Færsluflokkur: Bloggar
12.3.2015 | 01:08
Unun að fylgjast með þeim bestu.
Þegar tillit er tekið til ungs aldurs keppendanna í Gettu betur er ekki hægt annað en að hrífast af frammistöðu þeirra bestu, allt frá hraðaspurningunum til enda hverrar viðureignar.
Ég hafði helst búist við að gömlu keppinautarnir MR og MH myndu keppa til úrslita og grunaði eftir að MH datt út, að það myndi hugsanlega gera úrslitaviðureignina ójafnari en ella.
Og þannig fór það. Að vísu er oft afar erfitt að spá um úrslit í svona keppni, því að heppni leikur stórt hlutverk, einkum þegar mjótt er á munum.
Það eina sem pirrar mig stundum er, hve illa þetta stórkostlega fólk er oft að sér um sitt eigið land. Þar skortir eitthvað á í skólakerfinu sjálfu.
Sem gamall spurningakeppninörd með fjóra mismunandi spurningaleiki í sjónvarpi í reynslubankanum, meðal annars Gettu betur 1995 þegar "skólinn minn" MR vann, er efni spurninganna sjálfra og samvinnan við spurningameistarana oft ekki síður áhugavert viðfangsefni og íhugunarefni en frammistaða keppenda.
Ég tel mikilvægt að ekki sé aðeins verið að fiska eftir beinni þekkingu keppenda, heldur ekki síður að reyna á ályktunarhæfni þeirra og þekkingu á sem fjölbreyttustum sviðum, að ekki sé nú talað um að orða spurninguna þannig, að athyglisgáfan fái að njóta sin sem og það að láta ekki afvegaleiðast út á ragna hugsanabraut, "vitlausan trakk".
Spurningin um "stjörnuna", Keikó, var einmitt þess eðlis.
Ég óska öllum sem stóðu að keppninni í þetta sinn til hamingju með góða frammistöðu, bæði keppendum og ekki síður stjórnandanum og starfsfólki öllu, sem stóð að henni.
P.S. Smá nöldur: Hvimleitt er þegar sagt er að einhver hafi sigrað keppni og sigrað hlaup eða mót. Gagnályktun hlýtur að vera að úr því að einhver sigri eitthvað, hljóti það, sem sigrað var, að hafa beðið ósigur. Þetta er að mínum dómi bæði málleysa og rökleysa.
![]() |
Tilfinningin er ansi góð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.3.2015 | 14:14
Samt "fer hratt kólnandi" og "hafísinn stóreykst".
Ég hef að undanförnu átt í netsamskiptum og persónulegum samræðum við góða og gegna og vel menntaða menn sem staðhæfa með tilvitnunum í "traust vísindaleg gögn", sem þeir segjast hafa undir höndum, að nú fari loftslag á jörðinni "hratt kólnandi" og að á aðeins einu ári hafi ísþekjan á Norður-Íshafinu "stórminnkað".
Hvorki geta þessir menn þó útskýrt af hverju íslensku jöklarnir fari síminnkandi og því síður af hverju Grænlandsjökull sé á sömu leið.
Ekki geta þeir heldur útskýrt fjarveru hafíssins frá landinu þrátt fyrir óvenju þrálátar suðvestanáttir og heldur ekki hvers vegna það hefur ekki komið frost í Moskvu í háa herrans tíð, heldur engu líkara en að hinn hræðilegi rússneski vetur sé gufaður upp.
Og varla fer formaður umhverfisnefndar öldungardeilar Bandaríkjaþings að kasta snjóboltum þar í 16 stiga hita til að sanna, að víst fari "hratt kólnandi."
Ekki geta þeir heldur útskýrt viðurkenndar alþjóðlegar mælingar, sem sýna hlýnun að meðaltali á jörðinni, né heldur af hverju meira CO2 er nú í lofthjúpi jarðar en síðustu 800 þúsund ár.
Trú mín á gildi menntunar hefur beðið nokkurn hnekki við að sjá fullyrðingar hámenntaðra manna um hina hröðu kólnun veðurfarsins á jörðinni.
"Vísindin efla alla dáð", sagði skáldið, en hefði átt að bæta við og hafa það svona:
"Vísindin efla alla dáð
en ekki greindina´í lengd og bráð".
![]() |
Jöklarnir 12% minni en áður talið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
11.3.2015 | 11:38
Ógleymanleg stutt kynni 1995. Kostulegir erlendir þættir.
Ýmsa fræga hefur maður hitt um dagana en Jeremy Clarkson er hugsanlega sá skemmtilegasti, þótt kynnin tækju aðeins um tíu mínútur við Litlu kaffistofuna 1995 þegar hann gerði einn þátta sinna hér á landi.
Sá þáttur hét "Jeremy Clarkson´s MotorWorld - Iceland."
Stærsti kostur Clarksons er hve óhemju hröð tilsvör hans eru, en hraðinn getur sennilega líka komið honum í koll, því að "the quickest draw in the west" eins og það nefnist í kúrekamyndunum, byggist oft á því að skjóta fyrst og spyrja svo.
Þau stuttu orðaskipti sem varðveist hafa í Íslandsþætti "Jeremy Clarksons´MotorWorld" eru fjarri því að vera þau skemmtilegustu eða bestu þarna við hliðina á flygildinu Skaftinu við bensíndæluna, því að Clarkson var í mesta stuðinu á meðan myndavélarnar voru ekki í gangi og verið var að undirbúa tökurnar.
Ég man sáralítið af því, nema kannski orðaskiptin þegar hann spurði mig hvað ég hefði gert um dagana, vildi fá að vita það út í hörgul ef það mætti nýtast honum í viðtalinu.
Ég reyndi að telja það upp sem ég myndi eftir að hafa sýslað við í atvinnuskyni; sveitastörf, hafnarvinna, járnabindingar, sprengingar og boranir, leikhús, skemmtanir, söngur, plötugerð, tónsmíðar, textagerð, rallakstur, flug, dagskrárgerð, spurningaþættir, veðurfréttir, almenn sjónvarpsfréttamennska o. s. frv.
"Sjónvarpsfréttir, einmitt það" sagði Clarkson. Þá geturðu sagt mér eitthvað um það hvernig þjóðinni vegnar um þessar mundir."
"Jú, kannski," svaraði ég. "Það gengur bærilega en þó hefur verið meira atvinnuleysi en oft áður."
"Er það furða? - það kemst enginn að í vinnu fyrir þér," svaraði Clarkson á sekúndubrotinu.
P.S. Í athugasemd hér fyrir neðan er minnst á sænskan sjónvarpsþátt um Ísland og Íslendinga sem gerður var 1965 fyrir daga íslenska sjónvarpsins, aldeilis kostulegur þáttur, sem aldrei hefur verið sýndur í íslenska sjónvarpinu.
![]() |
Fjölhæfur en frakkur þáttastjóri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 12.3.2015 kl. 07:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.3.2015 | 21:55
Önnur þyrlan rakst líklega á trjátopp.
Svo er að sjá á kvikmynd af þyrluslysinu, sem varð í Argentínu, að í samflugi tveggja þyrlna hafi önnur þeirra lent á trjátoppi og orðið stjórnlaus eða misst flugið við áreksturinn. Greinilega sést hvernig kurl úr greinunum kastast í allar áttir.
Vegna þess hve stutt var á milli þyrlnanna, rakst laskaða þyrlan á hina og þar með voru örlög þeirra beggja ráðin.
Þyrlur eru dásamleg loftför en einstaklega viðkvæmar fyrir hnjaski, einkum hinn flókni drifbúnaður loftskrúfanna, og því fór sem fór.
Það er margt að varast í flugi en ég hef alla tíð verið smeykur við árekstur við annað loftfar á flugi og alltaf mjög feginn þegar flugi með hættu á árekstri hefur verið lokið.
Ástæðan fyrir því að þyrlan lenti í trjátoppnum gæti verið sú að flugmaður hennar hafi verið of upptekinn við við fylgjast með hinni þyrlunni, til dæmis vegna myndatöku, og því ekki tekið eftir hindruninni.
Eða þá að flugmaður hinnar þyrlunnar hafi ekki tekið eftir því að hann hefði þrengt svo að þyrlunni sem stefndi á trjátoppinn, að hún rakst á hann.
Hvort þetta skýrist nánar við rannsókn er óvíst úr því að allir um borð í þyrlunum fórust.
![]() |
Þekktir íþróttamenn fórust í slysi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.3.2015 | 20:22
"Hernaðurinn gegn landinu" í 50 ár.
Nú er að verða hálf öld síðan stórsókn virkjanafíkla Íslands hófst gegn Þjórsárverum og syðri hluta hálendisins. Á myndinni er horft hátt úr lofti yfir einn fossanna á aftökulistanum, Gljúfurleitarfoss í Efri-Þjórsá.
Það var ekkert verið að skafa utan af því í upphafi að ætlunin væri að sökkva öllum Þjórsárverum eins og þau lögðu sig og ekkert minna kæmi til greina.
Þessu er mjög vel lýst í bók Guðmundar Páls Ólafssonar, og þegar farið er yfir þær hugmyndir, sem vikjanamönnum þóttu sjálfsagðar, skilst vel af hverju þessi áform voru ein helsta ástæðan fyrir tímamótagrein Halldórs Laxness 1970: "Hernaðurinn gegn landinu", sem hann skrifaði nokkrum árum eftir að ósköpin dundu yfir.
Meðal þess sem verkfræðingarnir settu fram var, að vegna hinnar miklu hagkvæmni þessara tröllauknu virkjanaframkvæmda yrði bæði fjárhagslega og tæknilega auðvelt að búa til ný heimkynni heiðargæsanna annars staðar á hálendinu !
Í hálfa öld hefur staðið baráttan fyrir friðun þessa svæðis og þar með björgun fossanna stóru í Þjórsá, sem virkjun þarna mun annars eyðileggja.
Virkjanafíklarnir sáu fljótlega að það var of áberandi að nöfn Þjórsárvera eða fossanna væru í nöfnunum, sem þeir völdu.
Í stað þess að kalla áformin Þjórsárveravirkjun eða Dynksvirkjun, var fundið nafn á lítt áberandi malaröldu, sem er nálægt stíflustæðinu og einnig forðast að nota orðið virkjun, heldur hið meinleysilega heiti "veita."
Heitið Norðlingaölduveita segir nákvæmlega ekki neitt um eðli virkjunarinnar.
Þetta var gert markvisst í svonefndri Kvíslaveitu, sem raunar fólst í fimm mismunandi virkjunum, sem allar tóku vatn úr einhverri af þverám eða kvíslum, sem féllu í Þjórsá austanmegin.
Þannig náðu virkjanamenn til sín þegjandi og hljóðalaust 40% af orku fossanna í Þjórsá, og upplýstu aldrei um hina háu prósentutölu fyrr en þeir voru örugglega komnir með allar veiturnar í höfn.
En þeim nægir ekki að hafa stórlaskað Dynk, flottasta stórfoss Íslands. Þeir halda áfram að að sækja að takmarki sínu og ósvífnin nær nýjum hæðum með því að dulbúa áformin í heitið "stækkun friðlands Þjórsárvera."
En þegar betur er að gætt, sést að ætlunin er að inn í áttina að hjarta veranna liggi eins og beitt sverð mjótt ófriðað svæði, nægilega stórt fyrir miðlunarlón og virkjunina!
Í raun virðist staðan í stríðinu um landið hafi ekkert hafa breyst í 50 ár. Fyrir liggja yfirlýsingar og stefna um að stefna í "mestu virkjanaframkvæmdir í sögu þjóðarinnar" fram til 2025 með því að tvöfalda rafmagnsframleiðsluna í landinu, þannig að í stað þess að við framleiðum 5 sinnum meiri raforku en við þurfum fyrir okkur sjálf, framleiðum við 10 sinnum meiri raforku árið 2025 en við þurfum sjálf.
90% af þeirri orku á að fara til "orkufreks iðnaðar" í eigu útlendinga, (les: stóriðju) og aðeins 2% til heimilanna í stað 5% nú.
"Það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær, sæstrengur verður lagður til Evrópu" sagði forstjóri Landsvirkjunar á fundi þess fyrirtækis í hitteðfyrra og með tilkomu hans verður búið að gulltryggja að engu verði eirt.
Á teikniborðinu í þessari hernaðaráætlun einbeitts brotavilja gegn hinni einstæðu náttúru landsins eru meðal annars virkjanir Dettifoss, Jökulsánna í Skagafirði og Skjálfandafljóts (Aldeyjarfossvirkjun), virkjanir Skaftár og annarra áa í Vestur-Skaftafellssýslu, Tungnaár við anddyri Landmannalauga, virkjana- og mannvirkjabelti norður um Sprengisand, virkjun Bjarnarflags á austurbakka Mývatns 2022 og virkjanir við Leirhnjúk og í Gjástykki 2025 o.s.frv. o.s.frv.
Nöfn virkjananna eru á bilinu 80-100 eftir því hvenær þau birtast, og þegar er búið að gera um 30 stórar virkjanir.
Neðst hér á síðunni eru loftmyndir yfir Bjarnarflagssvæðið og þann hluta Gjástykkis, sem Alþjóðleg samtök áhugafólks um marsferðir, hafa valið sem æfingasvæði.
![]() |
Krefjast friðlýsingar á svæðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.3.2015 | 16:27
Nú er maður hættur að jafna sig. Maður "endurheimtir sig".
Ýmis stutt, góð og þægileg íslensk orð eiga nú undir högg að sækja og gætu verið í útrýmingarhættu með sama áframhaldi.
Orðin "svona" og "hvernig" þykja ekki lengur nógu fín. Í staðinn fyrir þessi tveggja atkvæða orð er alls staðar þrengt inn fimm atkvæða orðaröðinni "með þessum hætti" og "með hvaða hætti."
Það nýjasta er að sagt er að íslenska hagkerfið hafi "endurheimt sig" eftir Hrunið. Það hlýtur að þýða að hagkerfið hafi glatast eða týnst og hafi nú verið enduheimt.
En á mannamáli er verið að ræða um að hagkerfið hafi veiklast eða lamast og sé nú búið að jafna sig.
Ég fékk umgangspest fyrir hálfum mánuði og er nú að jafna mig af henni, - nei, afsakið, ég er að endurheimta mig eftir hana.
Þegar Joe Frazier sló Muhammad Ali niður með einhverjum svakalegasta vinstri krók sögunnar, tók það Ali undraverðan tíma að standa upp og jafna sig, - nei, afsakið, það tók hann víst fjórar sekúndur að standa upp og endurheimta sig.
Sögnin að "endurheimta" er tvöfalt lengra en sögnin að "jafna" og þykir sennilega miklu fínna fyrir bragðið.
![]() |
Landsframleiðslan aldrei meiri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
10.3.2015 | 07:25
Hugtakaruglingurinn um "miklar frosthörkur" og "vetrarhörkur".
Það þarf ekki að fjölyrða um það að veturinn hefur verið sérlega vindasamur og illviðrasamur. Þó er það ekkert einsdæmi að mikið snjói og skafi. Slíkt veðurfar var frá janúar fram í mars fyrir þremur árum og snjórinn þá meiri á Suðurlandi en hann hefur verið í vetur, raunar einhver hinn mesti í áraraðir.
Í fyrravetur voru mikil snjóalög og hríðar fyrir norðan alveg fram á vor þótt hitinn væri yfir meðallagi, og meðalhitinn ekkert lægri á þessum tímabilum syðra og nyrðra en gengur og gerist, heldur var úrkoman í formi snævar mun meiri en í meðalári.
Síðast í gær voru orðin "einstakar vetrarhörkur" og "einstakar frosthörkur" notuð í fjölmiðlum um veturinn núna, en það er stórlega ofmælt.
Þrátt fyrir öll illviðrin og snjóinn í desember var sá mánuður hlýrri en í meðalári um mestallt land, og engar sérstakar frosthörkur hafa verið fram að þessu, heldur einungis miklu meiri vindur og úrkoma en venjulega, og þegar hitinn er langtímunum saman í kringum frostmark fellur úrkoman sem snjór.
Undanfarnar vikur hefur verið sérlega hlýtt á meginlandi Evrópu langt austur í Rússland og enda þótt það hvítnaði í Norður-Ameríku á tímabili, voru flestar hitatölur rauðar þar í gær og fyrradag langt norður úr.
P. S. Í athugasemd við þennan pistil er haldið fast í "frosthörkurnar" og "vetrarhörkurnar" og sagt að undanförnu hafi ríkt mesti kuldi á þessari öld.
Staðreyndirnar eru þessar samkvæmt tölum Veðurstofunnar:
Meðalhitinn í janúar og febrúar í Reykjavík er aðeins 0,1 stigi undir meðaltali áranna 1961-90 sem yfirleitt er miðað við, og það er sami meðalhiti og í sömu mánuðum 2008.
Meðalhitinn á Akureyri í janúar og febrúar er 0,9 stigum HÆRRI en meðaltalið 1961-90, og janúar og febrúar voru kaldari þar árið 2010 en nú.
Þetta eru nú allar frosthörkurnar og vetrarhörkurnar!
![]() |
Líklega versti vetur í áraraðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
9.3.2015 | 22:10
Kokhraustur methafi í 2007 ruglinu.
Ekkert sveitarfélag á Íslandi hefur komist með tærnar þar sem Reykjanesbær hefur hælana í bruðli og óráðsíu 2007 ruglsins. Það er ekki eitt heldur allt.
40 milljarða skuld er hins vegar léttvæg fundin í fréttaviðtali hjá fyrrverandi bæjarstjóra og hann hælist um hve miklu af því, sem peningunum var eytt í, er ekki hægt að ná til baka upp í hina risavöxnu skuld.
Sparisjóðsmálið er oftast nefnt, en þá gleymist það stærsta, þar sem siðleysið var algert, en það var hvernig skrifað var undir samninga þriggja aðila um risaálver í Helguvík, tekin skóflustunga og hafnar framkvæmdir án þess að búið væri að útvega fjármagnið, án þess að búið væri að ganga frá samningum við minnst tólf sveitarfélög og aðila til þess að leggja risaháspennulínur og afla orku, og án þess að orka væri fyrir hendi eða búið að semja um orkuverðið.
"Túrbínutrixið" svonefnda 1970 byggðist á því að stjórn Laxárvirkjunar keypti stórar túrbínur í virkjun, sem að engu leyti var búið að semja um við landeigendur eða aðra samningsaðila.
Þegar andstaða kom fram í héraði, var mönnum stillt upp við vegg fyrir framan gerðan hlut, algerlega siðlausan kúgunargerning.
Lögfræðingur bænda sneri túrbínutrixinu upp á þá, sem ætluðu að beita því.
Hann sýndi fram á að Laxárvirkjunarstjórnin bæri ábyrgðina af kaupunum á túrbínunum, sem keyptar höfðu verið á siðblindan hátt.
"Túrbínutrixið" varðandi álverið í Helguvík fær gamla trixið frá því 1970 til að líta út eins og smámuni.
Það var vaðið út í verkefni, sem hefði krafist virkjananets allt frá Reykjanestá upp á mitt hálendið og austur að Skeiðarársandi.
Þetta var óðs manns æði frá upphafi, sem reynt var árangurslaust að vekja athygli á, og nakin grind kerskálans í Helguvík er magnað minnismerki um Hrunið og ástæður þess.
Mér leist vel á Árna Sigfússon sem borgarstjóraefni í Reykjavík á sínum tíma og hann bauð af sér góðan þokka við viðkynningu. Ég held að hann hefði getað orðið ágætur borgarstjóri ef hann hefði fengið meiri tíma til að kynna sig fyrir kosningarnar 1994.
Nú veit ég svei mér ekki hvert Hrungræðgin mikla hefur leitt hann, því miður, og enn leiðinlegra er að hann sér ekki, að hann hafi gert nokkurn skapaðan rangan hlut.
Það eina sem hann hefur sér til afsökunar, er að ráðherrar þess tíma voru jafn illa haldnir af græðgis- og stóriðjubólunni og hann, og ekki hefur einn einasta þeirra viðurkennt að hafa gert neitt rangt, heldur stendur enn "einróma" yfirlýsing núverandi ríkisstjórnar frá 2013 um að risaálver í Helguvík skuli rísa, hvað sem það kostar.
Og auk þess má með sanni segja að 2007 ríkti fágætt ástand múgsefjunar græðginnar hér á landi sem meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og margir fleiri tóku þátt í.
P. S. Sömuleiðis er rétt að halda því til haga að lagalega ber meirihluti bæjarstjórnar á hverjum stað með forseta bæjarstjórnar í broddi fylkingar ábyrgð á framkvæmdum, sem bæjarstjóra er hins vegar falið að framkvæma.
Forseti bæjarstjórnarinnar á þessum tíma stóð lengst og fastast á því opinberlega að heimta að álverinu yrði þröngvað í gegn.
Hvergi sér þess stað að fyrrverandi forseti bæjarstjórnar hafi sagt eitt aukatekið orð um sína ábyrgð eða meirihlutans sáluga.
![]() |
Ég skal bera ábyrgð á þessu öllu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 10.3.2015 kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.3.2015 | 18:31
Brot gegn 1. boðorði fjölmiðlunar, ef rétt er.
"Góð frétt má aldrei líða fyrir sannleikann" er hermt að Indriði G. Þorsteinsson hafi sagt við blaðamann sinn hér um árið, gott ef það var ekki Sigurður Hreiðar.
Raunar má skilja orð ritstjórans á tvo vegu en ef lýsingarorðið "góð" er ekki haft með, sýnist auðveldara að túlka orðin sem kröfu um að í umfjöllun sé ávallt að finna bestu, réttustu og nauðsynlegustu fáanlegar upplýsingar og einnig lýsingu á mismunandi skoðunum, en þetta er boðorð fjölmiðlunar númer eitt, tvö og þrjú.
New York Times hefur löngum notið mikillar virðingar og álits fyrir ýmis umfjöllunarefni sín eins og til dæmis Watergate. ( Afsakið, hér slæddist inn villa, sem mér var bent á í athugasemd, - það var Washington Post sem upplýsti um Watergate).
Sé það rétt, að á vegum blaðsins hafi mynd af minningargöngunni um atburði í réttindabaráttu blökkumanna í gær hafi verið hagrætt, er það mikill álitshnekkir fyrir þetta virta blað.
Maður á hreinlega erfitt með að trúa þessu.
![]() |
Sakað um að fjarlægja Bush |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 10.3.2015 kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.3.2015 | 11:48
Ýmislegt bannað hér í raun.
Þegar búið er að þylja síbyljuna "hrein og endurnýjanlega orka" nokkur þúsund sinnum sem alhæfingu um íslenskri orku, er í raun búið að banna að segja neitt annað um hana, þótt það sjáist eða heyrist einu sinni á móti þúsund að gufuaflsvirkjanir á Íslandi séu hvorki með hreina né endurnýjanlega orku.
Á árunum 1998 til 2014 var búið að þylja svo oft upp áhrif Norðlingaölduveitu án þess að minnast á stórfossana þrjá, sem hún myndi þurrka upp, að í raun var búið að banna að nefna fossana, þótt ég gerði það nokkrum sinnum.
Með því að nota eingöngu orðin Norðlingaölduveita, Helmingsvirkjun, Hrafnabjargavirkjun og Búlandsvirkjun er í raun búið að banna að nefna fossana í Þjórsá, Dettifoss og Selfoss í Jökulsá á Fjöllum, Aldeyjarfoss og Hrafnabjargafoss í Skjálfandafljóti og fimm fossa í Skaftá.
Með því að stilla upp virkjanakostum í nýtingarflokk og verndarflokk sem andstæður, er í raun búið að banna að nefna aðra nýtingu í sambandi við fossa og ár en nýtingu til raforkuframleiðslu.
Lax- og silungsveiðar teljast ekki vera nýting og alls ekki má nefna verndarnýtingu á borð við þá sem Gullfoss, Geysir og fleiri náttúruverðmæti bjóða upp á varðandi tekjur af ferðamönnum og unaðsstundirnar, sem alls ekki má nefna, né að þær séu túskildings virði.
![]() |
Banna loftslagsbreytingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)