Færsluflokkur: Bloggar

Útsýnið metið á hundruð milljóna, - eða 0 krónur eftir aðstæðum.

Þegar um íbúðir í íbúðaturnum er að ræða er útsýni metið á tugi milljóna í hverri íbúð og þar með á milljarða alls í hverjum einstökum turni. "Þetta er Ísland í dag" eins og Jón Ársæll myndi orða það.  

Útsýnið felst í því að sjá vel yfir borgina líkt og gerist í mörgum öðrum háhýsum. Sé íbúðin hins vegar lítil, fábreytt og ódýr smíð, eru hins vegar dæmi um að útsýni hafi verið lítils eða jafnvel einskis metið.

Á árunum 1957-61 var ég félagi í byggingarsamvinnufélagi sem reisti háhýsið að Austurbrún 2. Flestir félagsmenn áttu lítinn pening og unnu á kvöldin og um helgar við byggingu hússins og tókst að eignast íbúð í því með vinnu sinni og vegna þess að þetta var langódýrasta hús landsins á hvern fermetra.

Ég vann við járnabindingar og kynntist því vel gerð hússins.  

 Í því voru eingöngu afar einfaldar 44 fermetra íbúðir, allar eins, nema að helmingur íbúðanna var "spegilmynd" hins helmings þeirra. Hönnun hússins var tær snilld, svo einföld, að ég gæti teiknað það á blað eftir minni enn þann dag í dag.

Dregið var um íbúðir 14. mars 1960 og ég dró íbúð á fimmtu hæð, en gat skipt á sléttu við mann sem dró íbúð á 12. hæð, sem var með útsýni yfir nær alla borgina eins og hún var þá. Í þessum skiptum var útsýnið ekki metið á krónu. Hjalladalur.Stapar

Ég hef stundum velt því fyrir mér, af hverju þetta var svona og hallast helst að því, að vegna þess að fyrir neðan blokkina var fínasta og dýrasta hverfið þá í borginni, sem fékk heitið "Snobhill", hafi útsýni úr svona aumingjalegum smáíbúðum lágt setts fólks ekki þótt neins virði ,iðað við útsýnið úr dýrustu og flottustu húsum landsins sem þó var lakara.

Þegar Kárahnjúkavirkjun var reist lá fyrir, að erlendis var byrjað að nota svonefnt "skilyrt verðmætamat" til að reyna að fá sem réttastan verðmiða á virkjanaframkvæmdir. Hjallad. Rauðaflúð

Við Helga fórum í sérstaka ferð til Sauda í Noregi þar sem slíku verðmætamati hefur verið beitt og töluðum við norskan prófessor, Staale Navrud, sem var sérfróður um þetta.

Í úrskurði umhverfisráðherra var því hins vegar hafnað að setja slíkan verðmiða á landið, sem fórnað var. Það var talið 0 krónu virði.

Þó var þar á ótal stöðum útsýni yfir einstæð náttúruverðmæti, sem hvergi var að sjá annars staðar í heiminum og ferðamenn hefðu getað dáðst að þeim, ef svæðið hefði verið sett á Heimsminjaskrá UNESCO og nýtt í samræmið við það.  Hjalladalur. Stuðlaberg

Ef eða þegar heimildamyndin "Örkin" verður sýnd mun hún sýna allmarga slíka útsýnisstaði, sem sumir lukust ekki upp fyrir mér fyrr en verið var að sökkva landinu í aur. (Lónið á eftir að fylllast upp af auri)

Á meðfyldjandi myndum má sjá svæði við svonefnda Stapa, sem voru fyrir innan Kárahnjúka.

Það var ekki fyrr en tveimur vikum fyrir upphafi drekkingar sem mér vitnaðist, að gljúfrið, sem áin rann þar í, hafði hún grafið á innan við öld og var í óða önn fyrir framan nefið á manni að búa til dýpra gljúfur, sem hefði orðið með eldrauðum gljúfurveggjum innst, hefði hún fengið að halda áfram snilldarverki sínu, sem hvað hraða og sköpunarkraft átti sér engan líka í veröldinni. Hjallad. Stapar

Á ekkert af þessu var minnst í mati á umhverfisáhrifum.

Ástæða þessara dæmalausu afkasta var sú, að Jökla var aurugasta vatnsfall veraldar.

Með tíu milljón tonnum af sverfandi auri á hverju sumri gat hún grafið mestan hluta Dimmugljúfra, dýpstu og mestu gljúfra landsins, á aðeins 700 árum.

Og búið til efni í sethjallamyndun í öllum dalnum, sem líka var einstæð en hefur nú verið sökkt.

Þessi fyrirbæri og mörg önnur voru metin á 0 krónur og einnig það útsýni, sem hægt var að hafa yfir þau. 

Þess má geta, að Stapasvæðið, sem þessar myndir eru frá, lá fyrir neðan 15 kílómetra langa "Fljótshlíð íslenska hálendisins", Hálsinn, sem Hálslón er kennt við, gróinni tveggja til fjögurra metra þykkum jarðvegi, og að alls 40 ferkílómetrum af grónu landi var sökkt í aur vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Það er mesta eyðing gróðurlendis í einni framkvæmd í sögu landsins. Næstum svo mikið af gróðurlendi fór undir Blöndulón og í fyrirhugaðri Hrafnabjargavirkjun verður svipað uppi á teningnum. Gagnstætt því sem hamrað er á og fólki talin trú um, er verið að sökkva gróðurvinjum í langflestum tilfellum en ekki sandi og urð, eins og talað er í síbylju um.

Hjalladalur. Stapar

Öll eiga fyrirbærin, sem fórnað er, það sammerkt að hafa ekki verið metin á svo mikið sem eina krónu.

En ein "penthouse"-íbúð á höfuðborgarsvæðinu getur verið virt á hálfan milljarð.

Íhugunarefni, - já og sorgarefni.       


mbl.is Fáránlega flott „penthouse“-íbúð í 108
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórt hlutverk í fjölmiðlun.

Hlutverk skopteiknara í fjölmiðlun getur verið meira og magnaðra en mörg orð, jafnvel þúsund orð eins og svo vitnað sé í frægt spakmæli.

Fyrsti íslenski teiknarinn sem teiknaði eitthvað af ráði minnir mig að hafi heitið Tryggvi Magnússon og átti blómaskeið sitt fyrir stríð.

Rétt fyrir stríðið kom hingað til lands tékkneskur skopteiknari að nafni Stefan Strobl og hafði áreiðanlega mikil áhrif, því að teikningar hans af þekktum Íslendingum vöktu mikla athygli.

En þá kom til sögunnar Halldór Pétursson sem átti sviðið næstu tvo áratugina og var aldeilis magnaður oft á tíðum. Ég minnist sérstaklega einnar ógleymanlegrar skopteikningar hans af Ólafi Thors og Gylfa Þ. Gíslasyni sem var mjög umdeild enda djörf í meira lagi og farið út á ystu nöf.

Halldór bar uppi skopblaðið Spegilinn sem er það skopblað sögu íslenskra blaða  sem lengst var gefið út og náði útbreiðslu og lífi að einhverju marki.

Þegar ég var í M.R. voru tveir slyngir skopteiknarar jafnaldrar mínir, þeir Kristján Thorlacius og Gunnar Eyþórsson, aldeils stórsnjallir teiknarar eins og Fauna 1960 ber með sér.

Ég sat við hliðina á Gunnari æskuvini mínum í busabekk, en þann vetur teiknaði hann kennarana aftur og aftur tíma eftir tíma af ástríðu þess, sem sækist eftir fullkomun. Þetta var upphaf á skopteikningaferli hans.

Og svo sannarlega náði hann nálægt fullkomnun oft á tíðum. Sem dæmi má nefna að þegar Fauna '60 var teiknuð, var hann beðinn um að skrumskæla ekki einn kennarann, sem var ákaflega viðkvæmur maður, svo viðkvæmur að það kom fyrir að hann felldi tár.

Gunnar lofaði að teikna hann sem næst því að það líktist ljósmynd af honum.

Hann stóð við þetta, en hafði svipinn á honum samt þannig, að það skein út úr alvöru andlitsins að hann væri við það að bresta í grát.

Myndin var svo góð, að allir sem sáu hana og þekktu til, skelltu upp úr, en þegar kennarinn sá hana sjálfur brast hann í grát !  

Þegar Sigmúnd kom til sögunnar 1964 var það á hárréttum tíma til þess að taka við af Halldóri Péturssyni og þegar teikningar hans urðu daglegar í Morgunblaðinu þýddi ekki lengur að reyna að gefa út sérstakt skopblað.

Frá 2008 hafa góðir teiknarar átt fína spretti í blöðunum og einstaka skopmyndir hafa verið hrein snilld.

Sem betur fer kemur oftast maður í manns stað og það er afar mikilvægt hvað snertir gerð góðra skopteikninga í blöðunum.  


mbl.is Fimmtíu ár frá fyrstu mynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algild lögmál frá vöggu til grafar.

Sum fyrirbrigði í lífinu lúta lögmálum, sem koma strax við sögunnar í barnæsku, jafnvel á fyrstu mánuðum lífsins. Sem dæmi má nefna grunnatriði þess hvað vekur hlægilegt og er fyndið. Það er að atriðiðið sem um ræðir feli í sér eitthvað óvænt.

Brandari, sem fyrirsjáanlegt er hvernig endar, er ónýtur.

Þekkt er fyrirbæri hjá ungabörnum varðandi viðbrögð við því að gera eitthvað sem kemur á óvart, hrópa: "Dahh!"  eða vera með snöggt afkáralegt látbragð. Barnið skellir upp úr, en ef of langt er gengið, getur það líka farið að gráta.

Ég minnist þess þegar ég var barn, hve oft ég bað föður minn um að segja stuttar skemmtisögur eins og söguna um Sigurði skólameistara á Akureyri og "axlabönd handa Óla."

Okkur finnst þetta barnalegt, en samt er það svo að stundum er endurtekningin atriði sem er ómissandi.

Í þáttunum um Colombo var fyrirfram vitað að nokkrum sinnum í hverjum þætti kom hann til baka til krimmans eftir að hafa nýgengið út úr dyrunum og krimminn átti ekki von á afturkomu hans svona strax eftir útgönguna.

En alltaf vildi maður sjá þetta gerast og eftir á að hyggja hefði maður orðið fyrir vonbrigðum ef þetta vörumerki þáttanna hefði vantað.

Kvennafar James Bond í hverri mynd og atriði tengd því voru og eru vörumerki þeirra mynda, sem ekki má vanta, því að þá er sú mynd ónýt.

Atriðin í myndaröðinni um Bleika pardusinn með samskiptum lögregluforingjans Clouseaos og Catos eða samskiptum hans og Dreyfusar voru fastur liður og nauðalík en án þeirra hefðu þessi vörumerki myndanna dregið stórlega úr gildi þeirra.

Strax í barnæsku þráum við að heyra sögur og sú þörf okkar endist út ævina. Að heyra eða sjá sögur er grundvallaratriði í lífi okkar sem við getum ekki verið án. Hugtakið "saga" fellur aldrei úr gildi.

Þegar maður kemur í strákofaþorp í afskekktu fjallaþorpi í Afríku, tekur kvikmyndir og sýnir börnunum, skemmta þau sér svo yndilega innilega og hlæja og skríkja þótt þau búi við ömurleg kjör og séu svöng og búi við ömurlegar aðstæður. Gildi hins óvænta og nýstárlega fellur heldur aldrei úr gildi í mannlífinu.    


mbl.is „Er ís kaldur?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samt er snjóþekja á landinu minni en venjulega.

Undanfarin misseri hefur verið breytt veðurfar víða á landinu frá því sem áður var.

Undanfarnar vikur og mánuðir hafa verið einstakar hvað það snertir að vikum saman eru aðeins austlægar og norðaustlægar áttir og sú vindátt hefur raunar verið nær einráð í meira en tvo mánuði.

Svo einhæft veðurfar er frekar sjaldgæft að vetrarlagi hér á landi.  

Á Austfjörðum og vestur á Vestur-Öræfi vestan Snæfells hefur verið meiri snjór en ég man eftir í þá tvo áratugi sem ég hef flogið um það svæði nánast alla mánuði ársins. Í fyrra og þó einkum í hitteðfyrra var miklu meiri snjór í Snæfelli og umhverfi þess en ég minnist að hafa séð í meira en 20 ár.

Og í fyrra var óvenju mikill snjór allt fram í maí vestur um Brúaröræfi og Dyngjufjöll en að mestu auð jörð  

Á hálendinu vestan Vatnajökuls hefur snjórinn hins vegar verið minni, en það gefur til minni úrkomu en venjulega og útskýrir kannski að einhverju leyti það að minna er í miðlunarlónum Landsvirkjunar síðustu vetur en áður, þótt loftslag hafi hlýnað.

Ef allt væri með felldu ætti hlýnandi veður og meiri bráð jökla en áður að auka vatnsmagn í jökulám landsins, en af einhverjum ástæðum er vatnsskortur í miðlunarlónunum að plaga Landsvirkjun.

Trausti Jónsson veðurfræðingur upplýsir á vefsíðusinni að snjóþekjan á landinu sé í heild minni en venjulega á þessum tíma og virðist það skjóta nokkuð skökku við, miðað við fréttir af fannfergi og lokuðum fjallvegum á Austfjörðum og á einstaka svæðum, svo sem í nágrenni Svartárkots.

En snjó getur verið mjög misskipt eins og sjá má glögglega í nágrenni Reykjavíkur, þar sem enn er hvít jörð að hluta beint austur af borginni um Hellisheiði og Mosfellsheiði en að miklu leyti auð jörð á láglendi í uppsveitum Suðurlands og frá Hvalfirði upp í Borgarfjörð.


mbl.is Lokaðir í firðinum í 50 daga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talað skýrt um málið?

Bjarni Benediktsson margítrekar þessa dagana að hann vilji berjast fyrir því að þjóðin komi sem oftast beint að ákvörðunum í mikilsverðum málum í þjóðaratkvæðagreiðslum.

Þau ummæli hans virðast eiga að útskýra það að hann gaf loforð fyrir kosningar um að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna um aðildarumsókn að ESB  á fyrri hluta kjörtímabilsins.

En þeir sem eru óánægðir með svik hans á því loforði segjast hafa greitt flokknum atkvæði í síðustu kosningum út á það loforð.

Nú segir maðurinn, sem er svona mikill baráttumaður fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum, að síðustu þingkosningar hafi í raun verið þjóðaratkvæðagreiðsla.

Og þá vaknar spurningin: Ef svo er, af hverju gaf hann loforð um sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður fyrir kosningar ef vitað var að þess þyrfti ekki eftir kosningar, en þá bentu allar skoðanakannaniar til þess að Sjallar og Framsókn færu í stjórn ?

Af hverju sagði hann ekki fyrir kosningar að slík þjóðaratkvæðagreiðsla yrði óþörf?

Af hverju segir hann að vilji þjóðarinnar sé skýr varðandi aðildina en ekki skýr þegar yfir 60% vilja ekki slíta aðildarviðræðum?

Af hverju ítrekar hann stöðugt að hann sé baráttumaður fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum en er samt í forystu flokks sem gerði allt sem mögulegt var á þingi til þess að koma í veg fyrir að ákvæðið í frumvarpi stjórnlagaráðs um þjóðaratkvæði fengi framgang?

Ég hélt að stjórnmál snerust um traust, traust á því að stjórnmálamenn komi hreint til dyranna. Og að stjórnmálamenn í lýðræðisþjóðfélagi legðu sig eftir því að vinna eftir því sem vilji fólksins stæði til.  

Afsakið, ég næ þessu ekki alveg.  


mbl.is „Vilji þjóðarinnar skýr“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um VW rúgbrauð, Fiat Multipla og Lloyd LT600 ?

Á mbl.is er frétt um það að Brubaker Box hafi verið fyrsti fjölnotabíllinn (minivan).

Þetta er hæpin fullyrðing. Volkswagen_Bus_(Hudson)[1]

Á sjötta áratugnum komu fram tvær bílgerðir, sem varla er hægt að flokka sem annað en "minivan" og ollu byltingu.

Það voru Volkswagen T1 (Transporter), sem seldur var bæði sem sendibíll og undir heitinu Microbus seða Smárúta, nefndur Rúgbrauð á Íslandi, -  og Fiat Multipla. fiat_600_multipla_2_55-601[1]

Báðir voru frambyggðir og tók Rúgbrauðið 9 manns í sæti þótt það væri aðeins 10 sentimetrum lengra en Bjallan, sem var með sömu driflínu og fjöðrun og Bjallan.

Ég minnist þess enn hve ég hreifst af þessum bílum þegar Hekla auglýsti þá í fyrsta sinn 1955. Rúgbrauðið var með deilingu í drifhjólunum sem gerði það að verkum að það var 5 sentimetrum hærra undir hann en er á hæstu jepplingum nútímans, og vegna þess að vélin var fyrir aftan drifhjólin að aftan var hann mjög duglegur upp brekkur og í snjó og ófærum. Renault Estafette

Einfaldleikinn, vélin og driflínan úr Bjöllunni og létt smíði gerði hann einstakan og það er 60 ára gamall draumur minn að eiga svona bíl, sem varð að tákni hippatímansi og neyddi GM og Ford til að framleiða Corvair Greenbrier og Ford Econoline á sjöunda áratugnum.  

Fiat Multipla var byggður á sama undirvagni og örbílinn Fiat 600 og var aðeins 3,54 metrar á lengd, 1,45 á breidd og 1,58 á hæð, en tók samt sex manns í sæti í þremur sætaröðum.

Upp úr 1960 kom Renault fram með Estafette sem var svipaður í laginu og VW Rúgbrauð en með vélina frammi í og framhjóladrifi. Dodge Caravan

Á Íslandi var hann kallaður Franskbrauð.

Estafette var í raun fyrirrennari nútíma "minivan" því að útfærslan á honum reyndist vera sú tilhögun sem síðar varð almenn í gerð svona bíla og hafði þann kost að gólfið fyrir aftan framhjól gat verið flatt alveg afturúr, en í Rúbrauðinu var stallur aftast ofan á vélinni.

Meira að segja urðu Volkswagen verksmiðjurnar að játast undir þessa tilhögun og færa vél og drif úr afturenda Rúgbrauðsins fram í þá minivan bíla sem VW hefur framleitt. Renault_Espace_1_en_France_azure[1]

Almennt er rætt um það að fyrstu nútíma "minivan" bílarnir hafi verið Dodge Caravan/Chrysler Voyager sem komu fram 1983 og Renault Espace, sem kom fram ári seinna, en þeir voru með vélina þversum frammi í og framhjóladrif, en Rúgbrauðið og Franskbrauðið og aðrir "minivan" bílar höfðu fram að því verið með vélar og driflínur langsum að aftan eða framan.

Þess má geta að á sjötta áratugnum, frá árinu 1953, var framleiddur í Vestur-Þýskalandi fjölnotabíllinn Lloyd LT 600 sem var afar svipaður nútíma fjölnotabílum í laginu, til dæmis Dodge Caravan. Lloyd_600_LT[1]

Hann var framdrifinn, að með vélina frammi í, tveggja strokka og loftkælda, en setið var fyrir aftan framhjólin á þessum bíl í þremur sætaröðum, í stað þess að í Rúgbrauði, Franskbrauði og Fiat Multipla voru fremstu sætin á milli framhjólanna og fætur þeirra, sem þar sátu, alveg frammi í nefi bílsins og dyrnar líka.

Þegar litið er á mynd af Lloyd LT 600, sést vel, að hann var 30 árum á undan samtíð sinni. Hann var boðinn i tveimur lengdum og hét sú lengri Kleinbus eða Smárúta. Lloyd_Kleinbus[1]

Rýmisnýtingin var frábær, sæti fyrir sex í bíl, sem var styttri og mjórri en Kia Picanto, Hyondai i10 og Volkswagen Up!/Skoda Citigo, og lengri gerðin bauð upp á 50 sentimetrum lengri bíl.

Lloyd LT600 er með öll aðalatriði nútíma fjölnotabíla, flatt gólf afturúr, vélin þversum frammi í og framhjóladrif. Volkswagen Multivan

Lítið á hinn vinsæla VW Multivan okkar tíma og berið hann saman við Lloyd LT600 og það sést hve langt á undan tímanum Kleinbus var.

Þess má geta að þegar Mini kom fram á sjónarsviðið 1959 voru framdrifnir bílar með þverstæðum tveggja strokka tvígengisvélum búnir að vera í framleiðslu í 17 ár.

En snilldin í Mini fólst í því að vélin í honum var vatnskæld fjórgengisvél, framm í.   

 

 


mbl.is Upprunalegi fjölnotabíllinn innblásinn af brimbrettalífsstíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvö nýyrði: "Afglæpavæðing" og "afglapavæðing".

Umræða um nýyrði, svonefnda afglæpavæðingu fíkniefna, er nú í gangi á sama tíma og deilt er um afglöp í stjórnmálum. Það kallar á annað nýyrði, samanber þessa vísu:  

 

Ofarlega mér er í sinni  /

afglæpavæðing, sem þarf að kanna, /

en enn meiri nauðsyne er að linni  /

afglapavæðingu stjórnmálanna.


mbl.is Þrennt var aðallega gagnrýnt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju var þetta mögulegt fyrir kosningar en ekki núna?

Þegar Bjarni Benediktsson og fleiri forsvarsmenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins gáfu þau loforð fyrir kosningar að þjóðin fengi örugglega að kjósa um það hvort aðildarviðræðum við ESB yrði haldið áfram tóku þeir sér orðið "ómöguleiki" aldrei í munn þegar þessi loforð voru gefin.

Samt sýndu allar skoðanakannanir fyrir þær kosningar að samstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var langlíklegasta útkoma kosninganna og partur af því var, að stór hluti kjósenda trúði þessum loforðum.

Bjarni virðist ekki skilja í hverra umboði hann er í ríkisstjórn, - talaði um það í fréttum Stöðvar 2 að hann yrði að hlýða landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins með því að lofa þjóðinnni ekki að kjósa um málið.

Ekki heyrðist múkk frá landsfundarfulltrúum um að loforð Bjarna um þjóðaratkvæðagreiðslu væru svik við landsfundinn þegar hann gaf þau. Sjallar voru ánægðir með að ná inn sem mestu fylgi þótt þeir hikuðu við að taka undir yfirboð Framsóknar um milljarðahundruðin sem detta myndu eins og lottóvinningur í hlut landsmanna ef þeir kysu þann flokk.  

Stundum telja stjórmálamenn sig verða að víkja frá samþykktum landsfundarfulltrúa sinna í stjórnarmyndunarviðræðum eftir kosningar.

En þetta mál er ekki af þeim toga, því að eftirgjöfin frá landsfundarsamþykktinni varðandi vísar þjóðaratkvæðagreiðslu var gefin fyrir kosningar öllum verðandi kjósendum flokksins.

Þessi loforð áttu mestan þátt í því að rétta fylgi flokksins aðeins við í lok kosningabaráttunnar og fleyta komandi stjórnarflokkum upp í 50,8% atkvæða og þar með inn í gamalkunnugt stjórnarmynstur aðdraganda Hrunsins.

Ef talsmenn núverandi stjórnarflokka hefðu sagt það strax fyrir kosningar að það yrði "ómögulegt" að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið færu þeir í stjórn, hefði það verið heiðarlegt og kjósendur hefðu vitað að hverju þeir gengju.

Þetta var ekki gert, heldur var ekki hikað við að lofa því sem nú er talið "ómögulegt" og Bjarni Benediktsson játar í Kastljósi með mildara orðalagi, "gat ekki staðið við."  

Mestu mótmæli á Austurvelli í þrjú ár, síðan í framhaldinu af Búsáhaldabyltingunni, er ekki tilviljun þótt þetta virðist gerast ansi snemma á kjörtímabilinu. Þetta mál núna virðist vera kornið, sem fyllir mælinn, þegar örfá "afrek" stjórnarinnar eru skoðuð:

Loforð um hundruð milljarða króna í ríkissjóð, sem teknar yrðu frá "hrægömmum og vogunarsjóðum. Ekki króna komin og bólar ekki á neinu.

Loforð um tafarlaust afnám verðtryggingar. Nei, málið er í nefnd.

Loforð um afléttingu gjaldeyrishaftanna, sem byrjað yrði á strax á árinu 2013. Ekkert bólar á því enn.

Loforð um lausn á málefnum þrotabúa bankanna. Ekkert sjáanlegt þar.

Margt fleira mætti nefna en þegar svik loforðanna um þjóðaratkvæðagreiðsluna bætast við er líkt og að stífla hafi brostið.

Eftir fjögur erfið ár við að rétta þjóðarskútuna við á strandstað og koma henni laskaðri á flot var þjóðin þyrst í að fá sem fyrst að baða sig í vellystingum í stíl ársins 2007 eða að minnsta kosti að öðlast betri tíð með blóm í haga.

Þess vegna trúði hún hverjum þeim fagurgala sem gat kveikt slíka drauma og er að uppgötva núna að hún var of auðtrúa.

 

 


mbl.is Fámennt orðið á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Voru ekki lengi að þessu.

Það var ástæða til þess að óttast það fyrir níu mánuðum að afturhvarf til stjórnarstefnu fyrri valdatíma núverandi stjórnarflokka kynni að leiða til uppnáms í þjóðfélaginu og annars Hruns innan nokkurra ára.

Hins vegar hefði fáa órað fyrir því að jafn stuttan tíma tæki að skapa að nýju það ástand að fólk fjölmennti á Austurvöll til að mótmæla því sem fer fram hjá stjórnvöldum, aðeins níu mánuðum siðar.

Það er umhugsunarefni.


mbl.is Mótmælin úr myndavél Mílu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri truflun í stjórnmálunum en hermálið.

Allt frá því er við Íslendingar gerðumst aðilar að EES hefur deilan um ESB valdið meiri truflun í íslenskum stjórnmálum en stærsta deilumálið fram að því, sem var hermálið.

Ástæðan er sú að skoðanakannanir sýna að allir flokkar eru meira eða minna klofnir í málinu og þessi klofningur hefur orðið flóknari og mótsagnkenndari þegar skoðaðar eru fylgistölur, annars vegar yfirgnæfandi meirihluti fyrir atkvæðagreiðslu um það hvort halda eigi viðræum við ESG áfram og hins vegar yfirgnæfandi meirihluti, sem er fráhverfur aðild að ESB, miðað við núverandi ástand.

Þetta kann að þykja mótsagnakennt en þarf ekki að vera það, því að það sýnir glöggt að fólk skynjar hverning deilurnar um þetta mál hafa eitrað íslensk stjórnmál æ meir.

Hinn mikla meirihluta fyrir því að klára viðræðurnar er ekki hægt að skýra öðruvísi en svo að þessi meirihluti, sem er þverpólitískur, vilji láta klára samningaviðræðunnar svo að hægt sé að taka afstöðu til hugsanlegs samnings, fá þannig almennilegan botn í málið og höggva með því á hnútinn, þannig að þetta riðli ekki flokkum og trufli stjórnmálalífið svo mjög sem raun hefur verið á.

Það yrði gert eins og í Noregi með þjóðaratkvæðagreiðslu um fyrirliggjandi aðildarsamning.

Málið virðist hins vegar flóknara hér en í nokkru öðru Evrópulandi þar sem sótt hefur verið um aðild, því að hvergi hefur þurft að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu sérstaklega um það að hefja aðildarviðræður.

Það er vegna þess að í Noregi og annars staðar var það nokkuð samhentur stjórnarmeirihluti á þingi sem stóð að umsókn, en vegna klofnsingsins og ruglingsins hér, hefur það ekki tekist.

Nú telja sumir að með því að hætta við aðildarumsóknina sé í raun verið að koma í veg fyrir það í mörg ár, kannski 10-15 ár, að hægt yrði að taka upp þráðinn á ný ef aðstæður kölluðu á það.

Og þar með mætti segja að búið sé að höggva á hnútinn.

En er það nú víst? Miðað við þann mikla meirihluta, sem hefur í öllum skoðanakönnum lýst yfir vilja til þess að greitt yrði þjóðaratkvæði um áframhald viðræðna eða að minnsta kosti um það að viðræðum yrði slegið á frest fram að næstu kosningum, er óvíst að öldurnar lægi.

Og ef þær lægir ekki sitjum við uppi með sömu sundrungina innan flokkakerfsins og hefur verið svo bagaleg og eitrað íslensk stjórnmál síðustu 20 ár.    


mbl.is Erfiðara fyrir Sjálfstæðisflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband