Færsluflokkur: Bloggar
22.6.2014 | 17:00
HM litla mannsins.
Fram að þessu hefur það verið eitt af aðalsmerkjum HM í knattspyrnu hvað lið þjóða, sem ekki var spáð sérstöku gengi, hafa blandað sér hressilega inn í baráttuna, valdið miklum tiðindumog orðið til þess beint og óbeint að "stórlið" hafa farið hrakfarir..
Fyrirfram var búið að bóka helstu þjóðirnar sem myndu komast í undanúrslitin, stórveldi í knattspyrnunni á borð við Spánjverja, Ítali, Brasilíumenn, Argentínumenn, Þjóðverja, Frakka og Englendinga, - allt þjóðir sem höfðu hampað heimsmeistaratitlum.
Dæmin um óvænt úrslit eru of mörg til a vera talin upp, en bara í gær fengu Argentínumenn stig á silfurfati þar sem Íranir voru rændir vítsspyrnu og Þjóðverjar máttu þakka fyrir úrslitin í leiknum við Ghana.
"Litlu mennirnir", frá þjóðum sem hingað til hafa ekki verið í "stórveldaklúbbnum" í knattspyrnunni hafa sýnt fjör og leik- og baráttugleði sem hafa glatt heimsbyggðina.
Fagnið hjá Ghanabúum og gangan inn á völlinn í gær voru gott dæmi um HM litla mannsins.
![]() |
HM í beinni - sunnudagur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.6.2014 | 08:55
Hafði allt til að bera til að skera sig úr.
Michael Schumacher hafði svipaða hæfileika og sumir af allra fremstu og frægustu afreksmönnum heims, ekki aðeins það að skara fram úr á sínu sviði, heldur einnig það að ná þeirri stöðu að allir þekktu hann, engum var sama um hann og heil íþrótt hékk nánast á honum einum hvað snerti vinsældir og áhorf.
Hann var ekki aðeins dáður fyrir snilli sína heldur ekki síður fyrir það hve umdeildur hann gat verið og hve margir elskuðu að hata hann.
Að þessu leyti gegndi hann svipuðu hlutverki fyrir íþrótt sína og Muhammad Ali lék fyrir hnefaleikana.
Ástríða hans virtist eiga sé fá takmörk. Einu sinni sá ég stutt myndband af honum í góðgerðakeppni í knattspyrnu og einnig þar skar hann sig úr.
Hann vann sig upp úr nær engu, fyrst á gokart og meðal eigna hans er eldrauður gamall Fiat 500 sem hann þeysti á í blábyrjun ferils síns.
Skíðaíþróttin er að mörgu leyti mjög skyld bílaíþróttum og skiljanleg er sú nautn sem Schumacher hefur fengið út úr því að stunda hana.
Efast ég ekki um að hann hefur verið snjall á því sviði og haft unun af að reyna á þolmörkin.
En einnig þar láu slysahættan og óheppnin í leyni og hið ófyrirséða gerðist á einu augabragði.
![]() |
Stærsta áskorun heimsmeistarans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2014 | 22:46
Vægi vinstri og hægri stefnu enn sterk, en fara dofnandi.
Vinstri stefna hefur stundum verið kennd við það að vera einkum fylgjandi félagshyggju en hægri stefna að vra einkum fylgjandi markaðshyggju, þ. e. sósíalismi gegn kapítalisma.
Þetta kemur oft fram í því mismunandi skoðunum á því hvaða aðferðir menn vilji nota til þess að ná ákveðnum markmiðum, til dæmis hvort því sé betur náð með því að láta einkaframtakið um það eða með því að láta einstaklingsframtakið ná því.
Línurnar eru hins vegar alls ekki skýrar í öllum málum. Þannig hef ég bent á það að í ríki einkaframtaksins, Bandaríkjunum, hafa verðmætustu náttúrusvæði landsins verið í ríkiseign, en hér á landi er hins vegar allur gangur á því, samanber einkaeign á Kerinu, Dettifossi, Hverarönd, Leirhnjúki, Gjástykki o. s. frv.
Einnig er athyglisvert að í skoðankönnunum um Kárahnjúkamálið 2002 og um einn heilan þjóðgarð á miðhálendi Íslands hefur stærsti flokkspólitíski hópurinn hvað höfðatölu snertir verið þeir, sem jafnframt sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn.
Vægi vinstri og hægri stefnu eru að vísu enn sterk en fara dofnadi andspænis stærstu verkefnum 21. aldarinnar, svo sem hrikalegum umhverfis- og orkuvandamálum, sem eru einfaldlega svo stór að ekki er hægt að flokka þau undir hægri eða vinstri.
![]() |
Vinstri-hægri enn marktækt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.6.2014 | 17:09
Fimm milljarðar í tekjur og löggan græðir.
Það var ánægjuleg metúskrift frá Háskóla Íslands í dag með á þriðja þúsund útskrifuðum kandídötum fyrir troðfullri Laugardalshöll.
Meðal þeirra var Ómar Þór Óskarsson ( og Ninnu) dóttursonur okkar Helgu.
Kristín Ingólfsdóttir rektor upplýsti um það að skólinn aflaði að lágmarki fimm milljarða króna á ári hverju í formi erlendra styrkja og verkefna.
Einnig að það að skólinn hefur komist í tölu 300 bestu háskóla heims væri árangur sem væri hlutfallslega á við það sem 26 milljóna manna þjóð gæti vænst.
Lögreglan í Reykjavík mun græða vel á samkomuhaldi í Laugardalnum í dag, því að vegna hins mikla fjölmennis í Laugardalshöllunni í tvígang auk útitónleika rétt hjá og annarra viðburða var svo mikill mannfjöldi í dalnum að bílastæðin þraut og höfðu lögreglumenn í nógu að snúast við að ljósmynda bíla til að geta sektað eigendur þeirra.
![]() |
Skilgreinum hvar styrkurinn liggur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.6.2014 | 09:01
Happafengur fyrir Íslendinga.
Viðtöl við landsliðsþjálfarinn okkar í knattspyrnu, Lars Lagerback, eru ævinlega gefandi og upplýsandi.
Við Íslendingar höfum oft átt þeirri gæfu að fagna að góðir útlendingar hafi lagt okkur lið allt frá því er Rasmus Kristján Rask gerðist forgöngumaður um það að bjarga íslenskri tungu frá glötun og hefja uppbyggingu málsins okkar.
Áhrifamiklir og öflugir Danir voru í hópi þeirra sem stærstan þátt áttu í baráttunni fyrir því að við fengum handritin heim.
Meira að segja EFTA-dómstólinn lagði til röksemd fyrir úrskurði sínum í fyrra, sem Íslendingum sjálfum hafði ekki hugkvæmst að halda fram.
Lars Lagerback er slíkur happafengur fyrir okkur.
![]() |
Fótbolti er gerviviðburður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.6.2014 | 19:40
Taka einskonar "selfie" til að merkja minniskort.
Það hefur komið fyrir alla að týna minniskortum um lengri eða skemmri tíma. Þá er mjög bagalegt ef einhver finnur kortið og ómögulegt er að sjá hver á það svo að það kemst aldrei til skila.
Við þessu er eitt ráð: Í hvert skipti sem nýtt minniskort er tekið í notkun er afar fljótlegt að merkja það á þann hátt, að taka mynd af dagsetningunni og nafninu sínu.
Ef maður á minnisbók með nafni sínu fremst og tekur fyrst mynd af fremsta blaði með upplýsingum um sig og síðan mynd nr. 2 af vikunni í bókinni, sem minniskortið er tekið í notkun í, þarf ekki að gera meira.
Enn einfaldara er að skrifa nafnið sitt og dagsetningu á blað og taka af því mynd.
Eða taka mynd af dagblaði dagsins og skrifa nafnið sitt á það.
Síðan má drita inn einni og einni mynd á stangli af viðkomandi viku og nafni sínu.
Þetta með vikuna kemur sér vel þegar verið er að átta sig á því hvenær myndirnar í kring voru teknar og leitað að myndum frá ákveðnum tímum og viðburðum.
![]() |
Þekkir þú manninn? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.6.2014 | 19:26
Það vantar svona mann í "reitaboltann."
"Reitaboltinn" svokallaði, sem Barcelona og fleiri stórlið hafa stundað með góðum árangri, gengur í gegnum sína mestu eldraun þessi misserin.
Ýmis spakmæli liggja að baki reitaboltanum og eitt þeirra er það, að "meðan andstæðingurinn er ekki með boltann, skorar hann ekki."
Þar með er það orðið keppikefli að halda boltanum í umferð hjá liði reitaboltans og komast í ótrúlegar prósentutölur hvað það varðar, jafnvel í 60 af 90 mínútum.
Þetta er svipað og var í handboltanum hér áður, þar sem sum lið komust upp með ógurlega langar sóknir sem höfðu svæfandi áhrif á andstæðingana og gáfu færi á að velja sér mjög gaumgæfilega úr þeim skotfærum sem buðust.
Þetta fyrirbrigði fékk verðskuldaða deyfingu með reglunni um lengd sókna og heimild til að dæma leiktafir.
Reitaboltinn, að allir leikmenn séu hlekkir í leikskipulagi sem gengur út á það að sem flestir séu "fríir" til að taka á móti boltanum og senda hann til samherja í næsta reit eða auðu svæði, gengur hins vegar ekki upp ef enginn leikmaður hefur hæfileikana til að leika á andstæðingana, splundra vörn þeirra og búa sér til marktækifæri til að skora.
Boltinn er gefinn á slikan mann til að klára spilið þegar vörn andstæðinganna er svo góð að enginn reitabolti dugar.
Þess vegna hefur Lionel Messi verið svo mikilvægur fyrir lið Barcelona, og þegar hann er ekki upp á sitt besta er liðið í vandræðum.
Neymar var ráðinn til liðsins til að tvíefla ógnunina og geta tekið við hlutverki Messis, en er enn kornungur og hefur ekki náð hámarki getu sinnar.
Hann sýndi það hins vegar í fyrsta leik Brassanna að hann getur skorað mark af nákvæmnissnilld upp á eigin spýtur.
Luis Suárez er greinilega maðurinn sem Barcelona vantar og með sama áframhaldi verður hann hugsanlega dýrasti leikmaður heims.
![]() |
Fer Suárez til Barcelona? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.6.2014 | 23:04
Hjartaáfall við moldunina.
Líf og dauði fara sínu fram, hvar sem er og hvenær sem er ef því er að skipta.
Við jarðarfarir er aðeins einn sem er "í jarðarför", þ. e. líkið. Allir aðrir eru viðstaddir jarðarför og ætla mætti að þessi hlutverkaskipti væru nokkuð örugg.
Faðir minn heitinn mælti þó stundum: Enginn veit hver annan grefur."
Fyrir nokkrum árum var ég viðstaddur jarðarför jafnaldra míns og æskuvinar, Davíðs Helgasonar, sem hafði morgun einn hnigið örendur fram á morgunverðarborðið í hjartaáfalli.
Þegar presturinn bjóst til að molda hinn látna í jarðarförinni, varð heilmikið uppistand á fremsta bekk. Þar hneig einn kirkjugesta niður í hjartaáfalli.
Moldunin var stöðvuð og við tók hlé á athöfninni á meðan hlúð var að hinum sjúka og beðið eftir að sjúkralið kæmi til að flytja hann brott.
Ég hugsaði með mér: Maður er hvergi óhultur, ekki einu sinni sem kirkjugestur í jarðarför. Og mér varð líka hugsað til þess, þegar ég var eitt sinn hætt kominn á hvolfi ofan í ískaldri á um nótt í febrúar þegar ísskör brotnaði undan bíl mínum, alveg óvænt, og bílbelti bjargaði mér á aðeins eins kílómetra hraða.
Mér komu orð föður míns í hug og til varð staka sem eftir tvær aðrar jarðarfarir vina minna, Bessa Bjarnasonar og Flosa Ólafssonar, varð að miðhluta í eftirfarandi sálmi, sem ég gerði síðan lag við:
LJÚFUR DROTTINN LÍFIÐ GEFUR.
Ljúfur Drottinn lífið gefur, -
líka misjöfn kjör
og í sinni hendi hefur
happ á tæpri skör.
Feigðin grimm um fjörið krefur.
Fátt er oft um svör.
Enginn veit hver annan grefur.
Örlög ráða för.
En ég veit að orðstír lifir,
ást og kærleiksþel.
Sá, sem ræður öllu yfir
æ mun stjórna vel.
Vítt um geim um lífsins lendur
lofuð séu´hans verk.
Felum okkur í hans hendur
æðrulaus og sterk.
![]() |
Lést fyrir utan kirkjugarðinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.6.2014 | 22:26
Samúð með "sárhnjáðum" Ronaldo.
Það þarf ekki annað en að virða Cristiano Ronaldo fyrir sér í kyrrstöðu til að sjá það þar fer íþróttamaður með mikinn metnað og ástríðu.
Enn betur sést þetta þegar kappinn tekur sína frægu spretti og sannar af hverju hann var valinn besti knattspyrnumaður heims síðast þegar það val fór fram.
Til er myndband af honum þegar hann etur kappi við afbragðs spretthlaupara í stuttum spretti, sem hefur að vísu betur á beinum spretti, en liggur alveg eftir ef hlaupið er í krókaleiðum um stangir líkt í í svigi á skíðum. Þá hefur Ronaldo yfirburði.
Hraðinn á boltanum í aukaspyrnu Ronaldus þegar hann kemur að markinu í illútreiknanlegum sveig mælist vera 130 km/klst.
En engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn og einn af þessum hlekkjum eru hnén.
Mjög er misjafnt hve vel þau endast og hnémeiðsl eru oft ólæknanleg.
Maðurinn var einfaldlega ekki skapaður til að hlaupa á sléttu og hörðu undirlagi tímunum saman og með miklu álagi.
Ég hef farið í þrjá uppskurði á hnjánum, einn öðrum megin og tvo hinum megin og þekki þetta nokkuð vel.
Læknirinn sagði mér að hrén væru ekki sköpuð fyrir þá meðferð sem þau hefðu fengið af minni hálfu allt frá unga aldri og gæti ég því sjálfum mér um kennt.
Einkum hefði það hefði verið ótrúleg heimska hjá mér að spila innanhússfótbolta með félögum mínum hjá Sjónvarpinu á steingólfi í KR-húsinu árum saman.
Og enn meiri heimska fyrir það sem Framara að leyfa steingólfi erkifjendanna að leika hnén svona illa!
65 ára höfðu hnén fengið nóg eftir síðasta 100 metra sprettinn á 15 sek og knattspyrnuleik í Eyjum daginn eftir og læknirinn skar mig upp í þriðja sinn og bannaði mér að hlaupa framar.
En hann bannaði mér ekki að læðast hratt, sem ég hef fært yfir í það að hlaupa upp stiga í kapp við klukku, enda ekki verri hreyfing fyrir hén en það að þau hanga ennþá, en þó oft afar aum.
Til þess að þola eymslin betur hef ég leitað að einhverju jákvæðu og fann nýyrðið "sárhnjáður" yfir þessi eymsli. Þegar eymslin eru hvað sárust nægir að segja þetta orð upphátt og það eitt kemur fram brosi og minnkar eymslin.
Ónýt hné eru auðvitað smámál fyrir gamlingja eins og mig miðað við það hvers konar stór-stórmál slíkt er fyrir mann eins og Ronaldo sem hefur hengt alla sína hagi og tilveru á þau.
Ég get því ekki annað en haft djúpa samúð með "sárhnjáðum" Ronaldo, vona að hann komist í gegnum þessa eldraun á HM og skil hann vel að reyna að komast framhjá banni læknis síns.
![]() |
Ronaldo tekur mikla áhættu ef hann spilar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.6.2014 | 19:15
Svona lagað sést hvergi nema hér.
Rétt eins og Yellowstone þjóðgarðurinn í Bandaríkjunum og helstu þjóðgarðasvæði þar í landi og víðar ættu þekktust jarðvarmasvæði landsins og náttúruperlur að vera í eigu þjóðarinnar.
Eftir 14 ár verður liðin öld frá því að Þingvellir voru lýstir þjóðareign sem aldrei mætti selja né veðsetja og voru þeir sem að því stóðu langt á undan sinni samtíð, bæði hvað snertir eignarhaldið og ekki síður eðli þess, varðandi það að þetta væri ekki eign sem mætti selja né veðsetja.
Hvergi í öðrum löndum sé maður það, að fyrst taki landeigendur sig til og byrji að rukka um aðgangseyri áður en sjá megi að fénu hafi verið varið í það sem sagt er að verja eigi því í.
Þvert á móti fá gestir strax í hendur vandaða bæklinga um náttúruverðmætin og umgengni við þau og sjá alls staðar í mannvirkjum og þjónustu að þetta eru sanngjörn viðskipti, þjónusta ðg aðstaða gegn greiðslu.
Ýmislegt í okkar þjóðfélagi ber enn keim af lénsskipulagi miðalda, bæði hvað varðar réttindi landeigenda og einnig hlunnindin sem Kastljós upplýsti nýlega um að margir prestar landsins njóti án þess að hafa nokkuð til þess unnið.
Ég bryddaði upp á umræðu um þessi mál hjá stjórnlagaráði en augljóst var að miðað við þau miklu úrlausnarefni sem ráðinu var ætlað að leysa úr á örfáum mánuðum yrði ekki tími til að ræða þau, brjóta til mergjar og skila tillögum um breytingar og útfærslur þeirra, því miður.
![]() |
Skora á landeigendur að rukka ekki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)