Færsluflokkur: Bloggar

"Heimsminjaskrká UNESCO! Og hvað með það?"

Eitt stærsta atriðið varðandi mannvirkjagerð virðist enn vefjast fyrir okkur Íslendingum: Það er sá grundvallarmunur á vernd (verndarnýtingu) og nýtingu (orkunýtingu) að verndarnýting kemur ekki í veg fyrir orkunýtingu síðar meir, en á hinn bóginn geta óafturkræf áhrif orkunýtingar komið í veg fyrir verndarnýtingu um alla framtíð.

Sömuleiðis sá munur á biðflokki og nýtingarflokki, að biðflokkur þýðir pass og útilokar ekki orkunýtingu síðar meir, en nýtingarflokkur þýðir í langflestum tilfellum það að ekki verður hægt að breyta síðar yfir í verndarflokk. 

Það er raunar dæmi um það hve erfitt er að ræða þessi mál á réttum forsendum, að mannvirkjasinnar hafa fengið fram sín sjónarmið með því að ráða því hvaða orð eru notuð.

Það er sérkennilegt að það skuli þurfa að benda strax í upphafi svona pistils á það misræmi, sem umræðan er strax leidd í, með því að stilla vernd og "verndarflokki" í rammaáætlun upp sem andstæðu við nýtingu og "nýtingarflokk".

Með þessu orðalagi er því slegið föstu, að nýting náttúrugæða með fjárhagslegum ábata geti aðeins falist í orkunýtingu, en að engin nýting eða fjárhagslegur ávinningur felist í vernd.

"Við verðum að nýta landið" er svo oft sagt sem röksemd fyrir virkjunum og mannvirkjum. 

Besta dæmið um þetta er verndarnýting Gullfoss, sem hægt er að meta til mun meiri fjár en orkunýting hans gæti falið í sér.

Og síðan er það hitt atriðið að meta ævinlega öll verðmæti aðeins til beins peningalegs ávinnings en setja núll krónu merkimiða á þau andlegu verðmæti, upplifun og unaðsstundir, sem náttúruvernd skapar. En það var gert varðandi Kárahnjúkavirkjun. 

Á tíunda áratug síðustu aldar sendu íslensk stjórnvöld fyrirspurn um tvo staði, Þingvelli og Mývatn, inn til nefndarinnar hjá Sameinuðu þjóðunum, sem metur það hvað skuli sett á Heimsminjaskrá UNESCO.

Meðal þeirra, sem unnu fyrir þá nefnd að slíku mati sem sérfræðingur í fjallalandslagi, var Jack D´Ives, sem þekkti Ísland vel frá fornu fari.

Mönnum hjá SÞ leist vel á Þingvelli sem fólu í sér afar merk söguleg verðmæti og jafnframt gríðarleg jarðfræðileg verðmæti. Ferlið tók rúman áratug.

En umsóknin um Mývatn með Kísiliðjuna skammt frá austurbakka vatnsins og kísilgúrnám í vatninu vakti aðhlátur.

Á þessum tíma var það með reglulegu millibili fyrsta frétt í sjónvarpi að Mývatnssveit stefndi í glötun vegna þess hætta væri á að rekstur Kísiliðjunnar stöðvaðist.

Síðan hætti Kísiliðjan og þá þótti það ekki frétt þótt mannlíf í sveitinni héldi samt áfram.

Rétt áður en Kísiliðjan hætti, hitti ég þáverandi sveitarstjóra og sýndi honum norskan ferðamannabækling, þar sem á forsíðu trónaði heilsíðumynd af norsku verðmæti, sem voru þá komin á Heimsminjaskrá UNESCO og augljóst var hvernig Norðmenn litu á möguleikana fyrir ferðaþjónustuna að geta flaggað slíku.

Ég spurði hann hvort hann sæi ekki möguleikana, sem fælust í því að Mývatn kæmist kannski inn á Heimsminjaskrána við það að Kísiliðjan færi.

Hann hélt nú ekki. "Heimsminjaskrá UNESCO! Og hvað með það?" sagði hann með fyrirlitningartóni.

Eitt þeirra atriða sem olli því að ég gerðist aðgerðasinni í náttúruverndarmálum voru tvær fréttir, sem ég flutti um sömu helgi af Kárahnjúkavirkjun.

Önnur fréttin var afar jákvæð varðandi umsvif vel rekins verktakafyrirtækis við virkjunina, eitt þeirra fáu sem ekki urðu gjaldþrota.

Í hinni fréttinni lýsti kanadísk kona, Louise Crosley, því hvernig Franklin-áin á Tasmaníu komst á Heimsminjaskrá þegar hætt var við að virkja hana. Sagði hún að svipað blasti við ef hætt yrði við Kárahnjúkavirkjun.

Fulltrúi Framsóknarflokksins, flokksins sem meðal annars hafði fyrr á tíð náttúruverndarfrömuðinn Eystein Jónsson sem formann, lét bóka í þáverandi Útvarpsráði harða gagnrýni og mótmæli vegna þessarar fréttar.

Þá varð mér ljóst að sú sjálfsritskoðunarregla mín að flytja aldrei neikvæða frétt um þessa virkjun nema að minnsta kosti ein jákvæð frétt væri líka flutt, gekk ekki lengur upp.     


mbl.is Möguleikum verði ekki spillt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumir staurar virðast bjóða upp í dans.

Í ferðalagi um Jótland hér um árið var athyglisvert að sjá hvernig reynt var að setja ljósastaura þannig niður að sem minnst hætta væri á því að bílum væri ekið á þá. 

Þetta stakk í stúf í staðsetningu ýmissa staura hér á landi sem virtust sumir settir þannig niður að sem mestar líkur væru að aka á þá. 

Meira en 10 árum síðar eru flestir þessir staurar enn á sama stað, enda töldu talsmenn Vegagerðarinnar eindregið að þeir stæðu á réttum stöðum. 

Sem dæmi nefni ég staurinn, sem "tekur við manni" þegar ekið er til austurs um hringtorgið við Hveragerði, rétt eins og honum sé falið það verkefni að koma í veg fyrir að bílar fari þar út af í lúmskri hálku.

Annar svipaður tekur við manni þegar ekið er til norðurs um hringtorgið norðan við Borgarnes.

Ef þessir staurar væru færðir aðeins til í líkingu við það sem sjá mátti á hringtorgum á Jótlandi, er líklegt að árekstrum bíla við þá myndi fækka.

Og á Álftanesveginum, þar sem var einföld stauraröð, mátti sjá staurana setta þannig niður í langflestum beygjunum, að ef bíll skrikaði til í hálku voru staurarnir einmitt þeim megin sem bílarnir fóru út af, og meira að segja komnir yfir á hina vegarbrúnina þegar beygt var í hina áttina.   


mbl.is Ekið á um 50 ljósastaura
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf jafn tilkomumikið! Mikil landkynning.

Í flugi í dag yfir Bárðarbungu og Holuhraun var flogið yfir ABS liðið við hraunjaðarinn og norðvesturhluta hraunsins, en líka skyggnst um yfir Bárðarbungu. IMG_4917

Hún er lagin við að sveipa sig dularhjúpi og þykjast hvergi nærri koma, og þess vegna var gaman að heyra fréttakonuna amerísku halda vel til haga hlutverki þessarar yfireldstöðvar Íslands. 

Askjan er heilir 10 kílómetrar í þvermál og því erfitt að sjá vel hvernig ísinn í henni hefur sigið um 60 metra. 

Þó mátti sjá í morgun móta fyrir henni, þótt engar ísgjár væru vel sjáanlegar vegna þess hve ört snjóar þarna og einnig mátti sjá óhugnanlega sigkatla í ísinum við norðvesturbrún bungunnar. 


mbl.is Sighraði öskjunnar verulegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hvað svo? Sandfok er byrjað úr nýrri aurkeilu í Sandvatni.

Fyrir 25 árum flutti ég margar og ítarlegar fréttir af því hvernig með stíflun Sandvatns væri verið að stækka Sandvatn og sökkva leiðinda sandleirum, sem hvimleitt sandfok hefði verið úr um árabil. Svipað væri hægt að gera við uppþornaðan botn Hagavatns og stöðva leirfok úr honum. Margar fréttir og margar myndir. 

Nú eru liðin 25 ár og stór aurkeila hefur myndast í vestanverðu Sandvatni þar sem Sandá rennur í það og ber fram sand og aur. Þetta fyrirbæri hefði átt að taka með í reikninginn fyrir aldarfjórðungi, en það er nú viðurkennt og var meira að segja fjallað um það í mati á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. 

Þessi aurkeila stækkar ár frá ári og að lokum mun sandburður Sandár fylla hið nýja og stækkaða Sandvatn upp og þá mun verða mun meira sandfok úr hinum nýju leirum en hinum gömlu og hefjast enn meiri barátta við það en fyrr. 

Eina ráðið verður þá að gera enn nýja og mun stærri stíflu til að sökkva nýju leirunum og sannast mun þá hið fornkveðna, að það er skammgóður vermir að pissa í skó sinn, því að það vatn mun að sjálfsögðu líka fyllast með tímanum. 

Nú er í gangi svipuð herferð fyrir Hagavatnsvirkjun og var fyrir stækkun Sandvatns á sínum tíma og ætlast til þess að maður sé jafn fáfróður og fyrir 25 árum. 

Sagt hefur verið að Landgræðslan og Skógræktin "þrýsti á" um þessa virkjun, en Landgræðslustjóri hefur borið það til baka og sagt pass í útvarpsviðtali. 

Hagavatnsleirurnar eru afar flatar og Landgræðslustjóri lýsti því yfir í útvarpsviðtalinu að ekki mætti verða nein vatnsborðssveifla þar vegna virkjunar. 

Það myndi þýða að virkjunin gæti ekki haft neina vatnsmiðlun og því verða ónothæf á veturna en aðeins gefa 20-30 megavött á sumrin. Þokkaleg nýting það og eftir miklu að slægjast eða hitt þó heldur. 

Nýtt Hagavatn myndi að sjálfsögðu fyllast upp af jökulleir samt sem áður af því að aurugt jökulvatn rennur í það og með virkjun yrði sett í gang sama hringekjan og með Sandvatni á sinni tíð.

Þetta kalla ég skómigustefnuna, samanber máltækið um að það sé skammgóður vermir að pissa í skó sinn. En engin ein stefna virðist eins vinsæl hér á landi og hún, einkum í jarðvarmavirkjunum, en líka í mörgum vatnsaflsvirkjunum.

Fyrir 25 árum tók ég þátt í því að mæra einhliða gerð Sandvatns með mörgum fréttum og myndum af þeirri framkvæmd án þess að skoða, að málið var og er ekki eins einfalt og það sýnist.

Síðustu árin hef ég fylgst með hinni stækkandi aurkeilu og sandfokinu úr henni.

Ég ætla ekki að brenna mig á því sama aftur og fyrir aldarfjórðungi, hvað sem aðrir gera.  


mbl.is Hraðskreið eyðing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langhlaup en ekki spretthlaup.

Það er vafalaust góður ásetningur sem liggur að baki þáttunum "Biggest loser" víða um lönd, þ. e. að taka þátt í sókn gegn stærsta heilsufarsvandamáli nútímans og næstu áratuga sem er offituvandamálið.

En nálgunin er afar vafasöm, svo að ekki sé meira sagt, að mæla upp þvílíkt meinlætalíf og sjálfspíningu í einhæfri keppni við að létta sig fyrir framan alla þjóðina, að hörmung er að heyra af þeim raunum, sem þátttakendur hafa hafa látið hafa sig út í.

Svona spretthlaup í að létta sig er nefnilega alveg í mótsögn við árangursríka léttingu, sem felst þvert á móti í því að taka hana sem langhlaup, jafnvel nokkurra ára langhlaup.

Mjög hröð létting hefur nefnilega margs kyns skaðleg áhrif á líkamann og þar á ofan bætist, að eftir að þessari sjálfspíningu lýkur, færist líkamsþunginn afar oft í svipað horf á ný, meðal annars vegna þess að líkaminn bregst sennilega í sumum tilfellum þannig við sveltinu að breyta þannig efnaskiptunum að nýta betur þær hitaeiningar sem til falla.

Þrjú þekkt dæmi úr sögu hnefaleikanna eru frá árunum 1910 og 1980. Upp úr aldamótunum hafði Jim Jeffries, einn allra besti þungavigtarhnefaleikari allra tíma, orðið að hætta keppni 1905 vegna þess að enginn verðgur mótherji fannst.

Þegar Jack Johnson varð fyrstur blökkumanna til að vinna titilinn, var Jeffries dreginn fram, en hafði þyngst um 40 kíló, úr 90 upp í um 130.

Hann létti sig á ótrúlega stuttum tíma um þessi 40 kíló, en var varla svipur hjá sjón þegar hann tapaði illa fyrir Johnson. 

Muhammad Ali létti sig nokkrum sinnum um 10-15 kíló fyrir bardaga og gerði það líka fyrir síðasta heimsmeistaratitilbardaga sinn 1980. Léttingin bar þann árangur að fyrir bardagann leit hann betur út en í mörg ár. Áhorfendur tóku andköf og stundu: "Sá er flottur!" 

En hann hafði misst of mikinn vökva, var skugginn af sjálfum sér og tapaði illa. 

Roy Jones var yfirburðamaður í millivigt og yfirmillivigt á níunda áratugnum, en stóðst ekki mátið að þyngja sig upp í léttþungavigt og síðar þungavigt með frábærum árangri og nýjum titlum. 

En þegar hann létti sig aftur niður í fyrri þyngd breyttist hann skyndilega úr eins konar ofurmenni í ósköp venjulegan meðal góðan hnefaleikara sem átti ekki möguleika gegn þeim sem áður höfðu staðið skör lægra en hann.

Þetta er langhlaup, ekki spretthlaup.   


mbl.is „Við erum öll orðin feit á ný“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tölvurnar búnar að taka skákina. Hvar endar þetta?

Það sem Bill Gates er að vara við varðandi hugsanlega tækniþróun framtíðarinnar á sér nokkuð langa forsögu, eða allt aftur til textans "Árið 2012", sem var saminn árið 1967, ef ég man rétt. 

Þá rökræddum við Vilhjálmur Vilhjálmsson söngvari um möguleika tölvuvæðingar sem héldi áfram takmarkalaust og ég lagðist undir feld til að festa þessar hugsanir í ljóð.

Nokkrar ljóðlínur segja sína sögu um framtíðarsýnina: "...vélar unnu störfin og enginn gerði neitt..."  "Og ekki hafði neitt að gera úvarpsstjóri vor, / því yfirmaður hans var lítill vasatransistor...", "forsætisráðherrann var gamall IBM."

1967 var auðvitað ekki hægt að sjá fyrir hvort Microsoft eða einhver önnur fyrirtæki kæmu í staðinn fyrir IBM.

Við gerð textans varð að grípa til nafnorða, sem þá voru þekkt til að reyna að túlka þann ískyggilega möguleika, að tölvurnar og vélarnar myndu að lokum taka völdin af mönnunum ef engin takmörk yrðu á tækniframförunum.

1967 hefði það þótt útilokað að tölvur gætu orðið fremri mönnum við að tefla skák. Nú hefur það gerst og kannski er það bara byrjunin.

Rætt er um í fullri alvöru að skammt sé þess að bíða að öll umferð einkabíla geti orðið tölvustýrð, svo ótrúlegt, sem það kann að virðast.

Mesta hættan við svona endalausar framfarir er sú, að til þess að koma í veg fyrir skakkaföll verði búin til tölukerfi með æ meiri greind til þess að stjórna öllu sem best.

Litlu munaði 1983 að kjarnorkustríð brytist út vegna bilunar í tölvu. Það var aðeins vegna þess að lifandi starfsmaður við tölvukerfið tók það upp á sitt eindæmi að taka ekki mark á aðvörun tölvunnar.

Í textanum "Árið 2012" sem fjallar um draum um geggjað framtíð, er gert ráð fyrir því að fjölgun mannkyns gerist ekki lengur í framtíðinni með tilstyrk rómantíkur og ásta, heldur stýrt af lyfjum.  

Ekki er víst að jafn vel takist um að bjarga heiminum frá því að farast í kjarnorkustríði og 1983 síðar meir þegar tæknin verður komin miklu lengra.  Og þá verður of seint að syngja:

Gömlu dagana gefðu mér.

Þá gat ég verið einn með þér.

Nú tæknin geggjuð orðin er.

Gömlu dagana gefðu mér, - en sá draumur, -

og ég er ánægður með lífið eins og það er.  

 

 


mbl.is Gates segir ógn stafa af gervigreind
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar meiri upplýsingar.

Heyra má og sjá hjá ýmsum hægri mönnum mikla andstöðu gegn því að Sjálfstæðisflokkurinn standi að því að "ríkisvæða náttúruperlur landsins". Sumir þessara hægri manna hafa áratugum saman verið afar hrifnir af öllu því sem bandarískt er, ekki síst það sem Republikanar hafa gert í landi frelsisins. 

En hið sanna er, að leitun er að þjóð sem hefur tekið vernd og umsjá helstu náttúruverðmæta lands síns fastari tökum en Bandaríkjamenn með því að þjóðnýta þau og láta alla, líka "heimamenn", borga fyrir aðgang að þeim svæðum þar sem þurft hefur að borga mikið fé til að vernda náttúruna og tryggja öruggan og farsælan aðgang að henni. 

Í Bandaríkjunum eru allir helstu þjóðgarðar og náttúrugersemar í eigu almennings og væri slíkt fyrirkomulag hér á landi gilti svipað um frægustu gersemar okkar eins og Geysi, Gullfoss, Kerið, Dettifoss, Hveraröndina í Námaskarði og Dimmuborgir, svo að dæmi séu tekin.

Fyrir langalöngu hefur helstu stöðum og svæðum af þessu tagi verið komið í þjóðareign, til dæmis í formi þjóðgarða, í þessu landi einkaframtaksins, og aðgangur er ekki seldur á þann hátt að hann þurfi endilega að dekka allan kostnaðinn við þjóðgarðana og friðuðu staðina og svæðin, heldur er bætt við hann úr ríkissjóði Bandaríkjanna eins og til þarf til að tryggja náttúruvernd og öruggt aðgengi eins og kostur er.

Í ferðalögum til tuga slíkra svæða austan hafs og vestan síðustu 17 ár hef ég hitt fjölmargt fólk og hvergi heyrt neitt annað en að gestir á slíkum svæðum séu stoltir af því að leggja sitt af mörkum til náttúruverndar. Enda voru línurnar lagðar fyrir mörgum áratugum, jafnvel fyrir meira en öld. 

Og alls staðar hefur þess verið gætt að þeir, sem njóta, sjái greinilega strax við komuna að mörkum þessara svæða, til hvers fjármunirnir renna.  

Það er afar nauðsynlegt að hér á landi sé miðlað upplýsingum um það hvernig aðrar þjóðir hafa brugðist við ófremdarástandi á viðkvæmum svæðum með dýrmætum náttúruverðmætum og ræða sig á grundvelli sem bestra upplýsinga til skástu niðurstöðunnar, hver sem hún verður á endanum.

 

  


mbl.is Kvótavæðing náttúruperla Íslands?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Stjórnviska" 1965. En ekki núna?

Í júní næstkomandi verða liðin rétt 50 ár síðan tveir íslenskir stjórnmálamenn öðrum fremur, Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra, og Eðvarð Sigurðsson, þáverandi alþingismaður og formaður Dagsbrúnar, gengust fyrir svonefndu "júnísamkomulagi" til þess að leysa aðra kjaradeiluna í röð á sama árstíma, en hin var leyst réttu ári áður með "júnísamkomulagi" hinu fyrra.

Fyrirfram þótti lausn kjaradeilunnar illmöguleg og má sjá þess merki í "Syrpu um allan fjandann" sem ég söng á útmánuðum 1965 og lýsti þar samskiptum Eðvarðs og Bjarna með spádómnum "annað júnísamkomulag, bimbirimbirimbam." 

 Í bæði skiptin var komið í veg fyrir langt og harðvítugt allsherjarverkfall í stíl verkfallanna 1961 og 1955, og 1964 og 65 byggðust samningarnir á því að liðka fyrir og leysa húsnæðisvandamálin.

Margir hafa valið þessum samningum ríkisvaldsins og launþegahreyfingarinnar 1964 og 65 lýsingarorð eins og "stjórnviska" og "dæmi um nota persónuleg kynni til þess að ná fram skástu lausn".

Er þessi lýsing einkum notuð um Bjarna Benediktsson og sem dæmi um þá landsföðurlegu og viturlegu nálgun, sem hann sýndi á síðustu valdaárum sínum.

En nú má sjá mikil stóryrði í netheimum þar sem "sósíalistaríkið Ísland" fær hina verstu umsögn og Gylfa Arnbjörssyni ekki vandaðar kveðjurnar.

Sumir þeirra, sem hæst fara, héldu varla vatni af hrifningu yfir tilfærslu hátt í 100 milljarða króna, að mestu úr sjóðum ríkisins, til þeirra sem komu sér í mestu skuldirnar á ákveðnu árabili vegna húsnæðiskaupa og mærð auk þess tilfærslu fjármuna úr ríkisstjóði til sægreifa landsins svo tugum milljarða skiptir.

En hvorugt af þessu telst víst heyra undir ríkissósíalisma.  


mbl.is „Allt á eftir að loga hérna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingurinn á myndbandaráðstefnunni.

"Suðupottur hugmynda og uppfinninga" er nú sagt um Soho-hverfið í London. Það sannaðist fyrir um 35 árum þegar haldin var alþjóðaráðstefna um myndbandabyltinguna í borginni. 

Meðal þátttakenda var þáverandi tæknistjóri íslenska Sjónvarpsins. 

Einn daginn var mikið rætt um það hve óheppilegt væri að þrjú tæknikerfi berðust um hyllina í myndbandaheiminum og að best væri að ráðstefnan kæmist að niðurstöðu um það mál, öllum til heilla, svo að almenningur gæti notið hins besta í þessum málum, vegna þess að enn væru myndbönd ekki orðin almenningseign og miklu skipti að réttasta og besta tegundin yrði ofan á í byltingu, sem var þá í þann veginn að bresta á. 

Verst yrði ef þrjú kerfi yrðu áfram í gangi en skást ef eitt þeirra yrði ofan á til þess að einfalda málið og gera komandi myndbandabyltingu skilvirkari og hagkvæmari. 

Af þessum þremur kerfum, sem komin voru fram og deilt var um, nutu tvö mestrar hylli á ráðstefnunni, og var annað þeirra Beta-spólurnar.

En hið þriðja, VHS, átti undir högg að sækja hjá mestu sérfræðingunum, sem sögðu nauðsynlegt að kveða það í kútinn vegna skorts á gæðum, sem myndu hefna sín ef það yrði sigursælt.

Undir lok umræðunnar þennan dag þar sem hver höndin var upp a móti annarri, bað íslenski fulltrúinn loks um orðið og sagði, að hann og sessunautur frá Asíu hans leggðu til, að umræðunni yrði frestað til morguns, en að þeir tveir myndu þá treysta sér til að leggja línurnar í þessu máli svo óyggjandi yrði eftir ítarlega og yfirvegaða rannsókn þeirra.

Var það samþykkt.

Morguninn efti sté Íslendingurinn í pontu og sagði að niðurstaðan væri fengin eftir gagngera athugun þeirra félaganna, og almenningur um heim allan gæti andað léttara: VHS myndi sigra.

Varð mikill kurr í salnum yfir þeim lyktum, svo miklu lélegra sem það kerfi væri en hin kerfin tvö, og var spurt, hvers vegna í ósköpunum þeir hefðu komist að svo slæmri niðurstöðu og hvað aðferð þeir hefðu notað.

"Það var afar einfalt", sagði Íslendingurinn. "Við fórum niður í Soho, skoðuðum okkur rækilega um á klámbúllunum langt fram á nótt og komumst að því að í þeim bransa hefur VHS algera yfirburði og að þar með er auðséð hvert stefnir. VHS mun sigra."

Felldu menn nú talið, en þetta reyndist rétt spá, því að VHS tók völdin á almenna markaðnum í framhaldi af þessu og réði lögum og lofum í tæpan aldarfjórðung eftir þetta, því miður. 

  


mbl.is Óttast að einkenni Soho hverfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérkennileg ófærð í fyrradag.

Hún var svolítið sérkennileg "ófærðin" milli Norðurlands og Borgarfjarðar nú fyrir helgina þegar 400 manns urðu strandaglópar ( "trapped") í Hrútafirði vegna þess að ófært var um Holtavörðuheiði, sem liggur upp í 407 metra yfir sjávarmál. 

Þegar fréttamaður spurði af hverju Laxárdalsheiði sem er helmingi lægri yfir sjó en Holtavörðuheiði, eða 200 metrar, var svarið það að Brattabrekka, sem er álíka há og Holtavörðuheiði, (400 m) , hefði hvort eð er verið ófær. 

Fréttamaðurinn fattaði greinilega ekki að spyrja hvers vegna umferðinni hefði þá ekki verið beint um Heydal í staðinn fyrir Brattabrekku, en sú leiðin um Heydal nær aðeins upp í 165 metra hæð.

En kannski vissi enginn, hvorki teppta fólkið, fréttamaðurinn eða Vegagerðin um þennan fjallveg, ef fjallveg skyldi kalla, því að 165 metra hæð er aðeins 20 metrum hærri en Vatnsendahæð.  


mbl.is Ófærð seld til margra landa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband