Færsluflokkur: Bloggar
29.5.2014 | 09:31
Everest, Ásbyrgi - Skógafoss.
Everest, hæsta fjall heim, gnæfir enn upp í himinhvolfið með ósnerta útsýn til sín úr öllum áttum. Engum hefur enn dottið í hug, enda ekki framkvæmanlegt, að setja í alla dali umhverfis fjallið svo risastór og viðfeðm hótel, að engin leið verði að eiga leið að fjallinu eða framhjá því til að fá útsýn til þess ótruflaða, nema að sjá hótelið fyrst og helst að kaupa sér herbergi í því til að njóta útsýnis til fjallsins.
Frá norðausturhorni Íslands suður til Vatnajökuls og þaðan ótruflað í suðvestur til Suðurjökla og niður á sandana sunnan við þau liggur ósnortin og einstæð náttúra Íslands, eitt af örfáum helstu undrum veraldar.
Inni í þessi svæði er keðja ótal náttúruundra, allt frá Ásbyrgi, Jökulsárgljúfri og Dettifossi í norðri, um Herðubreið, Öskju, Kverkfjöll, Vatnajökul, Grímsvötn, Lakagíga og Fjallabak yfir Mýrdalsjökuls niður um Skógafoss.
Nú er búið að ákveða að í stað þess að ferðafólk sem fer framhjá Skógafossi og sér hann ótruflaðan af mannvirkjum frá hringveginum skuli hér eftir sæta því að í forgrunni á þeim örstutta kafla, þar sem fossinn blasir beint við, skuli rísa stærðar hótel með tilheyrandi þyrpingu af byggingum, sem byrgja muni sýn til fossins.
Það er til þess að besta útsýnið til fossins verði í höndum hinna útvöldu, sem geta keypt sér gistingu í þessu hóteli.
Nefna má marga hliðstæða staði í heiminum, þar sem mönnum dettur ekki svona lagað í hug.
En á Íslandi er þetta gert. Nú er að rísa hár turn við Frakkastíg í Reykjavík sem eyðileggja á allt útsýni hundraða þúsunda heimamanna og ferðamanna, sem hafa getað horft niður stíginn með óhindrað útsýni yfir Kollafjörð og Esjuna.
Íbúðir hinna útvöldu í turninum, sem munu troða sér með búsetu þar fram fyrir almúgann til að njóta þess útsýnis, sem rænt var af honum, munu seljast á margra milljóna hærra verði hver, turneigendum til ágóða.
Ég er á leið austur á Hvolsvöll að hitta ferskt ungt fólk, sem ætlar í sérframboð vegna þess, að áformin við Skógafoss fyllti mælinn í huga þess varðandi eftirlátssemi við þá sem vilja troða sér fram fyrir almenning til að geta selt herbergi eða íbúðir á uppsprengdu verði.
Ég hlakka til að hitta þetta fólk þótt tilefnið sé dapurlegt.
![]() |
Fyrsti Færeyingurinn á toppi Everest |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.5.2014 | 21:52
65 ára gamalt trix og Framsókn með eina konu inni.
Trixið, sem virðist ætla að skila Framsókn konu inn í borgarstjórn, er gamalkunnugt og var fyrst reynt af þeim flokki í Alþingiskosningunum 1949. Þá hafði Framsókn aldrei verið neitt nálægt því að fá þingmann í Reykjavík en hugkvæmdist að gera tvennt í einu:
1. Bjóða fram vel menntaða konu, lögmann hvorki meira né minna, en það var afar sjaldgæft þá.
2. Keyra á eitt afmarkað einfalt mál sem myndi draga að sér alla athyglina í kosningunum í Reykjavík.
Rannveig Þorsteinsdóttir náði svo sannarlega athyglinni í Reykjavík í þessum kosningum og gerði það með því að yfirbjóða þá, sem gagnrýndu harðlega spillinguna sem ríkisstýrð skömmtun og höft höfðu innleitt.
Hún fór meira að segja létt með að taka upp miklu harðari afstöðu en kommarnir, sem voru þá í stjórnarandstöðu og gagnrýndu þáverandi ríkisstjórnarflokka harðlega. Hún réðist hreinlega á þá flokka sem stóðu lengst til hægri og þar með á sinn eigin flokk.
"Ég segi fjárplógsstarfseminni stríð á hendur!" hrópaði Rannveig. Já, hvorki meira né minna: Stríð !
Ég man vel eftir þessu, svo mikla athygli vakti það.
Hún var kosin á þing en fyrr en varði höfðu helstu fjárplógsöfl landsins ekki aðeins tekið upp það sem Rannveig sagðist vera á móti, heldur keyrðu þau spillinguna í nýjar hæðir næstu sex árin í tveimur ríkisstjórnum Sjalla og Framsóknar sem fengu nafnið Helmingarskiptastjórnirnar.
Kommissarar flokkanna skiptu eftirsóttustu gæðum, sem skömmtuð voru, bróðurlega á milli sín.
Einn af skólafélögum mínum hafði meira segja það sendilsstarf að fara á milli með skilaboð um skiptingu gæðanna, hvaða einkavinir Sjallanna fengju Packard eða Chrysler sem umbun fyrir góða flokksþjónustu og hverjir teldust minni spámenn og fengju bara amerískan eða jafnvel þýskan eða breskan Ford, Wolkswagen, Pobeda eða Moskwitch, - og hvaða einkavinir Framsóknarforystunnar fengju Buick og Oldsmobile en hverjir væri það smáir spámenn að þeir fengju aðeins Chevrolet, Opel eða Wauxhall.
Stríðsyfirlýsingar Rannveigar gufuðu auðvitað upp og hún hvarf gersamlega, bæði inni á þinginu og síðan af þingi.
Nú býður Framsókn fram konu, sem hefur fundið sér eitt afmarkað og einfalt mál, sem tekur alla athyglina í kosningabaráttunni. Og fer sennilega inn eins og Rannveig forðum daga og enn og aftur er málefnið þess eðlis, að það er á skjön við stefnu flokks hennar.
Hvort hún hverfur eftir kjörtímabilið er síðan önnur saga. En 65 ára gamalt trix virðist ætla að virka.
Í aðdraganda Alþingiskosninganna 2007 fann Frjálslyndi flokkurinn sér sama málefni og Framsókn nú í borgarstjórn og það dugði til að flokkurinn dytti ekki af þingi þá.
En eins og Rannveig datt hann af þingi fjórum síðar.
Ekkert er nýtt undir sólinni. Og gullfiskaminnið sér til þess að sömu trixin virka endalaust.
![]() |
Framsókn með einn mann í borginni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
28.5.2014 | 14:03
" Íslandi allt !" "Ungir menn með hreinar hugsanir."
Íslendingar áttu einu sinni stjórnmálaflokk þjóðernissinna sem fluttu skýran og vel orðaðan boðskap sinn í mæltu og rituðu máli, sem enn má fletta upp og skoða.
Ég saknaði þess því að Íslendingurinn í hópi þjóðernisflokksins "Sænskir demókratar" skyldi ekki í nýju myndskeiði frá flokknum, sem dreift er á netinu, nota herópið "Íslandi allt" sem bergmálaði hér á landi fyrir tæpum 80 árum hjá mönnum, sem gátu að vísu ekki dreift myndskeiðum en hins vegar prentað skorinort málgagn sitt og vakið athygli á málstað sínum og fagnaðarboðskap með því að marséra um götur Reykjavíkur.
Þeim var lýst þannig í einu dagblaðanna, að þeir væru "Ungir menn með hreinar hugsanir" og þeim fannst það vafalaust sjálfum þá að þeir væru það.
Ekkert er nýtt undir sólinni og vafalaust er bæði fróðlegt og gagnlegt að bera saman boðskapinn, sem nú fer sem eldur í sinu um mörg lönd Evrópu, við boðskapinn sem fluttur var og orðaður á svo snjallan hátt fyrir 80 árum.
![]() |
Evrópa tilheyrir okkur" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
28.5.2014 | 10:56
"Hekluskarðið" hagkvæmt. Brýn nauðsyn á heildaráætlun.
Þegar horft er í norðaustur frá Landssveit og Rangárvöllum, sést í gegnum skarð, sem liggur milli Búrfells að vestanverðu og Heklu og Bjólfells að austanverðu.
Skarðið, sem stundum er kallað Hekluskarð, er opið í beina stefnu norðan frá Þingeyjarsýslu og Sprengisandi og á sér framhald á milli Hofsjökuls og Tungnafellsjökuls.
Um það liggur mjög oft sterkur, kaldur og hvimleiður vindstrengur í norðaustanátt, sem hingað til hefur dregið það mikið niður meðalhitann í sveitunum fyrir suðvestan það að þar er ekki hæstur meðalhiti á landinu í júlí, heldur er sá hlýjasti staður landsins Elliðaárstöð í Reykjavík.
Annar vindstrengur gengur oft þarna í gegn, í nyrsta hluta Hekluskarðs og norðan við það, en það er hin algenga austan- og austsuðaustan átt sem kemur frá svæðinu sunnan Vatnajökuls og beljar um Fjallabaksleið nyrðri vestur yfir Þjórsárdal.
Í suðvestanátt liggur stöðugur vindstrengur í öfuga átt um Hekluskarð.
Þetta svæði er því kjörið fyrir þyrpingu af vindmyllum, ef aðeins er tekið tillit tið veðurfarsaðstæðna og alveg einstaklega vel fallið til þess að hámarka afköst af nýtingu vindorkunnar.
Víða erlendis, svo sem við strendur Jótlands og suðurstrendur Norðursjávar má sjá þyrpingar af vindmyllum, og einnig má sjá slíkar þyrpingar á vindasömum svæðum í austurhluta Kalíforníu.
Vindmyllur hafa að vísu mikil sjónræn áhrif en á móti kemur að þær eru afturkræfar, því að varanleg áhrif af þeim verða engin ef þær eru rifnar niður og fjarlægðar.
Furða er hve seint hefur gengið að skoða möguleikana á nýtingu vindorku hér á landi, sem er meiri en víðast annars staðar og mest á veturna þegar rennsli í ám er minnst.
Grundvallaratriði hlýtur þó að vera að fara út í altækar rannsóknir á því hvar er best að setja niður vindmylluþyrpingar og hvar eigi að forðast slíkt.
Vindmylluþyrping norðaustan Búrfells veldur mikilli sjónmengun en á móti kemur að á því svæði hefur þegar verið raskað miklu með virkjunum, stíflum, miðlunarlónum og háspennulínum, svo að vindmylluþyrping stingur ekki alveg eins mikið í stúf þar og víða annars staðar, þar sem verjast þarf ásókn í virkjanir með neikvæðum umhverfisáhrifum.
![]() |
Vilja reisa þyrpingu vindmylla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
27.5.2014 | 22:55
Tvísýnn eltingarleikur lyfjanna við bakteríurnar.
Þegar penesillin kom til sögunnar fyrir um 70 árum héldu menn, að nú væri hin endanlega vörn fundin gegn bakteríum og veirum. Og lengi vel virtist þessi bjartsýni vera raunhæf. Á tímabili leit allt út með rósrauðum blæ.
Þegar ég spurði eitt sinn Sæma rokk, hvað hefði verið svona sérstakt við þann tíma, sem við vorum upp á okkar besta, svaraði hann:
"Þetta var tímabil sem kemur aldrei aftur, - eftir syfilis og fyrir AIDS."
Á síðustu áratugum hefur hallast á ógæfuhlið vegna þess að myndast hafa bakteríur sem skapað hafa sér ónæmi gegn sýklalyfjum.
Þetta hefði ekki þurft að gerast ef sýklalyfin hefðu verið rétt notuð, þ. e. aðeins þegar brýn þörf var fyrir þau og síðan ávallt þannig, að kúrinn var kláraður þannig að það lægi óyggjandi fyrir að búið væri að uppræta sýkinguna gersamlega.
En því miður var hvorugs alltaf gætt, heldur óft verið að nota lyfin í tíma og ótíma og slegið slöku við að taka þau reglulega inn eða að drepa sýkinguna alveg alla.
Einna stórvirkastan þátt áttu langt leiddir eiturlyfjaneytendur í þessu með því að taka lyfin svo óreglulega inn að bakteríurnar,sem lifðu af, höfðu myndað með sér ónæmi gegn lyfjunum.
Síðustu árartugina hefur staðið yfir dramatískur eltingarleikur sýkla og lyfja. Til að drepa sífellt ónæmari og sterkari sýkla hefur þurft ný og öflugri sýklalyf.
Þegar sýkingin er mjög heiftarleg eiga læknir og sjúklingur oft ekki um neitt að velja: Annað hvort að nota sterkasta lyfið, þrátt fyrir hugsanlega heiftarlegar hliðarverkanir, eða að hætta á algeran ósigur fyrir sýkingunni með dauða sjúklings sem endalok.
Ég lenti í þessu fyrir sex árum, og venjuleg sýklalyf höfðu ekki minnstu áhrif á stórfellda og hraðvaxandi sýkingu í stóru graftarkýli í baki, sem náði á nokkrum sólarhringum frá hrygg út í síðu og stefndi í að sprengja lífhimnuna, en þá var leikurinn tapaður.
Eina lyfið, sem von var til að gæti drepið sýkinguna heitir Augmentin, en er svo sterkt, að í mörgum tilfellum gengur inntaka þess fram af lifrinni, framkallar svonefndan lifrarbrest sem veldur stíflugulu og ofsakláða, sem rænir sjúklinginn öllum svefni í minnst tvo til þrjá mánuði.
Engin deyfilyf er hægt að taka við við kláðanum og þjáningunum, vegna þess að lifrin virkar ekki, getur ekki unnið úr lyfjagjöfinni.
Engum mannni óska ég svo ills að ganga í gegnum svona helvíti en þakka fyrir, að það fannst þó lyf sem gat unnið á hinum skæðu sýklum og bjargað lífi mínu.
Því miður virðist þetta kapphlaup sífellt sterkari sýkla og sífellt sterkari lyfja ekki vera á enda, og því er framtíðin í þeim efnum og möguleikar læknanna tvísýnir.
Það lítur ekki vel út ef einu lyfin, sem geta drepið viðkomandi sýkla, er svo sterkt að það drepur líka sjúklinginn.
Samt verður að halda í vonina.
Þegar alnæmi kom fyrst fram, var það þess eðlis, að það sýndist gersamlega vonlaust að ráða neitt við það og lífslíkur sjúklinganna engar.
Það hefur breyst til skárri vegar þótt endanlegur sigur hafi að vísu ekki unnist.
En þó sýnist það vera kraftaverk hve langt læknavísindin hafa samt komist í baráttunni við þann skelfilega sjúkdóm.
![]() |
MÓSA berst aðallega með snertingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.5.2014 | 21:37
Vorið, fuglarnir og stúdentarnir.
Maí er sá mánuður ársins sem að meðaltali er með hæsta loftþrýstinginn hér á landi, minnsta vindinn og minnstu úrkomuna.
Í maí hefst "nóttlaus voraldar veröld" eins og skáldið lýsti sumrinu íslenska.
Í maí springur allt út og fuglarnir eru komnir til að gera sér hreiður og verpa og stúdentarnir að fljúga úr sínu námshreiðri unglingsáranna til æðra náms.
Í síðustu viku eignaðist ég nýjan vin, Spóa Spóason, sem heilsaði upp á mig úti á túni við Hvolsvöll fyrir fimm dögum og kom síðan aftur, betur, oftar og lengur til mín í dag, spígsporaði spekingslegur á svip í kringum FRÚna og gamla Cuore-bílinn, sem ég sat í við vinnu á tölvu.
Hann kom alveg upp að bílnum og við horfðumst jafnvel í augu í gegnum framrúðuna.
Hann var þarna á vappi í þær klukkustundir sem ég var þarna.
Það er staðreynd að margir fuglar laðast að flugvélum og er næsta umhverfi flestra flugvalla á Íslandi dæmi um það.
Kannski finnur Spói Spóason til einhverrar samkenndar með þeim, sem lyftir sér á málmvængjum til flugs, flýgur lengur eða skemur og sest aftur.
Að minnsta kosti finn ég til samkenndar með Spóa Spóasyni og er ákaflega glaður yfir því að hafa eignast svona náinn vin úti í náttúrunni í fyrsta sinn í 60 ár, eða allar götur síðan ég var strákur í sveit að Hvammi í Langadal.
Kannski þekkir Spói Spóason eða skynjar þann mannlega veruleika sem birtist í máltækinu að tvisvar verði gamall maður barn.
Að minnsta kosti fór um mig gamalkunnugur æskustraumur í dag í nærveru þessa skemmtilega fugls, sem nú verður náinn vinur minn í sumar ef Guð lofar. Þetta flaug mér í hug:
Lifna mýri og mói.
Minnir unaðslegt vorið á sig.
Spekingslegur spói
sprangar í kringum FRÚna og mig.
Ætla að reyna að setja nokkrar myndir að austan inn á facebook síðu mína, sem voru teknar í dag.
![]() |
Góðir kennarar kveikja áhuga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2014 | 15:19
Mannauðurinn í sveitunum.
Það hefur lengi loðað við íslenska bændur, að furðu margir innan þeirra raða hafa verið sjálfmenntaðir heimsborgarar, sem fylgdust jafnvel betur með heimsmálunum en háskólamenntað fólk erlendis.
Í bók minni, Manga með svartan vanga, segi ég frá Þorvaldi Péturssyni, "kotbónda" á Strjúgsstöðum í Langadal, sem ég kynntist fyrir 60 árum og reyndist vera allt annar maður en fátækleg kjör hans og útlit gáfu til kynna.
Þetta var ekki algengt fyrrum en miklu algengara en erlendis á sama tíma.
En nú er þetta orðið algengt.
Ég skrifa þennan pistil á túninu í landi Vestari-Garðsauka við Hvolsvöll. Skrifa hann um borð í TF-FRÚ en skýst líka yfir í gamla örbílinn minn til að sinna öðrum tölvu- og netverkum.
Svona er nú tækni nútímanst búin að opna fjarskipti og samskipti og eyða einangrun.
Bóndinn, Jón Logi Þorsteinsson, er ekki heima þessa dagana heldur hefur annríkt við að vera leiðsögumaður.
Í því starfi getur hann auðveldlega notað að minnsta kosti fjögur tungumál, sem hann talar reiprennandi, og ekki skortir þekkinguna fyrir ferðamennina, því Jón Logi er heimsborgari í hugsun og einhver fróðasti maður á mörgum ólíkum sviðum, sem ég þekki.
Yfir bústörfunum og barnahópnum þeirra unga vakir því kona hans, Kristín, sem er skráður lögmaður í símaskránni, þýsk að uppruna, en talar íslensku svo vel, að það er algerlega óaðfinnanlegt.
Hún er líka með meirapróf á rútu og sjálfsagt sitthvað fleira tiltækt til að sýsla við.
Þau hjónin reka bæði búskap á jörðinni en einnig gistiheimili og ferst allt vel úr hendi.
Unga fólkið, sem er að alast upp á landsbyggðinni, er vel menntað og snjallt.
Næsta fimmtudag mun ég líta við hjá hóp þeirra, sem ætlar í óháð framboð hér í sveitinni og vill nálgast sveitarstjórnarmálin, - en meira en 90% af viðfangsefnum þeirra eru þverpólitísk, - á nýjan og ferskan hátt, þar sem þau vilja brjótast út úr aldargömlum viðjum hinna hefðbundnu íslensku stjórnmálaflokka.
Ég er sannfærður um að mannauðurinn í dreifbýlinu eigi mikla möguleika til þess að bæta og bylta mörgu hér á landi og hlakka til að sjá hann taka til hendi og sjá hvað getur gerst.
![]() |
Systirin sló bræðrunum við |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.5.2014 | 07:27
"Áunnin fáfræði".
Einn af stærstu göllum svonefndrar lýðræðislegrar umræðu er sá, að hún er oft skelfilega yfirborðskennd og byggist á því að þeir, sem hæst láta og mest heyrist í, varpa fram stórum fullyrðingum, sem fela ýmist í sér stórfellda einföldun, bjögun á staðreyndum eða hvort tveggja.
Umræða um húsnæðismál hefur áður verið uppi fyrir borgarstjórnarkosningar í Reykjavík. 1958 varpaði Morgunblaðið, sem Bjarni Benediktsson ritstýrði, fram sprengju í umræðuna í formi svonnefndrar Gulu bókar, en í henni var að sögn blaðsins birt stefna vinstri flokkanna í borgarstjórn, þar sem stefna ætti að því að þvinga allra alþýðu inn í bæjarblokkir að sovéskri fyrirmynd og koma í veg fyrir að fólk gæti átt eigið húsnæði.
Svo fáir dagar voru til kosninganna að í krafti yfirburða sinna á blaðamarkaðnum tókst að gera þá mynd sem Mogginn dró upp að aðalatriði kosninganna. Nokkrar setningar og vangaveltur í Gulu bókinni sem var uppkast nefndar nokkurrar, sem enginn hafði áður heyrt um, urðu að stefnu minnihlutaflokkanna í borgarstjórn, hvernig sem þeir reyndu að berjast um á hæl og hnakka við að afneita því.
Ekki voru kosningarnar fyrr um garð gengnar en að Gula bókin hvarf jafn skjótt og hún hafði birst og hefur aldrei verið minnst orði á hana síðan. Þess vegna sagði ég í gamanvísunum "Bjargráðin" seinna sama ár um leit mína að Bjarna Ben:
"Ég leitaði að Bjarna Ben sem best veit hlutina
og sá hann fyrir utan sorpeyðingarstöðina, -
hann var að fara með gömlu góðu Gulu bókina"
Og uppskar hlátur, því að eftir á var öllum ljóst hvað hafði verið á seyði, snjallt kosingabragð, sem fólst í því að enginn tími gafst til málefnalegrar umræðu og fólk hafði hvorki tíma né nennu til að setja sig inn í málið. En trix Bjarna virkaði á kjördegi.
Nú eru húsnæðismálin aftur á dagskrá og upphrópanir á báða bóga. "Það á að troða öllum inn í sovéskar bæjarblokkir" er sagt um stefnu Samfylkingarinnar og um stefnu Sjálfstæðisflokksine er sagt: "Íhaldið vill að fólk verði á götunni".
Venjulegur kjósandi telur sig hvorki hafa tíma né nennu til að setja sig inn í flókin mál og í stað málefnalegrar og upplýstrar umræðu ríkir ástand sem ég upplifði þegar ég gafst upp á því árið 2006 að koma á framfæri staðreyndum og fróðleik varðandi virkjanamál.
Líkt og talað er um "áunna sykursýki" má lýsa þessu ástandi í hugum margra með hugtakinu "áunnin fáfræði," - fólk lokar augunum fyrir því sem því finnst vera óþægilegar staðreyndir, - vill ekki vita allt það sem það þyrfti að vita.
![]() |
Skortur á málefnalegum umræðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
26.5.2014 | 17:16
Hefur gerst áður í Evrópu.
Það er nokkuð langt síðan að í Evrópu hefur komið upp fylgi, sem efli flokka á jaðri hins ríkjandi pólitíska litrófs í krafti óánægju með ríkjandi ástand.
Nefna má nokkur dæmi um slíkar bylgjur svo sem fyrir rúmri öld þegar hreyfingar anarkista og sósíalista ruddu sér til rúms og stórir sósíaliskir flokkar urðu til.
Þessir flokkar komu að vísu umróti af stað með róttækni sinni, en kveikjan að fylgi þeirra var þó réttmæt gagnrýni á ríkjandi ástand.
Eftir Fyrri heimsstyrjöldina áttu flokkar sem aðhylltust borgaralegt lýðræði í vök að verjast og fóru sósíaldemókratar ekki varhluta af því.
Þeir voru sakaðir um það sem aflaga fór í þjóðfélögunum og þá veikleika, sem til dæmis hrjáði Weimar-lýðveldið í Þýskalandi, auk þess sem stórir gallar og ýmis óréttlát ákvæði Versalasamninganna voru vatn á myllu róttækra hægri flokka svo sem fasista á Ítalíu og Spáni og nasista í Þýskalandi.
Það væri einföldun að segja að það, hvernig hörð þjóðernishyggja og fasismi breiddust út um Evrópu, hafi eingöngu verið af hinu illa, því að þessar hreyfingar hefðu ekki náð þessari útbreiðslu ef þær hefðu ekki getað nærst á réttmætri óánægju með ýmsa hluti, sem lýðræðislegu flokkunum tókst ekki að færa til betri vegar.
Á fyrsta áratugnum eftir Seinni heimsstyrjöldina óx mjög fylgi kommúnista í Evrópu, ekki aðeins með valdbeitingu Sovétríkjanna í Austur-Evrópulöndunum, heldur urðu kommúnistar mjög öflugir í nokkrum löndum Vestur-Evrópu, svo sem í Grikklandi og Frakklandi, og á Ítalíu.
Ekki má gleyma því að hér á Íslandi varði Sameiningarflokki íslenskrar alþýðu, Sósíalistaflokkurinn, Stalín og kommúnismann í Austur-Evrópu í rúm tuttugu ár.
Mikið fylgi kommúnista á þessum árum þreifst aðallega vegna óánægju með bágborið ríkjandi ástand eftir eyðileggingu styrjaldarinnar.
Kommúnistar á Grikklandi voru barðir niður í borgarastyrjöld í striðslok með inngripi Breta, enda hafði Grikkland fallið þeim í hlut í samningi Stalíns og Churchills í Yalta.
Með Marshall-aðstoðinni tókst Bandaríkjamönnum að slá á óánægjuna í Vestur-Evrópu og lýðræði hélt velli nema á Spáni og í Portúgal fram eftir öldinni og komst á um tíma í Grikklandi.
Helsti munurinn á óánægjufylginu nú og á fyrstu árunum eftir stríð er sá að nú eru það þjóðernissinnaðir flokkar yst til hægri sem helst nærast á óánægju með ríkjandi ástand, en eftir stríð voru það flokkar lengst til vinstri.
Ástæðan er líklega sú, að nú er það langt síðan flokkar með þjóðernishyggju og alræði sem stefnu biðu skipbrot í heimsstyrjöld, að fælingarmáttur styrjaldarinnar gagnvart slíkum flokkum hefur fjarlægst, enda er ekki hægt að segja að þessir flokkar haldi fasisma eða einræði stíft fram, heldur frekar harðri þjóðernisstefnu með andófi gegn fjölmenningarstefnu og innflutningi útlendinga.
Hátimbrað kerfi ESB og stefna þess er ákjósanlegt skotmark þeirra sem vilja breytingar og leita að blóraböggli.
Rétt eins og á árunum fyrir Seinni heimsstyrjöldina er mikið og viðvarandi atvinnuleysi skaðvaldur, sem skapar gróðrastíu fyrir róttæka flokka til hægri.
Nasistar sökuðu sósíaldemókrata um að hafa valdið ósigrinum í Fyrri heimsstyrjöldinni, af því að það kom í þeirra hlut að standa að vopnahléi og óréttlátum friðarsamningum.
Það vill gleymast að skefjalaus gróðahyggja fjármálaaflanna, sem naut velvilja þeirra hægri manna, sem minnst taumhald vildu hafa á slíku, olli efnahagshruninu 2008 sem ekki sér enn fyrir endann á.
Það leiddi af sér ófarnað í Grikklandi og fleiri löndum í sunnanverðri Evrópu auk Írlands og Íslands sem höfðu tekið ástfóstri við hinn mikla átrúnað á ótakmarkaða möguleika fjármálakerfisins til að þenja sig út.
En nú reynist auðvelt að saka stefnu og tilvist ESB um vandamál nútímans, enda er óhjákvæmilegt fyrir sambandið að líta í eigin barm, enda valdhlutföllin á þingi þess orðin þess eðlis að ekki verður hjá því komist.
Fjórðungs fylgi róttækra þjóðernissinnaðra flokka í nokkrum löndum er merki um að umbóta sé þörf í stjórnmálum álfunnar.
![]() |
Margir vilja að Clegg segi af sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.5.2014 | 08:42
Þetta er satt hjá þeim öllum: Ólýsanleg tilfinning.
Maður fyllist stundum efa um að orð íþróttafólks um ólýsanlega tilfinningar segi nákvæmlega sannleikann um hugarstand þess í lok leikja, þar sem því hefur orðið ljóst að það standi uppi sem sigurvegarar.
Þetta getur virkað svolítið yfirdrifið í augum þess sem ekki hefur staðið í slíkum sporum svona eins og að viðkomandi íþróttamaður sé svolitið að ýkja.
Þetta kemur upp í hugann við lestur viðtals við Aron Pálmarsson í dag, vegna þess að ég veit af eigin reynslu að svona augnablik geta komið upp.
Þegar ég lít til baka yfir farinn æviveg efast ég stundum um hvort það hafi verið þess virði að taka 38 sinnum þátt í rallkeppni og eyða öllum þeim mikla tíma og peningum í það, sem gert var, - hvort ég hefði ekki átt að gera eitthvað þarfara en það.
En niðurstaðan verður ávallt sú að sjá ekki eftir neinu í því efni.
Hvers vegna?
Af því að tilfinningin í einu af þessum 38 tilvikum var ólýsanleg. Það var þegar við bræðurnir vorum á leiðinni frá Gunnarsholti til Reykjavíkur á Simca 1110 bíl okkar í lok fyrsta langa rallsins, sem haldið var á Íslandi og okkur varð ljóst að sigur okkar var í höfn nema eitthvað gersamlega ótrúlegt gerðist, vélarbilun á síðustu ferjuleiðinni til Reykjavíkur eða eitthvað slíkt.
Á ferlinum upplifðum við sigur í 18 skipti af þessum 38, en þetta eina skipti var algerlega sérstakt, af því að í safn minninganna bættist lífsreynsla, sem ég hefði ekki fyrir nokkurn mun vilja missa af, jafnvel þótt þetta hefði verið í eina skiptið sem okkur tókst það sem svona keppni snýst um.
Þessi tilfinning kom aldrei fyllilega aftur í þessum mæli við hliðstæð tækifæri í hin 17 skiptin, hvað þá í öll þau skiptið sem annað sætið varð hlutskipti okkar, og þetta eina skipti réttlætti allt það blóð, svita og tár, sem var óhjákvæmilegt að úthella í þau tíu ár, sem við kepptum saman í gegnum sætt og súrt.
Þetta virkar áreiðanlega hallærislega þegar ég segi þetta í augum þeirra, sem lesa það, en svona er það nú samt, og svipuð orð eru áreiðanlega sönn og rétt hjá öllum þeim, sem hafa upplifað svipað og sagt frá því opinberlega.
Rallið var afar lærdómsríkt og þroskandi, því að það er útilokað að taka þátt í því án þess að þurfa að sætta sig við mistök, ófarir og ósigra og reyna að læra af þeim og vinna úr þeim, - að geta stundum litið um öxl og séð, hvernig hægt hefði verið að komast hjá þeim mörgum og gera enn betur og fyllast þá jafnvel þeirri tilfinningu að sjá eftir því að hafa verið að standa í þessu.
En eftir standa ótal skemmtilegar sögur af atvikum og lífsreynslu, sem maður deilir með fjölda annarra og hefðu annars hefðu ekki orðið til; - gaman að skrá og setja á blað, og síðan aðalatriðið: Við undirbúninginn og keppninni í hverju þessara 38 ralla, kynntist maður landi sínu og fólki enn betur og á annan hátt en í venjulegum ferðalögum, auk þess sem mörgum leiðunum og slóðunum, sem keppt var á, hefði maður aldrei kynnst nema vegna þessarar þáttöku.
Og einnig það að átta sig á því hve dýrmætt er að þakka forsjóninni fyrir það lán að sleppa í gegnum þetta án stóráfalla og fá að gleðja sig við heildarútkomuna siðar meir.
Með því að upplifa landið á svona marga vegu í keppni, vinnu og í frístundum, gangandi, ríðandi, hljólandi, akandi og fljúgandi á öllum árstímum í öllum veðurskilyrðum, safnaðist í reynslusjóð sem reyndist mér ómetanlegur við að ljúka lífsstarfi mínu.
Það er bara þannig.
![]() |
Sá langsætasti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)