Íslendingurinn á myndbandaráðstefnunni.

"Suðupottur hugmynda og uppfinninga" er nú sagt um Soho-hverfið í London. Það sannaðist fyrir um 35 árum þegar haldin var alþjóðaráðstefna um myndbandabyltinguna í borginni. 

Meðal þátttakenda var þáverandi tæknistjóri íslenska Sjónvarpsins. 

Einn daginn var mikið rætt um það hve óheppilegt væri að þrjú tæknikerfi berðust um hyllina í myndbandaheiminum og að best væri að ráðstefnan kæmist að niðurstöðu um það mál, öllum til heilla, svo að almenningur gæti notið hins besta í þessum málum, vegna þess að enn væru myndbönd ekki orðin almenningseign og miklu skipti að réttasta og besta tegundin yrði ofan á í byltingu, sem var þá í þann veginn að bresta á. 

Verst yrði ef þrjú kerfi yrðu áfram í gangi en skást ef eitt þeirra yrði ofan á til þess að einfalda málið og gera komandi myndbandabyltingu skilvirkari og hagkvæmari. 

Af þessum þremur kerfum, sem komin voru fram og deilt var um, nutu tvö mestrar hylli á ráðstefnunni, og var annað þeirra Beta-spólurnar.

En hið þriðja, VHS, átti undir högg að sækja hjá mestu sérfræðingunum, sem sögðu nauðsynlegt að kveða það í kútinn vegna skorts á gæðum, sem myndu hefna sín ef það yrði sigursælt.

Undir lok umræðunnar þennan dag þar sem hver höndin var upp a móti annarri, bað íslenski fulltrúinn loks um orðið og sagði, að hann og sessunautur frá Asíu hans leggðu til, að umræðunni yrði frestað til morguns, en að þeir tveir myndu þá treysta sér til að leggja línurnar í þessu máli svo óyggjandi yrði eftir ítarlega og yfirvegaða rannsókn þeirra.

Var það samþykkt.

Morguninn efti sté Íslendingurinn í pontu og sagði að niðurstaðan væri fengin eftir gagngera athugun þeirra félaganna, og almenningur um heim allan gæti andað léttara: VHS myndi sigra.

Varð mikill kurr í salnum yfir þeim lyktum, svo miklu lélegra sem það kerfi væri en hin kerfin tvö, og var spurt, hvers vegna í ósköpunum þeir hefðu komist að svo slæmri niðurstöðu og hvað aðferð þeir hefðu notað.

"Það var afar einfalt", sagði Íslendingurinn. "Við fórum niður í Soho, skoðuðum okkur rækilega um á klámbúllunum langt fram á nótt og komumst að því að í þeim bransa hefur VHS algera yfirburði og að þar með er auðséð hvert stefnir. VHS mun sigra."

Felldu menn nú talið, en þetta reyndist rétt spá, því að VHS tók völdin á almenna markaðnum í framhaldi af þessu og réði lögum og lofum í tæpan aldarfjórðung eftir þetta, því miður. 

  


mbl.is Óttast að einkenni Soho hverfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Af sessunaut hann dró þar dám,
druslur vildu skoða,
í Soho bauð þeim Beta klám,
og bölvaðan óhroða.

Þorsteinn Briem, 2.2.2015 kl. 06:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband