"Stjórnviska" 1965. En ekki núna?

Í júní næstkomandi verða liðin rétt 50 ár síðan tveir íslenskir stjórnmálamenn öðrum fremur, Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra, og Eðvarð Sigurðsson, þáverandi alþingismaður og formaður Dagsbrúnar, gengust fyrir svonefndu "júnísamkomulagi" til þess að leysa aðra kjaradeiluna í röð á sama árstíma, en hin var leyst réttu ári áður með "júnísamkomulagi" hinu fyrra.

Fyrirfram þótti lausn kjaradeilunnar illmöguleg og má sjá þess merki í "Syrpu um allan fjandann" sem ég söng á útmánuðum 1965 og lýsti þar samskiptum Eðvarðs og Bjarna með spádómnum "annað júnísamkomulag, bimbirimbirimbam." 

 Í bæði skiptin var komið í veg fyrir langt og harðvítugt allsherjarverkfall í stíl verkfallanna 1961 og 1955, og 1964 og 65 byggðust samningarnir á því að liðka fyrir og leysa húsnæðisvandamálin.

Margir hafa valið þessum samningum ríkisvaldsins og launþegahreyfingarinnar 1964 og 65 lýsingarorð eins og "stjórnviska" og "dæmi um nota persónuleg kynni til þess að ná fram skástu lausn".

Er þessi lýsing einkum notuð um Bjarna Benediktsson og sem dæmi um þá landsföðurlegu og viturlegu nálgun, sem hann sýndi á síðustu valdaárum sínum.

En nú má sjá mikil stóryrði í netheimum þar sem "sósíalistaríkið Ísland" fær hina verstu umsögn og Gylfa Arnbjörssyni ekki vandaðar kveðjurnar.

Sumir þeirra, sem hæst fara, héldu varla vatni af hrifningu yfir tilfærslu hátt í 100 milljarða króna, að mestu úr sjóðum ríkisins, til þeirra sem komu sér í mestu skuldirnar á ákveðnu árabili vegna húsnæðiskaupa og mærð auk þess tilfærslu fjármuna úr ríkisstjóði til sægreifa landsins svo tugum milljarða skiptir.

En hvorugt af þessu telst víst heyra undir ríkissósíalisma.  


mbl.is „Allt á eftir að loga hérna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Bjarni Ben. er ekki Bjarni Ben.

Þorsteinn Briem, 2.2.2015 kl. 12:10

2 Smámynd: Guðlaugur Hermannsson

Þessir forkólfar sem stjórna í dag hafa aldrei haft fyrir lífinu og skilja ekki hvað vinna er. Þeir eru líklega á mála hjá LÍÚ batteríinu. Þetta hljómar eins og klisja en er í raun staðreynd samkvæmt síðustu fréttum um loðnukvótaaukninguna. 

Guðlaugur Hermannsson, 2.2.2015 kl. 12:24

3 Smámynd: Kristbjörn Árnason

En það máttu gjarnan vita Ómar, að þetta gerðist ekki af sjálfu sér. Það var mikið búið að ganga á áður. Þarna var búið að beita gríðarlegum þrýstingi sem á sér ekkert fordæmi. 

Það var auðvitað ekki auðvelt fyrir Bjarna Benediktsson að taka við eftir áralanga og gríðarlega óstjórn Ólafs Thors sem alla tíð var sérlega ósvífin í garð verkalýðshreyfingarinnar. 

Í landinu var raunveruleg kreppa sem var mun dýpri en kreppan sem varð eftir hrunið. Þessi forsætisráðherra og Ólafur á undan honum datt ekki í huga að leiðrétta afleiðingar af um 100% gengisfellingum á rúmu ári og launamenn fengu að bera skaðann bótalaust.

Ég var virkur þátttakandi í verkalýðhreyfingunni á þessum tíma og var fullkunnugt um það sem þar gerðist í báráttunni gegn sameiginlegum andstæðingum launamanna sem voru samtök atvinnurekenda, LÍÚ og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins ásamt þáverandi hækju flokksins Alþýðuflokksins.

Rétt fyrir síðustu aldamót lögðu þa´verandi valdaflokkar niður Verkamanna-bústaðakerfið sem var auðvitað alvarleg atlaga að verkalýðshreyfingunni. Það voru auðvitað launamenn í landinu sem niðurgreiddu vextina í því fyrirkomulagi. Þeir greiddu 2% af öllum launum sínum til þess og ég veit ekk til þess að launamenn hafi fengið það endurgreitt í hækkuðum launum.

Ég veit einnig að ASÍ á erfitt með það, að versla tvisvar eða reyndar í 3. sinn um að fella niður launahækkanir og fá úrlausn í húsnæðismálum fyrir láglaunafólk. Ofan á stórhækkaða skatta á launamenn á meðan kaupmenn fá stórhækkaða álagningamöguleika.

Eðvart Sigurðsson naut mikils traust innan verkalýðshreyfingarinnar sem náði langt út fyrir ASÍ. Enda hafði hann sýnt dug sinn í baráttunni og lifði sjálfur við lífsmáta sem ekki var ósvipaður lífskjörum verkafólks.

Nú á verkalýðshreyfinginn engan slíkan foringja og ekki heldur núverandi ríkisstjórn. En málið er auðvitað stórt og ekki dugir minna en að allir liðsmenn Alþingis komi að því að leysa það.

Einnig má minna á það, að nú eiga vinstrimenn á Alþingi engin sterk tengsl inn í verkalýðshreyfinguna eins og þá tíðkaðist. Það hefur veikt stöðu vinstrimanna á þingi eins og sást vel í ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms en það hefur einnig veikt stöðu verkalýðshreyfingarinnar sem í þá daga var pólitískari hreyfing  

Kristbjörn Árnason, 2.2.2015 kl. 13:52

4 identicon

Ég á erftitt með að skilja af hverju stéttarfélög grípa ekki til viðeigandi ráðstafana þegar atvinnurekendur eru t.d að níðast á trúnaðarmönnum.  Það er eins og skorti allan myndugleika eins og Eðvarð Sigurðsson og Guðmundur J. sýndu á sínum tíma.

Þorsteinn Jón Óskarsson (IP-tala skráð) 2.2.2015 kl. 14:56

5 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Þorsteinn, þú hefðir alveg mátt sleppa Jakanum í þessari færslu. En þeir voru margir sem voru öflugir á þessum árum og voru jafnvel forystumenn í minni félögum

Kristbjörn Árnason, 2.2.2015 kl. 15:26

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ég tek undir með Kristbirni, það er ólíku saman að jafna, árunum 1965 og 2015, bæði hvað varðar mannkosti ráðamanna og einnig það umhverfi sem atvinnulífið býr við.

En auðvitað eiga kjarasamningar fyrst og fremst að vera á milli atvinnurekenda og launþega. Ríkisvaldið á ekki að koma að þeirri samningsgerð nema í neyð, þegar allt annað hefur verið fullreynt.

Það hefur margsannast að það sem ríkið kemur með inn í kjarasamninga heldur sjaldnast. Hér fyrir ofan hefur verið nefnt hvernig fór fyrir verkamannabústaðakerfinu, þessu sem Ómar kallar "stjórnvisku" ársins 1965. Með lítilli umræðu á alþingi var þetta kerfi afnumið rúmum 30 árum síðar, án þess að launþegar fengju nokkurn skapaðan hlut í staðinn eða hefðu um það að segja.

Persónuafsláttur varð til svo leysa mætti kjaradeilu. Skömmu fyrir bankahrunið var persónuafsláttur aftur nýttur af stjórnvöldum við lausn kjarasamnings, nú með því að verðtryggja hann. Sú verðtrygging fór fyrir lítið með nýrri ríkisstjórn, áður en hún komst til raunverulegrar framkvæmdar. Ekki fékk launafólk neinar bætur vegna þess. Þurftu að bíða eftir kjarasamningum til að knýja á um fá verðtrygginguna aftur. Persónuafslátturinn var því óverðtryggður þau ár sem mesta þörfin var fyrir hana, fyrstu árin eftir hrun.

Svona dæmi væri hægt að telja upp svo klukkustundum skiptir, sum alvarleg önnur vægari, dæmi þar sem stjórnvöld hafa komið að kjarasamningum milli launþega og atvinnurekenda, sem síðan hafa verið afnumin eða skert.

Það má kalla afskipti stjórnvalda ýmsum nöfnum, en sjálfur kýs ég að kalla þau niðurgreiðslur til atvinnurekenda. Þessi afskipti þjóna þeim tilgangi einum að spara atvinnurekendum réttmætar og hæfilegar launagreiðslur. Þau fyrirtæki sem ekki hafa burði til að greiða sómasamleg laun, eiga ekki tilverurétt!!

Gunnar Heiðarsson, 2.2.2015 kl. 15:28

7 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Það er einnig nauðsynlegt að átta sig á þeirri staðreynd, að það eru mannréttindi að hver maður sem vinnur fulla vinnu (dagvinnu) geti séð fyrir sér og börnum sínum.

Í þessu sambandi er vert að benda á það, að krafa flestra landbyggðar verkalýðsfélaga um að lægstu launataxtar verði a.m.k. 300 þúsund á mánuði.Það skiptir þessa landsbyggðarfólks miklu máli að launataxtar séu rettmætir og eðlilegir, á landsbyggðinni eru svo nefnd markaðslaun nánast óþekkt. 

Kristbjörn Árnason, 2.2.2015 kl. 18:29

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ólafur Thors átti ýmislegt til. Árið 1944 myndaði hann Nýsköpunarstjórnina með því "fiffi" að ganga að öllum kröfum Alþýðuflokksins um Almannatryggingar svo að kratarnir fengjust til að fara í stjórn með "kommúnistum" og "íhaldinu". 

Ómar Ragnarsson, 2.2.2015 kl. 20:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband