í stjórnarskránni og fyrir bragðið dróst í 18 ár að koma á umbótunum á stjórnarskránni, sem loks voru gerðar 1959.
Sjálfstæðisflokkurinn hafði líka mun fleiri þingmenn en nam atkvæðastyrk og var nálægt því að ná þingmeirihluta 1953 út á 37 prósent atkvæða.
Og með því að spila á kjördæma- og kosningakerfið ætluðu Framsókn og kratar að ná meirihluta þingmanna í kosningunum 1956 út á rúmlega 35 prósent atkvæða.
Framsókn sat í 9 af þeim 13 ríkisstjórnum sem voru í landinu 1931 til 1959 og barðist allan tímann hatrammlega gegn leiðréttingu á misréttinu og hafði sitt fram.
Saga síðustu níu ára sýnir að Framsókn og þó einkum Sjallar eru í svipaðri aðstöðu núna gagnvart nýrri stjórnarskrá, gerðri af Íslendingum fyrir Íslendinga, og Framsókn var gagnvart kjördæmaákvæðum stjórnaskrárinnar 1931 til 1959.
Þessir flokkar beita öllum hugsanlegum ráðum til að koma í veg fyrir nokkrar breytingar og búast má við að þeir geri það áfram.
Aldrei er minnst á stjórnarskrármálið í fréttum af stjórnarmyndunninni núna, enda ráða Sjallar og Framarar för og Vg hafði fyrirfram ekki sett málið á oddinn í kosningunum.
Þetta er ömurlegt, ekki síður en árin, sem Seyðfirðingar fengu eitt sinn tvo þingmenn.
![]() |
Færðumst of mikið í fang |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.11.2017 | 16:57
Merkilegt framtak Ingva Hrafns Jónssonar og eftirsjá að ÍNN og CNN.
Fréttin af því að útsendingum ÍNN verði hætt í kvöld kemur bæði á óvart og ekki á óvart.
Það kemur á óvart hvað það gerist undra snöggt að tilkynnt er um endalokin samdægurs, en hitt kemur ekki á óvart
Ljóst var fyrir nokkrum árum að rekstur stöðvarinnar bæri sig ekki og á þeim tíma og á þeim tíma grunar mig að Ingvi Hrafn Jónsson hefði átt að taka tilboði sem hann fékk í stöðina.
En hann kaus að halda áfram og það er afar skiljanlegt, því að stofnun og rekstur þessa merkilega fjölmiðils var mikil hugsjón hjá honum.
Það merkilegasta við ÍNN var hve frjálslega og opið var boðið upp á það fyrir áhugafólk að láta til sín taka beint með þáttagerð þar og sýningar.
ÍNN markar sennilega að þessu leyti upphaf og hugsanlega endi ákveðins tímabils í íslenskri fjölmiðlun, sem eftirsjá er að.
Nú hefur stóraukinn og að stórum hluta nýr og fjölbreyttur vettvangur framboðs af fjölmiðlaefni á netinu drepið ÍNN og einnig CNN að því er nýjustu fréttir herma.
CNN var erlend fyrirmynd NFS á Stöð 2 á sínum tíma sem einnig var mjög merkilegt framtak á sínum tíma, sem gekk í rauninni undravel í höndum ákafs hugsjónafólks í fjölmiðlun sem lyfti grettistaki en varð að beygja sig fyrir hörðum veruleika hins smáa markaðar.
Það er full ástæða til að taka ofan fyrir þessu fólki og ekki síst Ingva Hrafni Jónssyni fyrir kjark þess, baráttugleði og hugsjónaeld.
Ingva og hans fólki óska ég alls hins besta og þakka honum fyrir ótrauða baráttu hans fyrr og síðar fyrir öflugri fjölmiðlun hér á landi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2017 | 09:56
Kemur fyrir á flestum gerðum flugvéla.
Núna rétt áðan var ég spurður að því hvort Dash 8 Q-400 flugvélarnar væru eitthvað lélegri en aðrar vegna þess að lent hefði verið á öðrum hreyflinum á slíkri vél á Keflavíkurflugvelli.
Þetta væri alveg dæmalaust hér á landi.
Síðasta setningin sem bætt er við spurninguna er röng og byggðist á því að muna ekki nema skammt aftur í tímann.
7. nóvember 2007 stöðvuðust báðir hreyflar Fokker 50 vélar yfir Brúaröræfum norðaustan við Vatnajökul.
Flugmönnunum tókst að koma öðrum hreyflinum í gang og var lent við afl hans á Egilsstaðaflugvelli.
Í morgun varð engin bilun í hreyfli heldur þurfti að drepa á öðrum hreyflinum vegna óvissu um ástandið á hjólaleggnum þeim megin.
Auk Pratt and Whitney hafa Rolls Royce verksmiðjurnar lengi framleitt hreyfla, allt frá 120 hestafla upp í stærstu gerðir af þotuhreyflum fyrir margar flugvélagerðir.
Í einum slíkum hreyfli Fokker F-27 varð sprenging eftir flugtak á Ísafirði hér um árið og var vélinni flogið á hinum hreyflinum til Keflavíkur og lent þar á öðru lendingarhjólinu, en hitt var ónothæft eftir sprenginguna.
Bæði Fokker og Dash 8 eru háþekjur með löngum hjólaleggjum og báðar knúnar Pratt and Whitney hreyflum.
Og líklega eru perurnar í aðvörunarljósum þessara flugvéla og annarra af afar svipaðri eða jafnvel sömu gerð.
Það kemur fyrir á flestum gerðum flugvéla að viðvörunarljós af ýmsu tagi bila svo að af hlýst "varúðarlending", - ekki nauðlending eins og of oft er sagt.
Ástæða þess að drepa verður á hreyflinum þeim megin sem bilaður eða vafasamur hjólaleggur er, er sú, að ef hjólaleggurinn svíkur leggst vélin niður á brautina þeim megin og loftskrúfan rekst í brautina.
![]() |
Lenti vélinni á öðrum hreyflinum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2017 | 23:25
Gott starf Íslendinga í Mósambík en sendiráðið vakti spurningar.
Það var áhugavert að fylgja utanríkisráðherra Íslands til Mósambík árið 2003 og kynnast því sem Íslendingar voru að gera þar.
En sendiráðsbyggingin stóra og flotta vakti spurnningar, þótt hún gæfi tilefni til að varpa ljósi á hrópandi andstæðurnar hjá þessari fátæku þjóð.
Með uppistandi við glæsislotið var hægt að benda yfir flóann og segja eitthvað á þessa leið: "Hér stöndum við á besta stað í höfuðborginni þar sem eru glæsivillur sendiráða ríkra þjóða og vitum af því hvernig mestöll heimsbyggðin er komin í gervihnattasamband, en þegar skyggnst er yfir flóann sjáum við djarfa fyrir svæði, þar sem svo mikil fátækt ríkir, að fólk þar er algerlega úr sambandi við nútíma veröld og býr við ömurlega örbirgð, en þessu kynntumst við í ferð þangað í gær til að sjá hvernig íslenska þróunarhjálpin hefur reist þar einfalda heilsugæslustöð sem gjörbyltir öllu á þvi sviði.
Áður en hún reis, þurfti kona, sem var í barnsnauð, að fara gangandi eða í besta falli ríðandi á asna til þess að komast nálægt einhverri lágmarksþjónustu.
Við sáum í gær hvernig fólkið þarna kom að úr öllum áttum til að fagna íslenskum gestum með því meðal annars að syngja og dansa í útivist.
Sérstaka athygli vakti unglingur, sem hafði sett saman gítar úr einum bensínbrúsa, spýtu og nokkrum vírstrengjum, sem hann lék á að hreinustu list.
Og fólkið söng saman á ógleymanlegan hátt með hinum mögnuðu sjálfsprottnu raddsetningum, sem er svo einkennandi fyrir þjóðirnar syðst í álfunni.
Við fórum líka og kynntumst líknarstarfinu sem Íslendingar hafa sinnt í návígi við eitt af aumustu og illræmdustu fátækrahverfi landsins, þar sem allt að fimmtungur ungs fólks verður alnæmi að bráð."
Á einu götuhorninu sáum við unglingspilt leika sér þannig að fótbolta, að sumt sem hann gerði hafði maður ekki séð jafnvel þá allra frægustu í þeirri íþrótt leika slíkt.
Síðan var hann horfinn og manni varð hugsað til þess að í kringum 1960 vildi svo til að portúgalskur knattspyrnuþjálfari sá pilt einn leika sér með bolta á svipaðan hátt, stöðvaði bílinn og tók hann með sér til Portúgals.
Á HM í London 1966 varð hann stjarna mótsins og vakti heimsathygli. Nafn hans var Eusobio, og hann var svo heppinn að það var knattspyrnuþjálfari sem sá til hans en ekki fréttamaður frá Íslandi, sem átti leið framhjá og hvarf sjónum.
Og kannski átti knattspyrnusnillingurinn 2003 eftir að bætast í hóp þess unga fólks sem grimmur sjúkdómur felldi umvörpum á þessum tíma.
Íslendingar hjálpuðu líka til við fiskverkun í Mapútó og kenndu vinnubrögð og aðferðir við vinnslu og sölu.
En stóra sendiráðsvillan, ein sú stærsta á svæðinu, truflaði þessa sýn. Þegar spurt var hvort hún væri ekki bruðl var svarið að verðlag allt væri svo lágt í þessu fátæka landi, að kostnaðurinn við slotið þætti lítill á íslenskan mælikvarða.
Nú er búið að loka sendiráðinu og verið að þróa aðrar leiðir til þess að sinna þeim göfugu verkefnum, sem hrópað er á svo víða um lönd, þar sem kjör hundruð milljóna fólks eru svo langt frá því sem við eigum að venjast, að það er stundum líkt og ljósár séu á milli.
![]() |
Sendiráði Íslands í Mósambík lokað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2017 | 15:18
Brauðmolakenningin í framkvæmd.
Donald Trump sagði hróðugur í kosningabaráttunni í fyrr að hann hefði skapað svo geysilega mörg og góð störf og tekjur fyrir svo marga með því að fjárfesta í glæsihöllum og eignum, sem aðeis er á færi hinna ofurríku í heiminum.
Þetta er eitt afbrigði af "brauðmolakenningunni" svonefndu sem slær því föstu, að því ríkara sem það eitt prósent jarðarbúa verður sem á helming allra auðæfa heimsins, því meiri tekjur muni skapast af bruðlumsvifum hinna moldríku í formi "afleiddra starfa við að framleiða þessar miklu eigur.
Þegar ég var ungur hélt ég í barnaskap mínum, að sú tíð kæmi aldrei aftur að tiltölulega fámennur aðall og yfirstétt í heiminum velti sér upp úr auðæfum sínum á sama tíma sem almúginn þjónaði undir þetta lið og þægi mola úr lófum þeirra, þegar best léti.
En þetta virðist ekkert hafa breyst.
Glöggir hagspekingar hafa reiknað út fánýti brauðmolakenningarinnar. En með henni gera valdhafar í krafti auðsins allan almenning sér háðan, þar sem "litli maðurinn" lýtur hinum valdamikla í auðmýkt þess, sem þráir "vernd" hins volduga og ríka en gerist með því í raun meðvirkir í því að sóa auðæfum og auðlindum jarðar á þannn hátt að allir eiga eftir að tapa á því.
"Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barinn þræll er það, því að i brjósti hans lifir frelsið" var einhvern tíma skráð.
Þeir sem vilja eitthvað örlítið réttlátari skiptingu jarðargæða og betri meðferð á auðlindum jarðar eru úthrópaðir sem "kommúnistar" og "öfgafólk."
Er þó aðeins um að ræða að slá tiltölulega lítið á ójöfnuðinn og skerða frelsi hins almenna einstaklings sem minnst.
En jafnvel frumkvæðlar kapítalismans viðurkenndu, að frelsi eins endar þar sem frelsi annars byrjar.
Sú grundvallarstaðreynd er þögguð niður.
![]() |
Ríkasta prósentið á helming auðæfanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.11.2017 | 08:33
Svipað andrúmsloft og í febrúar 1980?
Í febrúarbyrjun 1980 ríktu pattstaða og stjórnarkreppa hér á landi. Mikill órói og átök höfðu ríkt í stjórnmálum og á vinnumarkaðnum allt frá síðari hluta ársins 1977, fyrst með aðgerðum verkalýðssamtakanna sem fólust í svonefndu útflutningsbanni, síðan með lagasetningu ríkisstjórnar Geir Hallgrímssonar sem kippti vísitölunni úr sambandi við launagreiðslur, sem kallaði á kjörorð í hörðum kosningum til byggða og þings 1978: "Samningana í gildi!"
Í kjölfarið misstu Sjálfstæðismenn meirihlutann í borgarstjórn Reykjavík eftir 60 ára samafelld völd og stofnuð var vinstri stjórn 1978 eftir afhroð stjórnarflokkanna í kosnningum.
Sífelldar og harðar deilur innan stjórnarinnar stóðu til vors 1979 og stjórnin sprakk í september, líkt og nú og farið var í vetrarkosningar í desember.
Þá tók ekki betra við, sex vikna stjórnarkreppa.
Allt þetta skóp ástand þreytu og vantrúar almennings á stjórnmálum og stjórnmálamönnum, ekki ósvipað og ríkt hefur hér síðan í apríl í fyrra.
Kristján Eldjárn forseti var með utanþingsstjórn Jóhannesar Nordal uppi í erminni.
Þá beitti Gunnar Thoroddsen djörfu stjórnkænskubragði og myndaði með fimm þingmönnum Sjálfstæðisflokksins meirihlutastjórn með flokkunum tveimur á vinstri vængnum, Alþýðubandalagi og Framsóknarflokknum.
Hatrömm átök urðu í Sjálfstæðisflokknum við þetta en í skoðankönnunum eftir stjórnarmyndunina kom í ljós að þessi sérkennilega ríkisstjóron var með mikið meirihlutafylgi kjósenda.
Fólk var einfaldlega búið að fá upp í kok af getuleysi og sundrungu stjórnmálamanna.
Þótt viðtöl sjónvarpsfólks á förnum vegi veiti afar hæpna vísbendingu, virtist svipaður andi algengur hjá aðspurðum í slíkum viðtölum Stöðvar 2 í gær varðandi þá stjórnarmyndun, sem nú er í gangi.
Ef af þessari stjórnarmyndun verður mun það valda óróa innan flokkanna lengst til vinstri og hægri.
Í stjórnarmynduninni 1980 var forsætisráðherrastóll Gunnars Thoroddsens lykillinn að því að því að hún væri möguleg.
Nú virðist það vera forsætisráðherrastóll Katrínar Jakobsdóttur.
1980 ríkti einstakt erfiðleikaástand vegna hrikalegrar hækkunar á olíuverði í heiminum og ríkisstjórn Gunnars mistókst að ná tökum á óðaverðbólgu sem í lok kjörtímabilsins komst yfir 100%.
Nú eru í bili allt aðrar ytri aðstæður fyrir nýja ríkisstjórn, en á hinn bóginn sér gerbreytt fjölmiðlunarumhverfi fyrir því að vandi þeirrar stjórnar sem nú er verið að reyna að mynda felst í miklum óróa hjá hluta fylgismanna flokkanna lengst til hægri og vinstri.
Hvernig sem allt fer, ætti að vera nokkuð líklegt, að almenna kjósendur þyrstir í að óróatímabilið frá því í apríl 2016 endi og að fyrirheit stjórnmálamanna um nýtt andrúmsloft og stöðugleika verði efnd.
1980 tókst Geir Hallgrímssyni og hinum framsýnni Sjálfstæðismönnum að koma í veg fyrir að flokkurinn klofnaði og menn yrðu reknir úr honum, og fyrir bragðið gátu Sjálfstæðismenn gengið sameinaðir til kosninga 1983 og myndað sterka stjórn í kjölfarið.
Þetta fyrirbæri gæti orðið framhaldið innan Vinstri grænna ef mynduð yrði stjórn undir forsæti þeirra með Sjöllum og Framsókn.
![]() |
Viðræðurnar eru sagðar ganga vel |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.11.2017 | 23:31
Næstum bíll við bíl frá Djúpavogi til Reykjavíkur.
Þannig vildi til að ágúst í sumar þurftum við Helga að aka síðdegis frá Borgarfirði eystri til Reykjavíkur. Þegar komið var suður í Hornafjörð og komið fram á kvöld tókum við eftir því að sífellt mátti sjá fleiri og fleiri bíla, sem lagt hafði verið við veginn og voru greinilega "svefnbílar" ferðamanna.
Nú er það svo að það eru ekki mörg ár síðan ferðamannafjöldinn var aðeins brot af því sem nú er og þá mátti kannski segja að það væri í lagi þótt telja mætti á fingrum annarrar handar þá, sem gistu svona.
En þetta er greinilega gerbreytt og fjöldi þessara bíla var ævintýralegur í sumar.
Í staðinn má hugsa sér að leyfa fólki að sofa í venjulegum bílum ef það er á tjaldstæðum og greiða sanngjarnt gjald fyrir það.
Veran þar ætti að tryggja að gistifólkið hafi aðgang að snyrtingu og annarri þjónustu sem veitt er á tjaldstæðum.
![]() |
Taka á svefnbílum á Suðurlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.11.2017 | 17:53
Litlar sögur úr umferðinni. Ein mínúta. Sjö metrar.
Dæmi um svipaða hegðun og nú viðgengst í Oddskarðsgöngum eru út um allt í íslenskri umferð.
Í Hvalfjarðargöngum er 70 km hámarkshraði. Sá sem sættir sig ekki við það og vill endilega aka á 90 km hraða sparar um eina mínútu og fær sekt.
Að hugsa sér, að spara eina mínúti á fimm stunda ferð til Akureyrar.
Að spara eina mínútu á akstri á langleið er auðvitað út í hött.
Ég ætla að setja hér inn myndir af því hvernig ökumaður einn, fullfrískur, þurfti endilega að leggja sínum stóra og mikla tíu milljón króna jeppa ólöglega og skapa vandræði í umferðinni til þess að spara sér sjö metra göngu í ágætu veðri.
Þetta var um daginn fyrir framan útibú Landsbankans í Grafarholti. Nóg aflöglegum bílastæðum var að finna eins og sést á myndum sem ég ætla að setja hér inn.
Uppi við gangstéttina við bankann sjálfan, en efst í götunni, er að finna eitt stæði, sem er sérmerkt fyrir hreyfihammlaða, en þó það langt frá útibúinu, að jafnlangt er að fara þaðan inn og að fara úr bílastæðinu.
Þegar þessar myndir voru teknar, var einn gráleitur skutbíll í þessu stæði og ökumaðurinn var hreyfihamlaður.
En þetta stæði fyrir hreyfihamlaða er samt á þessum stað, af því að þá á hinn hreyfihamlaði, til dæmis ef hann er í hjólastól, auðveldara með að komast á alveg jafnsléttum fleti inn inn í útbúið.
En eigandi jeppans dýra virtist ekkert að spá í eitt eða neitt nema sitt eigið rassgat.
Hann lagði jeppanum í akbraut þar sem er tvístefnuakstur og ein akrein í hvora átt á þann hátt að hann gat ekki einu sinni drullast til að leggja samsíða gangstéttinni, heldur aðeins á ská svo að stóri jeppinn tæki enn meira pláss en ella.
Fyrir bragðið olli hann truflun á akstri annarra ökutækja.
Síðar, eftir að bíll hans hafði staðið þarna um stund, fóru aðrir aðvífandi ökumenn að leggja sínum bílum þarna líka. Já, hvað "höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það."
Allan tímann var næg bílastæði að fá með sjö metra lengri gönguleið, en þó þannig, að ökumaður bílsins, sem lagt er öfugt næst okkur á neðstu myndinni, sparaði sér ekki einn einasta metra í gönguleið!
![]() |
Hraðinn í göngunum gífurlegur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.11.2017 | 07:07
Myndirnar, sem voru aldrei teknar.
Ef hernám Íslands 10. maí 1940 var stærsti viðburður síðustu aldar hér á landi var eldgosið í Heimaey, sem hófst 23. janúar 1973 líklega stærsti hamfaraviðburður síðustu aldar.
Ég var í móðurkviði þegar Bretarnir komu, en fyrir hreina tilviljun frétti ég af gosinu í Heimaey fyrstur manna á RUV og hafði af þeim sökum tök á að stökkva strax upp í FRÚna og fljúga nætursjónflug til Vestmannaeyja undir skýjum áður en veður versnaði, eina flugvélin sem fór þá leið.
Fyrir bragðið blasti við ógleymanleg sýn þegar komið var yfir Þrídranga sem enginn annar sá, því að aðrir sem komu fljúgandi frá Reykjavík, komu í aðflugi ofar skýjum og niður í gegnum skýin á lokastefnu við flugvöllinn.
Birtuskilyrði voru þannig að ekki voru tök á að festa þessa sýn á filmu: Þrídrangar og vitinn þar í forgrunni, tungl gægðist sem snöggvast í gegnum litið skýjagat og varpaði draugalegum blæ á sjónsviðið, framundan var röð fiskibáta á flótta frá eyjunni með fólk standandi á sumum úti á þilfari, í baksýn Heimaey með eldvegg, sem náði frá brautarenda austur-vesturbrautarinnar og norður yfir austurenda eyjarinnar niður að sjó við innsiglinguna.
Enn í dag þarf ég ekki annað en að lygna augunum til þess að þessi ógleymanlegasta minning ævinnar birtist enn ljóslifandi fyrir hugskotssjónum.
Einhvern tíma verður kannski hægt að tölvugera þessa mynd.
Engan grunaði 1973 að á næsta ári á eftir ætti eftir að verða hinn fyrsti í röð hamfaraviðburða af völdum snjóflóða, sem á næsta 21 ári myndi kosta alls fimm tugi manna lífið.
Það tók Íslendinga öll þessi ár að átta sig á því að í raun var allt þetta manntjón óhjákvæmileg afleiðing af því að reistar voru fjölmennar byggðir á stöðum þar sem slíkar byggðir höfðu ekki verið áður.
Öll snjóflóðin féllu á svæði, þar sem ekki hafði verið húsabyggð á fyrri öldum og því engar sagnir í annálum um snjóflóð, sem þó höfðu áreiðanlega fallið þar.
1973 og 1974 urðu upphafsár þess fyrir mig að verða á vettvangi allra hamfara og stórslysa í landinu allt fram á þennan dag.
Ungum fréttamanni var kastað út í hina djúpu laug ólýsanlegra aðstæðna, sem höfðu gríðarleg áhrif á alla þá sem lentu í slíkum aðstæðum.
Í þá daga hafði hugtakið áfallahjálp ekki verið fundið upp og vafalaust hefði verið gott að eiga aðgang að slíku.
Það var sérlega snúið verkefni að komast frá Reykjavík til Norðfjarðar.
Það var brjálað veður á sjóleiðinni austur með landinu og kolófært til flugs á Austfjörðum.
En það fannst leið til að munstra Þórólf Magnússon, síðar fluggoðsögn í dreifbýlisfluginu, á tveggja hreyfla Britten Norman-Islander vél flugfélagsins Vængja og komast yfir hálendið til Egilsstaða og fara þaðan í snjóbíl yfir til Eskifjarðar og á báti restina.
Í Neskaupstað voru aðstæður hörmulegar, en þar sem ég ráfaði smástund einn um rústirnar, blasti við mér ógleymanlega átakanleg og áhrifamikil sjón.
Í rústunum af húsi þar sem mæðgur fórust, ef ég man rétt, lá á einum stað mölbrotið brúðuhús og sundurtættar brúður.
Þessi sjón sagði svo mikla harmsögu, að kannski var ekkert jafn táknrænt fyrir þann mikla harmleik, sem staðið var frammi fyrir á þessum stað.
Um hugann flaug áhrifamesta ljósmynd síðustu aldar, sem Finnbogi Rútur Valdimarsson tók við Straumfjörð á Mýrum af tæpum fjórum tugum skipbrotsmanna af skipinu Pourqouis pas? sem fórst þar fyrir utan 16. september 1936, sem var afmælisdagur móður minnar og seinnar einnig minn.
En ég gat ekki fengið það af mér að taka jafn ofboðslega harmræna en þó einfölda mynd og sundraða leikherbergið var.
Það þurfti lengri tíma til þess að átta sig á þvi sem lærðist síðar við endurtekin hamfarastórslys af þessu tagi, að við svona aðstæður snýst málið ekki um það hvort taka eigi mynd, heldur hvernig eigi að varðveita og hvenær, ef nokkurn tíma, að birta þá mynd, sem tekin er, kannski ekki fyrr en öld seinna, kannski aldrei að gera hana opinbera sem verðmæta heimild um stórviðburði og líf þjóðarinnar í harðbýlu landi.
Kannski verður þessi litla mynd, sem aldrei var tekin, einhvern tíma tölvugerð og bætist við hina ógleymanlega sterku mynd Finnboga Rúts af slysinu mikla á Mýrum 1936 og tölvugerða mynd af flóttanum mikla undan eldhafinu í Heimaey 1973.
![]() |
Snjóflóðin sem tóku 12 líf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)